132. löggjafarþing — 15. fundur
 4. nóvember 2005.
jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla, 1. umræða.
frv. KolH o.fl., 45. mál (upplýsingaskylda, málshöfðunarheimild). — Þskj. 45.

[15:57]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 96/2000, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Frumvarpið gengur út á það að sett verði á laggirnar tæki sem Jafnréttisstofu verði fengið í hendur til þess að vinna á hinum kynbundna launamun sem nánast hver einasti aðili í samfélaginu sem hefur tjáð sig um launamuninn hefur virst sammála um að þurfi að útrýma og til þess eigi að beita öllum tiltækum ráðum.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs teljum okkur hafa úthugsað þetta tæki á þann hátt að það eigi að virka og eigi að geta verið mjög skilvirkt í þessari baráttu. Við teljum þess vegna mjög miður hvernig stjórnarþingmenn á hinu háa Alþingi hafa horft fram hjá þessu máli, horft fram hjá því að búið er að leggja það fram tvisvar áður og búið er að senda það út til umsagna en það hefur ekki fengið neina umfjöllun í hv. félagsmálanefnd Alþingis.

Ég vil nota þetta tækifæri til að svara ákveðinni gagnrýni sem ég hef orðið fyrir af hendi hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur sem hefur skammað mig fyrir að hafa ekki viljað vera meðflutningsmaður á tillögu hennar til þingsályktunar um opinbera nefnd sem eigi að vinna gegn kynbundnum launamun. Ég vil af því tilefni og í umræðu um þetta mál hér, sem ég legg fram í þriðja sinn, gera grein fyrir því hvers vegna ég vildi ekki vera einn flutningsmanna á tillögu Sivjar Friðleifsdóttur sem er að finna á þskj. 224 á þessu þingi.

Ástæðan er sú að hugmynd okkar í Vinstri grænum um tæki Jafnréttisstofu til að vinna bug á hinum kynbundna launamun er mjög skilvirkt, það liggur fyrir og það skýrir algjörlega ofan í kjölinn á hvern hátt við teljum vera raunhæft að berjast gegn hinum kynbundna launamun. Við teljum okkur vera komin langt fram yfir það að fara að skipa einhverja nefnd sem eigi að vinna í fimm ár og gefi þá út áfangaskýrslu og halda síðan áfram kannski í fimm ár enn til þess að reyna að upphugsa tillögur til að vinna á hinum kynbundna mun. Ég bað því hv. þm. Siv Friðleifsdóttur að skoða vel frumvarp okkar Vinstri grænna og tryggja þá stuðning stjórnarþingmanna, a.m.k. framsóknarmanna, við þá tillögu því að auðvitað væri ég í grunninn sammála um að vinna ætti á hinum kynbundna launamun.

Ég vil einnig í þessu sambandi taka fram að það er að færast í vöxt að þingmenn stjórnarliðsins séu að biðja okkur stjórnarandstöðuþingmenn að vera með sér á einhverjum tillögum sem svei mér þá manni virðast vera meira og minna sýndarmennskutillögur. Ég get í fljótu bragði nefnt þrjár tillögur sem ég er á, sem stjórnarþingmenn flytja og eru allt góðar tillögur en síðan ekki söguna meir. Enginn stuðningur virðist vera hjá ríkisstjórninni við að þær tillögur fari í gegn. Ég hvet því hv. stjórnarþingmenn sem heyra mál mitt til að koma hér og taka þátt í þessum umræðum og leggjast þá á sveif með okkur sem þetta mál flytjum, þar sem við teljum okkur vera með mjög svo áhrifaríkt tæki í höndunum til að vinna á kynbundnum launamun.

Það er auðvitað ekki forsvaranlegt að búa í samfélagi sem hefur lagabálk um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á sama tíma og atvinnutekjur kvenna eru aðeins 64,15% af atvinnutekjum karla. Ekki er heldur ásættanlegt að búa í samfélagi sem hefur slíkan lagabálk með fögrum fyrirheitum þar sem konur eru með 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnutíma. Þetta er ekki lengur ásættanlegt og það verður að grípa til aðgerða sem virka.

Með frumvarpinu sem ég legg fram, sem samið er og lagt fyrst fram af Atla Gíslasyni varaþingmanni, er lögð til breyting sem gengur út á að Jafnréttisstofa, eins og ég sagði áðan, fái tæki í hendurnar sem geri henni kleift að afla upplýsinga í stofnunum og fyrirtækjum, hjá sveitarfélögum, atvinnurekendum og félagasamtökum um allar almennar og sértækar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vegna þeirra verkefna sem Jafnréttisstofa hefur á hendi og vegna athugunar hennar á einstökum málum. Hún á samkvæmt hugmyndum okkar að geta krafist upplýsinga munnlega eða skriflega og þær eiga að vera veittar Jafnréttisstofu innan hæfilegs frests, þess frests sem Jafnréttisstofa setur.

Hún á að geta með þessum sömu skilyrðum og 1. mgr. í 2. gr. frumvarpsins getur um fengið gögn afhent til athugunar. Þá erum við fyrst og fremst með í huga gögn sem leiða í ljós hversu há laun verið er að greiða fólki. Við gerum ráð fyrir að Jafnréttisstofa þurfi að hafa einhvers konar grun um að verið sé að brjóta á konum, verið sé í viðkomandi fyrirtæki, stofnun eða sveitarfélagi að mismuna fólki í launum á grundvelli kynja. Og bara það að Jafnréttisstofa hafi þennan rökstudda grun á að gera henni kleift að fara inn í fyrirtækin, afla þeirra upplýsinga sem þörf er á og út frá því að sjá þá til að viðkomandi fyrirtæki, sveitarfélagi, atvinnurekanda eða félagasamtökum sé gert að leiðrétta þann mun því að hann er ólöglegur.

Hér teljum við vera róttæka breytingu á ferðinni. Tæki þetta er í sjálfu sér sambærilegt við það tæki sem skattyfirvöld hafa til að fara inn í fyrirtæki og skoða gögn í fyrirtækjum ef grunur vaknar um að ekki sé allt með felldu varðandi skattskil fyrirtækja og sömuleiðis er þetta sambærilegt við það tæki sem Fjármálaeftirlitið hefur til að annast sín eftirlitsstörf. Við teljum að Jafnréttisstofa eigi að vera jafnrétthá þessum þýðingarmiklu stofnunum í samfélaginu og eigi að geta sinnt starfi sínu út í hörgul á þessum nótum. Við vitum öll að það er stjórnarskrárbundið að allir skuli vera jafnir fyrir lögunum og að konur eigi að njóta jafnra mannréttinda á við karla. Það er þyngra en tárum taki að ekki skuli hafa verið komið á því jafnrétti og enn skuli vera svo langt í land sem raun ber vitni.

Einnig er sorglegt að horfa til þess að reynt er að útskýra hinn kerfisbundna launamun með alls konar breytum, þ.e. þegar verið er að bera saman laun karla og kvenna eru búnar til alls konar breytur sem í sjálfu sér eiga þá að útskýra hvers vegna konur hafa lægri atvinnutekjur í heildina en karlar. Þær breytur eru allar í mínum huga mjög kynlægar og umdeilanlegt hvort þær séu allar raunsannar. Jafnvel má segja að þegar grannt er skoðað séu sumar breyturnar svo ámælisverðar að það megi leiða að því ákveðin rök að launamunurinn sé enn meiri en opinberar bækur telja hann vera. Í öllu falli er það staðreynd að atvinnutekjur kvenna eru eingöngu 64,15% af atvinnutekjum karla og konur eru með 72% af launum karla fyrir jafnlangan vinnutíma.

Við teljum okkur vera með öflugt frumvarp í höndunum sem geti unnið á þessum kerfisbundna mun og hvetjum til þess að um þetta mál fari fram öflug umræða og helst að málið verði afgreitt hraustlega í félagsmálanefnd og komi til afgreiðslu á þessu þingi áður en langt um líður. Í orði kveðnu hafa stjórnvöld reynt að segjast bera hag kvenna fyrir brjósti hvað þetta varðar. Hæstv. félagsmálaráðherra talaði nú þannig í kringum kvennafrídaginn 24. október að þetta væri eitt það verkefni sem væri hvað mest áríðandi að takast á við, þ.e. að útrýma hinum kynbundna launamun. En samt verður að segja að orð nægja oft ekki í þessum efnum því að hæstv. ráðherrar hafa í hendi sér jafnréttisáætlun sem þeim er gert að vinna eftir og það hefur auðvitað komið fram hér í þingsölum að þeim hefur reynst afar örðugt að fara eftir þeirri áætlun.

Ég segi: Hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarliðar ættu því að koma hér og brýna járnið svo bíti, því að öll erum við í orði kveðnu sammála um að þessum launamun verði að útrýma.



[16:07]Útbýting:

[16:08]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ástæða til að koma í þennan ræðustól og taka undir meginefni þess frumvarps sem hér er til umræðu, um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Það er auðvitað nauðsynlegt að reyna nýjar leiðir til að taka á því mannréttindabroti sem tíðkast hefur lengi, að greiða konum og körlum mismunandi laun fyrir sömu eða sambærileg og jafnverðmæt störf. Mér telst svo til að sennilega á næsta ári séu 40 ár liðin síðan sett voru lög sem áttu að taka af allan vafa um að óheimilt væri að greiða konum og körlum mismunandi laun fyrir sömu og sambærileg störf. Frá þeim tíma hafa verið reyndar ýmsar leiðir til að taka á þessu máli en það verður að segjast eins og er, eins og við þekkjum, að því miður gengur þetta afar hægt þó að árangur hafi náðst. Hér er því verið að reyna nýjar leiðir sem ég tel fyllilega réttmætt að setja í lög. Mér finnst rökstuðningurinn vera réttur sem settur er fram hvað varðar réttmæti þess að Jafnréttisstofa fái heimild til að krefja opinberar stofnanir, sveitarfélög og atvinnurekendur almennt og félagasamtök um gögn og upplýsingar til að leiða það í ljós ef um er að ræða launamisrétti. Og það að bera þetta saman við þær heimildir sem skattyfirvöld, Samkeppnisstofnun og Fjármálaeftirlitið hafa finnst mér alveg rökrétt vegna þess að Jafnréttisstofa er út af fyrir sig ákveðinn eftirlitsaðili með því að lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla sé fylgt.

Ég vil einnig taka undir það sem hv. framsögumaður, 8. þm. Reykv. n. nefndi um það þingmál sem hér hefur verið flutt á þingi undir forustu Sivjar Friðleifsdóttur, að mér kom það mjög á óvart og ég vil draga fram ástæðuna fyrir því. Þar er um að ræða að beina því til ríkisstjórnarinnar að koma á nefnd sem á að vinna gegn kynbundnum launamun og þeirri nefnd er m.a. ætlað að vinna að áætlanagerð og aðgerðum til að minnka launamun kynjanna.

Nú vill svo til að á 130. löggjafarþingi var til umræðu framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar til fjögurra ára til að ná fram jafnrétti kynjanna. Þar náðist óvanalega góð þverpólitísk samstaða milli allra flokka á þingi, en það mál fór til meðferðar í félagsmálanefnd þar sem Siv Friðleifsdóttir er formaður. Þar náðist m.a. fram að tekin var efnislega inn í framkvæmdaáætlunina tillaga sem þingmenn Samfylkingarinnar höfðu flutt um að gerð væri framkvæmdaáætlun til að ná fram launajafnrétti kynjanna. Sú aðgerðaáætlun eða framkvæmdaáætlun sem næstum orðrétt var sett inn í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir tveimur árum, hafði það markmið að ná fram fullu launajafnrétti kynjanna í samræmi við ákvæði 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Gera átti tvær framkvæmdaáætlanir, annars vegar fyrir opinberan vinnumarkað og hins vegar fyrir almennan vinnumarkað og vinna þær í samráði við aðila vinnumarkaðarins og Samband ísl. sveitarfélaga. Þar átti að setja fram tímaáætlanir um aðgerðir og m.a. var heimilt að beita 22. gr. jafnréttislaga, en það er ákvæði sem hefur gengið undir heitinu jákvæð mismunum. Það átti að gera að undangenginni rannsókn á launamun kynjanna og öðrum þáttum launakjara þar sem átti að taka allt inn í sem kveðið er á um í 14. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, þ.e. að taka inn allar yfirborganir, duldar greiðslur og fleiri þætti.

Þingið hefur því raunverulega ýtt því úr vör með samstöðu allra flokka á þingi undir forustu félagsmálanefndar sem beitti sér fyrir því að þetta mál og efnisatriði þessarar tillögu yrðu sett í áætlun ríkisstjórnarinnar, að farið er að vinna raunverulega eftir því sem hv. þingmaður, formaður félagsmálanefndar, er núna að kalla eftir að sett verði á fót og eigi að vinna í næstu fimm árin. Það kom mér mjög sérkennilega fyrir sjónir að þetta mál yrði sett fram með þessum hætti. Þess vegna tek ég undir það sem hv. þingmaður sagði áðan um það efni.

Ég vil enn fremur nefna, sem er hreinlega rökstuðningur fyrir því hversu nauðsynlegt er að Jafnréttisstofa fái þær heimildir sem hér er verið að kalla eftir, að ég beitti mér fyrir nánari úttekt á sínum tíma þegar Ríkisendurskoðun setti fram skýrslu þar sem fram kom álit eða úttekt hennar á svokölluðum viðbótarlaunum hjá opinberum starfsmönnum. Þar voru vísbendingar um að viðbótarlaun sem forstöðumenn stofnana ákveða rynnu í mun meiri mæli til karla en kvenna. Ég bað um nánari úttekt á þessu hjá Ríkisendurskoðun og slík úttekt var gerð opinber. Í þeirri úttekt kom fram að af 17.000 starfsmönnum ríkisins fengu u.þ.b. 3.400 viðbótargreiðslur og konur fengu 56% af þeim viðbótargreiðslum. Leiddar voru líkur að því í úttekt Ríkisendurskoðunar að þessar viðbótargreiðslur rynnu til um 1.100 starfsmanna og fékk sá hópur greiddar 443 milljónir í viðbótarlaun, þar sem 284 milljónir runnu til karla en 159 milljónir til kvenna, þannig að af þeirri summu sem fór í þetta, sem er beinlínis ákvörðunarefni forstöðumanna einstakra stofnana, fengu konur aðeins lítinn hluta af þessum greiðslum.

Mér fannst þarna vera vísbending um að það væri verið að brjóta jafnréttislög, að opinberar stofnanir brytu jafnréttislög og ekki væri gætt jafnræðis í þessum viðbótargreiðslum. Því sendi ég fyrir hönd míns þingflokks málið til Jafnréttisstofu og óskaði eftir því að hún kannaði frekar þetta mál. Jafnréttisstofa fór vissulega í vinnu við málið. Hún tók sér nokkra mánuði í það og þegar hún hafði kannað málið og byggt á þeim gögnum sem fram komu hjá Ríkisendurskoðun í þessu máli þá var niðurstaða hennar sú að vissulega væru þarna vísbendingar um að verið væri að brjóta jafnréttislög. En Jafnréttisstofa taldi sig þurfa að fá frekari upplýsingar til þess að geta tekið af allan vafa í því efni, þó að þarna væru verulegar vísbendingar á ferðinni. Jafnréttisstofa hafði heldur ekki þær heimildir sem verið er að kalla eftir með þessu frumvarpi. Hefði hún haft slíkar heimildir hefði hún getað farið alveg til botns í þessu máli. Það skiptir auðvitað verulegu máli þegar svona kemur upp að slíkt sé til staðar. Um þessar viðbótargreiðslur eru ekki til neinar samræmdar reglur og raunverulega hefur fjármálaráðuneytið og Ríkisendurskoðun greint á um það hvort yfirleitt sé heimild til slíkra viðbótarlaunagreiðslna. Fjármálaráðherra vísar ávallt til þess þegar ég hef verið að spyrja um hvort ekki þurfi að ná einhverju samkomulagi við opinbera starfsmenn um hvernig á þessu máli verði haldið og það hefur ekki náðst. Hér er staddur formaður BSRB þannig að hann ætti kannski að geta upplýst um það. Meðan ekki eru til samræmdar reglur um þetta og Ríkisendurskoðun viðurkennir að þessar greiðslur séu í gangi — þetta skiptir hundruðum milljóna og þetta gengur frekar til karla en kvenna — þá er verið að viðhalda hér launamismun að mínu viti. Ég hefði viljað að við gætum sammælst um þetta og þá ekki síst að forusta BSRB skýri af hverju ekki sé búið að ná þeirri samstöðu sem þarf að vera um hvernig að þessum viðbótarlaunagreiðslum er staðið. Meðan þetta rennur svona þá gengur launamisréttið áfram.

Ég vil líka nefna annað sem rökstyður það að þetta tæki sem hér er verið að kalla eftir ætti að vera fyrir hendi. Ég leiddi í ljós með fyrirspurn hérna fyrir nokkrum árum meðan bankarnir voru í ríkiseign að verulegur launamunur viðgengist innan bankanna í formi greiðslu fyrir bílakostnað. Það voru svo sannarlega leidd rök að því að þar viðgengist launamisrétti dulbúið í formi bifreiðastyrks. Í úttekt sem var þar gerð og Jafnréttisstofa kom að var leitt í ljós að þetta voru karlar og konur sem voru í nákvæmlega sömu störfum en karlarnir höfðu bílastyrk og konurnar miklu lægri og í sumum tilvikum ekki. Þar sagði Jafnréttisstofa beinlínis, eða hvort það var Jafnréttisráð á þeim tíma, að verið væri að brjóta jafnréttislög og bönkunum var falið að gera breytingar í þessu efni. En það var aldrei hægt að fá neinn botn í hvort bankarnir hefðu brugðist við í þessu efni og reyndar neituðu þeir því þrátt fyrir að Jafnréttisráð teldi að slík brot tíðkuðust innan bankanna.

Ég er hér að leiða fram að það er afar mikilvægt að Jafnréttisstofa fái þær heimildir sem hún þarf sem eftirlitsaðili með því að jafnréttislög séu ekki brotin og að hún fái þá heimildir sem eru til staðar hjá þeim eftirlitsstofnunum sem við höfum í þjóðfélagi okkar.

Í tengslum við kvennafrídaginn núna hefur mikið verið rætt um að afnema þurfi þá launaleynd sem ríkir í þjóðfélaginu. Ég býst við og tel að líka þurfi að taka á þessu með víðtækari hætti en hér er lagt til til þess að afnema allt sem viðheldur launaleyndinni. Lögfræðingar hafa sagt að þetta sé raunverulega lagabrot og að tryggja þurfi þetta betur, þ.e. að ekki sé verið að gera einstaklingsbundna samninga við launþega sem viðhaldi þessari launaleynd. Málið þarf því að skoðast með víðtækari hætti en hér er lagt til þó að þetta sé vissulega mjög mikilvæg leið, eins og ég hef reynt að varpa ljósi á og sett rök fram fyrir, til þess að stuðla að launajafnrétti.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að hafa frekari orð um þetta frumvarp. Þetta mál kemur inn í nefnd sem ég á sæti í og ég mun leggja mitt af mörkum til þess að það verði ekki svæft og hljóti afgreiðslu og komi aftur inn í þingsali þannig að hægt verði að taka efnislega afstöðu til þess.



[16:21]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég held að í þessu frumvarpi sé hreyft mjög mikilsverðu máli. Ég styð frumvarpið og þá tillögu sem það felur í sér um að Jafnréttisstofu verði fengin í hendur tæki sem nauðsynleg eru vegna verkefna hennar og athugunar hennar á einstökum málum þannig að hún geti krafið stofnanir, sveitarfélög, atvinnurekendur og félagasamtök um upplýsingar, hvort sem þær eru sértækar eða almennar, sem lúta að launamálum eða öðru ef grunur leikur á að verið sé að brjóta eða fara á svig við jafnréttislög. Ég held að hér sé ágætt mál á ferðinni og styð það.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að þetta sé nú kannski ekki eina tækið sem dugi í þessum efnum. Þetta er eitt af mörgum og er ágætt í því safni sem þarf að vera til til þess að hægt sé að takast á við þann kynbundna launamun sem er í íslensku samfélagi eins og öðrum. Tækið sem hér er verið að leggja til tekur fyrst og fremst á hinum ólöglega launamun, þ.e. þeim launamun sem stangast beinlínis á við jafnréttislög þar sem verið er að mismuna konum og körlum í launum sem gegna sömu störfum eða sambærilegum störfum. Þetta tæki hér sem verið er að leggja til tekur hins vegar ekki á þeim launamun sem er í samfélaginu vegna þess að við erum með kynskiptan vinnumarkað þar sem störf eru einfaldlega metin misverðmæt eftir því hvort þau teljast vera hefðbundin kvennastörf eða hefðbundin karlastörf. Þetta tæki tekur ekki á þeim þætti málsins. Þetta tekur einvörðungu á þeim þætti málsins sem lýtur að lögbrotum, brotum á jafnréttislögum og að því leytinu til er þetta svipað og kannski með Samkeppnisstofnun sem getur farið inn í fyrirtæki og aflað upplýsinga og gagna og rannsakað ef ástæða er til þess að ætla að verið sé að brjóta samkeppnislög, að verið sé með einhverjum hætti að brjóta gegn þeirri samkeppni sem á að vera á markaði. En ég endurtek það að þetta tekur ekki á þeim þætti sem lýtur að hinum kynbundna launamun sem er vegna þess að vinnumarkaðurinn er kynskiptur og kvennastörf teljast einfaldlega ekki jafnverðmæt og hefðbundin karlastörf.

Þess vegna fannst mér aðeins miður hvernig 1. flutningsmaður þessa máls tók til orða áðan þegar hún sagði að þau í Vinstri grænum teldu sig einfaldlega komin fram yfir það að þurfa að skipa nefnd til þess að fjalla um launamun karla og kvenna og til þess að takast á við hann og þau væru hér með tæki í höndunum sem þau teldu öflugra í þeim efnum.

Ég held að við þurfum að ráðast til atlögu, ef svo má segja, við þennan launamun með mörgum og mismunandi tækjum. Við þurfum að gera það á mörgum og mismunandi vígstöðvum. Við eigum einfaldlega að nota öll þau tæki sem tiltæk eru og við eigum að styðja það frumkvæði sem fram kemur í þeim efnum hver svo sem á það frumkvæði. Ég held þess vegna að við séum ekki, því miður, komin fram yfir það að þurfa að skipa nefndir til þess að takast á við þessi mál eða beita einhverjum tækjum í stjórnsýslunni sem tiltæk eru til þess að takast á við launamuninn.

Það er hægt að takast á við launamuninn. Það er hægt að saxa á hann. Það er hægt að breyta þessu. Auðvitað er þetta ekkert náttúrulögmál. Þetta er bara mannanna verk. Ég vil nefna í því sambandi að þó að hjá Reykjavíkurborg sé enn þá launamunur óútskýrður milli kvenna og karla þá tókst samt sem áður að helminga þann óútskýrða launamun á árabilinu frá 1995–2001, eða á um það bil fimm ára tímabili. Það tókst að helminga þennan óútskýrða launamun sem var á launum karla og kvenna hjá Reykjavíkurborg einfaldlega vegna þess að pólitískur vilji var til þess, ekki bara hjá kjörnum borgarfulltrúum heldur í stjórnsýslu borgarinnar, til þess að takast á við það og þeim ráðum var beitt sem tiltæk eru og m.a. sett markmið í kjaraviðræðum um að vinna gegn þessum launamun. Það er ekki bara þannig að verkalýðshreyfingin eigi að hafa og setja sér markmið í kjaraviðræðum heldur á líka viðsemjandinn, hvort sem það eru atvinnurekendur á almennum markaði, ríkið eða sveitarfélögin, að setja sér samningsmarkmið. Þau samningsmarkmið geta m.a. lotið að því að draga úr þeim kynbundna launamun sem er vegna mismunandi verðmætamats á störfum kvenna og karla.

Það gerir auðvitað líka ákveðnar kröfur til verkalýðshreyfingarinnar um að hún setji þá þau störf í ákveðinn forgang í kjaraviðræðum, þ.e. ef það er líka vilji og markmið verkalýðshreyfingarinnar að takast á við þennan launamun, að hún setji þau störf þá í ákveðinn forgang í kjaraviðræðum við viðsemjendur sína. Ef menn eru sammála um þetta, sem manni heyrist a.m.k. á tyllidögum að allir séu sammála um, þá ættum við að ná einhverjum árangri og takast að saxa á launamuninn.

Ég vil líka nefna í því sambandi, af því að ég nefni hér tyllidaga og yfirlýsingar og fögur orð og fyrirheit á tyllidögum eins og á kvennafrídaginn frá fjölmörgum aðilum, þá skiptir auðvitað máli að það séu ekki bara orðin tóm heldur að gengið sé eftir efndum í þessum efnum. Ég verð að játa það, hafandi tekið þátt í kvennabaráttunni eða jafnréttisbaráttunni í meira en aldarfjórðung, að mér finnst ákveðinn tvískinnungur í því fólginn þegar aðilar koma fram, lýsa yfir stuðningi við þennan málstað kvenna og þessa baráttu fyrir launajafnrétti, hvetja konur jafnvel til þess að taka þátt í þessum degi, þessum atburðum, en gera svo kannski harla lítið til þess að breyta þeirri stöðu sem uppi er. Fjölmörg fyrirtæki auglýstu heilsíður í blöðunum þennan dag og hvöttu konur til þess að taka þátt í þessu og óskuðu konum til hamingju með daginn. Ég hefði kosið að sjá upplýsingar frá þessum fyrirtækjum um hvernig launamálum er háttað í þessum fyrirtækjum, hvernig launajafnrétti er á veg komið í þessum fyrirtækjum og hvað þessi fyrirtæki hyggjast gera til þess að breyta þeirri stöðu sem uppi er. Mér finnst alveg full ástæða til þess að gengið sé eftir því, ekki bara auðvitað hjá þeim fyrirtækjum sem auglýstu heldur almennt hjá okkar stóru fyrirtækjum sem eru hér öflug á markaði, skila miklum hagnaðartölum og umbuna sínum æðstu yfirmönnum vegna þess hversu miklum árangri þeir eru að ná í sínum rekstri. Þessi stóru fyrirtæki eiga að sýna að þau hafi metnað og vilja til þess að takast á við launamisréttið og setja sér skýr markmið og mælanleg um hvaða árangri þau ætla að ná í launajafnréttinu og birta síðan í ársskýrslum sínum og ársreikningum hvernig þeim er að takast upp í þeim efnum. Ég geri mér alveg grein fyrir því að þetta breytist ekki eins og hendi sé veifað. En ef fyrirtækin settu sér svona mælanleg markmið og þau birtu það í ársreikningum sínum, væru einfaldlega með lykiltölur um bæði launajafnrétti og almennt jafnrétti í sínum fyrirtækjum þá held ég að við mundum ná meiri árangri en við höfum náð hingað til. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að umbuna fyrirtækjum sem þannig standa að málum. Við eigum að umbuna þannig fyrirtækjum bæði með viðskiptum og með umfjöllun um þau ef þau sýna vilja til þess að takast markvisst á við þessi mál.

Ég kem nú fyrst og fremst hér upp til þess að lýsa yfir stuðningi við málið en um leið bendi ég á að þetta er bara eitt tæki af mörgum sem við þurfum til þess að takast á við launamun kynjanna á vinnumarkaði. Reyndar vil ég bæta því hér við að ég tel, eins og þingmaðurinn sem talaði á undan mér, þingmaður Samfylkingarinnar, Jóhanna Sigurðardóttir, að taka þurfi á launaleyndinni kannski með víðtækari hætti en lagt er til hér. Ég mun beita mér fyrir því að flutt verði þingmál af hálfu Samfylkingarinnar um launaleyndina sem samið er um í fyrirtækjum við einstaklingana og felur í sér að einstaklingum er bannað að gera grein fyrir launum sínum, að segja frá launum sínum, þ.e. að flutt verði þingmál um að ekki sé heimilt að standa þannig að verki að réttur einstaklingsins sé takmarkaður til þess að segja hverjum sem hann segja vill frá launum sínum. Við þingmenn Samfylkingarinnar munum skoða það að flytja slíkt mál hér á næstunni sem getur tryggt rétt einstaklingsins til þess að segja frá launum sínum og koma í veg fyrir að hægt sé að setja slíkar hömlur á fólk. Ég held að það sé eitt tækið enn til þess að takast á við þetta launamisrétti.

Ég held að ég hafi ekki fleiri orð um þetta frumvarp. En eins og ég segi þá er þetta ágætt frumvarp og ágætt tæki í það safn sem þarf að vera til til þess að hægt sé að takast á við þessi mál.



[16:33]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að segja að ég leyfi mér að hafa allan vara á með að skrifa upp á þann árangur sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir hafa náðst í Reykjavíkurborg á síðari hluta tíunda áratugarins við að rétta kjaramun kynjanna. Þar vísa ég m.a. til rækilegrar úttektar sem var gerð í tímaritinu Veru ekki alls fyrir löngu. Ef horft er á kjaramuninn almennt, á milli þeirra sem hafa hin lægstu laun og þeirra sem hafa hæstu laun, þá hef ég nú trú á að sá munur hafi aukist, enda voru því miður uppi svipaðar áherslur og hugmyndir í borginni og í fjármálaráðuneytinu í tíð fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra, Friðriks Sophussonar, þegar við sem störfuðum og störfum í samtökum launafólks reyndum að fá því framgengt að borg og ríki skrifuðu upp á að um öll launakjör yrði samið á félagslegum grunni. Bæði borgin og fjármálaráðuneytið neituðu að verða við þessu. Þetta var af okkar hálfu liður í tilraun til að draga úr duttlungagreiðslum, þ.e. greiðslum sem forstöðumenn eða forstjórar stofnana ákvörðuðu á eigin vegum. Hluti af þessu voru síðan deilurnar sem geisuðu í þingsal árið 1996 um 9. gr. starfsmannalaganna, þar sem kveðið var á um heimild forstöðumanna til að greiða að eigin geðþótta. Það er reyndar núna komið inn í samninga sem ég tel mjög til hins verra.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir vék að umframgreiðslum og vitnaði í skýrslugerð í því efni. Ég held að staðreyndin sé sú að óumdeilt er að greiðslur af þessu tagi hafa verið í þágu karla fremur en kvenna. Það er sums staðar, ég held að ekki sé hægt að alhæfa um þetta, verið að reyna að draga úr þessu. Ég er alveg sannfærður um að barátta eins og við höfum orðið vitni að nú að undanförnu, þar sem þjóðin, ekki bara kvenþjóðin heldur öll þjóðin, skrifar upp á þann ásetning sinn að launamisrétti verði útrýmt, verði til að ýta á eftir slíku.

En forsenda þess að þetta nái fram að ganga er að aflétta launaleyndinni. Í þessu frumvarpi er bæði vísað í almennar upplýsingar og sértækar upplýsingar. Það er talað um opinbera aðila, ríkið, sveitarfélög, félagasamtök og fyrirtæki. Að því leyti eru þær tillögur sem eru í þessu frumvarpi nýlunda, að þvinga á einkamarkaðinn til að upplýsa líka um launakjör. Það er nokkuð sem ég tel eðlilegt og mjög æskilegt, að þetta tæki verði fært Jafnréttisstofu til að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla.

Varðandi almennar upplýsingar um launakjör hjá hinu opinbera ætti ekki að þurfa að setja nein lög af þessu tagi. Samkvæmt upplýsingalögum og skýringum sem fylgja þeim lögum er ætlast til þess að upplýsingar um almenn kjör, þ.e. föst kjör, grunnlaun og fastar greiðslur, hvort sem það eru bílapeningar, ökutækjastyrkur eða föst yfirvinna, séu opinberar upplýsingar. Samkvæmt þessum lögum á hver og einn að geta nálgast upplýsingar um þetta. Það er aðeins breytileg vinna sem á að geta farið leynt ef menn óska eftir því. En hitt á að vera opið.

Það hefur hins vegar reynst útilokað fyrir samtök launafólks að fá því framgengt að þetta verði sett upp á borðið, hafi á annað borð verið tregða handan borðsins, hjá atvinnurekandanum. Það er hin almenna regla hjá ríki og sveitarfélögum í seinni tíð, að neita að upplýsa um launakjör. Þá er vandinn sá að einstaklingur, til að fá þetta fram, þyrfti að höfða mál og það er ekki alveg hlaupið að því. Ég get upplýst að BSRB hefur reynt að ýta á eftir slíkum málum hjá tilteknum stofnunum þar sem starfsmannafélögin hafa óskað eftir upplýsingum en úrskurðarnefnd um upplýsingamál — ég man ekki alveg hvað hún heitir, þ.e. hvert tækniorðið er en ég held hún heiti það — neitaði að styðja við bakið á verkalýðsfélaginu í þeirri viðleitni, sem ég tel harla undarlegt.

Það hefur verið rætt að menn fari í málsókn út af þessu og láti á þetta reyna fyrir dómstólum þótt ákvörðun hafi ekki verið tekin um það. En ég tel mjög brýnt að stuðla að því að launaleynd verði aflétt, hvort sem er hjá opinberum stofnunum, hjá stofnunum ríkis, sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum, eða á einkamarkaði. Þetta frumvarp, ef að lögum yrði, væri mikilvægt tæki í jafnréttisbaráttunni. Ég tel að það mundi einnig gagnast í baráttunni fyrir því að jafna kjörin almennt í landinu.



[16:39]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði áðan að ég teldi þetta mikilvægt tæki sem eftirlitsstofnuninni Jafnréttisstofu væri fengið í hendur til að fylgjast með og rannsaka hvort um lögbrot væri að ræða þegar kemur að launajafnrétti kynjanna. Þetta tæki upphefur hins vegar ekki launaleynd. Hér er ekkert sem segir að það sé ekki hægt að viðhafa launaleynd eftir sem áður, þ.e. að einstaklingarnir, eins og er í dag, undirgangist það hugsanlega í samningum sínum við atvinnurekendur að mega ekki gefa upp þau laun sem þeir hafa. Hins vegar getur eftirlitsstofan farið og skoðað málin. En hin almenna launaleynd gæti eftir sem áður verið við lýði. Ég held að það þurfi að taka á því með sérstökum hætti. Ég vildi í fyrsta lagi segja þetta.

Í öðru lagi vil ég segja að mér finnst heldur miður, af þingmanni Vinstri grænna, að vilja ekki horfast í augu við það, sem var þó sannarlega skoðað og gerð úttekt á, að sá árangur náðist frá árinu 1995–2001 að hinn óútskýrða launamun sem verið hafði milli kynjanna og var ekki hægt að útskýra með neinu öðru en kynferði hjá Reykjavíkurborg — það koma auðvitað alls konar breytur inn í myndina, eins og vinnutími, starfsaldur o.s.frv. — að þann launamun tókst að helminga á þessu árabili, þ.e. frá 1995–2001. Og það er merkilegt að geta ekki einu sinni sætt sig við það þegar einhver árangur næst, að fagna honum og byggja á honum, í stað þess að reyna að gera sem minnst úr þeim ávinningi.



[16:42]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég sagði og segi enn að ég hef allan vara á um að samþykkja að þetta hafi náðst. Ég ítreka að þegar horft er til þess munar sem er á milli hinna lægstu og hinna hæstu hjá Reykjavíkurborg, hvort sem það eru karlar eða konur, þá tel ég þann mun hafa aukist. Kjaramunurinn hefur aukist og hann jókst með aukinni dreifstýringu, enda eru menn núna að fara í annan farveg hvað það snertir.

Það er alveg rétt hjá hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að með þessu yrði launaleynd ekki aflétt. Það er alveg hárrétt. Hins vegar yrði launaleynd aflétt gagnvart tiltekinni stofnun, sem væri Jafnréttisstofa, sem fengi aðgang að upplýsingum um launakjör. En ég tek heils hugar undir hitt, að markmið okkar hlýtur að vera að aflétta launaleyndinni.



[16:43]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Launaleyndinni er aflétt gagnvart tiltekinni stofnun sem er Jafnréttisstofa. Það er hins vegar þá og því aðeins að Jafnréttisstofa fari, annaðhvort að eigin frumkvæði að rannsaka mál eða vegna þess að henni berst kæra upp í hendurnar að hún fer af stað. Við getum ekki gert ráð fyrir því að Jafnréttisstofa velti við pappírum í öllum fyrirtækjum sem eru með fólk í störfum og hafa nú þegar sveipað launin slíkri leynd.

Hið mikilvæga, sem Samfylkingin mun taka fyrir og beita sér fyrir í þinginu, er að réttur fólks til að segja frá því sem það hefur í laun sé ótvíræður og verði ekki af því tekinn. Þannig geti fólk á degi hverjum, konur og karlar, borið sig saman í launum og vitað hvað næsti maður, sem starfar við þeirra hlið, hefur í laun. Þetta tel ég að verði að vera ótvírætt. Ég mun, eins og ég sagði, beita mér fyrir því að slíkt mál verði flutt í þinginu þannig að enginn þurfi að velkjast í vafa um rétt sinn til að segja frá því hvað hann hefur í laun.

Svo ítreka ég að ég vísaði til könnunar sem var gerð frá árinu 1995–2001. Það kann vel að vera að launamunurinn hjá Reykjavíkurborg hafi aukist eins og víða annars staðar í samfélaginu á undanförnum árum, það kann vel að vera. En hvernig það kemur út gagnvart kynjunum veit ég ekki hvort við getum fullyrt um í þessum ræðustól.



[16:44]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einmitt það sem ég sagði. Ég tel að við getum ekki fullyrt um það efni í þessum ræðustól. Hitt ítreka ég, að það náðust ekki samningar um það milli samtaka launafólks og borgarinnar að setja alla kjarasamninga inn í félagslegan farveg. Það er nokkuð sem ég minnist frá árinu 1996 þegar verkalýðshreyfingin barðist gegn því að samningar yrðu settir inn í einstaklingsbundinn farveg.

Ég tek innilega undir ábendingar hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að réttur einstaklingsins til að segja frá því hvaða kjör hann hefur á að vera ótvíræður. Að sjálfsögðu á atvinnurekandi ekki að hafa heimild til að meina honum slíkt. Þetta er enginn ágreiningur um það. Við lítum ekki á þetta þingmál sem einhverja allsherjarlausn á öllum vanda. Við ítrekum hins vegar að hér er á ferðinni mikilvægt tæki til að stuðla að jafnri stöðu og jöfnum rétti karla og kvenna, enda erum við, vænti ég, öll sem hér höfum tekið til máls sammála um það.



[16:46]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra orðaskipta sem fram fóru áðan vil ég fyrst segja að þegar fyrir liggur mælanlegur árangur af því að minnka kynbundinn launamun þá er mikilvægt að viðurkenna þann árangur. Það er ein leið til að ná frekari árangri ef það sem gert hefur verið í þessum málum skilar árangri. En ég geri ráð fyrir því, eins og hér var nefnt, að í því umróti sem verið hefur í þjóðfélaginu hafi bilið vaxið milli láglaunafólks og þeirra sem betur eru launaðir innan borgarkerfisins eins og í þjóðfélaginu öllu.

En ég kem upp, virðulegi forseti, vegna þess sem fram kom hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni en hann tekur undir með mér að þær viðbótarlaunagreiðslur sem tíðkast hafa um einhvern tíma innan ríkiskerfisins hafi gengið í mun meira mæli til karla en kvenna. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi einhverja skýringu á því af hverju ekki hafi verið settar samræmdar reglur, viðmiðunarreglur um þessar viðbótarlaunagreiðslur sem forstöðumönnum beri að fara eftir, m.a. til að stuðla að því að þær gangi í jöfnum mæli til karla og kvenna og ekki sé verið að brjóta jafnréttislög með þessum greiðslum. Í því sambandi minni ég á að ég hef spurt fjármálaráðherra um þetta og hann hefur rætt um, ef ég skildi hann rétt, að það standi á því að einhver sameiginleg niðurstaða náist milli opinberra starfsmanna og fjármálaráðuneytisins í því efni. Ég spyr því: Hvers vegna tekur þetta svona langan tíma og hefur hv. síðasti ræðumaður, sem er formaður BSRB, einhverjar skýringar á því? Mér finnst óþolandi að það sé svona mikill dráttur á því að fá þetta fram vegna þess að það er alveg ljóst að það er launamisrétti í þessum viðbótargreiðslum.



[16:48]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessar viðbótargreiðslur hafa verið í ýmsu formi. Þær hafa verið í fastri yfirvinnu sem hafa í ríkari mæli, að því er talið er vera víst, gengið til karla en kvenna. Síðan vildi ríkið koma á því fyrirkomulagi 1996, með lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, að forstöðumenn hefðu á hendi vald til að greiða starfsmönnum. Það var 9. gr. laganna sem kvað á um þetta. Hún var sett á ís vegna þess að samtök launafólks vildu fá því framgengt að um þetta yrði samið á félagslegum grunni. Samkvæmt lögunum og samkvæmt þessari lagagrein átti forstöðumaður að sönnu að hafa reglur um þetta, hann átti að setja einhverjar almennar reglur en það gat hann gert á eigin forsendum. Af hálfu samtaka launafólks var krafa um að samið yrði um þetta á félagslegum grunni. Það var það sem ég vísaði í áðan að ekki náðist fram að ganga, hvorki gagnvart Reykjavíkurborg né ríkinu. Þetta er staðreynd. Sams konar kröfur voru settar fram gagnvart báðum þessum aðilum.

Síðan gerist það í samningunum núna, og það var BHM sem reið á vaðið að semja um framkvæmd þessarar reglu þannig að 9. gr. laga um réttindi og skyldur á að koma núna til framkvæmda. Við eigum eftir að sjá hvernig þetta mál þróast áfram en af hálfu samtaka launafólks er mjög ríkur vilji til þess að koma þessu inn í það horf að ekki sé verið að mismuna fólki, hvorki eftir kynferði né á einhverjum öðrum forsendum.



[16:51]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staðan hefur verið sú hingað til að Ríkisendurskoðun hefur haldið fram og sagt það í sinni úttekt að þessar viðbótargreiðslur viðgengjust í ríkiskerfinu og forstöðumenn ákveði hvernig þær dreifist milli starfsmanna og milli kynja. Fjármálaráðuneytið hefur ekki viðurkennt að þessar viðbótargreiðslur séu í gangi en þær eru búnar að vera það í mörg ár og vafalaust vegna þess sem hv. þingmaður nefndi, vegna kröfu frá opinberum starfsmönnum um að um þær yrði samið. Hv. þingmaður segir að nú sé búið að semja um þær og ég spyr þá: Megum við þá vænta þess að settar verði einhverjar viðmiðunarreglur fyrir forstöðumenn til að fara eftir? Vegna þess að ég minni á að Ríkisendurskoðun hefur kallað eftir slíkum reglum og hún hefur líka bent á það í skýrslu sinni að brýnt sé að þessar viðmiðunarreglur fyrir forstöðumenn verði settar inn í jafnréttisáætlanir ráðuneyta og stofnana til þess að eftir þeim sé farið. Því er brýnt að þessar samræmdu viðmiðunarreglur séu gefnar út. Mér leikur hugur á að vita hvort hv. þingmaður veit eitthvað um þetta því að ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig hægt sé að fá ráðuneytið til að setja þessar samræmdu reglur.

Ég minni líka á að þegar Jafnréttisstofa fór yfir þessar viðbótargreiðslur þar sem hún taldi að margt benti til að þarna væri um brot á jafnréttislögum að ræða, þá kallaði hún líka eftir því að ráðuneytið setti samræmdar viðmiðunarreglur. Nú þegar hv. þingmaður upplýsir að búið sé að semja um þetta vænti ég þess að búið sé að ná niðurstöðu um það milli opinberra starfsmanna og ráðuneytisins eftir hvaða reglum verði farið við úthlutun á þessum viðbótargreiðslum og þá spyr ég: Verða útgefnar einhverjar sérstakar viðmiðunarreglur í þessu sambandi og mun hv. þingmaður beita sér fyrir að þær verði settar inn í jafnréttisáætlanir ríkisstofnana?



[16:53]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tek undir að það væri mjög mikilvægt ef þetta yrði sett inn í jafnréttisáætlanir einstakra stofnana. Ég skal viðurkenna að mér finnst þeir samningar sem gerðir voru um þetta efni ekki nægilega traustir. Mér finnst þeir of mikið á forsendum forstöðumanna stofnana. Hins vegar með það í huga að gera það besta úr því sem við höfum og að það á að setja tilteknar reglur um þessar greiðslur en innan hverrar stofnunar um sig, er eðlilegt að gengið verði eftir því að ríkisstofnanir sem starfa samkvæmt þessum lögum geri einmitt þetta sem hv. þingmaður nefndi. Og ég mun fyrir mitt leyti, á þeim vettvangi þar sem ég get komið því við, beita mér fyrir að svo verði gert.



[16:54]
Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem orðið hefur um þetta frumvarp. Hún hefur verið góð og bætt við þá umræðu sem þegar hefur farið fram um þessi mál í þingsölum.

Ég vil geta þess í framhaldi af þeim orðaskiptum sem orðið hafa núna á milli þeirra hv. þingmanna Ögmundar Jónassonar og Jóhönnu Sigurðardóttur úr Reykv. s. að ein grein þess frumvarps sem við ræðum hér, þ.e. 4. gr., gerir ráð fyrir að sérhvert fyrirtæki eða stofnun þar sem starfa fleiri en 25 manns kjósi sér jafnréttisfulltrúa, en ég gerði ekki sérstaka grein fyrir henni í framsöguræðu minni. Þeim jafnréttisfulltrúa verði falið að hafa eftirlit með jafnréttisáætlun viðkomandi fyrirtækis og tryggja að jafnrétti sé fylgt í starfsmannastefnu og að öllu leyti hvað varðar viðkomandi fyrirtæki. Í þessari frumvarpsgrein er reiknað með því að jafnréttisfulltrúarnir starfi í nánu samstarfi við trúnaðarmenn viðkomandi fyrirtækis og að í störfum sínum geti þeir tekið saman upplýsingar og fjallað bæði um almenn og sértæk jafnréttismál í samræmi við réttindi og skyldur III. kafla jafnréttislaganna. Hugmyndafræðin á bak við þessa grein er einmitt sú að tilgangi jafnréttislaganna verði best náð ef innra eftirlit fyrirtækja og stofnana er í lagi.

Ég tel að það mál sem við ræddum hér eða hv. þingmenn áttu orðaskipti um, viðbótargreiðslurnar, sé einmitt dæmigert mál sem jafnréttisfulltrúar fyrirtækja ættu að sinna og ættu að hafa aðgang að upplýsingum til þess að tryggja að fólki sé ekki mismunað á grundvelli kynja hvað varðar þessar viðbótargreiðslur. En eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir bendir á er það staðfest í skýrslum og athugunum sem gerðar hafa verið að slík mismunun hefur viðgengist.

Ég vil síðan þakka upplýsingar frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur varðandi þau ákvæði í framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna sem fóru inn í jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar, hún upplýsir hér í umræðunni á hvern hátt það ákvæði fór inn í jafnréttisáætlunina. Ég tek líka eftir því að hv. þingmaður hefur innt hæstv. félagsmálaráðherra eftir því á nýju þingskjali hvað líði þessari framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna. Það verður spennandi að fylgjast með því hvernig hæstv. félagsmálaráðherra svarar spurningum þingmannsins.

Varðandi þau orð hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að það frumvarp sem hér um ræðir taki ekki á launaleyndinni þá er það auðvitað alveg rétt, það gerir það ekki. Engu að síður er talsverður kafli í greinargerðinni sem fjallar um launaleyndina og áhyggjur flutningsmanna af henni. Ég verð að segja það að við deilum þarna sjónarmiðum, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og þingmenn Samfylkingarinnar, þar sem við teljum að það sé afar mikilvægt að skoða það ofan í kjölinn á hvern hátt þær kjaraákvarðanir sem núna eru í auknum mæli ákveðnar eða vélað um í einstaklingsbundnum samningum, hafa mismunandi áhrif á kynin. Það er ýmislegt sem bendir til þess að karlar beri meira úr býtum í slíkum einstaklingsbundnum samningum en konur. Ég get alveg sagt það hér fyrir hönd þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að við höfum mjög miklar áhyggjur af þessu og fullan hug á að takast á við þetta vandamál líka. Verði lagt fram þingmál frá Samfylkingunni varðandi það mál lýsi ég því yfir að ég væri sannarlega reiðubúin til að styðja það eða flytja málið með hv. þingmönnum Samfylkingarinnar ef það stæði til boða.

Þetta er stórt og viðamikið mál. Það er rétt sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði að við þurfum ekki einungis að fjalla um þau lögbrot sem framin eru í þessu tilliti, þ.e. hvernig brotið er á fólki sem samkvæmt lögum á ákveðinn rétt, heldur þurfum við líka að hafa í huga að skoða þann launamun sem er innbyggður í okkar kyngreinda vinnumarkað. Hinn kyngreindi vinnumarkaður er auðvitað eitt af þeim viðfangsefnum sem alþingismenn ættu að taka hér alvarlega til skoðunar.

Eitt af því sem ég greindi ekki frá í flutningsræðu minni áðan, hæstv. forseti, var að þetta mál var sent út til umsagnar á síðasta löggjafarþingi. Það voru reyndar afar fáir sem fengu málið til umsagnar og enn færri sem skiluðu inn umsögnum. Þeir sem skiluðu umsögnum voru félagsmálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins og Verslunarráð Íslands, sem nú heitir Viðskiptaráð Íslands. Ég veit ekki hvort það kemur nokkrum á óvart hér en bæði Verslunarráðið og Samtök atvinnulífsins leggjast harkalega gegn frumvarpinu og þeim hugmyndum sem að baki því liggja og félagsmálaráðuneytið telur með öllu ótímabært að mæla með umræddum breytingum og rökstyður það í bréfi sem sent var til félagsmálanefndar. Ég er ósammála félagsmálaráðuneytinu í þeim efnum. Ég tel okkur hafa í þeirri umræðu sem hér hefur orðið sýnt fram á það svo ekki verði um villst að fullt tilefni er til að leiða í lög þau ákvæði sem hér hafa verið til umræðu og frumvarp þetta hefur að geyma.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til áframhaldandi umfjöllunar í félagsmálanefnd og 2. umr.