132. löggjafarþing — 18. fundur
 9. nóvember 2005.
Togveiði á botnfiski á grunnslóð.
fsp. JGunn, 242. mál. — Þskj. 242.

[20:23]
Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Mikið hefur verið rætt um nauðsyn þess að rannsaka hafsbotninn betur en gert hefur verið og einnig áhrif mismunandi veiðarfæra á hann. Einnig hefur umræðan um fiskvernd og fiskverndarsvæði aukist frá því sem áður var.

Nú háttar þannig til, frú forseti, að sums staðar á landinu er leyfilegt að veiða með botnvörpu nánast upp í kálgarða, upp að 3 mílum frá landi. Eitthvað eru þó reglur mismunandi um þetta eftir landsvæðum og ekki alltaf gott að átta sig á hvað ráði reglum á hverjum stað.

Þegar rætt er um veiðar með trolli á grunnslóð velta menn ekki einungis fyrir sér áhrifum veiðarfæranna á botninn og lífríkið heldur ekki síður sambúð mismunandi veiðarfæra og bátaflokka á sömu veiðislóð. Maður hefði haldið að meginreglan væri sú að smærri bátar gætu sótt á grunnslóðina en stærri bátum væri beitt utar. Ekki virðist það þó gilda um hafsvæðið undan suðurströndinni og út af Faxaflóa. Víða eru því vandræði þar sem smærri bátar eru að veiðum með staðbundin veiðarfæri og tiltölulega stór togskip mæta á veiðislóðina vegna frétta af aflabrögðum.

Ekki verður séð í fljótu bragði að neinar samræmdar reglur gildi um þetta efni og ekki er alltaf auðvelt að koma auga á hvað ræður reglum á hverju svæði. Því er ekki undarlegt þó spurt sé um málið. Mér er kunnugt um að hæstv. sjávarútvegsráðherra hefur fengið sent erindi frá strandveiðimönnum á Suðurnesjum um svipað efni. Hins vegar er mér ekki kunnugt um hvort honum hefur gefist tími til að taka afstöðu til þess erindis eða svara því.

Frú forseti. Hér er einnig um öryggisatriði að ræða þar sem smábátar sem ekki frá frið á grunnslóð freistast til að sækja lengra og dýpra en þörf væri á ef grunnslóðin innan 12 mílna væri friðuð fyrir stórvirkum veiðarfærum eins og botnvörpu. Þótt svokallaðir smábátar séu alltaf að verða stærri og fullkomnari en áður voru þá dylst engum að þau fley eru ekki ætluð til veiða á djúpmiðum árið um kring. Því til viðbótar er rétt að líta til áherslunnar sem alltaf hefur verið að aukast um heim allan á vistvænar og sjálfbærar veiðar og það að ganga um fiskveiðiauðlindina á sem ábyrgastan hátt. Stórir kaupendur sjávarafurða eru farnir að líta til þessara atriða í innkaupastefnu sinni. Það er álit manna að það muni aukast á næstu árum.

Við sem byggjum enn sem komið er mikið á fiskveiðum og fiskvinnslu hljótum að velta því fyrir okkur hvort ekki sé rétt að fara yfir stefnu stjórnvalda varðandi veiðar innan fiskveiðilögsögunnar og ekki síst á grunnslóð. Því er spurt:

1. Gilda einhverjar samræmdar reglur um togveiði á botnfiski á grunnslóð innan 12 mílna frá landi?

2. Telur ráðherra koma til greina að setja frekari takmarkanir en nú er gert við togveiðum á botnfiski innan 12 mílna frá suðurströndinni?



[20:26]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Spurningar hv. þm. Jóns Gunnarssonar eru í tveimur liðum.

Í fyrsta lagi: „Gilda einhverjar samræmdar reglur um togveiði á botnfiski á grunnslóð innan 12 mílna frá landi?“

Svarið er: Í 5. gr. laga nr. 79 frá 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, eru markaðar togveiðiheimildir fiskiskipa. Togveiðiheimildir eru lögbundnar og getur ráðherra ekki veitt rýmri heimildir en tilgreindar eru í 5. gr. laganna. Hins vegar hefur ráðherra heimild til að takmarka togheimildir, einkum til verndar smáfiski og hrygningarfiski og hefur þess nokkuð gætt fyrir suður- og vesturströndinni. Þá hefur ráðherra heimild til að skipta veiðisvæðum milli veiðarfæra og hafa árlega verið sett tvö línu- og netasvæði við Reykjanes þar sem togveiðar hafa tímabundið verið bannaðar.

Í öðru lagi er spurt: „Telur ráðherra koma til greina að setja frekari takmarkanir en nú er gert við togveiðum á botnfiski innan 12 mílna frá suðurströndinni?“

Svarið er: Það er ljóst að togveiðar eru að jafnaði heimilar nær landi fyrir suðurströndinni en annars staðar og þá fyrst og fremst fyrir minni togskip. Þannig hefur þetta verið um langt árabil. Þá sérstöðu má bæði rekja til útgerðarhátta á þessu svæði og svo til fiskigengdar. Það er ljóst að verulegar breytingar á togveiðiheimildum fiskiskipa á þessu svæði mundu raska útgerðarháttum fyrir Suður- og Vesturlandi. Þá er rétt að benda á að Hafrannsóknastofnun hefur ekki lagt til að dregið sé úr togveiðum á þessum slóðum frekar en hefur verið gert með sérstökum reglugerðum.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir, að það er ekki alltaf gott að átta sig reglunum í þessu samhengi. Ég er alveg sammála því. Það er líka ljóst, eins og við þekkjum, gamlir refir í þessum útgerðarbransa, að þetta hefur oft ráðist af hagsmunum eins og þeir hafa verið hverju sinni. Það er gömul reynsla og ný að menn reyna að hreyfa þessi hólf til út frá hagsmunum á viðkomandi veiðisvæði. Þetta er margreynt og oft hafa verið mikið átök um þessi hólf, eins og við þekkjum. En víðast hvar hefur sem betur fer tekist sæmilega til um sambúðina í þessum efnum.

Hv. þingmaður nefndi að í ráðuneytinu lægi fyrir erindi um að takmarka frekar togveiðar fyrir Suður- og Vesturlandi. Ég vil líka segja að óskir hafa komið inn á mitt borð um að auka heimildir fyrir dragnótaveiðar fyrir Suðurlandi, sem ég hef heldur ekki tekið afstöðu til. Þessi mál eru hins vegar alltaf í endurskoðun. Ég geri t.d. ráð fyrir að með vaxandi línuútgerð á Suðurnesjum muni krafan um að togveiðibátunum verði ýtt utar verða háværari. En það þýðir hins vegar ekki að sjálfkrafa verði orðið við þeim erindum. Ég mun hins vegar fara vel yfir þau þegar þau berast.

Við verðum að horfa á heildarhagsmunina, bæði fiskverndarhagsmuni og jafnframt hagsmuni útgerðarformanna. Eins og ég hef þegar rakið skipta veiðar togbáta mjög miklu máli fyrir atvinnulífið, bæði á Suðurnesjum og í Vestmannaeyjum sérstaklega. Það þarf að fara í þessi mál af mikilli gætni og af yfirvegun. Ég hef sjálfur setið mörg fiskiþing þar sem slík mál hefur borið á góma. Mér er ljóst að þessi mál eru mjög viðkvæm. Hafi menn fylgst með deilum um fiskveiðilöggjöfina þá hef ég oft sagt að það er hreinn barnaleikur miðað við átökin sem oft hafa orðið milli fulltrúa einstakra veiðarfæra og skipagerða. Ég tel að það sé sjálfsagður hlutur að menn umgangist þessi mál af fullri virðingu.

Eins og fram hefur komið var lögunum um fiskveiðilandhelgi Íslands breytt árið 1997. Það var gert eftir mjög ítarlega yfirferð þar sem hagsmunaaðilar voru kallaðir til og farið hafði verið um landið til að ræða þessi mál við sjómenn, útvegsmenn og vísindamenn. Niðurstaðan varð sú að breytingarnar urðu satt að segja ekki miklar. Þegar menn fóru af stað höfðu þeir hugmyndir um talsverðar breytingar en hurfu frá þeim, m.a. vegna þess að andstæð sjónarmið voru uppi og menn treystu sér ekki í meiri breytingar.

Nú hefur verið farið í þessi hólfamál, ef við getum kallað þau svo, í sérstakri nefnd sem er starfandi á vegum sjávarútvegsráðuneytisins. Þar eiga fulltrúar hagsmunasamtaka sæti. Þessi nefnd hefur það hlutverk að fara yfir starfsumhverfi sjávarútvegsráðuneytisins og fjalla um ýmsa þætti sem betur mættu fara. Þar hafa menn hnikað áfram málum til að stuðla að því að lækka kostnað í sjávarútveginum. Nú er nefndin að byrja að fara yfir þessi mál í heild sinni. Ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn á að út úr því komi miklar breytingar. Ég tala af reynslu. Ég geri mér grein fyrir að þetta er snúið mál en það þýðir ekki að við eigum að víkja okkur undan því. Við eigum að fjalla um það. Að sjálfsögðu eigum við m.a. að skoða það sem hv. þingmaður var að spyrja um og það erum við að reyna að gera.



[20:31]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstvirtur forseti. Það er nú þannig að hagsmunaðilar í sjávarútvegi á Íslandi eru öflugastir í LÍÚ, það eru hagsmunasamtökin, svo eru auðvitað smábátasjómenn þar fyrir utan. En þessi hagsmunasamtök eru fyrst og fremst hagsmunasamtök sem starfa fyrir togveiðar, togveiðiskipin. Dregin veiðarfæri eru langstærsti hlutinn og öflugustu aðilarnir eru þar. Ef menn ætla að hlusta á þá og vera linir í löppunum gagnvart þeim endalaust, þá mun ekki verða nein breyting á. Togskip hafa aukist að afli og fjölda á undanförnum árum. Veiðar hafa færst frá öðrum veiðarfærum yfir til togveiðarfæra í mjög miklum mæli. Þetta hefur verið látið gerast. Hafrannsóknastofnun hefur ekki rannsakað nægilega vel hvaða áhrif þetta hefur á fiskimiðin og við vitum þess vegna ekki nóg um þá hluti. En það þyrftum við sannarlega að gera. (Forseti hringir.)



[20:33]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hygg að síðasti ræðumaður hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann kom að rannsóknaþættinum. Því miður er það svo að veiðarfærarannsóknir hér við land hafa verið vanræktar allt of mikið undanfarna áratugi. Við höfum í raun og veru verið langt á eftir nágrannaþjóðunum í þeim efnum og það ber mjög að harma.

Þetta virðist því miður hafa komið okkur í koll því að nýlegar myndir sem Hafrannsóknastofnun hefur tekið, einmitt við suðurströndina, sýna að togveiðarfæri hafa valdið óbætanlegu tjóni á dýrmætum vistkerfum, kórallasvæðum, sem seint eða aldrei verður bætt. Það er því full ástæða til að skoða þessi mál með gagnrýnum hætti og fara vandlega yfir hvernig þessum reglum er háttað í dag, sérstaklega í ljósi þeirra nýju upplýsinga sem nú liggja fyrir.



[20:34]
Fyrirspyrjandi (Jón Gunnarsson) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir greinargóð svör við fyrirspurn minni og einnig hv. þingmönnum og öðrum sem tekið hafa þátt í umræðunni. Það gilda reglur, togveiðiheimildir eru lögbundnar, þó rétt sé að hæstv. ráðherra megi takmarka togveiði enn frekar en lögheimildir gera ráð fyrir. En það gilda engar samræmdar reglur. Það var það sem mér fannst ég geta lesið úr svari hæstv. ráðherra, að það gilda ákveðnar reglur en það gilda engar samræmdar eða gegnsæjar reglur um hvar sé heimilt að veiða með botntrolli innan 12 mílna og hvar ekki. Hæstv. ráðherra leiðréttir mig kannski ef ég fer með rangt mál en ég held að togveiðar séu almennt bannaðar innan 12 mílna annars staðar en fyrir Suður- og Vesturlandi. Það sé meira um það að ekki sé heimilt að fara á tiltölulega stórum skipum upp að 3 mílum annars staðar við landið.

Ráðherra hefur einnig heimildir til að skipta veiðisvæðum milli veiðarfæra og maður veltir fyrir sér hvort ráðherrann ætli að skoða það eitthvað nánar og skoða í alvöru að grunnslóðin verði frekar fyrir staðbundin veiðarfæri en togbátunum stóru verði ýtt út fyrir 12 mílur. Það er rétt sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra að Hafró hefur svo sem ekki lagt til neinar frekari takmarkanir á togveiðum. En þar sem í raun ekki gilda neinar samræmdar reglur þá veltir maður fyrir sér hverju ráðgjöf Hafró ráði í því efni. Ég held að það sé alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að oft og tíðum eru það hagsmunirnir og hvernig þetta hefur þróast á hverjum stað fyrir sig. En markaðurinn gerir kröfur um ákveðið hráefni í dag. Það er vaxandi línuútgerð og því er eðlilegt að velta fyrir sér hvort ekki sé rétt að mæta kalli tímans og skoða upp á nýtt heimildir togveiðiskipa til að fara upp að 3 mílum.



[20:36]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér var sagt áðan að hagsmunasamtök útvegsmanna væru fyrst og fremst hagsmunasamtök fyrir togveiðar. Og þau hefðu áhrif þess vegna. Engu að síður er það nú þannig að það hefur verið gert mjög mikið í því að loka á togveiðar, m.a. á hefðbundinni togslóð. Núna t.d. segja togaraskipstjórar sem hafa haft samband við mig að Halinn sé meira og minna allur lokaður fyrir togveiðum, hefðbundin togslóð fyrir þá. Það er alveg rétt, það er búið að grípa til mikilla lokana á þessum svæði af ýmsum ástæðum. Við höfum lokað svæðum, t.d. austur af Horni út af Reykjafjarðarál, vegna smáfisksveiði. Og við höfum ekki opnað það hólf þótt menn hafi verið að gera kröfur um það. En ég tel það hins vegar sjálfsagðan hlut að við skoðum þessi hólf, ef t.d. koma upp aðstæður sem gera það eðlilegt að menn veiði í þeim.

Það er alveg rétt, að þetta lítur þannig út að við getum ekki bent á að það sé algert samræmi í þessu. Alveg eins og ég var að segja hér áðan. Það eru auðvitað ýmsar staðbundnar ástæður sem gera það að verkum að fyrirkomulagið er nokkuð mismunandi, t.d. út af Vestfjörðum þar sem ég þekki, þar hafa menn opnað inn á grunnslóðina fyrir togarana á haustin til þess að þeir geti fiskað kola og ýsu. Við lokum ýmsum svæðum, t.d. hrygningarsvæðum fyrir steinbít á haustin o.s.frv. þannig að við beitum mjög miklum lokunum og það sem menn hafa kallað verndunarsvæði, kannski er það í rauninni þessi svæði sem eru verndunarsvæði. Og af því hér voru nefndir kórallarnir áðan þá vil ég segja að einmitt núna er í undirbúningi reglugerð sem mun fela það í sér að það verður lokað á togveiðar á svokölluðum kórallasvæðum. Þessi vinna hefur staðið yfir að undanförnu og ég geri ráð fyrir því að mjög fljótlega verði þetta kunngjört.

Svo að lokum, svo ég hafi endanlega æruna af hv. þingmönnum frjálslyndra, þá verð ég að taka undir með Magnúsi Þór Hafsteinssyni, ég er honum alveg sammála um að við höfum vanrækt um of veiðarfærarannsóknir og ég er honum alveg sammála um að það er eitt af því sem við eigum að hafa sem áhersluatriði í fiskveiðiráðgjöf okkar og hafrannsóknum. Þannig að nú er ég bæði búinn að hafa æruna af hv. þingmanni Sigurjóni Þórðarsyni og Magnúsi Þór Hafsteinssyni með því að taka undir með þeim. (Gripið fram í.)