132. löggjafarþing — 21. fundur
 15. nóvember 2005.
umræður utan dagskrár.

Staða jafnréttismála.

[13:58]
Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Tilefni þessarar umræðu eru hátíðahöldin og baráttudagurinn 24. október í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins. Dagurinn hefur ekki síst gildi fyrir mikla og lifandi umræðu sem varð um margvíslegar hliðar jafnréttisbaráttunnar, bæði í aðdraganda dagsins og í kjölfar hans. Umræðan dró m.a. fram í sviðsljósið þann mikla mun sem er á launum milli hefðbundinna karla- og kvennastétta og lág laun kvenna sem hafa helgað sig umönnun aldraðra og ungu kynslóðarinnar. Hún dró fram hinn kynbundna launamun og baráttan gegn kynbundnu ofbeldi setti sterkan svip á umræðuna.

En nú spyrja margir: Hvað svo? Breytir það einhverju að 50 þúsund kjósendur sýndu í verki stuðning sinn við baráttuna fyrir jöfnum rétti og jafnri stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi? Ritið Konur og karlar 1975–2004 sýnir svart á hvítu hver innbyrðis staða kynjanna er á Íslandi í dag. Þar kemur m.a. fram að mestur tölulegur árangur hefur þrátt fyrir allt náðst á vettvangi stjórnmálanna en á fjölmörgum öðrum sviðum hefur allt of lítið breyst á þessu tímabili. Þrjátíu ár eru í sjálfu sér ekki langur tími í því samhengi að baráttan snýst um að kollvarpa kerfi sem hefur varað í árþúsundir og hlutverkaskiptingu sem bæði kynin voru lengst af sátt um. En 30 ár eru drjúgur hluti af lífi manns og það hafa sannanlega í íslensku samfélagi á flestum öðrum sviðum orðið byltingarkenndar breytingar á mun skemmri tíma.

Það gætir skiljanlega óþolinmæði. Við eigum ekki að vera að umburðarlynd gagnvart misrétti. Við eigum að agnúast út í öll atriði, bæði smá og stór, því hér duga hvorki vettlingatök né hænuskref. Við þurfum byltingu, sagði fulltrúi kvennahreyfingarinnar, Anna Kristín Gunnarsdóttir, í ræðu sinni á fundinum. Hún lagði áherslu á að sjá heildarmyndina. Það skiptir öllu máli að sjá heildarmyndina því birtingarmyndirnar eru svo margvíslegar og að finna út hvar fyrirstaðan er, eins og fundastýran, Edda Björgvinsdóttir, lagði áherslu á í blaðaviðtali. Löggjöfin er sannarlega ekki fyrirstaða í þeim áfanga en nú nýlega var því náð að hún er kynhlutlaus en að vísu samtímis á ýmsum sviðum kynblind.

Frú forseti. Ein meginfyrirstaðan liggur í hugarfari og viðhorfum sem finnast úti í samfélaginu og í hefðbundinni verkaskiptingu karla og kvenna. Jafn fæðingarorlofsréttur karla er stærsta skrefið í þá átt en það tekur tíma að ná fram fullum áhrifum hans. Sumir sem eiga eftir að njóta hans eru enn á barnsaldri að ógleymdum öðrum sem hafa þegar misst af vagninum. Konur almennt bera óumdeilt meginábyrgðina á börnum og heimilishaldi og sækja þar af leiðandi hlutfallslega færri konur en karlar í langan og óreglulegan vinnudag. Þær sækja færri en karlar hlutfallslega í ábyrgðarstöður í fyrirtækjum og innan stjórnsýslunnar og á framboðslista stjórnmálaflokkanna. Konur þurfa sérstaka hvatningu sem þær fá með því að kallað sé eftir kröftum þeirra til að tryggja að ísenskt samfélag fari ekki á mis við helming mannauðs síns en nýti auðinn í krafti þeirra, menntun og hæfni.

Raunin er sú að sífellt fleiri konur velkjast ekki í nokkrum vafa um hæfni sína og kynsystra sinna almennt til að axla ábyrgð til jafns við karla á öllum sviðum íslensks samfélags. Konur sem komist hafa samsíða körlum, hvort sem er hér á Alþingi, í sveitarstjórnum, í stjórnum fyrirtækja eða stjórnunarstöðum í opinberum rekstri eða einkarekstri, eru öðrum vissulega fyrirmyndir. En jafnframt eru þær fyrst og fremst sýnishorn af því sem konur geta almennt jafnt og karlar. Þess vegna er unnið gegn jafnréttinu með því að taka kyn út af borðinu sem sérstakan verðleika en staglast á hæfninni. Það gera margir þeir sömu og halda á lofti fjölbreytileika og gildi þess fyrir samfélagið að virkja auðinn í krafti kvenna. Ef kynið er ekki verðleiki hverju skiptir þá hlutur kynjanna í stjórnum eða stjórnunarstöðum fyrirtækja, sveitarstjórnum eða landstjórninni? Það skilar okkur ekkert áleiðis að leita að sökudólgum og það er allra góðra gjalda vert að baráttan fyrir jafnrétti kynjanna er ekki lengur skilgreind sem stríð milli karla og kvenna. Ábyrgðin liggur á víð og dreif í samfélaginu og hluti hennar liggur hjá stjórnvöldum og ég spyr, frú forseti, hæstv. félagsmálaráðherra um þau ummæli hans að gera þurfi jafnréttismálum hærra undir höfði og setja þau undir forsætisráðuneytið á pall með öðrum mannréttindum og svo spyr ég hæstv. félagsmálaráðherra jafnframt: Hver verða næstu skref hans og ríkisstjórnarinnar í ljósi baráttudagsins 24. október sl.?



[14:03]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. málshefjanda, Jónínu Bjartmarz, fyrir að taka hér jafnréttismál til umræðu. Ég vil líka geta þess í upphafi að við munum fá tækifæri til að fjalla aftur um jafnréttismál á vettvangi þingsins næstu daga þar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur beint til mín þremur fyrirspurnum um jafnréttismál. Þær varða framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum, framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna og jafnréttisfræðslu fyrir ráðherra og stjórnendur opinberra stofnana. Þar mun ég greina frá ýmsum tölulegum staðreyndum og verkefnum á sviði jafnréttismála sem unnin hafa verið eða ákveðið hefur verið að vinna að á næstu missirum.

Ég fagna því að fá tækifæri til að tala ítrekað um þessi mál á vettvangi Alþingis. Það færi vel á því að við tækjum þau mannréttindamál, sem jafnréttismál eru, oftar til umfjöllunar hér. Ég varpa því hér fram. Eitt er víst að verkefnin eru óþrjótandi og leiðirnar sem menn geta farið eru ótal margar, verkfærin sem við getum notað á þeirri leið okkar margvísleg. Við þurfum vel útbúna verkfæratösku ætlum við að ná árangri í þessum efnum.

Ég hef í starfi mínu sem jafnréttisráðherra fengið tækifæri til að fylgjast með alþjóðlegri umræðu um jafnréttismál og sömuleiðis með margvíslegu jafnréttisstarfi innan lands. Það er að mínu mati afar mikilvægt að sem flestir láti sig þessi mál varða en að ekki sé einungis um þau rætt í afmörkuðum hópum út frá tilteknum stjórnmálaflokkum eða stjórnmálaskoðunum. Jafnréttismál varða okkur öll, feður og mæður, syni og dætur, unga sem aldna, og við eigum að leyfa mismunandi röddum að heyrast og leyfa fólki að hafa ólíkar skoðanir þegar jafnréttismál eru annars vegar. Við hljótum að þola það.

Ég hef líka séð hve mörg ráðuneyti málaflokkurinn varðar í raun, eins og Stjórnarráðið er nú skipulagt. Til að svara hv. fyrirspyrjanda hef ég sagt opinberlega að ég telji að skoða beri af fullri alvöru að flytja jafnréttismálin til forsætisráðuneytis. Jafnréttismál eru ekki málaflokkur sem endilega tilheyrir einu fagráðuneyti. Jafnréttismálin varða alla málaflokka og öll svið þjóðfélagsins. Að mínu viti náum við ekki fullum árangri fyrr en við vinnum út frá þeirri sýn.

Við heyrum oft að Norðurlöndin séu í fararbroddi og að Ísland sé í efstu sætum í heiminum þegar staða jafnréttismála er borin saman milli landa. Að mínu mati eiga þær staðreyndir að hvetja okkur til enn frekari dáða. Við hljótum að hafa náð árangri og við hljótum að eiga að halda áfram. Við eigum að læra af reynslunni, viðhalda því góða en bæta það og efla sem ekki hefur skilað árangri eða fært okkur nægilega framþróun.

Ég tel hins vegar að okkur hafi skort rannsóknir og upplýsingar til að byggja á við stefnumótun okkar í jafnréttismálum. Í tilefni af kvennafrídeginum 24. október ákvað ríkisstjórnin að veita 10 millj. kr. til að stofna sérstakan rannsóknasjóð, Jafnréttissjóð. Þetta er mál sem ég taldi mikilvægt að fengi framgang og það gekk eftir á vettvangi ríkisstjórnar. Markmið sjóðsins er að styrkja kynjarannsóknir almennt og er gert ráð fyrir að fyrst um sinn verði sérstök áhersla lögð á að veita annars vegar fé til rannsókna á stöðu kvenna á vinnumarkaði, bæði að því er varðar launakjör og stöðu, og hins vegar til rannsókna á áhrifum gildandi löggjafar hér á landi, eins og t.d. fæðingarorlofslaganna þar sem kveðið er á um sjálfstæðan rétt feðra til fæðingarorlofs. Jafnréttissjóðurinn verður vistaður í forsætisráðuneyti og það er í góðu samræmi við þá skoðun að jafnréttismálin eigi að tilheyra öllu Stjórnarráðinu, öllum snertiflötum við samfélag okkar.

Þegar jafnréttismálin eru annars vegar er að mínu mati ekkert eitt mál mikilvægara en að ráðast gegn kynbundnum launamun. Hann er ekki lögmál en svo virðist sem það sem við höfum þó gert, sem er ótal margt, hafi ekki haft tilskilin áhrif, og enn minni áhrif á almennum markaði vinnumála en hinum opinbera.

Til að fylgja aðgerðum eftir og ekki síður til þess að hvetja til þeirra hef ég lagt til að komið verði á gæðavottun jafnra launa. Stofnanir og fyrirtæki sem fá slíka viðurkenningu geta kynnt sig sem áhugaverðan vinnustað. Þannig verður árangur fyrirtækja og stofnana í jafnréttismálum eftirsóknarverður og hvati til frekari aðgerða. Í félagsmálaráðuneytinu er nú unnið að útfærslu íslenskrar gæðavottunar jafnra launa og verður unnið að því í nánu samráði við jafnréttisráð og Jafnréttisstofu, sem og atvinnurekendur, launafólk og háskólasamfélag. Ég er sannfærður um að slík vottun geti gagnast vel sem tæki til framfara við að koma í veg fyrir áhrif kyns á launaákvarðanir enda þótt það hvarfli ekki að mér eitt augnablik að það feli eitt í sér hina einu, sönnu töfralausn.

Ég hef ýtt úr vör mörgum öðrum verkefnum á þessu sviði sem lúta fyrst og fremst að ráðuneytum í Stjórnarráðinu og stofnunum þeirra. Þar hljótum við að geta gengið úr skugga um að ekki sé kynbundinn launamunur. Þetta hef ég gert í félagsmálaráðuneytinu og mun gera þar áfram því að þetta er viðvarandi verkefni, hæstv. forseti.

Hvað undirstofnanir ráðuneytisins varðar er áætlað að verkefnið standi yfir í vetur en gera má ráð fyrir að þáttur hverrar stofnunar standi í skemmri tíma. Hafist var handa nú í nóvember og byrjað á Vinnumálastofnun. Mér er kunnugt um að önnur ráðuneyti og stofnanir hafa þegar hafist handa eftir að ég ritaði samráðherrum mínum bréf og hvatti til þess.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum nota þann stutta tíma sem ég hef hér til að koma á framfæri þeirri skoðun að til að ná fram raunverulegu jafnrétti kynjanna þurfi að virkja karlana. Ég greip því hugmynd frú Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, á lofti er hún kvað vera kominn tíma til að karlar hittust á fundum til að ræða þessi mál á sama hátt og þeir sjá ástæðu til að fjalla um önnur málefni. Ég hef ákveðið að byrja hér innan lands og halda karlaráðstefnu þann 1. desember nk. Ég hef þegar fengið góða menn til liðs við mig við að undirbúa slíka ráðstefnu og vænti þess að hún njóti góðrar aðsóknar karla á öllum aldri og úr öllum stéttum.

Ég ítreka þakkir mínar fyrir að fá tækifæri til að ræða jafnréttismál hér í þingsölum, hæstv. forseti.



[14:08]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Konur sætta sig ekki við að vera 2. flokks þjóðfélagsþegnar, sagði frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, 24. október sl. af tilefni sem við öll þekkjum.

Málshefjandi, hv. þm. Jónína Bjartmarz, sagði að kollvarpa þyrfti kerfi sem varað hefði í árþúsundir. Það eru orð að sönnu. En við verðum líka að horfast í augu við það að okkur hefur tekist illa til þótt ýmislegt hafi áunnist á undanförnum árum og áratugum við að gera það sem þarf að gera, þ.e. að kollvarpa hinu gamla kerfi. Við búum við mikinn lýðræðishalla í þessu samfélagi. Hann lýsir sér m.a. í því að konur eru tæplega þriðjungur fulltrúa í sveitarstjórnum og á Alþingi Íslendinga, konur hafa í heildartekjur 65% af heildartekjum karla og ekkert virðist þokast í þeim efnum. Við getum ekki látið sem þriðjungshlutfallið, þriðjungsjafnréttið, ef jafnrétti skyldi kalla, geti verið það sem við sættum okkur við 30 árum eftir kvennafrídaginn góða.

En ríkið þarf líka að sýna gott fordæmi, bæði með laga- og reglugerðasetningu og með því hvað sagt er og gert. Þó að gæðavottun starfa eða fyrirtækja geti verið allra góðra gjalda verð verð ég að segja að það hlýtur að duga betur að færa Jafnréttisstofu sömu tæki og Samkeppniseftirlit hefur á vinnumarkaði. Hver er munurinn á einstaklingum og fyrirtækjum á markaði í raun og veru? Hann er enginn, frú forseti.

Að lokum vil ég segja: Ég fagna því að ráðherrar og þingmenn Framsóknarflokksins taka hér upp og undir stefnu Samfylkingarinnar um að færa jafnréttismálin undir forsætisráðuneytið. Við höfum lengi verið þessarar skoðunar og fögnum hverjum þeim sem vill taka þátt í því verkefni með okkur.



[14:10]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Þann 24. október sl. komu konur saman, ekki aðeins hér í Reykjavík heldur um allt land til að minnast kvennafrídagsins sem haldinn var með eftirminnilegum hætti árið 1975. Jafnréttisbaráttan hefur vissulega skilað árangri en samt ekki þeim árangri sem við vildum á öllum sviðum.

Fæðingarorlof feðra var einn mjög mikilvægur áfangi og Ísland er í einu af toppsætunum í jafnréttismálum. Konur og karlar bera jafna ábyrgð og þess vegna er mjög ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra muni efna til karlaráðstefnu 1. desember nk.

Ef tækifæri til að sækja fram til valda og áhrifa halda áfram að vera háð kyni verða hæfileikar og kraftar kvenna áfram illa nýttir. Stundum hefur jafnréttisbaráttunni verið líkt við færeyskan dans, það eru tvö skref áfram og eitt aftur á bak. Og hvað er það sem stendur í vegi fyrir því að allir hafi jöfn tækifæri í samfélaginu? Eru það hefðir, eru það viðhorf eða venjur sem valda því að enn þá er launamismunur kynjanna 14% hér á Íslandi? Og hvers vegna veljast færri konur en karlar til stjórnunarstarfa á Íslandi, hvað veldur?

Ef litið er á tölur frá Frjálsri verslun yfir konur í stjórnum 100 stærstu fyrirtækja landsins er hlutfallið aðeins 11,4%. Aðeins fjórar konur eru stjórnarformenn í 100 fyrirtækjum og aðeins eitt fyrirtæki af þessum 100 er með meiri hluta kvenna í stjórn. Að fjölga konum í stjórnum er ekki einungis tækifæri fyrir konur, heldur tækifæri fyrirtækja til að efla forustusveit sína. Fyrirtækin þurfa svo sannarlega á krafti kvenna að halda.

Áfram, stelpur.



[14:13]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það var í sjálfu sér vel til fundið hjá hv. málshefjanda, Jónínu Bjartmarz, að eiga hér þessi huggulegu skoðanaskipti við flokksbróður sinn, hæstv. félagsmálaráðherra Árna Magnússon. Þessi orðaskipti eru eflaust í svipuðum dúr og hv. þingmenn eiga venjulega á kærleiksheimili Framsóknarflokksins, skyldum við ætla. Ég tek undir með hv. þingmanni um að hér þurfi að gera byltingu, mér fannst hún taka undir þau orð sem komu fram í ræðu á kvennafrídeginum 24. október. En með fullri virðingu, hæstv. forseti, finnst mér að hv. þm. Jónína Bjartmarz eigi að kúska sína ráðherra til þar sem hún hefur tækifæri til að gera það sem stjórnarþingmaður, umfram það sem ég hef sem stjórnarandstöðuþingmaður.

Ég treysti því að nú fari að sjást aðgerðir í þessu máli. Við höfum rætt hér jafnréttismál oftar en einu sinni það sem af er þessum vetri, og meðal þess sem hefur verið lagt hér fram í formi þingmála er frumvarp frá mér og öðrum hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem varðar kynbundinn launamun þar sem við teljum okkur vera með tillögu sem er mjög róttæk en jafnframt tillaga sem virkar, tillaga um það að Jafnréttisstofa fái í hendur öflugt tæki til að tryggja það að launamuninum verði útrýmt. Ég treysti því að hv. framsóknarmenn í þessum sal, hv. þm. Jónína Bjartmarz og hæstv. ráðherra, skoði nú með opnum huga þessa tillögu, fari ofan í saumana á henni og styðji hana, sjái til þess að hún komist í gegnum þingið og að þetta verði lögleitt, að Jafnréttisstofa fái sömu tæki í hendur og skattyfirvöld hafa, Samkeppniseftirlit og Fjármálaeftirlit.

Kvennabaráttan á Íslandi á það skilið og ég treysti þá á stuðning Framsóknarflokksins í þessum efnum.



[14:15]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Jónínu Bjartmarz kærlega fyrir að taka jafnréttismálin til umræðu utan dagskrár. Í sjálfu sér má líta á þessa umræðu hér sem mjög ákveðna og alvarlega gagnrýni hv. þingmanns á störf hæstv. félagsmálaráðherra. Þetta voru hugguleg skoðanaskipti en að baki býr mikil alvara og gagnrýni, tel ég.

Við í Frjálslynda flokknum látum okkur jafnréttismálin varða og höfum samþykkt jafnréttisáætlun sem við förum stíft eftir en að undanförnu hefur verið rætt talsvert um launamun kynjanna. Það er mín skoðun að ef nást eigi árangur á þessu sviði eigi að beina athugunum og úrræðum að þeim mun sem er óútskýrður á launum kynjanna og þá á ég við það sem ekki er hægt að skýra út með mismunandi vinnuframlagi kynjanna. Ég tel að umræðan megi ekki heldur einskorðast við hlutföll kynjanna í æðstu lögum þjóðfélagsins, hæstaréttardómara eða í stjórnum fyrirtækja, heldur eigi hún einnig að snúast um kjör fólksins í landinu, hins almenna Íslendings.

Það er ekki hægt að líta fram hjá því samt sem áður að heildarlaun kvenna eru lægri en heildarlaun karla. Þess vegna ættu sérstaklega framsóknarmenn sem brydduðu upp á þessari umræðu að íhuga það að þeir hafa verið að breyta skattstefnunni á þann veg að færa skattbyrðina á þá sem hafa lægri launin af þeim sem hafa hærri launin. Það má því segja með fullum sanni að framsóknarmenn hafi einfaldlega verið að færa skattana af körlum og á konur. Mér finnst þetta íhugunarefni fyrir umræðuna og tel að sú gagnrýni sem kemur fram á störf ráðherra eigi sér djúpar rætur í Framsóknarflokknum.

Það kom fram fyrr í umræðunni í þinginu að einhver sátt væri um launamuninn og þennan aukna ójöfnuð í þjóðfélaginu en ég tel svo ekki vera, frú forseti.



[14:17]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Við verðum að breyta þjóðfélaginu, sögðu frumkvöðlar kvennabaráttunnar árið 1975, 24. október það ár. Til þess að ná frekari árangri í jafnréttisbaráttunni á okkar tímum þurfum við, eins og 1975, að skapa jafnræði í hinum efnahagslega grundvelli. Konur sem karlar þurfa að verða fullburða að efnahag. Launamisréttið er alvarlegasti þröskuldurinn á þessum vegi.

Það er tvöfalt, annars vegar er hin gamla krafa um sömu laun fyrir sömu vinnu en hins vegar þurfum við að breyta því að enn er það svo, 30 árum eftir 1975 og hvaða tíma sem við nefnum þar á undan, að láglaunastörfin eru einkum störf kvenna, hálaunastörfin eru einkum störf karla.

Hv. þm. Jónína Bjartmarz sagði það áðan, sem viðtekið er, að misrétti í launamálum og jafnrétti yfir höfuð sé gamall arfur fyrri alda, kynslóða o.s.frv. og að við stríðum við fordóma fyrri tíðar. Við skulum vona að það sé svo. Ég er ekki viss um það. Ég held að launamisréttið og annað misrétti kynjanna sé að ýmsu leyti innbyggt í nútímasamfélag okkar. Mér sýnist að því sé á ýmsan hátt ekki að linna, heldur byggist það inn í hinar nýju stofnanir, hinn nýja anda, tíðaranda sem við tökum upp og fylgir samfélagi okkar.

Það skiptir máli að við afsönnum þá kenningu að þetta sé innbyggt í samfélagið. Það skiptir máli að við reynum að gera það, okkar kynslóð, sú sem nú er komin til þroska í landinu. Það verðum við að gera með miklu bandalagi, miklu átaki, en verkefnin blasa við eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega. Verkefnin blasa m.a. við í jafnréttislögunum sem eru að verða úrelt, eins framsýn og þau voru á sínum tíma. Það blasir við í kjaramálum sem hið opinbera fer með og það blasir m.a. við í launaleyndinni sem við samfylkingarmenn höfum nú lagt til að verði afnumin. (Forseti hringir.) Það blasir við miklu víðar, m.a. í því að Jafnréttisstofa hefur mjög veikst að undanförnu. Hún veiktist þegar hún var flutt til Akureyrar og þyrfti að gera mikið átak í málum hennar til að koma henni upp aftur.



[14:20]
Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við á Alþingi höfum ekki látið okkar eftir liggja í baráttunni fyrir jöfnum rétti kynjanna því að vissulega er það svo að samkvæmt íslenskum lögum eru kynin jafnsett. Það er í raun og veru ekki um það deilt lengur á meðal þeirra sem fjalla um þau mál að samkvæmt lögum höfum við gert margt til að færa þessi mál til betri vegar. Hinu er þó ekki að leyna að þetta mál er áfram á dagskrá þrátt fyrir það. Krafturinn í kringum 24. október sl. sýndi það, sem og sú umræða sem hefur spunnist út frá hinum mikla fjölda sem kom saman í miðborginni á því afmæli sem þar fór fram.

Þróunin er engu að síður enn þá í rétta átt. Við sjáum að það er rétt sem frummælandi vék að, það eru sífellt fleiri konur sem ekki velkjast í vafa um kosti sína eða hæfni til þess að láta að sér kveða. Þetta kemur fram í prófkjörum í tengslum við framboð sem við höfum orðið vitni að á umliðnum vikum og það er meiri tilhneiging í atvinnulífinu til að hleypa konum að í fleiri ábyrgðarstöður en við höfum lengi séð.

Í tengslum við þessa umræðu tel ég jafnframt mikilvægt að við tökum kyn út af borðinu eins og frummælandi kom inn á og látum hæfileikana ráða. Við þurfum að koma þeim skilaboðum skýrt til skila, bæði í stjórnsýslunni, hjá opinberum stofnunum, og eins úti í atvinnulífinu að þeir sem ákveða að taka kyn fram yfir hæfileika eru að sóa hæfileikum. Þeir sóa fjármunum og þar með tækifærum fyrir íslenskt samfélag hvar sem það verður ofan á að láta hugmyndir gamalla tíma ráða á þeim tímum sem við nú lifum á. (Forseti hringir.) Það er alger tímaskekkja.



[14:22]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þó að sú meginregla gildi í íslensku réttarkerfi að allir skuli jafnir fyrir lögum, óháð kynferði, að jöfn staða kynjanna hafi verið stjórnarskrárbundin á Íslandi frá árinu 1995 og að við séum með sérstök jafnréttislög sem hafa verið í gildi allt frá árinu 1976, er öllum ljóst, held ég, að enn er langt í land með það að jafnrétti kynjanna sé tryggt.

Jafnréttislögin hafa almennt verið viðurkennd sem mikilvægt tæki til að styðja jafnréttisstarf og standa vörð um jafnrétti í samfélaginu. Markvissu jafnréttisstarfi er ætlað að breyta viðhorfum fólks til hefðbundinna kynjahlutverka og kynjabundinna staðalmynda en óhætt er að fullyrða að stjórnvöld geta ráðið úrslitum um þróun jafnréttisstarfs, m.a. með því að framfylgja markvissum áætlunum þar að lútandi.

Það er skoðun mín að þetta starf eigi í raun og veru að hefjast innan sjálfra stjórnmálaflokkanna. Við í Frjálslynda flokknum höfum reynt að leggja okkar af mörkum. Við höfum verið með jafnréttisáætlun í gangi frá árinu 2001 og fyrr á þessu ári náðist sá jákvæði árangur að miðstjórn flokksins er nú skipuð konum 40%, körlum 60%. Við höfum eftir fremsta megni reynt að búa til fléttulista í framboðum til kosninga og konur hafa fengið mjög ákveðin og gild trúnaðarstörf innan flokksins. Hins vegar finnst mér hálfholur hljómur í málflutningi stjórnarliða því að við erum hér með ríkisstjórn sem að mörgu leyti kemur sér mjög illa fyrir konur.

Lítum til að mynda á þá staðreynd að tekjur kvenna eru aðeins 62% af tekjum karla. Við erum með ríkisstjórn sem er með skattstefnu sem miðar að því að hygla þeim hæstlaunuðu í þjóðfélaginu á hverjum tíma. Þetta bitnar að sjálfsögðu á konum sem eru að stærstum hluta í láglaunahópunum. Þessi stefna miðar að því að halda konum niðri í þjóðfélaginu. Þetta starf verður að hefjast í stjórnmálaflokkunum, það verður að færa hingað inn á Alþingi og menn verða að sýna það í verki að þeir meini eitthvað með því sem þeir segja.



[14:24]
Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég vil í seinni ræðu minni byrja á að hafa orð á því að jafnréttisbaráttan er ekki einkamál neins eins stjórnmálaflokks hér á þingi. Jafnréttisbaráttan er líka mál fyrir ríkisstjórnarflokkana á þingi. Alveg á sama hátt og enginn stjórnmálaflokkur hér á þingi framar öðrum getur þakkað sér einhvern árangur er það í raun svo að stjórnarliðarnir hérna, konur jafnt sem karlar, hafa fullan rétt á skoðunum sínum þegar kemur að jafnréttismálum.

Ég sagði í ræðu minni að ábyrgðin á stöðunni eins og hún er liggur á víð og dreif í samfélaginu. Hún liggur síst hjá Alþingi vegna þess að löggjöfin er orðin kynhlutlaus. Körlum og konum er hvergi mismunað í löggjöfinni og það er ekki hægt endalaust að kalla eftir því að stjórnvöld beri ábyrgð á þessu. Þetta liggur í viðhorfum samfélagsins, þetta liggur í viðhorfum hjá aðilum vinnumarkaðarins og mér finnst það ekki umræðunni um jafnréttismál til framdráttar þegar tilteknir stjórnmálaflokkar vilja af önugheitum eigna sér hana og bregðast önuglega við þegar stjórnarliðar á þingi vilja ræða þessi mál. Það er ekki jafnrétti til framdráttar.

Þessi ábyrgð liggur víða og það eru miklu fleiri en stjórnvöld og Alþingi Íslendinga sem þurfa að taka til hendinni. Það þarf að gerast hjá aðilum vinnumarkaðarins, það þarf að gera í kjarabaráttunni og það þarf að gera innan stjórna fyrirtækjanna og tryggja framgang kvenna í stjórnunarstöður, í betur launaðar stöður og í stjórnir fyrirtækja á almennum vinnumarkaði. Ég árétta það hér.

Spurningar mínar til hæstv. félagsmálaráðherra beindust að því hver væru næstu skref hans og ríkisstjórnarinnar. En sem betur fer, eins og kom fram í ræðum margra í þessari umræðu, þá liggur ábyrgðin ekki bara þar. Við verðum að hafa þokkalega víða sýn á þetta og það gengur ekki til lengri tíma litið ef ákveðnir þingmenn (Forseti hringir.) halda að þeir og flokkar þeirra búi að þessu máli einir eða séu þeir einu sem eru þessu máli til framdráttar.



[14:27]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá góðu umræðu sem átt hefur sér stað í þingsal um þetta mikilvæga mál sem snertir okkur öll eins og kom svo glögglega fram í máli hv. þm. Jónínu Bjartmarz.

Það er af mörgu að taka. Ég rakti í fyrri ræðu minni þær aðgerðir sem gripið hefur verið til af hálfu ríkisstjórnar og einstakra ráðuneyta og stofnana til að jafna launin í ríkiskerfinu. Mismununin er ekki síðri á hinum almenna markaði. Ég vonast til þess að gæðavottun jafnra launa muni þar vega þungt í þeirri baráttu í framtíðinni en ég vil, hæstv. forseti, nota tækifærið til að vekja athygli á því í þingsal að ég tel að við þessa umræðu hafi átt sér stað ákveðin tímamót í umræðunni um jafnréttismál. Við þessa umræðu tóku níu hv. þingmenn til máls, fjórar konur en fimm karlar. Ég fagna því alveg sérstaklega að við þessa umræðu hafi karlar látið mjög til sín taka. Það skiptir máli og ég hef sagt það, hæstv. forseti, að til þess að ná lengra fram á veg í jafnréttismálum þurfa karla að láta sig þessi mál varða. Til þess er fyrirhuguð ráðstefna í Salnum í Kópavogi 1. desember nk. sett upp. Ég skora á karla þessa lands og segi: Stígum um borð og gefum jafnréttismálunum það vægi sem þau eiga skilið.

(Forseti (SP): Forseti tekur undir með hæstv. félagsmálaráðherra að það er ánægjulegt að sjá það að kvennafrídagurinn hefur haft áhrif. 50 þús. konur hafa hátt.)