132. löggjafarþing — 17. fundur
 8. nóvember 2005.
Grunngögn um náttúru landsins og náttúrufarskort, fyrri umræða.
þáltill. RG o.fl., 35. mál. — Þskj. 35.

[18:40]
Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um öflun grunngagna um náttúru landsins og gerð náttúrufarskorta. Flutningsmenn ásamt þeirri er hér stendur eru þingmenn Samfylkingarinnar, Margrét Frímannsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Jóhann Ársælsson.

Ályktunargreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að láta skrá náttúru landsins, flokka hana og kortleggja á samræmdan hátt og með hliðsjón af þeirri aðferðafræði sem þróuð hefur verið á vegum alþjóðlegra samninga sem Ísland á aðild að og skyldra alþjóðastofnana, svo sem Evrópsku umhverfisstofnunarinnar. Útgáfu náttúrufarskorta í mælikvarðanum 1:250.000 af öllu landinu verði lokið á næstu fjórum árum og í mælikvarðanum 1:50.000 á næstu tíu árum.

Jafnframt verði kröfur sem gerðar eru til náttúrufarsgagna við gerð skipulagsáætlana og við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda skilgreindar á skýran hátt, þ.e. lágmarksgögn og lágmarksgæði gagna, og ákveðið úr hvaða náttúrufarsgögnum skuli vinna á kostnað ríkisins og hvaða aðgangur skuli vera að upplýsingunum. Miða skal við að þessum þætti málsins verði lokið og viðkomandi reglugerðum breytt í samræmi við niðurstöður fyrir árslok árið 2006.“

Í kjölfar Ríó-ráðstefnunnar 1992 breyttust viðhorf til umhverfismála mikið og þjóðir heims hafa lagt áherslu á að endurskoða löggjöf á þessu sviði og þróa nothæfar aðferðir til að skrá, flokka, meta og vakta náttúruna og skapa þannig grunn fyrir skynsamlega landnotkun, sjálfbæra nýtingu auðlinda og verndun lífríkis. Þessum aðferðum hafa önnur norræn ríki, Evrópusambandsríki og mörg önnur ríki sem aðild eiga að Bernarsamningnum um verndun villtra plantna og dýra og lífsvæða í Evrópu beitt með góðum árangri á undanförnum árum.

Grunneiningin í þessu kerfi er hugtakið „vistgerð“ en hver vistgerð lýsir svæðum með tilliti til ýmissa sameiginlegra þátta, lífrænna og ólífrænna, svo sem ríkjandi plöntutegunda, smádýra, fugla og jarðvegsgerðar. Skilgreindum verndarviðmiðum er beitt til að meta verndargildi hinna ýmsu vistgerða.

Íslendingar hafa verið samstiga öðrum þjóðum í að setja lög og reglur er varða umhverfisvernd og skynsamlega nýtingu náttúrunnar og búa nú við svipaðan lagaramma á þessu sviði og önnur Evrópu- og OECD-ríki. Íslendingar eru hins vegar eftirbátar margra þessara ríkja er kemur að grunngögnum sem nauðsynleg eru til að fyrrgreind umhverfislöggjöf nái markmiðum sínum. Íslendingar eru ekki búnir að skrá, flokka og meta náttúru landsins í sama mæli og hinar þjóðirnar. Þá er mikið af þeim gögnum sem safnað hefur verið ekki aðgengilegt, t.d. í stafrænu formi. Þar af leiðandi eigum við mjög erfitt með að framfylgja alþjóðlegum skyldum sem við höfum tekið á okkur samkvæmt alþjóðasamningum.

Ein af afleiðingum þessa gagnaskorts er að mat á umhverfisáhrifum framkvæmda er yfirleitt mun dýrara hér á landi en í grannríkjum okkar. Munurinn felst fyrst og fremst í því að hér á landi geta framkvæmdaraðilar ekki gengið að góðum gögnum um náttúrufar á viðkomandi svæði, þeir þurfa sjálfir að afla þessara gagna og oft með dýrum grunnrannsóknum. Í t.d. Svíþjóð og Finnlandi hefur áhersla verið lögð á að skapa góðan grunn og þar nægir framkvæmdaraðila í mörgum tilfellum að gefa upp staðsetningu fyrirhugaðrar framkvæmdar og getur hann þá fengið án frekari vettvangsathugana upplýsingar um náttúrufar svæðisins og verndargildi þess. Sami gagnaskortur háir gerð skipulagsáætlana hér á landi, en þess má geta að nú er allt landið skipulagsskylt. Mörg sveitarfélög þurfa sjálf að kosta dýrar rannsóknir til að afla nauðsynlegra grunngagna um náttúrufar. Landsáætlanir sem gert er ráð fyrir í náttúruverndar- og skipulagslögum, svo sem rammaáætlun um virkjun jarðhita og fallvatna eða náttúruverndaráætlun, eru einnig illframkvæmanlegar vegna þessa gagnaskorts. Það má því segja að grunnur skynsamlegrar landnotkunar og sjálfbærrar nýtingar náttúrunnar sé mjög ótraustur.

Önnur afleiðing þessa gagnaskorts er að hvorki löggjafarvaldið né framkvæmdarvaldið hefur sett skýrar línur er varða kröfur um lágmarksgögn og lágmarksgæði gagna sem leggja ætti til grundvallar við gerð skipulagsáætlana eða við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda. Afleiðing þessa er m.a. að kröfur eru misjafnar, óljósar og skapa skilyrði fyrir ágreining um ákvarðanir, t.d. úrskurði Skipulagsstofnunar og umhverfisráðherra.

Meðan kröfur um gögn er varða náttúrufarsþætti og gæði þeirra hafa ekki verið skilgreindar verður mat á verndargildi náttúrufyrirbæra og verðmæti þeirra háð tilviljun og geðþótta sem aftur leiðir til þess að „pólitískar ákvarðanir“ verða ráðandi. Óeining virðist vera meiri hér á landi en í grannríkjunum varðandi úrskurði um mat á umhverfisáhrifum og kærur hlutfallslega miklu fleiri sem skýrist að hluta til af þessari óvissu.

Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að bætt verði úr þessum mikla skorti á grunngögnum og að sömu vinnubrögðum verði beitt og þeim sem grannþjóðirnar nota með góðum árangri. Í þingsályktunartillögunni er jafnframt lagt til að kröfur um lágmarksgögn og lágmarksgæði gagna sem notuð eru við gerð skipulagsáætlana og við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda verði skilgreindar og samræmdar.

Með náttúrufarskortum er átt við mismunandi þekjur af upplýsingum sem sýna t.d. vistgerðir sem endurspegla gróðurfar, dýralíf og jarðvegsgerð, búsvæði tegundanna sem þarfnast sérstakrar verndar og sérstæðar jarðmyndanir og náttúruvætti, svo og þekjur sem sýna staðsetningu mikilvægra svæða fyrir spendýr, svo sem selalátur og burðarsvæði hreindýra, og mikilvæg fuglasvæði á borð við fuglabjörg og önnur mikilvæg varplönd, viðkomustaði fartegunda og vetrarstöðvar sem hafa alþjóðlega þýðingu fyrir fuglastofna.

Gert er ráð fyrir að nýta fjarkönnun og ýmis afleidd gögn til að vinna tiltölulega hratt yfirlitskort af öllu Íslandi er taki til framangreindra náttúrufarsþátta, eins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur gert í tengslum við rofkort af landinu og verkefnið „Nytjaland“. Þess má geta að gervihnattamyndir verða sífellt fullkomnari og góð upplausn þeirra gerir mönnum t.d. kleift að greina með viðunandi nákvæmni helstu gróðurlendi. Eins og áður segir skal stefnt að því að ljúka þessari grófu kortlagningu í mælikvarðanum 1:250.000 á næstu 3–4 árum í samvinnu Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landbúnaðarháskólans og Landmælingar Íslands. Samhliða verði hrint af stað nákvæmari kortlagningu sem felist að stórum hluta í sannprófun á fyrirliggjandi gögnum og samræmingu þeirra miklu upplýsinga sem þegar liggja fyrir á víð og dreif hjá mörgum vísindastofnunum. Stefnt skal að því að ljúka þessari ítarlegu kortlagningu landsins í mælikvarðanum 1:50.000 á næstu 10 árum. Einnig er brýnt að skýra hvaða stefnu ríkisvaldið hefur í gagnamálum, skilgreina hvaða og hvers konar gögn hið opinbera á að láta í té um náttúru landsins og hver aðgangur að þeim eigi að vera.

Virðulegi forseti. Ég vil ljúka máli mínu á því að minna hv. Alþingi á það að umhverfisnefnd hefur tvisvar að undanförnu áréttað þörf fyrir fjárframlög til gerðar grunnkorta af þessu tagi í álitum umhverfisnefndar til fjárlaganefndar í fyrra og árið á undan. Ég vænti þess fastlega að umhverfisnefnd nái samstöðu um að minna á þessi brýnu verkefni í áliti sínu til fjárlaganefndar á þessu hausti.



[18:51]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Um leið og ég þakka 1. flutningsmanni þessarar tillögu, hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur, ágæta ræðu hér, framsögu, vil ég segja nokkur orð þessu máli til stuðnings. Allt er það rétt og satt sem hér var talið upp en kannski ættum við að setja mest kastljós á það hvaða ástand í raun og veru leiðir af skortinum á almennilegum gögnum og á almennilegum upplýsingum um náttúrufar á Íslandi, vistkerfi og vistgerð sem hér er nýyrði á síðari tímum. Við höfum í u.þ.b. aldarþriðjung — sumir telja að mörkin séu við Laxárdeiluna um 1970 — búið við það að eitt helsta deilumál á Íslandi hefur varðað umhverfisvernd og þá einkum framkvæmdir sem þykja um of ganga á það umhverfi sem okkur Íslendingum er gamalgróið. Ég ætla ekki að taka afstöðu í einstökum atburðum sem gerst hafa á þeim tíma en það þekkja allir sem hér hafa hreinlega lifað þennan aldarþriðjung, eða skemur, að þetta er að verða eitt af helstu deilumálum okkar og verða mikill partur af íslenskri pólitík, og reyndar í alþjóðlegu ljósi.

Deilurnar hér hafa á síðari tímum, núna síðasta áratuginn, síðustu kannski fimm árin, verið magnaðri og illskeyttari en víða í kringum okkur. Miðað við Noreg þar sem ég þekki ofurlítið til erum við á eftir svo að munar nokkrum áratugum í þessum efnum. Deilur um þessi mál í Noregi eru nú orðnar miklu skárri, vil ég segja, en áður var, og miklu skárri en hér eru. Á bak við þetta eru ýmis rök en það er ákaflega hlálegt að ein rökin skuli vera þau að okkur skortir hreinlega gögn um náttúruna. Okkur skortir náttúrufarskort og aðrar upplýsingar á einum stað og með samræmdum hætti sem geta á skömmum tíma gefið okkur upplýsingar um það land sem til greina kemur á hverjum tíma og um sambærilega staði, um það hvar verðmæt náttúrufyrirbrigði eru niðurkomin og hversu verðmæt þau eru. Það er hlálegt að aftur og aftur í sögu okkar á síðustu árum á þessari nýju öld skulum við lenda í því að merkileg náttúrufyrirbrigði nánast uppgötvast á undirbúningstíma framkvæmda eða jafnvel þegar framkvæmdir eru langt komnar, að menn þurfi að deila um staðreyndir eftir að búið er í raun og veru að taka ákvörðun um að fara í framkvæmdir, og allt er það vegna þessa skorts á grunngögnum. Ég held að við ættum að gera það fyrir framtíðardeilur af þessu tagi og til að auðvelda mönnum afstöðu á næstu árum, ég tala nú ekki um á næstu áratugum, að skammast til þess að gera átak í þessu efni, koma upp þeim upplýsingaforða og þeim grunngögnum sem við þurfum hér á að halda þannig að við deilum þó að minnsta kosti ekki að óþörfu um þessi erfiðu og viðkvæmu efni.

Þetta var nú það sem ég vildi leggja áherslu á sérstaklega en tek undir það sem hér hefur verið sagt. Ég sé að fimm félagar mínir úr Samfylkingunni eru flutningsmenn. Við höfum gert þetta mál kannski að því sem kalla má gælumál, með jákvæðum hætti. En það á að sjálfsögðu ekki að hindra aðra þingmenn í að styðja það, eins og hefur reyndar sýnt sig í umhverfisnefnd, sem hv. flutningsmaður minntist á áðan. Umhverfisnefnd hefur tekið undir þessi sjónarmið í umsögnum núna í tvö ár og ég vænti þess að hún geri það þriðja árið. Nú er þó kannski kominn tími til þess á fimmta þinginu eftir að þetta var fyrst flutt að gerður verði skurkur í þessum efnum. Það þarf auðvitað að vekja athygli umhverfisráðherra vandlega á því. Þess má raunar geta að umhverfisráðherra var formaður umhverfisnefndar fyrsta árið sem hún sérstaklega vakti athygli á þessu við fjárlaganefnd.



[18:57]
Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir ræðu hans. Ég kem hér í stutt andsvar vegna orða hans um að maður ætti kannski að beina athyglinni að því hvað gerist þegar svona kort vantar. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni — ég sleppti því úr greinargerð með þessu þingmáli — að afleiðingarnar geta verið misjafnar, eru misjafnar, óljósar og skapa skilyrði fyrir ágreining. Til dæmis kom fram í úrskurði Skipulagsstofnunar á sínum tíma um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar að ekki var í öllum tilvikum ljóst hvaða gögn stofnunin teldi þurfa að liggja fyrir til að unnt væri að meta áhrif framkvæmdarinnar. Af þessu leiðir að það er mjög erfitt fyrir framkvæmdaraðila að meta hvenær nauðsynlegt er að leggja í kostnaðarsamar rannsóknir á svæðum sem ætlunin er að raska og ósamræmi getur orðið í kröfugerðinni.

Þetta er gífurlega nauðsynlegt mál fyrir okkur að vinna að og það er mjög mikilvægt að sömu vinnubrögðum verði beitt og þeim sem grannþjóðirnar nota með góðum árangri. Það má t.d. benda á að Náttúrufræðistofnun hefur lagt grunn að flokkun og skilgreiningu vistgerða á landsvísu. Hún hefur beitt þessum sömu vinnubrögðum við öflun grunngagna fyrir rammaáætlun um virkjun jarðhita og vatnsfalla fyrir mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar og við skráningu á náttúrufari miðhálendisins. Þó að flokkun lands í vistgerðir sé lokið að miklu leyti, þessari flokkun á miðhálendinu, er allt láglendið eftir fyrir utan alla kortagerðina sem er svona mikilvæg eins og hér hefur komið fram.



[18:59]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir þessa athugasemd og held að hún sé alveg hárrétt. Ég er vanur að vera umhverfismegin í þessu máli og sumum þykir að ég hafi ekki nægilegan skilning á afstöðu framkvæmdaraðilans í mörgum efnum. Það kann að vera rétt. En þarna er hann líka í vanda. Hann er í þeim vanda að hann hefur hugsað sér tiltekna framkvæmd. Hann leggur í, eins og hv. þingmaður sagði áðan, kostnaðarsamar rannsóknir við að kanna náttúruna á því landi. Hann hefur engan samanburð við aðra kosti vegna þess að hann hefur valið þennan úr. Síðan er hann búinn að verja miklu fé til þessara rannsókna, milljónum og tugmilljónum jafnvel, og þess vegna verður hann enn þá einbeittari í því að þarna og hvergi annars staðar skuli framkvæmt. Annars þarf hann að fara á næsta stað og setja þar tugmilljónir í aukarannsóknir. Þetta hygg ég að sé öðruvísi í nágrannalöndunum og kann að vera ein af ástæðunum fyrir því að þar virðist ganga betur að samræma framkvæmdagleði duglegra manna og það tillit til umhverfisins sem þar er nú mun þroskaðra en hér.