132. löggjafarþing — 19. fundur
 10. nóvember 2005.
umræður utan dagskrár.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[13:36]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mikið vantar af starfsfólki til kennslu í leikskólum landsins og er staðan nú þannig að ekki hefur náðst að manna allar stöður í mörgum leikskólum. Allt of víða hefur því verið gripið til þess ráðs að senda börn heim einhverja daga í mánuði í þessari neyð. Í mínu ágæta bæjarfélagi, Kópavogi, eru börn í einum af leikskólunum send heim á sex daga fresti svo leikskólinn geti haldið eðlilegu álagi á því starfsfólki sem þar er fyrir.

Það þarf auðvitað ekki að nefna áhrifin sem þetta hefur og óþægindin fyrir alla hlutaðeigandi og veldur þetta miklu álagi á þær fjölskyldur sem fyrir þessu verða, að ekki sé talað um starfsmennina sem fyrir eru. Í mörgum þeim sveitarfélögum sem tekist hefur að manna leikskólana er staðan í járnum og má lítið út af bregða. Sem dæmi getur umgangspest haft veruleg áhrif á starfið.

Sá mikli vandi sem blasir við leikskólum núna vegna skorts á fólki til starfa á leikskólunum er ekki nýjar fréttir þó að óvenjuslæmt ástand hafi skapast í haust vegna þenslu á vinnumarkaði og er búist við að ástandið versni víða aftur verulega um áramót. Vandinn er alls staðar hinn sami og hann er árlegur og ekki bundinn við einstök sveitarfélög eða stjórnmálaflokka sem þar stjórna. Vandinn felst í of mikilli starfsmannaveltu.

Virðulegi forseti. Það þarf nú þegar að ráðast í átak til að hækka það hlutfall starfsmanna sem gerir störf í leikskólum að ævistarfi og á það jafnt við um faglærða sem ófaglærða. Lausnirnar felast meðal annars í tvennu: Í fyrsta lagi verða að koma til verulegar launahækkanir fyrir þessi störf sem eru skammarlega lágt launuð. Ég held að enginn deili um það að þau eru á engan hátt samkeppnishæf. Þar ber ríkisvaldið sína ábyrgð vegna ranglátrar tekjuskiptingar ríkis og sveitarfélaga.

Í öðru lagi verður að ráðast í átak til að fjölga leikskólakennurum. Hlutfall leikskólakennara við störf í leikskólum er í kringum 34% þeirra sem starfa við kennslu. Við eigum að setja okkur þau markmið að hækka þetta hlutfall. Það er umframeftirspurn eftir náminu. Í fyrra var helmingi umsókna um leikskólakennaranám í Kennaraháskólanum hafnað. Helmingi umsókna var hafnað vegna takmarkaðs fjármagns. Þetta voru umsóknir 95 einstaklinga einungis það ár sem hugðu á nám í leikskólakennarafræðum. Þetta er auðvitað óviðunandi ástand, sérstaklega nú þegar það blasir við og hefur reyndar gert árum saman að fjölga verður leikskólakennurum verulega. Þessar frávísanir eru að sjálfsögðu á ábyrgð menntamálaráðherra og skora ég á hana að tryggja aukið fjármagn til námsins til að tryggja megi að fleiri útskrifist af leikskólakennarabraut Kennaraháskólans.

Í þeim hópi sem sækjast eftir þessu námi eru margir sem ekki hafa lokið stúdentsprófi. Þessu fólki verður að hleypa í nám, leikskólastigið þarf á því að halda. Það verður að beita öllum meðulum sem til eru eins og að setja á laggirnar frumgreinabraut, efla leikskólabrautir á framhaldsskólastiginu og opna enn frekar á tækifæri náms með vinnu. Þá þarf að efla starfsmenntunartækifæri fyrir ófaglærða og auka samþættingu leikskólakennaranámsins við aðrar uppeldisgreinar.

Virðulegi forseti. Á leikskólunum er unnið frábært starf. Sveitarstjórnir hafa staðið sig vel við uppbyggingu þeirra og gæðastarf í samvinnu við menntamálaráðuneytið. Nú þurfum við hins vegar að taka næsta skref og stækka þann hóp sem vill gera kennslu í leikskóla að ævistarfi. Við þurfum að finna lausnir til framtíðar og stórminnka hina öru starfsmannaveltu sem leikskólastigið býr við. Til þess að svo megi verða þarf að líta til margra þátta og tel ég að menntamálaráðherra eigi að leika þar lykilhlutverk í samhentu átaki ríkis, sveitarfélaga, starfsmanna, foreldra og samfélagsins alls.

Virðulegi forseti. Ég vil í þessu sambandi beina nokkrum fyrirspurnum til hæstv. menntamálaráðherra:

1. Hvaða leiðir sér ráðherra færar til að efla leikskólakennaramenntun með það að markmiði að fjölga leikskólakennurum meðal starfsmanna leikskólanna?

2. Kemur til greina að mati ráðherra að sett verði á laggirnar sérstök frumgreinadeild fyrir leikskólakennaranám þannig að þeir sem ekki eru með stúdentspróf en hafa góða reynslu og þekkingu úr leikskólakennslu geti átt þar greiðan aðgang?

3. Kemur til greina að auka samþættingu námsins við annað uppeldisnám svo einstaklingar með menntun á öðrum sviðum en uppeldismenntunar eigi greiðari aðgang að leikskólakennarastöðum?

4. Er menntamálaráðherra tilbúin að styrkja starfsnám tengd störfum á leikskólum enn frekar svo ófaglærðir á leikskólum eigi greiðara aðgengi að námi með vinnu?

Að lokum vil ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að leggja sitt af mörkum til lausnar á starfsmannamálum leikskólanna til framtíðar í þetta sinn en ekki láta það eftir einstökum sveitarfélögum eins og nú hefur verið gert.



[13:41]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Lengi býr að fyrstu gerð er málsháttur sem á við í umræðunni um leikskólana. Á undanförnum árum hafa verið tekin mikilvæg skref til að treysta leikskóla og leikskólamenntunina. Það hefur verið lögfest að leikskólarnir séu og eru fyrsta skólastig og það ríkir almenn sátt í samfélaginu um mikilvægi þess að fagmennska ráði ríkjum þar sem yngstu börn þjóðarinnar dvelja á meðan foreldrar þeirra vinna eða læra.

Síðustu vikur hefur verið mikið rætt um þann vanda sem nú er uppi í leikskólum vegna þess hversu illa hefur gengið að manna leikskólana í haust, einkum þó á höfuðborgarsvæðinu. Leikskólakennarar og starfsfólk leikskóla hefur lagt metnað sinn í að viðhalda faglegu starfi þrátt fyrir þetta erfiða ástand. Því miður hefur þó sums staðar verið gripið til þess örþrifaráðs að loka deildum eða senda börnin heim með tilheyrandi afleiðingum fyrir börn og foreldra. Það er að mínu mati óviðunandi að mannekla trufli starfsemi leikskólanna ár eftir ár. Slíkt dregur úr þjónustu og faglegu starfi leikskólanna er hætta búin.

Leikskólarnir eru eins og við þekkjum alfarið reknir af sveitarfélögum. Það er á þeirra ábyrgð að halda uppi þjónustu og tryggja að lögum um leikskóla sé framfylgt. Það er hins vegar á ábyrgð ríkisins að tryggja hina faglegu umgerð leikskólans með lögum og námskrá sem og að standa að menntun leikskólakennara. Þegar þróunin í þeim efnum er skoðuð kemur í ljós að hlutfall menntaðra leikskólakennara fer stigvaxandi og er nú 32%. Þeim fjölgar hins vegar ekki í samræmi við þá miklu fjölgun sem orðið hefur á útskrifuðum leikskólakennurum.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni eru nú hátt í 1.600 einstaklingar með leikskólakennaramenntun en starfandi leikskólakennarar eru einungis 1.234. Það eru því um 400 menntaðir leikskólakennarar sem kjósa að vinna við annað en leikskólastörf.

Því hefur verið haldið fram, m.a. af borgaryfirvöldum í Reykjavík, að fjárskortur Kennaraháskóla Íslands hamli því að stúdentar komist í nám fyrir leikskólakennara og borgarstjórinn í Reykjavík hefur m.a. hvatt til þess að skólunum verði gert kleift að bregðast við umsóknum. Af þessu tilefni vil ég taka sérstaklega fram: Á síðustu 15 árum hafa verið útskrifaðir rúmlega þúsund leikskólakennarar frá Fósturskóla Íslands og Kennaraháskólanum og frá 1999 hafa útskrifast um 200 leikskólakennarar frá Háskólanum á Akureyri. Samtals hafa því útskrifast um 1.260 leikskólakennarar á því tímabili og sem stendur eru um 460 leikskólakennaranemar við þessar brautir í fyrrnefndum háskólum.

Þessar tölur, virðulegi forseti, sýna að mínu mati fram á að veruleikinn er mun flóknari en sumir vilja vera láta. Það hefur verið stuðlað að mikilli fjölgun háskólamenntaðra leikskólakennara og mörg hundruð munu bætast við í þeirra góða hóp á næstu árum. Hins vegar sjáum við jafnframt að stór hluti þeirra sem ljúka þessari menntun kýs að starfa á öðrum vettvangi. Það er því greinilega ekki nóg að fjölga menntuðum leikskólakennurum, það verður ekki síður að tryggja að það starfsumhverfi og þau kjör sem í boði eru séu þess eðlis að það tryggi að leikskólakennarar komi til starfa á leikskólanum.

Sem ráðherra vil ég gera það sem hægt er til að stuðla að því að þessi vandi verði leystur. Í fyrsta lagi vil ég nefna að í ráðuneytinu er starfandi samráðsnefnd um leikskóla sem í eiga sæti fulltrúar frá ráðuneytinu, Félagi leikskólakennara, Sambandi ísl. sveitarfélaga og stéttarfélaginu Eflingu. Sú nefnd er umræðu- og samstarfsvettvangur um ýmis fagleg málefni sem tengjast leikskólunum.

Á síðasta fundi í lok október var ákveðið að samráðsnefndin hefði frumkvæði að því í byrjun næsta árs að boða fulltrúa þeirra hagsmunaaðila sem koma að leikskólamálum til málþings og ég tel að hægt sé og það eigi að nýta þessa samráðsnefnd mun betur til að fara skipulega yfir stöðu leikskólans og einstök úrlausnarefni.

Í öðru lagi vil ég nefna að sérstakur starfshópur er að vinna að endurskoðun laga um lögverndun á starfsheitum og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra. Hefur starfshópurinn sérstaklega verið beðinn um að athuga möguleika á því að leikskólakennarar falli undir lögverndarlögin eftir því sem eðlilegt getur talist.

Í þriðja lagi er á vegum ráðuneytisins vinnuhópur að störfum með fulltrúum ýmissa hagsmunaaðila sem hefur það að markmiði að koma með tillögur að framtíðarskipan kennaramenntunar í landinu. Í þeirri nefnd er fjallað um menntun leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara og þess er vænst að hópurinn skili af sér tillögum fljótlega.

Í fjórða lagi vil ég geta þess að ég hef sérstaklega óskað eftir því að málefni leikskólans verði tekin á dagskrá m.a. á vettvangi norrænu menntamálaráðherranefndarinnar en fram til þessa hafa leikskólamálin verið rædd á vettvangi félagsmála í norrænu samstarfi. Með þessu vilja íslensk menntayfirvöld undirstrika það að leikskólastigið er fyrsta skólastigið í skólakerfinu og með því erum við líka að undirstrika mikilvægi þess að umræðan um leikskólann á norrænum vettvangi sé á faglegum nótum á forsendum skólastarfsins.

Við viljum öll, virðulegi forseti, að fagmennska sé í fyrirrúmi í leikskólum landsins og að kennarar fái greitt fyrir þær kröfur sem við setjum fram.



[13:47]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. menntamálaráðherra sagði að veruleikinn væri flókinn og það er svo sannarlega rétt. Og hún hitti auðvitað líka naglann á höfuðið þegar hún sagði sjálf í ræðu sinni að þetta sé spurning um starfsumhverfi og kjör, manneklan á leikskólunum snýst um starfsumhverfi og kjör fólks. Skýringin á því af hverju 400 manns úti í samfélaginu með leikskólakennarapróf eru ekki að störfum í leikskólum við kennslu er auðvitað sú að þessu starfi hefur ekki verið umbunað á þeim nótum sem við getum talið eðlilegt þegar skoðuð er ábyrgð þeirra einstaklinga sem gegna starfi leikskólakennara.

Ég fagna því að leikskólakennaranámið sé í endurskoðun og ég tek undir með hv. málshefjanda hvað varðar þau efni sem hún telur að geti verið til úrbóta hér. Við þurfum að taka á í menntamálunum en við þurfum jafnframt að tryggja að það fólk sem sækir í leikskólakennarastarfið fái mannsæmandi laun. Það er grundvöllurinn og auðvitað getur ríkið ekki firrt sig algerlega ábyrgð í þeim efnum. Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga liggur þarna undir og við vitum að krafan á leikskólana alveg eins og krafan á grunnskólana hefur aukist gríðarlega mikið undanfarin ár. Við vitum að grunnskólinn hefur verið einsetinn síðan hann fór til sveitarfélaganna en ríkið hefur ekki komið til móts við sveitarfélögin með aukin fjárframlög og sama má segja um leikskólann. Ég tel því einsýnt að tekjuskiptingarnefnd ríkis og sveitarfélaga hljóti að verða að fara ofan í þessi mál líka.

Hæstv. menntamálaráðherra segist vilja bera hina faglegu ábyrgð. Það er auðvitað af hinu góða en ég segi líka: Við megum ekki firra okkur raunveruleikanum með því að neita að horfast í augu við að hér er um að ræða störf sem eru á hraðri leið með að verða láglaunastörf í samfélaginu, í því þenslusamfélagi sem við búum við. Hver ber ábyrgð á þenslunni? Það skyldi þó ekki vera að ríkisstjórnin ætti sinn hlut þar að máli?



[13:49]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, fyrir að vekja máls á málefnum leikskólanna. Enginn efast um mikilvægi þeirrar starfsemi sem fram fer á leikskólunum. Leikskólakennarar og leiðbeinendur eru allan daginn að annast dýrmætustu eign þjóðarinnar, þ.e. framtíðina. Hins vegar vitum við að illa gengur að manna stöður í leikskólunum. Mannekla á leikskólum dregur úr þjónustu og erfitt er fyrir starfsfólkið að tryggja faglegt starf.

Reyndar má geta þess að í sumum sveitarfélögum hefur gengið ágætlega að manna leikskólana. Sem dæmi má nefna að leikskólar á Akureyri eru fullmannaðir og 70% starfsmanna þar eru með réttindi. Ég held að ríki alger þjóðarsátt um að greiða betur fyrir umönnunar- og uppeldisstörf. Það skiptir okkur máli að gott fólk fáist í þessi störf. Í þessu tilviki má einnig minna á að hér er um dæmigerða kvennastétt að ræða sem lengi sat eftir í launaþróuninni. Þó urðu nokkrar leiðréttingar í síðustu kjarasamningum þannig að málin eru að mjakast.

Málaflokkurinn er á forræði sveitarfélaganna. Við verðum að standa vörð um sjálfsforræði þeirra en störfin eru þess eðlis að þau koma okkur öllum við vegna þess að hér er um uppeldis- og umönnunarstörf að ræða. Við getum ekki búist við að fólk fari í þessi störf án þess að gera þau meira aðlaðandi og þá með hærri launum. Tölur sem hæstv. ráðherra vísaði í sýna að menntaðir leikskólakennarar skila sér ekki í störfin. Ekki er nóg að fjölga menntuðum leikskólakennurum, þeir verða að vilja starfa í faginu. Ég fagna þess vegna starfi hæstv. menntamálaráðherra sem stuðlar að því að efla leikskólastigið enn frekar.



[13:51]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er það algerlega óviðunandi að leikskólar þurfi að glíma við manneklu vikum eða mánuðum saman. Það er einnig óviðunandi þegar mikil hreyfing er á starfsfólki leikskóla þannig að fólk staldri stutt við í starfi og nýtt fólk taki við. Það hlýtur að valda röskun og álagi hjá börnunum að þurfa stöðugt að efna til nýrra kynna við fullorðna einstaklinga.

Í rúmlega mánaðargamalli ályktun trúnaðarmanna leikskólakennara í Reykjavík eru það fyrst og fremst bágborin laun leikskólakennara og annars starfsfólks sem talin eru valda því að fólk tollir illa í störfum við leikskólana. Þegar litið er til grunnlauna ófaglærðra starfsmanna leikskóla og leikskólakennara hlýtur maður að fallast á þá staðreynd að launakjör þessa fólks eru hneykslanlega léleg. Það hlýtur að teljast ábyrgðarhluti fyrir sveitarfélögin að þau taki launamál starfsmanna leikskóla til gagngerðrar endurskoðunar með hækkanir í huga og einnig að skoðað verði alvarlega hvort ríkið geti þar komið að. Við verðum einnig að gæta þess um leið að þeir sem hafa minnstar tekjur í dag, láglaunafólk, námsmenn, einstæðir foreldrar og aðrir verði ekki fyrir barðinu á slíkum hækkunum en við hin sem njótum góðra tekna, hvort sem um er að ræða launatekjur eða fjármagnstekjur, ættum að geta látið meira af hendi rakna til samneyslunnar. Því miður er það svo, virðulegi forseti, að stefna ríkisvaldsins er hins vegar sú að þeir sem lægri launin hafa njóta ekki betri kjara. Vegna hvers? Jú, skattastefnu stjórnarflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.



[13:53]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Katrínu Júlíusdóttur, fyrir að taka þetta brýna mál til umræðu og hæstv. menntamálaráðherra fyrir svör hennar í upphafi umræðunnar. Ég held að sjá megi af umræðunni að hér deila menn úr öllum flokkum áhyggjum af því ástandi sem er. Leikskólinn er frábært skólastig. Þar hefur blómstrað starf og uppbygging á undanförnum árum og sveitarfélögin eiga sannarlega heiður skilinn fyrir gríðarlega uppbyggingu á því sviði sem nú sér fyrir endann á.

Það er hverjum manni ljóst að nú þarf að vinda bráðan bug að því að efla og styrkja það starf sem þar fer fram, festa það í sessi og lyfta því upp og þar á meðal, eins og fram hefur komið hjá ýmsum ágætum þingmönnum hér, hvað kjörin varðar. Sveitarfélögin hljóta auðvitað að taka það til sín þó að þeim sé þröngt skorinn stakkur í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Besta leiðin til að efla og styrkja kjör einnar starfsstéttar er auðvitað að efla menntunarstig hennar, starfsnám hvers konar og önnur réttindi. Því kemur sú frétt á óvart sem hér er sögð í umræðunni að helmingi umsækjenda um leikskólakennaranám við Kennaraháskóla Íslands sé hafnað, að 100 manns sé vísað frá námi eins og kom fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur. Ég hlýt því að spyrja hæstv. menntamálaráðherra: Er þetta rétt? Vísuðum við 100 manns frá á síðasta ári að leggja stund á nám til að gæta barna okkar og kenna þeim, fólki sem vill sækja slíkt nám, fólki sem eftirspurn er eftir og þörf fyrir? Getur verið að af 200 umsækjendum um nám við Kennaraháskólann hafi 100 verið vísað frá, nærri 40 í fjarnámi og nærri 60 í hinu staðbundna námi? (Forseti hringir.) Vill ekki hæstv. ráðherra gera þetta að forgangsmáli hjá sér án þess að ég sé með þessu að gera hana ábyrga fyrir manneklunni á leikskólunum?



[13:55]
Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á málefnum leikskólanna. Ég þekki það vel af öðrum vettvangi þar sem ég sit í borgarstjórn Reykjavíkur og eins og menn vita þá er þetta mál á ábyrgð sveitarfélaganna.

Í leikskólunum starfar frábært fólk og veitir frábæra þjónustu. Þrátt fyrir að mikilvægt sé að við ræðum þetta mál á þessum vettvangi þá hefur mér komið nokkuð á óvart hve fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa ráðist harkalega á R-listann í þessu máli, sérstaklega þar sem þeir eru hér ekki til svara. (Gripið fram í.) En eins og menn þekkja, og málshefjandi minntist á sitt sveitarfélag, Kópavog, þá er líka í Reykjavík neyðarástand á mörgum leikskólum. Því miður hafa menn brugðist seint við og á margan hátt illa við þessum mikla vanda. (Gripið fram í.) Við hljótum þá að spyrja okkur þegar stjórnmálaafl kemur fram og allir, a.m.k. frá þessu stjórnmálaafli hér, eru sammála um að kjörin séu það sem skiptir máli, þá lofa þessir sömu aðilar fjárveitingum í gjaldfrjálsan leikskóla á sama tíma og foreldrar fá ekki pláss fyrir fyrir börnin sín í leikskólum á viðkomandi stöðum.

Ég held hins vegar að ekki sé ástæða til að ráðast of mikið á R-listann hér. Við vitum að menn hafa ekki náð þessum árangri sem raun ber vitni. Hér var minnst á Kópavog. Kópavogur er sveitarfélag þar sem leikskólabörnum (Gripið fram í.) hefur fjölgað um rúmlega 500 á síðustu tíu árum á meðan fækkað hefur um samsvarandi fjölda í Reykjavík. Þetta er málefni sveitarfélaganna. Ég veit að sveitarstjórnarmenn hafa mikinn metnað á þessu sviði og munu reyna hvað þeir geta til að vinna bug á þessum vanda. Ég held að menn séu sammála um að við verðum að gera allt til að viðhalda því góða starfi sem unnið er á vettvangi leikskólans því svo sannarlega er þar frábært starfsfólk (Gripið fram í.) sem vinnur mjög gott starf eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson þekkir af eigin raun.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmenn að halda frammíköllum í algeru lágmarki þegar ræðutími er svo takmarkaður sem raun ber vitni.)



[13:58]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég vil eins og aðrir þakka fyrir þessa umræðu sem ég tel afar brýna en leyfi mér jafnframt að efast um að einhver lausn verði fundin hér í dag. Ég vona að umræðan leiði til þess að það verði opnari umræða almennt í þjóðfélaginu um stöðu leikskóla, hlutverk þeirra og gildi í samfélaginu.

Kjarninn í þessu máli er sá að þetta snýst um gildismat þjóðar. Gildismat á sér ýmis birtingarform og eitt þeirra eru laun. Ef við skoðum hvaða laun svokallaðar umönnunar- og menntastéttir hafa, ég er að tala um kennara, hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og þá sem sinna öldruðu fólki á öldrunarstofnunum, þá hefur sannarlega orðið veruleg kaupmáttaraukning á síðustu árum. En ef við berum þau laun saman við þau sem aðrar stéttir hafa í samfélaginu, t.d. í fjármálageiranum, þá er þar himinn og haf á milli. Þetta er þróun sem átt hefur sér stað á löngum tíma og að því er virðist í bara nokkuð mikilli sátt þjóðarinnar. Í því felast auðvitað ákveðin skilaboð þjóðar, í því afhjúpast ákveðið gildismat. (Gripið fram í.) Við hljótum því að spyrja okkur hvort við metum dansinn kringum gullkálf meira en umönnunarstörf. Í 17. júní ræðum stendur ekki á boðskapnum um gildi menntunar, gildi umönnunar en þegar á reynir eins og þróunin hefur verið kemur annað í ljós.

Ég efast ekki um að hv. málshefjandi og hæstv. ráðherra eru mjög sammála um að vilja veg leikskóla sem allra bestan, en svarið er að finna úti í samfélaginu og þjóðin þarf einmitt að fara að svara því hvernig hún í raun og veru metur umönnun, menntun og hin mýkri gildi.



[14:00]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það er auðvitað algerlega óviðunandi að ekki takist að manna leikskólana, jafnmikilvæg störf og unnin eru á þeim stofnunum. En hvers vegna tekst það ekki? Ég tel að það sé augljóst. Það snýst auðvitað um kaup og kjör og ég tel ekki við hæfi að vinstri flokkarnir varpi algerlega frá sér ábyrgð í þessu máli. Reykjavíkurborg ræður einmitt ferðinni hvað varðar launanefnd sveitarfélaga, sem sér um að semja um laun og kjör við þetta ágæta starfsfólk. Málið snýst einfaldlega um það. Auðvitað ber ríkið að einhverju leyti ábyrgð hvað það varðar að skammta sveitarfélögunum nægilega fjármuni til þeirra verkefna sem þeim er ætlað að framkvæma samkvæmt lögum.

Ég ætla að minnast á orð hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Mér finnst þau ekki vera alveg í samræmi við áramótaræðu hæstv. forsætisráðherra sem talaði mjög digurbarkalega og landsföðurlega um mikilvægi uppeldis- og umönnunarstarfa og mikilvægi barna- og fjölskyldumála. Nú virðist annað vera upp á teningnum. Hv. þingmaður telur að það sé einhver sátt um launastefnuna, þennan gríðarlega launamun sem orðinn er í landinu. Ég get sagt hv. þingmanni að við í Frjálslynda flokknum erum ekki sáttir við þá launastefnu. Við teljum, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar, að það sé ekki sátt um það hvernig skattbyrðinni er í auknum mæli velt á þá sem hafa lægri launin og af þeim sem hafa hærri launin. Það er ekki sátt um það. Ég vona að aðrir þingmenn Framsóknarflokksins fari ekki með slíkt fleipur að það sé einhver sátt um það frekar en annað sem menn vilja telja fólki trú um að sátt sé um í þjóðfélaginu, sem alls ekki er.



[14:02]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þá góðu umræðu sem hér hefur farið fram. Ég vil líka þakka viðbrögð hæstv. menntamálaráðherra vegna þess að augljóst er að hún ber þetta mál fyrir brjósti og það er gott að vinna er farin í gang. Hins vegar skora ég á menntamálaráðherra, eins og ég sagði áðan í ræðu minni, að setja aukið fjármagn í leikskólakennaranámið þannig að hægt sé að taka fleiri inn en gert er í dag vegna þess að það er augljóst að einungis 34% starfsmanna sem starfa við kennslu í leikskólanum eru með leikskólakennaramenntun. Við þurfum því að gera átak í að fjölga þeim.

Ég vil einnig, virðulegi forseti, þakka fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað um kjörin vegna þess að það á ekki að vera eðlilegt að á þenslutímum streymi fólk út úr leikskólunum eins mikilvæg og störfin þar eru og fari í önnur störf. Við verðum auðvitað að endurmeta hvernig við verðleggjum störfin í samfélaginu af því að það er ekkert rökrétt við það að fólk sem vinnur með börnunum okkar sé á lægstu laununum.

Sveitarfélögin hafa staðið mjög vel að uppbyggingu leikskólanna. Það hefur orðið mikil sprenging í því alls staðar hjá sveitarfélögunum síðustu ár. Þau hafa gert mjög vel en þau eiga ekki að gera þetta ekki allt ein. Vissulega eru ákveðnir þættir sem þau sjá um en það eru líka ákveðnir þættir sem á að sjá um af hálfu menntamálaráðherra, þ.e. menntun leikskólakennaranna. Sömuleiðis þarf að koma þaðan skýr pólitískur vilji til að auka og bæta tekjustofna sveitarfélaganna þannig að þau geti staðið undir stefnumarkandi ákvörðunum, eins og við munum án efa taka hér um að bæta kjör þessa hóps. Mér heyrist vera samhugur um það hér og það er skoðun mín að við eigum að ganga samhent til þess verks vegna þess að þetta er mál okkar allra og gengur þvert á pólitískar línur.



[14:04]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg skýr stefna af hálfu menntamálaráðherra að við ætlum okkur að halda áfram að byggja upp fagmennsku í öllu skólakerfinu. Við erum að fara heildstætt yfir alla kennaramenntun í landinu í samvinnu við fagfélög eins og Kennarasambandið og fleiri aðila. Við erum að skoða allt skólakerfið í heild og ekki síst leikskólakennarastörfin. Það þýðir ekkert að koma hingað upp og segja að fjölga þurfi leikskólakennaramenntuðu fólki því við erum að gera það. Við erum að fjölga því sem nemur hundruðum á næstu árum. Því hefur fjölgað um 1.260 á síðustu 15 árum og á næstu árum mun leikskólakennurum fjölga sem nemur a.m.k. 450 manns.

Það eru fleiri leikskólakennaramenntaðir einstaklingar úti í samfélaginu en þeir sem eru starfandi á leikskólunum. Ekki er því hægt að segja að það vanti leikskólakennaramenntað fólk því það er fleira úti á markaðnum en til staðar á leikskólunum sjálfum. Því þýðir ekki fyrir stjórnarandstöðuna að koma hér upp og fela sig eins og alltaf á bak við það að tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga sé ójöfn. Það er ekki hægt að koma og segja ævinlega pass í þessum málum. Auðvitað snertir þetta sveitarfélögin. Það er þeirra að skapa starfsumhverfi fyrir það mikilvæga skólastig sem leikskólinn er. (Gripið fram í.) Ríkisvaldið stendur sig hvað varðar faglegu hliðina, við útskrifum nægilega marga leikskólakennara. Við munum halda áfram að efla leikskólakennaramenntun í landinu en það er sveitarfélaganna að sjá til þess að fólk með fagkunnáttu starfi á leikskólunum og til þess að svo verði þurfa launakjörin að vera meira aðlaðandi en þau eru í dag. Boltinn er á hendi sveitarfélaganna hvað það varðar, það er ekki á hendi ríkisins að leysa það mál. Við látum ekki okkar eftir liggja varðandi uppbyggingu á leikskólakennaramenntun, það er alveg á hreinu.