132. löggjafarþing — 13. fundur
 20. október 2005.
fjarskiptasjóður, 1. umræða.
stjfrv., 191. mál. — Þskj. 191.

[15:01]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um fjarskiptasjóð. Frumvarpið er lagt fram í framhaldi af frumvarpi til laga um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf., sem liggur fyrir virðulegu Alþingi, og tekur hliðsjón af því. Með þessu frumvarpi er lagt til að stofnaður verði sérstakur sjóður til að fjármagna framkvæmdir á sviði fjarskiptamála í samræmi við þingsályktun um fjarskiptaáætlun. Í frumvarpinu er einnig kveðið á um stjórn og skipulag sjóðsins. Með þessu er styrkari stoðum rennt undir ályktun Alþingis um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010 sem ég lagði fram á hinu háa Alþingi síðasta vor og var samþykkt 11. maí sl.

Í þeirri þingsályktunartillögu og þeirri þingsályktun er sett fram stefna stjórnvalda í fjarskiptamálum til ársins 2010, eins og fyrr segir, og lagður grunnur að aðkomu þeirra að grunnþáttum upplýsingasamfélagsins til næstu ára. Samhliða samþykkt fjarskiptaáætlunar samþykkti Alþingi breytingar á fjarskiptalögum sem lögfesta gerð fjarskiptaáætlunar og reglulega endurskoðun hennar í ljósi þróunar og breyttra aðstæðna á hverjum tíma. Eins og þekkt er er þróunin á sviði fjarskipta geysilega hröð og mikilvægt að horfa til allra átta þegar verið er að fjalla um þau málefni og þátttöku og þátt stjórnvalda í þeim.

Meginmarkmið með stofnun sjóðsins er að koma skipulagi á fjármögnun ríkisins og aðkomu þess að uppbyggingu fjarskipta í landinu. Miðað er við að fjarskiptasjóður taki þátt í kostnaði við verkefni fjarskiptaáætlunar sem ætla má að ekki verði ráðist í á markaðslegum forsendum. Þau snúa einkum að uppbyggingu stofnkerfa fjarskipta, stuðla að öryggi fjarskipta í landinu og samkeppnishæfni þjóðarinnar.

Einkum er lögð áhersla á að sjóðurinn fjármagni uppbyggingu GSM-senda á hringveginum, helstu stofnvegum og á fjölförnum ferðamannastöðum. Einnig er miðað við að sjóðurinn taki þátt í kostnaði við dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött með stórbætta þjónustu fyrir sjófarendur að meginleiðarljósi.

Loks er gert ráð fyrir að sjóðurinn taki þátt í kostnaði við uppbyggingu á háhraðatengingum á þeim svæðum sem ætla má að ekki verði þjónað á markaðslegum forsendum. Ekki er gert ráð fyrir að um verði að ræða beina ráðstöfun fjár til einstaklinga eða einstaklingsbundinna verkefna. Gert er ráð fyrir að þátttaka sjóðsins í einstökum verkefnum uppfylli öll skilyrði um gagnsæi og hlutlægni og að farið verði að ákvæðum fjarskiptalaga um útboð verkefna. Þá verði í samræmi við heimildir laganna miðað við að Póst- og fjarskiptastofnun sjái um framkvæmd útboða, samningsgerð og eftirlit með þeim.

Samgönguráðherra skipar fimm menn í stjórn fjarskiptasjóðs til þriggja ára í senn. Stjórn sjóðsins er jafnframt verkefnisstjórn sem hefur yfirumsjón með framkvæmd fjarskiptaáætlunar, auk þess sem tilnefndir verða tengiliðir frá stofnunum eða öðrum ráðuneytum vegna framkvæmda einstakra verkefna sem undir þau heyra. Þá er í frumvarpinu mælt fyrir um að stjórn sjóðsins skili skýrslu um starfsemi sjóðsins til samgönguráðherra sem leggur hana fyrir Alþingi. Frumvarpið gerir ráð fyrir að sjóðurinn heyri stjórnskipulega undir samgönguráðuneytið.

Ríkissjóður leggur sjóðnum til stofnfé að fjárhæð 2.500 millj. kr., samanber framangreint frumvarp um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Stjórn sjóðsins ákveður greiðslu fjárins til einstakra verkefna í samræmi við fjarskiptaáætlun og ákvæði fjarskiptalaga.

Eins og kemur fram í gildistökuákvæðinu er sjóðnum markaður tími til ársloka 2011. Gert er ráð fyrir að fyrir þann tíma muni liggja fyrir reynsla af verkefnum sjóðsins og þörf fyrir sjóðinn, endurskoðuð með hliðsjón af henni.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.



[15:06]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hér er hæstv. samgönguráðherra að mæla fyrir frumvarpi til laga um fjarskiptasjóð. Það hefði verið óþarfi ef þjóðin hefði áfram átt Landssímann og getað beitt honum til þess að koma á öflugu fjarskiptakerfi um allt land, en ríkisstjórnin velur að einkavæða fjarskiptin og síðan að reyna að bæta í götin sem koma.

Ég leyfi mér að spyrja ráðherra: Hvers vegna er þessu fjármagni ekki hreinlega deilt út á fjárlögum og þá í samræmi við fjarskiptaáætlun eins og hún liggur fyrir, hliðstætt því sem gert er með fjármagn til vegamála þó að vegamál séu náttúrlega alfarið í höndum ríkisins. Engu að síður ætlar ríkið þarna að fara að axla ábyrgð á fjarskiptaþjónustu sem ekki er talin arðbær. Ég vil því spyrja ráðherra hvort það hefði ekki verið miklu skynsamlegra að setja þetta með beinum hætti inn í gegnum fjárlögin en sleppa því að vera að búa til apparat eins og þennan fjarskiptasjóð, sem mun náttúrlega bara lengja á stjórnsýslunni og taka til sín eigið fé.

Í öðru lagi langar mig til að spyrja ráðherrann að því hvernig á að draga mörkin á milli þeirrar þjónustu sem er arðbær og þeirrar þjónustu sem er óarðbær og hvernig ætlar þá þessi sjóður að ákvarða hvenær hann kemur inn og hvenær hann ekki kemur inn? Síminn eða önnur fjarskiptafyrirtæki munu náttúrlega setja hámaksarðsemiskröfu á alla sína starfsemi eins og við þegar höfum orðið vitni að, t.d. með lokun þjónustustöðvarinnar á Blönduósi. Hvar verða þessi mörk dregin og hvenær kemur ríkið inn?



[15:09]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það var við því að búast að hv. þm. Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna, hefði ekki áttað sig á því að við störfum á hinu Evrópska efnahagssvæði þar sem frelsi í fjarskiptum er staðreynd og samkeppni á sviði fjarskiptamála er staðreynd og hvergi nokkurs staðar á byggðu bóli er það orðið þannig að ríkið eigi fjarskiptafyrirtæki og standi í harðri samkeppni við önnur fyrirtæki á þeim vettvangi. Þetta er nútíminn og miklar hagsbætur hafa fylgt því fyrir okkur að koma á samkeppni á sviði fjarskipta, það fer ekkert á milli mála.

Hins vegar liggur það alveg fyrir að við gerum ráð fyrir á grundvelli fjarskiptalaga svokallaðri alþjónustu og að markaðsráðandi símafyrirtæki verði að sinna henni og þar til viðbótar gerum við ráð fyrir að ríkissjóður kosti tiltekin verkefni í mesta dreifbýlinu.

Hvar eiga mörkin að liggja og hvers vegna er þetta ekki sett í gegnum fjárlög? Það er nú þannig að við erum með Vegasjóð og það apparat, svo að ég noti orð hv. þingmanns, er Vegagerðin sem sér um að taka ákvarðanir um framkvæmdir á sviði vegamála. Með sama hætti er það Póst- og fjarskiptastofnun og stjórn fjarskiptasjóðsins, sem verður verkefnisstjórn einnig, sem mun meta hvar þessi mörk liggja, hvar á að taka ákvörðun um útboð á þjónustu og uppbyggingu þessarar þjónustu. Ég treysti þeim aðilum mætavel og mjög vel. Það liggur mikil undirbúningsvinna að baki þeirri ákvörðun að setja þetta frumvarp fram af hálfu bæði ráðuneytisins og Póst- og fjarskiptastofnunar sem mun sjá um að leggja mat á þetta.



[15:11]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það fór sem mig grunaði að hæstv. ráðherra gæti litlu um þetta svarað, hvernig þetta ætti að ganga upp í framtíðinni, og minntist á þetta með alþjónustukvöðina. Alþjónustukvöðin er bara ákveðin kvöð sem núna stendur en hún fylgir ekkert þróuninni.

Ég leyfi mér að ítreka spurningu til hæstv. ráðherra: Hefði ekki verið miklu skynsamlegra, úr því að út í þetta er komið, að verkefnið hefði verið falið Vegagerðinni og fjármagn, sem á að ráðstafa í þetta, verið sett á fjárlög samkvæmt fjarskiptaáætlun? Hefði það ekki verið skynsamlegra en að búa til nýtt apparat, nýjan sjóð, nýja sjóðsstjórn, nýtt apparat til þess að gera útboð og meta þessar kvaðir og meta hvar á að koma inn? Fjarskiptastofnun er eingöngu eftirlitsaðili en ekki framkvæmdaraðili á nokkurn hátt. Ég spyr því: Hver á þá að framkvæma þá hluti sem ætlunin er að framkvæma á grundvelli þessarar áætlunar þar sem sjóðurinn kemur inn?

Það er líka forvitnilegt að vita hvaða hugmyndir ráðherrann hefur um reksturinn, áframhaldandi rekstur á hinum óarðbæru einingum sem ráðherrann velur að kalla svo, þar sem fjarskiptafyrirtækið telur sig ekki fá fullnægjandi arð. Hér er fyrst og fremst verið að hugsa alfarið um stofnkostnaðinn, eða er það ekki rétt skilið hjá mér, frú forseti? Hvernig á þá líka að hugsa um reksturinn sem hlýtur þá að vera jafnóarðbær?

Því miður, frú forseti, mér sýnist það sem hér er lagt fram vera mjög vanhugsað.



[15:13]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega fyrst og fremst afstaða Vinstri grænna til þessa máls sem er vanhugsuð, það er mjög athyglisvert. Hér erum við að leggja á ráðin um stórbætta þjónustu á sviði fjarskipta um allt land. Ætlar sá flokkur, Vinstri grænir, að leggjast gegn því? Það er mjög athyglisvert.

Hvers vegna er þetta ekki falið Vegagerðinni? Vegagerðin hefur ekki neitt með fjarskiptamálefni að gera og ég tel það ekki skynsamlegt að blanda henni inn í þá starfsemi, hún hefur alveg nóg á sinni könnu. En Póst- og fjarskiptastofnun hefur þekkingu innan sinna vébanda til þess að sinna þessu verkefni að því marki sem þeirri stofnun er ætlað að gera það.

Síðan er alveg ljóst að framkvæmdin verður á þann veg að það verður útboð á þessari uppbyggingu og það verða fjarskiptafyrirtækin sem sjá um framkvæmdina. Það er útboð á uppbyggingu senda og uppsetningu búnaðar til gervihnattasendinga og rekstri. Það er því gert ráð fyrir að fjarskiptafyrirtækin sjái algjörlega um uppsetningu á þessum sendum og þessum búnaði og reksturinn. Fjarskiptafyrirtækin fá síðan tekjur vegna aukinna viðskipta og aukinnar þjónustu um þessi kerfi sem gert er ráð fyrir að setja t.d. á sviði GSM-sendinganna við þjóðvegina og á helstu ferðamannastöðum.

Við vekjum athygli á því sem er óarðbært, svo sem eins og fjarskiptasendingum á Háreksstaðaleið. Þar er mjög lítil notkun, en við teljum að það sé bæði öryggisatriði og sjálfsögð þjónusta að byggja þar upp. Við viljum láta þennan sjóð byggja upp á slíkum svæðum og það eru fjarskiptafyrirtækin sem munu gera það.



[15:15]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er hlynntur því sem hér er verið að gera og ég ætla að koma betur að þessu máli á eftir. En spurning mín í stuttu andsvari við hæstv. ráðherra er eingöngu um stjórn sjóðsins samanber það sem segir í 3. gr. vegna þess að mér finnst ekki eins og verið sé að tala um sama hlutinn í athugasemdum um frumvarpið og svo í 3. gr. þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn sjóðsins er jafnframt verkefnastjórn fjarskiptaáætlunar ...“

En í athugasemdum við frumvarpið er hins vegar talað um að samgönguráðherra skipi stjórn sjóðsins sem jafnframt skipar verkefnastjórn. Svo er talað um að verkefnastjórn skipi fimm manna hópur. Ég veit ekki hvort ég misskil þetta, en þá kemur skýring frá hæstv. ráðherra. En mér finnst ekki eins og að verið sé að fara í sömu áttina. Ég held að það sé bara ágætt að fimm manna stjórn sé skipuð og að hún sé jafnframt þannig skipuð að þar sé fólk sem hafi fullt vit á þessu, peningahliðinni, ávöxtun sjóðsins og verkefninu og geti verið verkefnastjórn í leiðinni. En mér finnst að í athugasemdum sé talað um að það eigi að skipa sérstaka verkefnastjórn.

Virðulegi forseti. Mig langar að heyra útlistingar hæstv. samgönguráðherra á þessu atriði.



[15:16]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessa ábendingu. Ef þetta orðalag er óljóst er nauðsynlegt að ég skýri það út á þann veg að við gerum ráð fyrir að það séu sömu aðilarnir sem skipa stjórnina og eru í verkefnisstjórninni þannig að það fari ekki á milli mála að við viljum skipa þarna einstaklinga sem hafa þekkingu á fjármálaumsýslu, þ.e. skiptingu fjármuna til tiltekinna verkefna á sviði fjarskipta. Þarna þarf því að vera til staðar samfélagsleg þekking og þekking á sviði fjármálaumsýslu og fjarskipta. En það er alveg ljóst að ekki verður sett upp hátimbruð skrifstofa til að reka þennan sjóð. Það er nokkuð öruggt. Reynt verður að nýta þær stofnanir sem hafa fjármálaumsýslu þegar á sinni könnu. Hafnabótasjóður hefur t.d. verið rekinn árum saman og haft það hlutverk í gegnum tíðina að hlaupa undir bagga með sveitarfélögum þegar tjón verður á hafnargörðum eða hafnarmannvirkjum. Í gegnum Hafnabótasjóð flæða núna samkvæmt nýrri löggjöf fjárveitingar til hafnargerðar. Hann hefur verið vistaður hjá Seðlabankanum. Það er því ekki verið að leggja af stað með nýja bankastofnun, svo að það sé alveg ljóst, heldur er reynt að hafa þetta eins hagkvæmt og vel undirbúið og nokkur kostur er og m.a. með því að sami hópur manna skipi stjórn sjóðsins og verkefnastjórnina.



[15:18]
Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef áður greitt hér atkvæði með stofnun fjarskiptasjóðs en ég verð að segja það enn einu sinni að því fylgir eiginlega að betra er seint en aldrei vegna þess að nokkrum sinnum hef ég komið í þennan ágæta ræðustól og fjallað um það sem hér á að gera núna með fjarskiptasjóðnum. Ég er, virðulegi forseti, að reyna að segja að ég er þeirrar skoðunar að þetta átti að vera búið að gera fyrir lifandi löngu, sérstaklega t.d. með háhraðatengingar til ýmissa smærri staða á landsbyggðinni sem hafa setið eftir og ekki setið við sama borð og aðrir landsmenn vegna þess að þar hafa menn ekki átt aðgang að háhraðatengingum fyrr en þá í framhaldi af stofnun þessa sjóðs. Þess vegna segi ég: Betra seint en aldrei.

Auðvitað var mikið misræmi í því og misrétti sem fólk var beitt í þessum efnum. Fólk t.d. á hinum ýmsu smástöðum úti á landi átti þess ekki kost að fá háhraðatengingar frá Símanum vegna þess að ekki nógu margir notendur ætluðu að kaupa þjónustuna. Síminn taldi það með öðrum orðum ekki arðbært. Þá hafa þeir ekki setið við sama borð og aðrir t.d. við að stunda fjarnám eða börnin við að nýta sér tækni netsins og það sem það hefur upp á að bjóða. Ekki þurfum við lengur að ræða það, virðulegi forseti, að dálítið mikill munur er á því að hafa háhraðatengingu eða lélegar nettengingar sem maður helst ekki fer inn á þegar maður hefur ekki aðgang að háhraðatengingunum.

Virðulegi forseti. Ég segi að það er gott að festa það inn og ég taldi það nauðsynlegt að þegar talað er um að setja í þetta peninga frá sölu Símans að gera það eins og hér er gert í sérstakan fjarskiptasjóð. Ég hef lýst því áður og skal endurtaka það hér og nú vegna þess að mér finnst það til bóta að sjóðurinn er til og það er búið að eyrnamerkja fé í þetta sem að sjálfsögðu þarf að sækja í fjárlög hvers árs eins og hér hefur komið fram, en að það sé gert þannig að sitjandi ríkisstjórn hvers tíma á erfiðara með að draga hugsanlega úr þessum upphæðum við fjárlagagerð. Hér á að ganga í verkefni sem eru löngu tímabær, t.d. uppbyggingu GSM-senda á hringveginum og dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött til sjómanna og annarra plús þessar háhraðatengingar sem ég hef gert að umtalsefni.

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í stuttu andsvari mínu við hæstv. ráðherra um stjórn sjóðsins og verkefnastjórn að það er ljóst að þetta á bara að vera fimm manna stjórn sem er stjórn sjóðsins og jafnframt verkefnastjórn. Ég er hlynntur því vegna þess að það er einfaldari stjórnsýsla. Það er nóg að hafa fimm manna stjórn sem jafnframt er verkefnastjórn þannig að í raun er kannski einu orði ofaukið í athugasemdunum sem mátti misskilja. En þetta hefur komið fram í andsvari hæstv. ráðherra.

Ég vil líka segja að ég lít svo á að stjórnin, sem jafnframt á að ávaxta tekjur sjóðsins, hafi þá heimild til þess að dreifa þeim ávöxtunarmöguleika eða þeirri stýringu sem hún á að hafa á þeim peningum þannig að takast megi að ávaxta pund sjóðsins, ef svo má að orði komast, eins mikið og hægt er og þess vegna að semja við fjármálafyrirtæki án þess að tekin sé of mikil áhætta, þ.e. að ávaxta þessar tekjur þannig að við getum vafalaust gert meira úr þeim. Ég lít svo á, virðulegi forseti, að þessar upphæðir verði greiddar inn í fjarskiptasjóð og að sjóðurinn fái að njóta ávaxta þess en að ekki verði bara greitt út úr ríkissjóði þegar fé vantar til að greiða út úr sjóðnum við ákveðin verkefni.

Virðulegi forseti. Til að hafa sagt það líka hér þá er verið að fara í útboð á þessum rásum og á þessari þjónustu sem vantar víða og það er ekkert ólíkt því sem við gerum á ýmsum öðrum sviðum, t.d. því að bjóða út áætlunarflug til nokkurra staða, smástaða, á landinu sem flugfélög treysta sér ekki til að halda uppi arðbæru flugi til og það er styrkt með fé úr ríkissjóði. Það sama erum við að gera núna með almenningssamgöngurnar. Þar hefur nýlega farið fram útboð þar sem fé kemur úr ríkissjóði til að styrkja þær áætlunarleiðir, en viðkomandi aðilar sem í það bjóða þurfa hins vegar að festa sig undir ákveðin skilyrði um ferðafjölda og annað slíkt. Þess vegna er ég hlynntur því sem hér er gert, virðulegi forseti, og vil jafnframt segja að ég vildi óska þess að hæstv. ríkisstjórn hefði þessa sömu skoðun og væri tilbúin að fara þessa sömu leið varðandi strandsiglingar við Ísland. En mér virðist ríkisstjórnin ekki hafa áhuga á því. Ég nefni þetta, virðulegi forseti, vegna þess að tækifærið gefst. Ég er hiklaust þeirrar skoðunar að við eigum að fara þá leið að bjóða út strandsiglingar til ákveðinna staða á landinu m.a. til að minnka flutninga á þjóðvegakerfi landsins, draga flutninga af þjóðvegum og á sjóinn aftur. Þetta á að bjóða út. Ég tel að skipafélögin mundu slást um það, ef svo má að orði komast, að halda þeim flutningum. Þó svo að það mundi hafa nokkurra tuga milljóna kostnað í för með sér fyrir ríkissjóð að styrkja þessar strandsiglingar þá held ég að það komi margfalt til baka í minna vegsliti á þjóðvegum landsins, að ég tali ekki um minni slysahættu.

Virðulegi forseti. Nóg um þetta. Þetta gerist í framhaldi af sölu Símans. Við fengum mikla peninga við sölu Símans. Ég get alveg tekið undir hún að tókst vel og við fengum mikla fjármuni fyrir Símann sem betur fer úr því að við fórum þessa leið. Ég tek enn einu sinni fram að ég var hlynntur sölu samkeppnishluta Símans. Hins vegar vil ég líka nota tækifærið og segja að ég óttast að við munum sjá á næstu missirum, einu og hálfu ári, að starfsmönnum Símans fækki mjög mikið. Ég hef heyrt tölur nefndar, 200, 250 jafnvel 300 manns sem verða þá fórnarlömb hagræðingarkröfu nýrra eigenda sem borguðu mikið fé fyrir Símann og því miður kemur þetta sennilega mjög mikið niður á landsbyggðinni. En vonandi verður það þannig að Síminn kaupi þá þjónustu af öðrum aðilum á landsbyggðinni eftir þetta. Þessi sjóður er að sjálfsögðu stofnaður í framhaldi af þessu. Ég segi: Það mátti gera þetta fyrr. Lokaorð mín eru því: Betra seint en aldrei.



[15:26]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum sammála um frumvarpið sem hér liggur fyrir og kem ég nánar að því á eftir. Ég hef aðeins athugasemd um það sem beindist að strandsiglingum varðandi ríkisstyrk til þess að taka upp strandsiglingar aftur. Ég verð að segja að þó að ég sé einarður stuðningsmaður strandsiglinga þá efast ég um það í ljósi þeirra staðreynda sem fyrir liggja að strandsiglingar eigi sér mikinn hljómgrunn meðal útgerða vegna þess að við sjáum að atvinnurekendur víða úti á landi hafa frekar notað landflutninga heldur en sjóflutninga í ljósi þeirrar staðreyndar að dýrara er að flytja með bílum heldur en skipum. Ég hef varpað eftirfarandi fyrirspurn áður fram. Hvernig má það gerast að t.d. Vestfirðingar nota fremur landflutningana þrátt fyrir að það sé 30–40% dýrara að flytja 40 feta gám landleiðina en sjóleiðina? Getur ríkisstyrkt skipaútgerð haft þau áhrif að einhver straumhvörf verða á þessum flutningum? Ég efa það stórlega. Það þarf eitthvað meira að koma til.

Ég endurtek að ég er einlægur stuðningsmaður þess að strandsiglingar verði teknar upp að nýju. En ef ríkisstyrkt skipaútgerð breytir í einhverju hugarfari atvinnurekenda og framleiðenda úti á landi þá er það mál sem þarf frekari skoðunar við. En ég spyr: Hvers vegna lagðist þá skipaútgerð af?



[15:28]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Guð forði okkur frá því að taka upp ríkisstyrkta skipaútgerð á ný enda er ég ekki að tala um það. Hún kemur aldrei aftur. Hins vegar hef ég sagt að hægt sé að skoða það hvort strandsiglingar muni ekki koma í kjölfarið á útboðsleiðinni og kannski samkeppni þessara tveggja flutningafyrirtækja sem eru á markaðnum í dag, þ.e. ákveðið siglingaprógramm meðfram ströndinni sem tengja má svo til annarra staða með akstri. Ég held að þessi leið sé fær. Ég bendi á að sennilega fara hæstu styrkir úti í Evrópu og í nágrannalöndum okkar sem ríkisstjórnir veita til flutningastarfsemi hvort sem það er til járnbrautarlesta eða annars og með öllum þeim flutningum sem því fylgir.

Herra forseti. Mér finnst voðalega skrýtið ef menn þurfa að flytja t.d. 40 feta gám fullan af frosnum fiski að það þurfi endilega að gerast á fjórum til fimm tímum eftir þjóðvegakerfi landsins. Ég held að það væri hægt að skipuleggja flutningana öðruvísi en að gera það svoleiðis. Ég bendi t.d. á, virðulegi forseti, að menn geta lestað gám í einhverri höfn, híft hann til vinstri og sett á flutningabíl. Þá ber hann engin gjöld til hafnarinnar. En ef hann er hífður til hægri um borð í flutningaskip þá ber hann alls konar gjöld um leið og hann fer í skipið. Við þurfum því kannski líka að skoða í leiðinni gjaldskrár hafna og annað slíkt. Þar blandast t.d. inn í það sem hv. þingmaður og stjórnarmeirihlutinn tók þátt í, þ.e. að breyta lögum um hafnir. Ég viðurkenni að menn eru nú farnir að tala um að fresta því eitthvað. Þar var gerð töluverð árás á hafnirnar, því miður. En ég hygg að við hv. þingmaður séum sammála um leiðina. En guð forði mér frá því að taka hér þátt í umræðu um ríkisstyrkta skipaútgerð. Það er ekki ætlunin.



[15:30]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við erum sammála um tvennt. Í fyrsta lagi að ríkisstyrkt skipaútgerð á enga framtíð fyrir sér. Í annan stað að skoða þurfi gjaldskrá hafna sem kemur ekki við þær lagabreytingar sem gerðar voru um frjáls hafnargjöld og frjálsa álagningu á skipakomur í hafnir.

Við stöndum frammi fyrir því að þegar hefur farið fram nokkur athugun á kostnaði í höfnum versus kostnaði við losun og lestun á flutningabílum og það kom í ljós í skýrslu sem unnin var að það er allt upp í 800% kostnaðarmunur á losun og lestun skipa í höfnum og losun og lestun flutningabíla. Því hefur verið haldið fram að gjaldskrá hafna hafi í allt of ríkum mæli verið slík að óviðunandi hafi verið fyrir útgerðina að búa við, ég vil kannski ekki kalla það okur en við þá gjaldskrá sem við lýði var. Ég hef nefnt dæmi um vörugjald þar sem fiskverkandi í Sandgerði keypti afskurð af frystihúsi á Ísafirði. Fyrst var aflanum landað á Ísafirði og borgað aflagjald, síðan var afskurðurinn settur um borð í skip á Ísafirði og borgað vörugjald, honum var landað í Hafnarfirði og þar var greitt vörugjald, þá var hann fluttur til Sandgerðis þar sem hann var frystur, settur í pönnur, og aftur um borð í skip og borgað vörugjald í þriðja skipti. Þetta er náttúrlega óeðlilegt og það má segja að ástandið í strandsiglingum sé að hluta til þessi gjaldskrá hafna sem hefur haft mjög neikvæð áhrif á útgerðina.

Ég er sammála hv. þm. Kristjáni L. Möller að fara þarf rækilega ofan í þetta mál og skoða hvort ekki sé hægt að koma á strandsiglingum á ný en þá auðvitað í frjálsri samkeppni.



[15:32]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þarf kannski ekki að bæta miklu við, mér heyrist vera samhljómur á milli okkar hvað þetta mál varðar. Það er alveg rétt eins og hér hefur verið sagt að gjaldskrá hafna var mjög há miðað við lestun á flutningabíla eins og ég tók dæmi um og það er auðvitað ein af ástæðunum fyrir því að strandsiglingar lögðust niður.

Mig langaði, virðulegi forseti að spyrja, og kannski gefst tækifæri til að svara því á eftir þó að við séum að ræða um fjarskiptasjóðinn og þetta blandist inn í það, hvort hv. þingmaður geti ekki verið sammála mér um að fara útboðsleiðina með strandsiglingarnar líkt og við gerum með fjarskiptasjóðinn, almenningssamgöngurnar og flugið til nokkurra staða á landinu. Þarna erum við komin með módel, sem ríkisstjórnin hefur samþykkt í þessum tilteknu atriðum og stundum við aðrir þingmenn, til að freista þess að taka upp strandsiglingar aftur með því að bjóða þær út og sjá hvað gefa þyrfti með þeim, ef svo má að orði komast. Sparnaðurinn kæmi margfalt til baka í ríkissjóð í minna vegsliti á þjóðvegum landsins og þar af leiðandi minna viðhaldi vegna þungaflutninganna að maður tali ekki um að slysahættan minnkaði.



[15:33]
Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vildi leggja orð í belg og fagna sérstaklega því frumvarpi sem hér er lagt fram um fjarskiptasjóð og rifja aðeins upp söguna í því sambandi. Sjóðurinn er stofnaður þar sem sala Símans tókst ágætlega vel og með sölu hans skapaðist svigrúm til að koma þessum fjarskiptasjóði á, enda fara 2,5 milljarðar af söluverðmæti Símans til sjóðsins.

Í upphafi þegar kom til tals að selja Símann varð mikil umræðu um það mál í Framsóknarflokknum, í þingflokknum og á vettvangi flokksins, og sitt sýndist hverjum. Að lokum var ákveðið að styðja sölu Símans en við lögðum sérstaka áherslu á að byggja upp fjarskiptakerfi um allt land þannig að sem flestir landsmenn hefðu aðgang að sambærilegri þjónustu fyrir sambærilegt verð og að sjálfstæður sjóður yrði stofnaður í því skyni, þ.e. fjarskiptasjóður. Ég fagna því að málið hefur þróast í takt við að sem við vildum og er nú alveg að komast í höfn þar sem þetta frumvarp hefur verið lagt fram.

Það verður að segjast eins og er að fjarskipti á Íslandi hafa verið góð. Stundum má heyra á þingmönnum og ýmsum aðilum að þau hafi verið í slæmum farvegi en það er alls ekki svo. Á Íslandi höfum við búið við svokallaða alþjónustu. Ákveðin skilyrði voru sett í lög sem fjarskiptafyrirtæki og stjórnvöld hafa reynt að uppfylla sameiginlega, þ.e. ákveðin lágmarksskilyrði um þjónustu fyrir alla landsmenn, sérstaklega hvað varðar aðgengi að síma og háhraðatengingum. Því má segja að við höfum netvætt landið mun hraðar og mun víðtækar en flestar aðrar þjóðir og nú er svo komið að aðgengi að háhraðatengingum hérlendis er með því besta í heiminum, ég held að það sé hvergi betra. Notkun á háhraðatengingum er mjög mikil og netnotkun er óvíða eins útbreidd og hér á landi en árið 2004 notaði 81% einstaklinga netið á Íslandi og ekkert nágrannaríki toppar það, enginn er hærri. Í nágrannaríkjunum er notkunin að meðaltali 66–77% og í ESB um 50%.

Ég vil líka minnast á að notkun á farsíma er einnig með því mesta sem gerist í heiminum. Við teljum það ómissandi gæði að hafa aðgang að háhraðaneti og farsíma og þeirri tækni. Þess vegna er líka hollt fyrir okkur að rifja upp að það er ótrúlega stutt síðan þessi tækni hóf innreið sína, það eru t.d. einungis 16 ár síðan stafrænt samband fyrir internetið var opnað til útlanda og tveimur árum áður hafði verið opnað gagnaflutningsnet hér á landi. Hvað halda menn að sé langt síðan GSM-síminn var tekinn í notkun á Íslandi? Það eru 11 ár. Það er ótrúlega stutt síðan GSM-síminn kom til og núna þykir okkur GSM-síminn algerlega ómissandi og menn gagnrýna það mjög ef þeir hafa ekki GSM-samband alls staðar. Við skulum ekki gleyma því hve er stutt síðan þessi tækni hóf innreið sína og hvað við höfum þrátt fyrir allt verið öflug í að byggja hana upp.

Hvað varðar fjarskiptaáætlunina þá eru ákveðnar væntingar gerðar til hennar. Í henni kemur fram að allir landsmenn sem þess óska eigi að hafa aðgang að háhraðatengingum árið 2007 og að GSM-farsímaþjónusta eigi að verða aðgengileg á þjóðvegi 1 og öðrum helstu stofnvegum, helstu ferðamannastöðum og minni þéttbýlisstöðum að mig minnir árið 2006 þ.e. strax á næsta ári. Fjarskiptasjóður er því verkfæri til að tryggja að markmiðum fjarskiptaáætlunar verði náð.

Virðulegur forseti. Ég vil fagna sérstaklega þessu mikla framfaramáli og minna á að við höfum gert mjög vel. Það var erfitt að skikka fjarskiptafyrirtækin til að taka frekari skref þar sem ekki voru markaðslegar forsendur fyrir því en með sölu Símans skapaðist svigrúm fyrir stuðning af hálfu ríkisvaldsins til þeirra fyrirtækja sem munu keppa um þetta fé til að koma upp betri þjónustu fyrir landsmenn.

Ég tel ástæðu til að óska hæstv. samgönguráðherra til hamingju með þetta góða frumvarp og fagna því að það er einmitt í takt við vilja Framsóknarflokksins, þann vilja sem við komum á framfæri í upphafi þegar ákveðið var að selja Símann. Með frumvarpinu tryggjum við að landsmenn allir muni búa meira og minna við sömu þjónustu. Auðvitað munum við ekki ná hverjum einasta manni, hverjum einasta bæ í öllum tilvikum en við getum borið höfuðið mjög hátt og munum fara langt fram úr öðrum þjóðum varðandi aðgengi að háhraðatengingum og þjónustu fyrir GSM-símnotendur og skora hæst í öllum heiminum í þessu eins og svo mörgu öðru.



[15:39]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér skilst af ræðu hv. þingmanns að þetta sé allt saman Framsókn að þakka og framsóknarmenn hafi komið vitinu fyrir sjálfstæðismenn með stofnun þessa sjóðs og væri gaman að heyra það hjá hæstv. samgönguráðherra á eftir hvort svo hafi verið.

Ég kem aðallega upp til að veita andsvar við ræðu hv. þingmanns vegna þess að hún talaði um að fjarskiptin væru góð. Þau eru það sannarlega á hluta landsins en ég er ekki viss um að íbúar í Hrísey hefðu getað skrifað upp á það fyrir einu eða einu og hálfu ári síðan. Þeir þurftu sjálfir að taka sig til og borga allan stofnkostnað við að skapa sér háhraðasamband sem er náttúrlega mjög óréttlátt vegna þess að þeir sátu ekki við sama borð og íbúar í næsta byggðarlagi, t.d. Dalvíkurbyggð, sem fengu háhraðasambandið með því að Síminn setti upp tæki og tól til þess. Og ég er ekki viss um að íbúar t.d. á Raufarhöfn og öðrum stöðum séu heldur tilbúnir til að skrifa upp á þetta.

Mér datt í hug þegar hv. þingmaður talaði um þetta að ég heyrði ágæta sögu um háhraðatengingar austur á landi í kjördæmavikunni fyrir ári síðan. Þar töluðu sveitarstjórnarmenn fyrir nauðsyn háhraðatenginga og öðru slíku og þar var framsóknarmaður sem bjó á Hallormsstað sem keyrði niður á Egilsstaði til að prenta út gögn af netinu. Ég segi þetta, virðulegi forseti, til að andmæla því að fjarskiptin hafi alls staðar verið góð. Þau eru sannarlega góð á mörgum stöðum á landinu en það vantar marga.



[15:41]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði ekki í ræðu minni að þjónustan væri alls staðar góð. Það er hún ekki og mun líklega aldrei verða það. Ég held að við munum aldrei geta veitt fullkomnustu þjónustu alls staðar, ég tel það mjög ólíklegt, en þjónustan hér á landi hefur verið mjög góð miðað við öll önnur ríki sem við miðum okkur við. Ég var að koma því á framfæri áðan.

Aðgengi að háhraðatengingum hérlendis er með því besta í heiminum og netnotkun er óvíða eins útbreidd og hér. Við höfum staðið mjög vel að þessum málum en auðvitað vilja þeir sem búa t.d. þar sem aðgengi að háhraðatengingum hefur ekki verið fyrir hendi fá betri þjónustu. Að sjálfsögðu. Við settum hins vegar í lög á sínum tíma ákvæði um alþjónustu og slíkt ákvæði er, miðað við þær upplýsingar sem ég hef, hvergi að finna annars staðar hjá öðrum ríkjum. Við settum fram miklar kvaðir og miklar kröfur um þjónustu fyrir íbúa á Íslandi og með fjarskiptasjóði getum við tekið viðbótarskref. Í fjarskiptaáætlun sem þingheimur samþykkti á síðasta þingi settum við okkur mjög háleit markmið um háhraðatengingar fyrir landsmenn með ákveðnum undantekningum væntanlega því líklega verður aldrei hægt að ná hverjum einasta bæ, ég á ekki von á því, og einnig á að GSM-væða hringveginn og fjölsóttustu ferðamannastaði. Ég tel að við séum að stíga hér miklu framsæknara skref en nokkurt annað ríki og við megum vera stolt af því.

Ég vil líka ítreka að Framsóknarflokkurinn setti fram ákveðnar óskir þegar Landssíminn var seldur, m.a. um að komið yrði til móts við þessar tengingar úti á landi. Það varð niðurstaðan og við höfum átt mjög gott samstarf við Sjálfstæðisflokkinn um að setja á stofn þennan fjarskiptasjóð og það ríkir mjög mikil samstaða um hann. En við settum fram alveg sérstakar óskir í þessu sambandi í upphafi og þær eru að verða að veruleika núna.



[15:43]
Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér fannst þetta miklu skýrara núna, að fjarskiptin væru ekki alls staðar góð, og þá erum við orðin sammála um það eins og ég tók dæmi um. Hv. þingmaður ræddi líka um alþjónustuna sem við settum í lög. Það var merkilegt ákvæði á sínum tíma sem allir voru mjög stoltir af og ánægðir með. En framþróunin og tæknin er slík að kannski einu ári seinna eða svo var ISDN-tengingin sem við vorum að bjóða upp á, m.a. til bænda, orðið dálítið úrelt og lélegt samband. Það er þannig í dag að þegar maður þekkir háhraðatengingar, eins og t.d. við þingmenn búum við, og maður þarf að nota ISDN-samband þá get ég sagt fyrir mitt leyti að ég sleppi því frekar. Tækniþróunin er slík að það var eiginlega orðið úrelt rétt eftir að við samþykktum ákvæðið. Tækniþróunin er svo mikil og sífellt er boðið upp á meiri hraða í örbylgju. Ég vonast því til að fjarskiptasjóðurinn sem verið er að stofna taki dálítinn þátt í því að koma meiri háhraða eins og til bænda í gegnum örbylgjusamband. Ég tók einu sinni dæmi um Trabant eða Mercedes Benz sem ráðherrabíl og ég ætla ekki að halda þá ræðu einu sinni enn en ISDN-tengingum í dag líki ég við Trabant og ADSL sem ráðherrar nota og Benz er töluvert betra.



[15:45]
Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem komið hefur fram að tækninni fleygir mjög mikið fram í þessum geira. En það verður samt ekki frá okkur tekið að alþjónustukröfurnar voru mjög framsæknar. Við sáum ekki sambærilegar kröfur hjá öðrum ríkjum og vorum að gera rétta hluti þar. En það er rétt að tækninni fleygir fram. Eins og fjarskiptaáætlun er núna á það almennt að vera svo að almenningur um allt land á að hafa aðgang að háhraðatengingum árið 2007.

Vissulega kann að koma ný tækni bráðlega sem við sjáum ekki fyrir og að okkur finnist þetta allt frekar úrelt eftir nokkur ár. Ég skal ekki segja til um það. Það er alveg geysileg þróun í þessari tækni, sérstaklega í símtækninni. En af því að hv. þingmaður var að tala um að hann vildi ekki nota ISDN af því að hann væri vanur ADSL þá verð ég að viðurkenna að stundum þegar maður notar ADSL þá finnst mér það líka hægvirkt. Menn gera svo miklar kröfur um hraða í dag. Sé eitthvað hraðvirkara í boði fyrir lítinn pening þá mundi maður auðvitað vilja það.



[15:46]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi til laga um fjarskiptasjóð sem er eitt afsprengi svokallaðrar símasölu sem hér hefur líka verið rædd. Ég tel vert að rifja upp að í skoðanakönnunum í aðdragandanum að sölu Símans var afgerandi meiri hluti þjóðarinnar andvígur því að grunnfjarskiptakerfi Símans yrði selt. Síðasta skoðanakönnun, í mars síðastliðnum, sýndi að nærri 80% væru andvíg því.

Meira að segja eftir að Síminn hafði verið seldur, þegar búið var að útbúa svokallaðan jólagjafapakka þar sem öllu sem hefur verið vanrækt á undanförnum árum var raðað inn, kom fram í Gallup-könnun að stærsti hluti þeirra sem svaraði teldi að óskynsamlegt hefði verið að selja Símann. Menn vildu að hann yrði áfram í þjóðareigu. Ég tel mikilvægt að halda þessu til haga enda eru fjarskiptin einn af öflugustu og mikilvægustu þáttum samfélags okkar til að byggja upp samkeppnishæft og framsækið samfélag um allt land. Þess vegna hefði að mínu mati verið mikilvægt að grunnfjarskiptakerfið héldist áfram í eigu þjóðarinnar og því beitt til að ná þessum markmiðum.

Það var ekki svo að Síminn væri rekstrarlegur baggi á ríkinu, fjarri því. Hann hefur að jafnaði skilað 2–3 milljarða kr. arði í ríkissjóð á undanförnum árum. Auk þess var sérstaklega tekinn arður út úr Símanum upp á rúma 6 milljarða kr. Þetta var því jafnframt einn af sterkustu tekjustofnum ríkissjóðs sem þar var kastað burt. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt til að þjóðin hefði átt Símann og beitt þessum milljörðum, þeim peningum sem komu í gegnum arð, til að styrkja og efla fjarskiptakerfið um allt land. Hæstv. ráðherra tókst ekki að selja Símann á árinu 2001 og 2002. Síðan þá er talið að Síminn hafi hækkað um 20–30 milljarða kr. Hvað hefði orðið ef við hefðum átt hann áfram. Þegar hæstv. ráðherrar og þingmenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hæla sér af sölu Símans þá held ég að þeir ættu að tala mjög varlega. Þjóðin sér í gegnum þann loddaraleik.

Hv. þm. Kristján L. Möller fagnaði sölu Símans og fannst hún hafa gengið vel og verið góð, og það verið gott að fá þetta. Ég minnist þess einnig að hv. þingmaður fagnaði líka markaðsvæðingu raforkukerfisins þegar hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins mælti fyrir því, þá fagnaði hv. þm. Kristján Möller líka. En svo, þegar í ljós kom að markaðsvæðingin þýddi stórhækkun á rafmagnsverði um allt land og gríðarlegar hækkanir í byggðum fjarri meginþéttbýlinu þá sneri hv. þingmaður við blaðinu og varð andvígur markaðsvæðingu raforkukerfisins. Ég held að hv. þm. Kristján L. Möller ætti að fara varlega, varaþingflokksformaður Samfylkingarinnar, í að fagna markaðsvæðingu fjarskiptaþjónustu og bíða og sjá hvað gerist. Það tókst ekki svo hönduglega til þegar hann fagnaði markaðsvæðingu raforkukerfisins.

Staðreyndin er sú að bæði hérlendis og erlendis þýðir markaðsvæðing og einkavæðing á grunnþjónustu til almennings yfirleitt hærra verð og lélegri þjónustu, sérstaklega í dreifbýli. Þannig er það, því miður. Meginmarkmiðið með þessu frumvarpi er að reyna að bæta þar úr, reyna að stoppa í verstu götin, vanræktu framkvæmdirnar sem markaðsvæðing eða einkavæðing fjarskiptanna hefur í för með sér. Það er virðingarverð viðleitni. Ég tek undir þau sjónarmið sem í þessu frumvarpi eru um að ná fram skilgreindum markmiðum í að bæta og efla fjarskiptaþjónustuna, háhraðatenginguna og GSM-þjónustuna, um allt land innan mjög skilgreinds tíma. Ég tek undir að mikilvægt er þannig að þau markmið nái fram að ganga og að þau hefðu átt að nást með því að Síminn væri í eigu þjóðarinnar. Þá hefðum við það auðvitað frekar í hendi okkar í stað þess að reka tvöfalt kerfi, annars vegar markaðsvætt kerfi og hins vegar ríkisstutt.

Ég velti fyrir mér stofnun fjarskiptasjóðs, með þeim hætti sem hér er gert, að búa til eins konar ríkisstofnun, sjálfstætt ríkisfyrirtæki sem ekki á að lúta beint vilja Alþingis. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er ætlunin að það fjármagn sem úthlutað er úr fjarskiptasjóði fari í gegnum fjárlög eða er ætlunin að það fari beint úr sjóðnum og til einstakra verkefna, þ.e. að bara sjóðstjórnin og ráðherra ráði þar?

Ég hef ekkert út á það að setja, frú forseti, úr því að Síminn var seldur, að ákveðið fjármagn skuli lagt til hliðar til að efla fjarskiptakerfið. Úr því að menn fóru þá óskynsamlegu leið að selja Símann þá finnst mér það hafa verið góð ákvörðun. En ég hefði talið að leggja ætti fjármagnið til hliðar og veita það í gegnum fjárlög, í gegnum fjarskiptaáætlun, sem fengi þar með hliðstæða stöðu og vegáætlun. Hún yrði pólitískt afgreidd á Alþingi og forgangsröðin ákveðin þar. Eins og við þingmenn þekkjum koma langflestar sveitarstjórnir, af öllu landinu, með erindi inn til Alþingis um að bæta fjarskiptakerfið, bæta GSM-þjónustuna, bæta háhraðatenginguna o.s.frv. Það er því enn, að ég tel, eitt af stærri málum Alþingis, að bæta og efla fjarskiptakerfið um allt land. Ég tel að það eigi að vera á ábyrgð Alþingis. Ég tel að þessi sjóður, sem hér er verið að stofna og verkefni hans, eigi að vera á ábyrgð Alþingis og fá stjórnsýslulega meðferð í gegnum fjárlögin. Ég teldi annað fyrirkomulag gagnrýnisvert og vil að útdeiling fjármunanna fari í gegnum Alþingi eins og fjárlög.

Eins og fram kom í andsvörum áðan var hlutverk sjóðsins að koma inn og standa að framkvæmdum við svokallaðar óarðbærar framkvæmdir í fjarskiptum. Hver á að skilgreina hvað er óarðbært? Það er Póst- og fjarskiptastofnun, segir hæstv. ráðherra. Þá veltir maður fyrir sér hvaða arðsemiskrafa verður lögð þar til grundvallar. Hvernig á að meta hvaða framkvæmd er arðbær og hver er óarðbær? Það verður ekki einfalt mál. Þetta fjármagn á fyrst og fremst að nota til stofnkostnaðar. Því er ekki ætlað að koma inn í rekstur um ótakmarkaðan tíma. Ef hæstv. ráðherra vill meina, með sinni óbeinu þátttöku í umræðunni, að fjarskiptasjóður eigi líka að koma að rekstri þá fer málið að vandast. Þá erum við komin með tvöfalt fjarskiptakerfi. Annars vegar óarðbæra fjarskiptakerfið sem ríkið á að standa að meira eða minna leyti að, leggja til stofnkostnað og sinna rekstri, og hins vegar hið arðbæra fjarskiptakerfi sem aðrir vilja reka. En einmitt þessi uppsetning er mjög varhugaverð. Auðvitað reyna fjarskiptafyrirtæki á samkeppnismarkaði að hala inn peninga frá ríkinu en eins og við vitum er ekki um neina samkeppni að ræða víða úti á landi. Ef það hefði verið raunveruleg samkeppni í fjarskiptum þá hefði Síminn ekki lokað starfsstöð sinni á Blönduósi eða á Siglufirði. Við vitum það. (Samgrh.: Samkeppnin er góð.) Samkeppnin er góð, ég tek alveg undir það, þar sem hún er virk. Þar er samkeppnin góð. En einkavædd einokun í þjónustu á grunnfjarskiptakerfi eins og Símanum er slæm. Það er bara svo einfalt.

Ég held að við stöndum frammi fyrir því að ríkið ætli að reka óarðbært fjarskiptakerfi en fjarskiptafyrirtæki á markaði reki fyrirtæki sem eru talin arðbær. Við erum komin með tvöfalt kerfi.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra eftir hverju verði farið þegar menn setja sér áætlun. Verður t.d. farið eftir þeirri ágætu þingsályktunartillögu sem var samþykkt í fyrra, þingsályktunartillögu sem hæstv. ráðherra samgöngumála lagði fram um stefnu og áfanga í fjarskiptamálum? Þar er tímasett, virðulegur forseti, að GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi eitt og öðrum helstu stofnvegum, á helstu ferðamannastöðum og minni þéttbýlisstöðum fyrir árið 2006. Verður staðið við það? Verður staðið við það sem stendur í áætluninni sem Alþingi samþykkti, frú forseti? Það eru bara nokkrir mánuðir síðan við samþykktum þessa áætlun. Hún var samþykkt samhljóða í þinginu, að rétt væri að ná þessum markmiðum. Verður stafrænt sjónvarp og háhraðanet boðið út árið 2005? Árið 2005 mun senn liðið. Einnig segir að allir grunnskólar verði tengdir öflugu háhraðaneti og við það náist ákveðinn áfangi árið 2006, sem er skilgreindur og annar árið 2007. (Gripið fram í: Nokkuð gott.) Já, enda var þessi áætlun sett fram og samþykkt samhljóða á Alþingi fyrir nokkrum mánuðum, á síðasta vorþingi. Er ætlunin að standa við hana?

Ég vil að hæstv. ráðherra svari með hvaða hætti verður staðið við tímasetta fjarskiptaáætlun, um aðgerðir í fjarskiptamálum sem við samþykktum á vorþingi. Það sem skiptir máli er það sem gert er en ekki það sem menn setja á blað og segjast ætla að gera í framtíðinni.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg fleiri orð um málið. Ég vil þó spyrja hæstv. ráðherra: Er meiningin að GSM-þjónustan verði hluti af öryggiskerfi þjóðarinnar? Hér er talað um hve mikilvæg GSM-þjónustan sé í öryggisskyni. Það er heimild til þess í fjarskiptalögum að skilgreina ákveðna þætti sem öryggismál. Þá eru þeir meðhöndlaðir sem slíkir. Eitt af því eru fjarskiptin sem hafa grundvallarþýðingu fyrir öryggi íbúa og vegfarenda hvar sem er á landinu og sem allra víðast. Það á ekki síst við um GSM-farsímaþjónustuna. Við þekkjum dæmi frá því í haust að menn voru hætt komnir í Húnavatnssýslu, norður á Ströndum, vegna slyss. Fjarskiptaþjónustan var ekki fyrir hendi og hvorki hægt að ná í lækni né sjúkraaðstoð. Þá spyr ég hæstv. ráðherra: Er meiningin að GSM-farsímaþjónustan verði hluti af þessu öryggiskerfi, meðhöndluð sem slík og tryggt að hún nái til landsmanna í það ríkum mæli að hún veiti raunverulegt öryggi? Ég tel það mikilvægt.

Ég tel að GSM-farsímaþjónustan eigi að vera hluti af öryggisviðbúnaðinum. Það er dæmi út af fyrir sig að þegar á reyndi á Ströndum að þá virkaði ekki farsímaþjónustan en það er annað mál. En það sýnir að máli skiptir að GSM-farsímaþjónustan verði hluti af öryggiskerfi þjóðarinnar og byggt upp sem slíkt.

Frú forseti. Ég hef rakið málið og tel að úr því að farið er út í að stofna fjarskiptasjóð, eða taka frá fjármagn á sölu Símans til að byggja upp fjarskiptin sem við teljum í sjálfu sér skynsamlegt, sé eðlilegra að útdeila því fé samkvæmt fjarskiptaáætlun sem hluta af öðrum framkvæmdaáætlunum sem þingið lætur vinna eins og vegáætlun, flugmálaáætlun o.s.frv. Ég tel að fjármagninu ætti að úthlutað eftir því í stað þess að búa til nýjan millilið, nýja stofnun sem muni starfa á eigin vegum. Ég tel að skynsamlegast hefði verið að skoða hvort ekki ætti að fela öflugu ríkisþjónustufyrirtæki, eins og Vegagerð ríkisins, sem er með sérfræðinga á sínum snærum og umfangsmikla þjónustu, ber ábyrgð á stórum hluta af umferðaröryggismálum sem fjarskiptin eru, að bjóða út og halda utan um málið að öðru leyti. Þá þyrfti ekki að búa til nýja stofnun um þessi mál en framkvæmdaáætlun og úthlutun fjármagns færi að öðru leyti í gegnum Alþingi sem bæri endanlega ábyrgð á þeirri úthlutun.



[16:05]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af því sem fram kom í ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að nauðsynlegt sé að þetta fari í gegnum fjárlög. Allt er það rétt enda gerum við ráð fyrir að sjálfsögðu að fjarskiptasjóður sé á fjárlögum. Við höfum það einmitt í fjáraukalagafrumvarpinu fyrir árið 2005 að þar er fjárveiting til fjarskiptasjóðs sérstaklega tilgreind 1 milljarður kr. á þessu ári og fjarskiptasjóður hefur þar með, þegar búið er að afgreiða fjáraukalögin, milljarð til þess að vinna að fyrstu verkefnunum á sviði uppbyggingar fjarskiptakerfa í dreifbýli í samræmi við fjarskiptaáætlun að sjálfsögðu. Þar ber fyrst að telja uppbyggingu GSM-símkerfanna á þjóðvegum og helstu ferðamannastöðum. Það er því allt saman í fullkomlega eðlilegum farvegi.

Mér heyrist satt að segja að hv. þingmaður sé að færast alltaf nær okkur í þessu máli og sé alltaf að átta sig betur og betur á því að við erum algjörlega á hárréttri leið þegar hann er farinn að leggja alveg sérstaka áherslu á að nauðsynlegt sé að fara eftir þeim nótum sem við höfum verið að leika eftir og birtast m.a. í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005 þar sem útdeilt er fjármunum til fjarskiptasjóðs.



[16:06]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég dreg ekki í efa einlægan áhuga hæstv. ráðherra til að bæta og efla fjarskipti í landinu, persónulegan áhuga hans til þess, það geri ég ekki. Ég tel að hann hafi a.m.k. í orði og að sumu leyti í verki sýnt að hann hafi einlægan áhuga til að gera það, ég dreg það ekki í efa. Hann hefur á margan hátt haldið þeim málstað öflugt fram þó svo að árangurinn hafi ekki orðið með þeim hætti sem við hefðum viljað sjá.

En enn þá er stjórnsýslulega óljóst hvernig með meðferð á þessu fé og þessari áætlun skuli farið. Það er töluverður munur á því hvort fjármagni er úthlutað í samræmi við fjarskiptaáætlun eða samkvæmt fjarskiptaáætlun. Ég hefði viljað sjá að þarna stæði að fjármagn yrði veitt úr sjóðnum samkvæmt fjarskiptaáætlun, áætlun sem Alþingi hefði þá samþykkt þar sem kvæði á um forgangsröðun á þeim atriðum sem þar væru. En ef það væri samræmi er það, eins og reyndar frumvarpið gerir ráð fyrir, þessi sjóðstjórn sem er skipuð af ráðherra sem á í rauninni að fara með það vald — þá leiðréttir hæstv. ráðherra mig — sem á að fara með það valda að velja, forgangsraða eða ákveða til hvaða þátta í þeim fjarskiptamálum sem um ræðir verið er að veita fjármagn á hverjum tíma en ekki þingið.



[16:08]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason fór vítt og breitt um samgöngumál og verður að segja og ég held að hann sé sammála mér um að þetta er eitt af athyglisverðustu málum á sviði samgöngumála sem flutt hefur verið um nokkuð langan tíma í ljósi þess að lengi hefur verið deilt á að ekki sé nægjanlega gott GSM-kerfi meðfram þjóðvegi eitt. Hér er tillaga um að verulega verði bætt úr. Eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom inn á áðan hefur verið ótrúlega hröð uppbygging á GSM- eða NMT-kerfi sem aðeins er orðið ellefu ára gamalt. Svo hratt hefur þetta gengið yfir að ég held að það sé nú orðið nokkuð gott.

Hins vegar hjó ég eftir því að hv. þm. Jón Bjarnason talaði um að það væri eðlilegt og rétt að Alþingi sæi um þessi mál eða að Vegagerðin hefði með þetta að gera, sem náttúrlega hefur fyrst og fremst með öryggi á vegum að gera, en þetta er miklu víðfeðmara en það að hér sé aðeins um GSM-kerfi að ræða á þjóðvegi eitt. Það er auðvitað hugbúnaðurinn, hér eru tölvurnar og sá flutningur allur sem landsbyggðin bíður eftir og vill fá með miklu meiri hraða en er í dag og það er skiljanleg krafa.

En að fara síðan í hinn staðinn að tala um arðsemi þessara framkvæmda, hvernig það eigi að halda, dettur þá hv. þm. Jóni Bjarnasyni í hug að ef Alþingi hefði með þetta að gera þá yrði mjög mikið arðsemisálit hvernig ætti að framkvæma þetta verk? Eins og lagt er til þ.e. að þetta verði unnið af sérfræðingum á þessu sviði með það að leiðarljósi sem hæstv. samgönguráðherra hefur lagt upp með, að leita leiða til að þjóna landsbyggðinni sem best og mest má vera, hefði ég haldið að þingmenn hinnar dreifðu byggðar mundu bara segja amen eftir efninu. Við fögnum þessu og styðjum þetta af heilum hug.



[16:11]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það voru ýmsir þingmenn sem fögnuðu markaðsvæðingu raforkukerfisins og stofnun millifyrirtækja eins og Landsnets fyrir ári en gerðust síðan miklir efasemdarmenn, meira að segja þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum, um ágæti þeirrar markaðsvæðingar sem þar var á ferð, að hún væri nú það besta sem væri verið að gera fyrir hinar dreifðu byggðir. Enda líka fáum við fjölda dæmi þess að raforkuverð hefur snarhækkað t.d. í Súðavík. Þar talaði sveitarstjórinn um að raforkan til að reka rækjufyrirtæki, sem þeir síðan urðu að loka vegna stefnu ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum og hás gengis, hefði hækkað um 3 milljónir á árinu, bara sú stjórnsýslubreyting. Meira að segja þingmenn Sjálfstæðisflokksins fóru sumir að efast um að þetta hefði nú allt verið til góðs. Það er því ýmislegt að varast.

Arðurinn af Símanum meðan ríkið átti hann, 2–3 milljarðar á ári undanfarin ár, hefði verið góð upphæð til að verja til uppbyggingar fjarskiptakerfa og m.a. GSM-farsímaþjónustu. Nú koma þeir peningar ekki inn.

Hitt er síðan annað mál að ef af þessu verður verða menn að takast á við það sem fram undan er. Til dæmis framkvæmd vegáætlunar þar sem samgöngunefnd, þingmenn, þ.e. Alþingi, forgangsraðar. Við fáum reyndar tillögur frá Vegagerðinni og frá ráðherra að forgangsröðun í vegamálum, en það er þingið, það eru þingmennirnir sem bera síðan endanlega ábyrgð á þeirri forgangsröðun sem ráðist er í. Hér er ekki gert ráð fyrir slíkri ábyrgð. Hérna er verið að leggja til nýja tegund af ríkisstofnun. Sjálfstæðisflokkurinn er kannski svona hrifinn (Forseti hringir.) af því að fjölga ríkisstofnunum.



[16:13]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér er náttúrlega ekki verið að leggja til að setja einhverja silkihúfu ofan á aðra sem fyrir er heldur verður þessu stýrt af samgönguráðuneytinu. Ég trúi því og treysti að þar muni menn leita leiða til hagkvæmni og til að fá það mesta út úr fjármunum til að tryggja öryggi og þjónustu við hina dreifðu byggðir.

Síminn seldur og þá sé nánast búið að slátra mjólkurkúnni er náttúrlega ekki rétt vegna þess að það fjármagn, hluti af fjármagninu sem fæst fyrir Símann, er notað til að greiða niður erlendar skuldir og þar um leið er sparað mikið fé í vaxtagreiðslur sem annars hefði þurft að inna af hendi. Það kemur því á móti og til langtíma litið er þetta rétt og eðlilegt að ríkið losi sig við Símann og ég er sannfærður um að þarna verður miklu betri þjónusta.

Við skulum ekki gleyma heldur einum þætti í þessu líka sem eru t.d. sendingar í gegnum gervihnetti til sjómanna á hafi úti sem mun auðvitað skila sér líka í auknu öryggi. Einnig má benda á að GSM-kerfið er náttúrlega stórt öryggismál því að það hefur oftar en ekki komið fyrir að verið er að leita að aðilum sem hafa verið með GSM-síma á sér og því hefur verið hægt að miða þá aðila út og finna þá ef þeir hafa týnst, sem dæmi eru um.

En ég held, virðulegi forseti, að þetta mál sé hið besta mál og eins og ég segi, þetta er eitt af þeim mestu málum sem hafa verið lögð fram hér um nokkurn tíma á sviði samgöngumála. Auðvitað eru mörg stór mál sem hafa verið lögð fram eins og samræmd samgönguáætlun sem varðar sjó, land og flug. Það var stóra skrefið sem stigið var.

Hv. þingmaður er mjög efins um að einhver framkvæmd verði úr því sem hér kemur fram og efast um dagsetningar sem settar eru. En, hv. þingmaður, orð eru til alls fyrst.



[16:16]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var ágætt að heyra frá hv. formanni samgöngunefndar að ætlunin væri að standa við tímasetningar í þingsályktun sem við sömdum um fjarskiptaáætlun í fyrra. Ég fagna því ef hv. þingmaður ætlar að beita sér fyrir því að staðið verði við þær tímasetningar. En þá má nú fara að láta hendur standa fram úr ermum.

Ég vil ítreka að verið er að búa til milliríkisstofnun. Fjármálaráðuneytið segir í umsögn sinni að áætlaður kostnaður við rekstur sjóðsins, sem þeir kalla, geti numið á bilinu 10–15 millj. kr. á ári. Hingað til hefur fjármálaráðuneytið aldrei ofáætlað, ekki svo ég muni, rekstur nýrrar stofnunar. Reyndin hefur verið sú að kostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi, minnugur Fiskistofu sem var stofnuð og átti nú bara að vera þriggja, fjögurra manna apparat, ekki satt?

Hér er því verið að gefa því undir fótinn að setja á laggirnar nýja ríkisstofnun og henni er sjálfri ætlað að ákveða sér reglur og úthluta en ekki þinginu, ég bendi á það.

Hér segir: „Mikilvægt er að stjórn sjóðsins setji sér skýrar reglur um greiðslur úr sjóðnum, m.a. í samræmi við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.“ — Ekki þingsins.

Ég tel því að stjórnsýslulega ætti þetta mál að fara undir þingið, undir þingnefndir — fjármagnið verði tekið til hliðar og úthlutað samkvæmt áætlunum sem þingið staðfestir. Ég tel að við höfum nú þegar ríkisstofnun, Vegagerðina, eins og ég hef nefnt, sem gæti vel tekið að sér þessa þjónustu. Við þurfum ekki að búa til annan stjórnsýslulegan millilið, nýja ríkisstofnun, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum að ekki sé talað um rekstrarkostnað. Ég hélt einhvern veginn að það hefði átt að vera hægt að fá stuðning frá sjálfstæðismönnum þegar verið er að leggja til að setja ekki á fót nýjar ríkisstofnanir heldur nota þær sem fyrir eru og nota þá fjármagnið til þeirra verkefna sem ætlað er.



[16:18]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Mig langar til að mæla fáein orð um þetta mál. Hér ætla menn að reyna að sjá til þess að þjónusta Símans, sem áður var, og þeirra aðila sem hafa komið inn á það svið, verði til staðar fyrir sem allra flesta í landinu og það er ekkert nema gott um það að segja. Ég vil hins vegar koma því til skila hér, og alveg sérstaklega til nefndarmanna sem munu fjalla um þetta mál, að vandlega verði rætt við aðra aðila á markaði um þessar framkvæmdir. Það er nefnilega ekki einfalt að bjóða út nýjar viðbætur við þetta kerfi og rekstur á þeim. Síminn er í einokunaraðstöðu, hann er í fákeppnisaðstöðu. Það er bara eitt annað fyrirtæki, sem stendur undir nafni, í keppni við hann. Síminn er með 75% af markaðnum, eða hvað það nú er, og hitt fyrirtækið með yfir 20%. Það er sem sagt alla vega yfir 70% og yfir 20% markaðshlutdeild, það er yfir 90% hjá þessum tveimur aðilum.

Hverjir geta þá keppt, þegar ráðist verður í að bjóða út viðbætur við þetta kerfi? Hvernig fer sú verðlagning fram? Ég ímynda mér að það geti verið freistandi fyrir stóru fyrirtækin á þessu sviði að láta það bíða svolítið að ráðast í viðbætur við kerfin, jafnvel þó að möguleiki sé til þess að slíkar viðbætur geti staðið undir sér, vegna þess að þau eiga von í því að ríkissjóður borgi brúsann. Það er full ástæða til þess að hafa gætur á þessu og einnig á því að ekki er endilega víst að útboðin sem fara fram skili einhverju skynsamlegu verði. Ég held að það þurfi að hafa opna möguleika á því að meta alveg sérstaklega tilboð í viðbætur af þessu tagi vegna þess að þeir sem koma til með að bjóða í verkið, sem eru þá fyrst og fremst þessi tvö stóru fyrirtæki, bjóða ekki eingöngu út frá því hvað er hagkvæmt fyrir þau heldur hlýtur það að hafa áhrif hve langt þeir telja sig komast gagnvart þeim aðila sem er að bjóða út. Aðrir eiga minni möguleika á því að bæta við þessi kerfi en þeir sem þar eru fyrir. Nefndin þarf að fá betri mynd af þessum vanda með því að ræða við þá litlu aðila sem eru á markaðnum, hvernig hægt sé að ganga úr skugga um, þegar farið verður að bjóða út viðbætur, að þar sé ekki verið að hafa fjármuni af ríkinu til uppbyggingar á kerfum sem gætu alveg staðið undir sér í samkeppninni.

Ég ætla svo að gera litla athugasemd við orðalag hér. Í 3. gr. stendur að samgönguráðherra skipi fimm menn í stjórn fjarskiptasjóðs, þar af formann og varaformann auk varamanna. Það er nú venjan að það komi fram hvað varamennirnir eiga að vera margir. Ég gef mér að þarna eigi þeir að vera jafnmargir og stjórnarmennirnir en það er þó ekkert alveg ótvírætt í því. Mér finnst að það þurfi að vera skýrt.

Svo langar mig að vekja athygli á einu sem kemur hér fram. Það er sagt hér í 1. gr., markmiðsgreininni:

„Sjóðurinn er eign ríkisins. Varsla hans og dagleg umsýsla heyrir undir samgönguráðuneytið.“

En þar á undan stendur:

„Stofna skal sérstakan sjóð, fjarskiptasjóð, sem hefur það hlutverk að stuðla að uppbyggingu á sviði fjarskiptamála á grundvelli fjarskiptaáætlunar.“

Í athugasemdum við frumvarpið, og ég vek athygli á því, í lok athugasemdanna, á undan athugasemdum við einstakar greinar, stendur:

„Meginreglan verður að framlög taki mið af fjarskiptaáætlun“ — allt svo meginreglan — „og verði í samræmi við nánari útfærslu verkefna hverju sinni. Mikilvægt er að stjórn sjóðsins setji sér skýrar reglur um greiðslur úr sjóðnum, m.a. í samræmi við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.“

Bíddu, hvað er hér á ferðinni? Ég bara spyr, mér finnst þetta svolítið undarlegt. Það er talað um fjarskiptaáætlun. Hún á að koma fyrir Alþingi og hún á að liggja fyrir sem plagg sem á vera meginstefnan í því sem verið er að gera hér, en svo er allt í einu ríkisstjórnin komin inn og nefndin á að liggja yfir einhverri forgangsröðun frá henni. Ég held að það sé full ástæða til þess að heyra í hæstv. samgönguráðherra með það hvað er átt við með þessu. Á ríkisstjórnin að vera með einhverja aðra forgangsröðun en kemur fram í fjarskiptaáætlun? Hvernig stendur á því að hér er sérstaklega vikið að því að einhver forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í þessum málum eigi að vera á dagskrá þeirrar stjórnar sem fjalla á um málin? Ef til vill er það eitthvað sem ég átta mig ekki á og fæ þá skýringar á. En mér fannst ástæða til þess að spyrja um þetta vegna þess að ég vildi taka mark á því að sú fjarskiptaáætlun sem yrði kynnt væri í alvöru. Að ekki væri einhver önnur fjarskiptaáætlun ríkisstjórnarinnar sem ætti síðan að taka sérstakt mið af eins og manni gæti dottið í hug.

Ég ætla ekki að hafa mitt mál langt í þessu. Ég endurtek að ég tel að full ástæða sé til þess að nefndin skoði þetta vandlega og reyni að velta því fyrir sér með hvaða hætti sé hægt að láta meta eftirlit með þessum útboðum, alveg sérstaklega vegna þess einokunarfyrirbrigðis sem er þarna í gangi. Síminn á nánast öll grunnkerfin í landinu, í dreifbýlinu, og það hlýtur að verða freisting fyrir þá sem stjórna á þeim bæ að bíða með framkvæmdir á svæðum sem kannski er tæpt með að standi undir sér, þar sem þeir hafa von um að fá peninga úr ríkissjóði til þess að fjármagna þær framkvæmdir. Þess vegna þarf að vanda sig alveg sérstaklega við það að veita fjármunum í þennan farveg og passa upp á að menn verðleggi hlutina ekki of hátt.

Ég held reyndar að þar verði menn jafnvel að velta fyrir sér einhverjum öðrum leiðum til viðbótar og mér finnst að nefndin ætti að skoða það vandlega hvort útboð er eina leiðin, t.d. að hægt væri að hafna niðurstöðum útboða á grundvelli skoðunar og láta framkvæma verkefnið á vegum nefndarinnar, ef um það er að ræða, eða bjóða það út aftur eða hvernig sem menn vilja hafa það.

Þetta er ekkert einfalt mál þegar svo mikil fákeppni er á ferðinni eins og þarna er.



[16:27]
Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég á það erindi fyrst og fremst í þennan ræðustól að fagna því frumvarpi sem hér er komið fram. Ef maður lítur aðeins til baka þá rifjast upp fyrir manni umræðan sem var hér á sínum tíma þegar frumvarp kom fram um sölu Landssíma Íslands og fyrirvarar sem ýmsir höfðu þá við það að grunnnetið yrði selt með. Þá tók þingflokkur Framsóknarflokksins þá afstöðu að þetta væri framfaraspor en hafði jafnframt þann fyrirvara við málið að þar sem ekki væri hægt að byggja upp fjarskiptakerfi í eitt skipti fyrir öll vegna tækniþróunar og framfara yrði einhvern veginn að tryggja að á hverjum tíma væri hægt að bregðast við því með tilliti til hagsmuna landsbyggðarinnar, svo að hún sæti ekki eftir þegar kæmi að því að byggja upp fjarskiptakerfi sem væri sjáanlega ekki jafnarðbært þar og í þéttbýliskjörnum landsins.

Hv. þm. Jón Bjarnason hefur, sem von er, flest á hornum sér og blandar inn í umræðuna breyttu skipulagi á raforkumálum og ýmsum öðrum ótengdum málum, en mér sýnist að með frumvarpinu sem hér er komið fram, og er sannfærð um það, séum við að tryggja það til lengri tíma litið að landsbyggðin sitji ekki eftir.

Á sínum tíma, þegar frumvarpið um að selja hlut ríkisins í Landssímanum kom fram, var áætlun í gangi hjá Landssímanum sem unnið var eftir um að ISDN-væða landið allt. Þá héldu menn að það væri það besta sem væri í boði til einhverrar framtíðar. ADSL-tenging fyrir einstaklinga þótti þá fráleit vegna þess kostnaðar sem fylgdi. Síðan fleygði tækninni fram og nú er gerð krafa um háhraðatengingu, jafnvel á fjarlægustu bóndabýlum. Von mín er sú að með þessum sjóði náum við því markmiði sem réttlátir og framsýnir þingmenn Framsóknarflokksins höfðu á sínum tíma, að tryggja það að hagsmunir landsbyggðarinnar yrðu ekki bornir fyrir borð.

En mér kemur það svolítið spánskt fyrir sjónir þegar hv. þm. Jón Bjarnason hefur á orði að það eigi að setja stjórn þessa fjarskiptasjóðs undir þingið. Ég skil eiginlega ekki hvernig hv. þingmaður ætlar sér þá framkvæmd og hvernig hún fellur á nokkurn hátt undir nútímastjórnsýslu. Það hlýtur að þurfa að ganga frá þessu máli þannig að það sé Alþingi á hverjum tíma sem samþykki stefnu í fjarskiptamálum fram í tímann. Það hlýtur að vera sú meginstefnumótun sem byggt er á og síðan hljóta fjárframlög á hverjum tíma að taka mið af henni.

Í ágætum athugasemdum, stuttum og gagnmerkum, við þetta lagafrumvarp er greint frá því hvernig uppbyggingunni er ætlað að vera. Þar er minnt á að samgönguráðherra hafi lagt fram á sínum tíma þingsályktunartillögu um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010. Hún var samþykkt 11. maí sl.

Síðan segir þar:

„Með samþykkt fjarskiptaáætlunar var lagður grunnur að stefnumótun stjórnvalda og aðkomu þeirra að uppbyggingu ýmissa þátta upplýsingasamfélagsins til næstu ára.“

Síðan segir jafnframt:

„Samhliða samþykkti Alþingi breytingar á fjarskiptalögum sem lögfesta gerð fjarskiptaáætlunar og endurskoðun hennar í ljósi þróunar og breyttra aðstæðna.“

Mér finnst miklu eðlilegra, frú forseti, að slík endurskoðun í ljósi þróunar og breyttra aðstæðna sé hjá fagfólki hvers konar og að sjóðstjórn, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir, leiti þá eftir þekkingu og kunnáttu til slíkrar sjóðstjórnar, en ekki að þingið eða einhver sérstök þingnefnd sé að sýsla með þessi mál á hverjum tíma. Þó að mikil sérfræðiþekking liggi fyrir í þingnefndum þá efa ég að í nokkurri þingnefnd sé hún næg til þess að takast þetta verkefni á hendur.

En þarna er gert ráð fyrir sérstökum sjóði og honum er ætlað að skjóta stoðum undir ályktun Alþingis um stefnu í fjarskiptamálum. Síðan er gert ráð fyrir því að ríkissjóður leggi sjóðnum til stofnfé, allt að 2,5 milljörðum, og stjórn sjóðsins ákveði síðan greiðslu fjárins til einstakra verkefna í samræmi við fjarskiptaáætlun og ákvæði fjarskiptalaga.

Hv. þm. Jón Bjarnason, sem mér verður tíðrætt um í þessum ræðustól, enda sjaldan sem við erum sammála þegar talið berst að fjarskiptamálum, efaðist ekki um einlægan vilja ráðherra fjarskiptamála til að byggja upp fjarskipti á landinu öllu. Ég held að hann efist ekkert um einlægan vilja stjórnarmeirihlutans til að standa að því sama. Og, frú forseti, ég held að með því fyrirkomulagi sem þetta frumvarp gengur út á við stofnun þessa sjóðs sé endanlega sýnt fram á að samfara því að selja Landssímann var það einlægur vilji stjórnarflokkanna að tryggja hag landsbyggðarinnar og hinna dreifðu byggða þar sem uppbygging fjarskiptakerfisins er líklega ekki og augljóslega ekki jafnarðbær og uppbyggingin er hérna í þéttbýinu þar sem menn keppast um að veita þjónustu.



[16:33]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að okkur þingmönnum og alþjóð komi ekki á óvart einlægur vilji forustu Framsóknarflokksins til að einkavæða almannaþjónustuna. Það hefur sýnt sig svo rækilega á síðustu árum að forusta Framsóknarflokksins gengur þar meira að segja þannig fram að Sjálfstæðisflokkurinn má hafa sig allan við til að fylgja eftir í þeim einkavæðingaráhuga sem forusta Framsóknarflokksins sýnir.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz gæti kannski rifjað upp hvaða skoðun kjósendur Framsóknarflokksins hafa á stefnu hans í einkavæðingarmálum þegar Gallup-könnun varðandi sölu Landssímans sýndi hvað eftir annað að 70–80% af því fólki sem hafði kosið Framsóknarflokkinn síðast voru andvíg einkavæðingu og sölu Landssímans en stjórn og forusta Framsóknarflokksins keyrði það fram. Einkavæðingaráhugi Framsóknarflokksins á almannaþjónustunni og raforkukerfinu eins og hv. þm. minntist á kemur því engum á óvart. Þar gekk Framsóknarflokkurinn fram í markaðsvæðingu raforkukerfisins og hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins lýsti því yfir í fyrravetur að næst á dagskrá væri að selja orkufyrirtækin. Einkavæðingaráhugi Framsóknarflokksins kemur engum á óvart. En forustan ætti kannski að athuga að kjósendur Framsóknarflokksins við síðustu alþingiskosningar — ég vona að þeir kjósi hann ekki næst — eru ekki sama sinnis samkvæmt skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið og forusta Framsóknarflokksins er í einkavæðingarmálum. Það tekur til Símans og það tekur til raforkunnar og það ætti hv. þingmaður að hafa hugfast.



[16:35]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason reynir enn sem fyrr að gera það tortryggilegt að Framsóknarflokkurinn hafi staðið að einkavæðingu Landssímans. Gert var ráð fyrir því í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar að Landssíminn yrði seldur og það er stefna Framsóknarflokksins eins og fleiri flokka að rekstri sem er betur kominn í höndum einkaaðila eigi einkaaðilar að sinna en ekki ríkið að ógleymdum EES-reglunum sem gera ráð fyrir að þetta sé samkeppnisrekstur. Samkeppnisrekstur teljum við betur kominn hjá einkaaðilum en hjá ríkinu.

Hvað varðar skoðanakönnun sem gerð var á því hvort selja ætti Landssímann þá minnir mig, frú forseti, að hún hafi gengið út á hvort ætti að selja grunnnetið með. Það var í rauninni síðasta vígi Vinstri grænna að gera það tortryggilegt að grunnnetið yrði selt með heldur ætti að halda því eftir við söluna en hins vegar held ég að það segi sig alveg sjálft þegar andvirðið er skoðað og það sem fékkst fyrir Landssímann þegar hann var seldur að það hefði ekki orðið sú fjárhæð sem raun ber vitni hefðum við haldið grunnnetinu eftir. Enda eins og hv. þingmaður líklegast veit eða ætti að vita gat svo sem enginn gert grein fyrir því hvað væri grunnnet og hvað væri ekki grunnnet og hvað það væri þá sem ætti að halda eftir.

En ég segi fyrir mitt leyti, frú forseti, að þetta er liðin tíð. Landssíminn hefur verið seldur. Mikil sátt er um það í samfélaginu og sátt um það hvernig andvirði sölunnar verður varið. Hluta af því andvirði verður varið til að byggja upp þennan fjarskiptasjóð til að tryggja jafnræði við landsbyggðina og ég held að flestir sjái það í dag að allri þeirri tortryggni sem Vinstri grænir reyndu eðlilega að sá varðandi söluna á sínum tíma verður eytt þegar fólk verður upplýst um hvernig ríkisstjórnarflokkarnir ætla að standa að því að tryggja hagsmuni landsbyggðarinnar.



[16:37]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur legið fyrir hvað grunnnetið er í sjálfu sér, hvert megingrunnfjarskiptakerfið var. Hv. þingmaður er því að fara á aðra leið en raun ber vitni.

Ég hef, frú forseti, áhyggjur af því hversu Framsóknarflokkurinn er genginn langt í einkavæðingartrúboði sínu, ég hef bara áhyggjur af því, ég segi það eins og er. Ég held að íbúar úti um hinar dreifðu byggðir hafi einnig áhyggjur, á Vestfjörðum, í Húnavatnssýslum, Norðausturlandi, Austurlandi og víðar þar sem er vitað að engin virk samkeppni verður á fjarskiptamarkaði. En sú grunnþjónusta sem fjarskiptin eru er forsenda fyrir samkeppnishæfri búsetu á þessum svæðum og þeir íbúar vita ósköp vel að einkavæðing og almannaþjónusta leiðir til dýrari og lélegri þjónustu í dreifbýli, enda er reynslan sú annars staðar, hjá öðrum þjóðum. En Framsóknarflokkurinn vill kaupa það hvað sem það kostar.

Ég held t.d. að íbúar á Blönduósi séu ekki ánægðir þar sem fyrstu starfsstöð Landssímans var lokað tveim dögum eftir að gengið var frá greiðslu eða kaupum endanlega. Starfsstöð Landssímans á Siglufirði var lokað. Ég held að þeir viti ósköp vel hvað gerist. Þeir hafa fundið það strax á eigin skinni hvað gerist við einkavæðingu og sölu á almannaþjónustu. Það er dapurt ef forusta Framsóknarflokksins áttar sig ekki á því að hún er komin þarna fullkomlega á skjön við fyrrverandi kjósendur sína í einkavæðingartrúboði sínu á almannaþjónustu út um land, því miður, frú forseti.



[16:39]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason taldi upp ekki einu sinni fjarlægar byggðir, taldi þó upp Vestfirðina þar sem hann taldi að hagur þeirra yrði fyrir borð borinn með sölu Landssímans. En þá liggur næst við að spyrja sem ég ætla þó ekki að gera en ég ætla að árétta það við hv. þingmann — ég ætla ekki að spyrja hann af því að hann geti ekki svarað — að til þess er fjarskiptasjóðurinn þar sem er sjáanlega ekki jafnarðbært að byggja upp fjarskipti og annars staðar á landinu. Það voru slíkir hagsmunir þessara byggða sem við framsóknarmenn og aðrir í ríkisstjórn höfðum í huga og vildum tryggja þegar við samþykktum sölu Landssímans, að tryggt væri að þessar byggðir sem hv. þm. Jón Bjarnason taldi upp, ekki bara Vestfirðirnir heldur aðrir nærtækari og nær þéttari byggðakjörnum, yrðu ekki fyrir borð bornar.

En gagnvart því að Framsóknarflokkurinn vilji einkavæða almannaþjónustuna leyfi ég mér líka að fullyrða, frú forseti, að skammt sé milli mín og Jóns Bjarnasonar þegar kemur að því að einkavæða almannaþjónustu, nánar tiltekið velferðarþjónustuna, því að einkavæðingu vil ég ekki sjá, hvorki í heilbrigðiskerfinu né menntakerfinu. En hins vegar er einkavæðing og einkarekstur, frú forseti, sitt hvað og Framsóknarflokkurinn hefur, þó hann vilji ekki einkavæða og muni aldrei ráðast í það, stutt það þegar kemur að heilbrigðis- og menntakerfinu að tiltekin verkefni séu boðin út og einstaklingar og fyrirtæki taki þau að sér á grundvelli þjónustusamninga. Það sem skiptir meginmáli er að skattborgararnir fái sem mest fyrir þær skatttekjur sem ríkissjóður fær frá þeim, að þetta sé rekið á sem hagkvæmastan hátt án þess að það komi niður á gæðunum og það á við um fjarskiptin alveg eins og velferðarþjónustuna.



[16:41]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa farið fram um frumvarp til laga um fjarskiptasjóð sem ég mælti fyrir og er til meðferðar í þinginu.

Það er kannski aðeins ástæða til að rifja upp nokkur atriði sem tengjast þessu í tilefni þeirrar umræðu sem hér hefur farið fram. Í fyrsta lagi vil ég segja að í aðdraganda þess að Síminn var seldur og í tengslum við umræður um heimild til sölu Símans var alla tíð mjög skýrt af hálfu beggja stjórnarflokkanna að við legðum mjög ríka áherslu á framfarir á sviði fjarskiptanna og við legðum ríka áherslu á að tryggja eðlilega samkeppni á þessu sviði og við legðum ríka áherslu á að í hinu nýja umhverfi, þar sem við gerum ráð fyrir samkeppnismarkaði á sviði fjarskipta, væri þannig um hnútana búið að hagsmunir hinna dreifðu byggða yrðu ekki fyrir borð bornir. Þetta væri algert grundvallaratriði og ég hef flutt hverja ræðuna á fætur annarri þar sem ég hef fjallað um þetta mikilvæga atriði.

Eitt af því sem ég nefndi í umræðunni var að ég teldi að það að selja grunnnet fjarskiptaþjónustunnar sem væri í eign Símans með, væri partur af því að tryggja til frambúðar eðlilega samkeppni á þessum markaði og tryggja hagsmuni landsbyggðarinnar vegna þess að það regluverk sem við höfum sett upp á grundvelli laga um aðgang að netum og aðgang að heimtaug o.s.frv. eru lykilatriði gagnvart markaðsráðandi fyrirtæki til þess m.a. að tryggja hagsmuni hinna dreifðu byggða. Ég tel að stjórnarflokkarnir hafi verið fullkomlega samkvæmir sjálfum sér í allri þessari vegferð og allri þessari umræðu þegar við tölum um að við viljum með öllum tiltækum ráðum tryggja hagsmuni á sviði fjarskipta fyrir íbúa um landið allt. Þess vegna er þetta frumvarp flutt, frumvarp til laga um fjarskiptasjóð, sjóður sem á að tryggja slíka hagsmuni.

Við höfum mikla reynslu af þessari framkvæmd sem við erum að leggja upp með á sviði fjarskiptanna. Við erum að leggja upp með fjarskiptasjóð sem er ætlað að bjóða út — og Póst- og fjarskiptastofnun á að sjá um þá framkvæmd — þessa þjónustu. Ég tel að hv. þm. Jón Bjarnason ætti að hlusta vandlega núna vegna þess að hér er heilmikið lykilatriði á ferðinni. Hann hefur nefnilega allt á hornum sér og virðist vera á móti þessari fyrirhuguðu stórkostlegu uppbyggingu í þjónustu um landið og það verður rifjað upp þegar það passar á réttum stöðum til þess að upplýsa fólk um framgöngu hv. þingmanna Vinstri grænna.

Við höfum mikla reynslu í þessari aðferðafræði. Hver er hún? Jú, að sjálfsögðu höfum við mikla reynslu í uppbyggingu samgöngukerfisins, veganna, hafnanna og flugvallanna þar sem við bjóðum út framkvæmdir og þjónustu, t.d. rekstur ferjuþjónustunnar. Við höfum boðið það allt saman út með miklum og góðum árangri. Það hefur sýnt sig. Sem dæmi þar um er að við höfum boðið út ferjusiglingarnar til Vestmannaeyja og við höfum náð þeim árangri að við höfum fjölgað ferðum um 72% frá því að ferjusiglingarnar voru boðnar út en kostnaðurinn er mjög í hófi. Við höfum boðið út flug til jaðarbyggða og við erum að bjóða núna út sérleyfin, fólksflutninga á landi, þannig að við höfum mikla reynslu á því að fara þessa leið, útboðsleið, til að tryggja almannaþjónustu á sviði samgangna. Ég tel því að sú leið sem við erum að velja hér sé hárrétt og við höfum aflað okkur mikillar reynslu við að byggja þetta upp.

Hv. þm. Kristján L. Möller sagði að við hefðum átt að gera þetta allt saman fyrir löngu sem við erum að leggja á ráðin um í fjarskiptaáætluninni. Hvernig væri það ef við hefðum nú ákveðið fyrir löngu hvernig þetta ætti allt saman að vera í fjarskiptunum? Hv. þm. Jónína Bjartmarz kom réttilega inn á það hér að fyrir nokkrum árum settum við í lög að ISDN-þjónustan væri partur af alþjónustunni vegna þess að þá var hún sú tækni þá sem allir sóttust í. Allir voru að sækjast eftir því að fá ISDN-tengingarnar heim til sín og ég flutti frumvarp til laga um breytingar á fjarskiptalögunum sem skyldaði markaðsráðandi fyrirtæki til að veita þessa þjónustu. Síðan líður tíminn og tækninni fleygir fram. Við höfum varla haft við að taka við þessum miklu breytingum á sviði tækni í fjarskiptum þannig að það sem við hefðum átt að vera fyrir löngu búnir að gera í gær er kannski orðið úrelt á morgun. Við skulum gæta okkar á því að (JBjarn: Við vorum ...) ætla okkur ekki um of í þessu. En aðalatriðið er að með fjarskiptasjóði erum við að leggja á ráðin um að hann standi fyrir uppbyggingu þjónustu sem dugar okkur í framtíðinni.

Hv. þm. Jón Bjarnason sagði að hér væri verið að stoppa í verstu götin í uppbyggingu kerfisins. Ég tel að það sé rangt. Með þeim áformum sem fjarskiptaáætlunin gerir ráð fyrir erum við að brjóta ísinn um leið og við fylgjum þróuninni og nýtum okkur tæknina. Ég minni á að nýlega er búið að bjóða tíðnir vegna stafræns útvarps og sjónvarps og þar kepptust aðilar um að fá úthlutað tíðnum á því sviði. Hér er satt að segja allt á fljúgandi ferð í því að nýta tæknina og fylgja henni eftir.

Ég gat þess í andsvari við ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar vegna þess að hann kvartaði undan því að þetta færi ekki í gegnum fjárlagaafgreiðslu, að í fjáraukalögunum fyrir árið í ár er sjálfsögðu fjallað um þetta. Heill milljarður er settur í fjáraukalögin á þessu ári til þess að geta boðið út strax og búið er að samþykkja þessi lög. Við höfum þá milljarð króna til að bjóða út uppbyggingu GSM-símkerfisins á grundvelli fjarskiptaáætlunar. Ég vil segja að gefnu tilefni að ekkert annað stendur til en að fylgja fjarskiptaáætluninni og við gerum ráð fyrir því að bjóða út farsímakerfin eins og ég hef margsinnis getið um.

Spurt var hvaða arðsemiskröfur yrðu gerðar þarna. Það verður að sjálfsögðu stjórnar sjóðsins og verkefnastjórnarinnar að fara yfir það. En kröfurnar sem við gerum með þessu frumvarpi og kröfurnar sem við gerðum í fjarskiptaáætluninni voru þær að þessi þjónusta yrði veitt á þjóðvegum landsins, þ.e. farsímaþjónustan, og á fjölförnum ferðamannastöðum og að veitt yrði þjónusta í gegnum gervihnetti, þ.e. útvarps- og sjónvarpssendingar, og að við legðum ríka áherslu á að háhraðatengingar byggðust upp á næstu missirum. En auðvitað verðum við að fara leiðir — ég ætla ekki að fara nánar út í það — sem tryggja okkur það að sjálfsögðu að fjarskiptafyrirtækin keppist um að veita þessa þjónustu án stuðnings. Þarna er mjög vandmeðfarið og vandratað meðalhófið og það verður mjög vandasamt verkefni að finna út hvar þau svæði eru sem á að styrkja úr þessum sjóði uppbyggingu t.d. farsímakerfisins. Ég tek því bara undir að það er ekkert gefið fyrir fram hvar þessi svæði verða eða hvar þau eiga að verða sem ríkissjóður í gegnum fjarskiptasjóðinn á að veita stuðning til uppbyggingar. En ég hef mikla trú á því að það ágæta fólk sem mun vinna að þessu, m.a. á vettvangi Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem eru okkar öflugustu sérfræðingar á þessum sviðum, muni leysa það verkefni. Ég tek undir það að farsímakerfin eru öryggiskerfi. Ég hef marglýst því yfir hér og við þurfum að vinna þetta í því ljósi.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson vakti athygli á því að hér væri ekki tilgreint hversu margir varamenn ættu að vera skipaðir í stjórnina. Ég tel sýnt að þeir ættu að geta verið jafnmargir og aðalmenn í stjórninni þó að það sé út af fyrir sig ekki alls staðar meginregla í stjórnum að varamenn séu jafnmargir. En samkvæmt frumvarpinu er það í valdi ráðherra hversu marga varamenn hann skipar í stjórnina.

Vegna þeirra athugasemda sem hv. þm. Jóhann Ársælsson gerði við þann texta sem hér er í almennum athugasemdum um að greiðslur úr sjóðnum eigi að vera í samræmi við forgangsröðun ríkisstjórnarinnar þá er ekki átt þar við að tvær fjarskiptaáætlanir eigi að vera í gangi heldur verðum við að sjálfsögðu að gera ráð fyrir því að greiðslur úr þessum sjóði séu í samræmi við fjármálastjórn ríkisins innan hvers fjárlagaárs þannig að þar sé öllu til skila haldið, þar sé góð reiða á fjármálum og þeir hlutir allir í góðu fari. Annað er ekki hugsað þarna. Það er ekki svo að það eigi að vera sérstök fjarskiptaáætlun ríkisstjórnarinnar sem er önnur en fjarskiptaáætlun sú sem Alþingi hefur fjallað um og samþykkt.

Virðulegur forseti. Ég held að ekki sé ástæða til að hafa þessi orð fleiri. Ég vil bara þakka fyrir ágætar undirtektir. Í grunninn heyrist mér að þeir ágætu þingmenn sem hér hafa talað séu sammála í raun. Ég undirstrika það sem kom fram hjá hv. þingmönnum Jónínu Bjartmarz og Siv Friðleifsdóttur að stjórnarflokkarnir hafa markað mjög skýra stefnu um að við viljum tryggja, um leið og við höfum selt með þvílíkum ágætum Símann, þessa þjónustu á sviði fjarskiptanna sem best um allt land þannig að við getum nýtt okkur til atvinnuuppbyggingar kosti fjarskiptakerfanna og getum nýtt okkur þá t.d. til þess að auka aðgengi almennings að menntun um landið allt og skapað þannig betri búsetuskilyrði í landinu.



[16:55]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra fór aðeins meira inn á hvernig þessi nýi fjarskiptasjóður starfar og ég tek undir það að mjög mikilvægt er að það markmið náist að byggja upp öflugt fjarskiptakerfi um allt land eins og fjarskiptaáætlun segir til um.

Eitt atriði finnst mér þó standa út af og vil heyra álit ráðherrans á því. Segjum að upp komi upp ágreiningur um hvort það að byggja upp ákveðin fjarskipti á viðkomandi svæði sé það óarðbært að ríkið eigi að koma þar að eða ekki. Við skulum taka sem dæmi GSM-þjónustu í Vestur-Húnavatnssýslu. Sjóðurinn segir að þetta sé það arðbært að fjarskiptafyrirtækin geti gert þetta. Fjarskiptafyrirtækin segja að þetta sé ekki nægilega arðbært til að þau geri það. Er hægt að skikka fjarskiptafyrirtækin til þess að setja upp þjónustu við þær aðstæður sem þarna um ræðir? Sjóðurinn telur að arðsemin sé næg en fyrirtækið segist ekki hafa áhuga á að gera þetta núna strax. Fjarskiptaáætlun segir að þetta eigi að gerast og til að fjarskiptaáætlun nái fram að ganga þarf að vera hægt að beita boðvaldi annars vegar gagnvart þessum sjóð og hins vegar gagnvart fjarskiptafyrirtækjunum. Eru lagaheimildir fyrir hendi til þess að beita fjarskiptafyrirtækin því boðvaldi?



[16:57]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sennilega þyrfti mjög mikið til að koma ef stjórnvöld gætu beitt boðvaldi. Af því að ég veit að hv. þingmaður þekkir vel til í landbúnaðinum, hvernig litist honum þá á sem gömlum bónda ef tilskipun kæmi frá landbúnaðarráðherranum um hversu mikið hann ætti að framleiða og hann ætti að framleiða það hvað sem það kostaði, hvort sem það væri arðbært eða óarðbært? Það liggur alveg fyrir að stjórnvöld geta ekki skikkað fjarskiptafyrirtækin til að byggja upp kerfi. Þess vegna tel ég engar líkur á því að gerð verði tilraun til þess. Ég held hins vegar að samkeppnin hjá fjarskiptafyrirtækjunum sé nægjanlega mikil til þess að ekki þurfi að beita þau neinum þrýstingi til þess að koma upp viðskiptatækifærum til þess að hagnast á þeim þar sem það er hægt. Ég held að hinn frjálsi markaður sem Adam Smith skrifaði svo ágætlega um á sínum tíma, og hv. þingmaður Vinstri grænna ætti að kynna sér alveg sérstaklega og rifja upp, muni sjá um þetta. Sóknin í viðskipti á sviði fjarskipta mun verða til staðar þar sem arðs er von.



[16:58]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir þau lokaorð hæstv. ráðherra að fjarskiptafyrirtækin muni náttúrlega leggja sig fram um að skapa þjónustu þar sem arðs er von. En þar sem arðs er ekki von munu þau náttúrlega ekki leggja sig fram.

Staðreyndin er sú að hér ríkir hreint fákeppnisumhverfi í fjarskiptum og á stórum hluta landsins ríkir hrein einokun í fjarskiptum, einkavædd einokun. Það er ekkert um að ræða neina frjálsa samkeppni sem drifkraft í stórum hluta landsins. Og hvaða samkeppni er það að vera kannski með eitt eða tvö meginfyrirtæki á hinum hluta landsins? Það er fákeppni, frú forseti. Ég verð að segja að sá heimur sem hæstv. ráðherra hrærist í varðandi það að samkeppniskrafturinn drífi áfram þjónustuna getur verið raunverulegur í meginþéttbýlinu. En út um land er hann ekki fyrir hendi og ekki er fyrirsjáanlegt að hann verði fyrir hendi á næstunni. Við munum þar standa frammi fyrir fákeppni og jafnvel einkavæddri einokun í fjarskiptum á stórum hluta landsins. Það verður vandi að sjá hvernig hægt er að tryggja jöfnuð um land allt hvað þetta varðar.



[17:00]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að á sumum hlutum landsins erum við í þeirri stöðu að nauðsynlegt er að ríkissjóður komi að fjarskiptaþjónustunni. Þess vegna er þetta frumvarp flutt og það er mergurinn málsins.

Við höfum markað mjög skýran ramma um hvernig skuli standa að þessu. Ég tel að samgöngunefnd, sem fær það hlutverk að fara yfir þessar hugmyndir og frumvarpið sem hér er til meðferðar, geti kallað til þá sem þekkja best til þessara mála til að skýra fyrirhugaða framkvæmd sem allra best. Ég er sannfærður um að hv. samgöngunefnd mun vinna það verk vel eins og annað sem hún tekur sér fyrir hendur.