132. löggjafarþing — 15. fundur
 4. nóvember 2005.
umræður utan dagskrár.

Málefni Listdansskóla Íslands.

[10:32]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Síðan þing kom saman hef ég beðið eftir tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. menntamálaráðherra um þá fljótfærnislegu og illa grunduðu ákvörðun hennar að leggja Listdansskóla Íslands niður. Ég fæ ekki betur séð en að óðagot og flumbrugangur ráðherrans stefni listnámi á Íslandi í voða því að nú hafa listdansnemar bæst í hóp með tónlistarnemum svo sífellt stækkar hópur þeirra ungu listnema sem eru uggandi um sinn hag. Hæstv. ráðherra geysist yfir uppeldisstöðvar listamanna með mætti eyðileggingarinnar svo það var ekki langsótt samlíkingin sem formaður Bandalags ísl. listamanna kaus að nota í Morgunblaðsgrein á dögunum á þeim tíma sem fellibylurinn Katrín gekk yfir suðurríki Bandaríkjanna.

Ég vil taka það fram að mér er vel kunnugt um nýja námsbraut í Listaháskóla Íslands í listdansi en stend engu að síður við þessi orð mín því allt sem heitir heildstæð nálgun, yfirvegun og samráð við fagaðila skortir í ákvarðanir ráðherrans í þessum efnum. Ég óska því eftir, frú forseti, að við þessa umræðu svari hæstv. ráðherra því hvað í ósköpunum vakir fyrir henni með einhliða ákvörðun um að leggja Listdansskóla Íslands niður og hvers vegna hún hafi ekki lyft litla fingri til að hafa samráð þar um.

Hverjar eru svo hugmyndir hæstv. ráðherra um framtíð listdansmenntunar á Íslandi? Í fjölmiðlum hefur hún látið hafa eftir sér að Menntaskólinn við Hamrahlíð geti komið þar að málum eða bara einhverjir aðrir framhaldsskólar sem kjósi að hafa listdans á kennsluskrá sinni. Og ef þetta vefst eitthvað fyrir þeim geti þeir bara samið um listdanskennslu við einkaaðila. Hæstv. forseti. Heyr á endemi. Þvílík fáfræði um ytri umgjörð og tæknilega aðstöðu listdanskennslu á Íslandi að halda að hún geti bara farið fram í hvaða leikfimisal sem er. Menntaskólinn við Hamrahlíð hefur ekki einu sinni leikfimisal, hann er búinn að bíða eftir íþróttahúsi í yfir 30 ár. Og hvað ætlar ráðherrann svo að vera örlátur á tímafjölda í væntanlegri námskrá í þessu nýja fyrirkomulagi sínu? Ætli hún geri ráð fyrir því að hægt verði að hægt verði að dvelja í 15 kennslustundir á viku við æfingar eins og ungir listdansnemar gera í dag og fá það að fullu metið? Auðvitað ekki. Hún ætlar auðvitað að fara sömu leið og með tónlistarnemana, þ.e. að greiða einungis fyrir þær einingar sem teljast gildar til stúdentsprófs og foreldrar hinna upprennandi listamanna geta svo bara greitt það sem upp á vantar.

Frú forseti. Það er ábyrgðarhluti að kenna upprennandi listamönnum og uppeldi þeirra hefst snemma á lífsleiðinni þó aldrei eins snemma og hjá dönsurum. Sérstaða þeirra í flóru listamanna er sannarlega ótvíræð. Þeir hefja iðulega nám við 5–6 ára aldur og framtíð þeirra er jafnvel ráðin við 9 eða 10 ára aldurinn. Oft eru þeir farnir að vinna fyrir sér 16–17 ára gamlir og svo er starfsævi þeirra lokið við fertugsaldur.

Frú forseti. Þessir ungu listamenn eru fókuseraðir á allt annað en það hversu mikið af listdansnámi þeirra fæst metið sem einingar til stúdentsprófs. Mér sýnist augljóst að hæstv. menntamálaráðherra stjórnist af þráhyggju einni saman í þessu máli. Hún hefur í heiðri flokkslínuna um niðurskurð ríkisútgjalda og trúarsetninguna um að einkaaðilar geti gert allt betur en ríkið og hún sér álitlegt fórnarlamb í Listdansskóla Íslands.

Nú stendur hún að vísu frammi fyrir þeim vanda að það brást enginn einkaaðili við útspili hennar, enda vita þeir sem nú starfa á þessum akri að mikils er þörf. Þeir trúa sennilega ekki heldur að nauðsynlegir fjármunir komi til með að fylgja verkefninu. Mér kæmi þó ekki á óvart að hæstv. ráðherra lofi þeim sem vilja taka við Listdansskólanum gulli og grænum skógum úr opinberum sjóðum, því í praxís hefur einkavæðing Sjálfstæðisflokksins farið þannig fram að einkaaðilar fá þær upphæðir sem hinar opinberu stofnanir hafa tekið til sín og arðsemiskröfuna að auki. Þannig höndla sjálfstæðismenn með niðurskurð ríkisútgjalda.

Það veldur hæstv. ráðherra líka trúlega nokkrum vanda að hún hefur fengið dansara og aðra listamenn upp á móti sér og er hún úr þeirri átt sökuð um harkalegar aðgerðir, óbilgirni og skort á samráði. Frú forseti. Hljómar þetta ekki svipað og ásakanir framhaldsskólakennara sem nú eiga í stríði við hæstv. ráðherra vegna skerðingar náms til stúdentsprófs? Vilji hæstv. menntamálaráðherra að fram fari fagleg og málefnaleg endurskoðun á framkvæmdinni við undirstöðunám í listgreininni þá á hún að sjálfsögðu stuðning allra þeirra sem vinna að málefnum listdans á Íslandi. En hæstv. menntamálaráðherra kýs að fara aðra leið og á meðan fjarar undan Listdansskólanum. Nemendur og foreldrar eiga að kveljast í óvissu um framtíðina.

Frú forseti. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að endurskoða ákvörðun sína og styrkja stöðu Listdansskóla Íslands til framtíðar í stað þess að leggja hann niður. Hún skuldar listunum í landinu það.



[10:37]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Tilefni þessarar utandagskrárumræðu er sú ákvörðun mín sem menntamálaráðherra að vinna að breytingum á skipulagi listdanskennslu á framhaldsskólastigi og færa skipulag hennar til þess sem er við lýði um nám á framhaldsskólastigi og til þess forms sem gildir og mun gilda um annað listnám. Í kjölfar þess að sú ákvörðun var kynnt hefur komið fram nokkur gagnrýni á þessa fyrirætlan og látið í veðri vaka að hér sé um að ræða ráðstöfun sem muni veikja allan grundvöll fyrir listdansnámið í landinu. Svo er að sjálfsögðu ekki, eins og ég mun nú gera nánar grein fyrir.

Það hefur verið stefna mín sem menntamálaráðherra að skipulag listnáms á framhaldsskólastigi fylgi þeirri meginreglu að nám á því skólastigi verði á forræði viðurkenndra framhaldsskóla sem bjóða upp á nám til lokaprófs á framhaldsskólastigi samkvæmt aðalnámskrá. Miðað er við að kennsla í bóklegum þáttum námsins fari fram í framhaldsskólum en verkleg kennsla eftir atvikum í viðkomandi skólum eða í samstarfi við aðila sem uppfylla kröfur samkvæmt gildandi námskrá.

Með þeirri ákvörðun sem liggur fyrir mun fyrirkomulag listdanskennslu verða gert hliðstætt því sem tíðkast varðandi kennslu í öðrum listgreinum á framhaldsskólastigi. Samkvæmt þessari stefnu er miðað að því að sérskólar á listasviði geti starfað með sjálfstæðum hætti án þess að þeir lúti forræði opinberra aðila. Um leið er þeim ætlað það hlutverk að veita nemendum í listgreinum menntun hver á sínu sviði, menntun sem er viðurkenndur hluti af námi þeirra á framhaldsskólastigi, hvort heldur námið er bundið við kjörsvið á tilteknu listgreinasviði eða áfangar eru teknir sem stakir valáfangar. Með þessu vinnst það að námsframboð og valfrelsi nemenda einskorðist ekki við það nám sem sá framhaldsskóli sem þeir stunda nám í hefur í boði. Þetta nýtist ekki síst litlum skólum og skólum sem af öðrum ástæðum hafa ekki getað boðið upp á verklegt nám eða mjög sérhæft. Þessu fyrirkomulagi er ætlað að tryggja sveigjanleika í starfi framhaldsskólanna og um leið valfrelsi nemendanna. Samhliða þessu er gert ráð fyrir að til verði sérskólar sem geti sérhæft sig á einstaka sviðum. Með samstarfi við fleiri framhaldsskóla verði þannig tryggt að fámenni á þessum námsbrautum í einstaka skólum verði ekki til þess að draga úr gæðum menntunarinnar og kennslunnar. Um leið verði sjálfstæðum skólum er uppfylla kröfur um gildandi námskrá á sviði listgreina, svo sem tónlistarskólum, listdansskólum eða öðrum skólum, skapaður betri og tryggari grundvöllur fyrir starfsemi sína bæði í faglegu og fjárhagslegu tilliti. Þessir skólar geta jöfnum höndum starfað í samstarfi við framhaldsskólakerfið eða á eigin forsendum og ábyrgð og boðið upp á nám í viðkomandi greinum á almennum markaði hvort sem er í formi heildstæðs náms eða námskeiða. Ég efast ekki um, virðulegi forseti, að þessi stefna er skynsamleg og hún er í þágu nemendanna og langtímahagsmuna þeirra listgreina sem í hlut eiga.

Í ráðuneytinu er verið að leggja lokahönd á námsgrein í listdansi í samráði við fagaðila í greininni. Væntingar standa til þess að kennsla hefjist samkvæmt þeirri námskrá þegar á næsta ári. Það skiptir miklu máli að námi þeirra nemenda sem nú stunda nám við Listdansskóla Íslands eða munu stunda listdansnám sé sköpuð sú umgjörð með námskrá og skipulagi sem er nauðsynleg ef tryggja á að listdans þróist hér áfram af þeim metnaði sem einkennt hefur þróun undanfarandi ára.

Ég hef hlustað á þær áhyggjuraddir sem fram hafa komið á undanförnum missirum um brotthvarf Listdansskóla Íslands. Að brotthvarfið kunni að fela í sér að verið sé að skerða möguleika og getu okkar ágæta menntakerfis til að bjóða upp á frambærilegt nám í listdansi, að menntunartækifærin verði fábreyttari og takmarkaðri. Ég vil lýsa því sérstaklega yfir að ég mun gera það sem nauðsynlegt er til að tryggja að svo verði ekki.

Sú breyting sem stefnt er að er ekki gerð í sparnaðarskyni. Við ætlum að tryggja að umgerð námsins verði treyst og að námið fái tryggari viðurkenningu og sess innan framhaldsskólastigsins. Ef ríkið þarf að koma tímabundið að því að tryggja viðhlítandi tækifæri og framhald á námi þeirra sem nú stunda nám við Listaháskóla Íslands þannig að þeir geti stundað námið samkvæmt komandi námskrá þá mun ég tryggja að svo verði.

Ég get enn fremur upplýst það, virðulegi forseti, að skólar sem staðið hafa fyrir listdanskennslu um áraraðir hafa haft samband við ráðuneytið og lýst yfir vilja til að taka upp kennslu samkvæmt nýrri námskrá. Auk þess hafa verið í gangi samræður milli fulltrúa ráðuneytisins og nokkurra núverandi starfsmanna Listdansskóla Íslands. Þeir hyggjast setja á stofn skóla sem starfi samkvæmt námskrá og munu leita eftir samstarfi við skóla sem hyggjast bjóða upp á listnámsbraut eða listdans sem val. Slíkur skóli mundi vitanlega einnig bjóða upp á nám fyrir yngri nemendur og ég vonast til þess að sveitarfélögin veiti þessari starfsemi stuðning líkt og sum þeirra gera nú þegar.



[10:42]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er ekki bara undarlegt heldur hryggilegt að hlusta á hæstv. menntamálaráðherra koma hér upp með öll sín mál í klúðri. Þetta hófst í sumar, sennilega um mitt sumar, með því að rætt var við stjórnendur skólans. Það var ekki rætt við starfsmenn fyrr en um miðjan ágúst og þá fyrst fengu foreldrar barna og áhugamenn um listdans og listdansarar að vita að ráðherrann hafði fengið þá hugmynd og tekið ákvörðun samkvæmt henni um að leggja skólann niður. Hvað átti að taka við? Það var óljóst. Og það er enn þá jafnóljóst hvað á að taka við.

Nokkrir skólar hafa sett sig í samband við ráðherrann og ráðherrann hefur haft samband við nokkra starfsmenn Listdansskólans. Þetta er staðan núna í nóvember. Fjárveitingar á fjárlögum endast fram að áramótum og þá þarf nýtt að taka við. Hvar eru þær fjárveitingar í fjárlögum til framhaldsmenntunar? Þær eru hvergi, nema starfsmaður hæstv. menntamálaráðherra bendir á óljósan safnlið sem muni vera hægt að taka úr. Hvar á þessi listdanskennsla að fara fram? Enginn veit það. Menntaskólinn í Hamrahlíð, sagði ráðherrann í sumar. Ekkert hefur heyrst um það, af því að þar á að vera nýtt íþróttahús sem er svo vel fallið til að dansa ballett í. Verslunarskólinn hefur nú talað. Ekkert er ljóst um það og það sem hæstv. menntamálaráðherra gleymdi algerlega í ræðu sinni er að Listdansskólinn nær yfir ein 8–10 ár, 5–6 ár af þeim eru á grunnskólastigi. Það er auðvitað erfitt að skipta svona námi en þessi ár eru talin vera á grunnskólastigi. Hvað sagði menntamálaráðherrann um grunnskólastigið? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Hvers vegna gerði hún það ekki? Vegna þess að hún hefur ekkert rætt við sveitarfélögin um listdans í grunnskólunum.

Það er skrýtið að það eru ekki hagsmunir áhugamanna um listdansinn eða staða listdansins í samfélaginu sem knýja menntamálaráðherrann áfram í þessu máli. Það eru pólitískar kenjar, einkapólitískar kenjar. Það eru sjónarmið einhvers konar stjórnsýslu, hvað sé hagkvæmt og þægilegt í stjórnsýslunni og það eru sparnaðaráform, (Forseti hringir.) það eru sparnaðaráform með því að fleygja helmingnum af þessu í sveitarfélögin án þess að tala við neinn og ætla sér að spara á hinum með því að borga bara fyrir þreyttar einingar (Forseti hringir.) eins og ráðherrann sagði sjálfur í sumar.



[10:45]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hinn 16. ágúst birtist sveit manna úr menntamálaráðuneytinu til að kynna starfsmönnum Listdansskólans á fyrsta starfsfundi eftir sumarfrí þá pólitísku einhliða ákvörðun menntamálaráðherra að leggja skólann niður. Þetta var tilkynning um pólitíska aftöku Listdansskóla Íslands. Ekkert samráð, engin umræða um hvað kynni að henda þá nemendur sem hugsanlega flosna upp frá námi, ekkert rætt um samskipti sem þróuð hafa verið við útlönd, ekkert samráð, bara valdboð.

Í máli hæstv. ráðherra kemur fram að hún telur sig hafa góðan málstað að verja. En hvers vegna þolir hann þá ekki umræðu við þá sem hafa sinnt þessum málum og hafa gert um langt árabil? Listdansskólinn, sem nú á að leggja niður, á að baki sér rúmlega hálfrar aldar sögu sem er samfléttuð sögu Þjóðleikhússins og annarra menningar- og listastofnana. Ef litið er til starfs skólans á undanförnum árum, hvernig hann hefur eflst og dafnað stóðu flestir í þeirri trú að hann ætti bjarta framtíð fyrir sér. Annað hefur komið á daginn.

Okkur er sagt að til standi að efla deild í listdansi við Listaháskólann en þar er vel að merkja um að ræða nám að lokinni grunn- og framhaldsskólakennslu en þeirri kennslu hefur Listdansskólinn hins vegar sinnt og má segja að í eiginlegum skilningi hafi hann verið vagga þessarar listgreinar. Rúmlega 150 nemendur eru þar á grunn- og framhaldsskólastigi. Nemendum hefur gefist kostur á að taka 40 einingar til stúdentsprófs. Reyndar er Listdansskólinn einnig viðurkenndur sem skóli á háskólastigi og hefði verið nær að efla hann, a.m.k. að ræða þann valkost að efla hann í stað þess að dreifa kröftunum. (Forseti hringir.) Ég hvet eindregið til þess að fallið verði frá þeirri ákvörðun að leggja niður Listdansskóla Íslands.



[10:47]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka þá umræðu sem hér á sér stað um málefni Listdansskóla Íslands. Eins og við höfum orðið vitni að á síðustu vikum hefur ákvörðun hæstv. menntamálaráðherra um breytingar á skipulagi listdanskennslu hlotið nokkra gagnrýni bæði hér á Alþingi og annars staðar.

Að mínu mati er sú gagnrýni sem haldið hefur verið á lofti gagnvart hæstv. menntamálaráðherra ekki sanngjörn. Því hefur verið haldið fram að með því að ráðast í þær breytingar sem boðaðar hafa verið og fela m.a. í sér að Listdansskóli Íslands verði lagður niður sé verið að ganga milli bols og höfuðs á slíku listnámi. Þetta er einfaldlega ekki rétt, virðulegi forseti, þó að ýmsir hv. þingmenn sem hér hafa talað kjósi að leggja málið upp á þann hátt. Fyrir mína parta fæ ég ekki betur séð en að ákvörðun hæstv. menntamálaráðherra sé skynsamleg. Með henni er ekki verið að grafa undan listdansnámi, síður en svo. Með henni er þvert á móti verið að treysta umgjörð listnáms og tryggja því þá viðurkenningu og þann sess sem það á skilið innan framhaldsskólastigsins hliðstætt því sem tíðkast um kennslu í öðrum listgreinum á framhaldsskólastigi. Við trúum því að slíkt fyrirkomulag sé til góðs fyrir þessa listgrein og jafnframt til hagsbóta fyrir þá nemendur og kennara sem hana stunda.

Þegar maður hlustar á þær umræður sem hér hafa farið fram hlýtur maður að spyrja sig hvers vegna sumir hv. þingmenn eru þeirrar skoðunar að þessi eina listgrein eigi að standa utan þess fyrirkomulags sem almennt hefur verið farið eftir í menntakerfi okkar. Sjálfur hefði ég haldið að með því að láta listdansinn, einan listgreina, standa utan kerfisins leiddi það til þess að hann yrði hornreka í menntakerfinu. Að slíkri þróun ætlum við sjálfstæðismenn ekki að standa.

Ég vil líka taka fram vegna þess sem hér hefur komið fram að þær hugmyndir sem hæstv. menntamálaráðherra hefur lagt fram eru ekki settar fram í sparnaðarskyni enda getur enginn hv. þingmaður (Gripið fram í.) bent á að í þeim felist áform um (Gripið fram í.) að verja minni útgjöldum til kennslu í listdansnámi. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr er það mín bjargfasta trú að hugmyndir hæstv. menntamálaráðherra um breytingar á skipulagi listdanskennslu muni efla þá listgrein en ekki veikja hana.



[10:50]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ákvörðun menntamálaráðherra um að leggja niður Listdansskóla Íslands voru pólitísk afglöp. Engin rök hafa komið fram til réttlætingar á þeim afglöpum. Það voru afglöp og vond ákvörðun sem var tekin út frá þröngum hagsmunum stjórnsýslunnar á kostnað listdanskennslunnar í landinu. Þar réð för pólitískur kverúlans Sjálfstæðisflokksins en ekki fagleg sjónarmið um öflugt nám. Ákvörðunin var þess vegna tekin án samráðs við fagaðila og þá sem best til þekkja. Áður en ákvörðunin var tekin átti að sjálfsögðu að tryggja listdanskennslu til næstu ára í samvinnu við fólkið í greininni, listdanskennslu á grunn- og framhaldsskólastigi þar sem samfella námsins er tryggð og fyrsta flokks aðstaða til að stunda þetta viðkvæma og sérstaka nám.

Listdansinn er nám sem krefst samfellu og samvinnu úrvalsnemenda þar sem hvatinn og hvatningin felst ekki síst í samneytinu við aðra nemendur og samkeppni þeirra í millum. Því á ekki að slíta skólann í sundur og dreifa kröftum og samfellu grunn- og framhaldsnámsins í listdansi. Það er í sjálfu sér fráleit ráðstöfun sé tekið mið af eðli námsins. Námið krefst sérhæfðrar æfingaaðstöðu og faglegrar kennslu þar sem aðstaða er sérhæfð og fyrst flokks.

Það var afleit ákvörðun hjá menntamálaráðherra að taka einhliða ákvörðun um að leggja niður skólann út frá hagsmunum stjórnsýslu og pragmatisma án nokkurs samráðs við hagsmuni listnámsins og þeim sem að því standa. Til dæmis var ekkert samráð haft við grunnskólann og sveitarfélögin í landinu. Núna mánuðum eftir að ákvörðunin var tekin er enn þá ekkert samráð haft við sveitarfélögin í landinu og það er fullkomlega með ólíkindum.

Þetta mál er allt ráðherranum til vansa og því ástæða til að nota þessa umræðu nú og þetta tækifæri til að skora á hæstv. menntamálaráðherra að falla frá þessari vondu ákvörðun og leiðrétta afglöpin.



[10:52]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Í áratugi hefur svo verið að í íslenskum framhaldsskólum hefur listnám verið af skornum skammti. Má því segja að nemendur sem farið hafa í gegnum framhaldsskóla hafi misst af því tækifæri að geta valið sér listgreinar með því almenna námi sem þeir hafa stundað. Ég tel að það sé skaði fyrir þá nemendur og fyrir samfélagið í heild sinni af því að hinn listræna þátt hefur mikið vantað inn í framhaldsskólann.

Ég túlka orð ráðherra og ákvörðun ráðherra svo og held að ekki sé hægt að túlka orð hæstv. ráðherra öðruvísi en að markmiðið sé að efla almennar listgreinar í hinum almenna framhaldsskóla landsins. (ÖS: En Listdansskólinn?) Ég sé ekki betur en að markmiðið sé það að gera listgreinum almennt hærra undir höfði í hinum almenna framhaldsskóla, (KolH: … listamennirnir verða til.) ekki einungis í sérskólum. (BjörgvS: Með grunnskólunum.) Frú forseti, ef ég mætti halda áfram fyrir æsingi sem er hér. (Gripið fram í: Talaðu um Listdansskólann.) Ég túlka það svo að þetta sé markmiðið.

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumanni hljóð.)

Frú forseti. Það hefur gerst áður að skólar hafi verið sameinaðir og þarf ekki að fara mjög langt aftur í tímann þegar Tækniháskólinn og Háskólinn í Reykjavík voru sameinaðir. Þá heyrðust raddir, dómadagsraddir eins og hér hafa heyrst í dag um að það væri óheppileg ákvörðun. Það þarf ekki annað en að ræða við starfsfólk hins sameinaða skóla og nemendur þar til að heyra hversu ánægðir bæði nemendur og kennarar eru með þá ákvörðun. (Gripið fram í.) Þeir telja að sú sameining hafi einungis leitt gott af sér og þar ríki almenn ánægja.

Ég tel meginatriðið í þessu, frú forseti, vera þá yfirlýsingu hæstv. ráðherra að hér á ekki að spara. Í öðru lagi tel ég (Gripið fram í.) að það skipti miklu máli að tryggja og vista skólann á öruggum stað þar sem meginmarkmiðunum er haldið. Það tel ég skipta meginmáli. (Gripið fram í.) Og það sem skiptir máli, frú forseti, er að það á að opna tækifæri fyrir aðra framhaldsskóla að taka upp og efla listnám sem hefur skort. (Forseti hringir.) Á það þurfum við að horfa og ber að fagna. (ÖJ: Vesalings Framsókn.)

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að gefa ræðumönnum hljóð í þessari umræðu.)



[10:54]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta er alveg með eindæmum. Það sem komið hefur fram í umræðunni er það að hæstv. menntamálaráðherra ætlar að leggja niður Listdansskóla Íslands af því að hann passar ekki inn í kerfið hennar, hann passar ekki inn í kerfið grunnskóli/framhaldsskóli.

Hæstv. menntamálaráðherra talar af fullkominni fákunnáttu um málið. Listdansskóli Íslands er að ala upp listamenn í listdansi sem lúta öðrum lögmálum en aðrir listamenn í sjálfu sér, eins og ég rakti í máli mínu, af því að þeir þurfa að hefja nám sitt mjög ungir og þurfa gríðarlegan tíma til að stunda listgrein sína. Og auðvitað fá þeir ekki nema lítið brot af því metið til eininga til stúdentsprófs. Hæstv. ráðherra talar af fákunnáttu. Það gerir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður menntamálanefndar, líka.

Sannleikurinn er þessi, svo ég fái að vitna til lesendabréfs sem birtist í Morgunblaðinu um daginn, skrifað af Ragnheiði Gestsdóttur, með leyfi forseta, en hún sagði:

„Við stingum ekki upp rósarunnann sem blómstrar svo fallega við suðurvegginn og færum hann norður fyrir hús, bara til að athuga hvort hann lifi það af. Það er ekki skynsamleg garðyrkja.“

Þetta er mergurinn málsins, frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra er að fremja afglöp. Hún hefur ekki haft samráð þó að hún segi það. Hún segir að þetta sé ekki í sparnaðarskyni en hvar eru fjármunirnir? Ekki eru þeir í fjárlagafrumvarpinu.

Hæstv. ráðherra hefur svarað hér út í hött og hún hefur sýnt og sannað að hún ber ekki hag listgreinarinnar fyrir brjósti með þessum aðgerðum sínum, heldur flokkspólitíska hagsmuni sína um einkavæðingu og einhvern ímyndaðan niðurskurð ríkisútgjalda. Ég segi við hæstv. menntamálaráðherra: Góða skemmtun á frumsýningunni í kvöld hjá Íslenska dansflokknum sem er að frumsýna frábært verk í Borgarleikhúsinu. Ég geri ráð fyrir að hún verði þar.



[10:56]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka enn og aftur að með þessari ákvörðun er ekki verið að vega að kennslu í listdansi heldur er verið að færa kennslu í listdansi í sama horf og annað listnám í landinu. (KolH: Hvaða …) Verið er að gera umhverfi þess þannig að hver listgrein, hver og ein fái að njóta sín eins og frekast er unnt og við verðum að byggja upp þannig kerfi að hver og ein listgrein í skjóli þeirrar sérstöðu sem hún hefur, eins og listdansinn, eins og tónlistin, og fleiri (Gripið fram í.) merkilegar listgreinar fái að njóta sín innan þess ramma sem við höfum mótað og skapað á undanförnum árum. Ríkið rekur heldur ekki skóla á öðrum sviðum listnáms á grunnskóla- og framhaldsskólastigi. Ríkið rekur ekki tónlistarskóla og ríkið rekur t.d. ekki myndlistarskóla svo dæmi séu tekin.

Það er ekki verið að draga úr fjárhagslegum stuðningi við nám í listdansi eða við listdansinn almennt, þvert á móti, og ég bið menn að athuga fjárlögin. Á þessu ári er gert ráð fyrir aukningu á framlagi til okkar frábæra Íslenska dansflokks. Þýðir það að ég vilji listdansinum allt til foráttu? (Gripið fram í.) Að sjálfsögðu ekki. Ég hef heimilað Listaháskóla Íslands að setja af stað listdansnám á háskólastigi. Þýðir það að ég vilji vera listdansinum þrándur í götu? Að sjálfsögðu ekki. Og auðvitað verður að horfa á þetta heildrænt. Með þeim breytingum sem verið er að framkvæma er verið að reyna að efla og styrkja umgjörðina í kringum listdansinn sem og aðrar listgreinar innan framhaldsskólastigsins.

Hins vegar verða stjórnmálamenn að sjálfsögðu að þora að gera breytingar á ríkjandi fyrirkomulagi ef þeir eru sannfærðir um að slíkar breytingar muni verða til farsældar fyrir viðkomandi listgrein til frambúðar þrátt fyrir tímabundin óþægindi. (Gripið fram í.) Menn þurfa stundum að þora. (Gripið fram í.) Ljóst er að það þurfti að fara í ákveðnar breytingar, m.a. út frá þróun í skólastarfi og skólakerfinu á umliðnum árum. Ég er sannfærð um, virðulegur forseti, að þær breytingar sem verið er að gera á listdansnáminu muni leiða til þess að aukið jafnræði verði milli listgreina og að grunn- og framhaldsskólanám í listdansi verði áfram jafnöflugt (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og áður. (Gripið fram í: … Ertu búin að því?)



[10:59]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti vill taka fram að það er algjörlega ófært að hv. þingmenn séu með frammíköll þegar fram fer umræða utan dagskrár sem þeir hafa sjálfir óskað eftir.