132. löggjafarþing — 12. fundur
 20. október 2005.
athugasemdir um störf þingsins.

Viðræður um framtíð varnarliðsins.

[10:33]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Samkvæmt fréttum í gærkvöldi og í morgun virðist hafa orðið alger uppstytta í fyrirhuguðum samningaviðræðum íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framtíð eða kannski á öllu heldur að segja ekki framtíð herstöðvarinnar í Keflavík. Málið blasir þannig við formanni bandarísku viðræðunefndarinnar að Íslendingarnir hafi einfaldlega hætt við að mæta á fundinn sem þeir voru þó komnir vestur um haf til að sækja. Þeir voru komnir til Washington svo ekki var það það að þeir kæmust ekki á fundinn, segir hann.

Í útvarpsviðtali í vikunni var utanríkisráðherra hins vegar bjartsýnn. Málið klárast nú e.t.v. ekki á þessum fundi, heyrði ég með mínum eigin eyrum utanríkisráðherra segja og bjóst hann þar greinilega við miklum árangri af fundinum.

Í fréttaflutningi af málinu kemur fram að ástæða fýluferðarinnar til Washington séu hugmyndir Bandaríkjamanna um kostnað sem séu allt aðrar og miklu hærri en þær sem Íslendingar hafi hugsað sér, óraunsæjar segir í Morgunblaðinu. Samkvæmt fréttum virðist hins vegar ekki hafa verið rætt um að þoturnar margfrægu, þessar fjórar, færu í burtu, þessar þotur sem íslensk stjórnvöld hafa hengt sig á að séu nauðsynlegar hér vegna loftvarna og þá er spurningin: Snerist þetta þá um peninga eftir allt saman en ekki loftvarnir? Eru íslensk stjórnvöld á hnjánum frammi fyrir bandarískum að biðja um áframhaldandi og mikil tilgangslaus hernaðarumsvif hér á landi peninganna vegna?

Og loks um framhaldið. Hvert verður það? Verður þá áfram óbreytt ástand, að óvissan hangi þarna yfir og samdrátturinn og ákvarðanirnar um fyrirkomulag mála í Keflavík ráðist alfarið af einhliða ákvörðunum Bandaríkjamanna? En þannig hefur það verið. Er kannski kominn tími til að íslensk stjórnvöld horfi í eigin barm og viðurkenni hversu arfavitlausa pólitík þau hafa rekið í þessum viðræðum, fyrir utan hvað hún er niðurlægjandi fyrir þjóðina?



[10:35]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það eru vissulega vonbrigði að viðræðunum sem fyrirhugaðar voru í Washington í þessari viku skyldi ekki miða meira áfram. Það var ekki haldinn formlegur samningafundur eins og til stóð heldur hittust formenn samninganefndanna og fóru yfir þau sjónarmið sem fram hafa komið og liggja fyrir af beggja hálfu í málinu. Ég hafði eins og hv. þingmaður rifjaði upp gert mér vonir um að hnika mætti þessu máli lengra og koma því í höfn áður en mjög langt um líður.

Það er auðvitað ekkert útilokað og ekki er hægt að tala um einhverja sérstaka uppstyttu í málinu. Framhaldið verður það að það verða fundir, ekki hefur verið ákveðið með hvaða hætti þeir verða eða hvenær. En aðalatriðið er að við höfum af Íslands hálfu lýst því yfir, eins og hefur margkomið fram af minni hálfu, að við erum tilbúnir að taka ríkari þátt í kostnaði við rekstur flugvallarins í Keflavík en verið hefur vegna þess að borgaraleg flugumferð hefur þar aukist mjög en hernaðarleg umferð minnkað. Þetta eru þær forsendur sem við viljum leggja til grundvallar. Bandaríkjamenn hafa önnur sjónarmið. Það er lengra bil á milli en við höfum gert ráð fyrir og þess vegna er niðurstaðan þessi sem hún er í bili.

Vonandi tekst að koma málinu aftur í þann jákvæða farveg sem ég taldi að það hefði verið í þannig að við getum lokið því og eytt allri óvissu á báða bóga fyrir alla hlutaðeigandi aðila eins og æskilegast er í málum sem þessum.



[10:37]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Þegar fréttir bárust um þróun viðræðna við bandarísk stjórnvöld um framtíð varnarsamningsins og varnarliðsins hér á landi bað ég strax um utandagskrárumræðu til að ræða þetta alvarlega mál og ég þykist nú vita að meiri tími gefist við þær umræður til að ræða þetta efnislega betur heldur en hægt er að gera hér á þeim stutta tíma sem ætlaður er. Ég vona þá að hæstv. utanríkisráðherra verði betur í stakk búinn til að svara þeim spurningum sem hafa vaknað í framhaldi af þeim fréttum sem við höfum heyrt.

Ég hef úr þessum stól oftar en einu sinni og oftar en tvisvar spurt þáverandi hæstv. utanríkisráðherra hvernig miði í viðræðum við Bandaríkjamenn og það síðasta sem ég vissi var að þetta væri komið í formlegan farveg, þetta væri komið á forræði utanríkisráðuneytisins og samningaviðræður væru hafnar. Því kom mér mjög á óvart þegar ég las í Morgunblaðinu í morgun haft eftir Alberti Jónssyni sendiherra eftirfarandi. Þar segir Albert, með leyfi forseta:

„Þetta er enn þá alveg á fyrstu stigum. Þetta er ekki komið á það stig að við getum talað um að efnislegar samningaviðræður séu hafnar.“

Nú er ég hættur að skilja. Svör úr þessum stól við spurningum um hvernig þessum málum miði hafa verið á þann veg að þetta sé í formlegu viðræðuferli, samningaviðræður eigi sér stað milli bandarískra stjórnvalda og íslenskra stjórnvalda um málið. Því hlýtur maður að spyrja þegar maður les svona lagað haft eftir þeim sem leiðir sendinefnd okkar vestur um haf, sem hættir síðan við að eiga fund með bandarískum stjórnvöldum, að samningaviðræður séu í raun ekki hafnar, hvort það sé raunin, hvort okkur hafi þá í raun ekki verið sagt satt úr þessum ræðustól að við ættum formlegar samningaviðræður við Bandaríkjamenn um framtíð varnarsamningsins og varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Ég held að það hljóti að vera mikilvægt að við fáum svar við þeirri spurningu hér.



[10:39]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Þau tíðindi sem nú berast vegna viðræðna íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framtíð varnarsamningsins ýta vissulega undir þá skoðun sumra að þar hafi meiri óvissa ríkt um langa hríð en íslensk stjórnvöld hafa verið viljug til að viðurkenna. Ég bjóst reyndar við því, frú forseti, strax og ég heyrði þessar fréttir að boð kæmu um að funda ætti í hv. utanríkismálanefnd og fjalla um þessi nýju tíðindi þar. Það boð hefur ekki borist en ég á von á að það berist okkur eigi síðar en strax í dag.

Það sem hið háa Alþingi og hv. þingmenn þurfa að fá að vita er hvort efnislegar og formlegar viðræður séu hafnar og ef svo er ekki, um hvað snúast þau samtöl sem hafa átt sér stað á milli formanna samninganefndanna og hvers vegna fer hin efnislega umræða ekki fram? Er það vegna þess að fulltrúar íslenskra stjórnvalda vilja ekki taka á efnisatriðum eða er það vegna þess að fulltrúar bandarískra stjórnvalda vilja það ekki? Af fréttum að dæma virðist svo vera að það séu fulltrúar íslenskra stjórnvalda sem treysti sér ekki til að taka á efnisatriðum þessara samningaviðræðna og þá er helst þar að nefna kostnaðinn. Er það þá þannig, frú forseti, að sá verðmiði sem settur hefur verið á kostnaðinn við að reka flugvöllinn sé einfaldlega svo hár að íslensk stjórnvöld treysti sér ekki til að reka hann?



[10:41]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir upplýsingarnar. Einnig er áhugavert að sjá að hæstv. forsætisráðherra er hér viðstaddur en kýs ekki að blanda sér í umræðuna enn sem komið er a.m.k. En sú var tíðin að forsætisráðherra ríkisstjórnar tók gjarnan yfir þennan málaflokk þegar mikið lá við, eins og menn muna þegar hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, tók málið að sér þegar það var komið að hans mati í nokkurn hnút hér á vordögum 2003 og fór með það nokkuð síðan. En kannski er aftur ný verkaskipting uppi að utanríkisráðherrann sé utanríkisráðherra í málinu og forsætisráðherra leiði það þá hjá sér.

Ég vil láta koma fram að ég óskaði einnig eftir því að utanríkismálanefnd fengi fund og fengi hæstv. utanríkisráðherra sem fyrst til viðtals til að fara yfir málið þar, eftir atvikum þá í trúnaði að því marki sem hæstv. utanríkisráðherra telur málið svo viðkvæmt að það megi ekki ræða það frammi fyrir alþjóð.

Ráðherrann ræddi fyrst og fremst um rekstrarkostnað flugvallarins í Keflavík. Er það mál ekki tiltölulega einfalt? Ef herinn fer þá rekum við Íslendingar auðvitað okkar millilandaflugvöll, og erum væntanlega menn til þess. Ég held að málið snúist um meira en það. Ég held að það snúist ekki um þann kostnað, enda er það auðvitað ekki ofverkið okkar að reka eitt stykki millilandaflugvöll. Málið snýst um að íslensk stjórnvöld eru að rembast við að reyna að halda í sem mest umsvif í herstöðinni í Keflavík að því er virðist fyrst og fremst peninganna vegna. Það er dapurlegt að standa frammi fyrir því og þegar aðstæður eru orðnar þær að Bandaríkjamenn vilja fara, að allir helstu sérfræðingar og fræðimenn á þessu sviði segja: Þróunin er í þessa átt. Hefðbundnar gamaldags herstöðvar Bandaríkjamanna í Vestur-Evrópu eru allar að hverfa nema með örfáum undantekningum þar sem stöðvar eru í algeru lykilhlutverki eins og Ramstein, þá eru það íslensk stjórnvöld sem eru á hnjánum til að biðja um þessi tilgangslausu hernaðarumsvif hér. Þvílíkt endemi. Dapurlega ætlar þessari sögu hernámsins að ljúka.



[10:44]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er eins og endranær að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er við sitt gamla heygarðshorn í varnar- og öryggismálunum. Það er enginn maður á hnjánum í þessu máli, hv. þingmaður. Það eru hér tvö fullvalda ríki að reyna að leita lausna á grundvelli samnings sem gerður var árið 1951 um varnir Íslands og viðræður um þetta hafa átt sér stað allnokkra hríð. Gerðar voru tilteknar bókanir um þessi mál 1994 og 1996 og það hefur verið ætlunin að halda þessu ferli áfram og komast að niðurstöðu um þau atriði sem hafa verið í óvissu. Hins vegar liggur ekki fyrir, og það er skýringin á því af hverju efnislegar samningaviðræður eru ekki hafnar, nákvæmlega á hvaða grunni þær eiga að vera og um það eru mismunandi sjónarmið. Það liggur fyrir af okkar hálfu það sem ég sagði áðan varðandi kostnaðarskiptinguna og gagnaðilinn hefur síðan sín sjónarmið. Þegar menn hafa ætlað að koma sér saman um þau atriði nákvæmlega hvað þeir ætla að semja um, þá er hægt að setjast niður og vinna frekar í málinu. Ég geri mér sem sagt vonir um að málið komist á þetta stig áður en mjög langt um líður án þess þó að ég geti um það fullyrt.