132. löggjafarþing — 20. fundur
 14. nóvember 2005.
vatnalög, frh. 1. umræðu.
stjfrv., 268. mál (heildarlög). — Þskj. 281.

[16:01]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að gera athugasemd við það að ég sé ekki hæstv. iðnaðarráðherra í salnum og enn fremur að óskað var eftir því við fyrri hluta 1. umr. að hæstv. umhverfisráðherra yrði hér til staðar líka. Ég sé ekki heldur hæstv. umhverfisráðherra. Ég óska því eftir að hæstv. forseta láti kanna með viðveru þessara hæstv. ráðherra.

(Forseti (SP): Forseti vill upplýsa að athugað verður hvort ekki verði hægt að bregðast við þessum óskum hv. þingmanns.)

Ég get svo sem hafið inngang að ræðu minni þó að auðvitað gangi á tímann, sem er miður. Ég hefði gjarnan viljað hafa báða hæstv. ráðherra hér til taks.

Þetta er framhald 1. umr. um málið og tekist hefur verið harkalega á um það eins og fólk veit. Á síðasta þingi endaði málið þannig að það fór ekki í gegn þó svo að iðnaðarnefnd hefði afgreitt það frá sér. Ég held að það sé þá spurning um að taka til við þessa umræðu á nýjan leik á þeim nótum að möguleiki sé á að vinna málið áfram. Ég fullyrði að mikið vantar á að málið sé það vel unnið að hægt sé að hleypa því einu og sér í gegnum eðlilega þingumræðu og þingstörf. Ég er þeirrar skoðunar að með breytingum á vatnalögum frá 1923, þeim breytingum sem liggja fyrir í þessu frumvarpi, sé verið að gera róttækar breytingar, allt annað og meira en formbreytingu eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur ævinlega vikið að í ræðum sínum. Ég er sammála þeim sem hafa haldið því fram að hér sé mál á ferðinni sem sé til þess fallið að vekja vafa um markmið breytinganna. Laganefnd Lögmannafélags Íslands gaf umsögn um frumvarpið á síðasta þingi. Hún fjallaði um orðalag frumvarpsins og sagði að það væri til þess fallið að vekja vafa um markmið breytinganna og að mun skýrara væri að segja afdráttarlaust að einungis sé um formbreytingu að ræða. Ekkert hefur verið gert í þessari nýju útgáfu frumvarpsins til að eyða þeim vafa. Ég kalla eftir því að hæstv. iðnaðarráðherra svari efnislega þeim athugasemdum sem laganefnd Lögmannafélagsins gerði og Orkustofnun tók reyndar undir í sérstakri viðbótarumsögn síðastliðið vor þar sem hún tók undir sjónarmið Lögmannafélagsins.

Hæstv. forseti. Ef ég á að lýsa þeim framgangsmáta sem ég mundi vilja hafa á þessu málum, því eins og ég hef áður sagt held ég því ekki fram að ekki þurfi að endurskoða vatnalögin frá 1923, þá tel ég mjög mikilvægt að það sé gert á heildstæðan máta. Ekki þann hátt sem hér er lagt til, að hlutirnir séu allir skornir niður í einhverjar öreindir og hér sé skotið í gegn einhverju frumvarpi til vatnalaga, einhverju frumvarpi um rannsóknir og nýtingu jarðefnaauðlinda og síðan einhvern tíma seint og um síðir fáum við kannski að líta vatnsverndarfrumvarp.

Breytingar þær sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur til að gerðar verði í þessum málaflokki eru þess eðlis að frumvarpið sem við ræðum hér ætti að heita frumvarp til laga um vatnsréttindi, það ætti að vera kvitt og klárt frumvarp til laga um vatnsréttindi. Að hluta til er verið að reyna eitthvað slíkt í frumvarpinu en það þýðir að ákveðnir þættir vatnalaganna, sem heyrðu sögunni til ef þetta frumvarp yrði lögfest, yrðu þar með munaðarlausir. Ég er ekki sátt við það að 43. gr. hnýti alla lausa enda í þeim efnum. Mér finnst hún sannarlega ekki gera það. Ég tel því að þetta frumvarp ætti að heita frumvarp til laga um vatnsréttindi eða, eins og Umhverfisstofnun lagði til í sinni viðamiklu umsögn síðastliðið vor: Frumvarp til laga um orkunýtingu vatns. Síðan ættum við að hafa hér á sama tíma stóra frumvarpið um rannsóknir og nýtingu jarðefnaauðlinda því að óneitanlega skarast ákveðnir þættir þessara tveggja mála mjög mikið. Í þriðja lagi ætti að liggja á borðum okkar frumvarp til laga um vatnsvernd. Það ættu kannski að vera hin eiginlegu vatnalög.

Við skulum hafa það alveg á hreinu, frú forseti, að hér er verið að fjalla um það viðamikið mál, og ég held að hæstv. ráðherrar ættu að vita það af móttökunum sem málið fékk síðastliðið vor, að það hefði verið mun skynsamlegra að fara þá leið sem ég nú hef lýst. Þá stæðum við ekki í þeirri glímu sem fyrri hluti 1. umr. gaf til kynna að væri í uppsiglingu, og ljóst er að við eigum eftir að þurfa að takast mjög harkalega á um þessi mál, nema hæstv. ríkisstjórn vitkist í þessum efnum.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði þegar við hófum umræðuna að hér væri einungis verið að gera formbreytingu. Ég ætla að rökstyðja aðeins betur af hverju ég er ósammála henni um það. Það eru ekki bara vegna þeirra raka sem laganefnd Lögmannafélagsins hefur fært í þeim efnum heldur líka með því að lesa gömlu vatnalögin. Og það er kannski gaman að taka það fram, hæstv. forseti, að vatnalögin frá 1923 eru einhver skemmtilegasta löggjöf sem ég hef lesið fyrir það eitt hvað hún er fallega orðuð. Hún er vel skrifuð, er á fallegu máli og hún er mjög tær og lýsandi. Ég sakna því ákveðinna þátta úr þessum hreina og tæra texta frá 1923 og tel að sá texti sem hér er verið að leggja til að komi í staðinn sé afar flatneskjulegur í samanburði við hinn. En þetta er kannski fagurfræðilegur útúrdúr. Það sem ég uppgötvaði þegar ég las núna enn einu sinni gömlu vatnalögin er að það eru grundvallarbreytingar sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur til að hér séu gerðar vegna þess að eins og segir í 4. gr. frumvarpsins fjallar þetta mál fyrst og fremst um eignarrétt því að „fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“ Hér er verið að tala um eignarrétt á vatni. Í gömlu vatnalögunum var alls ekki talað um eignarrétt á vatni á sama hátt og hér er fjallað um, heldur að landareign hverri fylgdi réttur til umráða og hagnýtingar. Hagnýting á því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni væri á þann hátt sem lögin heimiluðu. Hagnýtingarrétturinn er í mínum huga ákveðið hugtak sem er gegnsætt og mér lætur það miklu betur. Ég tel að laganefnd Lögmannafélagsins láti slíkt líka betur miðað við umsögn þeirra frá í vor.

Ég vil skýra þetta aðeins nánar. Í mínum huga er það svo að eðli vatns gerir okkur ekki kleift að slá á það eign okkar því að dropinn sem fellur í hafið við Íslandi dúkkar upp í Miðjarðarhafinu innan skamms og svo rignir honum kannski einhvern tíma síðar niður í höfuðin á Afríkubúum sem verða svo heppnir að fá regn eftir þurrkatíma. Eignarréttur á vatni er því öfugmæli, hæstv. forseti. Hins vegar er auðvitað hægt að tala um hagnýtingarrétt og að landeigendur eigi farveginn sem vatnið rennur eftir og eigi rétt til að nýta það vatn sem rennur um hann meðan það rennur um hann. Hagnýtingarréttur á vatni, já, en eignarréttur á vatni, nei. Ég held að hér sé í grundvallaratriðum um hugsanaskekkju að ræða hjá hæstv. iðnaðarráðherra og þeim aðilum sem komið hafa að samningu þessa frumvarps. (Iðnrh.: Hver á þá vatnið?) Hver á þá vatnið, spyr hæstv. iðnaðarráðherra. Það er sameign þjóðarinnar, sameign mannkynsins. Vatnið hlýtur að vera sameign okkar allra. Það er lifandi auðlind sem við höfum rétt til að nýta meðan við höfum það í höndum okkar eða í farveginum hjá okkur eða í ílátunum okkar en við getum aldrei slegið eign okkar á vatnið. Það getum við ekki gert. Þetta er svar mitt til hæstv. iðnaðarráðherra við þessari spurningu.

Eiganda landareignar sem vatnsréttindi fylgja geta hins vegar verið heimil not af því vatni sem um hana rennur og honum getur verið heimilt að framleiða t.d. orku úr því vatni. En vatnið getur hvorki landeigandinn né Orkustofnun né hver svo sem er annar nokkurn tímann átt. Ég held að í grunninn séum við því að fjalla um efnisbreytingu en ekki formbreytingu þó ekki sé nema bara út frá vangaveltum mínum um einkaeignarrétt á vatninu sem ekki er fjallað um í vatnalögunum gömlu heldur eingöngu hagnýtingarrétt.

Hæstv. iðnaðarráðherra sagði við fyrri hluta 1. umr. að með frumvarpi þessu væri lagt til að undir vatnalög heyrði nú vatn í öllum sínum myndum og birtingarformum, samanber skilgreiningu 2. gr. frumvarpsins, því að gildandi vatnalög, hin fallega orðuðu lög frá 1923, tækju fyrst og fremst til kyrrstæðs og rennandi yfirborðsvatns en um grunnvatn og jarðhita væri fjallað í öðrum lögum, lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. Ég er ekki, hæstv. forseti, sátt við þessa útvíkkun í frumvarpi til vatnalaga frá hæstv. iðnaðarráðherra. Ég tel að við förum þar vill vegar, sérstaklega þegar við horfum til þess að við fylgjum ekki úr hlaði verndarfrumvarpi á sama tíma. Mér finnst líka orka mjög tvímælis að grunnvatnið eigi að heyra undir þetta frumvarp eins og gert er ráð fyrir hér. Það er að hluta til út af því að ég tel að við getum ekki slegið eign okkar á grunnvatnið á þeim nótum sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir. Ég tel að hér sé um efnisbreytingar að ræða, mjög umfangsmiklar og róttækar, og ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra skuldi okkur að fjalla nánar um eða svara betur spurningunni um efa laganefndar Lögmannafélagsins. Á hvern hátt rökstyður hæstv. iðnaðarráðherra það að eingöngu sé um formbreytingu að ræða þegar hér er búið að tína til ótal rök um að svo sé ekki?

Ég geri líka athugasemd, hæstv. forseti, við að 1. gr. í frumvarpstextanum, markmiðsgreinin, hljóði á þann hátt sem hún gerir og tel að a.m.k. þurfi haldbærar skýringar frá hæstv. iðnaðarráðherra um hvað þetta kostar. Satt að segja væri mjög gagnlegt að fá sömuleiðis skilning hæstv. umhverfisráðherra á því máli. Markmiðið samkvæmt greininni á að vera skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns. Ég spyr, virðulegi forseti: Hvers er að vænta af stjórnvöldum sem telja jafnvel Kárahnjúkavirkjun til sjálfbærra vatnsaflsvirkjana? Við getum verið minnug þess að bara í fréttum í morgun kom í ljós að ein af stærstu náttúruverndarsamtökum veraldar setja Kárahnjúkavirkjun á listann yfir svörtu virkjanirnar sem hafist var handa við að framkvæmda eftir að niðurstöður alþjóðanefndar um stíflur og vatnsaflsvirkjanir lágu fyrir um aldamótin, árið 2000. Þá er Kárahnjúkavirkjun á svörtum lista hjá umhverfisverndarsamtökum vegna þess að hún sé svo langt frá því að vera sjálfbær eða lúta lögmálum sjálfbærrar þróunar.

Ég er þeirrar skoðunar, hæstv. forseti, að stjórnvöld þurfi að skýra hvað þau meina með þessari hugmyndafræði sinni um sjálfbæra nýtingu vatns því hún er ekki svo sama og hugmyndafræði mín. Á sama hátt halda sömu stjórnvöld því fram að þau hafi stundað sjálfbærar veiðar á þorski en við erum öll meðvituð um þær niðurstöður sem eru að koma út úr ráðstefnum Hafrannsóknastofnunar um að svo hafi ekki verið. Ég tel fulla ástæðu til þess að nákvæmlega þessi ríkisstjórn, virðulegi forseti, taki hér aðeins til skoðunar hvað átt er við með hugtakinu sjálfbær þróun og sjálfbær nýting. Ég býst við að ég fái einhvers konar hugleiðingar frá hæstv. ráðherrum báðum varðandi þetta atriði.

Virðulegur forseti. Ég mundi vilja gera að umtalsefni líka umsögn Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands þegar málið var hér til umfjöllunar á síðastliðnu vori. Í nefndaráliti minni hluta iðnaðarnefndar sem birtist þá á þskj. 1270 eru birtar umsagnir þær sem bárust til nefndarinnar og þar með gríðarlega umfangsmikil umsögn og greinargerð frá Umhverfisstofnun um málið. Ég vil fá að vitna til þeirrar umsagnar, hæstv. forseti, vegna þess að ég finn samhljóm með þeim sjónarmiðum sem Umhverfisstofnun lætur í ljósi í umræddri umsögn. Hún gerir athugasemdir við þrjá höfuðþætti frumvarpsins. Hún gerir t.d. athugasemdir um ákvæðin um eignarrétt á vatni, sem eru sömu atriði og ég hef þegar nefnt í ræðu minni. Hún gerir athugasemd við að eytt sé út mikilvægum ákvæðum um rétt og hagsmuni almennings sem er að finna í núgildandi löggjöf, þ.e. löggjöfinni frá 1923, og hún gerir athugasemd við fyrirhugaða stöðu Orkustofnunar sem yfirstjórnar vatnsmála út fyrir skilgreint hlutverk stofnunarinnar þar sem lítil skil séu gerð á gagnasöfnun, stjórnsýslu, framkvæmd og eftirliti.

Undir þessa þrjá meginþætti í gagnrýni Umhverfisstofnunar tek ég.

Síðar í umsögn stofnunarinnar segir, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun vísar til umfjöllunar um frumvarp til rannsóknar og nýtingar á jarðrænum auðlindum en frumvörpin tvö eru tengd um marga þætti. Þessi tvö frumvörp líða fyrir skort á samráði út fyrir tiltölulega þröngan hóp og litla opinbera umræðu og kynningu. Umhverfisstofnun telur miður að frumvarp til vatnalaga, sem fjallar um mjög afmarkaðan þátt gildandi laga, skuli lagt fram á Alþingi áður en lokið er vinnu við innleiðingu rammatilskipunar ESB um vatn, enda gengur frumvarpið gegn meginviðmiðunum tilskipunarinnar. Jafnframt telur stofnunin að æskilegra hefði verið að bíða eftir fyrirhuguðu frumvarpi um verndun og stýringu vatns og vatnabúskapar sem nú mun vera í vinnslu í umhverfisráðuneytinu.“

Hæstv. forseti. Undir þetta tek ég heils hugar. Ég óska eftir því að hæstv. umhverfisráðherra, sem skammaði forstöðumenn bæði Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands sl. vor fyrir þær umsagnir sem stofnanirnar sendu inn um frumvarp til vatnalaga, geri þingheimi grein fyrir því í þessari umræðu hvar það mál er statt. Vatnatilskipun Evrópusambandsins hefði átt að vera leidd í lög fyrir — ég man ekki hvaða dagsetning það var en það var örugglega 2004, þetta stendur einhvers staðar í greinargerðinni. Í öllu falli erum við fallin á tíma með að innleiða hana. Ég óska því eftir að hæstv. umhverfisráðherra geri okkur grein fyrir hvar málið er statt og á hvern hátt verið er að vinna að lögleiðingu vatnatilskipunarinnar, hversu stóran hluta hennar eigi að taka upp í EES-samninginn og þar fram eftir götunum, ef það er óljóst enn eins og mátti skilja á máli hæstv. umhverfisráðherra í fjölmiðlum þegar þetta mál var til umfjöllunar á síðasta vori.

Umhverfisstofnun áréttar í umsögn sinni þá skoðun að frumvarpi til vatnalaga virðist að grunni til vera ætlað að líta á aðeins mjög afmarkaðan þátt þessa málaflokks og leggur til að heiti þess verði breytt, eins og ég sagði áðan, í frumvarp til laga um orkunýtingu vatns. Hún telur nefnilega, eins og ég get verið sammála, að hin eiginlegu vatnalög hljóti að eiga að fjalla um vatn í víðustu merkingu þess orðs og gildandi vatnalög eigi að standa óbreytt að teknu tilliti til þeirra breytinga sem þarf að gera, verði frumvarp þetta að lögum, þar til löggjöf sem byggir á lögleiðingu vatnatilskipunarinnar hefur tekið gildi.

Ég tel feng að því, hæstv. forseti, að fá álit hæstvirtra ráðherra á þessu sjónarmiði, á því hvort hin eiginlegu vatnalög, sem ættu að vera til í landinu, þurfi ekki einmitt að vera þau lög sem lúta að umsýslu vatns í hinni víðustu merkingu. Ég held að Umhverfisstofnun geti haft talsvert til síns máls í þessum efnum og tek þess vegna undir það sjónarmið stofnunarinnar að full þörf hafi verið á að endurvinna þetta frumvarp, þörf sé á að leggja það fram að nýju með nútímalegri viðhorfum, sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur ekki sinnt því að hún leggur þetta fram að nýju svo til óbreytt.

Þá er það hið víðtæka samráð sem Umhverfisstofnun saknar. Ég tel að þessi stjórnvöld verði að fara að temja sér samráð í auknum mæli, sérstaklega ef þau meina eitthvað með því að innleiða vissa þætti Árósasamningsins sem fjallar nákvæmlega um það, samráð á sviði umhverfismála. Eins og við vitum eru þrjár meginstoðir í Árósasamningnum. Við erum að innleiða eina þeirra sem varðar upplýsingamál. En ríkisstjórnin situr enn þá á hinum tveimur, þ.e. því að almenningur eigi að eiga aðkomu að ákvarðanatöku í umhverfismálum, og mér sýnist að það sé ekki bara almenningur heldur stofnanir. Stærstu stofnanir umhverfisráðuneytisins kvarta undan því að þær hafi ekki verið hafðar með í ráðum.

Nú lýsti hæstv. iðnaðarráðherra því yfir í fyrri hluta 1. umr. að um þetta mál væri mikil og breið sátt innan umhverfisgeirans, þ.e. stofnana umhverfisráðuneytisins og umhverfisráðuneytisins og hæstv. umhverfisráðherra. Ég vil fá staðfestingu á því frá hæstv. umhverfisráðherra í þessari umræðu, hæstv. forseti, á hvern hátt það samráð hefur farið fram og hvernig umhverfisráðuneytið og stofnanir þess standa og hvernig afstaða þeirra til málsins er núna.



[16:21]Útbýting:

[16:21]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Mér kemur nokkuð á óvart að vera næstur í umræðunni því að ég átti von á því að hæstv. umhverfisráðherra tæki sig til og svaraði þó ekki væri nema í andsvari þeim spurningum sem fram hafa verið bornar og hv. síðasti ræðumaður gerði mjög í þeim dúr sem var í fyrri hluta umræðunnar sem hæstv. ráðherra gat því miður ekki tekið þátt í. Mér finnst kominn tími til að umhverfisráðherra geri það.

Í fyrra var rætt um frumvarp sem var nánast alveg eins og þetta og bornar fram spurningar til umhverfisráðherra. Hún svaraði ekki þá og má finna fyrir því ýmsar afsakanir. Hæstv. ráðherra var viðstödd umræðuna en þurfti svo að fara og hún svarar heldur ekki nú þó að hún geti, með leyfi forseta, annaðhvort komið hér til andsvara eða orðið næst í röð ræðumanna samkvæmt reglum sem þingsköp leyfa um það.

Þess vegna hlýtur maður að byrja á að ítreka þær spurningar til umhverfisráðherrans. Þær varða í fyrsta lagi afstöðu hennar til þess frumvarps sem hér er lagt fram, almenna afstöðu hennar til þess.

Í öðru lagi varða þær yfirlýsingar hæstv. iðnaðarráðherra í fyrri hluta umræðunnar að Umhverfisstofnun hefði snúið við blaðinu frá umsögn sinni í fyrra, það sem Umhverfisstofnun hefði sagt þá segði Umhverfisstofnun ekki lengur. Þetta verður fróðlegt að vita vegna þess að umsögn Umhverfisstofnunar er eitt af meginplöggum í málinu og ekki verður séð, nema í kannski einu smáatriði sem varðar yfirlestur í umhverfisráðuneytinu yfir reglugerð frá iðnaðarráðherra, að nokkurt tillit hafi verið tekið til athugasemda Umhverfisstofnunar sem eru mjög alvarlegar, vægast sagt.

Í þriðja lagi þurfti umhverfisráðherra í fyrra og þarf nú aftur að svara því hvernig á stendur með vatnatilskipun Evrópusambandsins. Nú er það að vísu þannig að það er utanríkisráðherra að forminu til sem semur við erlend ríki, en ég hygg að ekki þurfi að kalla hann til því að umhverfisráðherra hlýtur að hafa vald á þessu máli.

Í II. kafla greinargerðarinnar á síðu 13 í því formi sem þetta er núna, segir sérstaklega, með leyfi forseta:

„Sem stendur er unnið að lögleiðingu vatnatilskipunar ESB frá 2000.“

Þetta stóð líka í greinargerð fyrra frumvarps sem útbýtt var 6. desember 2004 og er nú aftur óbreytt í greinargerð með frumvarpi þessu sem lagt er fram í nóvember 2005, þannig að sem stendur virðist það eiga við báða tímana. Því er eðlilegt að spyrja: Hvernig stendur það? Af hverju er ekki búið að því? Hefur einhver vinna farið fram á þessu ári eða hvernig liggur þetta?

(Forseti (SP): Forseti vill taka fram vegna orða hv. þingmanns að þetta frumvarp er á forræði hæstv. iðnaðarráðherra en hæstv. umhverfisráðherra féllst góðfúslega á að vera viðstödd þessar umræður samkvæmt beiðni stjórnarandstöðunnar fyrir helgi.)

Forseti. Mér kemur á óvart þessi athugasemd því að hæstv. umhverfisráðherra er hér stödd og einmitt að beiðni stjórnarandstöðunnar. Ég er hluti af þeirri stjórnarandstöðu. Ég er að bera fram þær fyrirspurnir sem fyrri ræðumaður bar fram og bornar voru fram í fyrri hluta þeirrar umræðu sem fór fram um daginn, fyrir helgi, og sem einnig voru bornar fram — og forseti ætti að minnast — í fyrra þegar þetta mál var til umræðu. Ég hef fullan rétt til þess, nema forseti taki hann hér með frá mér, sem hann hefur auðvitað rétt til, að beina spurningum til hæstv. umhverfisráðherra sem er sérstaklega stödd í salnum. Ég ætlaði að gera það í upphafi ræðu minnar, sem annars á að fjalla um margt annað, og held því þess vegna áfram.

Á sömu síðu og í sama kafla í greinargerðinni í frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra stendur einnig um viðræður milli framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og EFTA-skrifstofunnar um aðlögunartexta að það sé, með leyfi forseta, „reiknað með að þeim ljúki fljótlega eftir áramótin næstu.“

Þegar maður fær þennan texta í hendurnar skoðar maður líka fyrra frumvarp og þar stendur hvað, forseti? Jú, með þínu leyfi, textinn segir að reiknað sé með „að þeim ljúki fljótlega eftir áramótin næstu.“ Því spyr maður eins og gert var í fyrri hluta þessarar umræðu: Hvaða áramót er átt við? Er átt við áramótin í fyrra, sem sé síðustu áramót, 2004–2005, eða er átt við áramótin 2005–2006 eða er átt við einhver allt önnur áramót? Eða eru „áramótin næstu“ einhver lítill kísilbiti sem settur er inn í tölvurnar í iðnaðarráðuneytinu og á svo við hvað sem iðnaðarráðherra sýnist hverju sinni?

Þarna stendur í þriðja lagi, forseti, hlutur sem þarf að spyrja hæstv. umhverfisráðherra um og það er að í sama kafla, nokkrum línum síðar, segir að hér á landi þurfi að leiða í lög stjórn vatnsverndar og, með leyfi forseta:

„… liggur þegar fyrir í drögum frumvarp þess efnis sem unnið var á vegum starfshóps umhverfisráðuneytisins sem starfar að lögleiðingu áðurnefndrar tilskipunar …“

Þetta stóð einnig þegar þetta frumvarp eða forveri þessa frumvarps, nánast óbreyttur, var lagður fram hér 6. desember árið 2004, í fyrra, fyrir næstum því ári. Þetta þarf umhverfisráðherra líka að skýra: Hvar er þessi löggjöf stödd? Því er spurt að einu rökin sem fram hafa komið hjá hæstv. iðnaðarráðherra fyrir því hversu brýnt sé að flytja þetta frumvarp eru þau að lögin séu frá 1923. Það endurtók hæstv. iðnaðarráðherra margoft í fyrri hluta umræðunnar: Lögin eru frá 1923, og skilja hv. þingmenn það ekki að lög frá 1923 verður náttúrlega að endurskoða o.s.frv.?

Jú, þetta er rétt hjá iðnaðarráðherra. Það er eðlilegt að taka 82 ára gömul lög og endurskoða þau og líta á hvað úr þeim er hægt að gera. En það er líka eðlilegt að það sé heildarlöggjöfin sem sett er. Einnig komi fram vatnsverndarlögin og það komi fram lög í framhaldi af þeirri vatnatilskipun sem er okkar, vegna þátttöku okkar í alþjóðasamstarfi um umhverfismál og fleiri efni.

Þetta óska ég eftir að umhverfisráðherra fjalli um og bið um að það verði gert sem allra fyrst í umræðunni þannig að hún geti þróast eitthvað áfram, sem hún hefur eiginlega ekki gert vegna annars vegar fjarveru hæstv. umhverfisráðherra og hins vegar skorts á svörum frá hæstv. iðnaðarráðherra.

Nú hef ég því miður þurft að verja meginhluta ræðu minnar í þessar spurningar og ég ítreka spurningar mínar til hæstv. umhverfisráðherra en ég ætla í þessu sambandi að segja um lögin frá 1923, sem er mikilvægt, að í greinargerðinni og í ræðu ráðherrans kemur fram sá misskilningur að þau séu sprottin úr gamla bændasamfélaginu. Það er ekki rétt nema að hluta til. Vissulega er í þeim að finna gullfallegan texta, ekki bara úr gamla bændasamfélaginu heldur frá fyrstu tímum, ákvæði sem hafa verið í lögum á Íslandi frá því Jónsbók var tekin í lög og eiga uppruna sinn í Grágás. En lögin frá 1923 eiga sér þá sögu, eins og rakið er í greinargerðinni, að þau voru afleiðing af því að hið gamla bændasamfélag rakst á við hrá-kapítalisma í upphafi 20. aldar, þegar menn fóru um landið og litu á landgæði, djarfhuga menn og framkvæmdaglaðir, og ætluðu að reisa virkjanir og nýta til þess hvern fossinn og vatnsfallið af öðrum. Þá urðu miklar deilur eins og rakið er í greinargerð sem enduðu með hinni frægu fossanefnd og síðan með frumvarpi sem Einar Arnórsson, sem forseti þekkir að góðu einu, góður stjórnmálamaður og lögfræðingur sem var uppi á fyrri hluta síðustu aldar, samdi og var síðan lögtekið.

Hvað gerðist þar? Jú, þar var samþykkt ákveðin málamiðlun. Hún var einmitt samþykkt gegn hrá-kapítalismanum en með bændum vegna þess að menn vildu reyna að hindra að einstakar ár, fossar eða önnur slík náttúrufyrirbrigði sem væri hægt að nota til orkuöflunar, gengju kaupum og sölum milli manna á Íslandi og erlendis og jafnvel í kauphöllum út og suður um heiminn. Þess vegna var gerð sú málamiðlun á milli sjónarmiða meiri hlutans og minni hlutans í fossanefndinni að landeigendur skyldu eiga skýran og kláran nýtingarrétt að þeim fyrirbrigðum sem hér eru talin. Þetta þýddi að til þess að komast yfir þennan nýtingarrétt þurfti að kaupa landið sjálft. Árið 1923 töldu menn í þessum sal að varðstaða bænda um íslenska hagsmuni mundi koma í veg fyrir of mikið ævintýri í þessum efnum. Bændasamfélagið þá var mikils metið og var talið ákveðin fyrirmynd í samfélagsefnum. Menn töldu að við ættum að halda þeim gömlu góðu gildum sem í því fælust og hæstv. iðnaðarráðherra kann að kannast við, a.m.k. í sögu flokks síns. Þess vegna var bændum, sem landeigendum á þeim tíma, falin varðveisla þessara gæða.

Það sem við eigum nú við að stríða er kannski öfugt, að gamla bændasamfélagið er því miður á fallanda fæti. Því miður segi ég ekki vegna þess að ég sé á móti framþróun í atvinnuháttum heldur vegna þess að í því fólust ýmis gömul og góð gildi sem nú þarf að leita að logandi ljósi í stefnu og athöfnum þess flokks sem þó var á sínum tíma sérstakur varnarmaður þessa bændasamfélags. Bæði í vörn og sókn átti Framsóknarflokkurinn að berjast fyrir þeim gildum. Þess vegna hefði maður að óreyndu ætlað að ráðherra Framsóknarflokksins mundi skoða vatnalögin, líta á þau í ljósi nýrra tíma og telja ástæðu til að treysta almannaréttinn, draga úr einkaeignarákvæðum vatnalaganna og koma því þannig fyrir að sjálfur tilgangur laganna frá 1923 héldi áfram þótt í breyttu samfélagi væri. En það er ekki.

Hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins sem um þetta vélar fór öfuga leið. Hann fór leið minni hluta fossanefndarinnar, að ég hygg. Ég vona að ég fari ekki með rangt mál en ég held að minni hluti nefndarinnar hafi lagt til að einkavæða í raun aðganginn og nýtingarrétt á landi og setja hann í fullkomna einkaeign. Manni bregður svo sem ekkert við þetta, eftir að hafa fylgst með Framsóknarflokknum á síðustu áratugum, en ég verð að segja að sögulega er þetta ekki mjög fagurt. Ég held að það sé mikilvægt að hafa þetta í huga.

Það hefur verið rakið, m.a. í þingsalnum, að landeign á Íslandi sé nú í miklu minni mæli en áður var einstakra bænda. Bæði fjáraflamenn og sérstök fyrirtæki hafa keypt jarðir en ekki til búskapar. Menn hafa kannski leiguliða á þeim jörðum þar til þeim hentar að gera annað við þær en markaður með land á Íslandi er orðin spekúlasjónsmarkaður og ekki lengur um það að ræða að hann ráðist af því að bændur flytjist búferlum eða komi landi sínu til þeirra sem gætu betur með það farið. Á þetta frumvarp verður að líta í því ljósi og verður ekki betur séð en að hæstv. ráðherra gangi einmitt hagsmuna spekúlantanna, hagsmuna fyrirtækjanna og fjáraflamannanna sem kaupa land, ekki til að búa á því eða virða það sérstaklega heldur ósköp einfaldlega til að nota það eins og hverja aðra vöru, kaupa land sem framkvæmdaglöð virkjunarfyrirtæki kynnu síðar að kaupa gegn hærra verði en þau voru keypt á.

Það er sérkennilegt við frumvarpið, greinargerð þess og hæstv. ráðherra sem það flytur, að þar segir í öðru orðinu A og í hinu orðinu mínus A. Gríðarleg áhersla er lögð á það af hálfu ráðherrans að þessi breyting skilgreiningarinnar á eignarrétti, þannig að formerki réttarins breytast úr jákvæðum í neikvæð, sé aðeins formbreyting. Samt stendur í 1. gr. frumvarpsins að markmið þess, fyrsta markmið og aðalmarkmið frumvarpsins, sé, með leyfi forseta: „… skýrt eignarhald á vatni“. Þannig hlýtur maður að draga þá ályktun að það hafi áður verið óskýrt, að nú sé óskýrt hvert eignarhaldið er á vatni en það eigi að skýra. Þá spyr maður: Felst ekki í því meira en formbreyting? Það vekur alveg sérstaka athygli, þótt þar kunni að vera um handvömm að ræða og ekki þá einu sem sést í endurflutningi þessarar greinargerðar, að á einum stað í greinargerðinni, í V. kafla greinargerðarinnar, hefur verið breytt orðalagi þar sem stóð, með leyfi forseta:

„Leggja verður áherslu á að hér er fyrst og fremst um formbreytingu að ræða …“

Því hefur verið breytt í:

„Leggja verður áherslu á að hér er um formbreytingu að ræða ...“

Hins vegar hefur greinilega gleymst að lesa VIII. kafla greinargerðarinnar eða þá menn eru svo óskýrir í þessu ráðuneyti. Þar stendur að „fyrst og fremst“ sé um formbreytingu að ræða. Það er ástæða til að spyrja iðnaðarráðherra um þetta. Er einungis um formbreytingu að ræða eða er fyrst og fremst um formbreytingu að ræða?

Það er augljóst og kemur ágætlega fram í umsögn Umhverfisstofnunar, sem hér var til umræðu áðan, að hér er ekki bara um formbreytingu að ræða. Hér er um efnisbreytingu að ræða, þ.e. að tekinn er nýtingarréttur, eins og hv. síðasti ræðumaður skýrði ágætlega, ákveðinn nýtingarréttur og honum breytt í einkaeignarrétt. Jákvæða skilgreiningin eins og menn þekkja felst í því að tiltekið er hvað menn mega gera með nýtingarrétt sinn en sú neikvæða er þannig að löggjafinn tiltekur hvað eigandi má ekki gera, sem á illa við um vatnið.

Það er alveg augljóst að a.m.k. tvö atriði sýna og sanna að hér er ekki fyrst og fremst um formbreytingu og jafnvel ekki eingöngu um formbreytingu heldur um efnisbreytingu að ræða. Það kemur annars vegar fram í því, eins og viðurkennt er í greinargerðinni, að gömlu vatnalögin eru útvíkkuð með þessu frumvarpi þannig að ekki er einungis um rennandi vatn að ræða heldur líka vatn í ýmsu formi. Það mætti segja að það sé formbreytingin sem starfsmenn ráðherrans horfa á þegar þeir skrifa greinargerðina, að bæst hefur við vatn í ýmsu öðru formi.

Í fyrsta lagi stendur í 2. gr. að þetta eigi ekki aðeins við um rennandi vatn heldur líka við um vatn í heildina, með leyfi forseta: „… í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi“. Þannig er hinu loftkennda formi og hinu fasta formi bætt við og þar með settir nýir hlutir inn í einkaréttinn sem ekki voru þar áður.

Í öðru lagi gerir breytingin úr jákvæðri skilgreiningu í neikvæða ráð fyrir því að ef upp kemur nýr nýtingarháttur vatns, ef mönnum dytti í hug á næstunni að nýta vatn með öðrum hætti en hingað til hefur verið hægt af tækniorsökum eða takmörkuðu hugmyndaflugi þeirra sem um það véla, þá er hinum nýja eiganda vatns í landinu, þessum hópi einkaeiganda, það heimilt. En ef við höldum við jákvæðu skilgreininguna, sem ég vona sannarlega að við gerum, þá yrði það löggjafans, eða dómstólanna þangað til löggjafinn treysti sér til þess, að úrskurða hvað ætti að gera í hinum nýju tilvikum.

Það er lítið eftir af ræðutíma mínum og ég verð greinilega að koma aftur og tala við þingheim um það sem ég næ ekki að skýra út núna. Ég vona reyndar að hæstv. umhverfisráðherra tali í millitíðinni. En meginatriðið er að við ættum í fyrsta lagi að vera með alla löggjöfina undir. Í öðru lagi ættum við í ljósi hinna nýju tíma að fást við vatnalögin frá 1923 í því skyni að auka almannarétt, draga úr einkaeignarákvæðum og hafa skýr nýtingarákvæði í lögunum, haga okkur eins og vatnatilskipun Evrópusambandsins, sem við erum hluti af að þessu leyti, vill og færa löggjöf okkar fremur í átt til þeirrar norsku og sænsku heldur en til þeirra markaðshugmynda sem Framsóknarflokkurinn er orðinn einn helsti fulltrúi fyrir á landinu. Það er kannski vegna þess að hann sé að útvega sér annan markhóp og aðra stuðningsmenn en þá góðu bændur sem komu þeim flokki á veg og stofnuðu hann í árdaga.



[16:42]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Sérstaklega var spurt um stöðu vatnatilskipunar. Það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er allt hárrétt. Þar hefur textinn verið uppfærður miðað við aðstæðurnar eins og þær eru í dag. Það var 6. október síðastliðinn að formlegar viðræður hófust á milli EFTA og ESB um beiðni EFTA-landanna Íslands, Liechtensteins og Noregs, um aðlögun að vatnatilskipun ESB. Það er skoðun EFTA-landanna að samkvæmt EES-samningnum falli tilteknir þættir tilskipunarinnar ekki undir samninginn. Þessir þættir varða náttúruvernd, dýravernd, auðlindastjórn og gjaldtöku eða skattlagningu fyrir vatnsnotkun. Þetta er allt tíundað í greinargerðinni.

Það er nokkuð víst, þó að verið hafi náið samstarf milli EFTA og ESB um málið á óformlegum nótum, að ferlið getur tekið einhvern tíma. Því er ekki við því að búast að tilskipunin verði tekin upp í EES-samninginn fyrr en eftir áramót. Í framhaldi af því verður unnið frumvarp og á þessari stundu er ekki hægt að segja fyrir um hvenær það verður tilbúið. Það er a.m.k. mjög ólíklegt að það verði á þinginu sem nú stendur. Það er líka tíundað í greinargerðinni að frumvarpið sem hér er til umfjöllunar eigi í engu að skarast við væntanlegt frumvarp um stjórn vatnsverndar, þannig að það sé a.m.k. alveg skýrt. Mér finnst gerð mjög góð grein fyrir þessu í greinargerð með frumvarpinu.



[16:44]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég fagna fyrstu orðum hæstv. umhverfisráðherra í umræðunni. Samningar eru hafnir. Frumvarpið liggur fyrir í drögum og þegar samningum lýkur er hægt að flytja það á þinginu hvort sem það verður á þessu þingi eða ekki. En þá eigum við að bíða. Þá er komið af stað ferli sem á að gefa hæstv. iðnaðarráðherra tilefni til að bíða með þessi lög. Það liggur ekkert á að færa þau til nútímans. Þau hafa verið til frá 1923, í 82 ár, og það gerist ekkert þó að þau verði til í eitt ár í viðbót, í 83 ár.

Það er ekki kveðið sterkara að orði hjá rithöfundum hæstv. iðnaðarráðherra um endurskoðun laganna heldur en svo að þar segir, með leyfi forseta, í II. kafla greinargerðarinnar: „Má því segja að tímabært hafi verið að endurskoða lögin.“ — Það er ekki meiri asinn eða flýtirinn og vant að sjá hvað veldur því að þörf sé á að taka þessi lög upp áður en við fáum þessa heildarlöggjöf. Vel kann að vera að það sé rétt hjá hæstv. umhverfisráðherra og hæstv. iðnaðarráðherra að þessi lög séu prýðileg að forminu til, miðað við þau lög sem við fáum um vatnsvernd, þau fyrstu á Íslandi. Það vekur hins vegar ákveðna furðu að markmið lagafrumvarpsins sem við erum með í höndunum er líka það að stuðla að skynsamlegri vatnsnýtingu, hagkvæmri og sjálfbærri nýtingu vatns. En það er frekar það sem ætti að vera í vatnatilskipuninni, í þeim lögum sem út frá vatnatilskipuninni ganga.

Ég vil fagna þessu og lít á það sem ákveðin vatnaskil í umræðunni, þau orð eru vel við hæfi. Ég skora á iðnaðarráðherra að draga þetta frumvarp aftur og koma með það upp á borðið þegar við erum búin að klára þetta ferli gagnvart Evrópusambandinu og EFTA.



[16:46]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að það sé algerlega skýrt að það frumvarp sem hér um ræðir og síðan það frumvarp sem verður unnið í umhverfisráðuneytinu um vatnsverndina eiga ekki að skarast. Þess vegna er engin ástæða til að þetta frumvarp nái ekki fram að ganga eins og ég veit að iðnaðarráðherra hefur margsinnis skýrt hér í umræðunum.

Hvað snertir síðan markmiðið, 1. gr. frumvarpsins, þá finnst mér það vera mjög göfugt markmið: „… skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“

Hér í umræðunni var líka nefnt að haft hefði verið samráð við Umhverfisstofnun sem hafði gert athugasemdir við frumvarpið á fyrra stigi. Ég bendi þingmönnum á þær breytingar sem hafa verið gerðar á frumvarpinu og þeirra veigamest er breytingin í 35. gr. Það er annars vegar reglugerð sem iðnaðarráðherra hefur samráð við umhverfisráðuneytið um, þar sem sett eru nánari fyrirmæli um framkvæmd tilkynningarskyldu o.fl. Síðan líka í 35. gr., þar sem fjallað er um skilyrði fyrir framkvæmdum og starfsemi sem talin eru nauðsynleg af tæknilegum ástæðum að það er heimild Orkustofnunar til að setja slíkt skilyrði, hún nær ekki til starfsemi og framkvæmda á friðlýstum svæðum sem háðar eru leyfi Umhverfisstofnunar. Þetta eru veigamestu atriðin.



[16:48]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Þessar breytingar eru vonandi góðar en þær svara auðvitað ekki þeim spurningum sem vakna við það að flytja þessi frumvörp hvort í sínu lagi eða hvert í sínu lagi eftir því hvernig það fer. En það er bein ástæða til þess að spyrja um það og til þess að gera ráð fyrir því og heimta það að þessi frumvörp verði flutt saman og annað bíði eftir hinu. Sú ástæða kom fram í fyrra í umsögn Umhverfisstofnunar um frumvarp sem var að því leytinu alveg eins, en þar segir beinlínis ekki bara að frumvarpið gangi í aðra átt en norsk og sænsk löggjöf, fyrir lönd sem af Evrópulöndum eru líkust okkur að þessu leyti, hálend vatnslönd, heldur segir líka í umsögn Umhverfisstofnunar að hvað varði fyrirhugaðan rétt landeigenda sé frumvarpið, með leyfi forseta: „… í andstöðu við alþjóðlegar viðmiðanir og skuldbindingar.“

Meðan við ekki höfum frumvarp í höndunum sem samið er í samræmi við þessar alþjóðlegu viðmiðanir og skuldbindingar verð ég að taka fyrirvara og ábendingar Umhverfisstofnunar gild eins og hæstv. umhverfisráðherra hlýtur alla jafna að gera.

Þess vegna segi ég: Það er best að vera ekki að rífast lengur um þetta heldur skoða hvaða frumvarp það er sem við fáum hér út frá alþjóðlegum viðmiðunum og skuldbindingum. Þetta er ekki einhver strákdóni úti á Austurvelli úr Samfylkingunni eða einhverjum öðrum flokkum að hrópa, þetta er Umhverfisstofnun sem segir að þetta frumvarp hæstv. iðnaðarráðherra, að vísu frumvarpið í fyrra en óbreytt að þessu leyti, sé í andstöðu við alþjóðlegar viðmiðanir og skuldbindingar. Punktur basta. Burt með það.



[16:50]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Frumvarpið sem við erum að ræða hér um, frumvarp til vatnalaga, hefur það að markmiði samkvæmt 1. grein, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns. Við hvers konar nýtingu vatnsréttinda samkvæmt lögum þessum skal þess gætt að raska ekki vatni, farvegi þess, lífríki þess, vistkerfum eða landslagi umfram það sem nauðsynlegt er.“

Það er hvergi tilgreint hver á meta nauðsynina að öðru leyti en því að Orkustofnun er falið stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk þannig að það er þá væntanlega hún sem á að skera úr um nauðsynina og síðan iðnaðarráðuneytið.

Það er sagt hér í athugasemd við lagafrumvarpið að það hafi verið talið nauðsynlegt að taka stjórnsýslu vatnamála til endurskoðunar. Síðan eru taldir upp þeir aðilar sem hæstv. ráðherra fól að semja drög að frumvarpinu og síðan nefnd sérfræðinga og hagsmunaaðila til að skila endanlegu frumvarpi til vatnalaga til ráðherra.

Þegar maður skoðar aðilana sem eru tilnefndir og unnu þetta frumvarp vekur athygli að enginn þeirra er tengdur náttúruvernd eða umhverfismálum. Þetta eru aðilar sem eru tengdir orkufyrirtækjum og síðan varaformaður Bændasamtakanna sem er auðvitað hagsmunaaðili, bændur nota jú vatn eins og við öll og það í miklum mæli.

Þetta vekur athygli, ekki síst með tilliti til athugasemda sem koma frá ýmsum stofnunum sem frumvarpinu er svo vísað til til umsagnar þrátt fyrir þetta.

Ef maður fer svo í skilgreiningarnar í frumvarpinu, sem eru í 3. gr., þá vakti fyrst athygli mína hversu búsþarfir eru þröngt skilgreindar og ég gerði athugasemd við það í fyrra þegar þetta frumvarp kom hér til umræðu en því hefur ekki verið breytt.

Í umsögn um þessa skilgreiningu segir, þ.e. aðeins hvers vegna talað er um kvikfjárrækt, með leyfi forseta:

„Ástæða þess er sú að kvikfjárrækt er hinn hefðbundni landbúnaður þjóðarinnar. Nú á dögum nýta menn einnig lönd jarða sinna til garðávaxtaræktar, skógræktar, ylræktar, fiskeldis, undir sumarbústaði og ferðamannaþjónustu. Allt getur það stuðlað að því að halda jörðum í byggð, en sjaldnast er þá notaður nema lítill hluti lands jarðanna, sumt stundum tímabundið innan ársins … eða að umfangi langt umfram fjölskyldurekstur …“

Þarna finnst mér, frú forseti, að atriði stangist á í röksemdafærslunni. Ég tel mjög mikilvægt að öllum búgreinum og starfsemi á jörðinni, ef frá er talinn kannski iðnrekstur, sé gert jafnhátt undir höfði og vek athygli á því að t.d. ylrækt og garðávaxtarækt er vatnsfrekur búskapur en þeim greinum er ekki gert jafnhátt undir höfði og kvikfjárrækt og það finnst mér mjög einkennilegt og miður þar sem ég tel það afar brýnt að öllum tiltækum ráðum sé beitt til þess að halda bújörðum í byggð. Bújarðir eru eitthvert alviðamesta og veigamesta net til að viðhalda byggð á Íslandi. Og mér finnst mjög undarlegt að nýjum búgreinum sé ekki — og þó ekki endilega nýjum — að öllum búgreinum sé ekki gert jafnhátt undir höfði og stutt við þær í þessum lögum sem öðrum.

Ég ætla líka að vekja athygli á því að í skilgreiningarkaflanum er vatn skilgreint í ýmsum samsetningum, en vatn er víða til umfjöllunar í frumvarpinu, ýmist sem efnið H 2 O eða annars konar vatn. Í skilgreiningarkaflanum er það ekki skilgreint nánar en sem vatnsflæði, vatnsfall, vatnsból, vatnsleg, vatnsmiðlun og vatnsnýting, vatnsveita eða vatnsvirki. Í ýmsum greinum frumvarpsins lítur út fyrir að verið sé að tala um það sem ég ætla að kalla veiðivötn eða stöðuvötn skulum við segja, en þar er talað um vatn. Í þessum greinum getur það sem um er rætt alveg eins átt við vatnsfall eða á. Mér finnst ekki nógu vandað hvernig frá þessu er gengið, að það þurfi að skilgreina eða breyta orðalagi þannig að ljóst sé hvenær er verið að tala um veiðivatn eða stöðuvatn, hvenær umrædd grein á að ná eingöngu yfir það eða hvort hún á að ná líka yfir ár, sem eins og ég segi getur vel verið. Því í frumvarpinu er m.a. verið að fjalla um vatn í tengslum við virkjanir og mannvirki sem maður getur hugsað sér að séu ætluð vegna virkjana, t.d. stíflugerð og annað.

Í skilgreiningarkaflanum er einnig fjallað um jarðhita. Ég er búin að lesa þetta frumvarp þó nokkuð yfir, ég hef ekki lesið það frá orði til orðs en ég hef ekki komið auga á að fjallað sé um jarðhita í því nema í skilgreiningarkaflanum og svo í greinargerð, þ.e. á bls. 25 en þar er fjallað um jarðhita. Mér er spurn: Af hverju er verið að fjalla um eða skilgreina jarðhita þarna og fjalla svo um hann í skýringum við grein, fyrst ekki er fjallað um hann á annan hátt, ekki í frumvarpinu sjálfu eftir því sem ég fæ best séð? Er með því móti verið að færa Orkustofnun á einhvern nýjan hátt ákveðið lögsagnarumdæmi yfir jarðvarma eða stjórnsýslu? Ég spyr.

Ég veit að að ýmsu leyti hefur verið reynt að halda í hið forna orðalag sem var á vatnalögum en í sumum tilfellum finnst mér fulllangt gengið í því efni og of skammt gengið í því að færa hlutina til nútímans því að það er jú tilgangur frumvarpsins.

Í 16. gr. segir, með leyfi forseta:

„Nú er vatn of lítið til að fullnægja þörfum þeim sem í 15. gr. segir og á þá hver sú fasteign sem tilkall hefur til þess vatns sama tilkall til vatnsins eftir þörfum sínum.“

Mér finnst þetta mjög óskýrt. Ég get getið mér til um hvað er verið að meina þarna. Ég hugsa að það sé verið að tala um einhvers konar hlutföll, hlutfallslegan rétt, en mér finnst að það eigi að standa þarna.

Síðan er í 15. gr. talað um forgang að vatni og það er verið að breyta forgangsröðun. Um það er fjallað á bls. 32 í skýringum með 15. gr. Í gömlu lögunum er forgangsröðunin þannig, með leyfi forseta, að heimilisþarfir ganga fyrir búþörfum, búþarfir ganga fyrir notkun í þágu iðnaðar og iðju án orkunýtingar, notkun til iðnaðar og iðju án orkunýtingar gengur fyrir áveituþörfum, áveitur ganga fyrir nýtingu vatns til orkuvinnslu.

Í frumvarpinu eins og það er nú er aðeins talað um að heimilisþarfir gangi fyrir búsþörfum og segir, með leyfi forseta:

„Ekki þykir lengur ástæða til að áveitur gangi fyrir réttinum til að nýta vatn til orkuvinnslu eða kveða sérstaklega á um það að notkun til iðnaðar og iðju án orkunýtingar gangi fyrir áveituþörfum. Er því lagt til að þessi nýting teljist jafnrétthá.“

Það er mín skoðun, frú forseti, að áveituþarfir t.d. eigi að ganga fyrir orkuvinnslu. Það getur háttað þannig til að áveitur séu nauðsynlegar fyrir búskap og geti ráðið úrslitum um það hvort búandi sé á tilteknu svæði.

Umhverfisstofnun gerir margháttaðar athugasemdir við frumvarpið og þar segir m.a. að þetta frumvarp sé háð verulegum annmörkum þar sem það lúti aðeins að hluta þeirra sjónarmiða sem sett eru fram í tilvísaðri greinargerð sem rök fyrir því að breyta þurfi núverandi vatnalögum, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun bendir á að frumvarpinu virðist að grunni til vera ætlað að líta á orkunýtingu vatns, sem er mjög afmarkaður þáttur þess málaflokks sem lýtur að vatni, vatnsbúskap, nýtingu og verndun vatns.“

Þetta staðfestist með því að Orkustofnun er falið stjórnsýslu- og eftirlitshlutverk með þessum lögum. Það kemur fram í greinargerð að það sé fyrir utan lögbundið hlutverk Orkustofnunar.

Umhverfisstofnun segir einnig, með leyfi forseta, að frumvarpið taki ekki eða nánast ekki til umhverfismála, vatnafars og vatnsbúskapar í víðasta skilningi þar sem lögð er áhersla á umhverfið og verndun þess, enda komu umhverfisstofnanir og náttúrufræðistofnanir ekki að samningu þessa frumvarps, eins og ég sagði. Það er líka athyglisvert að síðan í fyrra virðist ekki hafa verið tekið tillit til þeirra athugasemda sem þessar stofnanir gera við frumvarpið í þeirri mynd sem það var þá.

Það er líka vísað í frumvarp til rannsókna og nýtingar á jarðrænum auðlindum en það er ekki tekið tillit til þess í þessu frumvarpi. Umhverfisstofnun bendir líka á, eins og margoft hefur komið fram í máli manna í dag, að það sé ekki eðlilegt að það sé verið að reka svona á eftir þessu frumvarpi áður en rammatilskipun ESB um vatn er tekin fyrir. Eins og fram kom í máli hæstv. umhverfisráðherra áðan þá mun verða skammt í að það frumvarp komi fram. Auk þess er væntanlegt frumvarp um verndun og stýringu vatns og vatnsbúskapar og hefði verið eðlilegt að taka það fyrir jafnframt þessu frumvarpi.

Náttúrufræðistofnun Íslands leggst í umsögn sinni eindregið gegn þeirri fyrirætlan að vatn sé skilgreint sem jarðræn auðlind og falin iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun. Þar segir, með leyfi forseta:

„Vatn er í grundvallaratriðum frábrugðið öðrum jarðefnum að því leyti að það finnst náttúrlega í þrenns konar formi, þ.e. í föstu, fljótandi og loftkenndu formi og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn. Stofnunin lagði áherslu á að þótt vatn geti verið orkugjafi, og þar með verslunarvara, þá sé það fyrst og fremst lífsnauðsynlegt efni öllum mönnum og öllum lífverum. Forgangsröðin varðandi umsjón með og vöktun vatns er þess vegna hollustuhættir, umhverfi og orkunýting en ekki öfugt.“

Ég vek enn athygli á því að með þessu nýja frumvarpi er verið að breyta um stefnu í þessu efni. Það er verið að víkja yfirráðum yfir vatni til iðnaðarráðuneytis og Orkustofnunar.

Það stendur líka í umsögn Náttúrufræðistofnunar að hlutverk Orkustofnunar sé fyrst og fremst að hafa umsjón með orkulindum landsins og eins og ég benti á áðan er verið að fara út fyrir hlutverk stofnunarinnar með því hlutverki sem er verið að fela henni.

Það má segja að það komi fjölbreytilegar athugasemdir við þetta frumvarp frá ýmsum aðilum, (Iðnrh.: Er það ekki annað frumvarp?) bæði frá Náttúrufræðistofnun og þeim sem ég hef talið hér áðan og einnig frá Sambandi sveitarfélaga o.fl. Mér finnst líka mjög athyglisvert, frú forseti, að þeim aðila sem er falið að meta umsagnirnar er akkúrat Orkustofnun. Það finnst mér líka sérkennilegt, frú forseti.



[17:08]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það eru mikil vonbrigði að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hæstv. umhverfisráðherra skuli bjóða Alþingi upp á þau vinnubrögð að leggja þetta frumvarp nánast óbreytt fram og væntanlega það sem á eftir fylgir eftir þær hrakfarir sem hæstv. ráðherrar fóru báðir í málunum á síðasta þingi. Þá voru þessi frumvörp lögð fram, þetta frumvarp og frumvarp um nýtingu og rannsóknir á jarðrænum auðlindum, en voru gersamlega óboðleg enda fengu þau þannig varmar viðtökur að hæstv. ráðherrar sáu þann kost vænstan, flutningsmaðurinn, hæstv. iðnaðarráðherra, að draga þau til baka.

Og maður hefði þá ætlað að vegna þeirrar hörðu gagnrýni, málefnalegu og þungu, sem þessi frumvörp sættu í umsögnum og umfjöllun á þingi í fyrra að hæstv. ráðherrar ynnu þau eitthvað heima í sumar og kæmu til leiks með málatilbúnað sem væri tækur. En það er öðru nær. Í raun og veru hefur hæstv. iðnaðarráðherra ekki á nokkurn hátt slegið af þeirri ósvífni sinni að ætla að slá algerlega forræði og eignarhaldi, ef svo má að orði komast, orkugeirans á vatnið í landinu, leggja vatnið undir orkuiðnaðinn og forræði hans endanlega, færa inn undir valdsvið iðnaðarráðuneytisins hluti sem þar hafa alls ekki verið.

Og svo virðist sem hæstv. umhverfisráðherra sé svo metnaðarlaus að hún velji þann kost að lúffa fyrir hæstv. iðnaðarráðherra og orkuiðnaðinum frekar en standa með sínum eigin starfsmönnum í undirstofnunum ráðuneytisins sem gáfu þessum málatilbúnaði algera falleinkunn. Hin efnislega og harða gagnrýni þeirra stendur nánast að öllu leyti nema það sé búið að líma fyrir munninn á þeim, einfaldlega vegna þess að þau atriði sem þeir gagnrýndu harðast ganga aftur í frumvarpinu óbreytt, t.d. skilgreiningin á vatni og valdsvið ráðuneytisins yfir því, einkaeignarréttarnálgunin á vatni sem fyrirbæri. Í iðnaðarráðuneytinu, og meðal þeirra manna sem hafa unnið að framlagningu þessa frumvarps, virðast menn vera algerlega óafvitandi um það í hvaða átt þessir hlutir eru að þróast annars staðar, á alþjóðavettvangi, í Evrópu, hjá Sameinuðu þjóðunum og í mörgum löndum sem hafa verið að setja lög þar sem algerlega gagnstæð nálgun er lögfest eða jafnvel tekin upp í stjórnarskrá. Sú nálgun að vatn sé sameiginleg auðlind, að vatn eigi ekki að meðhöndlast sem venjuleg verslunarvara, að einkaeignarréttur á landi eigi ekki rétt á sér, megi ekki verða.

Og það að við skulum sitja uppi með ráðherra á Íslandi og þessa yfirgengilegu frekju sem leggur hagnýtingar-, í skilningnum orkuöflunarnýtingar-, mælikvarða á alla skapaða hluti er auðvitað alveg ofboðslegt. Það er alveg ofboðslegt að það skuli ekki einu sinni vera minnst á vatn sem sameiginlega auðlind, undirstöðu lífs á jörðinni, mikilvægasta element alls lífs, lífríkisins, náttúrunnar, þar með talið mannsins og velferðar, heilbrigðis, lífs og viðhalds hans sem tegundar.

Nei. Það er Orkustofnun, það eru iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun sem skulu ráða algerlega lögum og lofum. Allar framkvæmdir sem hafa áhrif á vatn í landinu á að sækja undir Orkustofnun, ekki Umhverfisstofnun, ekki umhverfisráðuneytið. (Iðnrh.: Það heyrir ekki undir mig.) Nei, það er nefnilega það. Undir hvern heyrir þetta þá? Auðvitað kemur það iðnaðarráðherra ekki við eftir allt saman.

Nei, frú forseti. Auðvitað er þetta alveg með endemum, þetta er með hreinum endemum. Það er fyrir það fyrsta ljóst hér að svið laganna er útvíkkað þannig að allt sem viðkemur vatni í föstu, fljótandi og gufukenndu formi skal heyra undir iðnaðarráðherra. Hann skal ráða yfir jöklunum, hann skal ráða yfir hinu rennandi vatni, jafnt á yfirborði sem neðan jarðar, og meira að segja skýin á himninum, vatn í gufukenndu formi, skulu falla hér undir. Ef það kæmi til greina að hagnýta þau skal iðnaðarráðherra veskú ráða því með Orkustofnuninni sinni. Vatn, jafnt á yfirborði og neðan jarðar, í föstu, fljótandi og loftkenndu formi skal það heita.

Grunnvatnið er hér fært undir eins og það leggur sig og jarðhitanum er skotið inn í, að vísu á sérkennilegan hátt. Um hann er aðallega fjallað í orðskýringum í greinargerð, að þetta skuli líka taka til heits vatns. Illu heilli voru sett hér lög sem slógu einkaeignarrétti á allan jarðhita, ekki bara lághita og á yfirborði heldur á háhita og í iðrum jarðar þannig að fleygur inn að miðju jarðarkringlunnar eða hnattarins skal meðhöndlast í einkaeignarlegu formi, samkvæmt þeirri snilld sem einkaeignarréttarsinnar hafa hér uppi á Íslandi þróað á undanförnum árum, (Gripið fram í.) alveg niður í þann svarta sjálfan já. Það dugar ekki minna.

Þetta, frú forseti, endurspeglast t.d. mjög vel ef skoðaður er IV. kafli frumvarpsins um nýtingu vatnsorku. Þá á sjálfsagt að þakka fyrir að menn eiga að fá að taka vatn til heimilisnota, samanber 15. gr., og þá aðgangsröð að vatni sem þar er talað um. En orðalagið er ákaflega lýsandi því í framhaldinu segir að þetta skuli:

„… takmarkast við það að enginn sé sviptur“ — það má ekki taka það alveg af honum — „vatnsnotum skv. 15. gr.“ — þ.e. til heimilis- og búsþarfa — „né neinum bakaðir“ — hvað? — „óhæfilegir örðugleikar“ — það má sem sagt með orðanna hljóðan baka mönnum þó nokkra örðugleika en ekki óhæfilega af þessum sökum — „um slíka notkun né vatni sem nota þarf með þeim hætti spillt fyrir neinum svo að“ — hvað? — „til verulegra óþæginda horfi“. Ekki bara óþæginda, nei það skal vera til verulegra óþæginda þannig að menn séu svolítið varðir af því að það megi vera óþægindi og það megi vera örðugleikar bara ekki óhæfilegir og ekki verulegir, óþægindin ekki veruleg.

Þetta er lýsandi fyrir hugarfar þeirra manna sem hafa sett þessa snilld á blað og á því ber hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra alla ábyrgð. Hann, öllu heldur hún, er höfundurinn, hæstv. ráðherra, að þessu orðalagi því að hún ber málið hér fram og ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn með henni.

Þetta er á sama tíma, frú forseti, og eins og ég hef áður vitnað til er risin alþjóðleg hreyfing í þá átt að slá skjaldborg um sameign mannkynsins á vatni sem mikilvægustu auðlind jarðarkringlunnar næst á eftir eða við hliðina á andrúmsloftinu sem við drögum að okkur, allt sem lífsandann dregur eins og þar er sagt, þá er vatnið auðvitað mikilvægasta undirstaða lífsins á jörðinni en það er af skornum skammti. Það eru vaxandi vandamál víða um heim sem tengjast vatnsskorti. Þess vegna er ekki út í bláinn að þessi mál eru komin á dagskrá alþjóðasamfélagsins með þeim hætti sem raun ber vitni. Loftslagsbreytingarnar sem við erum að mæta gera það líka að verkum að kannski kann þetta vandamál að reynast enn brýnna á komandi árum, áratugum og öldum en menn hafa jafnvel hingað til talið og er það þó ærinn handleggur að skaffa vaxandi fólksfjölda á jörðinni, sem stefnir í 9–10 milljarða um miðbik þessarar aldar, nægt drykkjarvatn. Eða hafa þessir hæstv. ráðherrar eitthvað kynnt sér það sem þarna er að gerast, þá umræðu sem fer fram á alþjóðavettvangi um vatn? Hafa þeir lesið skýrslur virtra umhverfisstofnana og alþjóðasamtaka um vandamálin sem hrannast upp í vatnsbúskap, ekki bara í fjarlægum hitabeltislöndum eða eyðimerkurlöndum heldur jafnvel í Evrópu sjálfri og í Bandaríkjum Norður-Ameríku?

Hvernig er ástandið í neysluvatnsborholum víða á meginlandi Norður-Ameríku? Vita menn hversu hratt vatn lækkar í öllum brunnum á Indlandi um þessar mundir? Um 3–5 metra á ári. Hvernig halda menn að það endist? Það er bullandi niðurdráttur í mörgum helstu vatnsgeymum á þurrlendum svæðum jarðarinnar sem standa undir ferskvatnsnotkuninni í dag. Því er fyrirsjáanlegt og framreiknanlegt að með sama áframhaldi verða gríðarlegir erfiðleikar í vatnsbúskap vítt og breitt á jarðarkringlunni. Við Íslendingar eigum ekki að láta eins og við getum einangrað okkur algerlega frá heiminum og látið eins og okkur komi þetta ekki við. Það er siðferðilega óábyrgt og rangt að reka hér einhverja allt aðra stefnu en þarna er á ferðinni. Þess vegna hafa Sameinuðu þjóðirnar, Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og aðilar eins og Evrópusambandið tekið þetta mál á dagskrá, gert um það ályktanir og samið um það reglur.

Vita hæstv. ráðherrar ekki af vatnatilskipun Evrópusambandsins? Á ekki að heita svo að verið sé að undirbúa lögfestingu hennar hér á landi? Hún hlýtur að þurfa hér lagastoð a.m.k. að einhverju verulegu leyti. Hvað segir í þeirri ágætu tilskipun nr. 60/2000? Þar segir m.a. að vatn sé ekki söluvara heldur sameiginlegur arfur mannkyns sem beri að varðveita, vernda og umgangast í samræmi við það. Er andinn í frumvarpinu ekki í samræmi við þetta? Nei, ekki aldeilis. Sem ætlar að reyra fast í einkaeignarréttarlega fjötra og setja undir orkugeirann allt sem viðkemur vatni á Íslandi. Hvar eru vatnsverndarlögin? Hvar er lagalegur undirbúningur undir lögfestingu tilskipunarinnar? Bólar hvergi á því. Nei, það á að fara sömu leið og venjulega, byrja á öfugum enda og fella úr gildi einhverja merkustu löggjöf sem enn er við lýði frá fyrri áratugum á sviði umhverfismála á Íslandi, þ.e. vatnalögin frá 1923, sem voru satt best að segja ótrúlega framsýn og merkileg lög og þeim á bara að henda si svona fyrir þetta ofstæki úr iðnaðarráðuneytinu. Ég frábið mér slíkt. Ég tel þetta gersamlega ótæk vinnubrögð og ríkisstjórninni til skammar og er þá langt til jafnað því það þarf mikið til að ríkisstjórnin geti almennt orðið sér til meiri skammar en hún hefur þegar orðið fyrir langalöngu og sérstaklega hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra þegar kemur að sambúð manns og náttúru og sambúð nýtingarsjónarmiðanna annars vegar og verndunarsjónarmiðanna hins vegar. Það mætti svo sem kannski snúa þessari röksemdafærslu við og segja að það væri ekki von á neinu öðru, eins og hæstv. iðnaðarráðherra hefur kynnt sig. En lengi getur þó vont versnað verð ég að segja.

Ég vil láta það sjónarmið mitt koma fram að mér er sérstaklega sárt um vatnalögin. Þau voru og eru merk löggjöf og í aðalatriðum er engin sérstök knýjandi þörf á að gera breytingar á þeim. Það sem auðvitað þarf að gera er að fara eftir þeim. Menn hafa komist upp með það í stórum stíl að brjóta t.d. hina merku 7. gr. sem er einföld og skýr og fallega orðuð. Öll vötn skulu renna svo sem að fornu hafa runnið. Menn hafa lítið gert með það t.d. núna austur við Kárahnjúka þegar menn ætla að fara í stærstu vatnsflutninga Íslandssögunnar og þó víðar væri leitað, sulla eitt stykki stórfljóti milli dala, héraða og vatnasviða og þykir ekki tiltökumál.

Þetta frumvarp er líka að mínu mati stjórnskipulegur bastarður, óskapnaður. Það á að færa Orkustofnun — samkvæmt frumvarpinu ef að lögum verður, samkvæmt lögum sem þegar hafa verið sett á sviði raforkumála og samkvæmt því sem við höfum séð glitta í í frumvarpsuppkastinu varðandi nýtingu og rannsóknir jarðauðlinda — hlutverk sem á engan hátt fær staðist. Ég veit ekki hvers konar batterí og hof og musteri þessi Orkustofnun á eiginlega að verða. Gaman að óska frjálshyggjumönnunum í Sjálfstæðisflokknum til hamingju með að búa til þetta gríðarlega bákn og þessa valdamiðstöð sem þarna er verið að búa til í Orkustofnun. Orkustofnun á að vera allt í senn ráðgefandi stofnun fyrir stjórnvöld. Hún á að vera fagstofnun. Hún á að stunda grunnrannsóknir. Hún á að fara með eftirlit og leyfisveitingar. Hún á að annast eftirlit með framkvæmdum. Hún á náttúrlega að fylgjast með sjálfri sér og hún getur beitt stjórnvaldssektum ef allt þetta verður að veruleika sem ríkisstjórnin er með á prjónunum eða hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra handa Orkustofnun. Er þetta hrein verkaskipting hjá framkvæmdarvaldinu sem menn telja til fyrirmyndar? Telur hv. 11. þm. Reykv. s., Birgir Ármannsson, að þetta sé hrein uppskrift að sælunni í opinberum rekstri, að grauta þessu öllu saman og færa þetta inn undir eina stofnun og taka bara si svona eitt svið, vatnið í öllum sínum myndum og færa það undir lögsögu orkuiðnaðarins? Það er auðvitað það sem verið er að gera. Orkustofnun heitir ekki Orkustofnun út í bláinn. Hún er tæki til þess fyrst og fremst að halda utan um beislun orkunnar. Vatn er bara svo allt annað og miklu meira en þetta eina sem iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun virðast sjá, að í því sé fólginn möguleiki til að ná út úr því orku. Vatnið miðlar orkunni á leið sinni undan hallanum því það hefur þá náttúru að vilja streyma niður í móti í aðalatriðum.

Síðan er spurningin um hvort yfir höfuð það fái náttúrulega og siðferðislega séð staðist að líta á vatn sem slíkt fyrirbæri að það geti lotið einkaeignarréttarlegum lögmálum. Vatn er ekki eitthvert stöðugt fyrirbæri sem menn geta gengið að á einum stað og þetta er ekki alltaf sama vatnið. Eða heldur hæstv. iðnaðarráðherra að það séu alltaf sömu mólekúlin sem séu í ánni? Nei, vatnið er í eilífri hringrás, ekki bara úr loftkenndu í fast eða fljótandi form og öfugt, heldur binst það lífríkinu og náttúrunni og leysist upp aftur, tekur breytingum. Þessi hringrás er stundum mæld í dögum, vikum, mánuðum og árum, stundum öldum, stundum árþúsundum og stundum milljónatugum ára eða milljörðum ára, allt eftir því hvar og í hvers konar hringrás vatnið á jörðinni og í gufuhvolfinu er. Það er mjög langt seilst ef menn líta svo á að þeir geti slegið einkaeignarrétti á fyrirbæri af þessu tagi. Hvað er þá eftir, hvað gæti komið næst? Hvernig væri að taka bara andrúmsloftið uppi, yfir landi í einkaeign? Vill kannski iðnaðar- og viðskiptaráðherra leggja það til næst? Að Lómatjörn eigi andrúmsloftið upp úr gufuhvolfinu (JBjarn: Og geti selt það.) í keilu upp frá Lómatjörn eins langt og andrúmsloftið nær (Iðnrh.: … gilda á Gunnarsstöðum.) Já, eða Gunnarsstaðir. Hvað dettur mönnum í hug næst, verð ég að segja? (Gripið fram í: Gunnarsstaðir eru góð jörð.) Hvað dettur mönnum í hug? Þetta er í raun og veru næstum því jafnfáránlegt að taka fyrirbæri í eilífri hringrás, í raun og veru lifandi auðlind eins og er að mörgu leyti nærtækt að kalla vatn og ætla að slá á það einkaeignarrétti þess lands sem það á viðkomu sína kannski augnablik, regndropana sem falla á jörðina og gufa upp að morgni. Nei, þeir skulu vera eign landeigandans a.m.k. á meðan þeir stoppa á jörðinni. Það er hugsunin í þessu.

Svo koma menn hér og bera á borð rök af því tagi að það að breyta grundvallarskilgreiningunni frá því sem er í gildandi vatnalögum, þar sem afnota- og hagnýtingarréttur manna er talinn upp og nær ekki lengra yfir í að þetta umljúki bara allt, sé til einföldunar. Þegar maður fer að leita rakanna í greinargerð með frumvarpinu þá er helst hægt að segja að það sé þar fram fært samanber IV. kafla í greinargerð á bls. 15, að bakgrunnur hinnar jákvæðu skilgreiningar á vatnsréttindum, þ.e. að hverfa frá þeirri sem notuð er í gildandi lögum yfir í hitt að það sé svona einfaldara. Það segir á bls. 17, með leyfi forseta:

„Eðli málsins samkvæmt leiðir það til mikillar einföldunar að telja ekki lengur upp með jákvæðum og næsta tæmandi hætti sérhverja heimild til vatnsnota sem fyrir hendi er heldur ganga einfaldlega út frá að öll nýting vatns sé heimil svo framarlega sem ekki eru settar við henni sérstakar skorður.“

Fasteignareigandi á öll möguleg og hugsanleg afnot vatns þau sem þegar hafa verið fundin upp og kunna að verða fundin upp með þessari aðferð. Það er nefnilega það. Og mönnum finnst þetta ekkert mál, bara si svona að skella sér í þetta. Það er til einföldunar, styttir frumvarpið, segir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra í röksemdafærslu sinni. Nei, ég bið um eitthvað aðeins betra en þetta áður en ég læt sannfærast um að rétt sé að við Íslendingar förum þarna allt aðrar leiðir og verðum á allt öðru róli með þessi mál heldur en öll þróunin er í heiminum í kringum okkur. Hverju svara hæstv. ráðherrar því að þeir skuli vera að leggja fyrir þingið frágang mála sem er algerlega á skjön og gengur í gagnstæða átt við það sem Sameinuðu þjóðirnar sjálfar á allsherjarþingum sínum hafa ályktað um, sem umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna hefur unnið að, sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur unnið að og sem er á vettvangi evrópskra stofnana? Hver eru svörin? Hver eru rökin fyrir því að Ísland fari þarna í gagnstæða átt? Er hægt að fá þau, eitthvað annað og haldbetra en að það sé til einföldunar við einhverja frumvarpssmíð? Ég held að hæstv. ráðherrar verði að gera betur.



[17:28]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þingmaður hefði átt að sleppa því að tala sig upp í þennan hita í sambandi við frumvarpið vegna þess að eins og margoft hefur komið fram er ekki um neina grundvallarbreytingu að ræða. Þetta veit hv. þingmaður.

Hvað varðar hagnýtingarréttinn eða einkaeignarréttinn eða hvað hv. þingmaður vill kalla það þá hefur hann verið til staðar frá 1923 þegar vatnalögin eru sett. Það sýna dómafordæmi. Hvað varðar eignarréttinn að öðru leyti var hann staðfestur með lögum frá 1998 um auðlindir í jörðu og grunnvatnið var skilgreint sem auðlind í jörðu. Þetta eru staðreyndir sem liggja fyrir og hv. þingmaður veit þetta mjög vel þó hann tali með þeim hætti sem hann gerir.

Það er náttúrlega ágætt að fá smákennslustund í því hvað er vatn. En það er líka ágætt að hafa það í huga að við Íslendingar nýtum kannski um 1% af grunnvatnsauðlindinni. Þetta er gríðarleg auðlind sem við eigum en engu að síður þurfa að ríkja lög í landinu um vatnið.

Af hverju þetta óskaplega hatur, liggur mér við að segja á Orkustofnun? Það er eins og Orkustofnun megi ekki hafa hlutverk. Hún er þó einfaldlega stjórnsýslustofnun sem heyrir undir ráðuneytið og hefur miklu hlutverki að gegna. Ef það er nafnið sem hv. þingmanni mislíkar svo mikið þá mætti hugsa sér að hún héti eitthvað annað eins og auðlindastofnun eða hvað það ætti að vera.

En aðalatriðið er það að við erum ekki að gera neinar breytingar sem heitið getur. Við erum vissulega að færa þetta inn í meira nútímaform, enda lögin frá 1923 og það er málið.

Hv. þingmaður er þjóðnýtingarsinni og hann vill taka þennan rétt af bændum sem eiga fasteignirnar. (Gripið fram í.) Annaðhvort eru menn þjóðnýtingarsinnar eða einkaeignarsinnar og hvort er hv. þingmaður? Ég ætla að biðja um að fá það alveg skýrt.



[17:30]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það kom mér ekki á óvart að hæstv. ráðherra reyndi ekki að svara einni einustu spurningu sem ég bar fyrir hana og allra síst meginspurningunni sem ég marghnykkti á hér síðast: Hvernig útskýra hæstv. ráðherrar það fyrir okkur að lagt er til hér á Íslandi að við förum allt aðrar leiðir í þessum efnum en verið er að lögfesta og jafnvel taka upp í stjórnarskrám ríkja um þessar mundir og alþjóðastofnanir vinna að? Hvað segja hæstv. ráðherrar við því? Hver er málsvörn hæstv. umhverfisráðherra að láta bjóða sér þetta?

Lagalegar skilgreiningar skipta hér víst miklu máli. Það verða einhver mörk, lögsögumörk milli nýtingarsjónarmiðanna, nýtingarstjórnsýslunnar og umhverfisverndarhliðarinnar, umhverfisverndarþáttanna hins vegar, nema menn ætli bara að slá af allt sem heitir vatnsvernd og umhverfisvernd í landinu.

Ég ber ekkert hatur til Orkustofnunar, það er furðulegt að hæstv. ráðherra skuli taka sér það orð í munn. Þarf maður að bera hatur í garð stofnana þó að maður telji að vera þurfi skýrt hvaða verksvið þær eigi að hafa? Margir ágætir vinir mínir og skólabræður vinna hjá Orkustofnun og ég veit að þeir eru það þroskaðir langt umfram ráðherrann að taka það ekki til sín þó að ég gagnrýni það hlutverk sem ég tel að verið sé að færa Orkustofnun þarna, þar sem öllu er grautað saman, faglegum þáttum, stjórnsýslu, leyfisveitingu, jafnvel stjórnvaldssektum, ýmiss konar eftirliti, útgáfu framkvæmdaleyfa. Þetta er allt í einum graut inni í þessari stofnun. Og Umhverfisstofnun, sem er líka opinber stofnun sem mér líkar vel við, hvar er hún í þessu? Hvernig stendur á því að umhverfisþátturinn er þarna bara alls ekkert með á blaði eins og hann sé ekki til? Af hverju er ekki byrjað á því að setja vatnsverndarlög og skilgreina að hvaða leyti þau taka þessa þætti yfir áður en menn koma að nýtingunni?

Þessi lög ættu í rauninni að vera ákaflega einföld og heita frumvarp til laga um nýtingu vatns til orkuöflunar. Það er í alveg í lagi að hafa einfalda löggjöf um þann þátt málsins, en meira á það ekki að vera (Forseti hringir.) sem er undir iðnaðarráðherra og Orkustofnun.



[17:32]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til þess að hafa það alveg skýrt og fá skýr svör þá spyr ég hv. þingmann hvort hann sé að segja að hann vilji taka þennan rétt af bændum sem þeir hafa haft, taka hann af vegna þess að rétturinn fylgir fasteigninni, og hvort hann hafi þá gert sér grein fyrir hvað það kosti mikið.



[17:33]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Frammistaða hæstv. ráðherra talar auðvitað fyrir sig sjálf. Ekki er svarað einni einustu spurningu heldur snúið upp í að spyrja mig hvort ég sé einkaeignarsinni eða þjóðnýtingarsinni. Og ég á að fara að svara því hér sem alls ekki kom inn á mitt mál. Ég ræddi ekki á nokkurn hátt um hvort þetta hefði einhver áhrif á þann rétt, (Iðnrh.: Málið snýst um það.) nýtingarrétt sem bændur hafa samkvæmt gildandi löggjöf. Var ég ekki að enda við að hrósa vatnalögunum frá 1923? Var ég ekki að segja að ég vildi þá nálgun í lögum að það væri talinn upp sá hagnýtingarréttur sem menn hefðu? Það þýðir ekki að að færa þurfi einkaeignarréttarlegt vald út yfir vatn sem fyrirbæri á jörðinni. (Iðnrh.: … bera kápuna á báðum öxlum.) Hæstv. ráðherra hefur greinilega alls ekki … (Iðnrh.: Bera kápuna á báðum öxlum.) Bera kápuna á báðum öxlum? Hæstv. ráðherra er bara að reyna að einfalda þessa hluti og draga þá saman með þeim hætti að það er auðvitað ekki boðlegt.

Sér hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra alls engan mun á því fyrirkomulagi sem verið hefur í lögunum og hinu að fara þá einkaeignarréttarlegu leið sem hér er lögð til? (Gripið fram í.) Þetta er ekki sami hluturinn, hæstv. ráðherra. (Forseti hringir.) Ég skora á hæstv. ráðherra að kynna sér þetta betur og vita hvort ekki rofar þá til.



[17:34]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn vinstri grænna hafa sett á langar ræður um þetta mál sem við erum að ræða hér öðru sinni á þessu þingi.

Mér þykir það mjög alvarlegur hlutur, líkt og hv. þingmenn vinstri grænna hafa verið að gefa í skyn, að frumvarp þetta snúi að því að aðgengi fólks muni hugsanlega skerðast gagnvart neysluvatni. Hv. þingmaður á að hafa kynnt sér það og ég veit að hann hefur kynnt sér það að í lögum frá 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu þá er aðgengi sveitarfélaganna, forgangur sveitarfélaganna, tryggður að vatnsauðlindinni. Við höfum svo lög um vatnsveitur sveitarfélaga sem skylda sveitarfélögin til að útvega almenningi, heimilum og fyrirtækjum neysluvatn. Við erum ekki að tala um það hér að skerða aðgengi almennings að neysluvatni. Það er lýðskrum að tala með þeim hætti eins og hv. þingmenn vinstri grænna hafa gert hér.

Ég hef ekki heyrt annað, hæstv. forseti, í þessari umræðu en að hv. þingmenn vinstri grænna vilji gera þessa auðlind að almenningseign og færa hana aftur undir eign ríkisins. Það er rétt sem hæstv. ráðherra sagði að þá skulu menn líka segja B. Þá fer fram stórfelld eignaupptaka hjá bændum og öðrum landeigendum í þjóðfélaginu vegna þess að árið 1998 var vatnið skilgreint sem auðlind og auðlind fylgir fasteign hverri samkvæmt lögum frá 1998. Annaðhvort verða menn að fara í eignaupptöku hringinn í kringum landið eða kaupa þessi réttindi af landeigendum sem yrðu væntanlega margföld fjárlög íslenska ríkisins.

Er nema von að spurt sé: Hvað vilja vinstri grænir í þessum efnum? Vilja þeir eignaupptöku eða kaup á þessum réttindum eða vilja þeir viðhalda því ástandi sem verið hefur allt frá árinu 1923 í þessum efnum? Við viljum fá svar við því.



[17:36]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega ekki þægilegt að ræða þessi mál við stjórnarsinna ef þeir hafa alls ekki áttað sig á því hvað fólgið er í frumvarpinu. Það er von að erfitt sé að eiga rökræður um þessa hluti því að hér er því haldið fram að engin breyting sé á ferðinni í þessu frumvarpi. Hvernig stendur þá á því að gagnvart nákvæmlega sama frágangi málsins í frumvarpinu sem flutt var í fyrra vöruðu við og lögðust gegn því fjölmargir umsagnaraðilar og bentu m.a. og ekki síst á þann varhugaverða viðsnúning málsins að hverfa frá nálgun vatnalaganna 1923 um að lýsa réttindunum með alveg tæmandi hætti, réttindum sem fólgin væru í að eiga land og hafa afnotarétt af og aðgang að vatni sem þar væri og hverfa yfir í hitt fyrirkomulagið, að slá einkaeignarréttarlegum rétti á þetta fyrirbæri sem slíkt, skilgreina það þannig að lögum?

Laganefnd Lögmannafélagsins, Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og fjölmargir aðrir umsagnaraðilar voru með þetta sem einn af útgangspunktum í umsögnum sínum. Þeir bentu t.d. á alþjóðaþróunina. Þeir bentu á vatnatilskipun Evrópusambandsins og það var vísað í vinnu Sameinuðu þjóðanna o.s.frv.

Halda menn að þetta hafi allt saman verið misskilningur, allt út í loftið, að engir hafi skilið þetta nema hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir og hv. þm. Birkir Jón Jónsson? Að allir hinir hafið misskilið þetta, allir sérfræðingarnir hjá Umhverfisstofnun, hjá Náttúrufræðistofnun, í laganefnd Lögmannafélagsins og hvað það nú var? Þetta séu allt saman aular sem hafi misskilið þetta og einu mennirnir sem hafi náð þessu séu stjórnarþingmennirnir?



[17:38]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er erfitt að fá svör hjá hv. þingmanni um hvað hann vill í þessum efnum. En ég hef túlkað ræður hv. þingmanna vinstri grænna á þá leið að þeir vilji helst ekki gera neitt, ekkert liggi á að breyta neinu í þessum efnum. Það er eins og stefna þeirra er í mörgum öðrum málaflokkum, (Gripið fram í.) það liggur yfirleitt ekkert á hlutunum og það er ekki nauðsynlegt að fara í neinar breytingar, hæstv. forseti.

Ég vil að lokum segja, hæstv. forseti, að búið er að breyta þessu frumvarpi meira að segja í þá átt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um á sínum tíma, að menn yrðu að standa vörð um að almannaréttur standi óhaggaður gagnvart aðgangi að vatni. Búið er að taka þetta inn í greinargerð með frumvarpinu þannig að sá almannaréttur mun standa óhaggaður. Ég fór yfir aðgengi að neysluvatni hér áður. Sá réttur almennings mun standa óhaggaður og því er eðlilegt að spurt sé, hæstv. forseti: Á móti hverju er Vinstri hreyfingin – grænt framboð? Og í síðasta lagi: (Forseti hringir.) Hvað vill Vinstri hreyfingin – grænt framboð í þessum málum?



[17:40]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er háttur stjórnarliða þegar þeir eru komnir í rökþrot að reyna að snúa umræðunni upp í yfirheyrslu á því hvað aðrir flokkar vilji. Þegar þeir bera fram mál og eru spurðir spurninga sem varða það mál, beðnir að útskýra furðulegar þverstæður, þá er bara skautað yfir það og farið í að reyna að krefja aðra flokka svara. Ég skal svara því alveg skýrt.

Ég vil fá grundvallarskilgreiningu í lögum og helst í stjórnarskipunarlögum líka að vatn sé sameiginleg auðlind mannkynsins, að vatn sé nauðsynlegt til viðhalds lífs á jörðinni og að vatn sé ekki hefðbundin verslunarvara. Slík lagaleg grundvallarskilgreining þarf ekki á nokkurn hátt að koma síðan í veg fyrir að menn haldi hefðarhelguðum nýtingarréttindum og afnotum af vatni á sínu landi. Það er bara misskilningur að halda að þetta þurfi að stangast á. Það þarf ekki að gera það. (Forseti hringir.) Þökk sé m.a. framsýni vatnalaganna frá 1923 sem bjóða upp á að þannig sé frá málinu gengið. (Forseti hringir.) En það yrði ekki hægt ef þessi leið verður lögfest.

(Forseti (JBjart): Forseti biður þingmenn um að virða tímamörk.)



[17:41]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir þau orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að vatnalögin frá 1923 eru mjög merkilegur lagabálkur og merkilegt lagasetningarstarf sem unnið var á árunum áður en þau voru sett, m.a. af Bjarna frá Vogi og Einari Arnórssyni og fleiri góðum mönnum sem þar komu að.

Hins vegar eru þessi lög frá 1923 og ýmislegt hefur breyst í samfélagi okkar frá því að vatnalögin voru sett sem ástæða er til að bregðast við og það er gert í þessu frumvarpi. Ég skil ekki almennilega heift þingmannsins út í þá skilgreiningu sem fram kemur á vatnsréttindum fasteignaeigenda í frumvarpinu. Ég er þeirrar skoðunar að það sé miklu einfaldara og skýrara að hafa skilgreininguna með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir heldur en þeim sem hv. þingmaður talar fyrir, vegna þess að í þessum málum eins öðrum efast ég um að hægt sé að vera með tæmandi talningu á öllum réttindum sem hugsanlega geta fallið undir ákvæði frumvarpsins eða laganna.

Þegar verið er að setja lög, og það vita allir sem lesa Lagasafnið, að þar er ekki talið upp með tæmandi hætti allt sem má. Réttur okkar byggist miklu frekar á því að það sem ekki er bannað sé leyft.

Síðan verð ég að segja að það gleður mig mjög að sjá að hv. þingmaður sýnir sitt rétta andlit í tengslum við þetta mál. Hann er í andstöðu við einkaeignarréttinn og hefur lýst því hér yfir að hann sé þjóðnýtingarsinni. Þetta er náttúrlega bara kommúnismi af gamla skólanum og það gleður mann mjög að sjá úr hverju þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru gerðir (Forseti hringir.) þegar að slíkum málum kemur.



[17:43]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég nenni nú ekki að ræða þetta í einhverjum útúrsnúningum. Það sem ég hef lagt áherslu á er að ég er andvígur því að útvíkka einkaeignarréttinn gagnvart vatni þannig að einkaeignarréttarlegri skilgreiningu verði slegið á það fyrirbæri eins og það leggur sig á Íslandi. Það er það sem verið er að tala um, að vatn í föstu, fljótandi og loftkenndu formi skuli falla undir einkaeignarréttarlegar skilgreiningar.

Hvað ætla menn að draga mörkin? Ég veit að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vill hafa allt sem hugsast getur í einkaeign. Hann vill örugglega leggja í víking út í geiminn til að reyna að ná þar fram einhverjum einkaeignarrétti og jörðin að verða of lítil fyrir hann.

Mér finnst ansi langt gengið að reyna að slá einkaeignarrétti á vatnið svo langt niður í iður jarðar sem það kann að komast og vatn bara yfir höfuð sem fyrirbæri á hvaða formi sem það finnst. Það er himinn og haf á milli þess að nálgast þetta með þeim hætti sem vatnalögin gera á sínum tíma og skilgreina þann rétt sem hver og einn hefur til hvers konar nýtingar, til vatnstöku, til áveitna o.s.frv. og hins sem hér er verið að leggja til. Eða er hv. þingmaður, sem lögfræðingur, ekki sammála mér að hér sé verið að gera breytingu? Er hægt að særa játningu upp úr hv. þingmanni hvað það varðar? Það væri fróðlegt í framhaldi af orðaskiptum mínum, ef orðaskipti skyldi kalla, við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hér áðan.

Ég les þetta þannig að hér sé í raun og veru verið að færa þessi landamæri út. Mér er ómögulegt að skilja það öðruvísi. Ég vil hafa vaðið algerlega fyrir neðan mig í þeim efnum að við förum ekki að setja lög hér á Íslandi í dag sem ganga þvert á þá þróun sem er í gangi á alþjóðavettvangi og ég tel rétta, að skilgreina vatn sem sammannlega auðlind, (Forseti hringir.) nauðsynlega til viðhalds alls lífs og ekki verslunarvöru.



[17:45]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér bæði ljúft og skylt að svara þeirri spurningu sem hv. þingmaður varpaði hér fram. Ég tel að ekki sé verið að útvíkka þau réttindi sem til staðar hafa verið. Ég tel að í þessu frumvarpi felist ekki breyting á því réttarástandi sem við höfum búið við. Ég byggi það á því að fyrir liggja hæstaréttardómar þar sem tekið hefur verið á þeim álitaefnum sem frumvarpinu er ætlað að taka á. Með frumvarpinu er í rauninni verið að festa í sessi þá túlkun sem Hæstiréttur Íslands og fræðimenn hafa lagt í þennan rétt og þessi réttindi. Það er ekkert annað hér á ferðinni og engin grundvallarbreyting á efni og inntaki þessara réttinda. Það er alveg klárt í mínum huga. Ég er því alveg sammála hæstv. iðnaðarráðherra hvað þetta atriði varðar.



[17:47]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Svar hv. þingmanns veldur mér vonbrigðum því að ég hafði ætlað hv. þingmanni það að hafa á þessu faglegri skoðun. Ég veit að vísu að hugur hans stendur mjög til þess að fá að svara þessari spurningu svona en ég gerði mér vonir um að hv. þingmaður hefði lesið frumvarpið þannig að hann kæmist að annarri niðurstöðu.

Spyrjum á móti: Segjum að Alþingi Íslendinga væri í allt öðrum sporum, að það væri að fjalla um löggjöf sambærilega þeirri sem Hollendingar hafa nýlega sett, sem skilgreinir vatn sem sameiginlega auðlind, og segjum að verkefni okkar hefði verið að draga upp landamæri milli þess og þess réttar sem lög og dómar hafa fært mönnum í einkaeignarréttarlegum skilningi, þ.e. afnotaréttar eða nýtingarréttar eins og þetta hefur verið, á grundvelli tiltölulega tæmandi upptalningar vatnalaganna frá 1923, og þá var viðfangsefnið alveg hið gagnstæða, ekki satt? (Gripið fram í.) Að fara yfir það hvernig þessir tvær þættir væru samrýmanlegir og þeir eru það að mínu mati enn þá en þeir verða það síður ef menn innleiða þessa skilgreiningu (Forseti hringir.) og snúa þessu við eins og hér er lagt er til frá því sem verið hefur á gildandi rétti.



[17:48]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til vatnalaga sem hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins flytur. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart þó að hér birtist úr þeirri átt enn eitt frumvarpið sem lýtur að einkavæðingu auðlindanna. (Gripið fram í: Þetta er rangt.) Framsóknarflokkurinn er hættur að gera greinarmun á því hvað sé samfélagsleg sameign og hvað sé hægt að markaðsvæða og selja. Fyrir þeim er það eitt. Finnist eitthvað sem hægt er að selja skal það selt.

Undanfarin ár höfum við upplifað að Framsóknarflokkurinn hefur gengið fram í því samstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að einkavæða almannaeignir. Síðast var það t.d. markaðsvæðing rafmagnsins og ég minnist þess að hæstv. iðnaðarráðherra átti varla orð til að lýsa fögnuði sínum yfir því hvað það gekk vel.

Við markaðsvæðinguna á rafmagninu, sem er upphafið að einkavæðingu og sölu raforkufyrirtækjanna eins og hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins boðaði, þá upplifum við það að nú þegar hafa þær aðgerðir leitt til aukins misréttis á milli þegna þjóðfélagsins. Heilu landshlutarnir mega nú líða fyrir stórhækkað raforkuverð sem að mati iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins er bara eðlilegt af því að verið sé að markaðsvæða hlutina, rafmagnið sem áður var hluti af almannaþjónustu og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs litum á og reyndar meginþorri almennings á landinu leit á sem grunnalmannaþjónustu.

Og nú er komið að vatninu. Nú skal ganga milli bols og höfuðs með því að einkavæða vatnið. Þetta er í anda þess sem Framsóknarflokkurinn er að gera á öllum sviðum, sérstaklega því sem lýtur að umhverfismálum, enda hefur lítið heyrst frá umhverfisráðherranum í þessum málum. Hún virðist hafa orðið alveg undir í þessum dansi við Framsóknarflokkinn hvað lýtur að verndun vatnsins og verndun umhverfisins. Hér hefur verið boðað að verið sé að vinna að einhverju vatnsverndarlagafrumvarpi og hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt kotroskin að henni komi ekkert við hvað því líði, það sé ekki hennar mál sem ráðherra, það sé málefni umhverfisráðherra. (Gripið fram í: Rétt hjá henni.) Það er hárrétt hjá þingmanninum, það er rétt hjá iðnaðarráðherra. En maður veltir fyrir sér geðleysi umhverfisráðherra að láta valta svona gjörsamlega yfir sig í þessum efnum því að vatn er jú hornsteinn lífsins á jörðinni. Ef eitthvað stæði umhverfisráðherra nær þá væri það að sá ráðherra kæmi fyrst með lagabálk sem lyti að stöðu vatns og verndun þess bæði til nútíma og framtíðar. Það ætti að koma númer eitt. Því hvað er umhverfi okkar, hvað er náttúra okkar án vatns? En geðleysi umhverfisráðherrans á sér ekki nein takmörk og að sjálfsögðu kemur það iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins ekkert við þó að níðst sé á grunnþáttum lífs og umhverfis eins og vatni. Þessi lög eru einmitt liður í því.

Í 1. gr. þessa lagafrumvarps stendur, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er skýrt eignarhald á vatni, skynsamleg vatnsnýting og hagkvæm og sjálfbær nýting vatns.“

Og þetta á að heyra undir iðnaðarráðherra. Ef þetta hefðu nú verið orð mælt úr munni umhverfisráðherra og síðan kæmi framhald á þeim grundvelli hefði þetta kannski leitt til annars. En hæstv. umhverfisráðherra lætur ekki svo lítið að eyða orðum í þessa umræðu, vatn virðist ekki koma hæstv. ráðherra neitt við.

Í þessu frumvarpi er síðan gengið lengra en áður í að skilgreina hvað er vatn til þess að taka af öll tvímæli að vatn heyri undir hæstv. iðnaðarráðherra sem iðnaðarvara.

Í 2. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Lög þessi taka til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi, að svo miklu leyti sem önnur lög gilda ekki hér um.“

Þá er náttúrlega eðlilegt að spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Hvaða önnur lög gilda þá eða hvernig ætlar hæstv. umhverfisráðherra að koma að þessum málum eftir á eftir að hæstv. iðnaðarráðherra hefur fengið allt sitt fram varðandi einkavæðingu vatnsins? (Gripið fram í: Hvers lags …?) Ja, er að furða, frú forseti, þó að sumum framsóknarmönnum blöskri þegar þeir heyra sannleikann um hvað hér er á ferðinni?

Ég velti því fyrir mér hvort iðnaðarráðherra geri sér grein fyrir því að einhver ábyrgð geti líka fylgt því að eiga hlutinn. Það stendur hérna „í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi“. Við skulum gera ráð fyrir því að þarna sé snjórinn meðtalinn af því að snjórinn getur verið auðlind (Gripið fram í: Skíðasvæðin.) Já, skíðasvæðin, segir hv. þingmaður, sem nú mundu samkvæmt þessum lögum heyra undir iðnaðarráðherra. Og snjórinn á vegunum þegar farið verður að ryðja vegina, heyrir það þá ekki líka undir iðnaðarráðherra? Hæstv. iðnaðarráðherra flýr nú úr salnum því að hún áttaði sig ekki á þessu. En samkvæmt lögunum heyra þessi mál undir iðnaðarráðherra með þessum hætti, vatn í öllum birtingarformum þess. Og er ekki snjór …? (Gripið fram í: Þvílíkur kjaftháttur.)

Umhverfisráðherra hæstv. veltir því fyrir sér hvað sé þá eftir fyrir hana til að fást við í sínum lagabálki. Stendur ekki í þessum lögum að þau þessi taki til alls rennandi eða kyrrstæðs vatns á yfirborði jarðar og neðan jarðar, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi? Hefur hæstv. ráðherra ekki lesið það? Það þýðir ekki annars vegar að grínast með hlutina og hins vegar að láta sem ekkert sé.

Frú forseti. Það er verulegt áhyggjuefni þegar staða umhverfismála hér á landi er sú að hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins horfir á það eitt hvernig hún eigi að einkavæða og markaðsvæða almannaeignir, þjóðareignir, og að vatnið skuli vera í höndum slíks ráðherra en umhverfisráðherra hafi ekki nein afskipti af því.

Hér er verið að breyta í grundvallaratriðum frá því sem áður hefur verið um skilgreiningu á vatni. Áður þurfti að telja upp og skýra, tilgreina þau not og nýtingarréttindi sem fasteignareigandi hafði af sínu vatni. Nú hefur þessu verið snúið á hinn veginn þannig að skýra þarf í lögum fyrir fram hver not hann ekki hefur eignarrétt á. Hér er því um grundvallarbreytingu að ræða.

Frú forseti. Það er líka alveg makalaust að við skulum vera að ræða um hvernig einkavæða megi vatn þegar umræðan er á hinn veginn annars staðar í heiminum, hvernig tryggja megi samfélagslega eign á vatni. Þegar ég segi eign þá er það ekki núverandi samfélags heldur samfélags ókominna kynslóða. Vatnið er ekki síst sameign þeirra sem ófæddir eru. Þetta eru menn að ræða á vettvangi alþjóðasamfélagsins en hér á Íslandi erum við að ræða um hvernig við getum hert einkavæðingartökin á vatninu. (Gripið fram í: Hvað viltu gera?)

Frú forseti. Hv. þingmaður Framsóknarflokksins, Birkir Jón Jónsson, kallar fram í hvað ég vilji gera. Ég vil losna við Framsóknarflokkinn úr ríkisstjórn. Það er alveg klárt. Það er alveg óskaplegt að búa við þá stefnu sem sá flokkur, Framsóknarflokkurinn, hefur rekið hvað varðar umhverfismál í landinu og einkavæðingu.

Ég minnist ferðar minnar til Palestínu í vor. Við heimsóttum hinar palestínsku byggðir og við heimsóttum einnig Ísrael. Þá komumst við að raun um að stríðið í Palestínu snýst að stórum hluta um vatn, um að ná réttindunum yfir vatninu, yfir því hvar vatnið fellur, yfir stöðuvötnunum og yfir ánum. Ísraelsmenn í sinni hertöku á palestínsku landi hafa lagt meginþunga á að hertaka vatnssvæðin og ráða yfir vatnsbólunum, enda mátti fljótlega greina þau hús sem Palestínumenn byggðu því þar voru söfnunargeymar vatns uppi á þökum því Ísraelsmenn réðu vatnslindunum og réðu því hvort vatn færi eftir leiðslum til þessara íbúa.

Ég minnist þess líka þegar við komum upp í Gólanhæðir sem Ísraelsmenn hernámu. Þar fellur sem rigning stór hluti vatnsins sem síðan er notað til neyslu, akuryrkju og landbúnaðarstarfa bæði í Palestínu og Ísrael. Þá höfðu Ísraelsmenn þar tekið upp skömmtun á vatni til bændanna í Gólanhæðum. Þeir brugðust við og reyndu að safna regnvatni í geyma til að geta síðan ráðstafað til sinnar neyslu og landbúnaðarstarfa. Ekki líkaði Ísraelsmönnum þetta vel og að sögn þeirra sem við hittum þá þar töldu þeir sig líka eiga regnvatnið og vildu skattleggja þessa bændur í Gólanhæðum fyrir að safna regnvatni. Þarna var ekki litið á vatnið sem samfélagslega eign, ekki einu sinni rigninguna. Manni var hugsað til þess hvað mundi gerast á Íslandi ef hið sama væri hér uppi á teningnum þó svo að við búum líka venjulega við nægjanlegt vatn svo fremi og svo lengi sem það er í þjóðareign og öllum til ráðstöfunar.

Frú forseti. Ég minnist þess að haldin var ráðstefna hér á landi fyrir skömmu um vatn fyrir alla. Þar var ítrekað að vatn væri fyrir alla, vatn væri ekki bara fyrir hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins til að einkavæða. Ég minnist þess að biskup Íslands, herra Karl Sigurbjörnsson, hélt þar afar áhrifamikið opnunarerindi um stöðu vatnsins. Hann minntist heimsóknar til Eþíópíu. Þar hafði hann komið í einn dal þar sem lítil á rann og fólkið hafði sótt vatn í hana. Nú hafði þar einmitt komið svona eignarréttarákvæði á þetta vatn, svipað og verið er að leggja til í þessu frumvarpi hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Það heitir að koma upp skýrum eignarréttarákvæðum. Hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins sagði nauðsynlegt að hafa eignarréttarákvæðin skýr. Þarna í dalnum í Eþíópíu var einmitt lögð áhersla á að eignarréttindi á þessu vatni í dalnum væru skýr. Þau voru svo skýr að það var hægt að selja þau Coca Cola-verksmiðju. Coca Cola setti upp verksmiðju og framleiddi kók og sló eign sinni á vatnið. Eignarréttarákvæðin hafa greinilega verið nægilega skýr til að hægt væri að gera þetta. Það er mikilvægt að hafa eignarréttarákvæðin skýr, sagði hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins áðan. Þau voru það skýr að hægt var að selja vatnið í einum dal til Coca Cola-verksmiðju og íbúarnir máttu síðan súpa seyðið af því.

Þessi ráðstefna var haldin 29. október síðastliðinn og aðild að henni áttu allmörg félagasamtök, félagasamtök sem líta ekki á vatn sem hverja aðra sjálfsagða verslunarvöru sem lýtur lögmálum markaðarins, eins og hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins vill. Hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins vill að vatn sé bara markaðsvara, að hægt sé að selja það eins og rafmagnið. Þarna héldu samtök ráðstefnu um vatn fyrir alla. Ég held að það hefði verið hollt ekki bara fyrir hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins að sækja slíka ráðstefnu heldur líka ýmsa aðra þingmenn og forustumenn Framsóknarflokksins sem sjá það eitt hvernig megi einkavæða og markaðsvæða auðlindir framtíðarinnar. Í ályktun sem þarna var samþykkt stendur, með leyfi forseta — og ég ítreka að ég tel að hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins ætti að lesa kvölds og morgna í stað þess að hafa þá afstöðu sem hefur birst okkur í þingsölum, að það sé svo mikilvægt að skýra eignarréttarákvæði vatnsins til að hægt sé að gera það að verslunarvöru. Þarna stendur, með leyfi forseta:

„Undirrituð samtök vilja með sameiginlegri yfirlýsingu þessari vekja athygli ríkisstjórnar, sveitarstjórna, stofnana, fyrirtækja og almennings á mikilvægi og sérstöðu vatns fyrir land, þjóð og lífríki. Þótt enginn vatnsskortur sé á Íslandi þá er staðan önnur víðast hvar í heiminum. Gnótt vatns gefur því ekki tilefni til skeytingarleysis af okkar hálfu. Þvert á móti ber okkur að færa lagaumgjörð um vatn í þann búning að hún tryggi rétta forgangsröðun varðandi vatnsvernd og nýtingu og geti verið öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Hugsa verður til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.“

Þetta er upphafsmálsgrein yfirlýsingar sem gefin var á þessari ráðstefnu. Fróðlegt væri að heyra hvað hæstv. umhverfisráðherra segir um að vera sett í aðra eða þriðju röð um afskipti af vatni þvert á þær áherslur sem bæði alþjóðasamfélagið hefur og við á Íslandi höfum varðandi vatn, þ.e. að fyrst sé litið á vatnsverndina. Það á að hugsa til framtíðar og hafa almannahagsmuni og náttúruvernd að leiðarljósi.



[18:08]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki oft sem sá sem hér stendur er orðlaus. En eftir ræðu hv. þingmanns sem stóð í alllanga stund á ég ekki til eitt einasta aukatekið orð yfir þessum málflutningi. Hv. þingmaður fór út og suður. Það var engan veginn hægt að átta sig á því hvert hv. þingmaður vildi stefna eða hvað hv. þingmaður vildi gera.

Hv. þingmaður talar um einkavæðingu vatnsins. Hv. þingmaður er með einkavæðingu vatnsins á heilanum. Hér er ekki verið að breyta nokkuð sköpuðum hlut hvað eignarrétt landeiganda varðar. Dómafordæmi Hæstaréttar sannar það frá 1923. Lög voru sett hér árið 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu þar sem vatnið er skilgreint sem auðlind og auðlind fylgir eignarlandi hverju. Þau voru sett árið 1998. Hér er ekki verið að einkavæða eitt eða neitt eða verið að breyta neinu. Hv. þingmaður er gjörsamlega úti á túni í sínum málflutningi hvað þetta varðar og (Forseti hringir.) er ekki flokki sínum til vegsauka í þessari umræðu.



[18:10]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Birkir Jónsson var þó ekki það orðlaus að hann gæti ekki komið upp og enn haldið fram tvískinnungi síns flokks.

Við þekkjum sögu Framsóknarflokksins varðandi markaðsvæðingu og einkavæðingu á rafmagninu og orð hæstv. iðnaðarráðherra um að brýnt sé að selja raforkufyrirtæki. Við þekkjum þau.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hefur lesið þessa yfirlýsingu frá ráðstefnunni um vatn fyrir alla. Hafi hann ekki gert það hvet ég hann til þess að gera það áður en hann hefur fleiri flumbrugangsorð um það málefni sem hér er verið að ræða.



[18:10]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vatn fyrir alla, sagði hv. þingmaður áðan, vatn fyrir alla en ekki hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur. Hvers lags málflutningur er þetta? Erum við nokkuð að leggja fram frumvarp sem á að veita Valgerði Sverrisdóttur einokun á vatni í þessu landi? Við erum akkúrat að verja eignarrétt bænda, eignarrétt landeigenda í landinu. Það er fróðlegt að heyra hvað fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í landbúnaðarnefnd Alþingis hefur að segja um það. Hér er verið að festa í sessi réttindi bænda hvað varðar eignarréttinn á þessum auðlindum, rétt sem hefur verið að fullu virtur síðan 1923.

Hv. þingmenn tala svo í hinu orðinu um að það eigi að kæla málið. Hv. þingmanni til upplýsingar þá mundi það ekki breyta neinu hvað varðar eignarrétt bænda. Við viljum standa vörð um eignarrétt bænda en Vinstri grænir boða þjóðnýtingu í þessum málum, þjóðnýtingu og ekkert annað.



[18:12]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst vil ég segja að ég legg ekki í vana minn að nafngreina fólk þó það sé ráðherrar eða þingmenn nema geta titils þess. Þeir eru hér fyrst og fremst sem umbjóðendur þess verkefnis sem þeir eru ráðnir til eins og hæstv. iðnaðarráðherra er iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins í ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokksins.

Hv. þingmaður hefur áhyggjur af stöðu bænda. Já, ég hef það. Ég nefndi einmitt bændurna í Gólanhæðum. Þeir eiga margt sameiginlegt með íslenskum bændum.

Ég spyr enn, frú forseti: Hefur hv. þingmaður lesið yfirlýsinguna frá ráðstefnunni um vatn fyrir alla? Hafi hann lesið hana þá virðist hann ekki hafa skilið hana. Ég bið hann að lesa hana aftur.



[18:13]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að taka undir það sem hér kom fram. Ég hef sjaldan heyrt aðra eins ræðu og þá sem hér var flutt í umræðum um vatnalög. Þar bar á góma málefni hernumdu svæðanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Eþíópía kom við sögu. Jafnvel þjóðkirkjan var hér til umfjöllunar. Ég skildi nánast ekkert í því sem hv. þingmaður var að fjalla um nema þó eitt: Það er greinilegt að hv. þingmaður er þjóðnýtingarsinni. Hann vill þjóðnýta vatnið í hvaða mynd sem er og hafa af landeigendum og bændum þessa lands þau réttindi sem þeir hafa haft um margar aldir og miklu lengur en frá 1923. Hvernig í ósköpunum ætlar hv. þingmaður að bregðast við því þegar landeigendur sem hafa átt þennan rétt — hann hefur verið staðfestur af Hæstarétti Íslands trekk í trekk — hvernig í ósköpunum ætlar hann að bregðast við þegar bændur og landeigendur (Forseti hringir.) setja fram sínar kröfur um bætur fyrir þessa þjóðnýtingu?



[18:14]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson snýr öllu á haus. Hafi þessi réttindi bænda verið svo tryggð hingað til, af hverju þarf þá að vera að breyta þeim?

En á hitt get ég ekki fallist, þ.e. að talað sé niður til þjóðkirkjunnar þó svo hún láti vatnsverndarmál til sín taka. Ég tel að það hafi verið mjög sterkt og rétt og fagna öflugri þátttöku þjóðkirkju Íslands í þessari ráðstefnu um vatn fyrir alla. Ég hefði frekar vilja sjá fólk fylkja sér að baki þeirri stefnumörkun heldur en tala niður til þeirra sem hafa gert þetta baráttumál að sínu með svo öflugum hætti, eins og þjóðkirkjan hefur gert.



[18:15]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafna því alfarið að ég hafi talað niður til þjóðkirkjunnar, síður en svo. Það hef ég ekki gert og enginn í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Ég held að þingmenn Vinstri grænna ættu frekar að líta sér nær varðandi afstöðu þeirra til þjóðkirkjunnar og orða sem þeir hafa látið falla opinberlega um þá mikilvægu stofnun.

En aðalatriðið í þessu máli, sem kemur ekki á óvart og það er gott að þeir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa upplýst um að þeir eru þjóðnýtingarsinnar og vilja þjóðnýta allt sem þeir komast í. (Gripið fram í.) Það hefur verið afar slæm reynsla af slíku.

En ég vil, af því hv. þingmaður nefndi yfirlýsinguna Vatn fyrir alla, hvetja hann til að lesa þetta frumvarp vegna þess að hann þarf ekkert að óttast. Hann mun, eftir að þetta frumvarp verður að lögum, eftir sem áður geta baðað sig í lækjarsprænum og fengið sér sopa af (Forseti hringir.) vatninu okkar, hvort sem það er í lækjum eða krönum. Það er ekkert að óttast í þessu.

(Forseti (SP): Ég bið hv. þingmann að virða tímann.)



[18:16]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekkert að fara að vigta stöðu hvers og eins gagnvart málefnum þjóðkirkjunnar. En hv. þingmaður sagði að jafnvel hefði verið vitnað til þjóðkirkjunnar varðandi þessa ráðstefnu. En fyrir mér er það ekkert „jafnvel þjóðkirkjan“. Þjóðkirkjan kemur þar að af fullri reisn.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson mæti velta því fyrir sér, hvers vegna er ekki er fyrst tekið á vatnsverndarlöggjöfinni, sem sett er númer eitt í yfirlýsingunni Vatn fyrir alla og reyna að aðstoða hæstv. umhverfisráðherra sem er settur til hliðar í þessu máli með yfirgangi iðnaðarráðherra við að komast yfir vatnið sem seljanlega auðlind.



[18:17]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason fór mikinn í umræðu sinni um frumvarpið sem hér er til umfjöllunar. Hann hafði mörg orð um gildissvið frumvarpsins og ræddi sérstaklega um að umhverfisráðherra lægi flatur fyrir iðnaðarráðherra. Ég verð að segja að ég skildi ekki þingmanninn þegar hann fjallaði um málið með þeim hætti. Hann gleymdi algerlega, í umfjöllun sinni um gildissviðið, að í gildi eru grundvallarlög á sviði umhverfismála óháð þeirri löggjöf sem hér er til umræðu. Ég nefni t.d. lög um náttúruvernd, lög um hollustuhætti og mengunarvarnir, lög um varnir gegn mengun hafs og strandar, lög um mat á umhverfisáhrifum, skipulags- og byggingarlög og fleira mætti telja. Í þessu frumvarpi er ekki hróflað við öðrum lagaákvæðum sem fjalla um vatn.



[18:18]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að nokkurt lífsmark sé með hæstv. umhverfisráðherra í þessu máli en leyfi mér að spyrja um leið: Hvað líður væntanlegum lögum um vatnsvernd sem hæstv. umhverfisráðherra ber ábyrgð á og ættu að koma hér fyrst, áður en við ræðum með hvaða hætti hæstv. iðnaðarráðherra geti einkavætt og selt vatnið? Við vildum fyrst sjá vatnsverndarlögin. Ég vil heyra frá hæstv. umhverfisráðherra hvernig gengur og styðja við bakið á henni ef tekið verður á þessum málum frá sjónarmiði umhverfis- og náttúruverndar og með framtíðarhagsmuni mannkyns fyrir augum, ef hæstv. umhverfisráðherra vildi nálgast málið með þeim hætti og flytti frumvarp áður en (Forseti hringir.) iðnaðarráðherra fær að spreða út sínum frumvörpum.



[18:19]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef þegar svarað spurningunni í umræðunum áður. En hv. þingmaður Jón Bjarnason lét ekki svo lítið að vera í salnum þegar sú umræða fór fram. Það er alveg ljóst að innleiðingarferlið stendur yfir. Formlegar viðræður eru hafnar við Evrópusambandið af hálfu EFTA-landanna. Því verður væntanlega lokið einhvern tímann eftir áramótin og þess ekki að vænta að fram komi vatnsverndarfrumvarp á þessu þingi.



[18:20]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði að vísu heyrt þetta svar. En ég vildi gefa hæstv. umhverfisráðherra möguleika á að koma með annað og betra svar. Mér finnst með eindæmum ef keyra á í gegn frumvarp um einkavæðingu og markaðsvæðingu á vatni án þess að hæstv. umhverfisráðherra hafi komið með frumvarp um vatnsvernd áður. Ég spyr hæstv. umhverfisráðherra: Mun hún ekki beita sér fyrir því að iðnaðarráðherra verði stöðvaður af með þetta frumvarp þar til að frumvarp um vatnsvernd hefur komið fyrir þingið og fengið afgreiðslu?



[18:21]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef verið þeirra gæfu aðnjótandi að hlusta á ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar um frumvarp til vatnalaga og verð að segja eins og er, að ég hef aldrei hlustað á aðra eins steypu frá því að ég settist á þing. Mig langar að spyrja hv. þingmann að einu: Hvað í þessu frumvarpi mun á nokkurn hátt breyta eignarráðum fasteignareiganda yfir vatni? Ég vonast til, í kjölfarið á langri og mikilli ræðu hv. þingmanns, að fá skýringu á því. Það er skýrt að hjá öllum sem lesa þetta frumvarp og greinargerðina með því er þetta spurningin um að breyta formi, en engin efnisbreyting. (MÁ: Hringdu í Umhverfisstofnun.)



[18:21]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég varð náttúrulega fyrir miklum vonbrigðum að heyra að lögfræðingurinn, þótt það sé þingmaður Framsóknarflokksins, hefði ekki lesið frumvarpið betur og áttað sig á meginbreytingum sem frumvarpið veldur. Eignarréttarákvæðum er t.d. breytt hvað varðar að í fyrri lögum er nýtingarrétturinn skráður og tilgreindur en nú er því snúið á hinn veginn. (SKK: Hver er efnisbreytingin?) Þetta er veigamikil breyting, frú forseti. Ég fer að efast um lögfræðikunnáttu þeirra sem hafa slíkt embættispróf. En málið er það, frú forseti, að hér er tekið á málunum á röngum enda. Ég spyr þá líka hv. þingmann á móti, frú Jónínu Bjartmarz: Hvers vegna ekki að taka vatnsverndina á undan? Er það ekki eðlilegur liður í ferli máls sem þessa?



[18:23]
Jónína Bjartmarz (F) (andsvar):

Hæstv. umhverfisráðherra svaraði hv. þm. Jóni Bjarnasyni varðandi vatnsverndarákvæðin áðan. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í það. Ég endurtek bara spurningu mína til hv. þm. Jóns Bjarnasonar: Hvaða efnisbreytingu hefur þetta í för með sér? Hvaða breyting er önnur en á formi ákvæðisins?

Hann sagði með réttu að í eldri lögum, sem var undantekning frá lagaframkvæmd almennt þegar kemur að eignarréttindum, voru réttindin talin upp. Nú er þetta skilgreint öðruvísi. En á hvern hátt er efnisbreyting í þeirri formbreytingu? Þetta er meginatriði í öllu þessu máli. Ef hv. þingmaður getur ekki svarað því þá fellur allur hans málflutningur hér, um Gólanhæðir, þjóðkirkjuna og hvar hann kom niður með jólasnjóinn og annað, (Gripið fram í: Þetta er alrangt. Alrangt.) flatur.



[18:24]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hafi hv. þm. Jónína Bjartmarz á réttu að standa þá þarf ekki að flytja þetta frumvarp. Ef það hefur enga breytingu í för með sér, til hvers þá að halda þingmönnum uppteknum við að ræða frumvarp sem felur engar breytingar í sér? (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ef hv. þingmaður meinar að þetta frumvarp feli ekki í sér neinar breytingar þá tek ég undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar, sem sagði í upphafi umræðunnar: „Dragið þetta til baka“. Reyndar var það á öðrum forsendum, sem eru sömu forsendur og komið hafa fram í máli hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins, að skýra eignarhaldið, til að auðveldara sé að markaðsvæða vatnið. (SKK: Einkavæða það.) Það er málið, frú forseti.



[18:25]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom í málflutningi hv. þm. Jóns Bjarnasonar og furða mig jafnframt á yfirlýsingum sem komið hafa frá ýmsum þingmönnum Framsóknarflokksins. Hv. þm. Jónína Bjartmarz kveður sér hljóðs og spyr hverju sé verið að breyta efnislega með þessu frumvarpi. Annar þingmaður, hv. þm. Birkir J. Jónsson, kom upp fyrir stundu og sagði að með þessu frumvarpi væri verið að festa í sessi eignarrétt yfir vatni, eignarrétt bændanna. Ég beini því til hv. þm. Jónínu Bjartmarz að hún eigi orðastað við hv. þm. Birki J. Jónsson og spyrji hvað hann hafi átt við með þessu.

Frumvarpið sem hér er til umfjöllunar var lagt fram á síðasta þingi og kemur nú fram að nýju lítið breytt. Það kom mörgum okkar á óvart hve lítið það hafði breyst frá því það kom síðast fram. Hvers vegna? Vegna þess að þingflokksformaður Framsóknarflokksins hafði lýst því yfir á opinberum fundi, ekki alls fyrir löngu, að þá kæmi frumvarpið fyrst fram að á því hefðu verið gerðar verulegar breytingar. Síðan er ekkert að marka þessar yfirlýsingar. Frumvarpið sem liggur fyrir framan okkur er mjög lítið breytt frá frumvarpinu sem fram kom á síðasta þingi en enda þótt ekki sé liðinn langur tími hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan. Hvað hefur breyst? Jú, það hefur orðið, bæði hér á landi og víða annars staðar, vitundarvakning í tengslum við vatnið. Auðvitað eru aðstæður manna mjög misjafnar. Við höfum gnótt vatns hér á landi. Síðan eru svæði sem hafa lítið vatn. Menn skulu fara varlega í að hæðast að þeim frásögnum sem hv. þm. Jón Bjarnason greindi frá áðan, frá Gólanhæðunum, þar sem menn berjast um vatnið, ísraelska hernámsliðið meinar Palestínumönnum aðgang að vatni og hefur af þeim dýrmætar vatnslindir.

Við vitum að á þurrkasvæðum heimsins þarf ekki að kenna neinum að meta mikilvægi vatnsins. Þar snýst lífið, öll tilveran, um vatn. Í okkar heimshluta og hér í okkar landi höfum við lengi verið meðvituð um mikilvægi vatnsorkunnar. Undir lok 19. aldar og á fyrstu árum 20. aldar hófst mikil umræða um yfirráð yfir vatninu og vatnsorkunni. Fossalögin frá 1907 gengu fyrst og fremst út á að koma í veg fyrir að útlendingar öðluðust yfirráð yfir vatnsaflinu. Út á það gengu þau lög. Síðan fer af stað mikil vinna 1917 og skipuð fossanefnd, sem vinnur að nýju frumvarpi í nokkur missiri og ár. Hún nær ekki saman, meiri hlutinn og minni hlutinn. Hún klofnaði. Upp úr því var soðið nýtt frumvarp þar sem reynt var að taka tillit til sjónarmiða beggja aðila. Í greinargerð með því frumvarpi er reynt að ráða í hvort sjónarmiðið hafi verið ríkara í vatnalögunum frá 1923. Var það sjónarmið meiri hlutans, sem lagði áherslu á almannaeign á vatni, eða hins vegar sjónarmið minni hlutans, sem lagði áherslu á einkaréttinn?

Hvað hefur gerst síðan? Á síðustu árum hafa komið til sögunnar lög sem eiga rætur í þessum lagabálki. Við höfum haft til umfjöllunar lög um vatnsveitur. Það hefur verið vitnað í lögin frá 1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sem ég tel eitt mesta óheillafrumvarp sem hér hefur verið samþykkt í langan tíma. Ég minnist þess að í þingflokki mínum, sem ég sat í árið 1998, þ.e. Alþýðubandalagi og óháðum, héldum við fréttamannafund í Elliðaárdal fyrir framan heitavatnsborholuna til að leggja áherslu á varnaðarorð okkar. Upp úr þessari borholu kom ígildi hálfs milljarðs kr. á þeim tíma. Þessi borhola var á eignarlandi Reykjavíkurborgar. Ef hún hefði verið á eignarlandi í dalnum hefðu lögin, sem þau gerðu, fest eignarhaldið á vatninu í höndum einstaklinga. Menn hneykslast yfir því, þegar menn taka bakföll yfir því að við viljum að almenningur og þjóðin eigi þessar auðlindir. Hér var rætt um þjóðnýtingu. Já, við viljum að almenningur eigi vatnið, eigi þessa auðlind. Þá kem ég að vitundarvakningunni sem ég vísaði til.

Í heiminum öllum er fólk að vakna til vitundar um mikilvægi vatnsins sem auðlind. Menn horfa til vatnsins sem undirstöðu í vistkerfinu, í náttúrunni, og svo einnig til vatnsins sem takmarkaðrar auðlindar. Þá höfum við tekið undir með hæstv. iðnaðarráðherra þegar hún segir að að sjálfsögðu þurfi að endurskoða lagabálk sem settur hafi verið 1923. Gott og vel. Gerum það. En svörum þá líka kalli tímans og spyrjum hvert það kall er. Það er ákall um náttúruvernd. Það er ákall um mannréttindi og það er ákall um að tryggt sé í stjórnarskrá landanna að vatnið og aðgangur að því sé lögfest þar. Eftir þessu er fólk að óska.

Ég kaupi það ekki þegar menn segja að með lagabreytingunni nú sé aðeins verið að breyta um form, innihaldið sé hið sama, því að jafnvel þótt svo væri, sem ég samþykki þó ekki, þá væri það frá þessu fyrirkomulagi sem við ættum að færa okkur yfir í nýtt fyrirkomulag sem byggir á almannaeign á þessari mikilvægu auðlind. Það er þarna sem ríkisstjórnin og Framsóknarflokkurinn bregst, þ.e. að svara ekki þessu kalli tímans en segja það eitt að engu sé verið að breyta. Þetta er reyndar ekki í samræmi við það sem ýmsir umsagnaraðilar hafa sagt um þetta frumvarp. Ég vísa t.d. í Umhverfisstofnun sem fékk sína útreið frá Orkustofnun sem fékk það hlutverk af hálfu ríkisstjórnarinnar að gefa öllum umsagnaraðilum sérstaka einkunn. Menn annað hvort dúxuðu og brilleruðu eða fengu falleinkunn samkvæmt einkunnagjöf Orkustofnunar.

Hæstv. forseti. Ég vil líka taka undir þá áherslu sem fram kom í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar um að hér væri byrjað á röngum enda, við ættum að hefja þessa vegferð með lögum um vatnsvernd og vatnavernd, þar ættum við að hefja vegferðina. Auðvitað eiga öll þau frumvörp sem tengjast vatninu, bæði vernd þess og einnig nýtingu, því að sjálfsögðu þarf einnig að setja lög um nýtingu vatnsins, þau eiga að fara saman þannig að við höfum heildaryfirsýn yfir þetta mikilvæga viðfangsefni og við eigum að gefa okkur góðan tíma til þess. Það er sjálfsagt að stefna að því að lögfesta þessa lagabálka á þessu kjörtímabili en (Forseti hringir.) þá verða líka vinnubrögðin að breytast verulega frá því sem nú er.



[18:35]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Því verður nú ekki logið upp á gömlu kommana í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að þeir séu ekki samkvæmir sjálfum sér. Þeir bregðast ekki aðdáendum sínum.

Hvað var hv. þm. Ögmundur Jónasson að segja hér? Hann var að segja að það eigi að þjóðnýta auðlindina. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs eru þjóðnýtingarsinnar. Þeir vilja afnema séreignarréttinn og þjóðnýta þessar auðlindir. Þetta er gamli sósíalisminn sem komið hefur upp á yfirborðið núna hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. En ég hrósa þeim fyrir að vera bara samkvæmir sjálfum sér. Við vitum þá hvar þeir standa.

Þetta er kjarninn í ágreiningnum milli okkar og gömlu kommana í VG. Við teljum að séreignarfyrirkomulagið á náttúrauðlindum hafi hvar sem er skilað meiri afrakstri, betri umgengni og betri afkomu fyrir fólkið og þjóðirnar þar sem nýtingin fer fram.

Mig langar til þess að biðja hv. þm. Ögmund Jónasson að benda mér á það hvar í víðri veröld þjóðnýtingarstefna sú sem hann er hér að presentera hafi gefist betur en séreignarfyrirkomulagið, hvar í víðri veröld. Ég get nú tekið dæmi þar sem þjóðnýtingin hefur orðið undir í samanburðinum við séreignarfyrirkomulagið. Við getum borið saman afrakstur af olíuvinnslu úr Mexíkóflóa, annars vegar í Mexíkó og hins vegar í Texas. Báðar þjóðirnar sækja í sömu olíulindina. Og hvar er afraksturinn meiri? Mexíkanar sem þjóðnýta sínar olíulindir lepja dauðann úr skel en það drýpur smjör af hverju strái í Texas. Samt sem áður er verið að dæla upp úr sömu olíulindinni.

Af hverju skyldi þetta vera? (Forseti hringir.) Það er vegna þess að sú stefna sem hv. þm. Ögmundur Jónasson er að tala hér fyrir er (Forseti hringir.) algjörlega handónýt.



[18:37]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég efast ekkert um að margir séu sælir og vel smurðir í Texas, ekki síst þeir sem eiga olíulindirnar. En ég er ansi hræddur um að það eigi ekki við um alla íbúa þess ríkis og ekki heldur í Bandaríkjunum.

Hér erum við farin að tala um málin alveg eftir þeim hreinu línum sem ríkisstjórnin greinilega hugsar þessi mál, annars vegar hvort vatnið eigi að teljast til almannaréttinda og til sameignar íslensku þjóðarinnar, til samfélagsins, heyra samfélaginu til, eða hvort við erum að festa í sessi eignarréttarákvæðin, einkahagsmunina. Ég get upplýst hv. þingmann um að einkavæðing á vatninu, neysluvatninu hefur yfirleitt gefist mjög illa. Ég get nefnt fjölmörg dæmi um þetta. Ég get nefnt dæmi í Bretlandi þar sem einkavæðing á vatninu hefur gefið mjög slæma raun. Fyrirtæki sem fjárfestu í vatnslindum og vatnsveitum fjárfestu líka í hótelum í Frakklandi og í vegagerð í Suður-Ameríku og þegar á þurfti að halda var fjármagninu beint þangað en vatnsveiturnar heima fyrir látnar grotna niður. Ég get nefnt Grenoble í Frakklandi þar sem eftir langvinn réttarhöld tókst að ná einkavæddum vatnsveitum aftur úr höndum fyrirtækis vegna slæmrar reynslu.

En ég get nefnt dæmi um mjög góða reynslu af samfélagslega rekinni vatnsveitu. Það eru nú bara Gvendarbrunnarnir okkar sem sjá okkur á Reykjavíkursvæðinu fyrir ágætu hreinu, tæru og góðu vatni. Það hefur gefið mjög góða reynd.



[18:40]
Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Það er gott að heyra það, virðulegi forseti, að hv. þm. Ögmundur Jónasson er sannfærður í trúnni um ágæti þjóðnýtingar. Það leynist engum sem hlustaði á þetta andsvar hans. Það er nú samt sem áður þannig að reynslan hefur sýnt okkur að séreignarrétturinn og séreignarréttarkerfið hefur skilað betri afrakstri, betri umgengni og betri afkomu en þjóðnýtingarkerfið. Við þurfum ekki annað en að líta til gömlu Austur-Evrópu, sem ég veit að hv. þingmaður þekkir líklega betur en ég, til þess að sjá merki um þetta.

Hv. þingmaður segir að með þessu frumvarpi sé verið að festa í sessi eignarréttinn. Það má alveg til sanns vegar færa hjá hv. þingmanni. Það er verið að festa í sessi það réttarástand sem skapað var með vatnalögunum frá 1923 og túlkun á eignarréttinum í framhaldi af setningu þeirra laga sem fram hefur farið í Hæstarétti Íslands. Það má alveg halda þessu fram réttilega eins og hv. þingmaður gerir.

En hann má ekki ruglast á því að almannarétturinn samkvæmt þessu frumvarpi er ekki fyrir borð borinn í þessu frumvarpi eins og hér hefur verið haldið fram. Einstaklingar og fólk mun eftir sem áður, þó svo að þetta frumvarp verði að lögum, hafa alveg sama umgengnisrétt og umferðarrétt og það hafði áður samkvæmt gömlu vatnalögunum eða núgildandi vatnalögum. Hv. þingmaður getur gengið úti í náttúrunni eftir samþykkt þessa frumvarps, verði það að lögum, og fengið sér vatnssopa í lækjarsprænum úti í guðsgrænni náttúrunni. Hann getur jafnvel baðað sig. Þetta er almannarétturinn og hann er virtur. Það er alveg á hreinu. (Forseti hringir.) Ég hvet hv. þingmann til þess þá að lesa frumvarpið betur og kynna sér almannaréttinn.



[18:42]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get alveg róað hv. þingmann með því að ég er búinn að lesa frumvarpið ágætlega og tel mig skilja það nokkuð vel. Ég vil aðeins árétta þetta: Við sem erum að gagnrýna þetta frumvarp erum í reynd ekki að segja að við viljum endilega óbreytt ástand að öllu leyti, alls ekki. Við viljum breytingu en í aðra átt en ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn vilja ganga. Við viljum ekki festa einkaréttarákvæðin í sessi. Við viljum reyna eftir því sem kostur er að losa um þau.

Ég nefndi áðan lögin frá 1998 sem ég tel að hafi verið eitt mesta óheillaskref sem stigið hefur verið og gengur meira að segja lengra, af því að talað var um Texas, í að tryggja eignarhald á auðlindum neðan jarðar, gengur lengra en Texaslöggjöfin gerir því að íslenska ríkisstjórnin vildi fara enn þá lengra niður en Texasbúar þó gerðu þegar þeir skilgreindu hvað landeigandi ætti að eiga tilkall til neðan jarðar.

Ég vil bjóða hv. þingmanni á ráðstefnu sem haldin verður í lok vikunnar klukkan níu. Þá kemur David nokkur Hall sem er prófessor við Háskólann í Greenwich í Englandi og flytur fyrirlestur um þetta hugðarefni hv. þingmanns: Hver er reynslan af einkavæðingu á vatninu? Ég vona að hv. þingmaður láti sjá sig á þessari ráðstefnu því að auðvitað eigum við að ræða það málefnalega hvað sé rétt og hvað rangt í þessum efnum.



[18:44]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa farið vítt og breitt um völlinn í umræðunni í dag. Ég hef kallað sumar ræður sem hv. þingmenn hafa haldið hér lýðskrum, lýðskrum því að þær hafa að mestu leyti ekki fjallað um efnisatriði þessa frumvarps. Ég vil fá það á hreint hjá hv. þingmanni, af því að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa látið að því liggja að almannaréttur muni skerðast gagnvart aðgengi að neysluvatni eða frjálsri för um vötn, hvort það liggi í þessu frumvarpi hér, hvort við séum að ræða um það að verið sé að skerða hér réttindi almennings, sem ég tel ekki vera og hef farið yfir í andsvörum mínum fyrr í dag. Ég vil fá svar við þessari spurningu.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að kveinka mér undan því að Framsóknarflokkurinn og framsóknarmenn séu gagnrýndir í þessari umræðu. Til marks um umræðuna þá held ég að Framsóknarflokkurinn hafi oftar verið nefndur á nafn en vatnið sjálft í þessari umræðu. Þó erum við að ræða um vatnalög. Það má hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vera ljóst að við framsóknarmenn munum standa vörð um þann eignarrétt sem hefur myndast á umliðnum öldum, ekki síst með tilkomu vatnalaganna árið 1923. Við munum standa vörð um þau réttindi bænda og annarra landeigenda sem þeir hafa áunnið sér í gegnum árin. (Gripið fram í: Hvaða annarra landeigenda?)

Hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs tala hér um eignaupptöku. Þeir vilja sjá þá breytingu að íslenska vatnið verði almannaeign eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði áðan. Hvernig eigum við hv. þingmenn að skilja þann málflutning á annan veg en að það eigi að fara í stórfellda eignaupptöku hringinn í kringum landið með þvílíkum afleiðingum og þjóðfélagsbreytingum sem það mundi leiða af sér? Hæstv. forseti, guð forði okkur frá því að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs komist í meiri hluta og í ríkisstjórn.



[18:46]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Minn málstaður er sá að íslenska þjóðin, almenningur á Íslandi, samfélagið hafi aðgang að vatninu í landinu og að vatnið teljist til almannaeignar. (Iðnrh.: Þjóðnýting.) Þjóðnýting, segir hæstv. ráðherra Valgerður Sverrisdóttir.

Ég vil aðeins segja eitt varðandi Framsóknarflokkinn og vatnið, menn mega ekki kveinka sér yfir því (Gripið fram í.) að minnst sé á Framsóknarflokkinn. Ég var einvörðungu að vísa til þess að formaður þingflokks Framsóknarflokksins, Hjálmar Árnason, lýsti því yfir opinberlega á fundi fyrir fáeinum dögum að vatnafrumvarpið, ef það kæmi fram á komandi vikum, þá yrði það í mjög breyttri mynd frá því frumvarpi sem lá hér fyrir síðastliðið vor.

En aðeins um þennan málefnalega ágreining sem hér er uppi, þá leggjum við áherslu á — að með nýjum vatnalögum og með öllum þeim lagabálki sem nú er að birtast, því að gamla vatnalagafrumvarpið frá 1923 birtist í ýmsum myndum, fleiri en einu frumvarpi — að gerðar verði ákveðnar áherslubreytingar. Menn skulu vera sér mjög vel meðvitaðir um það að svo geti farið að eignaupptaka á vatni geti orðið á öðrum forsendum en menn kannski ætla. Ég minni t.d. á hvað er að gerast núna í GATS-viðræðunum þar sem Evrópusambandið hefur gert þá kröfu til margra viðskiptaríkja sinna að vatnið verði fært undir GATS-samninginn.



[18:48]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég var alls ekki að kveinka mér undan því að við framsóknarmenn værum mikið í umræðunni í þessu máli, þvert á móti. Ég held að sú athygli sem Framsóknarflokkurinn fær vegna þess sé af hinu góða og að sama skapi held ég að þetta verði Vinstri hreyfingunni – grænu framboði ekki til vegsauka, a.m.k. ekki í hinum dreifðu byggðum.

Hæstv. forseti. Ég spurði hv. þingmann einnar spurningar, hvort hann teldi að það frumvarp sem við værum að ræða hér hefði áhrif á aðgengi almennings að neysluvatni eða frjálsri för um vötn. Og af því að hv. þingmaður minntist á samflokksmann minn, hv. þm. Hjálmar Árnason, þá er það vissulega rétt að hann hafði ákveðna fyrirvara við þetta mál. Það er búið að gera breytingar á þessu máli á milli þinga. Meðal annars hefur verið tryggt í lagatexta að réttur almennings muni standa óhaggaður hvað varðar frjálsa för almennings um vötn. Það er geirneglt og því hefur verið breytt á milli þinga.

Í öðru lagi er kveðið á um að samráð skuli haft á milli umhverfisráðuneytisins, væntanlega undirstofnana þess, og iðnaðarráðuneytisins við gerð reglugerða er snerta tilkynningarskyldar framkvæmdir. Þetta eru veigamiklar breytingar í þá átt að færa okkur nær umhverfinu og ég hélt að hv. þm. Ögmundur Jónasson mundi gleðjast yfir þessum breyttu forsendum. Ég hafði sjálfur ákveðnar efasemdir og áhyggjur af því að frjáls för fólks væri kannski ekki nægilega geirnegld í fyrra frumvarpi og það var svo sem rætt ítarlega í nefndinni. Nú er það geirneglt og hv. þingmaður ætti að fagna því að upp úr stendur að réttindi almennings, hvort sem það er til neysluvatns, aðgengi eða frjáls för um vötn, eru tryggð í því frumvarpi sem við erum að ræða hér og hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ættu að fagna því.



[18:50]
Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bara árétta það sem fram hefur komið, að í þessu frumvarpi eins og það liggur fyrir, eru mjög ákveðin eignarréttarákvæði og hv. þm. Birkir Jónsson sagði sjálfur í ræðustól áðan að það væri verið að festa eignarréttarákvæðin í sessi. (Gripið fram í.)

En ég legg áherslu á það sem ég hef verið að segja: Við lifum í breyttum heimi aukinna alþjóðaviðskipta, heimi þar sem verið er að taka grunnþjónustu á borð við vatn og færa inn í heim viðskiptanna. Við þurfum að verjast þessu, við þurfum að taka mið af breyttum aðstæðum.

Við þurfum líka að taka mið af ýmsu sem er að breytast í umhverfi okkar, í vistkerfinu og umgengni um það. Það er þetta sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum að kalla eftir. Við erum að kalla eftir lagasmíð sem tekur mið af þessu. Það dugar ekki að horfa alltaf aftur til ársins 1923 og segja: Við erum engu að breyta frá þeim tíma. Við lifum bara í breyttum heimi. Það eru aðrar aðstæður og við verðum að bregðast við þeim, bregðast við kalli tímans. Ríkisstjórnin fellur á prófinu um að gera það.

Við erum einnig að kalla eftir breyttri forgangsröðun. Við viljum byrja á því að ræða frumvörp sem lúta að vatnsverndinni og síðan taka alla þessa lagasmíð og hafa hana undir í einu.



[18:52]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er þess fýsandi að réttur allra til heilnæms vatns verði stjórnarskrárbundinn. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur líka varað við því að eignamenn og einkarekin grunnþjónusta geti verið skaðleg fyrir samfélagið, ekki hvað síst í hinum dreifðu byggðum. Við höfum t.d. rætt það í fjölda þingræðna þegar þetta hefur verið til umræðu, og skyld mál, að einkarekin grunnþjónusta í samfélaginu, t.d. á borð við vatnsveitur eða orkuveitur, er bæði dýrari og óhagkvæmari fyrir samfélagið og afleiðingar hennar geta verið mjög alvarlegar þegar farið er að selja þá þjónustu á markaðstorgi.

Það er ekki að ófyrirsynju að við ræðum þetta í tengslum við vatnalagafrumvarp hæstv. iðnaðarráðherra því að það vill svo til að vatnið er ein af þeim auðlindum sem hæstv. iðnaðarráðherra vill koma böndum á og vill skýra á þeim nótum sem vatnalagafrumvarpið gerir ráð fyrir, að það sé einkaeignarréttur á vatni og hann gangi öllu framar. Það er þetta sjónarmið sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð er að mótmæla. Og það er auðvitað alveg komið í ljós, t.d. í máli hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar hér áðan, að það er spurning um að leiða þetta séreignarfyrirkomulag í lög sem staðfestir þá það sem við andstæðingar hæstv. iðnaðarráðherra í þessum efnum höfum haldið fram í umræðunni: Þetta frumvarp er ekki bara formbreytingarfrumvarp, þetta er frumvarp sem í grundvallaratriðum breytir þeim nýtingarrétti, hagnýtingarrétti, sem hefur verið á vatninu. (Iðnrh.: Nei.) Víst gerir það það. Það eru umsagnir sem við höfum því til staðfestingar sem við höfum verið að vitna í hér í dag. (Gripið fram í.)

Vitlausar umsagnir, segir hæstv. iðnaðarráðherra. Ég held að hæstv. iðnaðarráðherra ætti að gæta að orðum sínum hér. Ég ætla að fá að vitna til tveggja þessara vitlausu umsagna. Önnur er frá Umhverfisstofnun og hin er frá Náttúrufræðistofnun. Það er ekki að ófyrirsynju að þessar tvær stofnanir gefa umsagnir um þetta mál.

Ég ætla fyrst að vitna í umsögn frá Náttúrufræðistofnun Íslands sem dagsett er 2. mars 2005, en þar segir, með leyfi forseta:

„Í umsögn um frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum lagðist Náttúrufræðistofnun eindregið gegn þeirri fyrirætlun að skilgreina vatn … sem jarðræna auðlind og fela umsjón þess iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun. Vatn er í grundvallaratriðum frábrugðið öðrum jarðefnum að því leyti að það finnst náttúrlega í þrenns konar formi, þ.e. í föstu, fljótandi og loftkenndu formi … og er aldrei kyrrt á einum stað eða einu eignarlandi heldur á stöðugri hringrás um heiminn. Stofnunin lagði áherslu á að þótt vatn geti verið orkugjafi, og þar með verslunarvara, þá sé það fyrst og fremst lífsnauðsynlegt efni öllum mönnum og öllum lífverum. Forgangsröðin varðandi umsjón með vöktun vatns er þess vegna hollustuhættir, umhverfi og orkunýting en ekki öfugt.

Vatn er lífsnauðsynleg auðlind og arfleifð alls mannskyns og alls lífríkis á jörðinni. Þessi hugsun er ráðandi í lagabálkum í nágrannalöndum okkar og kemur vel fram í vatnatilskipun ESB frá árinu 2000.“

Þetta er ein af þessum vitlausu umsögnum sem hæstv. iðnaðarráðherra kallar svo.

Ég vil halda því fram að Náttúrufræðistofnun hafi hér mjög mikið til síns máls enda leggst hún gegn því að sértæk lög um eignarhald og umsýslu með vatni séu lögfest áður en fyrir liggur hvernig vatnatilskipunin verður innleidd.

Önnur „vitlaus“ umsögn, svo vitnað sé til orða hæstv. iðnaðarráðherra, er frá Umhverfisstofnun, en sú umsögn var mjög yfirgripsmikil. Henni fylgdi sérstök greinargerð um eignarrétt eða nýtingarrétt á vatni og sömuleiðis greinargerð um stöðu vatnalaga. Hún er eins og ég segi afar ítarleg en niðurstaða hennar er m.a. þessi, með leyfi forseta:

„Samantekið telur Umhverfisstofnun að hvað varði fyrirhugaðan rétt landeigenda sé frumvarpið í andstöðu við alþjóðlegar viðmiðanir og skuldbindingar, löggjöf í nágrannalöndum, óhagstætt hagsmunum almennings og íslenska ríkisins. Ekki er tekið tillit til líffræðilegs og samfélagslegs mikilvægis vatns og nægu aðgengi að því. Leggst stofnunin því alfarið gegn því að þessi leið verði farin.“

Hæstv. forseti. Þessar tvær umsagnir fóru afar mikið fyrir brjóstið á hæstv. ráðherrum, bæði iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra. Forstöðumenn þessara stofnana komu í útvarpið 6. maí síðastliðinn, í þátt á Rás 1 sem heitir Samfélagið í nærmynd og tjáðu sig um þær. Hæstv. umhverfisráðherra sá síðan ástæðu til þess þremur dögum síðar, þann 9. maí 2005, að atyrða forstöðumenn þessara stofnana, hélt því fram í Speglinum í Ríkisútvarpinu að málið yrði rætt við forsvarsmenn stofnananna, sagðist hafa verið undrandi á viðbrögðum þeirra og menn hefðu gengið of langt, sérstaklega varðandi það að senda inn sérstaka álitsgerð um nýtingu og eignarrétt sem hæstv. umhverfisráðherra taldi allsendis óeðlilegt að Umhverfisstofnun legði fyrir þingnefnd. Hún sagði þetta ekki vera lögfræðilegt álitamál og það ætti einfaldlega ekki heima inni í umsögn af þessu tagi því að þetta væri hápólitískt mál.

Atyrðing hæstv. umhverfisráðherra á forstöðumönnum þessara stofnana í útvarpinu í maí í vor er auðvitað til marks um það hversu mikið umsagnir þeirra fóru fyrir brjóstið á hæstv. ráðherrum.

Í upphafi þessarar umræðu sem hér fer fram, 1. umr. um frumvarpið á þessu þingi, fullyrti hæstv. iðnaðarráðherra að stofnanir umhverfisráðuneytisins væru nú fullkomlega sáttar við frumvarpið í nýrri mynd. Nú vil ég fá staðfestingu á því frá hæstv. umhverfisráðherra, og ég vona satt að segja, virðulegi forseti, að hún sé enn þá viðstödd og að hlusta á þessa umræðu eins og hún hefur verið það sem af er þessum degi. Ég treysti því að fá hér svar frá hæstv. umhverfisráðherra áður en umræðunni lýkur, um hvort stofnanir umhverfisráðuneytisins séu fullkomlega sáttar við málið í þessum nýja búningi eins og hæstv. iðnaðarráðherra lýsti hér yfir fyrir örfáum dögum að væri. En í umræðunni varð hæstv. iðnaðarráðherra á það aumkunarverða mismæli að halda því fram að þetta frumvarp snerist eingöngu um yfirborðsvatn og afhjúpaði þá svo mikla vankunnáttu á málinu og auðvitað skortir fullkomlega dýpt í málflutning hennar um þetta þegar hún leyfir sér að mismæla sig á þann hátt sem hún gerði við umræðuna þá (Gripið fram í.) og vildi svo meina að gagnrýnin á frumvarpið væri byggð á misskilningi. Þegar hæstv. ráðherra skortir rök í pólitískri umræðu þá eru hlutirnir alltaf byggðir á misskilningi. Ég vil biðja hæstv. ráðherra að venja sig af því að halda því fram að við hv. þingmenn í þessum sal séum haldin einhverjum misskilningi ef við gagnrýnum mál hennar og málflutning, því að það er ekki svo. Við erum ekki haldin neinum misskilningi um þetta mál. Við erum hins vegar í grundvallaratriðum ósammála þeirri forgangsröðun sem hæstv. iðnaðarráðherra setur hér fram.

Ég krefst þess að því verði svarað í þessari umræðu hvers vegna hæstv. iðnaðarráðherra sé svona fylgin sér í þessu máli. Hv. þm. Jóhann Ársælsson bað hana að svara því við upphaf umræðunnar hvað það væri sem ræki hana áfram. Hv. þingmaður sagði: Það er ekki einasta það að vatnalögin séu komin til ára sinna sem rekur hæstv. ráðherra áfram, það er eitthvað annað á bak við þetta. Ég krefst þess að hæstv. ráðherra svari því. Hvers vegna má ekki bíða eftir hinum frumvörpunum sem við, sem höfum andmælt þessu máli, teljum að eigi að fara hér samferða í gengum þingið? Þá erum við að tala um vatnsverndarlagafrumvarp og endurbætt frumvarp til laga um nýtingu og rannsóknir á jarðrænum auðlindum. Hver er málefnaleg ástæða þess að ríkisstjórnin getur ekki sett þessi þrjú frumvörp samferða í gengum þingið þar sem iðnaðarnefnd og umhverfisnefnd gætu fjallað um málin sameiginlega og hægt væri að finna sameiginlega niðurstöðu sem sátt gæti ríkt um?

Ég er sannfærð um að með öðrum vinnubrögðum en þessum bolabrögðum og þessum einstrengingshætti ríkisstjórnarinnar mætti ná hér góðri niðurstöðu. En hæstv. ríkisstjórn skortir auðvitað skynsemi til þess að fara þá leið og mér þykir það mjög miður.

Hæstv. forseti. Ég tel að í þessari umræðu kristallist sá grundvallarágreiningur stjórnarandstöðu og ríkisstjórnarflokkanna og tel að hér sé mál sem er virkilega þess virði að við reynum að lenda í einhverri sátt. Ég held að ríkisstjórnin hafi í hendi sér leið til þess að gera það og nú skulum við bara láta reyna á skynsemi hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum.



[19:02]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Athyglisvert er að hæstv. iðnaðarráðherra og félagar hennar úr Framsóknarflokknum, hv. þingmenn nokkrir sem hér hafa talað, hafa tekið upp þá varnartaktík í þessu máli að snúa því upp í einhvers konar hugmyndafræðilega deilu milli Framsóknarflokksins og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þar sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð er útmáluð sem nýkommúnismi en Framsóknarflokkurinn standi hins vegar í sínum gömlu sporum og styðji bændur.

Ég er ekki vanur að bera blak af þeirri umræddu hreyfingu svo sem, en ég tel nú að þetta sé ákaflega ósanngjarnt gagnvart þeim þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hér hafa talað. Það að setja það fram úr hugmyndafræði sem átti við eiginlega fyrir tíma kalda stríðsins að annaðhvort séu menn einkaeignarsinnar eða þjóðnýtingarsinnar, eins og það var orðað hér af framsóknarmönnum og reyndar af sérstökum vini Framsóknarflokksins, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, sem kom ráðherranum til bjargar og Framsóknarflokknum til varnar fremur óvænt, sú uppstilling á hlutunum er svo gamaldags að eiginlega er alveg furðulegt að menn skuli draga hana hér upp.

Það er sorglegt, forseti, að Framsóknarflokkurinn — og reyndar Sjálfstæðisflokkurinn líka, það er kannski eðlilegra með Sjálfstæðisflokkinn — skuli vera á þeirri skoðun gagnvart rétti manna til eignarnýtingar eða -umráða að þar sé einungis um að ræða einkaeignarrétt einstaklings eða fyrirtækis annars vegar og hins vegar einhvers konar þjóðnýtingu, einhvers konar ríkiseignarrétt í sovéskum stíl. Samt er þetta sá flokkur sem gert hefur stjórnarsáttmála við Sjálfstæðisflokkinn, sem við erum kannski ekki hrifin af ýmis hér, en eitt er þó gott í honum og við höfum verið að reyna að fá það fram að því sé fylgt, og það er að setja ákvæði um sameign fiskimiða, þjóðareign, í stjórnarskrá.

Hvað er sú eign? Er það einkaeign ríkisins? Það finnst mér furðulegt að sé vegna þess að menn hljóta að hafa hugsað það öðruvísi. Eignarrétturinn er nefnilega ekki svona einfaldur eins og þeir hv. þingmenn Birkir Jón Jónsson og Sigurður Kári Kristjánsson hafa sameinast um að telja, heldur er að sjálfsögðu til eins konar sameign þjóðarinnar yfir ákveðnum hlutum. Sú eign þjóðarinnar sem Þingvellir heita er auðvitað allt öðruvísi eign þjóðarinnar en ráðherrabíll hæstv. ráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Það þarf ekki neinar óstjórnlegar gáfur til að sjá að það getur ekki verið sami eignarrétturinn sem yfir því ríkir. Það er það sem a.m.k. við samfylkingarmenn — og fleiri, að ég hygg þegar ég heyri vini mína úr Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tala, eigum við, þ.e. að það sé viðurkennd þjóðareign, sameign þjóðarinnar á vatni. Er það fersk og frumleg hugmynd? Það fer allt eftir því hvernig á það er litið.

Í lögum sem enn gilda nr. 15 frá 20. júní 1923, vatnalögum, segir í 2. gr., með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Það er að vísu ekki sérstaklega í vatnalögunum fjallað um eignarréttinn en orðanna hljóðan og allt umhverfi sem þessi lög draga upp, öll sú mynd sem þau lög draga upp gera ráð fyrir því, alveg eins og eldri lög sem konungar settu, alveg eins og Jónsbók, alveg eins og lagasafnið í Grágás, sem þjóðveldismenn, áar okkar hinir elstu sem íslenskir geta kallast, settu sér, að vatnið sé ekki einkaeign nokkurs manns heldur fylgi landareigninni ákveðinn nýtingarréttur, ákveðinn umráða- og hagnýtingarréttur. Það er þetta sjónarmið vatnalaganna, nr. 25/1923, Jónsbókar og Grágásar sem við stjórnarandstæðingar erum að verja.

Við segjum enn fremur að þróun í nútímanum og ný hugsun í lagasetningu í öðrum löndum eigi að leiða til þess að við förum yfir vatnalögin á öfugan hátt við það sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur gert, að við eigum að gæta almannaréttarins fyrst og fremst og að við eigum að skoða vatnalögin í því ljósi hvar hægt kunni að vera að draga úr óþarfri einkaeign, m.a. vegna þess, eins og ég rakti í fyrri ræðu minni, að staða þjóðfélagsmála, ég er sammála því í greinargerðinni, og samfélagsins er önnur núna en 1923.

Árið 1923 sammæltust menn um að fela bændastéttinni með nokkrum hætti, sem þá var sterk og voldug og var flestöll í flokki sem hét Framsóknarflokkurinn og var einu sinni til sem slíkur og stóð þá undir nafni, henni var í rauninni falin ákveðin umsýsla og aðgæsla þessarar sameignar þjóðarinnar. Nú er það því miður ekki lengur svo, eins og ég sagði, í 1. gr. Bændur eiga að vísu töluvert af landi enn sem betur fer en ýmsir aðrir aðilar eru óðum að eignast það land sem bændur áttu áður. Þó að ég hafi ekkert á móti því að menn eignist land — og gaman væri nú að eiga land og hafa hagnýtingarrétt á vatni sem þar kæmi upp — þá eru þeir auðvitað að því fyrst og fremst í gróðaskyni umfram það sem bændur hugsa, sem líta á landið með öðrum hætti þó að þeir vilji auðvitað hafa af því nokkurn hag að eiga það. Málið snýst um þetta og þess vegna eru spurningar Sigurðar Kára Kristjánssonar og Birkis Jóns Jónssonar og fleiri háttvirtra framsóknarmanna í umræðunni út í hött.

Svo er önnur varnartaktík framsóknarmanna og kom fram í máli hv. þm. Jónínu Bjartmarz, sem því miður er farin, að spyrja: Af hverju er þetta breyting? En Jónína Bjartmarz sýndi þessari umræðu ekki þá virðingu að vera við hana frá upphafi og er nú farin, vegna þess að það var nákvæmlega rakið a.m.k. í máli mínu og ég held margra annarra sem hér voru.

Sú breyting sem um ræðir er frá 2. gr., sem ég las upp úr vatnalögunum sem gilda, og yfir í 4. gr. í frumvarpinu sem heitir Eignarréttur að vatni — orð sem aldrei kemur fyrir í vatnalögunum — og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Nú er ég ekki hálærður í lögum en ég tel að það víki öðruvísi við með hina jákvæðu skilgreiningu eignarumráða eða hvað það á að kalla heldur en þá neikvæðu. Dómstólarnir hafa vissulega lögjafnað og túlkað vatnalögin á þann hátt að réttur landeiganda sé töluvert mikill. En það er þó þannig að þingið getur snúið því við og það getur gert það með lagi án þess að því fylgi fébætur eða annað ámóta. Það er viljayfirlýsing þingsins og breyting þess á vatnalögunum frá 1923 sem þar skiptir máli og yfirskyggir þá túlkun eða óskráðu reglur sem fylgt hafa í kjölfarið.

Ég rakti það líka og vísaði m.a. til Umhverfisstofnunar hvernig í tveimur atriðum er alveg augljóst að hér er ekki bara formbreyting á ferðinni. Annars vegar vegna þess að undir þessu frumvarpi liggur miklu fleira en lá undir vatnalögunum. Í fyrsta lagi ýmis form á vatni, í öðru lagi grunnvatn sem sett er beinlínis undir vatnalögin og þá skiptir minna máli hvort það er undir lögunum frá 1998 vegna þess að það sem við ættum núna að vera að gera er að fjarlægjast þá skilgreiningu sem var 1998 í staðinn fyrir að slá henni fastri.

Í öðru lagi að hugsanlega er nýting annars konar á vatni en nú tíðkast. Þá mundi hún vera núna landeigandanum og vatnseigandanum heimild en væri það ekki samkvæmt vatnalögunum frá 1923, sem við ættum að taka upp í núverandi löggjöf óbreytta hvað þessa eign varðar.

Gjarnan vildi ég tala meira um þetta og var með miklu lengri ræðu en það er því miður ekki unnt svo ég geymi það til framtíðar. En ég verð að segja að lokum að á sama hátt og þetta frumvarp er framsóknarráðherranum Valgerði Sverrisdóttur ekki til sæmdar, hafa umræðurnar heldur ekki verið Framsóknarflokknum, hinum fornfræga bændaflokki, til sæmdar.



[19:12]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það hefur verið ansi merkileg umræða um þetta frumvarp til vatnalaga. Hér hafa verið ákveðin hugmyndafræðileg átök þar sem í ljós hefur komið að málið hefur verið sett svo mjög ankannalega upp af sumum að annars vegar snúist það um átök kommúnisma og hins vegar últra hægri stefnu þar sem hæstv. iðnaðarráðherra er í forsvari fyrir, þ.e. einkarétt til náttúruauðlinda, og hins vegar kommúnismi þar sem almannaréttur takast á. Þetta er auðvitað vitleysisumræða. Ég hefði talið að Framsóknarflokkurinn ætti að hugsa sig betur um áður en hann færi að leggja sama vitleysisfrumvarpið fram á ný og gera það síðan að þessari umræðu, snúa þessu upp í andhverfu sína.

Ég tel að þetta vatnalagafrumvarp sé illa unnið. Ég fór í gegnum það í iðnaðarnefnd í vor, á síðasta þingi. Ýmsir hnökrar komu fram á frumvarpinu sem ég hefði talið að menn hefðu átt að hafa haft vit á að sníða af, burt séð frá efni frumvarpsins.

Til dæmis hefur komið fram að allar þær skilgreiningar sem eru í frumvarpinu eru mjög illa unnar. Ég þakka mínum sæla fyrir að menn ræði ekki frumvarpið á degi íslenskrar tungu. Hvað er t.d. vatnsleg, og ýmsir orðaleppar? Það er alveg ótrúlegt að lesa frumvarpið. Einnig 11. gr. frumvarpsins. Mjög mikil umræða var um hana í nefndinni en ekki er gerð nokkur tilraun til að lagfæra 11. gr. þó svo að hún sé algjörlega óskiljanleg.

Ég ætla að lesa, með leyfi forseta, upp úr þessu frumvarpi sem ég tel þinginu til skammar að taka á ný til umræðu án þess að hafa lagfært það, burt séð frá efni frumvarpsins. En í miðri greininni segir:

„Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði og fylgir vatnsbotn þá landi sem þurrt land væri.“

Þetta skilur enginn. Við ræddum lengi í nefndinni hvað þetta þýddi í raun og veru. Það væri ágætt ef hv. þingmaður, formaður iðnaðarnefndar, segði okkur frá því í umræðunni hvers vegna hann tók ekki á þessu. Kom hann ekki þessum skilaboðum til flokkssystur sinnar, hæstv. iðnaðarráðherra, og fór í gegnum að þetta er ótækt, bæði þessar skilgreiningar, sem fjölmargar eru illskiljanlegar? Er hægt að bera þetta á borð enn á ný og þannig að þingið verði að athlægi þegar málið verður á ný sent til umsagnar?

En svo við snúum að efni frumvarpsins og þeim hugmyndafræðilega ágreiningi sem virðist hafa komið upp milli almannaréttar og einkaréttar þá er eins og Framsóknarflokkurinn sé farinn að reka áróður fyrir einkaréttarhagsmunum og telji þá jafnvel geta strítt gegn almannahagsmunum, séu almannahagsmunir í forgrunni. Benda mætti á umræðuna um að verði þeir ofan á sem skilgreina þetta með öðrum hætti, þ.e. að almannahagsmunir séu í forgrunni, þá geti það bitnað að einhverju leyti á hagsmunum bænda.

Ég verð að segja það að ég hef bara ekki séð slík vandamál í núgildandi lögum. Hvaða vandamál er verið að leysa með frumvarpinu? Það væri ágætt að menn færu aðeins yfir það. (Gripið fram í.) Það hefur bara ekki komið fram. Eina röksemdin er að lögin séu gömul. Allir eru sammála, og ég trúi ekki öðru en hv. formaður iðnaðarnefndar sé því sammála að ýmislegt megi betur fara í frumvarpinu, t.d. skilgreiningar og ýmsir orðaleppar. Hvers vegna fara menn aftur með sömu vitleysuna í gegnum þingið? Mér finnst það með ólíkindum.

Annað sem við þurfum að ræða er að þegar fram koma athugasemdir, ekki bara einhverjar smávægilegar athugasemdir heldur athugasemd frá meginstofnun umhverfisráðuneytisins, hæstv. iðnaðarráðherra, þá gera menn ekkert með það. Menn svara því ekki nema með skætingi, eins og fram kom í ræðu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Það kom fram að hæstv. umhverfisráðherra var að skamma undirstofnun sína, helstu stofnun ráðuneytis síns í stað þess að svara þeirri umsögn efnislega og fara í gegnum það.

Að hverju kemst Umhverfisstofnun? Hún kemst að því, eftir að hafa lesið þetta frumvarp gaumgæfilega ... (BJJ: Ekki þetta frumvarp, heldur gamla frumvarpið.) Gamla frumvarpið, segir hv. formaður iðnaðarnefndar. Frumvarpið sem hér er um að ræða, hið svokallaða nýja frumvarp, er nánast bara afrit af því gamla. Við erum að fjalla um nákvæmlega sama hlutinn. Menn geta ekki tekið út augljósa orðaleppa og vitleysisskilgreiningar. Það er hægt að rekja nokkur atriði.

Hvað er mannvirki? Ég bið þá sem heyra, að spyrja sjálfa sig: Hvað er mannvirki? Maður hefði nú haldið að það gæti nú verið eitthvað sem maðurinn hefði lagt hönd á og búið til. Nei, það er samkvæmt 12. grein skilgreiningarinnar „hvers konar manngerðar tilfæringar, t.d. brú eða virkjun“. Þetta er mannvirki samkvæmt þessu frumvarpi.

Hvað er vatnsleg? Samkvæmt þessu frumvarpi er vatnsleg „lægð í landi, sem vatn stendur í, vatnsfall eða stöðuvatn, ásamt tilheyrandi botni og bökkum allt að vatnsborðsstöðu við háflæði. Lönd sem flæðir yfir ofan háflæðis teljast ekki til vatnslegs“. Þá vitum við það. Þetta eru merkilegar skilgreiningar.

Þegar maður sér að ekki hefur verið tekið mark á athugasemdum heldur haldið áfram með vitleysuna þá staðfestir það grun manns um að hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki hugsað þetta mál til, líkt og mörg önnur mál sem hæstv. ráðherra hefur farið með í gengum þingið og jafnvel glaðst ógurlega og verið með mikil fagnaðarlæti. Í því sambandi minnist maður raforkulaganna. Það er alltaf verið að vitna til þess að þetta nýja frumvarp sé til varnar bændum. En það kemur aldrei fram hvaða vandamál það á að leysa fyrir bændur. Hins vegar hefur komið fram, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, varðandi raforkulögin, sem var fagnað svo ægilega af framsóknarmönnum þannig að fagnaðarlætin ætluðu aldrei að stoppa, að þegar bændur fengu raforkureikninginn í kjölfar fagnaðarláta framsóknarmanna var ekki neinn fögnuður. Það eru til dæmi um 50–100% hækkun.

Mér finnst með ólíkindum að Framsóknarflokkurinn skuli ekki sjá að sér vegna þess að það liggur ekkert á að fara með frumvarpið í gegn. Það er með ólíkindum að framsóknarmenn skuli enn og aftur fara með svona dellu í gegnum þingið.

Það sem er sorglegt en satt er að þegar umsagnirnar, sem að hafa komið fræðimenn með háskólagráður sem legið hafa yfir frumvarpinu mjög lengi, hafa verið ræddar þá hefur hæstv. iðnaðarráðherra bara galað að þetta séu vitlausar umsagnir. Ekkert annað, þetta er bara vitleysa. Ef þetta er vitleysa væri þá ekki borðleggjandi að leggja fram einhvern rökstuðning fyrir því að þetta sé vitleysa? Maður hefði talið það eðlilega kröfu, sérstaklega þegar í hlut á meginstofnun umhverfisráðuneytisins. Það er lágmark. Sérstaklega er það mikilvægt þegar hæstv. ráðherra hefur æ ofan í æ gengið fram með vitleysu, lofað í miðjum fagnaðarlátunum að raforka skyldi t.d. ekki hækka. En síðan sér fólk á landsbyggðinni að það hækkar gríðarlega mikið.

Ég hefði talið, áður en menn fara í að raska almannaréttindum til að tryggja einkaréttindi, sem í sjálfu sér má athuga, ættu þeir að fara rækilega í gegnum athugasemdirnar í stað þess að gala bara: Vitleysa.



[19:23]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Nú kom að því, sem ég hélt að ekki mundi verða, að ég tek til varna fyrir frumvarpið gegn árásum hv. 10. þm. Norðvest. Mér finnst „vatnsleg“ ágætt orð og skýringin á því nokkuð góð. Mér sýnist að í frumvarpinu haldi höfundar þess áfram að nota fornleg og væn íslensk orð um ýmsa hluti.

Hins vegar verð ég að taka undir með honum um skýringuna á „mannvirki“, að það er ákaflega undarleg skýring, sem er svona, með leyfi forseta: „... hvers konar manngerðar tilfæringar, t.d. hús, brú eða virkjun.“

Ég hef ekki flett þessu orði upp en það er undarlegt og ég vona að hæstv. ráðherra svari þessari athugasemd þingmannsins í lokaræðu sinni í kvöld eða síðar eftir því hvernig það verður.

Mig minnir að hjá Þórbergi Þórðarsyni hafi líka verið „tilfæringar“ en þær hafa verið með öðrum hætti en þessar, nefnilega tilfæringar milli pilts og stúlku. Ég vona að mannvirki séu ekki nefnd í þess konar skilningi.

Gallinn við þetta frumvarp er reyndar að þótt margt sé í því vel orðað og samið þá hefur, einkum við endurflutning þess, láðst að lesa það yfir aftur og setja inn það sem átti að setja inn, eins og ég vakti athygli á áðan og hæstv. ráðherra hefur enn ekki svarað.



[19:25]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er góð umræða um frumvarpið sem ég hefði talið að ætti að hafa farið fram í iðnaðarráðuneytinu og hjá þeim sem útbjuggu þetta frumvarp. Þessi umræða hefur að einhverju leyti farið fram í iðnaðarnefnd.

Þær eru fleiri skilgreiningarnar sem maður áttar sig ekki á og (Gripið fram í.) af mörgu að taka. Til dæmis mætti líta á skilgreiningu á orkuveri. Það er „land eða lóð, hús og önnur mannvirki til orkuvinnslu eða breytingar einnar tegundar orku í aðra“. — Breytingar einnar tegundar orku í aðra er orkuver. Maður áttar sig ekki alveg á hvað menn eru að fara með þessu. Það er sérkennilegt, þegar menn eru gerðir afturreka með þetta frumvarp, að þá geti þeir ekki í farið í gegnum þetta. Ég get ekki ímyndað mér að það sé orkuver að breyta einni tegund orku í aðra.

Það er af mörgu að taka í frumvarpinu. Ég skil í raun ekkert hvað hæstv. iðnaðarráðherra liggur á og það hefur ekki komið skýrt fram. Eina skýringin er að þetta sé eitthvert gamalt frumvarp frá nítjánhundruð og tuttugu og eitthvað. Það eru einu rökin. Ég tel að þegar hæstv. iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra voru gerðir afturreka með frumvarpið hefðu þær átt að sjá sóma sinn í að fara í gegnum þá gagnrýni sem kom fram í iðnaðarnefnd.

Það vekur náttúrlega spurningar um hvort formaður iðnaðarnefndar, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, hafi ekkert komið umræðunni áleiðis til ráðuneytisins. Það er náttúrlega íhugunarefni ef þar skortir á tengsl. Ég tel að hv. þingmaður ætti að (Forseti hringir.) greina okkur frá þeim samskiptum.



[19:27]
Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Um margt mælist hv. 10 þm. Norðvest. vel þótt hann hafi ekki svarað vörn minni fyrir vatnslegið. En hann hefur að mörgu leyti rétt fyrir sér, þegar maður fer að skoða þetta nánar. Hér er t.d. skilgreining á „rennsli“, sem er svona, með leyfi forseta:

„Hreyfing vatns, hvort heldur er af manna völdum eða náttúru.“

Það má auðvitað segja að við fyrstu sýn slær þetta mann nokkuð vel, að rennsli sé hreyfing vatns, hvort sem það rennur sjálft sökum þyngdaraflsins eða að menn eru á bak við það. En þá verður manni á að spyrja: Bíðum við, hreyfing vatns, er það líka gos í hver? Er það rennsli? Ég veit ekki hvort hæstv. iðnaðarráðherra hefur spekúlerað í því, en þessu má hv. þingmaður ekki gleyma í gagnrýni sinni á orðalagið í frumvarpinu.

Og t.d. þegar menn dæla upp vatni af einum stað á annan, er það þá rennsli líka? Það væri frekar óvenjuleg notkun á orðinu „rennsli“. Það þarf kannski að fara í gegnum allt þetta frumvarp þegar hæstv. iðnaðarráðherra hefur látið það okkur eftir að taka það aftur til sín upp í ráðuneyti, lesa það í gegn og athuga hvort þetta geti valdið misskilningi, en við því var einmitt sérstaklega varað í áliti laganefndar Lögmannafélagsins. Iðnaðarráðherra kaus að fara að ábendingum þeirra á einum stað en ekki á öðrum. Þannig að hafi verið ruglingur á túlkun greinargerðarinnar áður er hann enn þá meiri eftir að iðnaðarráðherra fór með blýantinn í frumvarpið.



[19:29]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög áhugavert að fara í gegnum þetta frumvarp. Það sorglega er að við erum að gera það enn á ný. Umræðan fór fram á síðasta þingi og mig minnir að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi farið rækilega í gegnum frumvarpið og ýmsa orðaleppa og sérkennilegt orðalag á fundum nefndarinnar. Mér finnst þetta sorglegt.

Til dæmis má nefna orðið „grunnvatn“. Einhvern tíma lærði ég jarðfræði í menntaskóla, en maður les hér skilgreiningu á því hvað grunnvatn er:

„… allt vatn neðan jarðar í samfelldu vatnslagi í gegnmettuðum jarðlögum, kyrrstætt eða rennandi, sem er í beinni snertingu við jarðlögin.“

Ef við veltum þessu fyrir okkur: Hvað er vatn sem er neðan jarðar í samfelldu vatnslagi? Samfelldu. Hvað er þetta „samfellt“? Það væri ágætt að hæstv. iðnaðarráðherra færi í gegnum þetta með okkur. Við áttum okkur ekki á þessu , a.m.k. ekki ég. Hún hlýtur að hafa legið yfir þessu frumvarpi og hefur lagt mjög mikla áherslu á að keyra þessa vitleysu í gegn, hvað eftir annað. Hún mætti fara í gegnum þetta hvað þetta þýðir. Síðan er talað um vatn sem er neðan jarðar, kemur hér fram sem er í beinni snertingu við jarðlögin. Hvernig má annað vera, frú forseti, en að vatn sem er neðan jarðar sé í beinni snertingu við jarðlögin? Ég átta mig ekki á þessu en ég sé að hv. formaður iðnaðarnefndar, sem hefur örugglega lesið þetta aftur og aftur og betur en nokkur annar hér, getur (Gripið fram í: Ágreiningur í Stjórnarráðinu.) útskýrt hvað hér er á ferðinni. Hvað er verið að segja hérna, að vatn geti verið neðan jarðar en mögulega ekki í snertingu við jarðlögin? Þetta er nokkuð sem ég átta mig ekki á og fróðlegt væri ef hv. þm. (Forseti hringir.) Birkir Jón Jónsson segði okkur frá þessu.



[19:31]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi koma að frekar varðandi frumvarp það sem hér liggur fyrir um vatnalög sem hæstv. iðnaðarráðherra mælti fyrir, sem felur í sér, eins og hæstv. ráðherra hefur ítrekað, skýra eignarheimild á vatni til þess síðan að geta ráðstafað því eins og gert er um aðrar fasteignir.

Við höfum áður minnst á það í umræðunni að miklu réttara væri að leggja fyrst fram og ræða vatnsverndarlög því að um það snýst málið til framtíðar. Síðan væri hægt að ræða á grundvelli þeirra lög um afmarkaða nýtingu þessarar auðlindar. Hér velur iðnaðarráðherra að fara hina leiðina, að fá lög staðfest fyrst sem gefur heimild til mun víðtækari einkavæðingar og framsals á vatni en áður hefur verið.

Rætt hefur verið um rétt bænda í þessu sambandi. Það kom ágætlega fram í ræðum, bæði hjá hv. þm. Merði Árnasyni og hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni, að bændur hafa alla tíð átt eðlilegan og nauðsynlegan rétt til að nýta vatn til sinna þarfa. (Gripið fram í.) Það hefur alltaf verið svo. Þessi lög eru ekki að ganga á það. Hins vegar er verið að gera þessi lög miklu víðtækari. Verið er að færa eignarréttarákvæði á vatni og ekki aðeins á kyrrstæðu vatni heldur eins og stendur í 2. gr., frú forseti, á allt rennandi vatn, kyrrstætt vatn á yfirborði jarðar og neðan jarðar í föstu … Hvernig getur vatn verið fast? Líklega sem ís, freðið. Eignarréttarákvæði á vatni í föstu formi, fljótandi formi eða loftkenndu formi, þ.e. gufu. Hérna er verið að færa inn eignarheimild á vatni á öllu því formi sem það getur birst í.

Það er svo mikilvægt, sagði hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins, einkavæðingarráðherra Framsóknarflokksins, að gera eignarhaldið skýrt svo hægt sé að framselja það. Við vitum hvað verið er að gera varðandi rafmagnið, við þekkjum vinnubrögð Framsóknarflokksins í einkavæðingarmálum.

Það er athyglisvert að umhverfisráðherra, talsmaður og umboðsmaður umhverfismála fyrir hönd þingsins, fyrir hönd framkvæmdarvaldsins, skuli láta málið ganga með þessum hætti, ekki síst í ljósi þess að stofnanir á vegum umhverfisráðuneytisins, bæði Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun, hafa gefið umsagnir um málið eins og verið er að keyra það í gegn og lagst gegn því. Ég vitna til umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands frá því á síðasta vetri en þar segir, með leyfi forseta:

„Vatn er lífsnauðsynleg auðlind og arfleifð alls mannkyns og alls lífríkis á jörðinni.“ — Og áfram segir í þessari umsögn: „Nú er unnið að lögleiðingu vatnatilskipunar ESB hér á landi í heildstæðri löggjöf um vernd og nýtingu vatns. Náttúrufræðistofnun leggst gegn því að sértæk lög um eignarhald og umsýslu með vatni sé lögfest áður en fyrir liggur hvernig vatnatilskipunin verður innleidd.“

Náttúrufræðistofnun bendir á þessi tæknilegu atriði fyrir utan það að vatn er auðlind sem allt lífríki jarðarinnar á, bæði til skamms tíma og lengri tíma, og er þess vegna útilokað að ætla að fela eignarréttarákvæði á vatni í hendur einhverra einstaklinga.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson minnist á áðan á að svo miklu betur væri farið með auðlindina ef hún væri í einkaeign. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, dró enga dul á stefnu síns flokks um að setja bæri sem flestar auðlindir í einkaeign, enda er þetta hægri flokkur. Það sem kemur á óvart, frú forseti, er að Framsóknarflokkurinn, sem hingað til hefur reynt að stimpla sig á miðjunni, skuli vilja ganga jafnvel enn lengra en Sjálfstæðisflokkurinn, er kominn hægra megin við Sjálfstæðisflokkinn hvað varðar einkavæðingu á almannaeignum og almannaréttindum.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson sagði að betur yrði gengið um auðlindina. Það er bara ekki alltaf svo. Ég hef hér nýjustu fregnir frá Bretlandi þar sem búið er að einkavæða stóran hluta bæði af vatnsveitum og líka af vatnsauðlindinni. Þegar búið er að einkavæða eitthvað og það er síðan orðið söluvara gerum við öðruvísi kröfur til slíkrar vöru. Ef maður vill kaupa 10 lítra af vatni á dag úr einkavæddri auðlind vill maður fá þá 10 lítra sama hvað tautar og raular. Við gerum kröfur. Hljóðar ekki auglýsingaskilti í íslenskum auglýsingamiðlum upp á það: Gerum kröfur! Þegar koma síðan þurrkar og erfitt verður að afgreiða vatn á viðkomandi svæðum þá sagði mér Íslendingur sem búsettur er í Bretlandi að erfiðara yrði að ræða við almenning á þeim forsendum að spara yrði vatnið vegna þess að það væri ekki til. Hann sagði: Við erum búin að gera samning um kaup á þessu vatni og við viljum fá það. Afstaðan hefur breyst, sagði þessi Íslendingur mér, frá því sem áður var þegar vatnið var sameiginleg auðlind og við tókum sameiginlega ábyrgð á því. Þá skildi fólk að það gat líka þrotið, það gat líka verið skortur á því og þá var þægilegra að ræða sameiginlega um að spara vatn. En eftir að vatnið er orðin einkavædd auðlind og búið er að gera samningsbundin kaup á því þá vilja menn náttúrlega fá vöruna.

Þau rök hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar um að auðlindin sé betur fólgin í einkahöndum falla um sjálf sig. Þetta er auðlind sem við nýtum sameiginlega, verndum sameiginlega og berum sameiginlega ábyrgð á. Við gerum okkur grein fyrir því að án vatns verðum hvorki við né annað lífríki til á jörðinni. Einkavæðing á vatni stríðir gegn öllum grunnhugmyndum fyrir samfélagslegu lífi á jörðinni. Það er því mjög dapurt, frú forseti, að upplifa það hér að Framsóknarflokkurinn, sem einu sinni kenndi sig við félagshyggju, samvinnu og sameign, skuli nú vera sá flokkur sem keyrir fram frumvarp um einkavæðingu á vatni.



[19:41]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég hef sannfærst betur um það við þessa umræðu en áður að hér er á ferðinni pólitískur einkavæðingarleiðangur Framsóknarflokksins. Það hefur orðið niðurstaða í samningum milli stjórnarflokkanna að þessi mál skyldu ná í gegn. Þau skyldu fara í gegn núna og ekki beðið eftir því að hægt væri að taka heildstætt á málinu, eins og hér hefur ítrekað verið lagt til þó svo að ekki hafi komið fram neinar skynsamlegar skýringar á því hvers vegna menn þurfa að reka trippin svo hratt í þessum málum. Hér er ekki um neinn vanda að ræða. Það kemur skýrt fram í gögnum með málinu frá hendi þeirra sem sömdu frumvarpið að enginn vandi sé í raun og veru uppi en þó sé ástæða til, og það hafa menn tekið undir, að endurskoða þessi lög. En auðvitað væri miklu betra, og það ætti Alþingi ævinlega að hafa í huga í meðferð mála, að hafa heildstæða yfirsýn og gera hlutina vel.

Það hefur líka komið fram af hálfu hæstv. ráðherra að það er að yfirlögðu ráði sem ekki hefur verið brugðist við áliti Lögmannafélagsins sem taldi nauðsynlegt að það kæmi skýrt fram að hér væri um formbreytingu að ræða ef það væri niðurstaðan, eins og stendur einhvers staðar í þeim gögnum sem fylgja frumvarpinu. Hæstv. ráðherra vildi ekki bregðast við þessu áliti Lögmannafélagsins sem að mínu viti þýðir að í lögskýringum síðar meir verður vitnað til þess að þrátt fyrir álit Lögmannafélagsins hafi menn ekki brugðist við því og þess vegna beri ekki að líta svo á að hér sé einungis um formbreytingu að ræða. Það er a.m.k. skoðun mín að þarna geti verið hætta á ferðum sem menn þurfi að skoða og ég mun rökstyðja það betur á eftir.

Í 1. gr. þessa lagafrumvarps stendur að markmiðið sé að eignarhald á vatni verði skýrt. Það er mín skoðun að eignarhald á vatni geti aldrei orðið skýrt nema þá á því vatni sem maður hefur í glasinu sínu. Ekki á því vatni sem rignir af himnum ofan, ekki frekar en fuglum himinsins. Ég tel því að þessi leiðangur hafi í sér fólgið eitthvert annað ætlunarverk en að menn trúi því raunverulega að eignarhald á vatni geti verið skýrt. Segja má að það komi dálítið fram í frumvarpinu sjálfu á hvaða leið menn eru því verið er að herða á ákvæðum um framkvæmdir og ég vitna þar í 9. gr.: „Nú eiga menn fasteign í félagi og vilja sumir stofna til vatnsveitu til heimilis- og búsþarfa á eigninni, koma þar á fót samáveitu, stofna til vatnsmiðlunar eða verjast ágangi vatns“ o.s.frv. Þá er þeim sem eiga minni hluta í þessum fasteignum gert skylt að taka þátt í þessu verkefni og verði ekki samkomulag um framkvæmd eða umsjón verksins skal skorið úr með mati dómkvaddra matsmanna. Og það eru fleiri atriði í frumvarpinu sem þrengja í raun og veru möguleika þeirra sem eru í minni hluta gagnvart réttindum.

Til dæmis má sjá í 18. gr. að þar er talað um að: „Orkunýtingarréttur fasteignareiganda takmarkast við það að enginn sé sviptur vatnsnotum … né neinum bakaðir óhæfilegir örðugleikar um slíka notkun né vatni sem nota þarf með þeim hætti spillt fyrir neinum svo að til verulegra óþæginda horfi.“

Þarna er minni hlutinn settur í þann vanda að þurfa að taka þátt, hann getur ekki vikið sér undan með sama hætti og áður var. Hann er skyldaður til þess með lagaákvæðunum að taka þátt í mannvirkjagerð sem hefur þann tilgang í sér að nýta t.d. orku eða gera eitthvað annað sem getur skapað ábata fyrir meiri hluta landeigendanna.

Í 20. gr. segir einnig: „Nú vill eigandi annars vatnsbakkans ekki taka þátt í mannvirkjagerð og getur ráðherra þá heimilað eignarnám til afnota af landi hans til að framkvæma verkið og nota vatnið. Náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með eignarnámsmati.“

Mér finnst að flest sem kemur til viðbótar því sem fyrir var bendi til þess að verið sé að þrengja að rétti minni hluta eigenda í fasteignum. Ég ætla ekki að fara yfir þessi mál neitt nákvæmlega því búið er að nefna ýmislegt af þessu. Gagnrýni sem kom fram í nefndinni hefur ekki skilað sér í breytingum á frumvarpinu. Og ég ætla að nefna eitt enn. Það er VIII. kafli um vatnafélög. Það hefur ekki verið gert neitt við þann kafla en ég þykist hafa rökstutt það nokkuð vel að hann hafi ekkert erindi í þetta lagafrumvarp. Sá kafli fjallar um að stofna félög sem enginn er skyldugur til að taka þátt í. Þetta eru almenn ákvæði um stofnun félaga sem enginn er skyldugur til að vera með í og ég sé ekki betur en hann eigi í rauninni ekkert erindi í frumvarpið m.a. af þeirri ástæðu. Vel kann að vera að reglur þurfi að vera til um hvernig menn stofni félög. En að það eigi erindi inn í lagabálk eins og þennan, að búa til einhverjar sérreglur eða kveða með sérstökum hætti á um félög sem enginn er skyldugur til að taka þátt í, menn geta stofnað þau að vild sinni þeir sem vilja, það dreg ég mjög í efa. Ég óska eftir rökstuðningi fyrir því að þessi kafli er hafður áfram í frumvarpinu.

Vissulega er hægt að ræða þetta mál býsna lengi og fara yfir hitt og þetta. Ég vil nefna 11. gr. Enn er verið með mjög óljósar vísbendingar um hvernig eigi að kveða á um landamerki. Það var einmitt minnst á þessa grein áðan.

„Nú vex gras upp úr vatni við lágflæði og fylgir vatnsbotn þá landi sem þurrt land væri.“

Nútíminn í þessu er sá að öll lönd eru í raun og veru merkt upp með hnitum. Öll landamerki í okkar landi eru að verða hnitamerkt. Ég tel að í raun sé fráleitt að hafa í lagagrein svo óljósar vísbendingar um hvar landamerki liggi. Það geti farið eftir því hvernig árar hverju sinni hvað menn halda um hvar vatnsbakkinn sé af því að gras sem vex upp úr vatni er kannski ekki alltaf á sama stað og kemur ekki endilega upp úr vatninu alltaf. Grasið auðvitað fellur og sölnar, vex upp aftur og stundum kemur kannski minna gas upp úr vatni en áður hafði verið. Mér finnst einhvern veginn að þetta sýni bara að hér hafi menn ekki vandað sig. Það er eiginlega ekki bjóðandi upp á þetta í nútímanum þar sem hægt er að ganga frá landamerkjum með skýrum hætti með hnitum með nútímatækni, þetta hefur auðvitað verið barn síns tíma. Kannski eru menn að halda í eitthvert gamalt orðalag. En hvers vegna leggja menn svona mikla áherslu á að endurskapa lög sem eru orðin gömul ef menn ætla að halda í grasið?



[19:52]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að koma inn á eitt atriði í lokin og hv. þingmaður nefndi það einmitt og það varðar umsögn Lögmannafélagsins. Þannig er að smávegis mistök hafa orðið í sambandi við endurútgáfu frumvarpsins og endurprentun. Á einum stað er brugðist við umsögn Lögmannafélagsins, það er sem sagt í V. kafla, í almennum athugasemdum, en í VIII. kafla á bls. 21 hefur láðst að taka út orðin „fyrst og fremst“. Þetta vil ég benda hv. þingmönnum á og verður að sjálfsögðu frekar til umfjöllunar í nefndinni. En það var ætlan okkar að taka tillit til þessarar umsagnar vegna þess að Lögmannafélagið lítur svo á að hér sé eingöngu um formbreytingu að ræða og þess vegna sé best að hafa þessi orð ekki í textanum og brugðist var við því.

Það er fleira sem hv. þingmaður nefndi, t.d. vatnafélög og ekki væri ástæða til að hafa þetta í lagatexta. Við töldum að svo væri. Auðvitað fer þetta allt til umræðu í nefndinni en það varð niðurstaðan að hafa þessi ákvæði inni.

Síðan talaði hann um 11. gr. og að ekki hefði verið vandað til verka í sambandi við textann. Ég vil ekki taka undir það. Ég tel að þetta hafi allt saman verið unnið af mikilli vandvirkni en sjálfsagt eru mannanna verk aldrei 100%. En í öllum aðalatriðum held ég að alveg megi fullyrða að þetta er vel unnið frumvarp, enda er búið að leggja gríðarlega vinnu í það og von mín er sú að það fái greiða leið í gegnum þingið.



[19:54]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki alveg viss um að þetta dugi til þess að ekki sé hætta á því að tillit hafi verið tekið til þess sem stendur í þeim fylgiskjölum sem fylgja með frumvarpinu varðandi lögskýringar, því að Lögmannafélagið benti skýrt á að taka þyrfti skýrt fram, eða ég skildi það þannig, að hér væri einungis um formbreytingu að ræða. Ég held því að það þurfi þá að skoða vel í nefndinni hvernig megi koma þeim hlutum þannig til skila að það verði ekki misskilið og að eignarhaldið sem hér er verið að setja á vatnið fari að hafa öðruvísi áhrif en þær lagagreinar sem hafa gilt fram að þessu. Ég held að það sé mjög mikilvægt að fjallað verði þannig um það í nefndinni að menn finni einhverja sameiginlega leið til þess að þeir hlutir verði skýrir.

Ég vil svo segja að ég get ekki fallist á að það geti nokkurn tíma verið skýr landamerki sem miðast við vatnsbakka sem er ákvarðaður þannig að það ræðst af því hvernig grassprettan er á hverjum tíma hvar þessi bakki er. Þó svo menn hafi vandað sig þá finnst mér að menn hafi ekki dottið niður á mjög skýra lausn á því að finna þessum landamerkjum stað ef menn þurfa að notast við slíkar skilgreiningar.

Ég bendi enn á að sú tækni er orðin til í landinu að hægt er að ganga mjög skýrt frá landamerkjum.



[19:56]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég segi, ef hv. þingmaður býr yfir vitneskju um aðra leið sem er áhugaverðari og betri en sú sem lögð er til í frumvarpstextanum er full ástæða til að fara yfir það. Þess vegna eru mál til umfjöllunar í nefndum að verið er að reyna að gera það besta úr hlutunum og að sjálfsögðu skiptir ekki máli hvaðan gott kemur. Ef önnur útfærsla lítur út fyrir að vera skýrari tel ég að það sé allt til skoðunar í hv. nefnd.



[19:57]
Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vona að sá sáttatónn sem er í hæstv. ráðherra bendi til þess að í nefndinni fari fram umræður um málið í heild sinni, menn fari yfir það með þeim sem um það hafa fjallað og fari að nýju yfir þær umsagnir sem lágu fyrir og munu liggja fyrir eftir að hafa skoðað þetta mál betur. Ég vona satt að segja að niðurstaðan verði sú að menn geti fjallað um málið í heild sinni, menn geti skoðað það, fengið skýra vitneskju um hvaða lagaákvæði munu gilda um vatn að öðru leyti en hér er verið að stofna til með þessu frumvarpi en hafi heildstæða yfirsýn yfir alla þá lagabálka sem eiga að taka við af lögunum frá 1923 og geti þess vegna gert sér grein fyrir því hvort sá hluti þeirra sem á að vera í þessum lagabálki er eins og hann þarf að vera eða hvort einhverjar breytingar þurfi á honum að gera.



[19:58]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það sem við ræðum um í dag, vatn, er kannski fyrirbæri sem við Íslendingar ættum að líta á sem hinn sjálfsagðasta og eðlilegasta hlut í heimi, vatn, hreint vatn. En það má spyrja þeirrar spurningar hvort vatn sé svo sjálfsagður hlutur.

Ég hef alltaf litið á vatn sem sjálfsagðan hlut og aldrei haft neinar efasemdir um annað en vatn væri algerlega sjálfsagður hlutur. En það rann upp fyrir mér ljós fyrr á þessu ári, í mars, þegar ég fór í ferð með nokkrum þingmönnum til Ísraels og Palestínu. Þá gerði ég mér grein fyrir því að vatn er ekki alls staðar sjálfsagður hlutur. Hreint og tært vatn er ekki sjálfsagður hlutur. Ég gerði mér grein fyrir því þegar við ferðuðumst um Palestínu, Ísrael og fórum upp Gólanhæðir fór maður að skilja út á hvað átökin þar hafa gengið í öll þessi ár. Þau hafa nefnilega gengið út á aðganginn að vatni, umráðaréttinn yfir vatnsbólum, umráðaréttinn yfir fjallahéruðum þar sem vatn fellur af himnum ofan, streymir síðan neðan jarðar í gegnum setlög inn á svæði sem eru mjög mikilvæg fyrir Ísraelsmenn til landbúnaðar. Vatnið er að sjálfsögðu með þessum hætti grundvöllur alls lífs á þessu svæði.

Ég man alltaf að við Íslendingarnir rákum upp stór augu þegar við komum í héruð Drúsa en Drúsar eru fjallaþjóð, landbúnaðarþjóð sem býr í Gólanhæðum á landsvæðum sem tilheyrðu Sýrlandi allt þar til í Yom Kippur stríðinu árið 1973 að Ísraelsmenn réðust þar inn og ráku Sýrlendinga eða sýrlensk stjórnvöld á brott og hafa síðan haldið þessu svæði og haft yfir því yfirráð, haldið því sem hernumdu landi. Ísraelsmenn settu fyrir nokkrum árum hömlur á vatnsnotkun Drúsanna til jarðyrkju og vildu stjórna því hversu mikið vatn þeir fengju til að rækta sínar jurtir og sín tré. Þá tóku Drúsarnir sig til og settu upp opin vatnsker vítt og breitt um landið, stór vatnsker, stór eins og olíutanka, bara opið að ofan og í þessi vatnsker söfnuðu þeir rigningarvatninu sem féll af himnum ofan þannig að Ísraelsmenn gátu ekki nýtt sér einhver svokölluð eignarréttarákvæði á vatninu sem rann ofan á jörðinni eða rann um setlög niðri í jörðinni, grunnvatnið. Drúsarnir sögðu við þá: Þetta vatn fellur af himnum ofan, þið getið ekki skattlagt okkur fyrir þetta vatn. Við ætlum okkur að nota þetta vatn og veita því á okkar akurlendi.

Ísraelsmenn ráku upp stór augu og þeir töldu, nei, við getum líka skattlagt rigninguna, við getum sett vatnsskatt á rigninguna líka og þeir reyndu það. Þeir fóru um öll þessi héruð og skrifuðu stór númer utan á vatnstankana, einhvers konar vatnsskattsnúmer og ætluðu að fara að rukka fyrir það vatn sem féll af himnum ofan. En Drúsar sögðu þeim einfaldlega: Ef þið gerið þetta þá verður hér stríð og Ísraelsmenn bökkuðu út úr þessu og hættu við. En númerin eru þarna enn þá, tankarnir eru þarna enn þá, vitnisburður um að það er hægt að reyna að slá eignarrétti sínum á vatn.

Það er einmitt þess vegna sem ég kem hér upp, virðulegi forseti, því að þegar við vorum að lesa þetta frumvarp hnutum við í þingflokki Frjálslynda flokksins strax um 4. gr. sem segir svo, með leyfi forseta:

„Fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu, fylgir eignarréttur að því vatni sem á henni eða undir henni er eða um hana rennur.“

Það er þetta orð, eignarréttur, sem er að plaga mig og fleiri, veldur okkur heilabrotum og fær okkur til að staldra við. Í gömlu lögunum — mér hefur heyrst af umræðum nú síðdegis að þessi nýju lög séu í raun og veru alveg eins og gömlu lögin, það er verið að reyna að telja okkur trú um að þetta séu nákvæmlega sömu lögin, það sé bara verið að lagfæra orðalag og svona aðeins að snyrta þetta til og færa þetta til nútímahorfs — finn ég hvergi þetta orð, eignarréttur á vatni, eða þessa skilgreiningu eða hvað við eigum að kalla þetta. Þar er hvergi talað um eignarrétt á vatni. Hins vegar hljómar 2. gr. laga nr. 15 frá 20. júní 1923 svo, með leyfi forseta:

„Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar því vatni, straumvatni eða stöðuvatni, sem á henni er, á þann hátt, sem lög þessi heimila.“

Nú er ég ekki lögfræðimenntaður maður en ég fæ ómögulega túlkað þetta öðruvísi þegar ég les, Íslendingurinn, þessa íslensku sem á þessum blöðum stendur að hér sé eingöngu verið að tala um nýtingarrétt. Þarna er ekki verið að tala um eignarrétt og það er bara himinn og haf á milli þess að skilgreina nýtingarrétt á einhverju og síðan eignarrétt og þetta ættum við Íslendingar að vera farnir að skilja eftir sársaukafulla reynslu margra undanfarinna ára.

Ef við erum að tala um eignarrétt þá erum við að tala um mjög alvarlega hluti. Eignarrétt á vatni sem samkvæmt laganna hljóðan gengur út á það að þetta skal fylgja fasteign hverri, þar með talið þjóðlendu — eignarréttur á því vatni sem á henni, undir henni eða um hana rennur. Þetta þurfum við að fá útskýrt mjög vandlega og ég reikna með því að þegar þetta frumvarp verður rætt í iðnaðarnefnd verði þetta tekið til mjög svo gaumgæfilegrar athugunar.

Það kann að vera að mönnum þyki þetta mjög léttvægt nú á því herrans ári 2005 að hér sé verið að tala um eignarrétt á vatni en þetta er í raun og veru grafalvarlegt mál. Hvern hefði til að mynda grunað það fyrir 30 árum að við Íslendingar værum nú í dag í þeirri stöðu að uppi væru í þjóðfélaginu, og hefðu verið um margra ára skeið, hatrammar deilur um eignarréttinn yfir fiskinum sem syndir í hafinu umhverfis landið? Hvern hefði grunað það? Ef maður hefði komið og sagt við fólk: Hér á Íslandi verða uppi stórkostlegar deilur eftir 30 ár um það hver eigi fiskinn í sjónum. Fólk hefði hlegið að manni. Það hefði bara talið mann ruglaðan að láta sér detta það í hug að það væru einhverjir hópar í þjóðfélaginu sem færu um og segðust eiga fiskinn í sjónum. Þvílíkt bull, þvílíkt rakalaust kjaftæði, hefðu menn sagt. En svona er þetta í dag. Þetta er meira að segja komið það langt að verið erum farin að tala um það að reyna að verja eignarhaldið yfir fiskinum í sjónum með því að binda það í stjórnarskrá.

Hvern hefði líka grunað að við hefðum selt símanet landsmanna til einhverra örfárra einkaaðila, grunnnet Símans? Hvern hefði grunað það? Við erum búin að því. Nú eru menn meira að segja farnir að tala um það að selja raforkukerfið. Hvenær dettur þeim í hug að selja vatnið? Gætum við upplifað það að einhverjir einkaaðilar sem eiga fasteignir, land til að mynda að Þingvallavatni sem er stærsta ferskvatnsforðabúr landsmanna, slái eign sinni á það? Að Þingvallavatn verði í framtíðinni í einkaeign, að einhverjir aðilar eigi vatnið í Þingvallavatni? Er hægt að hugsa sér að þetta muni enda með þessum hætti? Ég veit það ekki, virðulegi forseti. Þetta eru bara hugleiðingar sem ég set hér fram vegna þess hve þessi litla grein, 4. gr., fær mig til að hugsa á þessum nótum og vekur upp í huga mér og okkar í Frjálslynda flokknum mjög miklar efasemdir um þetta frumvarp. Þess vegna munum við hafa allan vara á okkur nú þegar þetta fer til iðnaðarnefndar og kemur síðan aftur til 2. umr. Við munum áskilja okkur fullan rétt til að hafa á okkur fullan vara varðandi þetta og fulltrúi okkar í iðnaðarnefnd, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, mun efalaust leita eftir mjög skýrum svörum um það hvað menn eigi við með þessu. Þetta verður síðan tekið til umræðu þegar frumvarpið kemur til 2. umr. í þinginu. Við skulum gera ráð fyrir því að það geri það. Mér heyrist á hæstv. iðnaðarráðherra að þetta frumvarp eigi að fara í gegnum þingið nú á þessum vetri. Reyna skal í annað sinn.

Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, greina frá því að ég var á þeirri ráðstefnu sem hefur verið til umræðu hjá öðrum þingmönnum, ráðstefnu um vatn fyrir alla sem var haldin í Reykjavík þann 29. nóvember sl. Þar var lögð fram yfirlýsing sem er að mörgu leyti mjög merkileg, yfirlýsing fjölmargra félagasamtaka, BSRB, þjóðkirkjunnar, MFÍK, Landverndar, Kennarasambands Íslands, Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja og Náttúruverndarsamtaka Íslands. Ég ætla svo sem ekki að lesa þá yfirlýsingu hér. Ég veit að annar þingmaður hefur þegar gert það og hún hefur veri færð til bókar í Alþingistíðindum.

Ég vil bara að lokum lýsa því yfir að ég er efnislega sammála þessari yfirlýsingu, því sem stendur í henni. Mér finnst þetta mjög góð grundvallaryfirlýsing um þau prinsipp, ef ég má segja sem svo, sem mér finnst að eigi að gilda varðandi vatnið og ég hafna því alfarið að það verði settur einhvers konar eignarréttur á vatnið hér á landi. Við getum gjarnan útfært lög og reglur um nýtingarréttinn, gott og vel, að sjálfsögðu skulum við gera það. Vatn er mikilvæg auðlind. Vatn getur orðið mjög dýrmæt auðlind. Það er það að sjálfsögðu í dag en getur orðið vermæt líka í peningalegu tilliti. Það er farið að flytja út íslenskt vatn og vonandi verður það iðnaður sem á eftir að skila góðum tekjum inn í þjóðarbúið og hagnaði fyrir hlutaðeigandi aðila. Ég hef ekkert út á það að setja. Ég hef ekkert út á það að setja að þessir aðilar fái með einhverjum hætti varinn rétt til að nýta vatnsból, til að taka vatn til að selja. Ég hef svo sem ekkert við það að athuga, til útflutnings til að mynda, en að það verði settur einhver eignarréttur á vatn með svipuðum hætti og verið er að reyna að setja einhvern eignarrétt á fiskinn í sjónum í kringum landið eða aðrar náttúruauðlindir, því leggst ég alfarið gegn og ég mun berjast gegn því af alefli.



[20:10]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þess sem kom fram hjá hv. þingmanni þess efnis að það hljóti að felast einhver breyting í eignarhaldi á vatni í frumvarpinu þá er rétt að rifja það upp með hvaða hætti málum var skipað við samþykkt vatnalaga árið 1923 og eins og hér hefur margsinnis komið fram í umræðunni höfðu sameignarsinnar sigur að nafninu til en séreignasinnar að efni til.

Hvað merkir nú þetta? Þetta felur það í sér að á yfirborðinu lítur það þannig út að allt vatn sé í sameign en raunin er önnur. Öll þekkt not á vatni tilheyra fasteign og þar með umráðarétti eigenda hennar.

Það sem hér er lagt til í þessu frumvarpi breytir því engu um efnisinnihald réttinda landeigenda. Hins vegar eru hlutirnir sagðir eins og þeir eru í raun en enginn sem lesa mun hin nýju vatnalög þarf að fara í grafgötur með eignarréttinn eða þekkja dómafordæmin og túlkanir fræðimanna til þess að skilja hvar eignarrétturinn liggur.



[20:11]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek orð hæstv. iðnaðarráðherra góð og gild svo langt sem þau ná en ítreka enn og aftur að ég hef á mér allan fyrirvara varðandi það. Ég reikna með því og treysti á það að einmitt þetta verði vandlega skoðað núna í meðförum þingsins, bæði í þingnefnd og iðnaðarnefnd og svo líka við 2. umr. Ég treysti á að kallaðir verði til okkar fremstu lögspekingar og aðrir sérfræðingar til að segja það skýrt og skorinort, kveða upp úr um það hvað sé hér á ferðinni, hvað vaki fyrir þeim sem hafi útbúið þetta frumvarp þannig að vilji löggjafarvaldsins verði algerlega á hreinu í þessu tilefni og við getum þá hugsanlega komið í veg fyrir það að hér verði deilur í framtíðinni um þessi mál.



[20:12]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa málefnalegu afstöðu. Mig langar aðeins til að koma inn á annað atriði sem hefur verið uppi og það varðar hvort það hafi verið gerðar raunverulegar breytingar á frumvarpinu frá því að það var til umfjöllunar á síðasta þingi og reyndar hefur verið sagt að þær væru litlar, svo til engar. Ég tel að það sé ekki rétt.

Ég minni t.d. á það að það var mikið fjallað um það að í frumvarpinu væri vegið að almannaréttinum. Menn tóku ýmis dæmi í fyrra í því sambandi og töldu að ekki mætti brynna hrossum eða öðrum húsdýrum og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta var í raun rangtúlkun á frumvarpinu en hins vegar var að tillögu umhverfisráðuneytisins sett inn í texta í frumvarpinu að almannaréttur sem gilt hefði hingað til héldist óhaggaður þrátt fyrir lögfestingu frumvarpsins. Þetta tel ég að sé til að skýra það mál.

Einnig vil ég nefna, eins og margoft hefur komið fram varðandi 35. gr., að þar er kveðið á um að samráð skuli haft við umhverfisráðuneytið áður en sett verður reglugerð þar sem kveðið er á um skilyrði sem Orkustofnun má setja fyrir framkvæmdum á grundvelli 35. gr. Svo er líka breytingin sem ég fór yfir áðan og varðar umsögn Lögmannafélagsins þannig að í þó nokkrum atriðum var tekið tillit til þess sem bent hafði verið á í umræðunni á síðasta vetri.



[20:14]
Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég tel að hér hefði átt að stöðva hæstv. iðnaðarráðherra í þessu svokallaða andsvari sínu vegna þess að í stað þess að koma í ræðustól og svara þeim sem hér hafa talað og spurt hana ýmissa spurninga og komið með ýmis rök, þá leikur hún þann leik að fara í andsvar við síðasta ræðumann sem vissulega flutti ágætt mál en það var af öðru tagi en þeir sem á undan honum höfðu verið. Ráðherra færist undan því, með því að fara í kringum þingsköpin, bæði að svara þeim sem hér hafa talað og að veita andsvararétt á sjálfan sig. Það tel ég ekki vera góð vinnubrögð hjá ráðherra og tel að forseti hefði átt að gera athugasemd við þetta.



[20:15]
Forseti (Birgir Ármannsson):

Forseti vill taka fram að reglur þingskapa um andsvör eru auðvitað skýrar. Andsvar þarf að beinast að ræðu þess þingmanns sem andsvörin beinast að en mat á því er auðvitað oft nokkuð erfitt þegar um er að ræða ræður þar sem víða er komið við.



[20:15]
Ögmundur Jónasson (Vg) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt að það er úr vöndu að ráða fyrir hæstv. forseta þegar svona nokkuð gerist en ég vil taka undir með hv. þm. Merði Árnasyni að mér hefði fundist eðlilegra að hæstv. ráðherra hefði flutt lokaræðu og svarað þeim ábendingum og fyrirspurnum og rökstuðningi sem fram hefur komið við umræðuna í stað þess að fara í andsvar við síðustu ræðumenn og koma sér þannig hjá því að svara hugsanlegum andsvörum frá hendi þingmanna.