132. löggjafarþing — 18. fundur
 9. nóvember 2005.
Styrkir til kúabænda.
fsp. SigurjÞ, 230. mál. — Þskj. 230.

[18:57]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina eftirfarandi spurningu til hæstv. landbúnaðarráðherra:

Hve mikla beina styrki frá ríkissjóði fær hver af fimm stærstu kúabændum landsins til mjólkurframleiðslu árlega?

Ástæðan fyrir þessari fyrirspurn er ekki endilega sú að ég vilji vita nákvæmlega um hagi þeirra stærstu heldur miklu fremur hvert þetta styrkjakerfi er að þróast pólitískt séð. Ég tel að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur sem viljum hag landbúnaðarins og hinna dreifðu byggða sem mestan að við áttum okkur á því hver þróunin er að verða í þessari atvinnugrein. Ég tel að það sé einnig mjög mikilvægt fyrir landbúnaðinn að hafa ákveðinn frið um styrkjakerfið og einn þátturinn í því er einmitt að ekki fari gríðarháir styrkir á hvert og eitt bú. Ég tel að ef menn fara að sjá kannski styrki upp á 50 millj. kr. til hvers og eins bús þá fari menn að setja spurningarmerki við það að svo háir styrkir fari til eins framleiðanda.

Ég tel að þetta sé áhyggjuefni og ákveðin pólitísk spurning sem hæsv. landbúnaðarráðherra verði að svara: Hvert er styrkjakerfið að þróast? Eins og staðan er nú er ekkert þak á styrkjakerfinu og það kom fram í umræðu um þingmál sem hv. þm. Jón Bjarnason flutti að hann vildi setja ákveðið þak á það. En hv. þingmaður og formaður landbúnaðarnefndar sagði að það væri algerlega ótímabært að ræða. En þess vegna tel ég að það sé mjög mikilvægt að fá það upp hverjir hæstu styrkirnir eru þannig að við getum í rauninni svarað þeirri spurningu, frú forseti, hver þróunin hefur orðið og hvort það sé tímabært að koma á þaki.

En við getum líka velt annarri spurningu fyrir okkur. Það er það að nú hafa ákveðnir aðilar ákveðið að hefja mjólkurframleiðslu í stórum stíl og um það mátti lesa í Bændablaðinu fyrir mánuði. Þeir hafa kosið að standa algerlega fyrir utan styrkjakerfi landbúnaðarins. Þeir segja að ef þeir ákveði að kaupa kvóta eða styrk þurfi þeir að verja öllum beingreiðslum sínum vegna kvótaaukningarinnar næstu 15 ár í afborganir. Ég segi fyrir mína parta að þetta styrktarkerfi í landbúnaðinum, þar sem ekkert þak er á beingreiðslum, þarf að ræða. Ég vil að hæstv. landbúnaðarráðherra svari ekki eingöngu því hve styrkirnir til hvers og eins bús eru háir heldur væri einnig mjög fróðlegt, ef tök eru á því, að fá viðhorf hans til þessarar þróunar.



[19:00]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson bar fram eftirfarandi spurningu: Hve mikla beina styrki frá ríkissjóði fær hver af fimm stærstu kúabændum landsins til mjólkurframleiðslu árlega?

Á verðlagsárinu 2004–2005 fengu fimm stærstu viðtakendur beingreiðslna í mjólkurframleiðslu eftirfarandi upphæðir: Sá fyrsti 32,6 millj., annar 19,4 millj., þriðji 19 millj., fjórði 16,3 millj. og sá fimmti 15,7 millj., alls 103 millj. Í einhverjum þessara tilfella, í flestum reyndar, er um að ræða félagsbú. Þeir framleiddu rúmar 2,7 millj. lítra sem eru um það bil 2,5% af heildarframleiðslunni sem samsvarar rúmum 38 kr. á hvern lítra. Ég vil taka það fram hér að meðalbúið á Íslandi er enn í dag ekki nema um það bil 130 þús. lítra bú sem gerir tæplega 500 þús. kr. í beingreiðslur á ári. Það eru einungis örfá bú með yfir 300 þús. lítra og séu þau stærri eru yfirleitt margir einstaklingar sem koma að slíkum rekstri samkvæmt ríkisreikningi. Fyrir árið 2004 námu heildarbeingreiðslur í mjólk rétt rúmum 4 milljörðum kr.

Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil hagræðing í framleiðslu á vinnslu mjólkur. Þessi hagræðing hefur m.a. komið fram í því að mjólkurframleiðendum hefur fækkað umtalsvert og búin stækkað. Á árinu 1990 voru mjólkurframleiðendur 1.558 talsins en á árinu 2004 voru þeir 854. Sama þróun hefur einnig átt sér stað í mjólkuriðnaðinum. Þar fækkaði mjólkurbúum á sama tímabili úr 16 í 9. Margir halda því fram að þessi þróun sé vegna frjáls framsals mjólkurkvótans og jafnframt þess vilja innan greinarinnar að ná betri árangri. Samhliða þessari þróun hefur afkoma greinarinnar í heild batnað. Hagur neytenda hefur einnig batnað. Sú staðreynd er því ánægjuleg að í þrjú ár hefur heildsöluverð á mjólk og mjólkurafurðum ekki hækkað, ekki einu sinni fylgt verðlagsþróun. Þannig hafa íslenskir neytendur notið stuðningsins með beinum hætti. Stuðningurinn er auðvitað hugsaður sem hluti af tekjum bændanna og rennur síðan í hollri vöru og ódýrari inn á disk neytendanna og heldur vísitölunni niðri.

Áður en sá mjólkursamningur sem tók gildi þann 1. september sl. var gerður fór fram mikil úttektarvinna mjólkurnefndar um stefnumótun á mínum vegum í mjólkurframleiðslu en í nefndinni sátu fulltrúar bænda, stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins. Nefndin skilaði skýrslu um stöðumat og stefnumótun í mjólkurframleiðslu. Á grundvelli þessarar stefnumótunar var síðan undirritaður nýr mjólkursamningur. Vorið 2003 var gildistími hans frá 1. september 2005 og til ágústloka árið 2012. Alþingi samþykkti þennan samning á 130. löggjafarþingi án mótatkvæða. 43 sögðu já og enginn sagði nei, fjórir sátu hjá og aðrir voru fjarstaddir. Hv. þingmaður var meira að segja í hópi þeirra aðila sem samþykktu þennan nýja samning, þökk sé honum.

Markmið samningsins eru þessi:

1. Að almenn starfsskilyrði í framleiðslu á vinnslu mjólkurafurða og stuðningur ríkisins við greinina stuðli að áframhaldandi hagræðingu, bættri samkeppnishæfni og lægra vöruverði.

2. Að fjárhagslegur stuðningur ríkisins við greinina nýtist sem best til að lækka vöruverð til neytenda.

3. Að viðhaldið verði þeim stöðugleika sem náðst hefur milli framleiðslu og eftirspurnar.

4. Að greinin fái svigrúm til að búa sig undir aukna erlenda samkeppni.

5. Að greinin geti þróast þannig að nauðsynleg kynslóðaskipti geti orðið í hópi mjólkurframleiðenda og unnt sé að endurnýja framleiðsluaðstöðu með eðlilegum hætti.

6. Að gætt sé sjónarmiða um dýravelferð og heilnæmi afurða.

Það var m.a. skoðun mjólkurnefndar að nýr mjólkursamningur á þeim grunni sem lýst er hér að ofan verði vel til þess fallinn að tryggja hagsmuni neytenda og skattgreiðenda á sama tíma og stuðlað er að áframhaldandi uppbyggingu atvinnugreinarinnar. Það hefur verið skoðun margra að ekkert sé mikilvægara í dag en samkeppnishæfni búgreinanna, ekki síst í mjólkinni, við lækkandi tolla og aukið frelsi í innflutningi í framhaldi af þeim alþjóðlegu samningum sem nú eru í gangi í WTO-viðræðum.



[19:06]
Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Undir þeirri fyrirspurn sem hér hefur verið lögð fram af hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni eru örfá atriði sem ég vil koma inn á. Í fyrsta lagi það að beingreiðslurnar ganga frá ríkinu til viðkomandi bænda eða fyrirtækja sem stunda mjólkurframleiðslu. Það eru í mörgum tilfellum fyrirtæki, eins og hér kom fram. Þessi styrkur er í rauninni niðurgreiðsla og lækkun á vöruverði til neytenda. Við verðum að horfa þannig á það.

Við verðum að átta okkur á því líka að mjólkurframleiðslan og íslenskir bændur verða í auknum mæli að taka þátt í alþjóðasamkeppni. Verð lækkar, tollmúrar minnka og eru í sumum tilfellum fallnir niður og þess vegna verða íslenskir framleiðendur að geta búið sig undir samkeppnina. Það að setja þak á stærð búa er alveg fráleitt. Þau þurfa að stækka. Þau þurfa að fá að stækka og dafna til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. En okkar íslensku framleiðslubú eru mjög lítil á norrænan mælikvarða.



[19:07]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra talar um framleiðslu á hvert bú. Líka hefði verið fróðlegt að heyra hvað hefur verið framleitt á lögaðila því að einn lögaðili kaupir upp jarðir, jafnvel í tugavís, jarðir sem framleiða mjólk. Hann kaupir upp mjólkurkvótann. Það geta verið mörg bú en einn lögaðili á þau.

Ég er ekki viss um að það styrki samkeppnisstöðu mjólkurframleiðslunnar ef einn og sami lögaðilinn er kominn með á sínar hendur kannski milli 1 og 2 milljónir lítra eða 40, 50 eða 60 millj. íslenskra kr. í ríkisstuðning. Það snýst ekki bara um ríkisstuðninginn, heldur líka þá bústærð, það búskaparform, að lögaðili sé farinn að reka fjölda búa og rokka til og frá með framleiðsluréttinn sem ég held að styrki ekki samkeppnisstöðu mjólkurframleiðslunnar.



[19:08]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að mjólkurvörur hefðu ekki hækkað undanfarin ár og þess vegna vil ég að það komi hér fram að mjólkursamningurinn sem var gerður færði bændum verulega hærri styrki en höfðu verið fyrir. Það er ástæða til að muna eftir því þegar menn tala um þetta verð.

Síðan er það þannig að þessi mjólkursamningur færði okkur ekki með neinum hætti fram til þeirrar framtíðar sem þó liggur fyrir að er, og hún er sú að breyta þarf styrkjum í landbúnaði. Eina breytingin sem hægt er að tala um þar var að einhver lítils háttar styrkur kemur til þeirra sem framleiða nautakjöt. Sá er eini munurinn. Alþingi brást algerlega í breytingum á þeim samningi sem þarna færði íslenska bændur ekki nær þeirri framtíð sem er fram undan. (Forseti hringir.) Auðvitað mun koma að því að menn þurfa að horfast í augu við hana.



[19:09]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. landbúnaðarráðherra fyrir svörin. Það er eflaust rétt hjá honum að ég samþykkti samninginn enda vil ég hag bænda sem mestan. Þess vegna tel ég, út frá þeirri forsendu að ég vilji hag bænda sem mestan, að það sé einmitt gott fyrir bændur að friður sé um styrkjakerfið sem við höfum í landbúnaðinum og þess vegna eigum við að hafa það. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra geri stuttlega grein fyrir því hvort hann sé ekki að einhverju leyti sama sinnis, hvort það sé endilega hagur bænda að einstaka bú geti safnað milljónum lítra í framleiðslurétt og síðan fengið 45 millj. í beingreiðslu eins og stefnir greinilega í samkvæmt svörum hæstv. ráðherra.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson nefndi það að hann vildi hafa ákveðið frelsi fyrir búin til að stækka. Ég get verið sammála honum um það en ég er ekki endilega viss um að skattgreiðendur eigi endalaust að greiða í samræmi við það hvað búin vilja stækka. Það getur ekki verið eðlilegt að menn fái marga tugi milljóna í beingreiðslur frá skattgreiðendum. Það gengur ekki. Það skiptir svo miklu máli í styrkjakerfi að sátt verði um það og liðurinn í því er einmitt að sett verði ákveðið þak. Þá er ég sannfærður um að það verður meiri almennur vilji skattgreiðenda til að peningar fari í styrkjakerfið.

Einnig hef ég vissar efasemdir um framkvæmdina. Vegna alþjóðlegra samninga sem skuldbinda þjóðina til að draga úr þessum framleiðslutengdu styrkjum munu ýmsir lenda í vandræðum þegar fram í sækir, þegar alþjóðaskuldbindingar munu leiða til þess að við þurfum að minnka þessa styrki um jafnvel allt að helming.



[19:11]
landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu og viðhorf flest sem hér hafa komið fram. Ég get sagt við hv. þingmann að ég ræddi það og er auðvitað þeirrar skoðunar að vel hefði mátt setja fastara þak. Það er aðeins þak í gripagreiðslum sem gerir það að verkum að þegar menn verða komnir upp í ákveðna upphæð og búnir að hagræða í búinu minnkar stuðningurinn til búsins. Ég er í rauninni þeirrar skoðunar.

Ég hef líka oft rætt hátt kvótaverð. Búgreinin er að hagræða innan frá. Ég hef haft áhyggjur af unga skulduga fólkinu sem ætlar að framleiða mjólkina í framtíðinni fyrir þjóðina í samkeppni við innflutning. Það getur orðið erfitt þannig að það er að mörgu að hyggja í þessu eins og hér hefur komið fram í umræðunni.

Hitt er auðvitað glæsilegt að það er mikil ánægja með mjólkurframleiðsluna. Landbúnaðarráðherra var að gera það sem enginn landbúnaðarráðherra annar hefur gert lengi, þ.e. að auka framleiðslumagnið úr 106 millj. lítra í 111 millj. og mjólkurbúin vilja kaupa 4 millj. lítra til viðbótar. Það er glæsilegt tækifæri, sú neysla og sú samstaða sem er um þessa atvinnugrein í dag, og gefur bændunum auðvitað nýtt og mikilvægt tækifæri til að hagræða, hafa það betra á búum sínum og gera sig samkeppnishæfari.

Það er auðvitað svo að við stöndum frammi fyrir mörgu sem gerir íslenskan landbúnað sérstæðan og sterkan. Við heyrum öðru hvoru rætt um kúariðu, gin- og klaufaveiki, fuglaflensu og þá vitum við og minnumst þess þegar við borðum á kvöldin eða í hádeginu hvað ósköp við erum heppin að eiga þá auðlind sem íslenskur landbúnaður er.

Ég vil segja við hv. þm. Jóhann Ársælsson að það er ekki rétt að mjólkursamningurinn sé með meiri styrki en var áður. Það er skúrhalli á styrknum, hann fer lækkandi miðað við þann samning sem var áður aðeins lækkandi þannig að þetta er svipuð upphæð. Þegar hins vegar var aukið úr 106 millj. í 111 kom ekkert viðbótarfé frá ríkinu þannig að samningurinn er allur í þá átt að þróa hann til (Forseti hringir.) samkeppninnar og að styrkja bændurna innan frá.