132. löggjafarþing — 18. fundur
 9. nóvember 2005.
Vöktun og bókhald yfir útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
fsp. KolH, 200. mál. — Þskj. 200.

[18:01]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Tilefni þessarar fyrirspurnar má segja að sé frétt sem mér barst til eyrna fyrir skömmu um að úttektarnefnd skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna hafi nýlega gert athugasemdir og sent þær íslenskum stjórnvöldum um á hvern hátt við værum að undirbúa okkur undir að innleiða Kyoto-bókunina en eins og kunnugt er tók Kyoto-bókun loftslagssamningsins gildi þann 16. febrúar 2005. Þar með fór af stað fyrir alvöru gríðarlega mikið ferli við að undirbúa fyrsta skuldbindingartímabil Kyoto-bókunarinnar sem stendur frá 2008–2012.

Það er margt sem bendir til þess að það verði erfitt fyrir aðila bókunarinnar að uppfylla þær kröfur sem þeir hafa tekist á herðar og Kyoto-bókunin er bara fyrsta skrefið því fyrir liggur að ná tökum á hlýnun andrúmsloftsins og með því þurfum við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í heiminum öllum um a.m.k. 50–60% á þessari öld. Og það er ekki svo lítið, frú forseti.

Hæstv. umhverfisráðherra hefur margoft verið spurð um þessi mál hér, bæði sá umhverfisráðherra sem nú situr og svo hæstv. umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir sem sat á undan henni í þessu embætti. Við vitum líka að á vegum hins opinbera starfar starfshópur um losunarbókhald og losunarspár vegna gróðurhúsalofttegunda sem á að yfirfara gildandi losunarspá og vera Umhverfisstofnun til ráðgjafar um endurskoðun hennar, vinnubrögð og skipulag bókhalds um losun og bindingu og gera tillögur um framtíðarfyrirkomulag þessara mála með hliðsjón af kröfum Kyoto-bókunarinnar.

Það kom fram í máli hæstv. umhverfisráðherra Sigríðar Önnu Þórðardóttur í janúar á þessu ári að það væri verið að fara yfir öll þessi mál í umhverfisráðuneytinu, við ættum að skila skýrslu til loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna í árslok 2005 þar sem við þyrftum að sýna með ótvíræðum hætti að við stæðum við skuldbindingar okkar.

Svo fréttist af því fyrir skemmstu að úttektarnefnd frá skrifstofu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna hefði komið hér og gert einhverjar athugasemdir þannig að ég spyr hæstv. umhverfisráðherra hverjar þær séu, þessar nýlegu athugasemdir úttektarnefndarinnar og sömuleiðis óska ég eftir því að fá að vita hvað líði vinnu við undirbúning vöktunar og bókhalds vegna útstreymis og bindingar gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.



[18:04]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Umhverfisstofnun, áður Hollustuvernd ríkisins, hefur haldið utan um bókhald vegna útstreymis gróðurhúsalofttegunda og bindingar hér á landi frá 1996. Það er skylda hvers lands samkvæmt ákvæðum rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar að fylgjast með losun gróðurhúsalofttegunda.

Umhverfisstofnun skilar árlega í gegnum umhverfisráðuneytið tölulegum upplýsingum um útstreymi og bindingu til skrifstofu loftslagssamningsins ásamt ítarlegri skýrslu. Þar er að finna hverju sinni tölur um útstreymi og bindingu kolefnis frá árinu 1990 til þess árs sem nýjustu tölur liggja fyrir um. Í gegnum árin hafa verið gerðar nokkrar breytingar á því bókhaldi í ljósi nýrra reglna um útreikninga af þessu tagi og nýrri og betri upplýsinga um ástand mála hér á landi. Í meginatriðum má bókhald okkar teljast gott þó að vissulega megi bæta ýmis atriði.

Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og ríki sem aðild eiga að loftslagssamningnum og Kyoto-bókuninni vinna stöðugt að úrbótum á aðferðafræði við mælingar og útreikninga af þessu tagi til að gefa sem fyllsta mynd af útstreymi gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum og gagnaðgerðum með bindingu koltvíoxíðs úr andrúmslofti. Á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar sem hefst 2008 verða gerðar ítarlegri kröfur en áður um gæði bókhaldsins. Nauðsynlegt er því að bæta enn frekar vinnu við bókhaldið og er unnið að því. Í umhverfisráðuneytinu er nú unnið að gerð frumvarps til laga sem miðar að því að búa í haginn fyrir gildistöku Kyoto-bókunarinnar. Þar verða væntanlega ákvæði um vöktun og bókhald vegna útstreymis og bindingar kolefnis í gróðri. Auk bókhaldsins ber Íslandi að setja á fót skráningarkerfi fyrir útstreymisheimildir áður en fyrsta skuldbindingartímabilið hefst 2008. Viðræður eru hafnar við erlenda aðila um að setja upp svipað kerfi og Norðmenn og mörg ríki Evrópusambandsins hafa tekið í notkun eða munu taka í notkun á næstunni.

Unnið er að skráningu og bindingu koltvíoxíðs úr andrúmslofti í skógrækt og landgræðslu í stofnunum landbúnaðarins. Samkvæmt upplýsingum úr landbúnaðarráðuneytinu er skráningarvinna um bindingu kolefnis með skógrækt vel á veg komin en skemmra hvað landgræðslu varðar. Unnið verður áfram í þessum málum með það að markmiði að hægt verði að telja alla bindingu kolefnis í skógrækt og landgræðslu Íslandi til tekna á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar.

Í september 2004 sendi skrifstofa loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna úttektarnefnd til Íslands til að fara yfir útstreymis- og bindingarbókhaldið hér á landi. Hún skilaði síðan skýrslu nokkrum mánuðum síðar ásamt ráðleggingum um það sem betur mætti fara í bókhaldinu. Úttektarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að bókhald Íslands um útstreymi gróðurhúsalofttegunda og bindingu væri að stórum hluta fullbúið og í samræmi við leiðbeiningar loftslagssamningsins en kom með nokkrar minni háttar ábendingar. Veigamesta athugasemdin laut að óformlegu fyrirkomulagi bókhaldsins en það er ekki skilgreint í lögum eða reglugerðum heldur byggist á óformlegu samstarfi stofnana. Í væntanlegu frumvarpi til laga um framkvæmd Kyoto-bókunarinnar verða ákvæði sem taka á þessum málum og setja framkvæmd bókhaldsins í fastari farveg.

Nefndin benti einnig á nokkur atriði sem lúta að aðferðafræði bókhaldsins og nákvæmni áætlana um útstreymi frá landbúnaði og urðunarstöðum. Þá óskaði nefndin eftir því að gerð verði grein fyrir óvissumörkum í tölum varðandi einstaka liði í bókhaldinu og að komið verði upp gæðaeftirliti á því.

Í árlegri upplýsingaskýrslu Íslands til skrifstofu loftslagssamningsins árið 2005 er gerð grein fyrir áætlunum Íslands til að bregðast við athugasemdum úttektarnefndarinnar. Þar er bent á að við sumum ábendingum hafi þegar verið brugðist svo sem með því að meta útstreymi metans og köfnunarefnisoxíðs frá eldsneytisbrennslu og vegna notkunar leysiefna og ýmissa framleiðsluvara. Þá er hafin vinna við að formfesta fyrirkomulag bókhaldsins í lögum og að breyta framsetningu á upplýsingum um orkumál í samræmi við það sem nefndin telur æskilegt. Þá er að lokum þess getið að verið sé að skoða með hvaða hætti megi framkvæma ýmsar tæknilegar lagfæringar á bókhaldinu svo sem að meta skekkjumörk í einstökum liðum, bæta gæðaeftirlit, bæta aðferðafræði við mat á útstreymi frá vegasamgöngum, bæta upplýsingar og aðferðafræði varðandi útstreymi frá úrgangi og bæta mat á útstreymi vetnisflúorkolefna og brennisteinshexaflúoríðs.



[18:09]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. umhverfisráðherra hefur nú gert grein fyrir þeim athugasemdum sem úttektarnefnd loftslagssamningsins gerði við íslensk stjórnvöld og það á greinargóðan hátt og ég er henni þakklát fyrir svarið, virðulegi forseti.

Það er líka ljóst að íslensk stjórnvöld eru að bregðast við þeim ábendingum sem komu og auðvitað er það af hinu góða og ég fagna því að verið sé að koma þessum málum í það horf að við stöndum mögulega vel að vígi þegar skuldbindingartímabilið sem Kyoto-bókunin mælir fyrir um hefst árið 2008. En hins sakna ég ævinlega þegar hæstv. ráðherra tjáir sig um þessi mál og ríkisstjórnin öll reyndar og það er að maður finni fyrir því á eigin skinni að verið sé að vinna af alvöru í íslenska stjórnkerfinu við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Maður finnur óneitanlega fyrir því að það er verið að vinna við það að reyna að binda útstreymi gróðurhúsalofttegunda í landgræðslu og skógrækt. Það er áhersluatriði hjá íslensku ríkisstjórninni að gera það. Það er vissulega heimilt samkvæmt Kyoto-bókuninni en má ég minna á að það var afar umdeilt ákvæði og það voru uppi kröftug mótmæli á vettvangi samningsins um að það skyldi eiga að vera heimilt að telja sér til tekna það kolefni sem bundið er í landgræðslu og skógrækt vegna þess að það er eins og við vitum aðeins bundið til skamms tíma. Það losnar á endanum aftur út í andrúmsloftið. Því vildi ég heyra frá þessari ríkisstjórn miklu oftar, ég sakna þess að ég heyri það nánast aldrei, að það séu einhverjar aðgerðir í gangi sem geri það að verkum að Íslendingar ætli að sýna að þeir geti dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda. Okkur nægir ekki að binda kolefni í skógrækt og landgræðslu og okkur nægir ekki að eiga íslenska ákvæðið, stóriðjuákvæðið upp á að hlaupa. Við þurfum að grípa til alvöruaðgerða.



[18:12]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi Kolbrún Halldórsdóttir saknar þess að ekki sé meira rætt um hvernig við Íslendingar ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ég vil láta þess sérstaklega getið að við erum nú að skoða stefnuna Velferð til framtíðar sem er stefnumörkun um sjálfbæra þróun. Hún verður til umræðu á umhverfisþinginu síðar í þessum mánuði og í framhaldi af því mun ég leggja tillögu fyrir ríkisstjórnina þannig að ég vænti þess að þessi mál verði meira til umræðu í vetur en oft áður.

Ég vil líka láta þess getið að í fjárlögum fyrir næsta ár er gert ráð fyrir sérstöku 15 millj. kr. framlagi til að vinna að ýmsum málum varðandi gildistöku Kyoto-bókunarinnar og stærsti hluti þess framlags rennur til uppsetningar skráningarkerfis fyrir útstreymisheimildir Íslands. En það gæti líka komið að gagni varðandi útstreymis- og bindingarbókhaldið og það er ljóst að bókhaldið mun áfram taka breytingum bæði hjá okkur og á alþjóðavettvangi vegna þess að það er stöðugt verið að vinna að því að bæta þá aðferðafræði sem liggur því til grundvallar. En í aðalatriðum er þetta bókhald á útstreymi gróðurhúsalofttegunda í góðu lagi eins og bent er á í skýrslu úttektarnefndarinnar en íslensk stjórnvöld vilja bæta það enn frekar. Í þeirri viðleitni koma ábendingar nefndarinnar að góðu gagni en það er líka alveg ljóst að það bendir allt til þess að við munum standa við okkar hlut á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar og það er meira en hægt er að segja um margar aðrar þjóðir sem verða í miklum vandræðum og þurfa að kaupa sér kvóta.