132. löggjafarþing — 15. fundur
 4. nóvember 2005.
bensíngjald og olíugjald, 1. umræða.
frv. JóhS o.fl., 30. mál (tímabundin lækkun gjalds). — Þskj. 30.

[10:59]
Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga á þskj. 30, um breytingu á lagaákvæðum sem varða bensíngjald og olíugjald. Flutningsmenn ásamt mér eru Kristján L Möller, Einar Már Sigurðarson, Jón Gunnarsson, Rannveig Guðmundsdóttir og Valdimar L. Friðriksson.

Með þessu frumvarpi er lagt til að bensín- og olíulítrinn lækki tímabundið um 5 kr. Lögð er til 4 kr. tímabundin lækkun á almennu vörugjaldi af bensíni þannig að það lækki úr 9,28 kr. í 5,28 kr. Auk þess er lögð til sama lækkun á olíugjaldinu þannig að það lækki úr 41 kr. í 37 kr., en olíugjaldið var lækkað tímabundið 1. júlí 2005 til 31. desember 2005 úr 45 kr. í 41 kr.

Með breytingunni mundi útsöluverð á bensíni og olíu lækka um tæpar 5 kr. þegar virðisaukaskattur hefur verið lagður á eða um 9–10%. Lagt er til að lækkunin verði tímabundin frá 1. nóvember næstkomandi til loka mars 2006 eða í fimm mánuði.

Sú leið sem hér er lögð til er hin sama og ríkisstjórnin fór árið 2002 með þeim rökstuðningi að áhrif hækkunar á bensínverði væri umtalsverð og gæti stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu. Sömu rökum teflum við fram núna er við mælum fyrir breytingunni um tímabundna lækkun á bensíni og olíu.

Við vitum að í vísitölunni hefur húsnæðisverð og eldsneytisverð vegið mjög þungt. Þetta gæti því haft veruleg áhrif á vísitöluna. Verðlagsáhrifin af því að lækka verð á bensíni og dísilolíu eru 0,2% í vísitölunni en eldsneytið vó um 5,3% af vísitölugrunninum í september. Slík breyting á vísitölunni hefði jákvæð áhrif þegar áhrifin á kjarasamninga eru metin. En það stendur einmitt yfir þessa dagana, virðulegi forseti.

Verðbólgan er nú meira en 4% og er komin yfir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Fram hefur komið hjá ASÍ að líkur á að forsendur kjarasamninga haldi í nóvember séu hverfandi. Við undirskrift kjarasamninga á fyrri hluta ársins 2004 var verðbólgan 1,8% og var við það miðað að hún yrði sem næst 2,5% á samningstímanum. FÍB hefur áætlað að eldsneytisútgjöld almennings í landinu aukist um tvo milljarða kr. á heilu ári miðað við verðþróunina á heimsmarkaði frá síðustu áramótum.

Bensínlítrinn hefur hækkað gífurlega frá því að ríkisstjórnin beitti sér fyrir tímabundinni lækkun á bensíni vegna kjarasamninga um mitt ár 2002. Frá þeim tíma eða frá júlí 2002 til september 2005 hefur útsöluverðið á bensínlítra án afsláttar hækkað úr 97 kr. í 121,50 kr. eða um 25%. En frá því að þetta var skoðað, í septembermánuði, hefur orðið nokkur lækkun á bensíni sem ég mun fara yfir á eftir, þ.e. bensínlítrinn hefur lækkað úr 115 kr. í 108 kr. Það er athyglisvert að svo virðist sem olíufélögin séu ekki að lækka álagningu á bensíni með þjónustu í samræmi við meðalálagningu á árinu. Álagningin á bensíni með þjónustu er tæplega tveimur krónum yfir meðalálagi fyrstu níu mánuði ársins.

Það er eðlilegt að skoða hvaða áhrif það hefur á tekjur ríkissjóðs að lækka tímabundið álögur ríkissjóðs á bensín. Tekjutap ríkisins vegna lækkunar á bensíngjaldi, ásamt lækkun á virðisaukaskattstekjum, yrði um 378 millj. kr. og tekjutap vegna lækkunar á olíugjaldinu um 166 millj. kr. eða samtals rúmar 544 millj. kr. á gildistímanum sem frumvarpið kveður á um.

Á móti má nefna að árlegar virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs sem rekja má beint til hækkunar á heimsmarkaðsverði hafa aukist stórlega. Samanburður á heimsmarkaðsverði á bensíni í september 2005 og heimsmarkaðsverði á árunum 2003 og 2004 leiðir í ljós að virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs aukast um yfir 600 millj. kr. á einu ári haldist þetta háa heimsmarkaðsverð. En eins og ég nefndi áðan hefur verðið aðeins lækkað þannig að þær tölur sem settar voru á blað er þetta frumvarp var samið í september síðastliðnum gætu hafa breyst. Einnig er ljóst að áætlanir um tekjur ríkissjóðs af olíugjaldinu eru vanmetnar. Tekjuforsendur hafa verið miðaðar við 81 milljónir lítra en áætla má að magn dísilolíu sé meira en tekjuforsendur fjárlaga miða við. En misvísandi upplýsingar hafa komið fram um selt magn af dísilolíu sem ber olíugjald. Því ætti tímabundin lækkun á dísilolíu ekki að hafa áhrif á fé til vegamála og lækkun á almenna bensíngjaldinu hefur ekki áhrif til skerðingar á vegafé. Ég tel mikilvægt að halda því til haga.

Eins og ég nefndi áðan hefur orðið nokkur lækkun á bensínverði, sem betur fer. Ég tel ástæðu til þess að skoða þá í því samhengi og velta fyrir sér hvort ætla megi að lækkunin á undanförnum vikum haldi eitthvað áfram. Í því sambandi vil ég vitna í nýja skýrslu Seðlabankans um peningamál. Þar er komið inn á þetta, virðulegi forseti. Ég vil, með leyfi forseta, fá að vitna í þann kafla í Peningamálum Seðlabankans sem fjallar um ytri skilyrði, horfur og hagvexti í heiminum og spá þeirra varðandi hækkun á olíuverði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hækkun hráolíuverðs á seinni hluta þessa árs gæti þó veikt útkomuna verulega. Hráolíuverð hefur aldrei verið hærra að nafnvirði en það var í kjölfar fellibylsins Katrínar og þrátt fyrir að hafa lækkað eitthvað er það um 60% hærra en það var að meðaltali árið 2004. Ótryggt ástand í Miðausturlöndum og ótti um að ekki takist að auka framleiðslu sem nemur vexti eftirspurnar olli hækkunum á olíuverði í ágúst. Sá ótti magnaðist eftir að fellibylurinn Katrín olli því að framleiðsla stöðvaðist við Mexíkóflóa. Þótt framleiðslan liggi aðeins niðri tímabundið munu áhrif þess á olíuverð væntanlega vara um nokkurt skeið. Verð hefur þó lækkað frá methæðum skömmu eftir að fellibylurinn gekk yfir þar sem ýmsar þjóðir hófu að ganga á birgðir sínar og juku þar með framboð. Eftirspurn mun líklega verða meiri á næsta ári en áður var spáð, þegar þau ríki sem nú hafa minnkað birgðir sínar fara að auka þær á ný. Því mun olíuverð líklega haldast hátt um nokkurt skeið.“

Ég ítreka þetta, virðulegi forseti, að þetta er mat Seðlabanka: „Því mun olíuverð líklega haldast hátt um nokkurt skeið.“

Áfram segir í þessu hefti Peningamála, með leyfi forseta:

„Framvirkir samningar gefa til kynna að olíuverð muni hækka örlítið frá núverandi verði út árið og halda áfram að hækka í byrjun næsta árs ... Bensínverð hefur fylgt hækkun olíuverðs eftir en ekki lækkað alveg jafnmikið nú í september. Það er um þessar mundir 65% hærra en að meðaltali á árinu 2004.“

Þannig að ef menn halda að þær lækkanir sem orðið hafa muni haldast áfram, þ.e. eldsneytisverð lækka meira, þá er það ekki mat Seðlabankans. Þeir spá að olíuverð muni haldast hátt. Þeir meta það svo að olíuverð muni hækka út árið og halda áfram að hækka í byrjun næsta árs. Við gerum ráð fyrir að lækkunin sem hér um ræðir standi fimm mánuði, þ.e. tímabilið fram í mars á næsta ári. Nú erum við náttúrlega komin inn í nóvembermánuð. Áformað var að þetta frumvarp tæki gildi 1. nóvember, sem ekki verður, þannig að efnahags- og viðskiptanefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, þarf að skoða málið í því ljósi og horfa m.a. til ytri skilyrða sem Seðlabankinn hefur lagt mat á varðandi þróunina á olíuverði.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi okkar er gert ráð fyrir að þegar gildistíma lækkunarinnar ljúki, í marslok á næsta ári, þurfi að meta hvort ástæða sé til að framlengja hana með tilliti til heimsmarkaðsverðs. Einnig væri eðlilegt að athugað yrði að stytta gildistímann ef heimsmarkaðsverðið lækkaði verulega og bensínlítrinn færi t.d. í um 20 kr., sem var meðalverð á heimsmarkaði á síðasta ári.

Í útreikningum sem ég hef fengið kemur fram að þrátt fyrir þá lækkun sem nú hefur orðið á innkaupsverði, úr 32,93 niður í 27,44 kr. í októbermánuði, þá hefur, samkvæmt þeim tölum sem ná aftur til ársins 1996, verið jafnhátt innkaupsverð á bensíni og ég nefndi hér. Það sem næst því kemur er í maímánuði 2001, eingöngu í þeim mánuði fór verðið í 27,30 kr. Þegar litið er á meðalverð ársins, eins og staðan er nú, með þeirri lækkun sem orðið hefur í október erum við samt enn þá í 25,50 kr. Sé litið til meðaltals síðustu sex mánaða erum við enn í 28,25 kr. í innkaupsverði. Við miðum við að ástæða sé til þess að skoða það að stytta gildistímann ef bensínlítrinn færi t.d. í um 20 kr., sem var meðalverð á heimsmarkaði á þá öllu síðasta ári. Forsendur fyrir því að halda þessu máli áfram, þrátt fyrir lækkun undanfarið, eru að fullu til staðar. Hef ég þar vitnað í þróunina eins og hún hefur verið á nokkrum umliðnum árum og í spá sem Seðlabankinn hefur sett fram varðandi bensínverðið.

Það er út af fyrir sig, virðulegi forseti, ekki ástæða til að hafa mikið lengri framsögu um þetta mál. Ég vil þó nefna í lokin að heildarskatttekjur ríkisins af bílum og umferð fara yfir 40 milljarða kr. á þessu ári en voru 31 milljarður kr. á síðasta ári. Hér er um að ræða 30% aukningu á tekjum ríkissjóðs af bílum en um helmingur heildarskatttekna ríkisins af bílum er vegna notkunar og um helmingur vegna bílakaupa. Bensínreikningur einnar fjölskyldu á ári er áætlaður 400 þús. kr. og hefur hækkað verulega á þessu ári. Ástæða er til að nefna einnig að 60% af verði hvers bensínlítra fer í skatta, þ.e. almennt vörugjald, sérstakt vörugjald og virðisaukaskatt. Hækkun á bensíni kemur mjög við pyngju heimilanna og það er ekki eðlilegt, virðulegi forseti, að ríkissjóður hagnist verulega á þeim miklu sveiflum sem verða á heimsmarkaðsverði, m.a. vegna fellibylja, eins og ég nefndi áðan. Manni finnst óeðlilegt að hækka þurfi bensínreikning heimila og fyrirtækja þegar svo er.

Ég vil taka fram, af því að ég hef líka látið skoða það miðað við þá lækkun sem orðið hefur á bensínverðinu, hvert eldsneytisverð er í Evrópulöndum. Þar trónir Ísland á toppnum með langhæsta verðið á bensínlítranum. Það voru 113 kr. þegar þetta var tekið út, miðað við 10. okt. 2005. Ég held að þetta séu 30 lönd en af þeim er Ísland í fyrsta sæti hvað varðar hátt eldsneytisverð. Næst kemur Holland með rúmlega 109 kr. Í þriðja sæti er Belgía með 103 kr. og Noregur með 102 kr. Allar aðrar þjóðir eru undir hundraðkallinum og hjá mörgum kostar bensínlítrinn á milli 70 og 80 kr. En við erum, eftir þessa lækkun, í um 113 kr. Þetta er umhugsunarvert, að ríkissjóður skuli taka svona mikið til sín í gjöld og álögur af bensíni. Það vegur þungt í kjörum og afkomu heimilanna, hefur mikil áhrif á vísitöluna og þar með verðbólguna.

Ég vil halda því til haga í lokin að yfir 13 þúsund einstaklingar hafa skrifað undir áskorun FÍB um lækkun á eldsneytissköttum. Ég held að það hafi verið í ágústmánuði. Þar var skorað á stjórnvöld að draga úr verðáhrifum þeirrar neikvæðu þróunar sem átt hefur sér stað á heimsmarkaði á umliðnum mánuðum. FÍB hefur jafnframt bent á að á þessu ári verður einungis 13 milljörðum kr. varið til vegagerðar af 40 milljarða kr. heildartekjum ríkisins af bílasköttum.

Ég læt þá máli mínu lokið, virðulegi forseti. Ég legg áherslu á að efnahags- og viðskiptanefnd fjalli skjótt um þetta mál og taki það fljótt til efnislegrar meðferðar og afgreiðslu. Ég tel að þessar aðgerðir gætu haft veruleg jákvæð áhrif í þeim viðkvæmu umræðum sem fara nú fram varðandi kjarasamninga. Verkalýðshreyfingin og aðilar vinnumarkaðarins eru að meta það hvort ástæða sé til að segja kjarasamningunum upp. Ég hef getið um verðlagsáhrifin af því að lækka þetta tímabundið þannig að mér virðast öll rök mæla með því að þessi leið verði farin nú. Ég ítreka að ríkisstjórnin valdi á árinu 2002 að lækka tímabundið almennt vörugjald með þeim rökstuðningi að áhrif hækkunar á bensínverði, sem var þá umtalsverð, gæti stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og efnahags- og viðskiptanefndar.



[11:18]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um að bensínverð hafi hækkað um allan heim og það þurfi að lækka gjöld ríkisins á bensín og olíu. Nú er það svo að gjöld ríkisins á bensíni og olíu eru krónutala sem með virðisaukaskatti er áfram krónutala og hefur ekkert hækkað. Hlutur ríkissjóðs í olíuverði hefur stöðugt verið að falla hlutfallslega undanfarna mánuði þegar hækkunin verður erlendis. Skattlagning ríkissjóðs vinnur þannig mjög mikið á móti þeim sveiflum sem verða á olíuverði.

Svo er það annað. Sú hækkun sem er á olíuverði, líklega varanlega eins og Seðlabankinn bendir á, er vegna þess að neyslan hefur stóraukist í tveimur fjölmennustu löndum heims, Indlandi og Kína. Ég sé ekki að sá þáttur muni nokkuð stöðvast. Hv. þingmaður er að leggja það til að niðurgreiða þá takmörkuðu auðlind sem olían er af hendi ríkissjóðs, lækka verðið á Íslandi til að mæta aukinni notkun í Kína og á Indlandi. Ég tel það mjög varasamt.

Svo vil ég líka spyrja hv. þingmann hvort hann horfi ekki til umhverfissjónarmiða — það má líta á skattlagningu íslenska ríkisins á olíu og bensín sem eins konar mengunarskatt — og hvort hann ætli að fara að lækka mengunarskattinn í þeirri stöðu sem er á jörðinni í dag, alla vega í hugum þeirra sem trúa á koldíoxíðmengunina og hitnun jarðar.



[11:20]
Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér hefur formaður efnahags- og viðskiptanefndar talað en sú nefnd fær málið til umsagnar. Það hlýtur að draga úr von þeirra sem hlýða á ræðu hv. þingmanns um að þetta mál nái fram að ganga. Í staðinn fyrir að hv. þingmaður reyni að tala þetta mál niður finnst mér að það eigi að fara í efnislegar rökræður um það í efnahags- og viðskiptanefnd og sjá hvort við náum ekki samkomulagi. Og þá væri fróðlegt að vita hvort hv. þingmaður, sem greinilega finnst allt í lagi að við séum með hátt bensínverð og vitnar þar til mengunar- og umhverfissjónarmiða, er stoltur af því að Ísland tróni í fyrsta sæti með hæsta eldsneytisverð í Evrópu og langt yfir aðrar þjóðir sem flestar eru undir hundraðkallinum og mjög margar á milli 70 og 80 kr. Mér finnst að hv. þingmaður eigi að skoða málið í því ljósi. Þó að vissulega eigi að horfa til umhverfis- og mengunarsjónarmiða í öllum málum sem þau snerta þá erum við bara komin allt of hátt, virðulegi forseti, í því að hala inn í ríkiskassann fjármagn af eldsneyti.

Það er ekki hægt að mæla á móti því að skatttekjur ríkissjóðs hafa verið að aukast verulega vegna hækkunar á heimsmarkaðsverði. Útreikningar sýna að á heilu ári, miðað við stöðuna eins og hún var í september, þó hún hafi aðeins breyst núna, erum við að tala um að 600 millj. fari í ríkiskassann miðað við að heimsmarkaðsverði verið áfram hátt og ég heyri að hv. þingmaður er sammála mér um það að verðið á bensíni og olíu verði áfram hátt.



[11:22]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég var ekki að lýsa sérstaklega afstöðu minni til þessa máls heldur var ég að spyrja hv. þingmann og benda á ýmis rök sem mæla gegn því að þetta yrði tekið upp.

Það er ekkert allt í lagi að hafa háa skatta. Ég er síðasti maðurinn til að taka undir það. En skattar á olíu og bensín hafa verið notaðir til vegagerðar á Íslandi og við höfum gert stórátak í okkar dreifbýla landi í því að leggja vegi og það kostar mikið. Það skýrir hve skattarnir eru háir. En þeim var breytt árið 1999 í fasta krónutölu. Bensínverð væri núna sennilega 10–15 kr. hærra ef það hefði ekki verið gert að frumkvæði þáv. hæstv. fjármálaráðherra, þannig að ríkissjóður tekur fasta krónutölu af bensínverðinu. Það sem hækkar er eingöngu hækkunin á heimsmarkaðsverði og ég veit ekki hvort það telst skynsamlegt, frú forseti, að við Íslendingar förum að niðurgreiða þá hækkun. Ég tel það ekki skynsamlegt af því að þetta er takmörkuð auðlind, í hugum sumra alla vega, og hátt verð á að endurspegla það að hún sé takmörkuð og það á að draga úr notkuninni.

Varðandi það að þetta komi inn í kjarasamninga og annað slíkt, þá er það rétt. En ég hygg að þeir aðilar sem þar sitja og véla um samninga muni að sjálfsögðu líta til þess að þessi þáttur verðlagsins er vegna þess að eftirspurn eftir olíu hefur vaxið á Indlandi og í Kína og muni ekki krefjast launahækkana eingöngu á grundvelli þess.



[11:24]
Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég man ekki eftir að hafa heyrt þessi rök frá hv. þingmanni þegar ríkisstjórnin lagði sjálf til þessa leið á árinu 2002 einmitt með sömu rökum og við teflum fram, þeim rökum að þetta getur verið verulega jákvætt innlegg inn í kjarasamninga, en nú er verið að ræða að þeir séu jafnvel að bresta og ég veit ekki betur en hv. þingmaður hafi þá stutt þá leið að fara í tímabundna niðurgreiðslu eins og þingmaðurinn orðar það. (PHB: Hvað ertu að tala um?) Hv. þingmaður hefur greinilega ekki lesið frumvarpið. Við erum að tala um að gera þetta einungis tímabundið í fimm mánuði til þess að hafa áhrif á vísitöluna og þá verði staðan metin með tilliti til heimsmarkaðsverðs. Við erum ekkert að tala um varanlega hækkun heldur er hún einungis hugsuð í sama tilgangi og ríkisstjórnin sjálf og hv. þingmaður gerði á sínum tíma á árinu 2002 að þetta væri jákvætt innlegg í kjarasamningana. Ríkisstjórnin sagði einmitt þá að þar sem bensínverðið hefði hækkað umtalsvert þá gæti það stofnað verðlagsmarkmiðum kjarasamninga í hættu. Þetta var á árinu 2002 og það eru nákvæmlega sömu rök uppi í málinu núna. Ég bið hv. þingmann að hafa það í huga að við erum einungis að leggja þetta til tímabundið í fimm mánuði.

Af því að hv. þingmaður nefndi að þetta væri líka jákvætt af því að þessar tekjur rynnu til vegagerðar þá verður þingmaðurinn að átta sig á því að einungis 13 milljarðar af 40 milljarða heildartekjum ríkissjóðs fara til vegagerðar þegar um er að ræða bílaskatta. Þessir heildarskattar ríkissjóðs hafa hækkað milli ára um 10 milljarða kr. Mér finnst að hv. þingmaður, sem er talnaglöggur, ætti að skoða allar tölurnar í kringum þetta og það er ábyggilega athyglisvert fyrir þjóðina að heyra Pétur Blöndal, sem talar fyrir skattalækkunum, mæla með skattahækkunum vegna þess að þetta eru ekkert annað en skattahækkanir sem staðið er fyrir nú að því er varðar afkomu almennings.



[11:26]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu lagaákvæða sem varða bensín- og olíugjald. Á mannamáli þýðir þetta að við, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar, leggjum fram frumvarp til laga um það að tímabundið verði ráðist í aðgerðir sem komi til með að lækka verð á olíu og bensíni um 5 kr. á lítrann meðan við horfum fram á hið háa heimsmarkaðsverð á þessu eldsneyti.

Ég verð að segja að það kom mér svolítið á óvart að hlusta á andsvör hv. þm. Péturs Blöndals við ræðu hv. 1. flutningsmanns, Jóhönnu Sigurðardóttur. Þar gerði hv. þm. Pétur Blöndal mikið úr því að skattur ríkisins á þetta eldsneyti væri föst krónutala og það er alveg rétt ef við horfum á þessi gjöld en ekki á virðisaukaskattinn. En mér heyrðist hv. þingmaður vera að segja að það mætti ekki bregðast við háu olíuverði á heimsmarkaði með því að lækka þessa krónutölu eða álögur ríkisins tímabundið á meðan við horfum upp á hina miklu hækkun á eldsneyti, hann talaði um að við mættum ekki falla í þá gryfju að fara að niðurgreiða hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu og bensíni. Mér finnst þetta alveg ótrúlegur skilningur á því sem hér er verið að ræða, einfaldlega vegna þess að það er ekki verið að tala um að niðurgreiða neinar hækkanir á olíu og bensíni. Það er verið að tala um að minnka tímabundið skattheimtu ríkisins til að mæta þeim miklu hækkunum sem við horfum upp á.

Eldsneytisverð hefur hækkað geysilega og því miður virðist líta út fyrir að sú hækkun verði ekki tímabundin. Hún gæti orðið varanleg. Það veit þó enginn enn þá og við, þingmenn Samfylkingarinnar, sem stöndum að þessu frumvarpi til laga, erum einfaldlega að segja: Tökum mesta sársaukann úr þessari miklu hækkun á olíuverði á heimsmarkaði og gefum okkur tíma til að komast að því hvort hér er um varanlega hækkun að ræða eða hvort hún er tímabundin. Tökum aðeins á með bíleigendum og fólkinu í landinu og léttum aðeins þá sáru nauð sem hið háa olíu- og bensínverð er fyrir hvern og einn.

Við viljum sem sagt bregðast við. Við viljum ekki bara sitja og horfa á þetta og segja: Ja, ríkissjóður er þvílíkt skrímsli og þvílíkt tröll að það er ekki hægt að hnika þeim sjóði úr sporunum jafnvel þó að upp komi aðstæður sem enginn sá fyrir, jafnvel þó að upp komi aðstæður sem þýða að skattgreiðendur þessa lands borgi meira í skatta og gjöld en þeir annars hefðu gert.

Það vill svo til, frú forseti, að bíleigendur og þeir sem ferðast um þjóðvegi landsins eru að verða einn skattpíndasti hópur á Íslandi. Það virðist vera sem embættismönnum eða stjórnmálamönnum sem ráða sköttum og gjöldum detti í raun afskaplega fátt í hug annað en að gráupplagt sé að hækka aðeins gjöldin á þessa aumingja sem eiga bíla og nota þá til að komast á milli staða. Þessi hópur er í rauninni enginn annar en landsmenn allir, allir fullorðnir einstaklingar á Íslandi sem greiða skatta, langflestir þeirra eru líka bíleigendur. Við sjáum það þegar við komum í fjölbrautaskóla og framhaldsskóla landsins að unga fólkið þar, 17 ára og eldra, er meira og minna allt saman komið á einkabíl og verið er að skattpína þann hóp ekki síður en þá sem eldri eru.

Að okkar viti þurfum við að skoða allar færar leiðir til að hafa áhrif á vísitölu neysluverðs um þessar mundir. Hvað segja talsmenn ríkisstjórnarinnar þegar talað er um verðbólgu? Hvað segja talsmenn ríkisstjórnarinnar þegar talað er um vísitölu neysluverðs? Jú, þeir segja: Það er engin verðbólga á Íslandi ef við lítum fram hjá tvennu, hækkun húsnæðisverðs og hækkun olíuverðs. En það vill nú þannig til að fyrir alla þá sem hafa tekið lán, og ég vil minna á að heimilin á Íslandi eru með þeim skuldugustu í heimi og uppistaðan af þeim lánum eru verðtryggð, að einmitt þessi hækkun á olíuverði og húsnæðisverði hefur lyft vísitölu neysluverðs verulega hratt upp undanfarið, sem þýðir einfaldlega að lán hjá fólki hækka á sama tíma vegna hækkunar olíuverðs og íbúðaverðs. Ég tel það skyldu okkar að reyna að bregðast við á einhvern mögulegan hátt. Þarna eigum við möguleika. Ríkið er að skattpína bíleigendur. Ríkið leggur há gjöld á olíu og bensín. Við getum brugðist við tímabundið ef við viljum og lagt í aðgerðir eins og þær sem hér er verið að leggja til, að lækka þessi gjöld um 5 kr. á lítra meðan þetta gengur yfir.

Mér þykir sárt að horfa upp á þetta meðvitundarleysi stjórnvalda sem yppa öxlum og segja: Ja, þetta er bara að hækka, heimsmarkaðsverð er að hækka. Við heyrðum hv. þm. Pétur Blöndal koma í pontu áðan og segja: Þetta er eitthvað sem við ráðum ekkert við. En við ráðum við verðið hér, á Íslandi, og getum haft áhrif á hvert endanlegt útsöluverð til neytenda verður.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði líka í andsvari að bílaskattarnir gengju nú til vegamála þannig að við yrðum að hafa einhverja peninga í það. Einnig var bent á það í andsvari að heildarskattar á bíleigendur og umferð eru um 40 milljarðar kr. á ári. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2006 segir að í stofnkostnað og viðhald á árinu 2006 eigi að fara 10,3 milljarðar. Þetta voru 13 milljarðar á árinu 2004 en á árinu 2006 eiga samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að fara í viðhald og stofnkostnað á þjóðvegakerfi landsins 10,3 milljarðar. Breyting frá ríkisreikningi árið 2004 er 21% lækkun á sama tíma og öll þessi gjöld eru að rjúka upp. Er ekki í lagi að koma til móts við þá sem nota þessi mannvirki fyrst ekki er verið að leggja meira til viðhalds og stofnkostnaðar á árinu 2006 og lækka aðeins það sem menn greiða?

Það vill þannig til, eins og bent hefur verið á áður í umræðunni, að hæstv. ríkisstjórn hefur farið áður þá leið sem við erum að leggja til. Einmitt vegna þess að um var að ræða verulega hækkun á eldsneytisverði fór ríkisstjórnin þá leið að lækka krónutöluna á lítra til að ná þessu aðeins niður tímabundið. Ég held að allir hafi verið mjög sáttir við þá aðgerð og hún hafi komið öllum vel sem þurfa á því að halda að kaupa bensín eða olíu.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2006 er talsverður kafli um vörugjald af bensíni, olíugjald og kílómetragjald. Þar segir að í forsendum frumvarpsins sé gert ráð fyrir því að olíugjaldið á hvern dísillítra hækki úr 41 kr., sem það er í dag, í 45 kr. frá og með 1. janúar 2006. Við erum því ekki að öllu óbreyttu að tala um 41 kr. sem við viljum lækka í 37 kr. heldur ætlar ríkið 1. janúar 2006 að hækka aftur úr 41 kr. í 45 kr., burt séð frá því hvert olíuverðið verður.

Það er annað sem kemur fram í skýringum með fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2006. Ég ætla að leyfa mér að lesa það, með leyfi forseta. Þar segir:

„Í tengslum við lögfestingu tímabundinnar lækkunar olíugjalds var tekið fram að bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald kynnu að verða stillt frekar af innbyrðis áður en gildistími tímabundinnar lækkunar olíugjalds rennur út um næstu áramót, þó þannig að miðað væri við að tekjur ríkissjóðs héldust þær sömu og samkvæmt eldra kerfi. Áætlaðar tekjur af bensíngjaldi, olíugjaldi og kílómetragjaldi gætu því breyst innbyrðis.“

Hvað er ríkisstjórnin að segja okkur með þessu í sínu eigin fjárlagafrumvarpi? Jú, að hægt sé að hreyfa þessa hluti til, það sé engin goðgá að hreyfa þessa hluti til. Reyndar segir hún hér: Við verðum að gera þetta innbyrðis þannig að heildartekjur ríkissjóðs vegna þessa lækki ekki.

Gott og vel. Þarf þá ekki að skoða hvort líklegt sé að sú áætlun sem gerð er um tekjur ríkissjóðs af þessum liðum standist fyrir árin 2005 og 2006 eða hvort gera megi ráð fyrir að tekjurnar gætu kannski orðið meiri en gert er ráð fyrir í forsendum fjárlaga? Þegar maður skoðar slíka hluti getur maður í raun ekki gert neitt annað, frú forseti, en að fara í söguna og velta fyrir sér hvernig þessi gjöld hafa verið að þróast og hvers má vænta miðað við aðstæður eins og þær eru núna á Íslandi.

Það er nefnilega þannig að í tíð núverandi ríkisstjórnar, sérstaklega síðustu þrjú, fjögur ár, virðist það vera lenska í fjárlagagerð að vanáætla tekjur verulega. Tekjur hafa alltaf aukist verulega frá fjárlögum, tekjur hafa meira að segja aukist frá lokafjárlögum þangað til komið er í ríkisreikning.

Ef við horfum á skatta af vöru og þjónustu og öll þau gjöld sem við erum að tala um hér eru innan þess flokks í fjárlögunum, þá voru skattar af vöru og þjónustu fyrir árið 2005 áætlaðir í fjárlögunum 148,7 milljarðar kr. Niðurstaðan á þessu ári samkvæmt nýjustu áætlun fjármálaráðuneytisins er að þessar tekjur verði 158,1 milljarður kr. Með öðrum orðum, tekjur af sköttum af vöru og þjónustu fyrir árið 2005 verða 10 milljörðum kr. hærri en áætlun fjárlaga gerði ráð fyrir. Er þá ekki svolítið svigrúm, má ekki ætla að það sé svolítið svigrúm til að bregðast við þessum miklu hækkunum á olíuverði á heimsmarkaði?

Í greinargerð með frumvarpinu segir að tekjutap ríkisins vegna lækkunar á bensíngjaldi, eins og hér er verið að leggja til, ásamt lækkun á virðisaukaskattstekjum, yrði um 378 millj. kr. og tekjutap vegna lækkunar á olíugjaldinu um 166 millj. kr. eða rétt um hálfur milljarður kr. í það heila. Þetta er það sem við flutningsmenn frumvarpsins viljum leggja til núna strax til að slá á þetta háa olíu- og bensínverð og til að leggja okkar af mörkum þó lítið sé í þessu tilliti til að lækka vísitölu neysluverðs. Það segir að verðlagsáhrifin af þessu gætu orðið í kringum 0,2% í vísitölunni en eldsneytið vó um 5,3% í vísitölugrunninum í september.

Það sem hér um ræðir er einfaldlega spurning um vilja. Er vilji til þess innan stjórnarliðsins að bregðast við aðstæðum sem uppi eru og koma til móts við bíleigendur, þennan skattpíndasta hóp landsins og koma aðeins til móts við þá vegna þess hve eldsneytisverðið hefur verið að hækka mikið á heimsmarkaði? Í mínum huga er þetta svo einfalt. Er einhver vilji til þess að lækka bensínlítrann og olíulítrann um 5 kr. núna eða ekki? Ég sé ekki að þetta sé spurning um hvort ríkissjóður hafi efni á að gera þetta, vegna þess að eins og ég fór yfir hér áðan, ef við skoðum þróun þessara skatta og gjalda í ríkissjóðs þá sýnist mér ríkissjóður fullhaldinn af þeim gjöldum og þeim hækkunum sem hafa orðið á þeim umfram það sem áætlað hefur verið.

Ef ríkissjóður er svona illa haldinn í þeirri þenslu og góðæri sem ríkt hefur að mati sumra, a.m.k. hefur ríkt veruleg þensla í tekjuhlið ríkisins — það er gaman að velta því fyrir sér og skoða hver breytingin hefur í raun verið á tekjum ríkisins á undanförnum árum. Hvað er það sem hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hefur úr að spila við það að reka þjóðfélag okkar og deila þessu út á milli þegna landsins? Skoðum þróunina eins og hún hefur verið, förum til ársins 1998 því að þar getum við borið saman á sömu forsendum tekjur ríkisins eins og þær urðu á árinu 1998 og síðan eins og þær eru áætlaðar núna á árinu 2005. Á hverjum einasta degi ársins 1998, jafnt virka daga sem helga, komu í ríkissjóð tekjur upp á 634 millj. kr. Alveg sama hvort það var helgur dagur eða virkur, 634 millj. kr. á hverjum einasta degi og þykir manni það nú talsverð upphæð.

En hvað hefur gerst frá 1998 til 2005, á sjö ára tímabili — á sama verðlagi? Berum saman krónu á móti krónu. Tekjur ríkisins hafa á hverjum einasta degi hækkað úr því að vera 634 milljónir í það að verða 838 milljónir á dag. Þetta er veruleg hækkun sem skýrist að hluta til af því að skattheimta á Íslandi hefur verið að aukast. Hún hefur verið að aukast á þessum tíma sem hlutfall af landsframleiðslu og hefur aldrei verið meiri en stefnir í núna. Þetta er nú sannleikurinn um skattalækkanir ríkisstjórnarinnar eins og þær liggja fyrir vegna þess að eins og við höfum bent á í umræðum oft og iðulega að jafnvel þó að verið sé að koma með tillögur um að lækka tekjuskatt um 1% og taka hátekjuskattinn af þá hefur það einfaldlega verið tekið annars staðar og m.a. í þeim gjöldum sem hér er um að ræða.

Frú forseti. Eins og ég sagði áðan lít ég á þetta frumvarp okkar sem prófraun á það hvort einhver vilji sé hjá ríkisstjórninni til að taka á með íbúum landsins til að mæta þeirri miklu hækkun sem orðið hefur á lífsnauðsynlegri vöru, sem allir þurfa á að halda til að komast á milli staða, olíu og bensín. Vilji er allt sem þarf. Og þar sem við erum ábyrg í afstöðu okkar og þar sem við viljum koma fram með tillögur sem eru ábyrgar og raunhæfar þá gerum við eingöngu tillögu um að gera þetta í mjög stuttan tíma til að byrja með. Tökum örfáa mánuði og léttum á fólki meðan við erum að skoða og sjá hvernig þetta kemur til með að þróast á heimsmarkaði. Bíðum líka til áramóta og sjáum hvað ríkissjóður fær meira í tekjur en ráð var fyrir gert í fjárlagafrumvarpinu og skoðum það með hliðsjón af því hvort ekki sé rétt að minnka skattheimtuna á bensín og olíu, því að það sem hér er verið að leggja til er ekki niðurgreiðsla á heimsmarkaðsverði á olíu. Það sem verið er að leggja til er að minnka skattheimtu á það fólk sem þarf að kaupa olíu og bensín á Íslandi.



[11:44]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi hefur olíuverð hækkað mikið til skammtíma út af fellibyljum og slíku og óróa í heiminum en svo hefur það líka hækkað til langtíma varanlega út af ástandinu eða efnahagsþróuninni í Kína og Indlandi. Sú hækkun gengur ekki til baka. Hækkun vegna fellibyljanna hefur nú þegar gengið til baka vegna þess að í greinargerð með frumvarpinu stendur að verðið hafi hækkað úr 97 kr. upp í 121,50 kr. Það er liðin tíð því að verðið er aftur komið niður í 108 eða 109 kr. Ég sá það í morgun þegar ég keyrði fram hjá bensínstöð. Sú sveifla er því liðin hjá, frú forseti. Það er hins vegar sveiflan sem er vegna ástandsins í Indlandi og Kína sem ég tel varasamt að niðurgreiða.

Ég endurtek aftur að hlutur ríkissjóðs í olíuverði og bensínverði er krónutala, sérstakur skattur á olíuverð og bensínverð er krónutala og sú krónutala er um 55 kr. á báðum tegundum og það hefur ekkert breyst. Hlutur ríkissjóðs fer því minnkandi. Eins og kom fram í svari hæstv. fjármálaráðherra til mín á þskj. 1356 á síðasta þingi hefur hlutur ríkissjóðs farið minnkandi hlutfallslega þannig að það er ekki við ríkissjóð að sakast um þessa hækkun sem er á bensínverði.

Þegar ríkisstjórnin ákvað að lækka olíuverð fyrir einu eða tveim árum tímabundið þá var það til að taka af kúf en sá kúfur er liðinn núna. Hann var mjög snöggur og gekk hratt yfir og hann er liðinn. Ég tel því að þetta frumvarp sé algjör óþarfi í dag.

Svo langar mig til að spyrja hv. þingmann af því að í flokki hans eru ýmsir umhverfissinnar og ég veit að ýmsir umhverfissinnar kjósa þann flokk: Hvernig (Forseti hringir.) lítur hann á það að fara að niðurgreiða olíu og auka umhverfismengun?



[11:46]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að gefa sér tíma til að koma hér upp í andsvar við mig vegna þessa frumvarps því að það verður að segjast eins og er að áhugi stjórnarliða á þessu máli virðist vera afskaplega lítill.

Það er enginn að kenna ríkissjóði um eitt eða neitt. Hv. þingmaður verður aðeins að velta fyrir sér í vörn sinni fyrir ríkissjóð að það er ekkert verið að ráðast á ríkissjóð með þessu frumvarpi. Við erum ekki að saka ríkissjóð um að olíuverð hafi hækkað. Við erum að leggja fram frumvarp um að ríkissjóður taki sig til í ljósi þeirra aðstæðna sem uppi eru og taki þátt í því að minnka kostnað þeirra sem þurfa á þessari vöru að halda og þurfa að greiða miklu hærra verð en þeir áður gerðu vegna þess að olíuverð hefur hækkað á heimsmarkaði.

Hv. þingmaður getur haft þá skoðun að ríkissjóður eigi ekki að gera það, ríkissjóði komi bara ekkert við hvernig þegnar þessa lands hafi það. Hann getur haft þá skoðun ef hann vill en það er skoðun flutningsmanna þessa frumvarps að það sé nauðsynlegt að ríkissjóður sé á tánum, að ríkisstjórnin sé vakandi fyrir breytingum sem verða á lífi fólks í landinu og taki þátt með fólki til að bregðast við aðstæðum eins og hér eru uppi.

Það er gott að olíuverð á heimsmarkaði hefur lækkað aftur örlítið. Það er samt sem áður það hæsta í Evrópu hér á Íslandi. Ef hv. þingmanni þykir bara rétt og gott að þannig sé það og þannig verði það þá verður hv. þingmaður að fá að hafa þá skoðun en ég er á annarri skoðun. Ég get ekki tekið undir að frumvarpið sé óþarft. Ég tel frumvarpið vera prófraun á það, eins og ég sagði áðan, hvort vilji sé innan stjórnarliðsins til að taka aðeins þátt í því að lækka þetta verð og mér heyrist sá vilji reyndar vera afskaplega lítill ef við hlustum á hv. þm. Pétur Blöndal.



[11:48]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur mikinn vilja til að bæta kjör landsmanna og sérstaklega skattgreiðenda. Hún er búin að lækka fjöldann allan af sköttum, tekjuskatta, erfðafjárskatta og maður kemst ekki yfir að nefna það. Henni er umhugað um hvernig þegnarnir hafa það.

Hins vegar tel ég ekki rétt að minnka krónutöluskatt á bensíni í þeirri stöðu sem er í dag. Ég tel það ekki rétt af því að þá værum við að niðurgreiða varanlega hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu og bensíni, sem ég tel nokkuð varasamt.

Hv. þingmaður nefndi einnig í ræðu sinni, sem ég ætla að koma inn á líka, að lán væru verðtryggð hjá einstaklingum og þau hafi hækkað. Það er rétt, þau hafa hækkað um 4%, aðallega út af hækkun á íbúðaverði. Þessi lán standa yfirleitt alltaf á móti íbúðaverði þannig að ef við tökum dæmi um 20 millj. kr. íbúð þá hefur hún hækkað um 7 milljónir, 7–8 milljónir á síðasta ári, ósköp venjuleg íbúð á 20 milljónir, á meðan lánin hafa ekki hækkað nema um 800 þús. kr. Þetta er því ekki gott dæmi til að taka um að staða einstaklinga hafi versnað því að hún hefur snarbatnað vegna þess að aðalhækkun vísitölunnar er vegna hækkunar á íbúðaverði sem eykur eignir allra landsmanna sem eiga eigið húsnæði. Þau dæmi sem hér hafa verið nefnd eru því ekki nægilega góð.

Ég tel að sú hækkun sem þetta frumvarp er sett í gang út af sé gengin yfir og verðið hefur lækkað aftur niður í 108 eða 109 kr., maður sér það á bensínstöðvunum. (Gripið fram í.) Það er reyndar allt of hátt, við vonumst til að það lækki en ég hygg að því miður muni eftirspurnin í Kína og Indlandi halda því verði uppi.



[11:51]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði að skattar væru að lækka á Íslandi og það er alveg rétt að verið er að lækka ákveðna skatta í prósentutölu og slíku. En þegar maður fer yfir heildarsviðið og skoðar skattheimtu ríkissjóðs sem hlutfall af landsframleiðslu þá hafa skattar á Íslandi ekki verið að lækka heldur hafa þeir verið að hækka. Ef við horfum á hvað er að marka myndina sem dregin er upp í fjárlagafrumvarpi hverju sinni, eins og t.d. fjárlagafrumvarpinu árið 2006, og skoðum hvað gerðist árið 2005 þá er talað um að verið sé að reyna að halda hækkun á tekjum ríkissjóðs að einhverju leyti niðri. En það sem gerist bara aftur og aftur, eins og ég nefndi í ræðu minni áðan, þá er ekkert að marka fjárlögin þegar þau koma fram. Ég tók dæmi um skatta á vöru og þjónustu, í fjárlögunum var gert ráð fyrir að þeir væru tæpir 149 milljarðar á þessu ári en nú segja menn að þeir verði um 158 milljarðar eða 9 milljörðum kr. hærri. Þetta er veruleg hækkun frá því sem fyrst var áætlað í fjárlagafrumvarpinu og þetta eru engar gervikrónur, þetta eru krónur sem koma til með að renna í ríkissjóð.

Varðandi áhrif olíuverðsins á vísitölu neysluverðs og verðtryggingu lána þá er það rétt sem fram kom hjá hv. þingmanni að íbúðaverð hefur verið að hækka verulega, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Mikið af þessari hækkun hefur verið drifin af lánum, það hefur verið betra aðgengi að lánsfé og margir hafa tekið mun hærri lán en þeir áður hefðu tekið til þess annaðhvort að endurfjármagna íbúðir sínar eða kaupa sér nýjar. Það sem mun gerast ef íbúðaverð fer lækkandi aftur er að lánin munu standa eftir, lánin sem hækkað hafa með verðtryggingunni munu standa eftir. Þau munu ekkert lækka jafnvel þó að íbúðaverð lækki. Við skulum því spyrja að leikslokum, hv. þingmaður, í þessu efni áður en við förum að tala um gróða íslenskra fjölskyldna af því að húsnæðisverð hafi hækkað.