132. löggjafarþing — 19. fundur
 10. nóvember 2005.
Skýrsla umboðsmanns Alþingis 2004.

[11:56]
Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Alþingi hefur borist skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 2004 og er hún hér til umræðu.

Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði þingsins eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum um embættið og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Þetta hlutverk rækir umboðsmaður með því að taka til athugunar kvartanir frá borgurunum auk þess sem hann tekur mál til athugunar að eigin frumkvæði, telji hann ástæðu til þess.

Árleg skýrsla umboðsmanns Alþingis hefur mikla þýðingu og veitir alþingismönnum mikilvægar upplýsingar um starfsemi stjórnsýslunnar og framkvæmd þeirra laga sem sett eru á Alþingi.

Sú skýrsla, sem hér er til umræðu og tekur til ársins 2004, skiptist í fimm kafla. Í fyrsta kafla er að finna almenna umfjöllun um störf umboðsmanns Alþingis og rekstur skrifstofu hans árið 2004. Víkur umboðsmaður þar að helstu viðfangsefnum sínum á árinu. Ég vek sérstaka athygli á þessum hluta skýrslunnar, umfjöllun hans um framkvæmd stjórnsýslulaga og lögmætisregluna.

Umboðsmaður fjallar enn fremur í inngangi sínum um svonefnd frumkvæðismál eða þau mál sem hann tekur upp að eigin frumkvæði. Það er ljóst af skýrslunni að þarna sinnir umboðsmaður mikilvægu aðhaldshlutverki gagnvart stjórnsýslunni og beitir þessari heimild sinni til að hvetja stjórnvöld til að gera almennar umbætur í stjórnsýslunni. Ég tel mikilvægt að Alþingi standi vörð um að umboðsmaður Alþingis geti rækt þetta hlutverk.

Í öðrum kafla skýrslunnar er að finna margvíslegar tölulegar upplýsingar um skráð mál og afgreiðslur þeirra árið 2004. Þar kemur fram að alls voru 323 mál skráð hjá umboðsmanni á árinu og er það nær 10% fjölgun mála frá árinu 2003. Alls bárust umboðsmanni á árinu 320 formlegar kvartanir en að auki tók hann 3 mál upp að eigin frumkvæði. Samtals 279 mál hlutu lokaafgreiðslu á árinu og voru 89 mál óafgreidd í árslok. Af þessum óafgreiddu málum var í 50 þeirra beðið eftir skýringum og upplýsingum frá stjórnvöldum og í 11 málum var beðið eftir athugasemdum frá þeim sem borið höfðu fram kvörtun.

Þá vil ég vekja athygli hv. þingmanna á umfjöllun umboðsmanns um viðbrögð stjórnvalda við tilmælum hans. Þar má sjá að oftast nær hefur verið farið að tilmælum umboðsmanns um endurskoðun á máli, í öllum tilvikum nema tveimur. Og þegar umboðsmaður hefur beint almennum tilmælum til stjórnvalds að gera breytingar á tilteknum vinnubrögðum eða reglum verður ekki betur séð en að ávallt hafi verið farið að ábendingum umboðsmanns eða vilja lýst til þess að fylgja þeim þegar sambærileg mál kæmu næst til úrlausnar.

Ég tel að þetta sé til marks um árangur af starfi umboðsmanns og um leið vitnisburður þess að það sé vilji stjórnvalda að haga afgreiðslum sínum í fyllsta samræmi við réttindi borgaranna og gildandi rétt á sviði stjórnsýslu. Þessi niðurstaða sýnir jafnframt vel hið mikilvæga hlutverk umboðsmanns Alþingis og nauðsyn þess að þingið búi vel að þeirri starfsemi sem fram fer á vegum embættisins.

Í öðrum kafla skýrslunnar er einnig lýst tilkynningum umboðsmanns til Alþingis, ráðherra eða sveitarstjórna um meinbugi á lögum eða almennum stjórnvaldsfyrirmælum eða framkvæmd sem hann verður var við í athugunum sínum á einstökum málum.

Í skýrslunni er að finna ábendingar umboðsmanns í fimm liðum, m.a. til Alþingis á liðnu ári, um að tilefni kunni að vera til þess að endurskoða tiltekin atriði í lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða framkvæmd.

Þriðji kafli skýrslunnar er fyrirferðarmestur en þar er að finna útdrætti um mál sem umboðsmaður hefur lokið með áliti eða bréfi og ákveðið að birta opinberlega. Ég tel hins vegar rétt að árétta í þessu sambandi að álit umboðsmanns birtast í heild sinni ásamt útdrætti á heimasíðu embættisins jafnóðum og málunum er lokið. Hefur birting álita umboðsmanns á netinu veitt almenningi, starfsfólki stjórnsýslunnar og alþingismönnum greiðan aðgang að niðurstöðum umboðsmanns.

Þá hafa fjölmiðlar einnig sýnt niðurstöðum umboðsmanns verulegan áhuga og flytja þeir gjarnan fréttir af þeim jafnóðum og þær birtast á netinu. Reyndar gerði umboðsmaður nýlega þróun í umfjöllun fjölmiðla af niðurstöðum hans að sérstöku umtalsefni í skýrslunni og velti fyrir sér hugsanlegum áhrifum hennar á viðbrögð stjórnvalda við álitunum.

Umboðsmaður lýsir einnig ákveðnum áhyggjum af viðbrögðum stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hafa til hans þegar niðurstaða liggur fyrir. Ástæða er til að ítreka að það eftirlitshlutverk sem umboðsmaður Alþingis á að rækja í umboði Alþingis byggist á því að almenningur geti leitað til hans sem óháðs aðila og fengið álit hans á gerðum stjórnvalda. Viðbrögð stjórnvalda við niðurstöðu umboðsmanns þurfa því í senn að vera málefnaleg og miða að því að taka afstöðu til þess hvort þörf sé á að bæta úr því sem umboðsmaður telur að gera hefði átt með öðrum hætti. Þannig náum við árangri við að bæta stjórnsýsluna í þágu borgara þessa lands.

Ég átti í gær, ásamt varaforsetum þingsins, ágætan fund með umboðsmanni og starfsmönnum hans. Forsætisnefnd þingsins hefur undanfarin ár heimsótt embættið og átt viðræður við umboðsmann um starfsemi embættisins, bæði um meðferð mála, verksvið umboðsmanns, svo og fjármál embættisins og húsnæðismál. Ég vil lýsa mikilli ánægju með þennan fund og þakka umboðsmanni og starfsfólki hans fyrir velunnin störf og árangursrík á liðnu ári.

Ég vil geta þess sérstaklega að á þessum fundi með umboðsmanni lýsti hann eftir meiri og frekari fræðslu fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar. Ég tek undir það með umboðsmanni og fagna því að á árinu 2004 var að frumkvæði forsætisráðuneytisins boðið upp á sex vikna námskeið um stjórnsýslurétt fyrir starfsfólk stjórnsýslunnar.

Þótt fræðsla sé þýðingarmikil þá tel ég rétt að taka undir þau orð umboðsmanns í skýrslunni að mikilvægast er að starfsfólk stjórnsýslunnar tileinki sér umburðarlyndi gagnvart borgurunum og skilning á nauðsyn þess að bæta úr því sem miður hefur farið. Með því nást fram umbætur í stjórnsýslunni og umfram allt betri stjórnsýsla.



[12:04]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vona að formaður allsherjarnefndar finnist áður en umræðunni lýkur, en ég vil byrja á að segja að það er alltaf ákveðið gleðiefni þegar skýrsla umboðsmanns Alþingis kemur út. Ég vil óska umboðsmanni Alþingis og starfsfólki hans innilega til hamingju með þessa góðu og efnismiklu skýrslu, hún er svo sannarlega nauðsynleg fyrir okkur hér á þingi sem erum í eftirlitshlutverki gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Það er alveg ljóst, og ég held að allir séu sammála um það, að umboðsmaður Alþingis er gríðarlega mikilvægt úrræði í okkar réttarríki, ef svo mætti segja, og í okkar réttaröryggi. Þetta er embætti sem hefur tekist mjög vel, þetta er embætti sem nýtur óskoraðs trausts nánast allra aðila og stofnana í samfélaginu og þetta er embætti sem sinnir hlutverki sínu afskaplega vel. Það er mjög mikilvægt fyrir stjórnsýsluna og framkvæmdarvaldið að átta sig á því að stjórnsýslan er fyrir borgarana en ekki öfugt. Þetta regluverk umboðsmanns Alþingis lýtur að því að auka hér réttaröryggi, réttaröryggi í þágu borgaranna. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að hér á landi eru ekki einungis til skráðar stjórnsýslureglur heldur einnig óskráðar. Þegar stjórnsýslulögin voru sett á sínum tíma var ákveðið að hafa þau skýr og einföld, en það hefur í för með sér að ýmislegt þarf að túlka og þar gegnir embætti umboðsmanns Alþingis lykilhlutverki, í því að túlka hinar óskráðu og að sjálfsögðu hinar skráðu stjórnsýslureglur.

Við sjáum í þessari skýrslu að árið 2004 voru 323 ný mál skráð og 279 fengu lokaafgreiðslu en heildarfjöldi mála hefur tvöfaldast frá árinu 1990 og eflaust eru ýmsar skýringar á því. Það er hins vegar umhugsunarvert að á síðasta ári, 2004, voru einungis fjögur frumkvæðismál en þau voru sex árið á undan. Á síðasta ári lauk umboðsmaður Alþingis þremur svokölluðum frumkvæðismálum, sem eru mál sem hann tekur upp að eigin frumkvæði. Af þessum tölum sjáum við að frumkvæðismálin eru einungis um 1% allra mála hjá umboðsmanni Alþingis og það vekur eftirtekt hversu fá þau eru. Það skýrist að sjálfsögðu af skorti á peningum og mannafla að mínu mati.

Þetta úrræði umboðsmanns Alþingis er gríðarlega mikilvægt og við eigum að efla getu embættisins til þess að taka hér upp mál að eigin frumkvæði. En til þess þarf peninga og við sjáum að í fjárlagafrumvarpinu, sem nú liggur fyrir Alþingi, er einungis gert ráð fyrir einni milljón í að auka getu embættisins til frumkvæðisathugunar. Að mínu mati mætti gera betur, því miður eru næg verkefni fyrir embættið hvað þetta varðar.

Það er reyndar mjög ánægjulegt að sjá að tvö frumkvæðismál umboðsmanns Alþingis, sem eru til umfjöllunar hjá embættinu, lúta að föngum. Annað málið lýtur að greiðslu launa til fanga fyrir vinnu innan fangelsanna og réttindum tengdum þeim og hitt lýtur að aðgengi fanga að síma og möguleikum þeirra til að hafa símasamband við aðila utan fangelsisins. Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og við í allsherjarnefnd höfum haft mikinn áhuga á fangelsismálum og þeirri stöðu sem fangar hafa, ekki síst samskiptum þeirra við sína nánustu. Í núverandi kerfi virðast vera margar brotalamir hvað það varðar. Við settum ný lög um fangelsi og umboðsmaður Alþingis hefur nú óskað eftir viðhorfi dómsmálaráðuneytisins til að sjá hvaða þýðingu ákvæði hinna nýju laga hafi um þessi álitaefni.

Umboðsmaður Alþingis hefur einnig skoðað mörk skatta og þjónustugjalda nokkuð ítarlega og er það vel. Hann mun ljúka þeirri skoðun sinni mjög fljótlega, segir í skýrslunni. Umboðsmaður segir að þar sé um að ræða álitaefni sem sé sífellt að verða stærra um sig þar sem stjórnvöld taka í meira mæli en áður þjónustugjöld af veittri þjónustu.

Mörkin milli skatta og þjónustugjalda eru klassískt efni í lögfræðinni og ég ráðlegg og hvet umboðsmann Alþingis til að skoða umræðuna á Alþingi á síðasta vetri hvað varðar skrásetningargjald í Háskóla Íslands, þó ekki sé nema sakir forvitni. Í þeirri umræðu fullyrtu margir þingmenn stjórnarflokkanna fullum fetum að umrætt gjald væri þjónustugjald þótt við bentum ítrekað á að þetta gjald stæði undir allt annarri þjónustu en þeirri sem laut eingöngu að skráningunni. Þarna tel ég að nokkrir þingmenn hafi ruglað allillilega mikilvægum hugtökum, þ.e. þjónustugjöldum og sköttum og gjöldum og upphæð þeirra gjalda sem eru ákvörðuð í sjálfum lögunum eins og er í tilviki skrásetningargjaldsins í Háskóla Íslands. Það er mjög mikilvægt fyrir þingmenn að átta sig á þessum grundvallarmun því að það er ekki leyfilegt að rukka hærra þjónustugjald en sem lýtur einmitt að þeirri þjónustu sem í hlut á.

Eins og ég sagði áðan tel ég að við ættum að gera betur í því að tryggja getu umboðsmanns Alþingis til að stunda svokallaðar frumkvæðisathuganir. Við sáum að eitt af slíkum frumkvæðismálum var hafið í sumar að ósk stjórnarandstöðuflokkanna hér á þingi um úttekt á stöðu mála og vinnubrögðum er tengjast einkavæðingarferlinu. Því máli verða væntanlega gerð skil í skýrslu þessa árs, sem er ekki til umfjöllunar hér, en við sjáum hvað þetta er mikilvægt úrræði, ekki bara fyrir borgarana heldur jafnvel stjórnarandstöðuflokkana hér á þingi og það sýndi sig í þessu máli þegar umboðsmaður Alþingis fór af stað til að skoða einkavæðingarferlið og kallaði eftir upplýsingum frá forsætisráðuneytinu, sem hann fékk.

Frú forseti. Sem fyrr sjáum við að langflest málin er að finna hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, eða nánast þriðja hvert mál sem kemur á borð umboðsmanns. Að einhverju leyti er eðlilegt að hlutfallið sé hærra í því ráðuneyti en hjá öðrum. Manni finnst þessi tala samt vera í hærri kantinum og vonandi verður hægt að ná því hlutfalli niður hjá þessu mikilvæga ráðuneyti en þó hefur þróunin undanfarin ár verið á þann veg að hlutfallið hefur verið að hækka frekar en hitt.

Frú forseti. Umboðsmaður Alþingis gerir að umfjöllunarefni samskipti við stjórnvöld, sem auðvitað skipta gríðarlega miklu máli, en hann hefur sagt við hv. þingmenn í allsherjarnefnd að hann hafi skynjað ákveðið metnaðarleysi hjá stjórnvöldum og jafnvel þekkingarleysi og því ber okkur öllum að huga að og reyna að bæta úr. Í langflestum tilvikum fara viðkomandi stjórnvöld eftir áliti umboðsmanns Alþingis og er það að sjálfsögðu vel. En umboðsmaður nefnir tvö dæmi þar sem viðkomandi stjórnvald fór ekki eftir sérstökum tilmælum hans. Í öðru tilvikinu var það dóms- og kirkjumálaráðuneytið og í hinu tilvikinu ónefndur sjóður.

Það er auðvitað alltaf alvarlegt þegar stjórnvöld fara ekki eftir áliti umboðsmanns Alþingis en þannig er bara raunveruleikinn og úrræði embættisins ná ekki lengra. Umboðsmaður Alþingis er ekki dómstóll og menn geta að sjálfsögðu deilt um túlkun laga o.s.frv. en sem betur fer virðist viðkomandi stjórnvald í langflestum tilvikum fara eftir tilmælum embættisins.

Í skýrslunni talar umboðsmaður Alþingis um mikilvægi þess að stjórnvöld tileinki sér umburðarlyndi gagnvart borgurunum og sýni skilning. Við tökum að sjálfsögðu undir það. En í kafla skýrslunnar um viðbrögð stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hafa til umboðsmanns Alþingis tekur hann út þrjú málefni og á bls. 20 má finna umfjöllun um það.

Það er auðvitað mjög alvarlegt þegar umboðsmaður Alþingis sér ástæðu til að setja í skýrslu sína eftirfarandi orð, með leyfi forseta:

„Það kemur þó af og til fyrir að viðbrögð fyrirsvarsmanna stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hefur til mín vekja hjá mér nokkurn ugg. Ég hef þá fyrst og fremst í huga þau tilvik þar sem ég tel að viðbrögð stjórnvalda séu þess eðlis að þau geti haft áhrif á það hvort almenningur, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, leiti til umboðsmanns Alþingis.“

Þetta tengist máli sem varðar Háskóla Íslands og stúdentaráð.

Umboðsmaður segir einnig aðeins síðar, með leyfi forseta:

„Ég tel ástæðu til að gjalda varhug við viðbrögðum stjórnvalda af því tagi sem bréf þetta ber með sér gagnvart þeim sem leitað hefur til umboðsmanns Alþingis.“

Seinna segir:

„Ég legg á það áherslu að Alþingi hefur með lögum veitt borgurunum heimild til að leita með sín mál til umboðsmanns Alþingis og það er til þess fallið að hamla því að borgararnir nýti sér þennan möguleika ef viðbrögð stjórnvalda við afskiptum umboðsmanns eru með þeim hætti sem umrætt bréf Háskóla Íslands lýsir.“

Þetta er auðvitað alvarleg aðfinnsla sem umboðsmaður Alþingis finnur að viðkomandi stjórnvaldi. Borgararnir verða að eiga mjög greiðan aðgang að umboðsmanni Alþingis og það má ekki vera neitt í umhverfinu eða í viðbrögðum stjórnvalda sem getur hamlað þeim aðgangi.

Umboðsmaður Alþingis nefnir í sama kafla annað dæmi, með leyfi forseta:

„Athugun umboðsmanns Alþingis á máli einstaklings sem ber fram kvörtun hefur þá sérstöðu t.d. umfram rekstur dómsmáls, að ákveði umboðsmaður að taka málið til athugunar er það alfarið ákvörðun hans að hverju hún beinist og er umboðsmanni veittur réttur til að krefja stjórnvöld um þær upplýsingar og skriflegu skýringar sem hann þarfnast vegna starfs síns auk gagna viðkomandi máls.“

Stuttu síðar segir hann í sama kafla:

„Það er því augljóslega til þess fallið að vinna gegn tilgangi þess úrræðis sem Alþingi hefur ákveðið að borgurum þessa lands skuli standa til boða ef stjórnvöld svara þeim sem til umboðsmanns hefur leitað og fengið hefur álit hans á þann veg að niðurstaða umboðsmanns hafi byggt á takmörkuðum gögnum og ófullnægjandi upplýsingum.“

Með öðrum orðum segir umboðsmaður að stjórnvöld hafi ekki látið umboðsmanni í té allar upplýsingar um gögn málsins eins og lög áskilja viðkomandi stjórnvöld um.

Þriðji punkturinn sem umboðsmaður Alþingis bendir á skýrslu sinni lýtur að, ef svo mætti segja, ímyndarvinnu ráðuneyta og stjórnvalda sem álit umboðsmanns Alþingis beinist að í fjölmiðlum. Þar gerir hann að umtalsefni fréttatilkynningar og viðbrögð stjórnvalda og ráðuneyta við tilteknum álitum umboðsmanns Alþingis. Ég ætla ekki að fjalla ítarlega um það þar sem það gengur á tímann, en það er auðvitað mjög mikilvægt að trúverðugleiki umboðsmanns Alþingis sé ekki skertur með nokkrum hætti og sé stjórnvald ósátt við niðurstöðu umboðsmanns Alþingis ber stjórnvaldi einfaldlega að fara dómstólaleiðina en ekki einhverja aðra leið.

En eins og ég sagði, frú forseti, hnökrar við stjórnvöld eru sjaldgæfir en það er umhugsunarvert sem umboðsmaður Alþingis sagði í samtali við Morgunblaðið þann 6. júní 2004 og er vert að rifja það upp hér við umræðuna, með leyfi forseta:

„Það setur að mér mestan kvíða þegar ég tel mig geta merkt að einhvers konar hroki ráði afgreiðslu eða framkomu. […] Þeir sem starfa í þágu hins opinbera verða að gæta þess að stjórnsýslan er ekki til fyrir starfsmenn hennar. Hún er til að þjónusta borgarana og leysa úr málum þeirra, samkvæmt þeim lagareglum sem settar hafa verið.“

Ég þarf auðvitað ekki að rifja það upp fyrir þingheimi að undanfarin missiri hafa stjórnvöld brugðist með harðari hætti gagnvart álitum umboðsmanns Alþingis en oft áður. Meira að segja hafa vissir ráðherrar kallað niðurstöður umboðsmanns Alþingis lögfræðilegar vangaveltur, fræðilegar vangaveltur og talað um umboðsmann eins og hann sé einhver álitsgjafi úti í bæ. Maður vill auðvitað trúa því að umboðsmaður Alþingis sé meira en það og hafi þannig vigt að menn virði niðurstöður hans. En það segir auðvitað heilmikla sögu að þegar umsækjendur að háum embættum eins og að embætti hæstaréttardómara segja opinberlega að það þýði ekkert að leita réttar síns hjá umboðsmanni Alþingis í ljósi þess hvernig stjórnvöld og ráðherrar fari með völd sín og niðurstöður umboðsmanns. Það er mjög mikilvægt að ráðherrar grafi ekki undan trúverðugleika og því trausti sem umboðsmaður Alþingis býr yfir og þarf að búa yfir.

Það sagði auðvitað heilmikla sögu þegar umboðsmaður Alþingis neyddist í fyrra til að setja sér sérstakar samskiptareglur í sex liðum gagnvart stjórnvöldum í kjölfar símtals til hans frá þáverandi forsætisráðherra, en eftir því sem ég best veit eru slíkar samskiptareglur einsdæmi.

Að lokum langar mig til að rifja upp eitt mál frá síðastliðnu sumri, sem kemur þá í skýrslu næsta árs, en nú í sumar upplýstist að landbúnaðarráðuneytið varð ekki við ósk umboðsmanns um upplýsingar í máli sem lyktaði með því að hæstv. landbúnaðarráðherra Guðni Ágústssonar var fríaður af ákæru um vanhæfi í skipan stöðu rektors Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri.

Í bréfi hæstv. landbúnaðarráðherra til umboðsmanns sagði:

„Tel ég það ekki vera í verkahring umboðsmanns Alþingis að yfirfara eða endurskoða efnisleg atriði eins og spurt er um undir þessum lið sem ég fyrir mitt leyti tel fullsvarað í rökstuðningi mínum frá 14. september 2004. Mat og hæfi og hæfni þeirra umsækjenda sem hér um ræðir, þar með talið frammistaða þeirra í starfsviðtölum, liggur hjá landbúnaðarráðherra og er efnislegt endurmat með umbeðnum samanburði á einstökum (Forseti hringir.) umsækjendum ekki á valdi umboðsmanns Alþingis.“

Ég tel að við þurfum að gera betur við umboðsmann Alþingis og það er fátt sem sá þingmaður sem hér stendur vill ekki gera fyrir viðkomandi embætti. Við sjáum að embættið fær um 90 milljónir (Forseti hringir.) á ári (Forseti hringir.) sem til samanburðar er fimm sinnum lægri upphæð en t.d. Bændasamtök Íslands fá, þannig að við þurfum að gera betur við viðkomandi embætti (Forseti hringir.) svo að það geti sinnt hlutverki sínu enn betur en það gerir.



[12:21]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér skýrslu umboðsmanns Alþingis, svona í hefðbundnum stíl. Þessar skýrslur koma fyrir þingið árlega og ég hef velt því fyrir mér hvort þetta sé rétta formið á umræðu af þessu tagi. Ég vakti athygli á því við umræðu um skýrslu ríkisendurskoðanda fyrr í dag að æskilegt væri að fara inn á nýjar brautir í umræðu um skýrslur frá stofnunum sem heyra undir Alþingi, og vísa þá til Ríkisendurskoðunar og embættis umboðsmanns Alþingis, og efna til umræðna í þingnefndum, á opnum þingnefndarfundum þar sem viðkomandi embættismönnum, umboðsmanni Alþingis og ríkisendurskoðanda, væri gert kleift að svara fyrir sig í þeim tilvikum sem gagnrýni er að þeim beint og skýra mál sitt nánar. Einnig mætti hugsa sér að þeir sem gagnrýndir eru í skýrslum þessara stofnana fái tækifæri til þess að segja sinn hug.

Nú er það svo að álit umboðsmanns Alþingis eru ekki bindandi lagalega, þau eru fyrst og fremst ábendingar. Það er ástæða til að óska embættinu til hamingju með þann mikla árangur sem náðst hefur í starfi embættisins allar götur frá því sú stofnun var sett á laggirnar árið 1988, því yfirleitt er tekið mjög mikið tillit til ábendinga embættisins og það sem út af bregður í því efni er síðan umfjöllunarefni skýrslu af þessu tagi og þar erum við að tala um undantekningarnar.

Auðvitað er ekkert óeðlilegt að þær stofnanir sem gagnrýni er beint að, séu þær ósáttar við niðurstöður umboðsmanns Alþingis, andæfi og setji rök sín fram og við þurfum að skapa þeim vettvang til að koma ábendingum sínum á framfæri. Einnig þegar koma upp hitamál af því tagi sem ég vék að áðan, um hæfi hæstv. forsætisráðherra í tengslum við sölu Búnaðarbankans á sínum tíma til S-hópsins og var til umfjöllunar í sumar. Það kom til kasta Ríkisendurskoðunar og einnig til umboðsmanns Alþingis í kjölfar erindis frá stjórnarandstöðunni, og því væri eðlilegt að unnt væri að efna til umræðu um þau plögg og álitsgerðir sem frá þessum stofnunum koma. Hér gæti ég staðið og rætt svar umboðsmanns Alþingis til stjórnarandstöðunnar um þetta brennandi pólitíska hitamál en embættismaðurinn er dæmdur til að sitja í hliðarherbergi án þess að hafa tækifæri til þess að taka þátt í slíkri umræðu, þannig að hún yrði að sjálfsögðu ekki gefandi fyrir þær sakir. Á opnum fundi þingnefndar þar sem embættismenn sætu fyrir svörum væri hins vegar annað uppi á teningnum. Ég tel því að við eigum að huga að slíku varðandi bæði þessi embætti.

Svar umboðsmanns við erindi stjórnarandstöðunnar vegna hæfis hæstv. forsætisráðherra í tengslum við einkavæðingu og sölu Búnaðarbankans var að mörgu leyti mjög gott tilefni til umræðu. Umboðsmaður slær erindi okkar síður en svo út af borðinu heldur segir að það sé grundvöllur til skoðunar á þessu máli þó að það sé ekki á þeim forsendum sem erindinu var beint til hans.

Til þess að fá málefnalega umræðu legg ég til að við skoðum þetta breytta form.

En ég vil taka fram að við eigum heldur ekki að taka því illa þótt stofnanir sem eru gagnrýndar andæfi eins og ég sagði áðan. Spurningin er hins vegar hvernig við finnum hinn rétta meðalveg í þessu efni. Vegna þess að það er líka mjög alvarlegt ef það gerist, eins og umboðsmaður bendir á í skýrslu sinni, að fruntaleg viðbrögð stofnana, afundin og jafnvel ógnandi verði þess valdandi að almenningur treysti sér ekki til að bera upp kvartanir.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson vísaði í þann kafla skýrslu umboðsmanns þar sem hann víkur að þessu og ég ætla að endurtaka hann hér, með leyfi forseta:

„Almennt er það svo að stjórnvöld bregðast af skilningi við athugasemdum umboðsmanns Alþingis og tilmælum hans um að taka þau mál sem hafa orðið tilefni kvörtunar til umboðsmanns að nýju til meðferðar þegar álit liggur fyrir og eftir því er leitað af hálfu þess sem borið hefur fram kvörtun. Það kemur þó af og til fyrir að viðbrögð fyrirsvarsmanna stjórnvalda gagnvart þeim sem leitað hefur til mín vekja hjá mér nokkurn ugg. Ég hef þá fyrst og fremst í huga þau tilvik þar sem ég tel að viðbrögð stjórnvalda séu þess eðlis að þau geti haft áhrif á það hvort almenningur, jafnt einstaklingar sem fyrirtæki, leiti til umboðsmanns Alþingis. Tel ég ástæðu til að gera þetta að umtalsefni hér.“

Það er ástæða til að menn staldri við þetta og taki þessa athugasemd og ábendingu umboðsmanns Alþingis alvarlega. Fyrir okkur á þingi er þá að leita leiða til að beina umræðunni í þann farveg að menn geti svarað gagnrýni sem að þeim er beint á annan hátt en nú er.

Það er annað sem mig langar til að nefna varðandi starf umboðsmanns Alþingis og er í rauninni ekkert bundið við Ísland. Það er hið gráa svæði sem er til staðar á milli þess að horfa til laga annars vegar, og í þessu tilviki stjórnsýslulaga sem eru viðfangsefni umboðsmanns Alþingis, og hins vegar samninga sem samningsaðilar á opinbera markaðnum gera sín í milli. Hvar liggja grensurnar þarna? Ég get nefnt sem dæmi að í Danmörku kom upp deilumál og álitamál hvað þetta snertir. Ég held að ég fari rétt með að það hafi lotið að uppsögnum starfsmanna, nokkuð sem við höfum deilt um hér á landi hvernig eigi að standa að. En þar munu samningsaðilar, ríkið og samtök launafólks á opinberum markaði, hafa gert samninga um hvernig skuli standa að uppsögnum, áminningu og þar fram eftir götunum. Þar var búið til eitthvert ákveðið samningsbundið ferli um hvernig að málum skyldi staðið sem sátt náðist um. Síðan gerðist það að einstaklingur sem sagt var upp störfum, og þar var farið að öllum þessum samningsbundnu ákvæðum, telur að þau hafi brotið í bág við grundvallarreglurnar, grundvallarreglur danskra stjórnsýslulaga.

Nú upphófust miklar deilur um hvað rétt væri. Stjórnsýslulögin eru grunnurinn sem byggt er á. Átti að horfa til hans eða átti að horfa til þeirra samninga sem gerðir höfðu verið? Með öðrum orðum, hafa samningsaðilar rétt til að véla með það sem fjallað er um í lögunum? Í sumum tilvikum eru þetta mjög skýrar línur en í öðrum tilvikum er svo ekki. Og ég verð að segja það að ég freistast dálítið til þess að stilla mér upp með samningsaðilum hvað þetta snertir, við eigum að setja inn varnagla í lögin sem eru þess valdandi að við takmörkum ekki um of frelsi samningsaðila til þess að ráða málum. Þetta er mjög grátt svæði en mikilvægt að skoða og þetta tengist í rauninni öðrum hlutum líka.

Í Evrópusambandinu, svo dæmi sé tekið, fá dómstólar sífellt aukið vægi um alla almenna stefnumótun. Stefnumótun, sem hafði verið á vegum stjórnvalda, pólitískt kjörinna stjórnvalda og samningsaðila á markaði, er í auknum mæli að færast yfir til dómstólanna. Að sjálfsögðu eigum við að fara að lögum í hverju landi en þegar kemur út á hið gráa svæði um túlkun laganna þá eru það dómstólarnir sem taka forustuna. Ég tel þetta vera varhugaverða þróun, ekki síst í ljósi þess að dómstólar í Evrópu og þeir sem stýra þeim eru almennt hægri sinnaðir og vilja sveigja alla þjóðfélagsþróun inn á braut frjálshyggju.

Þetta eru svona almennar athugasemdir sem ég vil vekja athygli á, vekja athygli á þessu gráa svæði sem hlýtur að vera til umræðu innan embættis umboðsmanns Alþingis. En að öðru leyti ítreka ég ánægju með störf þess embættis. Ég tel að það hafi risið undir þeim væntingum sem menn gerðu til þess og ég tel það vera eina af mikilvægustu stofnunum í okkar lýðræðisþjóðfélagi.



[12:33]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir starfsárið 2004. Eins og venja hefur verið til þá fundaði allsherjarnefnd Alþingis með umboðsmanni Alþingis til að fara yfir helstu áherslur í skýrslunni og helstu niðurstöður. En eins og heyra hefur mátt af umræðunni hér í dag þá er, eins og venja er reyndar, í inngangskafla skýrslunnar að finna samantekt yfir helstu áhersluatriði þess árs sem skýrslan tekur til eða helstu viðfangsefni öllu heldur.

Skemmst er frá því að segja að á fundi umboðsmanns Alþingis með allsherjarnefnd koma gamlir kunningjar, ef svo má segja, við sögu. Vissulega eru það viss vonbrigði að eftirrekstur embættisins með erindum sem eru í farvegi stjórnsýslunnar skuli vera jafnhátt hlutfall þeirra mála sem til meðferðar eru hjá embættinu og raun ber vitni. Því miður virðist það ítrekað vera þannig að of mörg mál eru í stjórnsýslunni strand eða þannig á vegi stödd að þeim hefur ekki verið svarað eða ástæða fyrir umboðsmann að öðru leyti til þess að hafa afskipti.

Skýrsla umboðsmanns Alþingis gegnir afar mikilvægu hlutverki eins og hér hefur komið fram en í fleiri en einum skilningi. Í fyrsta lagi er þessi skýrsla mikilvæg vegna þess að hún geymir samantekt af þeim viðfangsefnum sem umboðsmaður hefur fengið til úrlausnar og tekið til afgreiðslu á viðkomandi ári og gefur þannig þinginu og almenningi innsýn í þau verkefni sem þar er við að eiga og þá jafnframt um um leið þær brotalamir sem er að finna í framkvæmd þeirra lagareglna sem frá Alþingi stafa. Þetta er afar mikilvægt.

Í öðru lagi geymir skýrsla umboðsmanns Alþingis almenna umfjöllun um þróun og, ég vil leyfa mér að segja, tilhneigingu hjá stjórnsýslunni til að bregðast við með tilteknum hætti. Þannig er fjallað um í skýrslunni með ólíkum hætti frá ári til árs ábendingar sem umboðsmaður Alþingis telur að mikilvægt sé að koma á framfæri í skýrslunni. Ég vil segja að þessi þáttur skýrslu umboðsmanns Alþingis er kannski sá sem við á hinu háa Alþingi eigum sérstaklega að horfa til vegna þess að það er þessi þáttur sem fremur hinum fyrri sem ég nefndi gefur okkur tilefni til taka reglurnar til skoðunar og veita framkvæmdarvaldinu enn frekara aðhald. Varðandi þau mál sem umboðsmaður Alþingis tekur til umfjöllunar sérstaklega og þau erindi sem hann tekur upp við framkvæmdarvaldið þá er það sem betur fer þannig að í langflestum tilvikum — það heyrir til algjörra undantekninga ef svo er ekki — í langflestum tilvikum bregst framkvæmdarvaldið við. Til að mynda í tilfelli ráðuneytanna er það í yfirgnæfandi meiri hluta tilvika þar sem mál eru færð til betri vegar og brugðist við þeim athugasemdum sem umboðsmaður kann eftir atvikum að hafa við framkvæmdina. Í sumum tilfellum koma skýringar. Í sumum tilfellum er verið að breyta reglum og í öðrum tilvikum þarf að breyta verklagi.

Í þriðja lagi gegnir skýrsla umboðsmanns mikilvægu hlutverki vegna þess að skýrslur umboðsmanns, frá því að embættið var sett á fót, þær samanlagt, eru orðnar ein mikilvægasta réttarheimildin sem við höfum til að túlka stjórnsýslureglurnar. Í því sambandi er mikilvægt að við höfum aðgang að ályktunum umboðsmanns Alþingis á veraldarvefnum, á netinu og þar er hægt að fletta upp einstökum álitaefnum, einstökum viðfangsefnum sem gefa þá niðurstöðu og sýna þau mál þar sem viðkomandi álitaefni hefur komið fyrir. Ég vil geta þess sérstaklega að ég tel að þetta sé ekki síður mikilvægt hlutverk þessarar skýrslu sem innlegg í þá réttarheimild sem skýrslur umboðsmanns Alþingis eru við túlkun á stjórnsýslureglum á Íslandi. Raunar er það svo að í sumum tilvikum eru skýrslur umboðsmanns og álit hans nánast einu réttarheimildirnar sem við höfum til að grípa til þegar túlka á álitaefni sem upp kunna að koma við túlkun á stjórnsýslureglunum.

Ég vil tiltaka sérstaklega tvennt sem ég held að Alþingi þurfi að taka til sérstakrar skoðunar í tilefni af þessari skýrslu og almennt má kannski segja að þetta eru atriði sem umboðsmaður Alþingis hefur áður vakið athygli á. Í fyrsta lagi virðist skorta á að í stjórnsýslunni hafi verið komið á með skipulegum hætti verklagsreglum til að tryggja að framkvæmd stjórnsýslunnar sé í samræmi við þær reglur sem um hana eiga að gilda. Umboðsmaður hefur bent á að þetta eigi í sjálfu sér að vera tiltölulega einfalt mál, tiltölulega einfalt átak sem grípa þurfi til, til þess að innleiða hvarvetna í stjórnsýslunni verklagsreglur sem væru til þess fallnar að tryggja rétta málsmeðferð í öllum tilvikum. Það verður að segjast eins og er að þær tölulegu staðreyndir sem skýrslan geymir styðja þessa ábendingu, þessa skoðun umboðsmanns, vegna þess í of mörgum tilvikum sjáum við að minni háttar mistök eiga sér stað í stjórnsýslunni sem trufla borgarana þegar þeir reka erindi sín gagnvart stjórnvöldum. Þau þvælast fyrir og skapa sóun á vinnu og fjármunum í hinu opinbera kerfi.

Hitt atriðið sem ég vildi tiltaka sérstaklega tengist hinu fyrra, þ.e. að við þurfum að gæta að því að mennta og fræða starfsmenn í stjórnsýslunni svo þeir geti sinnt erindum borgaranna á lögmætan hátt þannig að þeir taki á þeim erindum sem um ræðir á stjórnsýslulega réttan hátt. Til þess að við getum gert þá kröfu þurfa þeir í störfum sínum að vera upplýstir um þær reglur sem um störf þeirra gilda og um þau réttindi sem borgararnir eiga að geta gengið að sem vísum þegar þeir reka erindi sín fyrir stjórnvöldum.

Þetta eru tveir þættir sem mynda dálítið rauðan þráð í gegnum skýrslur umboðsmanns, þ.e. annars vegar að taka upp verklagsreglur. Þetta er ábending og áskorun til stjórnenda í stjórnsýslunni um að þeir taki til skoðunar hver á sínum vettvangi hvað þeir geti gert til að tryggja eðlilegan framgang þeirra erinda sem þeir hafa til umfjöllunar. Og síðan er hitt, að komið verði á almennu átaki, eða innan hverrar stofnunar fyrir sig, fræðsluátaki til að ganga úr skugga um að þeim starfsmönnum sem bera ábyrgð á framkvæmd þeirra reglna sem við erum hér að fjalla um í víðu samhengi séu þær reglur kunnugar og þeir fylgi þeim í hvívetna.

Að öðru leyti vil ég segja að mér sýnist afar vel að afgreiðslu mála staðið hjá embættinu. Það eru skýringar á því að fleiri mál eru óafgreidd í lok ársins heldur en voru á árinu áður. Það kemur ágætlega fram í skýrslunni hvernig þau mál hafa þróast og það er sundurliðað með afar skýrum hætti og aðgengilegum fyrir þá sem kynna sér efni skýrslunnar.

Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka hér sundurliðun á því hvernig einstakir málaflokkar hafa þróast. Það eru einkum þrjú atriði sem umboðsmaður vekur athygli á, þ.e. mikilvægi þess að samræma beitingu þeirra reglna sem við erum hér að fjalla um. Það tel ég að við getum tryggt með þeim hætti sem ég hef nú rakið, þ.e. að við sjáum til þess að innleiddar verði almennar, skýrar og gegnsæjar verklagsreglur í stjórnsýslunni og með því að tryggja nánari fræðslu starfsmanna stjórnsýslunnar og almennt opinberra starfsmanna.

Í öðru lagi tekur umboðsmaður til umfjöllunar viðfangsefni þar sem reynt hefur á lagaheimildir, þ.e. lögmætisreglu stjórnsýslulaganna. Ég held að þar komi umboðsmaður með afar þarfa ábendingu um að gætt verði að því þegar hið opinbera er að færa út kvíar sínar í hvers konar starfsemi að fyrir því sé nægjanleg lagastoð. Þetta er þörf ábending sem ég tel að ástæðu til að vekja athygli á.

Loks vekur umboðsmaður athygli á mikilvægi þess að þegar stjórnvöld taka að sér að hefja ný verkefni þá sé undirbúningur að þeim sé nægjanlegur því ella megi búast við því að út af bregði þegar kemur að sjálfsögðum hlutum eins og því að stjórnsýslureglum sé fylgt þegar þeim verkefnum er hrint úr vör.

Ég held að ég hafi í máli mínu farið yfir það helsta sem mér þykir ástæða til að staldra við í tilefni af þessari skýrslu. Ég vil að lokum segja að ég er alltaf ánægður með það hversu skýr skýrslan er og aðgengileg, öll framsetning til fyrirmyndar. Ég þakka því að lokum starfsmönnum umboðsmanns Alþingis fyrir vel unnin störf á því ári sem skýrslan tekur til.



[12:45]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bregst við orðum formanns allsherjarnefndar þar sem hann fjallar um þörfina á verklagsreglum og hvernig bregðast eigi við ábendingum sem koma í skýrslum frá stofnunum sem undir Alþingi heyra. Við höfum rætt þetta í morgun. Við höfum verið að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar og erum núna að ræða skýrslu umboðsmanns Alþingis. Einmitt þetta, að gefnar eru út skýrslur sem geta verið stjórnsýsluúttektir eða skýrslur um tiltekin einstök mál, þá er staðan þannig í dag að það er ekkert sem tryggir að farið sé að ábendingunum og ekkert sem tryggir heldur að verklag breytist í ráðuneyti þegar verið er að gagnrýna eitthvert ferli. En það er á ábyrgð Alþingis að finna tæki til að farið sé að þeim ábendingum, að ekki séu aðfinnslur eða gagnrýni á ferli sem endar einhvers staðar og verður ekkert gert með.

Formaður allsherjarnefndar nefnir að ráðuneyti og stofnanir eigi að taka upp einhvers konar verklagsreglur um hvernig brugðist sé við og ég tek undir það með honum. Mér finnst þetta góð ábending en jafnframt þarf Alþingi að tryggja að farið sé að þeim ábendingum. Ef til vill þurfum við að vera með sérstaka nefnd hér. Nefnd hefur verið rannsóknarnefnd Alþingis sem mundi taka skýrslur, eins og þær sem við höfum vísað til í umræðunni í morgun, að einhverjum tíma liðnum og kanna hvernig farið hefði verið með ábendingar, hvernig brugðist hefði verið við þeirri gagnrýni sem hér var á ferð.

En ég fagna því líka að hv. 5. þm. Reykv. s., Sólveig Pétursdóttir, nefndi það sérstaklega að hún mundi vísa skýrslu Ríkisendurskoðunar til nefndar og óska eftir að fjallað yrði um hana þar. Það er nýmæli eftir því sem ég best veit. Ég fagna því.



[12:48]
Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla örstutt að bregðast við andsvari hv. þingmanns. Ég vil leggja á það áherslu að þegar ég ræði í þessu samhengi um verklagsreglur hjá stofnunum og ráðuneytum þarf slíkum verklagsreglum ekki að fylgja nein bylting á vinnubrögðum. Við erum í mörgum tilfellum einungis að tala um að viðkomandi aðilar gefi sér tíma til að fara yfir það hvernig þeir eiga að tryggja að stjórnsýslureglunum sé framfylgt. Þetta eru í mörgum tilvikum einföld atriði eins og hvenær þurfi að vera búið að svara erindi, hvenær þurfi að gæta að andmælarétti o.s.frv. Einmitt þess vegna tel ég að við eigum að geta gert miklar kröfur til að slíkar verklagsreglur séu teknar upp. Við eigum að taka alvarlega ábendingar umboðsmanns um að honum þyki of víða í stjórnsýslunni skorta á að menn hafi gefið sér tíma til að setja viðkomandi stofnunum slíkar reglur.

Í annan stað vil ég segja að ég tel að Alþingi sé ekkert að vanbúnaði að veita framkvæmdarvaldinu fullt aðhald. Við eigum í sjálfu sér að hafa öll tæki og tól til þess á grundvelli þingskapalaga og annarra reglna sem um þau efni gilda til að veita ráðherrum og þeim sem á viðkomandi málaflokkum bera ábyrgð fullt aðhald. Það má jafnframt gera með fyrirspurnum og þingsályktunartillögum og öðru þess háttar. Ég sé því ekki að okkur skorti neitt sérstakt til að taka það upp hjá sjálfum okkur að tryggja að eftir slíkum ábendingum verði farið.



[12:50]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki jafnsammála hv. þingmanni nú í síðara andsvari mínu vegna þess að við erum annars vegar að tala um viðbrögð sem verða í stjórnsýslunni sem skrifa má á fákunnáttu eða vanþekkingu. Þar ber okkur skylda til að tryggja fræðslu og þekkingu á málum þannig að farið sé að reglum og vinnubrögðum eins og best gerast annars staðar.

Hins vegar erum við líka að stríða við ákveðnar geðþóttaákvarðanir af því að hér hafa t.d. borist í tal í morgun aðfinnslur varðandi ferli við mannaráðningar. Mjög mikilvægt er að í stjórnsýslunni hjá okkur sé skilið á milli faglegrar og pólitískrar ráðningar. Það hefur ekki verið gert hingað til og mjög erfitt að bregðast við þeim málum. Jafnvel þó að búið sé að koma með aðfinnslur aftur og aftur úr svona þýðingarmiklum stofnunum eins og við erum að ræða í dag halda menn uppteknum hætti. Það þýðir lítið að koma með fyrirspurnir á Alþingi varðandi það. Sömuleiðis gildir það sama um stjórnsýsluúttektir. Í stjórnsýsluúttektum kemur kannski fram mikil gagnrýni á vinnubrögð og ef við skulum segja ráðherra leyfir sér að viðhafa sömu vinnubrögðin áfram og maður kemur með fyrirspurnir á Alþingi til að leiða þau mál í ljós og e.t.v. til að hafa áhrif á að betur sé að gert þá stendur bara gjarnan orð á móti orði um hvernig var farið með ábendingarnar og eftir situr gapandi tóm. Þetta leysist ekki í ræðustól Alþingis, þetta þarf að leysa öðruvísi. Eftirlitshlutverkið sem við fáum í gegnum stofnanirnar er þess eðlis að við verðum að vera með góð tæki til að tryggja að þau skili sér.



[12:52]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er kannski ekki þörf á að lengja umræðuna mikið. Þetta er þykk og viðamikil skýrsla eins og vaninn er með skýrslur umboðsmanns sem hingað koma einu sinni á ári. Það gefur augaleið að erfitt er að fara af einhverri dýpt í umræðu um skýrsluna.

Í fyrsta lagi hafa þingmenn haft takmarkaðan tíma til að lesa hana og í öðru lagi er erfitt um vik að taka einhvers konar samtal um jafnviðamikið mál eins og hér er drepið á í því formi sem við búum við. Ég tek undir með þeim þingmönnum sem hafa talað og komið með hugmyndir um möguleika á því að eiga umræður um þessar skýrslur á einhverju því formi sem mætti ætla að skilaði sér betur en einmitt það form sem við búum við í þessum þingsal.

Fjöldi þingmanna hefur talað í umræðunni. Getið hefur verið um þá helstu málaflokka sem umboðsmaður Alþingis fjallar um. Það er athyglisvert að litlar breytingar skuli verða í þessum málaflokkum. Það er u.þ.b. 10% málafjölgun á hverju ári en málaflokkarnir breytast ekki mikið. Þannig eru tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðsla mála enn í fyrsta sæti. Skattar og gjöld, reyndar er nokkur fjölgun frá síðasta ári. Umboðsmaður Alþingis hefur bent allsherjarnefnd á að það sé kannski fyrst og fremst vegna þess að nú eru opinberar stofnanir að innheimta í auknum mæli þjónustugjöld og þá er leitað til umboðsmanns með álitamál um hvort lagaheimildir séu fyrir slíku. Þannig skýrist sú málafjölgun undir skattar og gjöld.

En það er svo aftur pólitískt álitamál sem við getum tekið hér snerru um síðar og eigum auðvitað eftir að gera, hvort það sé rétt pólitík að vera með aðhaldsaðgerðir í ráðuneytunum og hjá opinberum stofnunum sem endi síðan alltaf hjá hinum almenna neytanda, hjá borgaranum, sem er þá látinn bera kostnaðinn í formi þjónustugjalda.

Í þriðja sæti á lista umboðsmanns um skráð mál eða viðfangsefni eru málsmeðferðir og starfshættir stjórnsýslunnar og í fjórða sæti eru opinberir starfsmenn og í fimmta sæti fangelsismálin. Undir hverjum af þessum málaflokkum eru gríðarlega athyglisverð mál sem mætti fjalla um í dýpt og í löngu máli sem ekki er tilefni til nú. Það sem mér finnst kannski standa upp úr eftir þessar umræður og eftir það sem ég hef kynnt mér lauslega í skýrslu umboðsmanns er kannski í fyrsta lagi þær ábendingar sem við fáum frá umboðsmanni um viðbrögð stjórnvalda gagnvart þeim sem leita hefur til umboðsmanns Alþingis. Það er athyglisverður kafli í skýrslunni, í inngangi hennar, á bls. 20, þ.e. 5. kafli undir Störf umboðsmanns Alþingis 2004. Þar gerir umboðsmaður grein fyrir á hvern hátt stjórnvöld hafa kannski verið að taka upp þann sið að bregðast við niðurstöðum umboðsmanns á einhvern hátt sem ekki er alveg hægt að fallast á. Ég hef sannarlega áhyggjur af því að eins og umboðsmaður lýsir þessu í viðkomandi kafla þá sýnist mér skorta á að stjórnvöld séu að bregðast alla tíð af nægilegum skilningi við athugasemdum umboðsmanns Alþingis. Liggur við að í ákveðnum tilfellum séu menn að taka tilmælum sem umboðsmaður kemur með á einhvern persónulegan hátt eða jafnvel að bera því fyrir sig að umboðsmaður hafi ekki haft nægilegar upplýsingar til að ná réttum niðurstöðum í málinu. Það er undarlegt þegar á það er litið að það er á valdi þess stjórnvalds sem kvartað er undan að veita umboðsmanni upplýsingar og hafi umboðsmaður ekki nægar upplýsingar er við það stjórnvald að sakast. Ég held því að þessi kafli um viðbrögð hins opinbera eða hinnar opinberu stjórnsýslu í ákveðnum tilfellum sé eitthvað sem við þurfum að taka til skoðunar. Menn þurfa aðeins að líta í eigin rann í þessum efnum. Auðvitað hljóta þeir sem stjórna í hinni opinberu stjórnsýslu að gera sér grein fyrir því að umboðsmaður Alþingis starfar samkvæmt lögum. Um hann gilda mjög skýr og greinargóð lög. Það hlýtur að vera metnaður hvers og eins stjórnanda, skyldi maður ætla, að vel fari í hans stjórnsýslu. Það ætti að vera í sjálfu sér frumkvæði þeirra sem starfa í stjórnsýslunni að leggja sig eftir því að bæta hana og ég held að því færri álit sem umboðsmaður þarf að senda frá sér á hverju ári, þeim mun betri stjórnsýslu getum við sagt að við séum með og því færri tilefni til alvarlegra umkvartana.

Ég held að við sem störfum við lagasetningu höfum líka fengið í umræddri skýrslu afar, hvað á ég að segja, afdráttarlausar ábendingar um á hvern hátt störf okkar gætu betur farið varðandi lagasetninguna. Því vissulega eru álitamál uppi um á hvern hátt lagasetning fer fram og hvernig hlutum er fyrir komið í lögum. Það eru hér nokkrar ábendingar sem umboðsmaður hefur sett fram varðandi meinbugi á lögum eða almennum stjórnarfyrirmælum. Athyglisvert er að sjá að á þeim málum sem hann telur þar fram hafa verið gerðar bragarbætur í flestum tilfellum. Þetta eru ein fimm mál sem hann nefnir. Eitt varðar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, annað varðar félagsmálaráðherra, hið þriðja landbúnaðaráðherra og hið fjórða Reykjavíkurborg. Í þessum tilfellum hafa verið gerðar úrbætur en eftir stendur eitt álitamál og það er mál sem umboðsmaður sá ástæðu til að vekja athygli Alþingis og dómsmálaráðherra á. Það varðar tiltekin atriði er lúta að skipun hæstaréttardómara með það í huga að tekin yrði afstaða til þess hvort þörf væri á að fyrirkomulag við undirbúning og ákvarðanir um skipun í embætti dómara við Hæstarétt Íslands yrði tekin til endurskoðunar og lagabreytingar gerðar í því tilefni, ef sú yrði niðurstaðan. Ekki er greint frá viðbrögðum við þessari athugasemd umboðsmanns í skýrslunni. En ég held að við hljótum að verða að bregðast við þessu, hæstv. dómsmálaráðherra og alþingismenn. Þetta er í rauninni af sama meiði og athugasemdir sem komu frá umboðsmanni með síðustu skýrslu, þ.e. skýrslunni fyrir 2003, og gert var að umtalsefni í umræðum um skýrsluna á síðasta ári. Þá benti umboðsmaður okkur á að Norðmenn og nágrannaþjóðir okkar hefðu gert skurk í að skilgreina vel verksvið umboðsmanns gagnvart dómstólunum. Þá var ég að meina stjórnsýsludómstólana, en ekki niðurstöður dómanna. Okkur var bent á af umboðsmanni að Norðmenn hefðu unnið afar gott og ítarlegt verk í þeim efnum og hefðu lagt fram skýrslu á norska þinginu um það á hvern hátt umboðsmaður hefði yfir stjórnsýsludómstólum að segja.

Ég held að þetta séu ákveðnir þættir sem þarf að taka til alvarlegrar skoðunar. Þetta eru athugasemdir sem við megum ekki láta rykfalla á borðum okkar heldur taka verulega mikið mark á.

Eitt finnst mér líka athyglisvert af því sem umboðsmaður hefur fært fram í máli sínu og í kynningu sinni hjá allsherjarnefnd. Það er hversu mikið fræðandi efni hefur safnast saman hjá embættinu. Hann greinir okkur frá löngun til þess að láta vinna ítarlegt fræðsluefni í tilteknum þáttum og í raun sé búið að láta vinna ákveðinn grunn að fræðsluefni í ákveðnum þáttum sem ég held að sé sjálfsagt mál og geti verið verulegur fengur að. Því það segir sig sjálft að þegar maður fær svona bók frá umboðsmanni á hverju einasta ári að á bak við þá vinnu er auðvitað gríðarlega mikið magn af upplýsingum sem hlýtur að vera fengur að að fá í einhvers konar umfjöllun eða einhvers konar dreifingu út í samfélagið þar sem þetta getur nýst þeim sem starfa við stjórnsýsluna. Ég held að þegar öllu er á botninn hvolft hljóti starf umboðsmanns að vera hvatning til þeirra sem starfa innan stjórnsýslunnar um að bæta hana og það á að vera okkur metnaðarmál að fækka álitum umboðsmanns, fækka þeim tilefnum sem borgararnir hafa til að leita réttar síns hjá umboðsmanni.



[13:02]
Sólveig Pétursdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefndi sérstaklega þjónustugjöldin. Ég vil nota tækifærið og koma því hér á framfæri sem rætt var einmitt á fundi forsætisnefndar hjá umboðsmanni Alþingis í gær í tengslum við ábendingar varðandi skatta og þjónustugjöld. Þá skýrði umboðsmaður frá því að hann hefði lagt sérstaka áherslu á að hjá stofnuninni ynni sérfræðingur í skattamálum og að þörfin á slíkum sérfræðingi hefði einmitt verið rædd milli fjármálaráðuneytisins og umboðsmanns Alþingis. Mér fannst rétt að láta þetta atriði koma hér fram.