132. löggjafarþing — 18. fundur
 9. nóvember 2005.
Garðyrkjumenntun að Reykjum í Ölfusi.
fsp. MF, 132. mál. — Þskj. 132.

[18:27]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í aðdraganda alþingiskosninga á sumardaginn fyrsta, 24. apríl 2003, að viðstöddu fjölmenni, undirritaði hæstv. landbúnaðarráðherra reglugerð þess efnis að Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi fengi formlega heimild til að útskrifa nemendur á háskólastigi. Þetta var stór áfangi hjá skóla sem hafði þrátt fyrir erfiðar aðstæður náð verulegum árangri í að þróa kennslu og námsefni og lagt í það mikinn metnað. Árið 2002 hafði komið út skýrsla sem ber nafnið Háborg græna geirans þar sem fjallað var um stöðu og framtíð Garðyrkjuskólans. Meðal skýrsluhöfunda var t.d. hv. þm. Kjartan Ólafsson sem um árabil hefur unnið fyrir samtök garðyrkjunnar. Í skýrslu þessari kom fram löngu þekkt staðreynd að mikill meiri hluti húsnæðis Garðyrkjuskólans væri ónýtt, varla hægt að segja að það héldi vatni, vindi eða væri múshelt.

Ánægja þeirra sem viðstaddir voru þegar hæstv. ráðherra undirritaði reglugerðina 2003 varð því ekki minni þegar hann tilkynnti að til stæði að rannsóknarstöð Skógræktar ríkisins yrði flutt að Reykjum og andvirði jarðarinnar yrði notað m.a. til að byggja upp nýtt húsnæði Garðyrkjuskólans. Í viðtali við Morgunblaðið 24. apríl það ár sagði hæstv. ráðherra að engum dyldist að nú yrði að byggja upp og efla viðhald bygginga sem fyrir væru og í því máli myndu línur skýrast á næstu vikum. Hann lagði einnig mikla áherslu á hlutverk skólans.

Síðan eru liðin tvö og hálft ár. Á þeim tíma hefur landbúnaðarháskóli, sameinaður af skóla landbúnaðarins, orðið til. Í háskólaráði þess skóla á Græni geirinn ekki fulltrúa. Kennsla er enn að Reykjum en húsnæðið er jafnlélegt og áður, vikurnar frá undirskriftinni eru orðnar ansi margar. Í dag óttast menn að grunn- og verknám Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi verði fært í burtu. Má vera að hagnýtt sé að nám á háskólastigi sé allt á einum stað en allir þeir sem starfa í Græna geiranum, sem eru regnhlífarsamtök þeirra sem starfa í faginu, eru sammála um að grunn- og verknám eigi að vera að Reykjum. Allir vita að það liggur á að staðfesta að svo verði og að farið verði í langþráðar endurbætur á húsnæðinu. Uppbygging garðyrkjunáms að Reykjum hefur verið í góðri sátt við atvinnulífið. Það verður að létta þeirri óvissu sem ríkir um framtíð skólans. Það er staðreynd að lögheimili garðyrkjunnar er að Reykjum í Ölfusi og þannig á það að vera.

Ég spyr því hæstv. ráðherra:

1. Hver eru áform ráðherra um garðyrkjumenntun að Reykjum í Ölfusi, sem heyrir nú undir Landbúnaðarháskóla Íslands?

2. Hver eru áform ráðherra varðandi endurbætur og uppbyggingu húsnæðis skólans að Reykjum og hvenær hefjast framkvæmdir?



[18:30]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr um áform ráðherra um garðyrkjumenntun á Reykjum í Ölfusi. Í lögum um búnaðarfræðslu, nr. 57/1999, er kveðið á um að stjórn Landbúnaðarháskóla Íslands sé falin háskólaráði og rektor. Þá segir að háskólaráð marki stefnu í kennslu og rannsóknum á móti skipulagi skólans. Rektor er formaður háskólaráðs. Það sem af er þessu fyrsta starfsári háskólans hefur allur þróttur farið í að koma stofnuninni á laggirnar, ákveða innra skipulag, endurskipuleggja kennslu og ná tökum á fjármálum stofnunarinnar. Hv. þingmenn minnast þess að Reykir komu inn í sameininguna á síðari stigum að eigin ósk þegar verið var að sameina Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri.

Í nýju námsskipulagi skólans er kennsla skipulögð þvert á einstakar námsbrautir. Með því opnast leiðir til að tryggja tilvist fámennra námsbrauta sem ekki væri hægt í aðskildum stofnunum. Í þessu nýja námsskipulagi er hugað sérstaklega að garðyrkju og skyldum greinum og innan skólans er nú starfandi vinnuhópur til að vinna að því að lyfta núverandi diplómanámi í garðyrkju og skyldum greinum á stig BS-gráðu og festa þannig í sessi þá vísa að háskólanámi sem komnir voru á á Reykjum fyrir sameininguna. Hvað starfsmenntanámið varðar eru ekki áform um annað en að reka áfram þær starfsmenntabrautir sem starfræktar eru á Reykjum en vinna er hafin í öðrum starfshópi við endurskoðun á öllu starfsmenntanámi skólans og endurmenntunarframboði.

Það skal tekið fram að þessi endurskoðun er unnin í miklu samstarfi við atvinnulífið. Ekkert hefur verið slakað á varðandi kennslu og rannsóknir á Reykjum og þeir nemendur sem þar stunduðu nám við stofnun Landbúnaðarháskóla Íslands munu ljúka námi þar samkvæmt því skipulagi sem fyrir var.

Hvað varðar síðari spurninguna, þ.e. hver séu áform ráðherra varðandi endurbætur og uppbyggingu við húsnæði skólans að Reykjum þá vil ég segja þetta: Fram undan er stefnumótun varðandi ytra skipulag og uppbyggingu húsnæðis. Landbúnaðarháskóli Íslands hefur nú starfsstöðvar á sex stöðum: Á Hvanneyri, á Hesti í Borgarfirði, á Möðruvöllum í Eyjafirði, á Reykjum í Ölfusi, á Stóra-Ármóti í Hraungerðishreppi og á Keldnaholti í Reykjavík.

Það liggur fyrir að þau áform sem uppi voru um uppbyggingu á Reykjum hafa því miður dregist. Í fyrsta lagi vegna þess að hinir nýju stjórnendur skólans, háskólaráðið og rektor, þurfa svigrúm til þess að átta sig á því hvað þarf að byggja. Nauðsynlegt var að fara í þarfagreiningu í því sambandi. Í öðru lagi hefur dregist að selja þær jarðeignir sem ætlunin var að selja til að fjármagna uppbyggingu á Reykjum og ég ræddi um á sínum tíma. Það liggur í augum uppi að það er að mörgu að hyggja í þessu sambandi. Hér er auðvitað um að ræða langtímaverkefni en ég tel mjög mikilvægt að eyða allri óvissu hvað varðar Reyki í Ölfusi sem allra fyrst vegna nemenda og kennara og byggðarlagsins. Ég veit að Garðyrkjuskólinn á merka sögu og hefur gegnt mikilvægu hlutverki í landinu í áratugi. Þess vegna þarf hlutverk Reykja í framtíðinni að liggja fyrir sem allra fyrst innan hins nýja Landbúnaðarháskóla Íslands. Það er auðvitað skylda mín að herða á þeirri vinnu í landbúnaðarráðuneytinu, innan háskólaráðs og með stjórnendum skólans og það mun ég gera.



[18:34]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ósköp voru þetta fátækleg svör hjá hæstv. ráðherra og nánast engin, hann er eiginlega kominn aftur fyrir sig í umræðunni sem fór fram þegar verið var að sameina skólana. Ég tel að það sé mjög bagalegt.

Um eitt atriði í þessu sambandi vil ég spyrja ráðherra. Nú er ljóst og var vitað að þegar þessar þrjár stofnanir yrðu sameinaðar þá mundi þurfa nokkurt fjármagn til þess að halda starfseminni úti af fullum krafti og einnig til þess að greiða upp skuldir sem höfðu safnast fyrir. Það liggur fyrir að hin nýja stofnun er með verulegan skuldabagga frá fyrri stofnunum og skortir auk þess rekstrarfé og sú staða held ég að sé hvað alvarlegust fyrir starfsemi Garðyrkjuskólans á stöðinni á Reykjum í Ölfusi og reyndar fyrir alla stofnunina í heild. Ég spyr því ráðherra hvers vegna hann taki ekki nú þegar (Forseti hringir.) á fjárhagsvanda stofnunarinnar þannig að (Forseti hringir.) hún þurfi ekki að vandræðast með uppsafnaðan halla.



[18:35]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. landbúnaðarráðherra talaði um í ræðu sinni að nauðsynlegt væri að eyða óvissu um örlög Garðyrkjuskólans á Reykjum. Ég er þess fullviss að þegar fram kom ósk frá aðstandendum skólans um að sameinast Landbúnaðarháskóla Íslands þá voru þeir aðilar vissir um að skólinn yrði rekinn áfram á Reykjum og töldu það fullvíst í ljósi þeirra yfirlýsinga sem raktar voru hér áðan af hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og því sem hæstv. landbúnaðarráðherra lýsti ítrekað fyrir Sunnlendingum rétt fyrir kosningar. Ég tel það undarlegt og að í raun sé verið að koma aftan að Sunnlendingum ef sú er raunin að staða Reykja sé jafnóviss og hér hefur komið fram og tel að svo þurfi alls ekki að vera.



[18:36]
Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin þótt ég hefði gjarnan viljað eins og aðrir sem hér hafa talað hafa þau skýrari. Árið 2003, 24. apríl, var talið af öllum að aðeins væru örfáar vikur í að fyrir lægi hvernig yrði unnið úr úttekt sem þá hafði verið gerð. Þá hafði verið skilað skýrslu sem heitir „Háborg græna geirans“ og ég minntist á hér áðan, en hana unnu Árni Magnússon, Björn Jónsson og hv. þm. Kjartan Ólafsson, og þar kemur skýrlega í ljós að húsnæðið sem skólinn býr við er að langstærstum hluta ónýtt. Það hefur ekki verið byrjað á endurnýjun þess, það hefur dregist og nú eftir að skólinn hefur verið sameinaður Landbúnaðarháskóla Íslands þá óttast menn, svo það sé nú bara sagt eins og staðreyndirnar eru, að þetta nám sem hefur lögheimili í Ölfusinu verði fært.

Auðvitað er það þannig að það má alltaf taka lögheimili upp og færa til. En Garðyrkjuskólinn á sér margra áratuga sögu og hefur byggst upp á þessum stað og þrátt fyrir erfiðar aðstæður hvað húsakost varðar staðið geysilega vel á síðustu árum. Ég fagna því þó að hæstv. ráðherra sagði að ekki stæði til að fara með starfsmenntabrautirnar frá Reykjum. Það er afar mikilsverð yfirlýsing. Það sem við þurfum núna er stuttur tími þar sem tekin verður ákvörðun um með hvaða hætti verður farið í endurbyggingu á því húsnæði sem fyrir er í takt við þá skýrslu sem unnin var 2002. Þar höfum við grunninn til að byggja á þannig að við þurfum ekki langan tíma. Síðan þarf hæstv. ráðherra að breyta reglugerðum skólans þannig að græni geirinn eigi sinn fulltrúa í háskólaráði. Ég held að á því sé mikil nauðsyn því innan græna geirans eru ákveðnar fagstéttir sem falla alls ekki undir landbúnað, ef svo má orða það.



[18:39]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Allt er þetta landbúnaður og meira að segja fallegur landbúnaður og bændur eiga tvo fulltrúa í háskólaráði sem þeir hafa skipað. Miðað við stöðuna hefði auðvitað mátt segja að þeir ættu að skoða það vel að hafa þar mann sem akkúrat þekkti vel til á Reykjum, en þetta var þeirra niðurstaða.

Ég held því fram að þessari menntun sé vel borgið í háskólaráði bæði af þeim fulltrúum sem koma frá Bændasamtökunum og ekkert síður af þeim fulltrúa sem ég á þar og vegna mikils áhuga háskólaráðs á þessu námi.

Hv. þm. Jón Bjarnason kom að kjarna málsins eins og oft áður enda gamall skólastjóri og mikilhæfur í því starfi og væri auðvitað betra að hafa hann þar enn þá að störfum. Það er vont, hvort sem það er einstaklingur eða fyrirtæki, að burðast með miklar skuldir og erfiða fjárhagsstöðu. Ég er honum alveg sammála um að það. Í mínum huga er stórverkefni að bæta úr því og þessa dagana er verið að reyna að finna lausn á því hvað landbúnaðarháskólann varðar og ég vona að fjárlögin beri það með sér á þessu hausti að það hafi tekist. Ef við náum saman um það verkefni í þinginu þá er ein óvissa og ein vandræði úr sögunni og að því er unnið.

Það hefur allt komið fram sem skiptir máli. Mín afstaða er í sjálfu sér óbreytt. Ég harma auðvitað hversu þetta hefur dregist en ég bið fólk um að ala ekki á óvissu eða umræðu um að verið sé að leggja Reyki niður því að allt annað er á borðinu eins og ég hef farið hér yfir. Ég vona að niðurstaða um framtíðarskipulag muni liggja fyrir sem allra fyrst og uppbygging að Reykjum geti þá hafist.