132. löggjafarþing — 16. fundur
 7. nóvember 2005.
Hafrannsóknastofnun.

[15:16]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hafrannsóknastofnun er 40 ára þetta árið og það er rétt að óska starfsmönnum til hamingju með afmælið.

Það verður samt að segjast eins og er að uppbygging þorskstofnsins síðustu tvo áratugina hefur ekki gengið eftir þó svo að mestmegnis hafi verið farið eftir ráðgjöf stofnunarinnar síðustu 15 árin. Veiðin síðustu 20 árin hefur verið helmingi minni en áratugina þar á undan. Það hefur verið mikil gagnrýni á árangursleysi fiskveiðiráðgjafar Hafró og einnig þá staðreynd að stofnunin hefur endurmetið þorskstofninn og hrygningarstofninn áratugi aftur í tímann og hagrætt gögnum.

Einnig hefur verið gagnrýnt að stofnunin hefur einokað rannsóknir á fiskifræði á síðustu árum og ég ætla þess vegna að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort hann hyggist breyta því og veita þá fleirum aðgang að rannsóknum að fiskifræði. Ég tel fulla þörf á því. Ég var sjálfur eftir hádegi staddur um skamma hríð á ráðstefnu um stærð hrygningarstofns og áhrif hans á nýliðun og það verður að segjast eins og er að mjög mikil vonbrigði fólust í viðdvölinni þar. Þangað var eingöngu boðið þeim sem voru fylgjandi kenningum stofnunarinnar þó svo að hér sé um mjög umdeilt mál að ræða. Gögn frá m.a. Færeyjum sýna að hér sé um öfugt samband að ræða. Stofnunin býður ekki til þeirrar gagnrýnu umræðu, nei, þangað er eingöngu boðið jáurum sem fylgja stefnu stofnunarinnar. Þetta væri allt í lagi ef um væri að ræða áróðursstofnun en hérna er óvart um vísindastofnun að ræða sem ætti einmitt að fagna allri gagnrýni og taka hana til umræðu í stað þess að halda henni fyrir utan umræðuna. Mér finnst þetta mjög ámælisvert og það verður fróðlegt að fá að heyra skoðun hæstv. sjávarútvegsráðherra á þessum vinnubrögðum.



[15:19]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt að hv. þingmanni brá fyrir í mýflugumynd eitt andartak á þessari ráðstefnu áðan og ef hann hefði haft tök á því að sitja þar lengur hefði hann áttað sig á því að þeir sem þarna töluðu voru menn með mjög fjölbreytilegar skoðanir. Þarna voru þrír erlendir fulltrúar frá jafnmörgum háskólastofnunum, þar á meðal forstjóri hafrannsóknastofnunarinnar í Færeyjum og enn fremur menn frá Kanada sem hafa rannsakað stöðu þorskstofnsins við Kanada og í heild sinni raunar í heiminum og vörpuðu mjög athyglisverðu ljósi á fræðasvið sitt. Síðan eru þarna íslenskir sérfræðingar, bæði frá Hafrannsóknastofnun og prófessor í hafrannsóknum við Háskóla Íslands. (Gripið fram í.) Þetta er auðvitað engin skoðanaeinokun. Þarna er verið að reyna að varpa ljósi á mjög alvarlegt mál sem er staða þorskstofnsins. Það verður auðvitað líka að vekja athygli á því að hér er ekki um að ræða einangraðan fund. Þetta er upphaf að mikilli fundaherferð sem Hafrannsóknastofnun efnir nú til, m.a. í tilefni af 40 ára afmæli sínu. Haldnir verða 14 fundir allt í kringum landið þar sem fólk getur látið í ljósi skoðanir sínar. Ég vek líka athygli á því að á morgun verður haldinn fyrsti fundur nýskipaðrar ráðgjafarnefndar Hafrannsóknastofnunar.

Allt er þetta gert til þess að reyna að efla umræðuna um þetta mikilvæga mál. Það skiptir mjög miklu að þessi umræða geti farið fram. Það skiptir mjög miklu að þeir sem hafa skoðanir og þekkingu á þessu máli geti látið í ljósi skoðanir sínar. Þess vegna er haldin ráðstefna sem þessi þar sem koma bæði fram innlendir og erlendir sérfræðingar, þar sem verið er að bjóða fólki að hlýða á erindi og taka þátt í umræðum eins og þegar var hafið áðan og enn fremur að halda fundi um allt land í sama tilgangi.

Síðan veit hv. þingmaður að ég hef látið í ljósi þá skoðun mína að ég tel að það eigi að opna þetta rannsóknarumhverfi enn þá betur en við höfum gert. Ég hyggst beita mér í þeim efnum. Þess mun vonandi sjá stað mjög fljótlega. Ég er þeirrar skoðunar að svona umræða sé nauðsynleg til að ná árangri. Það er sú umræða sem fór fram í dag og hv. þingmaður hafði því miður ekki tíma til að sitja.



[15:21]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér er því miður um sértrúarhóp að ræða sem hleypir ekki öðrum skoðunum að. Mér finnst alvarlegt að nýr hæstv. ráðherra sjávarútvegsmála komi ekki hér ferskur með nýjar hugmyndir í stað þess að ætla að halda í gömlu kenningarnar. Hann trúir því að þarna hafi verið á boðstólum allar skoðanir um nýliðun og samband hennar við hrygningarstofn. Þetta er auðvitað óþolandi og það á ekki heima í vísindalegri umræðu að menn skuli halda ákveðnum skoðunum í burtu. Mér finnst þetta fáheyrt og ég trúi því ekki að Íslendingar ætli að halda þessu áfram.

Hvers vegna notar ekki sjálf stofnunin 40 ára afmælið til að gera eitthvað nýtt í stað þess að halda í kenningar sem hafa ekki gengið eftir í tvo áratugi? Það er óþolandi og við sem erum hér í forsvari fyrir þjóðina eigum ekki að sætta okkur við þetta, (Forseti hringir.) hvað þá hæstv. sjávarútvegsráðherra.



[15:22]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vona að þegar hv. þingmaður á næst leið til Færeyja greini hann forstjóra hafrannsóknastofnunarinnar í Færeyjum frá því að hann sé í sértrúarhópi sem hafi ekki neina skoðun nema þá sem er talin lögmæt á Íslandi, hann sé ekki maður til að taka sjálfstæða vísindalega afstöðu.

Það væri líka fróðlegt að hv. þingmaður heimsækti stofnanir í Kanada og segði mönnum frá því að þar væru þeir algerlega í vasanum á forstjóra Hafrannsóknastofnunar og íslenska sjávarútvegsráðherranum, þeir hefðu enga sjálfstæða skoðun, að menn sem hafa skoðað samband hrygningarstofns og nýliðunar úti um allan heim væru menn sem hefðu fengið skipanir frá sjávarútvegsráðuneytinu íslenska allan sinn vísindalega feril og það væri ekkert að marka þá vegna þess að þeir væru hluti af einhverjum sértrúarsöfnuði sem væri stjórnað héðan frá Íslandi, þar á meðal forstjóri færeysku hafrannsóknastofnunarinnar sem núna á eftir heldur erindi sitt um stöðu þorskstofnsins við Færeyjar.

Ég veit að hv. þingmaður hefur verið sérstakur áhugamaður um stöðu mála í Færeyjum og þess vegna hefði verið gaman að hann hefði gefið sér tíma til að hlusta á þetta í stað þess að fara fram (Forseti hringir.) með tómt fleipur og tómt rugl.



[15:23]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég hafna því algerlega að ég hafi farið fram með tómt fleipur og tómt rugl. Það er óvart þannig að ég hef verið í ágætum tengslum við færeyska stjórnmálamenn sem hafa sem betur fer, (Gripið fram í.) hæstv. ráðherra, ekki farið eftir ráðleggingum Hjalta í Jákupsstovu, þess manns sem hæstv. sjávarútvegsráðherra vitnar svo mjög til. En í Færeyjum er ekki farið eftir ráðleggingum færeysku hafrannsóknastofnunarinnar og hæstv. sjávarútvegsráðherra ætti að vita þetta. Færeyskir sjómenn hafa farið eftir ráðleggingum Jóns Kristjánssonar fiskifræðings og mér finnst leitt ef hæstv. sjávarútvegsráðherra ætlar að drepa þessari umræðu á dreif með hreinni vitleysu. Mér finnst það óþolandi. Ég skora á hæstv. ráðherra að nota nú tækifærið sem nýr ráðherra í þessum málaflokki og skoða ferilinn. Þetta hefur ekki gengið upp síðustu 20 árin, og hvernig er að halda áfram einhverri vegferð sem hefur ekkert gengið?



[15:24]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Ég veit ekki hvernig hv. þingmaður notar orðin sín en það að drepa umræðu á dreif er eitthvað sem ég mundi halda að þýddi það að reyna að kæfa umræðuna niður. (SigurjÞ: Einmitt.) Er það til marks um að verið sé að reyna að kæfa niður umræðu þegar efnt er til stórrar (Gripið fram í.) alþjóðlegrar ráðstefnu þar sem sitja um hundrað manns sem geta núna sagt skoðanir sínar á þeim erindum sem verið er að flytja, þegar um er að ræða ráðstefnu þar sem sitja alþjóðlegir vísindamenn með alþjóðlega viðurkenningu sem hafa farið um heiminn til að ræða þessi mál og leggja fram gögn sín? (Gripið fram í.) Er það til marks um að verið sé að reyna að drepa umræðunni á dreif?

Á morgun hefst fundur nýrrar ráðgjafarnefndar — nú er hv. þingmaður floginn úr þingsalnum. Hv. þingmaður getur ekki einu sinni hlustað í eina mínútu, nú er hann kominn aftur. — Er það til marks um að verið sé að reyna að drepa umræðunni á dreif að á morgun hefst fundur ráðgjafarnefndar þar sem sitja bæði vísindamenn, starfandi sjómenn og fólk sem starfar í sjávarútvegi? Er það til marks um að verið sé að reyna að drepa umræðunni á dreif þegar verið er að hefja 14 funda herferð um allt land? Ég held að hv. þingmaður (Forseti hringir.) ætti að reyna að skilja sín eigin orð.