132. löggjafarþing — 14. fundur
 3. nóvember 2005.
umræður utan dagskrár.

Aflaheimildir frá Vestfjörðum.

[14:02]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það dylst engum sem fer um sjávarbyggðir landsins að kvótakerfið hefur leikið byggðirnar grátt. Kerfinu var upphaflega komið á til þess að byggja upp þorskstofninn. Það markmið hefur ekki gengið eftir enda vafamál hvort þessi uppbyggingarfræði standi á traustum grunni. Staðan eftir 20 ára svokallað uppbyggingarstarf er að þorskafli nú er aðeins helmingur þess sem hann var áður en kerfið var tekið upp.

Frú forseti. Sjávarbyggðirnar hafa áratuga reynslu af ömurlegri stjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Af ræðu formanns Samfylkingarinnar á LÍÚ-þingi virðist sem sá flokkur sé að taka undir stefnu ríkisstjórnarinnar í fiskveiðimálum. Það er því deginum ljósara að til þess að koma á réttlátri og skynsamlegri fiskveiðistjórn þarf að efla Frjálslynda flokkinn.

Málflutningur hæstv. sjávarútvegsráðherra er algerlega óskiljanlegur þessa dagana ef hann er borinn saman við málflutning sama manns í gegnum árin. Fyrir kosningar hefur frambjóðandinn sem nú gegnir stöðu ráðherra boðað að hann mundi ekki styðja ríkisstjórn sem viðhéldi óbreyttu kvótakerfi. Samt sem áður hefur hann æ ofan í æ stutt breytingar þess til hins verra. Þessi sami maður boðaði fyrir síðustu kosningar að staðinn yrði vörður um sóknarkerfi minnstu handfærabáta landsmanna og þar áður að þorskaflahámarkskerfinu væri sérstaklega ætlað að styðja rétt hinna smærri sjávarbyggða. Hann hefur staðið að því að leggja hvort tveggja niður.

Öll framangreind loforð hefur hæstv. sjávarútvegsráðherra svikið. Og ekki nóg með það, nýi hæstv. sjávarútvegsráðherrann heldur því líka fram að mikil sátt ríki í sjávarútveginum. Allt leiðir þetta að líkum að því að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi ekki meint eitt eða neitt með málflutningi sínum í gegnum tíðina, hann hafi einfaldlega leikið tveim skjöldum til þess að blekkja kjósendur til fylgis við sig og Sjálfstæðisflokkinn.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra kennir sig stundum við Vestfirði og er rétt að fara yfir hvernig verk hans, sem hann er afar sáttur við, hafa leikið Vestfirðinga. Á þessu kjörtímabili studdi hann, eins og áður segir, kvótasetningu á handfæratrillum. Þess ber að geta að hann var ekki eini Vestfirðingurinn sem studdi þetta óhæfuverk gagnvart byggðunum, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Kristinn H. Gunnarsson studdu það jafnframt með ráðum og dáð.

Í Morgunblaðinu þann 19. október sl. segir frá því að í kjölfar kvótasetningar á trillum hafi aflaheimildir streymt frá útgerðum á Vestfjörðum. 1.840 tonn hafa farið frá landshlutanum en það svarar til þess að velta vestfirskra útgerða hafi minnkað um 250 millj. kr. Það er enn ískyggilegra að bera saman landaðan þorskafla á árinu 2004 og á fyrstu níu mánuðum yfirstandandi árs.

Tölurnar bera með sér að 4.000 tonnum minna var landað af þorski á Vestfjörðum á tímabilinu janúar til september í ár en á sama tímabili í fyrra sem var vel að merkja síðasta árið sem sóknardagakerfið var við lýði. Þetta svarar til þess að verðmæti landaðs afla á Vestfjörðum hafi minnkað um hálfan milljarð kr. Þess ber að geta að fleiri landshlutar hafa farið illa út úr þróun mála. Landaður afli á Vesturlandi hefur minnkað, og umtalsvert á Akranesi.

Ég beini þess vegna eftirfarandi spurningum til hæstv. sjávarútvegsráðherra:

1. Telur ráðherra að afnám sóknardagakerfis sem Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur stóðu að sé orsök mikils flutnings aflaheimilda frá Vestfjörðum?

2. Hvað má ætla að mörg störf hafi þar með flust frá Vestfjörðum?

3. Samkvæmt fréttum eru stærri útgerðir nú farnar að gera út báta í krókaaflamarkskerfinu í auknum mæli. Hvaða augum lítur hæstv. sjávarútvegsráðherra þá þróun? Telur hann hana jákvæða? Ef ekki, ætlar hann að bregðast við með einhverjum hætti?

4. Er hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála sáttur við stöðu mála í sjávarútvegi á Vestfjörðum?



[14:06]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað ljóst mál að heilmiklar breytingar hafa orðið í starfsumhverfi smábátaútgerðarinnar. Í meginatriðum er smábátaútgerðin núna í heild sinni sterkari en nokkru sinni áður. Aflaheimildir smábátaútgerðarinnar hafa vaxið ár frá ári. Við tókum þá ákvörðun á sínum tíma þegar ljóst var að lagaumhverfið var að breytast að auka veiðirétt smábátanna. Það hefur tekist, m.a. í þorski, ýsu og steinbít. Það sjáum við hvarvetna þar sem við lítum í kringum okkur.

Við höfum verið að reyna að gera ýmislegt fleira í þessu sambandi. Sett hefur verið á löggjöf sem lýtur að línuívilnun og það er alveg ljóst mál að sú línuívilnun hefur gagnast hinum minni sjávarbyggðum mjög vel, m.a. á Vestfjörðum. Við þurfum ekki annað en að skoða yfirlitið af reynslunni á síðasta fiskveiðiári sem ég lét taka saman. Það sýnir þetta ákaflega vel.

Tökum dæmi. Tálknafjörður með 184 tonn, Flateyri 413 tonn, Suðureyri 303 tonn, Bolungarvík 543 og Ísafjörður 160, Hólmavík 103. Allt er þetta auðvitað til þess fallið að styrkja stöðu smábátaútgerðarinnar. Vitaskuld er það þannig að smábátaútgerðin þróast og ýmsar breytingar verða í sambandi við hana. Við vitum t.d. að handfæraveiðarnar eru mjög háðar bæði tíðarfari og aflabrögðum á grunnslóð og við vitum að þetta umhverfi hefur ekki verið sérstaklega hagfellt fyrir handfæraútgerðina á síðasta fiskveiðiári. Það hefur auðvitað haft áhrif, m.a. þau að handfæraveiðin hefur dregist saman fyrir Vestfjörðum en aukist annars staðar. Handfæraveiðin hefur svo sem minnkað í heild sinni og línuaflinn aukist af ástæðum sem öllum eru ljósar sem þekkja eitthvað til í þessari atvinnugrein. Þetta hefur auðvitað haft einhver áhrif.

Engu að síður blasir það við sem staðreynd að smábátaútgerðin núna er miklu öflugri en áður. Og það sem máli skiptir er að við höfum líka verið að gera breytingar í þá veruna að gera mönnum kleift að gera út stærri báta í smábátakerfinu þar sem aðgangurinn hefur verið auðveldari og það hefur valdið því að margar útgerðir hafa stækkað og eflst sem gefur þeim jafnframt færi á að styrkja sig í aflamarkskerfinu. Það er m.a. sú þróun sem við sjáum verða á Vestfjörðum. Menn hafa verið að reyna að búa betur um sig í aflamarkskerfinu með stærri bátum til þess m.a. að styrkja vinnslugrundvöllinn sem skiptir miklu máli fyrir atvinnusköpunina á stöðum eins og Vestfjörðum.

Það hefur verið að takast. Við sjáum þróunina, við sjáum að aflamarkshlutdeildin á Vestfjörðum hefur verið að aukast. Það er vissulega vel. Við þurfum ekki annað en að skoða t.d. tilfærslurnar í þorskinum, þá blasir það við að í þorskinum hefur hlutur Vestfirðinga í aflamarkinu aukist. Það er rétt að hann hefur nokkuð gefið eftir í krókaaflamarkinu og það skýrist af því að menn hafa breytt þessum áherslum.

Menn hafa verið að tala um að miklar tilfærslur hafi orðið til Suðurnesja og það er alveg rétt í krókaaflamarkinu. Það skýrist fyrst og fremst af þremur bátum sem hafa komið mjög öflugir inn í krókaaflamarksútgerð í Grindavík. Það hefur auðvitað heilmikil áhrif þegar þrír bátar fá um 1.700 tonna krókaaflamarkskvóta í þorskígildum. Það breytir mjög miklu í þessu kerfi.

Ég tel, virðulegi forseti, ekki ástæðu til þess að bregðast við með neinum sértækum hætti. Ég tel hins vegar ástæðu til að standa vörð um það fyrirkomulag sem við höfum þróað, fyrirkomulag sem hefur verið örvandi og uppbyggjandi fyrir smábátaútgerðina, m.a. þessa línuívilnun sem auðvitað gerir það að verkum að menn fá forskot. Menn fá möguleika á því að búa um sig. Og það er athyglisvert að þrátt fyrir þessa uppbyggingu í smábátaútgerð, til að mynda á Suðurnesjunum, sem ég var hér að rekja, er það ekki smábátaútgerð sem byggir á því að njóta línuívilnunar. Þetta er smábátaútgerð sem byggir á svokölluðum beitningarvélabátum og nýtur ekki línuívilnunar. Ég hef staðið vörð um þetta fyrirkomulag af því m.a. að ég hef talið að það skipti máli fyrir atvinnusköpunina í minni sjávarbyggðunum að hafa línuívilnunina eins og hún er. Ég tel að ef við færum að víkka hana út mundum við flýta þeirri þróun í átt til samþjöppunar og flýta þeirri þróun sem mér fannst hv. þingmaður gagnrýna hér áðan.

Þess vegna vil ég segja það, virðulegi forseti, að auðvitað verða heilmiklar breytingar í smábátaútgerðinni. Við munum sjá það að handfæraveiði getur aukist og hún getur minnkað eftir aðstæðum. Kjarni málsins er hins vegar þessi: Mjög margt hefur verið gert til þess að búa betur að smábátaútgerðinni sem hefur skipt miklu máli á stöðum eins og Vestfjörðum. Það er hins vegar eðlileg þróun að útgerðarmenn í þeim flokki sem eru núna að koma betur undir sig fótunum sjái tækifæri og möguleika á því að stækka við sig, fá betri báta. Þannig hefur það verið í íslenskri útgerð og við höfum alltaf talið jákvætt að menn gætu farið af minni bátum á hina stærri, eflt þannig útgerð sína og tryggt m.a. hráefnisöflunina fyrir fiskvinnsluna.

Ég trúi því ekki að hv. þingmaður hafi talað með þeim hætti sem hann gerði hér áðan vegna þess að hann hafi áhyggjur af þeirri þróun að menn færi sig yfir á stærri báta, auki aflamarkið og auki möguleikana þegar það blasir við t.d. (Forseti hringir.) að Vestfirðir eru núna að auka aflamark sitt í þorski á milli ára vegna þess að þeir eru að ná vopnum sínum (Forseti hringir.) í stærri útgerð en áður.



[14:12]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Nýr sjávarútvegsráðherra kemur af Vestfjörðum og hann telur það sitt helsta hlutverk að sannfæra húsbændur sína um það að hann ætli ekki að breyta neinu í sjávarútvegsmálum. Þó veit hann manna best að nánast engin nýliðun hefur verið í útgerð á undanförnum árum, alveg frá 1990, nema í gegnum göt á kerfinu. Og fyrir tveimur árum lokuðu menn síðasta gatinu.

Nú er það þannig að veiðiheimildirnar sem var breytt úr dagaleyfum yfir í krókaaflamarkið eru farnar að renna býsna hratt frá Vestfjörðum, t.d. runnu 35% af þessum heimildum úr Barðastrandarsýslunni á síðasta ári, 19% úr Ísafjarðarsýslu og 13% frá Ströndum. Þegar hæstv. ráðherra talar um að smábátaútgerð hafi aukist og eflst skulu menn ekki gleyma því að vertíðarflotinn er horfinn, þetta smábátakerfi kom í staðinn fyrir grunnslóðarflotann sem var hér við landið. Og það er ekki nálægt því að sá floti sé sambærilegur við þann grunnslóðarflota sem fyrir var.

Eina bjargráð hæstv. ráðherra er byggðakvóti og línuívilnun. Byggðakvótinn er þannig að menn koma til þess að hjálpa þegar allt er á þrotum og allt er í vandræðum. Það er ekki mikil von í framtíðinni í gegnum byggðakvóta, það hafa menn séð í gegnum tíðina. En þeirri iðju vilja menn halda áfram. Þetta er eyðibyggðastefna, hún hefur verið rekin í mörg ár en nú er komið að því að menn munu ekki sjá neina nýliðun í útgerð á Íslandi eftir að menn lokuðu fyrir götin.

Hæstv. ráðherra þarf að gera betur. (Forseti hringir.) Hann þarf að segja fólkinu á Vestfjörðum og víðar hvaða framtíð er í því að búa á þessum stöðum þar sem útgerð hefur verið rekin.



[14:14]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi, um stöðu fiskveiða á Vestfjörðum. Sjávarbyggðirnar á Vestfjörðum og reyndar vítt og breitt um landið urðu til einmitt vegna nálægðarinnar við fiskimiðin. Það voru ekki síst íbúarnir, landverkafólkið og hinn almenni sjómaður, sem nýttu þessa auðlind, veiddu fiskinn, verkuðu hann í landi, komu honum á markað og gerðu úr honum verðmæti sem lagði grunn að þjóðarauð okkar í dag og byggir enn undir hann. Það var því fullkomið óréttlæti og vegið að mannréttindum þessa fólks þegar rétturinn til veiða var að fullu færður með lögum til einstakra útgerðaraðila og bátaeigenda en íbúarnir skildir réttlausir eftir. Sérstaklega tók steininn úr þegar fiskveiðiheimildirnar voru svo gerðar framseljanlegar að fullu og íbúarnir stóðu varnarlausir eftir.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill efla dagróðraflotann og að hluti fiskveiðiheimildanna, einkum á grunnslóð, verði bundinn byggðunum. Þannig verði best tryggð sjálfbær nýting auðlindarinnar á þjóðhagslega hagkvæmastan hátt.

Sú staðreynd að bara á síðasta ári eða síðan krókaaflamarkskerfinu var breytt og sóknardagakerfið lagt niður hafi 1.840 tonn flust af Vestfjörðum segir okkur hve fullkomlega berskjaldaðir íbúarnir á þessu svæði standa gagnvart þeim aðgerðum sem eigendur kvótans geta gripið til. Er það réttlæti, frú forseti? Nei, mér finnst það ekki réttlæti. Íbúarnir, landverkafólkið og sjómennirnir eiga sinn rétt og það er hann sem þarf að ná til baka.



[14:17]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegur forseti. Það má segja um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi að það er langt frá því að vera fullkomið frekar en önnur mannanna verk. Ég er þeirrar skoðunar að gera þurfi á því verulegar breytingar, sérstaklega þær sem opna fyrir möguleika nýrra aðila til að koma inn í greinina og keppa við þá sem eru þar fyrir.

Ég vil aðeins rifja upp söguna af því að hv. þm. Sigurjón Þórðarson fór mikinn í ásökunum í annarra garð um að hafa komið kvótakerfinu á. Þeir sem stóðu að því í upphafi, árið 1983, voru ekki bara þáverandi stjórnarflokkar, Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, heldur líka öll helstu hagsmunasamtök útgerðarmanna og sjómanna. Kerfinu var komið á vegna atbeina þeirra en ekki manna í þingsölum. Við skulum ekki gleyma því. Einn af þeim sem getur frætt hv. þingmann um þessa sögu er þáverandi formaður Farmanna- og fiskimannasambandsins, Guðjón Arnar Kristjánsson, sem nú er formaður Frjálslynda flokksins og stóð að því ásamt fleirum að biðja um kvótakerfið í upphafi. Ég er ekki að segja það hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni til lasts á einn eða annan hátt. Þetta er bara söguleg staðreynd og hann er fullfær um að skýra hana sjálfur. En hv. þm. Sigurjón Þórðarson þarf að kunna þá sögu líka.

Í öðru lagi held ég að menn megi hafa það í huga að þegar ákveðið var að gera þá breytingu og gera kerfið framseljanlegt þá stóðu fleiri að því en Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn. Það voru líka Borgaraflokkurinn, Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið. Til að klára söguna vil ég minna á að Frjálslyndi flokkurinn hefur sem aðalstefnu í fiskveiðimálum að viðhalda kvótakerfinu. Gleymum því ekki.



[14:19]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er afar nauðsynlegt að ræða þróun sjávarútvegs og fiskveiðistjórnar hér á landi vegna þess að lögin um fiskveiðistjórn hafa mikil áhrif á stöðu fólks í landinu, einkum þess sem hefur búið og starfað í sjávarbyggðunum. Um þetta hafa verið unnar merkar skýrslur. Ég er hér með eina, Áhrif kvótasetningar aukategunda hjá krókabátum á byggð á Vestfjörðum, sem unnin er 2001 af Byggðastofnun, þróunarsviði Byggðastofnunar. Ég held að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson hafi beitt sér fyrir því að þessi skýrsla var unnin. Hún segir afar skýrt að það sem muni gerast ef þetta gangi eftir, þ.e. sú stefna stjórnvalda sem hefur gengið eftir, muni störfum í fiskvinnslu fækka um 93 og störfum við sjómennsku, beitningu og önnur störf sem tengjast útgerð um 160–200 á Vestfjörðum. Þetta var sérstök skýrsla unnin fyrir Vestfirði.

Ég hygg að þetta hafi því miður gengið eftir hvað svo sem menn segja um að einhverjir í kerfinu hafi náð vopnum sínum. Það gerist einfaldlega þegar búið er að taka upp algerlega frjálst framsal í kvótakerfum að þá ná einhverjir að hagnast og einhverjir að bæta við sig. En það sem eftir stendur er algert óöryggi fólksins í byggðarlögunum, algert óöryggi íbúanna. Ég tel að menn hafi séð þetta nokkuð snemma. Ég veit það a.m.k. að við í Farmanna- og fiskimannasambandinu árið 1990 mótmæltum alveg sérstaklega því frjálsa framsali sem þá var verið að taka upp og vöruðum við hvert það stefndi. Það mundi stefna að atvinnuóöryggi, það mundi stefna að því að fólk í byggðarlögunum hefði ekki atvinnu af sjósókn o.s.frv. Allt hefur það gengið eftir, því miður.



[14:21]
Einar Oddur Kristjánsson (S):

Frú forseti. Málshefjandi í þessari umræðu spyr: Telur ráðherrann að afnám Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins á sóknardagakerfinu hafi orsakað þetta? Þetta er sögufölsun. Þetta var ekki baráttumál Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins. Þessi breyting var gerð vegna samkomulags og samninga við Landssamband smábátaeigenda. Það voru þeir sem stóðu fyrir þessu, þetta var vilji þeirra. Þannig var þetta gert.

Hv. þm. Sigurjón Þórðarson á allar heimildir um hvað gerst hefur í þinginu og getur flett því upp og hefur eflaust gert það. Því er óþarfi, virðulegur forseti, að hann komi hér segjandi ósannindi. Það liggur alveg fyrir hvernig menn greiddu atkvæði um þetta.

Ég er einn af þeim mönnum sem hafa trú á því og hafa haldið því fram lengi að þekkingin og vísindin eigi eftir að leiða til þess að við getum reynt að stunda veiðarnar þannig að við vitum hvað og hvernig við erum að veiða og hvenær og hvar við erum að veiða. Það var þess vegna sem ég taldi óráð að breyta þessu og greiddi því ekki atkvæði þó að hv. þm. Sigurjón Þórðarson kjósi að ljúga því viljandi að þingmönnum. Hins vegar hefur þetta engu breytt. Ég hef ekki ástæðu til að halda að þetta hafi breytt neinu. Það er ekki svoleiðis. (Gripið fram í.) Aflamarkið hefur aukist á Vestfjörðum og krókaaflamarkið minnkað. Það mun ganga þannig upp og niður og er alveg ástæðulaust að ætla að það hafi nokkur örlagaáhrif fyrir útgerð á Vestfjörðum. Það er allt annað sem við þurfum að ræða á Alþingi núna um afkomu sjávarútvegsins en þetta sem engu máli skiptir. En það er venjulega þannig að menn vilja hræra í einhverju og tala um hégóma í staðinn fyrir að ræða um að útgerðin er í stórkostlegri hættu vegna þeirrar peningastefnu sem rekin er í landinu.



[14:23]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Mikil breyting hefur orðið eftir að sóknarkerfið var lagt af. Bátum hefur fækkað talsvert mikið og það er ansi mikil fækkun á smábátum þegar maður sér upplýsingar um að þeim hafi fækkað um 108 á einu ári.

Umsvifin víða úti um land hafa minnkað talsvert með þessu breytta sóknarferli. Þau miklu umsvif og sú mikla atvinna sem fylgdi því þegar sóknardagabátarnir komu á ákveðna staði úti á landi er horfin. Við sjáum nú allt annað munstur á veiðum smábáta en við gerðum meðan dagakerfið var við lýði. Það sem við sjáum líka af þeim upplýsingum sem fyrir liggja er að viðskipti með kvótann í krókaaflamarkskerfinu hafa farið ansi hratt af stað. Sjá má að á þessu eina ári hafa yfir 2.000 tonn af þorski skipt um eigendur og um 5.000 þorskígildistonn. Það er ansi stór tala á ekki lengri tíma.

Við vitum að aðilar í stóra kerfinu sem við köllum svo, aflamarkskerfinu, eru farnir að líta hýru auga til þessara heimilda sem eru í smærra kerfinu því þorskur er jú þorskur burt séð frá því í hvaða kerfi hann er veiddur og skiptir ekki öllu máli þegar hann er kominn á borð fiskvinnslu hvort hann var veiddur í smærra kerfinu eða því stærra.

Það er afskaplega mikilvægt að ekki er hægt að flytja kvóta úr krókaaflamarkskerfinu yfir í aflamarkskerfið eða stóra kerfið en við hljótum að þurfa að velta því alvarlega fyrir okkur hvort nauðsynlegt sé að setja sérstakt kvótaþak í krókaaflamarkskerfinu því ef við horfum bara á kvótaþakið sem almennt er í fiskiveiðistjórnarlögunum, 12% í þorski, þá sýnist mér að á tiltölulega stuttum tíma geti tiltölulega fáir aðilar safnað að sér öllum smábátakvótanum og þá eru farin fyrir lítið rökin um að smábátarnir séu byggðaaðgerð og að við eigum að halda kerfinu sérstaklega fyrir þá og ekki sé hægt að flytja kvóta upp í stóra kerfið. Því langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Kemur til greina að setja sérstakt kvótaþak í krókaaflamarkskerfinu?



[14:26]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það er ekki aðeins að fiskveiðiheimildirnar hafi verið gerðar framseljanlegar að fullu og þar af leiðandi réttindi íbúanna á Vestfjörðum og í sjávarbyggðunum vítt og breitt um landið verið fyrir borð borin heldur er sú staða í efnahagsmálum þjóðarinnar að einnig af þeim ástæðum er fiskveiðum og fiskvinnslu á þessum stöðum nú ógnað.

Við þingmenn Norðvesturkjördæmis erum nýkomnir úr ferð um svæðið og hittum sveitarstjórnarmenn og fulltrúa atvinnulífsins á þessum stöðum. Það er svo greinilegt að sú hágengisstefna sem rekin er af hálfu ríkisstjórnarinnar — dollarinn kominn niður fyrir 60 kr. og gengisvísitalan snertir 100 en þyrfti að vera a.m.k. 125 til þess að einhver samkeppnisgrundvöllur væri — gengur ekki gagnvart útflutningsgreinunum. Ég held að ríkisstjórnin verði að fara að svara því hvort hún ætli að keyra þessa stefnu áfram með þeim afleiðingum sem það hefur, að rústa grundvallarútflutningsatvinnugreinum þjóðarinnar. Ef svo er þá er hún virkilega orðin óheillaríkisstjórn.

Ruðningsáhrif stóriðjustefnunnar geta líka verið af því góða sagði iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins við Vestfirðinga, þegar verið var að segja þeim tugum ef ekki hundruðum saman upp og loka fiskvinnslunum þeirra. Það voru kveðjur Framsóknarflokksins til Vestfirðinga.

Frú forseti. Það sem er að gerast gagnvart útflutningsatvinnugreinunum vítt og breitt um landið er alvörumál ef þessi efnahagsstefna, þessi gengisstefna á að ganga fram.



[14:28]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Þetta er afskaplega einkennileg umræða, annars vegar uppleggið og að ég tali nú ekki um síðustu ræðu. Verið er að ræða um sjávarútveg og að vanda er hv. þm. Jón Bjarnason kominn upp á miðja Kárahnjúka í umræðu um sjávarútveg á Vestfjörðum. Er nema von að hægt gangi í málefnalegri umræðu um sjávarútveg þegar lagt er upp með, eins og hv. þm. Sigurjón Þórðarson gerir, að ræða eingöngu um sjávarútveg á Vestfjörðum og draga síðan einstaka þingmenn inn í þá umræðu á persónulegum nótum? Ég verð að segja, frú forseti, að mér finnst þetta alveg á mörkunum að vera tækt til utandagskrárumræðu sérstaklega. Ég hefði haldið að hér ætti að ræða um sjávarútveg, um greinina í heild sinni, og þegar rætt er sérstaklega um flutning aflaheimilda frá Vestfjörðum þá hlytu menn líka að ræða um flutning afla til Vestfjarða. En af því að línuívilnun var nefnd sérstaklega þá hafa menn reiknað það út að með þeirri ákvörðun, sem e.t.v. voru mistök, hafi einmitt orðið tilfærsla á aflaheimildum til Vestfjarða. Og eiga menn þá ekki að taka það inn í umræðuna?

Frú forseti. Það sem skiptir auðvitað mestu máli er að ræða um greinina í heild sinni. Það er eins og það fari oft fram hjá hv. þingmanni að ýmsar tækniframfarir hafi orðið í sjávarútvegi, til allrar hamingju. Það er eins og það hafi farið fram hjá hv. málshefjanda að ýmislegt er að gerast í sjávarríki okkar. Því miður hefur ekki tekist að fá upp fiskstofna, hvorki hér né annars staðar í Norður-Atlantshafi og er þó ástand þeirra líklega hvað skást hjá okkur. Það er sannarlega ekki mál sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson mun stjórna með málflutningi sínum eða öðru. Það sem við hljótum að þurfa að ræða er: Hvað er það sem skapar skilyrðin í sjónum og með hvaða hætti eigum við að bregðast við þeim? En fyrir alla muni ekki með þeim málflutningi sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson heldur hér uppi nú sem oftast.



[14:30]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þó svo að hv. þingmenn Framsóknarflokksins átti sig ekki á mikilvægi þessarar umræðu skiptir sjávarútvegur töluvert miklu máli fyrir Vestfirði. Þess vegna ber okkur að ræða það þegar mikið rask verður á sjávarútvegsmálum á Vestfjörðum. Mér finnst það ekki vera lítilvægt mál en það er greinilegt að Framsóknarflokknum finnst það, a.m.k. hv. þingflokksformanni.

Það sem er alvarlegt í þessu máli er að við í Frjálslynda flokknum vöruðum við þessari þróun, við vöruðum þingmenn Vestfirðinga við þessu. Við vöruðum hv. þm. Einar Odd Kristjánsson við þessari þróun. (EOK: … ósatt.) Hvernig brást hann við? Ekki greiddi hann atkvæði á móti. Við vöruðum hv. þm. Kristin H. Gunnarsson við og við vöruðum núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra við þeirri þróun sem síðan varð. Það er ekki hégómi, hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, að tala um minnkun á tekjum á Vestfjörðum um 500 milljónir eins og hefur orðið vegna aðgerða þeirra þingmanna sem stóðu að þessu máli. (EOK: Þetta er ósatt ...) Ég hef orðið hér, hv. þingmaður. Ég vek einnig athygli á því að hæstv. sjávarútvegsráðherra svaraði ekki þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann. Hann var ekki að heyra þær í fyrsta skipti, hann fékk þær sendar með tölvupósti í gær og ég vonast til þess að hann sjái sóma sinn í því að svara þeim fyrirspurnum sem lagðar eru fyrir hann.

Málið er að þegar verið er að spyrja út í sjávarútveg á Vestfjörðum þýðir ekkert að leggja á flótta í umræðunni og ræða um sjávarútveg vítt og breitt um landið, og smábáta hér og þar. Það er verið að spyrja um áhrif stjórnvalda á sjávarútveg á Vestfjörðum vegna aðgerða sem farið var í á þessu kjörtímabili og ég óska eftir því að hæstv. sjávarútvegsráðherra sem kennir sig stundum við Vestfirði svari þeim fyrirspurnum sem lagðar eru fyrir hann.

(Forseti (JBjart): Forseti beinir því til hv. málshefjanda, hv. þm. Sigurjóns Þórðarsonar, að beina orðum sínum til forseta en ekki til þingmanna sem sitja í sal.)



[14:33]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það getur vel verið að málshefjanda líki það ekki þegar reynt er að varpa ljósi á alla myndina. Það getur vel verið að honum finnist að menn eigi ekki að reyna að skoða hlutina í heild sinni eða í samhengi en það verður þá bara að hafa það. Ég vil hins vegar reyna að skoða þessa hluti í samhengi.

Hv. þingmaður hefur talað mjög mikið um dagabátana og þegar það kerfi var lagt niður. Það er eins og hv. þingmaður telji að ekkert hafi komið í staðinn. Veit hv. þingmaður t.d. ekki að veiðiréttur smábátanna, dagabátanna, var tryggður þannig að þeir fengu mjög miklar aflaheimildir? Ég hef helst orðið var við það upp á síðkastið að við höfum verið (Gripið fram í.) gagnrýndir fyrir að of miklar aflaheimildir hafi verið látnar til dagabátanna í staðinn (Gripið fram í.) fyrir dagana sem þeir misstu. Hv. þingmaður ætti að taka eftir því, og það er auðvitað algerlega rangt hjá honum.

Ég vek athygli á því varðandi dagabátana sérstaklega að þegar greidd voru atkvæði um þessa löggjöf var hún samþykkt. Menn sátu hjá og einungis fjórir voru á móti þannig að það er ekki eins og að hér hafi verið bullandi andstaða við þessar breytingar. Það var ekki þannig. Það voru fjórir menn á móti, aðrir sátu hjá eða greiddu þessu atkvæði og síðan var málið samþykkt. Það er auðvitað ljóst mál að dagabátarnir fengu síðan í sínar hendur heilmiklar aflaheimildir sem þeir hafa nýtt með ýmsum hætti.

Þróunin er mismunandi milli verstöðva. Það sjáum við m.a. á Vestfjörðum. En hitt blasir líka við, eins og við nefndum áðan, að aflamarksbátarnir á Vestfjörðum hafa styrkt stöðu sína. Það þarf ekki annað en að skoða t.d. þróunina varðandi þorskinn á Vestfjörðum, þá blasir þetta við. Vestfirðingar hafa verið að styrkja stöðu sína að þessu leytinu í aflamarkskerfinu vegna þess að smábátakerfið hefur gefið þeim forsendur og möguleika til þess að byggja sig upp í stærri útgerðum. Við töldum það alltaf, og höfum alltaf talið, að það væri gott að menn gætu gert út stærri og öflugri báta. Sú hefur verið þróunin í íslenskum sjávarútvegi. En nú gerist það allt í einu að hér er upp sprottinn flokkur sem greinilega er á móti því að menn geti byggt sig upp og komist á stærri báta, er á móti því, hefur sérstaklega lagt sig fram um að tala gegn því þegar þessi þróun blasir við.