132. löggjafarþing — 21. fundur
 15. nóvember 2005.
Fjáraukalög 2005, 2. umræða.
stjfrv., 144. mál. — Þskj. 144, nál. 334, 349 og 350, brtt. 335, 336, 337 og 351.

[14:29]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005.

Að venju hefur fjárlaganefnd farið yfir frumvarpið, haft það til athugunar og leitað til fjármálaráðuneytis og fagráðuneyta varðandi þau mál sem til umfjöllunar hafa verið og einnig hefur nefndin átt samskipti við ýmsa aðra aðila um málið.

Meiri hlutinn gerir breytingartillögur við sundurliðun 1, tekjur A-hluta, þar sem gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist um 11.240 millj. kr. frá áætlun frumvarpsins. Þá gerir meiri hlutinn 33 breytingartillögur við frumvarpið sem nema alls 3.284,4 millj. kr. til hækkunar útgjalda.

Áhrif breytingartillagna meiri hlutans eru þau að tekjuafgangur ríkissjóðs verður 7.955,6 milljónum meiri en gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga.

Eins og fyrr segir gerir endurskoðuð tekjuáætlun ríkissjóðs fyrir árið 2005 ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs aukist alls um 11.240 milljónir frá því sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjáraukalaga. Áætlað er að skattar á tekjur og hagnað verði 9.585 milljónum hærri en samkvæmt frumvarpinu. Áætlaðar tekjur af tekjuskatti einstaklinga hækka um 2,5 milljarða, tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga fyrir fyrstu níu mánuði ársins er meiri en gert var ráð fyrir og er það helsta skýring þessara breytinga. Áætlaðar tekjur af tekjuskatti lögaðila hækka um 7 milljarða. Meginástæða þessa er endurmat í kjölfar álagningar ríkisskattstjóra sem birt var í byrjun nóvember. Áætlun ríkisskattstjóra var hærri en gert hafði verið ráð fyrir í fyrri tekjuáætlun.

Þá má nefna að við sölu ríkissjóðs á Lánasjóði landbúnaðarins er áætlað að söluhagnaður nemi um 850 milljónum. Af þeirri fjárhæð er greiddur fjármagnstekjuskattur að fjárhæð 85 milljónir sem kemur einnig fram í gjaldahlið og hefur því ekki nettóáhrif á afkomu ríkissjóðs. Gert er ráð fyrir að skattar á vöru og þjónustu hækki um 1.090 milljónir frá því sem fram kemur í frumvarpinu og munar þar mest um að gert er ráð fyrir að vörugjald af innfluttum bifreiðum verði 800 millj. kr. hærra en samkvæmt fyrri áætlun.

Þá er gert ráð fyrir að arðgreiðslur og leigutekjur verði 270 millj. kr. hærri og sektir verði 555 millj. kr. lægri en frumvarpið gerir ráð fyrir. Auk þessa er gert ráð fyrir að sala varanlegra rekstrarfjármuna skili tekjum að fjárhæð 850 milljónir, eins og áður var sagt, og felst það í því að ríkissjóður hefur selt Lánasjóð landbúnaðarins og er áætlaður söluhagnaður vegna þess 850 milljónir.

Eins og ég hef áður sagt er lagt til að útgjöld hækki um alls 3.284,4 milljónir frá því sem fram kemur í frumvarpi til fjáraukalaga og skiptast þau þannig í megindráttum:

Útgjöld vegna æðstu stjórnar ríkisins hækki frá frumvarpi um alls 113 milljónir. Er þar annars vegar um að ræða 98 milljónir til að jafna út rekstrarhalla embættis forseta Íslands og hins vegar 15 milljónir vegna kostnaðar við viðhald Alþingishúss á árinu.

Lagt er til að útgjöld vegna menntamála hækki um 38 milljónir frá frumvarpinu.

Undir málaflokki utanríkismála er lagt til að útgjöld hækki um 18,1 milljón.

Varðandi landbúnaðarmál er tillaga um alls 2.307,7 millj. kr. hækkun. Munar þar mest um að lagt er til að 2,2 milljörðum af söluandvirði eigna Lánasjóðs landbúnaðarins verði varið til Lífeyrissjóðs bænda og þá er gert ráð fyrir 69,2 milljónum vegna uppsafnaðs rekstrarhalla Landbúnaðarháskóla Íslands og 30,5 milljónum vegna stofnkostnaðar sömu stofnunar.

Lagt er til að útgjöld vegna sjávarútvegsmála hækki um 10 milljónir.

Varðandi dóms- og kirkjumál er lagt til að útgjöldin hækki um alls 47,5 milljónir frá því sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu.

Lagt er til að útgjöld vegna félagsmálaráðuneytis lækki um alls 100,6 milljónir. Munar þar mest um 125 millj. kr. lækkun útgjalda vegna Atvinnuleysistryggingasjóðs þar sem gert er ráð fyrir að atvinnuleysi verði minna en áætlað var. Einnig er gert ráð fyrir 50 millj. kr. minni útgjöldum vegna Fæðingarorlofssjóðs og byggir það á endurskoðaðri áætlun um þróun útgjalda.

Lagt er til að útgjöld vegna heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins verði 290,9 millj. kr. hærri en samkvæmt frumvarpinu. Munar þar mest um 75 milljónir vegna hönnunar á nýju greiðslukerfi lífeyristrygginga, 26 milljónum til að fjölga einingum læknisverka í samningi sjálfstætt starfandi sérgreinalækna og 100 milljónum vegna rekstrarvanda hjúkrunarheimila.

Vegna fjármálaráðuneytisins er lagt til að útgjöld hækki um 85 milljónir og er það vegna fjármagnstekjuskatts á hagnaði á sölu Lánasjóðs landbúnaðarins eins og áður hefur verið vikið að.

Hvað varðar samgönguráðuneytið er gert ráð fyrir að útgjöld aukist um alls 444,8 milljónir frá frumvarpinu. Munar þar mest um 300 millj. kr. framlag til endurbóta og öryggisaðgerða á veginum um Óshlíð. Einnig er um að ræða 100 millj. kr. til Vegagerðarinnar vegna aukinna hálkuvarna á vegakerfinu.

Lagt er til að útgjöld viðskiptaráðuneytis aukist um 20 milljónir og er það til að efla samkeppniseftirlit.

Loks er lagt til að útgjöld vegna umhverfisráðuneytis aukist um 10 milljónir og er það vegna Veðurstofu Íslands.

Síðan er breytingartillaga sem gerð er grein fyrir í nefndarálitinu er varðar 3. gr. frumvarpsins og varðar lántökuheimild samkvæmt 5. gr. fjárlaga vegna íbúðalánadeildar Íbúðalánasjóðs.

Ég hef því gert grein fyrir tillögum meiri hlutans í grófum dráttum. Að öðru leyti vísa ég til þingskjala þar sem nánar er gerð grein fyrir einstökum tillögum.

Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem skýrðar hafa verið og tillögur koma fram um á sérstökum þingskjölum.

Að nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar standir eftirtaldir: Magnús Stefánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Arnbjörg Sveinsdóttir, Bjarni Benediktsson, Birkir J. Jónsson, Drífa Hjartardóttir og Guðmundur Hallvarðsson.



[14:36]Útbýting:

[14:37]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði við upphaf umræðunnar um fjáraukalögin við 2. umr. viljað fá mat hv. formanns fjárlaganefndar á ákveðnum þáttum varðandi efnahagslífið. Talað hefur verið um að hér ríki einhvers konar ógnarjafnvægi í efnahagsmálum. Við vitum hvernig gengið hefur þróast miðað við áætlun sem gerð var. Við forsendur fjárlaga þessa árs var gert ráð fyrir að gengisvísitalan væri 122–125, ef mig minnir rétt. Á miðju ári eða í júní gerði fjármálaráðuneytið áfram ráð fyrir að það yrði um 119. Nú stendur það í rétt rúmlega 100. Við þekkjum umræðuna um hina erfiðu stöðu útflutningsgreinanna við þessa hágengisstefnu.

Hvert er mat formanns fjárlaganefndar á að gengisvísitalan verði það sem eftir er ársins og hvert verður þá meðalgengi þessa árs miðað við það sem lagt var upp með?

Eins líka með viðskiptahallann. Í forsendum fjárlaga til þessa árs eins og við samþykktum þau í fyrra og í áætlun fjármálaráðuneytisins frá í janúar var gert ráð fyrir að viðskiptahallinn yrði liðlega 100 milljarðar kr. En hvað ætli viðskiptahallinn verði áætlaður mikill í árslok? Mér þætti fróðlegt að heyra þetta hjá hv. formanni fjárlaganefndar.



[14:39]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var á margan hátt merkilegt innlegg hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að koma með þessar spurningar sem hann hefur lagt fyrir mig í andsvari og gefur mér þar með náttúrlega mjög lítinn tíma til að ræða þær.

Hann spyr mig hver verði gengisvísitalan og hver verði viðskiptahallinn. Til að svara því vísa ég einfaldlega í spár fjármálaráðuneytisins sem við höfum unnið með. Ég er ekki spámannlegar vaxinn en þeir sem þar hafa lagt upp sínar spár frekar en margir aðrir vegna þess að það hefur náttúrlega verið mikið um að vera í hagkerfi okkar og efnahagslífi og allar tölur sýna það. Við erum hér að fjalla um stórauknar tekjur ríkissjóðs á einstökum tekjuliðum sem sýnir hvað er að gerast hjá okkur. Og talandi um viðskiptahalla þá er eitt af því sem hefur valdið frávikum frá spám hin gríðarlega einkaneysla sem hefur vaxið hér á árinu. Ég hef auðvitað margoft rætt það og tel að þjóðin þurfi nú aðeins að fara að gá að sér í þeim efnum og draga saman seglin í einkaneyslunni.

Varðandi þessar spurningar hv. þingmanns get ég ekki svarað þeim öðruvísi en að vísa til þeirra spáa sem liggja til grundvallar því sem við erum að fjalla um.



[14:40]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þessi atriði, gengisþróunin og viðskiptahallinn, eru ein af grundvallaratriðum sem hafa áhrif á stöðu efnahagslífsins.

En víkjum þá að öðru atriði sem mig langar líka til að heyra hjá hv. formanni fjárlaganefndar. Á fjárlagalið utanríkisráðuneytisins á fjáraukalögum er lagt til á fjáraukalögum að veittar verði 50 millj. kr. til að mæta uppsöfnuðum halla á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins og auk þess verði veitt 276 millj. kr. framlag til sendiráða, m.a. til að mæta þar uppsöfnuðum halla vegna reksturs sendiráða á fyrri árum.

Með vísan til fjárreiðulaga ætti þetta ekki að vera heimilt, að birta halla með þessum hætti og koma með hann inn í fjáraukalög. Þetta hefði átt að takast fyrr þegar ljóst var að hverju stefndi. Að vera að koma með svona gríðarlega háar upphæðir eða á fjórða hundrað milljón kr. á eitt ráðuneyti vegna uppsafnaðs halla fyrri ára hlýtur að vera mjög grafalvarlegt mál.

Ég vil því leyfa mér að spyrja hv. formann fjárlaganefndar: Hvað verður gert til að fara ofan í fjársýslu af því tagi sem kemur fram hjá utanríkisráðuneytinu í ljósi þeirra reglna fjármálaráðuneytisins — og hefur það verið kynnt fyrir fjárlaganefnd — sem beita skuli stofnanir og ráðuneyti sem umgangast fjárlög ríkisins (Forseti hringir.) af slíkri léttúð? Hvernig verður því varið varðandi utanríkisráðuneytið?



[14:42]
Frsm. meiri hluta fjárln. (Magnús Stefánsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vísar til tillagna um fjárheimildir til handa utanríkisráðuneyti vegna uppsafnaðs halla og spyr mig hvað mér finnist um það.

Í fyrsta lagi vil ég segja almennt að best væri að við sæjum ekki svona erindi hvort sem það er þetta ráðuneyti eða önnur því að fjárlög eru lög og menn eiga auðvitað að fara að þeim. Mér skilst hins vegar að varðandi sendiráðin hafi ekki tekist að standa undir hagræðingarkröfum sem gerðar hafa varið síðustu árin og er það alls ekki nógu gott og við hljótum að gera athugasemdir við það.

Hv. þingmaður spyr hvað verði gert til að taka á þessum málum. Ég vísa til umræðu sem hefur margoft farið fram um svona álíka mál þar sem verið er að fjalla um rekstrarhalla stofnana og aðila. Þar er um það að ræða að efla eftirlit og beita þeim tækjum sem til eru. Við höfum ýmis lög og reglugerðir sem gilda um þessi efni og það er spurning hvernig menn ætla að beita þeim. Ég vísa til þess.

Hins vegar auðvitað höfum við séð bæði í fjárlögum og fjáraukalögum tillögur til þess að bæta rekstrarhalla. Ég get vísað m.a. í því sambandi til þess að í frumvarpi til fjáraukalaga er verið að gera tillögur um fjárheimildir til ýmissa stofnana, t.d. hjá landbúnaðarráðuneyti, og það kemur einnig fram í breytingartillögum meiri hlutans, þannig að við erum því miður víða að fást við þessi efni.

En sem almennt svar eigum við auðvitað að beita þeim tækjum sem við höfum samkvæmt lögum.



[14:44]
Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar, Magnúsi Stefánssyni, fyrir framsöguerindi hans og ágætlega greinargóða yfirferð yfir tillögur meiri hlutans á milli umræðna. Þetta er 2. umr. um fjáraukalögin, nokkurs konar millikafli þangað til við sjáum þau í endanlegri mynd við 3. umr. og í sjálfu sér lítið fréttnæmt sem orðið hefur milli umræðna.

Helst sýnist kannski fréttnæm sú mikla viðhorfsbreyting sem virðist í forsætisráðuneytinu gagnvart embætti forseta Íslands. Hér kemur fram tillaga frá ráðuneytinu um 98 millj. kr. aukafjárveitingu til forsetaembættisins. Við höfum líka séð að eftir forsætisráðherraskipti nýverið hefur árleg fjárveiting til embættis forseta Íslands farið úr, hygg ég, 124 millj. kr. 2003 í fjárlögin í ár upp á 177 millj. kr., þ.e. nærri helmingsaukning á örskömmum tíma. Nú er rekstrarhallinn hreinsaður upp. Við þekkjum það í þessum sölum að fjárveitingatillögur forsætisráðuneytisins til embættis forseta Íslands hafa ekki hrokkið fyrir útgjöldum um langt árabil og það hefur verið til vansa að sjá embættið á fjáraukalögum ár eftir ár. Æðsta stjórn ríkisins á náttúrlega að ganga á undan með góðu fordæmi. Ég lýsi þeirri von minni að þessi mikla viðhorfsbreyting í forsætisráðuneytinu til þarfa embættis forseta Íslands og sú aðgerð sem hér er farið í í fjáraukalagafrumvarpinu verði til þess að við hættum að sjá embættið á fjáraukalögum frá ári til árs svo að samvinna ráðuneytisins og embættisins verði til þeirrar fyrirmyndar sem hún þarf að vera í okkar ágæta samfélagi.

Við höfum áður gagnrýnt nokkuð æðstu stjórnina. Hér var Alþingi á hinn bóginn hælt nokkuð við 1. umr. sem verður að draga til baka, því miður, því að hér er enn einu sinni komin tillaga um aukafjárveitingu til Alþingis sjálfs upp á 15 millj. og sýnt að framkvæmdir í Alþingishúsinu hafa enn einu sinni farið fram úr áætlunum, nú um liðlega 26 millj. Það er algerlega óviðunandi að við á löggjafarsamkundunni virðum ekki fjárlagarammann og vöndum ekki betur til áætlanagerðar. Það erum við sem setjum fjárlögin. Það erum við sem setjum fjárreiðulögin. Hér er fjárveitingavaldið og það á auðvitað að vera alger undantekning að Alþingi sjálft lendi inni á fjáraukalögum vegna þess að áætlanagerð þess hafi ekki verið viðunandi. Við hljótum áfram að gagnrýna það og auðvitað harma í yfirferðinni yfir æðstu stjórn ríkisins að þau ráðuneyti, forsætisráðuneyti og fjármálaráðuneyti, sem eiga að fara fyrir um aga og aðhald í ríkisfjármálum, um vandaða áætlanagerð og reglufestu, skuli jafnoft vera á fjáraukalögum og raun ber vitni. Kannski varðar það ekki síst forsætisráðuneytið því að þar er um að ræða aðalskrifstofuna. Auðvitað er líka gagnrýnisvert hvernig haldið hefur verið á fjármálum aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins um langt árabil. Þar situr alla jafna formaður hins stjórnarflokksins og stýrir málum, og honum ber auðvitað rík skylda til þess að fara á undan með góðu fordæmi í fjársýslu allri.

Þegar sá reikningur sem við fáum hér frá sendiráðum landsins upp á 270 millj. í viðbótarreikning þrátt fyrir stóraukin útgjöld á umliðnum árum til þessara sendiráða — og þegar til þess er horft að þessi 270 millj. kr. fjárveiting virðist ekki hrökkva fyrir vandanum heldur er líka verið að sækja það að sendiráðin njóti gengisþróunarinnar í ár ólíkt því sem vera ætti samkvæmt reglunum í fjárlagagerðinni — er skoðaður hlýtur maður að gagnrýna þau lausatök sem hafa glögglega verið á fjárreiðum sendiráðanna í utanríkisráðuneytinu og á aðalskrifstofunni.

Það er mikilvægt að við hér í þinginu, æðsta embætti ríkisins og þau ráðuneyti framkvæmdarvaldsins sem forustu hafa fyrir ríkisstjórninni förum á undan með meiri reglufestu og aga í vinnubrögðum en þetta fjáraukalagafrumvarp sýnir. Ég held að þar verði allir aðilar að taka á svo að okkur geti verið meiri sómi að framkvæmd fjárlaganna en raun ber vitni.

Við höfum út af fyrir sig talað um framkvæmd fjárlaganna við 1. umr. um fjáraukalögin og líka við umræðuna um fjárlögin og svo sem mörg undanfarin ár. Menn þekkja þann ágreining sem þar hefur verið uppi. Við höfum bent á það að hér eru jafnan kynnt fjárlög við upphaf þings á nokkurs konar áróðursfundum fjármálaráðherra þar sem dregin er upp ákaflega jákvæð mynd af þróun ríkisrekstrarins. Því miður eiga þær tölur sjaldan mikið skylt við veruleikann og frávikin eru satt að segja gríðarlega mikil, bæði gjaldamegin og nú þetta árið, sem betur fer, líka teknamegin. Á frávikunum þurfum við að taka og vanda miklu betur til áætlanagerðar. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að bæði í sveitarfélögunum og í atvinnulífinu sjálfu mundu menn sæta ámæli fyrir þá áætlanagerð sem hér er uppi.

Við ræddum um málefni landbúnaðarráðuneytisins sömuleiðis við 1. umr. og ég held að þær athugasemdir standi út af fyrir sig óhaggaðar. Við hljótum líka að setja spurningarmerki við ýmsa þá liði sem rata inn á fjáraukalög sem eru augljóslega ekki óvænt, ófyrirséð eða óhjákvæmileg útgjöld á yfirstandandi ári. Hér eru ýmsar fjárveitingar þar sem verið er að hreinsa upp margra ára halla, útgjöld sem féllu til á allt öðrum árum, útgjöld sem ákveðið var að stofna til í ár án þess að neina knýjandi nauðsyn virtist bera til þess og þar fram eftir götunum. Þær eiga að vera okkur umhugsunarefni, efasemdirnar sem Ríkisendurskoðun hefur sett fram um þessa framkvæmd alla og þær rúmu heimildir sem í fjárheimildunum standa um hver áramót, en í stað þess að taka þá umræðu hér eins og við höfum oft áður gert höfum við lagt fram sérstaka fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra þar sem við rekjum ýmsar af athugasemdum Ríkisendurskoðunar um lausatök í ríkisrekstrinum og óskum með formlegum og skriflegum hætti eftir afstöðu ráðuneytisins til athugasemda Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaganna. Við væntum þess að þau svör muni berast á næstu vikum og kunni að gefa þá tilefni til frekari yfirferðar við 3. umr.



[14:52]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir áliti 2. minni hluta fjárlaganefndar við frumvarp til fjáraukalaga við 2. umr.

Ég vísa til almennra talnaupplýsinga sem komu fram í ræðu hv. formanns fjárlaganefndar þar sem hann rakti þær breytingar sem meiri hlutinn gerir á fjáraukalagafrumvarpinu og niðurstöðutölur þess þar af leiðandi.

Í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005 og breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar er lagt til að útgjöld ríkisins verði aukin um rúma 19 milljarða kr. Heimild til gjalda í fjárlögum ársins 2005 var 296,4 milljarðar kr., þ.e. þá hefur orðið 6,4% hækkun frá útgjöldum fjárlaga eins og við afgreiddum þau til ársins 2005.

Rétt er að árétta að í 41. gr. stjórnarskrárinnar segir að ekkert gjald megi greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Í 43. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, segir að ef þörf krefur skuli í frumvarpi til fjáraukalaga leitað eftir heimildum til frekari fjárráðstafana en fjárlög ársins gera ráð fyrir. Engin skilyrðislaus skylda hvílir á ríkisstjórn að leggja fjáraukalagafrumvarp fram fyrir hvert reglulegt þing, heldur fer það eftir þörfinni hverju sinni. Í reyndinni er aukafjárveitinga þörf á hverju ári enda getur ýmislegt breyst í tekjuöflun eða útgjöldum ríkisins og stofnana þess á heilu ári. Í 44. gr. laga um fjárreiður ríkisins kemur fram hvenær heimilt er að greiða úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum. Þar segir að valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þurfi til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skuli leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.

Undanfarin ár hafa ýmis fjárútlát sem fjáraukalagafrumvarp hefur kveðið á um, svo sem vegna mennta- og heilbrigðismála, verið fyrirsjáanleg við gerð fjárlaga og hefðu því átt heima í fjárlagafrumvarpi hvers árs ef rétt hefði verið að verki staðið. Þrátt fyrir að í þessu frumvarpi hafi dregið úr slíku er enn að finna allmörg dæmi um að kveðið sé á um fjárútlát sem áttu heima í fjárlagafrumvarpi ársins af því að þau voru fyrirsjáanleg. Mörg þeirra voru reyndar flutt í breytingartillögum þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs við afgreiðslu fjárlaga fyrir tæpu ári. Svo fyrirsjáanleg var sú fjárvöntun sem síðar kom á daginn og er að hluta til verið að draga í land í þessu fjáraukalagafrumvarpi sem við hér ræðum.

Vissulega má líka finna dæmi í fjáraukalagafrumvarpinu sem rúmast innan laga um fjárreiður ríkisins, eins og t.d. framlög til neyðaraðstoðar vegna náttúruhamfaranna í Pakistan nú í haust, sem við ræddum í upphafi þings í dag, þar sem ríkisstjórnin gerir ráð fyrir og leggur til í því fjáraukalagafrumvarpi 18,1 millj. kr. til aðstoðar við fórnarlömb náttúruhamfaranna í Pakistan. Sú fjárhæð er svo sannarlega ekki há og kom fram í máli margra þingmanna fyrr í dag að þetta væri allt of lág upphæð og að við ættum að gera mun betur. Þess vegna flytjum við einmitt breytingartillögu við þennan lið fjáraukalagafrumvarpsins sem ég ætla að gera grein fyrir um leið og ég geri grein fyrir nefndarálitinu, breytingartillögu við frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005 frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, Guðjóni A. Kristjánssyni, Þuríði Backman og Ögmundi Jónassyni. Hún hljóðar svo að undir lið 03-391, Þróunarmál og alþjóðleg hjálparstarfsemi, undir liðnum Mannúðarmál og neyðaraðstoð komi 98 millj. kr. í stað 31 sem er í frumvarpinu, þ.e. að við hækkum framlagið til neyðaraðstoðar í kjölfar jarðskjálftanna í Pakistan um 80 millj. kr. af hálfu ríkisins og mun það þó varla vera talin ofrausn miðað við bæði efni og aðstæður okkar og einnig miðað við þá miklu neyð sem þar ríkir nú. Þessi tillaga kemur síðan til frekari umfjöllunar og afgreiðslu um leið og fjáraukalagafrumvarpið er hér afgreitt við lok 2. umr.

En lítum á efnahagslegar forsendur fjárlaga ársins sem voru samþykkt fyrir tæpu ári sem við sjáum nú hvernig hafa virkað í raun. Með frumvarpi til fjárlaga fylgir greinargerð fjármálaráðuneytisins um þróun helstu stærða í þjóðarbúskapnum. Þær forsendur sem fjármálaráðuneytið lagði af stað með í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2005 hafa breyst mjög verulega er varðar gengisvísitöluna og áætlaðan viðskiptahalla. Þess má geta hér að gert var ráð fyrir því að gengisvísitalan yrði um 125 stig á árinu 2005 en í dag er hún rétt rúmlega 100 og er ekki fyrirsjáanlegt hver hún verður í árslok. Mér kæmi þó ekki á óvart að hún nálgaðist það að vera 110 sem er þá grundvallarbreyting frá því sem áætlað var við gerð fjárlaga þessa árs. En gengisvísitalan er einmitt mælikvarði á stöðu og samkeppnishæfni útflutningsgreinanna við aðrar greinar erlendis. Ég kem nánar að því síðar í ræðu minni. Þeir þættir sem birtast í gengisvísitölunni eru mjög alvarleg teikn um hversu veik staða efnahagslífs okkar er þrátt fyrir háar tölur í tekjum ríkisins, tekjum sem hafa orðið til að stórum hluta, allt of stórum hluta, vegna skatts á viðskiptahallann, skatts á of mikla og óhóflega einkaneyslu.

Viðskiptahallinn er þá hinn mælikvarðinn á það hvað er að gerast. Í fjárlögum eins og þau voru afgreidd fyrir árið 2005 var gert ráð fyrir liðlega 100 milljarða kr. viðskiptahalla. Í skýrslu fjármálaráðuneytisins um þjóðarbúskapinn í janúar var áætlað að viðskiptahallinn yrði um 103 milljarðar kr. Í skýrslu frá október er þessi áætlun komin í 128 milljarða kr. Þá má nefna að í hagspá Landsbankans frá því í september sem bar yfirskriftina „Ógnarjafnvægi efnahagsmála“ er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði 132 milljarðar kr. Þá er ljóst að verðbólgan á árinu hefur verið meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum fyrir árið 2005.

Niðurstaða viðskiptahallans á enn eftir að koma í ljós. Við eigum enn eftir mjög erfiða mánuði, lok nóvember og desember allan, mánuði mikillar eyðslu, mánuði mikillar einkaneyslu, og það sem er enn alvarlegra er að útflutningurinn hefur heldur dregist saman þannig að þessi staða, viðskiptajöfnuður við útlönd, verður enn verri fyrir það. Enda kemur það ekki á óvart að í þessari þróun efnahagsmála hefur einmitt staða útflutningsgreinanna veikst og útflutningsverðmæti þess vegna dregist saman, bæði vegna óhagstæðs gengis en líka vegna þess að fyrirtæki eru að draga saman og loka, og sum verða að hætta starfsemi vegna þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin rekur í efnahagsmálum. Allt þetta margfaldast og kemur greinilega fram í gengi krónunnar sem er allt of hátt og í allt of miklum viðskiptahalla sem allir efnahagssérfræðingar — og þarf ekki sérfræðinga til — segja að geti ekki gengið. En ríkisstjórnin gerir ekkert og meiri hlutinn á Alþingi gerir ekkert sem slær á þá þróun sem við nú stöndum frammi fyrir, því miður.

Þetta held ég, frú forseti, að sé einmitt einkenni framkvæmdar fjárlaga og efnahagslífs þjóðarinnar í dag.

Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagði í upphafi þings í haust fram tillögu til þingsályktunar um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika. Fylgir tillagan hér með sem fylgiskjal. Í ljósi stöðu útflutningsatvinnugreinanna, svo sem sjávarútvegs, ferðaþjónustu, nýsköpunar og hátækniiðnaðar, stöðu þessara iðngreina í stóriðju- og hágengisstefnu ríkisstjórnarinnar, hefur aldrei verið brýnna en nú að grípa til aðgerða. Tillaga Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hér er til umfjöllunar á Alþingi, um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika, er því mikilvægur liður í þeim aðgerðum sem verður að grípa til.

Eins og áréttað var hér að framan á einungis að veita viðbótarheimildir í fjáraukalögum vegna ófyrirséðra verkefna. Lögin kveða á um það. Undanfarin ár hafa sérstaklega verið nefndir ýmsir fjárlagaliðir vegna mennta- og heilbrigðismála sem hafa fengið viðbótarheimildir í fjáraukalögum, þrátt fyrir að bent hafi verið á við fjárlagagerð að ljóst væri að fjárveitingar væru ekki nægar. Sem dæmi um viðbótarheimildir í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2005 er sérstaklega bent á viðbótarheimild til aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins upp á 50 millj. kr. og sendiráða Íslands upp á 276 millj. kr.

Frú forseti. Ég hef áður gert þetta að umræðuefni hér. Samkvæmt fjárreiðulögum á með fjáraukalögum að taka á ófyrirséðum útgjöldum ellegar bregðast við einhverju sem Alþingi hefur samþykkt.

Vissulega er það engin bein afsökun hjá einstökum stofnunum á vegum ráðuneytanna þó að þær fari fram úr fjárheimildum sínum, en þeim getur verið vorkunn. Þessar stofnanir geta haft verkefni sem krafist er að úr verði leyst og ef löggjafinn hefur ekki tryggt þeim nægilegt fjármagn til að inna þau af hendi eru þær í vanda staddar. Ég þekki dæmi þess að forstöðumenn slíkra stofnana hafa einmitt spurt handhafa framkvæmdarvaldsins hvað þeir eigi að gera, fjármagnið sé ekki nóg en samkvæmt verkefnum eigi þeir að inna þessi verkefni af hendi. Og svörin hafa oft verið fátækleg. Þessar stofnanir neyðast því oft til að fara fram úr fjárheimildum sínum. Við þekkjum þetta. Framhaldsskólarnir, háskólarnir, sjúkrahúsin, svo að dæmi séu nefnd, hafa neyðst til að fara fram úr fjárheimildum. Er það í sjálfu sér ekki gott en er oft frekar dæmi um lélega fjárlagagerð en misbeitingu fjár.

Það er engin lagaleg heimild fyrir því að aðalskrifstofur ráðuneytanna, sem lúta beinni yfirstjórn ráðherranna, skuli meðhöndla fjárlögin eins og t.d. birtist hjá utanríkisráðuneytinu, að á fjáraukalögum skuli vera beðið um á fjórða hundrað milljóna króna til að mæta uppsöfnuðum halla fyrri ára. Ég tel mjög brýnt að tekið verði á fjármálalegri stjórnsýslu ráðuneytanna. Það er erfitt að ætlast til þess að fjársýsla í undirstofnunum verði betri en fjársýsla yfirmannsins, og fjársýsla utanríkisráðuneytisins er með ólíkindum. Hef ég óskað eftir því að áður en við afgreiðum þessi fjáraukalög til 3. umr. verði gerð grein fyrir því hvernig á þessu máli verði tekið, hvers vegna þetta gerðist, og líka þá hvers konar viðurlögum verði beitt.

Ýmis önnur atriði er hægt að nefna hér. Halli samkvæmt höfuðstól einstakra fjárlagaliða í ríkisreikningi fyrir árið 2004 er alls rúmir 20 milljarðar kr. Þar af eru lífeyrisskuldbindingar 7,3 milljarðar kr. og afskriftir skattkrafna 4,8 milljarðar kr., en ónýttar fjárheimildir eru rúmir 16 milljarðar kr. Þessi frávik eru orðin allt of mörg og mikil. Uppsafnaður halli flyst sjálfkrafa yfir á næsta ár. Það er því ljóst að sá vandi sem fluttist frá árinu 2004 yfir á árið 2005 er ekki leystur í fjárlögum ársins 2005 eða í þessum fjáraukalögum eins og þau a.m.k. birtast hér við 2. umr. Við blasir að nokkur ráðuneyti og stofnanir eru nú þegar komin langt út fyrir heimildir fjárlaga án þess að brugðist hafi verið við samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda um framkvæmd fjárlaga. Í þessu sambandi má benda á að fjárlagaliðir sem komnir voru umfram heimildir hjá menntamálaráðuneytinu í árslok 2004 námu alls um 1,5 milljörðum kr. og hjá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti um 2,6 milljörðum kr. Þessi yfirfærsla á halla eða ónýttum fjárheimildum er komin langt umfram það sem hægt er að telja eðlilegt.

Þegar þetta álit er lagt fram hefur fjárlaganefnd ekki fengið uppgjör fjármálaráðuneytisins fyrir janúar til september ársins 2005 fyrir einstök ráðuneyti eða stofnanir sem undir það heyra. Til þess að fjárlaganefnd geti sinnt eftirlitsskyldu sinni og gert raunhæft mat á þörfum fyrir viðbótarheimildir í fjáraukalögum verður að gera kröfu til þess að upplýsingar um fjárhagsstöðu stofnana og ráðuneyta berist nefndinni mun fyrr en nú er.

Fjáraukalagafrumvarpið sem kemur hér til 2. umr. ber því miður of mikinn keim af því að einstakir ráðherrar eru að troða inn gæluverkefnum sínum frekar en að tekið sé á brýnum og aðsteðjandi vanda einstakra stofnana og þær jafnvel látnar fara með halla áfram til næsta árs.

Ég hef lagt áherslu á að breyta þurfi vinnu við fjárlagagerðina. Til að bæta vinnulagið og tryggja að farið sé að lögum hef ég einmitt lagt fram hér á undanförnum árum tillögur til breytinga á lögum um fjárreiður ríkisins sem fela það í sér að þegar svo ber undir skuli fjármálaráðherra leggja fram frumvarp til fjáraukalaga fyrir Alþingi að vori og aftur að hausti. Þingið samþykkir ýmis lög á fyrri hluta árs og þau geta haft í för með sér fjárskuldbindingar á sama ári. Ýmsar forsendur geta einnig breyst, eins og dæmin sanna, og bregðast þarf við þeim. Það hlýtur því að liggja beint við að fjárlaganefnd taki þau mál til meðferðar og leggi fram fjáraukalagafrumvarp sem verði afgreitt fyrir þinglok að vori. Önnur fjáraukalög er svo hægt að afgreiða í byrjun október og síðan kæmu lokafjárlög. Þannig gæti Alþingi fylgt eftir ábyrgð sinni, stýrt útgjöldum og brugðist við breyttum forsendum eins og lög kveða á um. Þannig yrði einnig komið í veg fyrir að efnt væri til útgjalda án heimildar Alþingis nema í algjörum undantekningar- og neyðartilvikum eins og lög um fjárreiður ríkisins kveða á um.

Afar brýnt er að þessi endurskipan fjárlagagerðarinnar komist sem fyrst á svo að það verði í raun Alþingi sem ákveði fjárveitingar til einstakra verkefna. Eins og nú háttar til stendur Alþingi frammi fyrir ákvörðunum framkvæmdarvaldsins um fjárveitingar sem að meira eða minna leyti hafa þegar verið teknar. Sú er því miður raunin í allt of mörgum tilvikum í frumvarpi til fjáraukalaga sem við erum að fjalla hér um.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að víkja að nokkrum þeim breytingartillögum sem liggja fyrir í tillögum meiri hlutans. Ég hef reyndar áður vikið að málefnum utanríkisráðuneytisins sem verður að líta svo á að hafi verulega sérstöðu vegna þess hvernig með fjármuni er farið þar sem á fjáraukalögum er sótt um, eins og hér hefur áður komið fram, 50 millj. kr. til að mæta uppsöfnuðum halla á aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Hefur þó aðalskrifstofan fengið rækilega auknar fjárveitingar á fjárlögum undanfarinna ára. Þá þarf einnig að líta til sendiráða Íslands þar sem óskað er eftir 276 millj. kr. framlagi til sendiráða á fjáraukalögum til að mæta uppsöfnuðum halla fyrri ára. Á orðum þess fulltrúa utanríkisráðuneytisins sem kom á fund fjárlaganefndar var að heyra að þau hefðu ekki talið sér fært að fara að lögum eða stjórnvaldstilskipunum varðandi meðferð fjárlaga ráðuneytisins og þess vegna gert það sem þeim sýndist hvað það varðaði og óska nú eftir því að fá á fjáraukalögum á fjórða hundrað millj. kr. Það fylgdi sögunni að það væri sennilega ekki nóg til að mæta þeim uppsafnaða halla.

Frú forseti. Þetta er óásættanlegt. Það mega vel vera rök fyrir því að utanríkisþjónustan þurfi allt þetta fjármagn þó að ég dragi það stórlega í efa en vinnulagið gengur alltént ekki upp.

Ég hef áður mælt fyrir breytingartillögu um hækkun á framlagi til þróunarmála og alþjóðlegrar hjálparstarfsemi þar sem lagt er til að tillaga meiri hlutans hækki úr 18 millj. kr. í 98 millj. kr., eða um 80 millj. kr., þ.e. framlag til neyðaraðstoðarinnar í Kasmír og Pakistan. Auk mín eru flutningsmenn tillögunnar hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Það er lagt til hér í fjáraukalagafrumvarpinu að 50 millj. kr. séu lagðar til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands til uppbyggingar og þróunarstarfs í Sri Lanka vegna flóðanna þar. Sú upphæð þótti nú ekki há.

Þá er einnig sótt hér um heimild til þess að veita 31 millj. kr. til stuðnings við fórnarlömb fellibylsins Katrínar, eins og stendur hér í fjáraukalagafrumvarpinu:

„Ráðgert er að framlagi verði veitt í sérstakan sjóð, Bush-Clinton sjóðinn, sem stofnaður var til styrktar fórnarlömbum fellibylsins.“

Frú forseti. Það voru hryllilegar hamfarir sem gengu yfir Bandaríkin en það skýtur samt óneitanlega skökku við að upphæðin sem ríkisstjórnin leggur til náttúruhamfaranna í Pakistan, sem eru af miklu meiri stærð og alvarlegri, skuli einungis vera 18 millj. kr. Við leggjum til að sú upphæð verði hækkuð um 80 millj. kr. og þykir þó engum ofrausn.

Frú forseti. Ég vil nefna nokkur önnur atriði. Ég fagna því að komið er til móts við fjárhagsvanda Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri og tel að það hafi verið mjög mikilvægt. Verið var að mynda þar eina stofnun úr þremur og það hefði verið mjög slæmt að hin nýja stofnun færi með mikinn halla inn í sitt fyrsta ár. Það var hárrétt að leysa það mál og vonandi verður það gert það myndarlega að sá halli sé algjörlega skorinn af.

Ég fagna því líka að hér er tillaga um 100 millj. kr. framlag vegna aukinna hálkuvarna á þjóðvegum en ég flutti fyrir tveim árum tillögu um að auka þyrfti hálkuvarnir á þjóðvegum til þess að tryggja öryggi og umferð, eins og við nú erum með snjómokstur, og er ánægjulegt að það skuli vera að koma núna inn sem sérliður.

Einnig fagna ég því að 300 millj. kr. skuli lagðar til endurbóta og öryggisaðgerða á veginum um Óshlíð. Þar er vísað til samþykktar ríkisstjórnarinnar sem að sjálfsögðu fær enga löggildingu fyrr en Alþingi hefur um það fjallað. Þar tek ég einnig undir ábendingar heimamanna að við rannsóknir og kannanir á legu jarðganga á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar verði stílað upp á að þar verði heildstæð jarðgöng sem leysi þann vanda og óöryggi sem vegfarendur þar hafa mátt búa við árum saman.

Frú forseti. Með nefndaráliti mínu fylgir tillaga okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um aðgerðir í efnahagsmálum sem ég tel afar brýnt að grípa til. Staða efnahagsmála, eins og birtist m.a. í forsendum fjárlaga þessa árs, er mjög alvarleg. Við fáum upplýsingar frá hverju atvinnufyrirtækinu á fætur öðru um að það geti ekki starfað við þessa gengisþróun, við þessa vexti á almennum lánamarkaði og fjöldinn allur af fyrirtækjum lokar eða dregur saman í rekstri, fólki er sagt upp. Fyrirtæki sem eru að þróa hátækniiðnaði og hátæknistörf og eru líka með hliðstæða starfsemi erlendis eru í auknum mæli að flytja starfsemi sína úr landi þannig að atvinnulíf okkar verður veikara og veikara, fari fram sem horfir. Það er einmitt fjölbreytni atvinnulífsins og styrkur þeirra útflutningsgreina sem við nú búum við og erum að þróa sem gefur okkur möguleika til þess að sækja fram og bæta lífskjör. Það er kannski alvarlegasti vandinn að ekki skuli á þessu tekið.

Við leggjum til að þegar verði haft samráð um hvernig efnahagslegum stöðugleika verður komið á á ný. Við leggjum til að aðilar vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja og aldraðra og allra þeirra sem málið snertir hafi samráð og grípi til samræmdra aðgerða til þess að tryggja á nýjan leik efnahagslegan og félagslegan stöðugleika.

Skattalækkanir ríkisstjórnarinnar eru ekki liður í því að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Stöðug umræða um auknar stóriðjuframkvæmdir er líka einn veigamesti þátturinn í að viðhalda ógnarjafnvægi og óstöðugleika í efnahagslífinu og það er þess vegna eitt það brýnasta að ríkisstjórnin lýsi því yfir að frekari framkvæmdum við stóriðju og virkjanir verði slegið á frest eftir að þeim framkvæmdum sem í gangi eru er lokið svo að efnahagslífið geti náð sér á ný.

Frú forseti. Ég kem í seinni ræðu minni nánar að öðrum atriðum er lúta að því sem er að gerast í efnahagslífinu og hvernig við getum tekið á því hér, ekki síst við gerð fjárlaga, en læt máli mínu lokið að þessu sinni.



[15:22]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er að vanda að hv. þingmaður komi hér og ræði ríkisfjármálin en ræði jafnframt um allt milli himins og jarðar, eins og honum einum er lagið. Hann fór hér mikinn um það hver hætta stafaði af viðskiptahallanum, hinum gríðarlega viðskiptahalla og þeirri vá sem væri fyrir dyrum. Hann sagði að allir væru sammála um að gengið væri allt of hátt. Hann sagði að ríkisstjórnin gerði ekkert í málinu.

Nú reyndi ég að hlusta eins vel og ég gat á ræðu hv. þingmanns en ég gat ekki með nokkru móti orðið þess vís hvað hv. þingmaður vildi gera í málinu og legg því fyrir hann eftirfarandi spurningar:

Hvað telur hv. þingmaður að eigi að gera gagnvart genginu? Telur hann stefnu Seðlabankans um stýrivextina, vextina af endurkræfu verðbréfunum hafa verið ranga? Taldi hann það rangt hjá Seðlabankanum að hefja þessa hækkun 2. des. sl.? Telur hann að vextirnir séu þegar orðnir of háir? Telur hann að það eigi að hætta við að hækka vextina? Hvernig vill hann þá gera það? Vill hann þá segja alþjóð að það eigi að fara að lækka stýrivexti Seðlabankans samkvæmt áætlun úr því að hann telur þá allt of háa og gengið allt of hátt? Hvernig vill hann gera þetta?

Það fylgir með hér í pakkanum umræða frá vinstri grænum og þar segir að það eigi að efla útflutninginn en það megi alls ekki skerða kaupmáttinn. Hvernig ætlar hann að draga úr einkaneyslunni ef hann getur eflt útflutninginn án þess að það megi draga úr kaupmættinum? Ætlar hann bæði að fara upp og niður, út og suður og til vinstri og hægri í einu skrefi?



[15:24]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér gott að það er einn hv. stjórnarþingmaður sem hefur áhyggjur af því hvernig staða efnahagsmála er hvað varðar útflutningsatvinnugreinarnar, það eru ekki margir aðrir.

Hv. þingmaður spurði hvað bæri að gera. Ég leyfi mér að vitna í umsagnir fjármálasérfræðinga, m.a. hjá Seðlabankanum, um að nú sé ekki rétti tíminn fyrir skattalækkanir sem koma eingöngu hátekjufólki til góða. Númer eitt væri að fresta þeim ef ekki að hætta við þær alveg.

Það gefur augaleið að sá vaxtamunur sem nú er á lánamarkaði á Íslandi og erlendis upp á 7,5%, eitthvað þar um bil, gengur ekki. Það gengur ekki að hægt sé að flytja hingað inn fé í stórum stíl til þess að hagnast á þeim vaxtamun. Það er verið að blóðmjólka eignir almennings í landinu með þeirri stefnu.

Það er mitt mat að Seðlabankinn hafi byrjað of fljótt að hækka vexti og byrjað á of háu stigi. Hann hefði átt að vera kominn neðar. Eftir að efnahagslægðinni í kringum 2001 lauk hefði Seðlabankinn átt að vera kominn neðar í sínum vöxtum til að hafa meira svigrúm til þess að mæta þeim kröfum sem til hans eru gerðar varðandi tökin á efnahagsmálunum, sem hann hefur nánast eingöngu gegnum vexti. (Forseti hringir.)



[15:26]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri þá aðra tilraun. Telur hv. þingmaður að vextir Seðlabankans séu of háir? Ef hann segir að það gefi auga leið að 7,5% vaxtamunur við útlönd gangi ekki, telur hann þá ekki að það verði að lækka þessa vexti? Varla fer Evrópa að hækka vexti við Ameríku okkar vegna til að jafna muninn.

Ef við lækkum vextina, sem ég er að vonast til að hv. þingmaður sé sammála mér að gera, er hann þá ekki sammála því sem allir segja að við það muni krónan veikjast og staða útflutningsgreinanna batna og telur hv. þingmaður það ekki af hinu góða? Nú bið ég hann um að svara já eða nei, það er miklu betra að fá svoleiðis svör.

Er þá ekki gefinn hlutur, sem allir þurfa að horfast í augu við, að kaupmátturinn minnkar, einkaneyslan minnkar? Fæ ég ekki svarið já eða nei? Er það ekki af hinu góða? Er það ekki nauðsynlegt, virðulegi forseti, að kaupmátturinn í innfluttum erlendum varningi lækki? Þarf ekki að gera mönnum nákvæmlega grein fyrir því að hann á að lækka því að hann er of mikill til þess að draga úr viðskiptahallanum? Mér þætti vænt um að fá svarið já eða nei.

Verða menn ekki að gera sér grein fyrir því að það er ekki bæði hægt að halda og sleppa? Það er ekki bæði hægt að hoppa til vinstri og um leið hoppa til hægri. Það er ekki bæði hægt að fara fram um leið og þú ferð aftur. Það verður að segja þetta alveg skýrt. Gengið er of hátt, kaupmáttur í erlendum varningi er of hár. Það þarf að lækka vextina til þess að framleiðslan á Íslandi fái lifað. Mikið væri það gaman, virðulegi forseti, ef hv. þm. Jón Bjarnason vildi nú staðfesta þessa skoðun mína.



[15:28]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það skal ekki standa á mér að staðfesta það að gengið sé allt of hátt og vextir séu allt of háir og að viðskiptahallinn sé allt of mikill. En ég er ekki við stjórnvölinn, því miður. Því miður er það ekki ég sem er við stjórnvölinn, frú forseti. (Gripið fram í: Hvað viltu gera?) Það er Seðlabankinn og meiri hluti ríkisstjórnarinnar sem er við stjórnvölinn. (Gripið fram í: Þín skoðun. Hvað viltu gera?)

Mín skoðun er sú að fyrst verður að losna við þessa ríkisstjórn því að hún virðist ekki ráða við þetta. Hún er ekki að koma núna fyrst til valda, er það? Kom hún til valda í haust? (Gripið fram í: Hvað viltu gera?) Nei. Hún er búin að vera hér í tólf ár. (Gripið fram í.) Og núna kemur helsti forsprakki Sjálfstæðisflokksins í fjármálum og spyr stjórnarandstöðuþingmann: Hvað á ég að gera? Hvað á ég að gera, hrópar hv. þm. Einar Oddur í örvæntingu sinni. (Gripið fram í: Hvað viltu gera?)

Ég vil fyrst losna við ríkisstjórnina, síðan verður að sjálfsögðu að draga til baka skattalækkanirnar sem ríkisstjórnin hefur trú á, skattalækkanir sem koma fyrst og fremst hátekjufólkinu til góða, því hátekjufólki sem er að eyða, því hátekjufólki sem stendur að baki hinni miklu einkaneyslu. Það er ekki fátæka fólkið, það eru ekki öryrkjar, það eru ekki ellilífeyrisþegar sem standa fyrir þessari auknu einkaneyslu. Nei, það er dekurfólk ríkisstjórnarinnar, m.a. Sjálfstæðisflokksins, sem fær aukin vilyrði í lækkun skatta til þess að geta eytt meiru og stuðlað m.a. að viðskiptahallanum.

En vextirnir eru allt of háir, ekki síst þeir innlendu vextir sem nú bitna harðast á íslensku atvinnulífi.



[15:31]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það verður að segjast alveg eins og er að enn á ný er farið á svig við fjárreiðulög og framúrkeyrslan stefnir í 19 milljarða kr. í fjáraukalagafrumvarpinu. Í fjáraukalögum eiga aðeins að vera ófyrirséð fjárútlát en ekki kostnaður sem vel mátti vera sýnilegur við afgreiðslu fjárlaga í fyrrahaust. Mesti vandi okkar nú er mikil skuldasöfnun heimilanna samfara mikilli eyðslu og auknum viðskiptahalla. Í fjárlögum ársins 2005 var áætlað að gengisvísitalan yrði 122 stig á þessu ári en staðreyndin nú er 100 stig. Spyrja má hvort spáin nú um 115 stig sem viðmið í gengismálum fyrir árið 2006 sé líklegri til að vera rétt en fyrri spá.

Hæstv. forseti. Best væri ef gengið á íslensku krónunni lækkaði sem fyrst og lækkaði í hálfum skrefum svo komist yrði hjá kollsteypu í genginu. En því miður verður það líklegri niðurstaða með hverjum mánuðinum sem líður, vegna þess hversu gengið er ofurhátt, að við lendum í kollsteypu með þeim erfiðleikum og kaupmáttarrýrnun sem því fylgir. Það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að spádómar vísustu manna, sérfræðinga í peningamálum og hagfræði hér á landi sem ríkisstjórnin hlýtur að fá ráðgjöf frá hafa varla gefið góða ráðgjöf og góða raun til þeirra ráðherra í ríkisstjórninni sem eftir hafa farið.

Hæstv. forseti. Ég held einnig að við þingmenn sem flestir studdum hækkun lánshlutfalls húsnæðislána í allt upp í 90% lán hefðum mátt treysta betur eigin hugsun og stíga ekki þau hröðu skref í hækkun lána í Íbúðarlánasjóði sem við gerðum. En þá spyr maður: En hvað með bankana sem fóru í að koma með allt upp í 100% lán? Sáu þeir enga hættu fyrir stafni með allt sitt sérfræðingalið í fjármálum eða var þeim e.t.v. alveg sama, enda mætti græða vel á þeirri þenslu sem á eftir kæmi og síðar á sterku gengi íslensku krónunnar og enn síðar á falli hennar með því að tryggja sig í verðtryggingu lána, tryggja sig í fyrsta veðrétti eigna og kaupum á erlendum gjaldeyri þegar fallið byrjaði fyrir alvöru? Er það virkilega svo að einkabönkum sé sama um þessa þróun og sveiflur, enda sjái þeir í sviptingum öllum mikil gróðatækifæri fyrir fjársterka banka og verðbréfamenn? Það er hins vegar óþægileg tilfinning þingmanns sem hvorki er innvígður í peningavaldið né hefur það sem sérstakt áhugamál að velta allan daginn vöngum yfir peningum, vaxtaprósentum eða telja peninga að upplifa það að ráðgjöf og spá sérfræðinganna er í raun aðeins orð í nútíma töluð en marklaus til að byggja á og handahófskennd vinnubrögð.

Íslendingum er mikill vandi á höndum að vera í þessari erfiðu stöðu. Úr vanda er að ráða. En ég endurtek þau orð mín áðan að ég tel miklu betra að gengishreyfingarnar niður á við hefjist sem fyrst svo það ferli sem fram undan er megi e.t.v. verða í skynsamlegum skrefum en dragist ekki til langframa þannig að fallið yrði miklu meira en jafnvel væri eðlilegt og skaði launþega af slíku falli yrði miklu meiri en ella gæti orðið. Því verður ekki á móti mælt að þegar gengið lækkar hér á landi, sem það mun gera, þá hefur það áhrif á kjör fólksins.

Í fjáraukanum nú á að setja viðbótarfjármuni í eitt og annað sem varla ber svo brátt að að þar eigi það heima heldur miklu fremur í fjárlögum ársins 2006. Nokkur dæmi má nefna. Framúrkeyrsla hjá embætti forseta Íslands er upp á 98 milljónir — þar af eru 85 milljónir frá árinu 2004 og fyrr — sem áttu heima í þeim fjárlögum eða eiga eftir að falla í fjáraukalögum fyrri ára. Er svo erfitt að sjá fyrir rekstur Bessastaða? (Gripið fram í: Já.) Þá held ég að tími sé kominn til að setja betri fjárstjórn. Það er óþarfi að hafa þessi mál eins og þau eru í dag.

Hæstv. forseti. Nú liggur allt í einu svo mikið á að gefa út spænsk-íslenska orðabók að slík útgáfa er sett í fjáraukalög ársins þó svo að það sé aðeins innan við mánuður þangað til við væntanlega samþykkjum fjárlög næsta árs í hv. Alþingi. Ég spyr: Hvaða eðlilegu skýringar eru á þessari ákvörðun menntamálaráðherrans? Það er upplýst í texta fjáraukalagafrumvarpsins að það eru þrjú til fjögur ár þar til að þessu verki, spænsk-íslensku orðabókinni, lýkur. Hvers vegna er þetta þá í fjáraukalögum? Tengist kannski einhver góðvinur stjórnarflokkanna þessu verki? Er eitthvað sem þarf að tryggja strax? (Gripið fram í: Svaraðu?) Get ekki svarað. Ég spyr.

Landbúnaðarráðuneytið fær 2,3 milljarða í þessum fjáraukalögum. Þar er uppsafnaður rekstrarhalli um 70 milljónir hjá nýjum sameinuðum Landbúnaðarháskóla á Hvanneyri. Þessi fjárveiting átti með réttu að vera til staðar áður en sameiningin fór fram. Hún var þekkt. Ég spyr: Hver er skýringin á því að tilfærsla upp á 2,2 milljarða á heima í fjáraukalögum en ekki í fjárlögum næsta árs? Af hverju liggur svo á að þessi tilfærsla skuli vera í fjáraukalögunum? Ég vona að forsvarsmenn fjárlaganefndar eða fjármálaráðherra, sem sennilega er farinn héðan úr salnum, geti svarað þessari spurningu.

Við afgreiðslu fjárlaga ársins 2005 lagði stjórnarandstaðan fram tillögu um 100 milljón kr. hækkun til Háskólans á Akureyri. Þá tillögu felldu stjórnarþingmenn í atkvæðagreiðslu í fyrra haust. Nú kemur menntamálaráðherra upp við afgreiðslu fjáraukalaga með tillögu um 110 milljón kr. hækkun þvert ofan í fyrri ákvörðun sína og annarra stjórnarliða. Menntamálaráðherrann mætti alveg að skaðlausu hafa meiri yfirsýn yfir mál í sínu eigin ráðuneyti.

Hæstv. forseti. Þetta er það sem kallað er handahófskennd vinnubrögð. Svo virðist sem hæstv. menntamálaráðherranum líki betur að lofa ýmsu á mannamótum, ýmsum fjárveitingum þó engin samþykkt sé fyrir slíku til staðar, hvorki í fjárlaganefnd né á Alþingi sem hefur löggjafarvaldið.

Varðandi Háskóla Íslands lagði stjórnarandstaðan til við afgreiðslu fjárlaga í fyrrahaust að fjárveitingin yrði hækkuð um 470 milljónir. Það var að vísu líka fellt af stjórnarliðinu. En núna á að hækka fjárlög um rúmlega 1 milljarð fyrir árið 2006 og þar til viðbótar í fjáraukalögum nú um 177 milljónir kr. Auðvitað er verið að taka á vanda sem fyrirséður var haustið 2004 og enn vantar á að lagfærð sé nægilega bæði staða Háskólans á Akureyri og Háskóla Íslands. Finnst mönnum þetta vera vinnubrögð sem bera vitni um skarpa yfirsýn menntamálaráðherra í málefnum háskólanna eða er kannski verið að forgangsraða til þeirra skóla sem taka skólagjöld með sveltistefnu á aðra háskóla? Svo mætti halda. Þetta finnst mér, hæstv. forseti, ábyrgðarlaus vinnubrögð.

Í utanríkisráðuneytinu er haldið áfram að þenja út og það vill fá í fjáraukanum í aukna yfirstjórn og almennan rekstur alls 326 milljónir af þeim 500 milljónum sem það sækir um í fjáraukanum. Þar til viðbótar eykst rekstur aðalskrifstofu á næsta ári um 140 milljónir samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2006. Svo virðist sem orðin sé hefð fyrir því að utanríkisráðuneytið eyði umfram fjárlög á hverju ári og bæti í eyðsluna við stjórnun og við sendiráð í öllum fjárlagafrumvörpum sem minni mitt rekur til.

Hjá Tryggingastofnun ríkisins í lið 6.01, Tæki og búnaður, tillaga um 75 milljón kr. aukafjárveitingu enn á ný til að mæta kostnaði við hönnun á nýju greiðslukerfi lífeyristrygginga. Talið er að kostnaður verði í heild hátt í 400 milljónir kr. og að verkinu ljúki e.t.v. árið 2006. Hönnun þessa kerfis er komið úr öllum böndum og fróðlegt væri að hæstv. fjármálaráðherra gerði okkur grein fyrir því hversu lengi þetta verkefni hefur staðið, þ.e. smíði á þessu sérstaka kerfi fyrir Tryggingastofnun ríkisins og hvaða snillingar það eru nú sem hafa verið með þetta verk á sinni könnu árum saman. Þeir eru reyndar í áskrift við að búa þetta kerfi til að því er virðist. Ég hef staðið í þeirri meiningu, hæstv. forseti, að mikið sé til af lausnum varðandi bókhald og mismunandi tölvukerfum til allra verka í þessu þjóðfélagi. En það virðist þurfa að sérhanna allt fyrir ríkið. Fróðlegt væri ef hæstv. fjármálaráðherra gæti upplýst það, ef hann gæti fengið sína starfsmenn til að fletta því upp, hvað ríkissjóður hafi eytt miklu í hönnun slíkra kerfa undanfarin fimm ár í hinum ýmsu stofnunum. Mig grunar að það hlaupi, því miður, orðið á milljörðum.

Hæstv. forseti. Að lokum langar mig að spyrja um tvær upphæðir í fjáraukalagafrumvarpinu. Það er annars vegar um ýmis leyfis- og skráningargjöld sem hækka um 168 milljónir. Ég vil spyrja nánar út í það hvaða gjöld eru hér á bak við eða hvar megi finna skýringar við þessa tölu. Hins vegar langar mig að forvitnast um auknar tekjur af dómsektum og viðurlagaákvörðunum sem einnig er hér veruleg upphæð, um milljarður kr.

Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra geti svarað þessum einföldu spurningum sem ég hef lagt fyrir hann og vonast til að við förum upplýstari inn í umræðuna um fjárlög þegar þar að kemur.



[15:45]
Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Í þessari 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005 er eðlilegt að umræðan fari vítt og breitt, jafnvel í umræðu um almenn efnahagsmál eins og hér hefur nokkuð borið á. Hins vegar er eðlilegt að við látum ýmislegt bíða til 3. umr. af þeirri einföldu ástæðu að í dag eru t.d. aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin vonandi að ganga frá samkomulagi og það er óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir því að það geti haft einhver áhrif á frumvarpið sem hér liggur fyrir og þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram. Það er a.m.k. ekki ólíklegt að þar gæti eitthvað komið inn.

Ég get endurtekið það sem ég hef sagt áður í umræðum um frumvarp til fjáraukalaga og um fjárlagafrumvarpið að ég tel það okkar helstu von til þess að tök náist á efnahagslífinu að aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin nái samkomulagi, þar sem aðilar vinnumarkaðarins hafa í raun mun meiri áhrif en ríkisstjórnin og að þeir komi vitinu fyrir ríkisstjórnina. Við vitum auðvitað hvernig umræðan um efnahagslífið hefur verið, þar hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar yfirleitt sungið þann sérkennilega söng að hér sé allt í lukkunnar velstandi og að ekkert þurfi að gera til þess að taka utan um þau mál og láta þau lenda á réttan hátt.

Þetta er hins vegar algjörlega í andstöðu við það sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sagt og ég endurtek að ég bind vonir við það, eins og gerðist síðast þegar við vorum í svipuðu ástandi, að þessir aðilar komi vitinu fyrir ríkisstjórnina og aðstoði okkur við að tryggja mjúka lendingu í því ástandi sem við nú búum við.

Frú forseti. Það er ekki annað hægt en að taka undir það sem hér hefur komið fram varðandi frumvarp til fjáraukalaga og þær breytingartillögur sem komið hafa frá meiri hluta fjárlaganefndar. Það er með ólíkindum hversu illa gengur að fá ríkisstjórnarmeirihlutann og ríkisstjórnina sjálfa til þess að fara eftir þeim ágætu lögum sem fjárreiðulög ríkisins eru. Og þrátt fyrir það að hæstv. fjármálaráðherra hafi rifjað upp með okkur hér fyrr í haust að hann hafi átt sæti í þeirri ágætu nefnd sem samdi lögin virðist það ekki hafa nein áhrif á vinnubrögðin enn sem komið er a.m.k. En við vonum auðvitað það besta og gefum hæstv. fjármálaráðherra að sjálfsögðu tækifæri til þess að sýna það að ári að einhver meining hafi verið í allri þeirri vinnu sem fór í að semja fjárreiðulögin.

Frú forseti. Það er auðvitað dæmi um það mikla kæruleysi sem menn viðhafa hér við ríkisfjármálin að menn skuli fara svo gróflega á mis við þau trekk í trekk og nota fjáraukalög til þess að sópa upp ýmsu sem á heima í fjárlögum. En þetta virðist vera orðinn vani eða hluti af þeim leik að fegra fjárlagafrumvarpið og fjárlögin sjálf, að setja allt mögulegt sem á heima í fjárlögum inn í fjáraukalög. Við erum búin að fara margoft yfir þetta og gerðum reyndar alveg sérstaka úttekt á fjáraukalagaumræðunni árið 2003 en því miður hefur það engan árangur borið. Við verðum samt sem áður að halda áfram og vona að það miði í rétta átt þótt hægt fari, því að ekki er hægt að gefast upp, og það er hægt að segja að það hafi eitthvað miðað áfram, en asskoti er nú hægt farið.

Hið mikla innstreymi fjármagns í ríkissjóð leiðir auðvitað líka til kæruleysis, en það skapast m.a. af því að það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að menn eigi ekki fyrir reikningunum þegar þenslan er slík sem nú og skilar sér með stórauknum fjármunum í ríkissjóð. Hluti af kæruleysinu er auðvitað þegar skoðað er hve ótrúlega miklu skeikar í áætlunum og forsendum sem t.d. fjárlög fyrir árið 2005 byggja á. Í einföldum orðum er hægt að segja að allt sé á skjön, það standist ekki neitt, og ég hugsa að það sé langt síðan við höfum horft upp á jafnmikil frávik frá forsendum og við sjáum nú. En eins og ég sagði áðan og endurtek, þá held ég að nær sé að ræða þetta við 3. umr. vegna þess að þá sjáum við, ef samkomulag næst á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnar, til hvaða ráða verður brugðið til þess að ná tökum á því ástandi sem við nú lifum við.

Frú forseti. Ég vil þó nefna örfá dæmi varðandi það hvernig þetta kæruleysi kemur fram. Því miður verð ég þó að byrja á að taka til baka orð sem ég lét falla við 1. umr. þegar ég tók Alþingi sérstaklega sem dæmi um það hvernig menn ættu að læra af fyrri mistökum. Eins og við munum flest var það þannig fyrir ári að í fjáraukalagafrumvarpinu var afgreidd 60% leiðrétting á framkvæmdum við Alþingishúsið. Ég hafði vonast til þess að menn hefðu lært af þessu og náð tökum á áætlunargerðinni og ég sá ekki annað í frumvarpi til fjáraukalaga en að nú væri málum þannig háttað að þrátt fyrir miklar framkvæmdir í sumar hefði náðst að stilla rétt af.

Því miður kemur það nú í ljós að lærdómurinn er mun minni en ég hélt, því að í fyrra voru það 60% en nú eru það 44%. Vissulega er munurinn minni en fyrr og er í rétta átt, en það tekur ansi mörg ár ef við eigum að ná að núllstilla þetta ef hraðinn er ekki meiri. Þetta vekur sérstaka athygli og væri fróðlegt ef einhver hefði skýringu á því hér við umræðurnar hvað það er sem veldur því að þessi 40%, eða 26,2 millj. kr. af áætlun sem var upp á 60 millj. kr., koma í ljós á þeim stutta tíma eftir að frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram en áður en meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram tillöguna. Hvernig stendur á því að ekki var vitað um þetta þegar frumvarpið var lagt fram? Hver er skýringin á því að þessi tala kemur allt í einu í ljós á þessum örfáu vikum? Því ég trúi ekki að svo illa hafi verið fylgst með framkvæmdinni að þetta hafi komið mönnum algjörlega á óvart.

Annað sérkennilegt dæmi sem hér hefur verið minnst á og ég vil einnig vekja athygli á er styrkur til ágæts verkefnis — þetta tengist því ekkert hvers konar verkefni við erum að fjalla um — en það er styrkur til útgáfumála, þ.e. 15 millj. kr. til að styrkja gerð spænsk-íslenskrar orðabókar. Þetta er auðvitað mjög sérkennilegt hér inni í áliti meiri hluta fjárlaganefndar, en ég veit reyndar að tillagan er ættuð frá ríkisstjórninni, að á þeim þremur vikum sem eru liðnar frá því að frumvarp til fjáraukalaga kom fram sé kominn upp bráðavandi sem kalli á styrk til þessarar útgáfu. Ekki veit ég nákvæmlega hvaða gífurlegi vandi þetta er en væntanlega eru það einhver orðatiltæki á spænsku sem menn hafa lent í vandræðum með að þýða yfir á íslensku, einhver gífurlega mikilvæg orðatiltæki sem ekki þola neina bið, því að ekki er nú langt þar til við munum afgreiða fjárlög ársins 2006, þar sem þetta ætti augljóslega frekar heima í.

Frú forseti. Það eru fleiri mál sem hér er rétt að minnast á áður en ég fer yfir í að bera saman mismunandi meðhöndlun á stofnunum. En það virðist vera algjörlega tilviljunarkennt hvernig tekið er á málum, hvaða stofnun er unnið við og hvaða stofnun verður gert við næst, það er engin heildarsýn eða heildarvinnubrögð eða jafngildar reglur sem virðast vera í gangi.

Það er eitt mál sem ég tel klárlega eiga heima hér og er í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar og ég vil vekja sérstaka athygli á en það er undir samgönguráðuneytinu. Þar er lagt til að 18 millj. kr. verði lagðar fram vegna athugunar á samgöngumiðstöð í Vatnsmýri og á Reykjavíkurflugvelli en á þessu ári er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg komi með jafnháa upphæð á móti þannig að samtals fari 36 millj. kr. í þetta mikilvæga verkefni. Þetta er auðvitað í samræmi við það samkomulag sem náðst hefur á milli samgönguyfirvalda og stjórnar Reykjavíkurborgar um að fara í þetta verk. Þetta var auðvitað ekki ákveðið fyrr en á þessu ári og ég geri ráð fyrir því að þær vikur sem liðið hafa frá því að frumvarpið kom fram hafi menn náð að fínstilla þennan samning þannig að upphæðirnar séu klárar.

Það er auðvitað mjög ánægjulegt að svo snarlega sé hægt að bregðast við þessu því eins og við vitum er hér um stórt og mikið mál að ræða, deilumál sem hefur verið þvers og kruss á sveitarfélög og flokka og því mikilvægt að farið verði markvisst í það. Það er þess vegna sérstakt fagnaðarefni að þetta skuli vera komið hér fram þannig að ekki verði tafir á þessu vegna skorts á fjármunum.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að nefna tvær stofnanir sem báðar koma við sögu varðandi frumvarp til fjáraukalaga og síðan þær breytingartillögur sem koma frá meiri hluta nefndarinnar. Þetta eru tvær háskólastofnanir, annars vegar Háskólinn á Akureyri, sem er nefndur í frumvarpi til fjáraukalaga, og síðan Landbúnaðarháskóli Íslands, sem nefndur er í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.

Hér er afskaplega ólíku saman að jafna og ég vil taka þetta sem dæmi um hversu misvísandi vinnubrögðin eru. Það er mjög til fyrirmyndar sem segir í texta með breytingartillögum meiri hlutans um Landbúnaðarháskóla Íslands en þar er miðað við að stofnunin verði hallalaus í árslok 2005. Það er mjög til fyrirmyndar að þannig sé staðið að málum að stofnanir séu hallalausar í árslok þess árs sem viðkomandi fjáraukalög eiga við. Hér er hins vegar enn eitt dæmi um það sem við höfum margoft rætt að hluti af þessari upphæð á að sjálfsögðu ekki heima hér vegna þess að það er á skjön við fjárreiðulög. En ég er búinn að fjalla um það og ætla þess vegna að láta það liggja milli hluta.

Þarna er hins vegar augljóslega rétt að verkinu staðið — en við verðum að hafa þann fyrirvara á að svo sé vegna þess að því miður eru allt of mörg dæmi um að ekki sé nógu vel vandað til verka, en við skulum gefa okkur að það sé þarna — að skilja stofnunina eftir hallalausa í árslok þannig að hún geti byrjað á hreinu borði á næsta ári.

Hin stofnunin sem ég nefndi áðan, Háskólinn á Akureyri, býr við allt aðra niðurstöðu. Þar er gerður samningur við menntamálaráðuneytið, þvingaður samningur vil ég meina, og með honum virðist verða stöðnun í þróun skólans, það verður að skera niður starfsemi, fækka deildum og minnka þann vöxt sem þar er. Það er verið að tefja þann tíma sem það tekur stofnunina að komast í það sem kalla mætti „hagkvæmnisstærð“. Það hefði þurft að gera áætlun um hvernig hægt væri að flýta því að stofnunin næði slíkri stærð, sem er mikilvægt að verði, og að það væri skipulega unnið að því.

Það vekur auðvitað athygli að svona mismunandi skuli vera tekið á tveimur háskólastofnunum. Skýringin er væntanlega m.a. sú að við búum við það sérkennilega kerfi að sumir háskólar heyra undir menntamálaráðuneytið en aðrir háskólar undir landbúnaðarráðuneytið. Það eru augljóslega mismunandi reglur sem gilda um þær stofnanir sem heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Það er algjörlega óskiljanlegt hvernig á því stendur, en við skulum ekki gleyma því að ríkisstjórnin hefur boðað að heildarlöggjöf um háskólastigið verði endurskoðuð og þar verði tryggt að allir háskólar sitji við sama borð. Við bíðum spennt eftir að sjá það frumvarp og vonum að það komi sem allra fyrst.

Frú forseti. Fyrst ég er farinn að tala hér um Háskólann á Akureyri er eiginlega ekki hægt að komast hjá því að rifja aðeins upp umræðu sem hér varð í gær þegar hæstv. menntamálaráðherra fór enn einu sinni með talnasúpu sem einhver hefur væntanlega ritað á blað fyrir hæstv. ráðherra, og það var eiginlega ekki hægt að skilja það öðruvísi en hæstv. ráðherra tryði sjálf öllum þeim tölum sem hún fór með og að hér væri háskólastigið raunverulega það besta, magnaðasta og mest til fyrirmyndar af öllu háskólastigi í heimi, ef rétt var skilinn ræðubútur hæstv. ráðherra.

Síðan sjáum við í fréttum strax í gær að enn ein úttektin hefur farið fram á Háskóla Íslands, líklega sú þriðja á skömmum tíma. Þar kemur í ljós að Háskóli Íslands stendur að mestu leyti afskaplega vel í samanburði við aðra háskóla í Evrópu. Það er eitt sem vekur þó sérstaka athygli, og það vekur einnig athygli að það er sama niðurstaða og kom fram í úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði á Háskólanum, og það er að fjárveitingar til skólans standast ekki samanburð við fjárveitingar til annarra háskóla í Evrópu. Það má segja að skólinn hafi staðist mjög vel allan annan samanburð en fjárveitingar stóðust ekki samanburðinn, þrátt fyrir að ráðherra menntamála hafi farið oft með þennan sama söng um að hér væru fjármunir til háskólastigsins til fyrirmyndar hvert sem litið væri. Að vísu hafði hæstv. ráðherra breytt textanum örlítið frá því sem farið var með hér í þingsölum nokkrum klukkustundum áður, því að nú var textinn orðinn sá að það væri náttúrlega ekki hægt að horfa á þetta, heldur væri niðurstaðan sú að hér hefðum við bætt mest við. Nú var það orðinn sá samanburður sem stóðst, að við hefðum bætt mest við.

En það verður auðvitað að segjast eins og er að sá samanburður getur auðvitað gefið góða niðurstöðu ef nógu lítið hefur verið fyrir. Og þannig er hægt að taka rétta viðmiðun til að komast að þessari niðurstöðu. En við eigum ekki að vera að standa í svona deilum, þetta eru óþarfar deilur. Niðurstöðurnar koma núna trekk í trekk, sama niðurstaðan aftur og aftur, og þá á ekkert að vera að berja hausnum við steininn. Þá á auðvitað að fara í þá vinnu að skoða hvert við viljum stefna með menntun í landinu. Síðan eigum við að stika okkur leið að þeim markmiðum en ekki vera að deila um svo augljósa hluti sem þetta er.

Frú forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að ég vildi helst láta megnið af þessari umræðu bíða til 3. umr. þegar við höfum betri heildarmynd um hvað verður í lokaniðurstöðu fjáraukalaga fyrir árið 2005. Vonandi hafa Samtök atvinnulífsins og ríkisstjórnin nú náð saman og væntanlega er verið að kynna það samkomulag á blaðamannafundi nú. Ég vænti þess því að við 3. umr. munum við vita hvernig það samkomulag hljóðar. Ég trúi því og treysti, eins og ég hef áður sagt, að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafi komið vitinu fyrir ríkisstjórnina og að við getum vænst þess að töluverðar breytingar verði á, ef ekki því frumvarpi sem hér liggur til fjáraukalaga þá a.m.k. frumvarpinu sem liggur til fjárlaga næsta árs. Og þá getum við vænst þess að það verði mýkri lending í því þensluástandi sem við búum við nú en hægt var að búast við með óbreyttu fjárlagafrumvarpi.



[16:03]
Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegur forseti. Hér fer fram 2. umr. um fjáraukalög. Ég fagna því að stjórnarandstaðan hefur í þessari umræðu rætt töluvert um fjárreiðulögin, nr. 88/1997.

Fjárreiðulögin voru gríðarlegt framfaraspor þegar þau voru sett. Allan tímann síðan höfum við leitast við að fara eftir þeim. Það var mikil lausung í fjármálum ríkisins áður fyrr, fjárreiðulög kannski ekki flutt nema á margra ára fresti o.s.frv. Reglur um hvað ætti þar heima og hvað ekki voru mjög óskýrar. Það hefur verið reynt, virðulegi forseti, að fara eftir áðurnefndum lögum og vanda vinnubrögðin. Það hefur náðst verulegur árangur en það er rétt sem fram hefur komið hjá stjórnarandstöðunni, að það vantar töluvert á að menn virði þessi lög. Það er alveg rétt sem kemur fram í gagnrýni sumra hv. þingmanna, að sumt af því sem hér er í fjárreiðulögunum ætti helst ekki að vera þar, í fyrsta lagi vegna þess að það var ekki ófyrirséð. Í öðru lagi má færa rök fyrir því að það ætti heima í fjárlögum 2006. Þetta er hárrétt.

Hins vegar eru sumt í þeirri gagnrýni byggt misskilningi, t.d. hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni. Hann spurði: Hvernig í ósköpunum stendur á því að 2,2 milljarða kr. færsla er nú í fjárreiðulögunum? Það er alveg rétt að færslan á að vera í fjárreiðulögunum vegna þess að salan á sjóðnum og færslan á peningunum til Lífeyrissjóðs bænda átti sér stað núna. Þá er rétt að það færist inn í fjárlögin á þessu ári sem og tekjurnar af því og skatttekjur ríkisins, þessar 85 millj. kr. Gagnrýni hans er því á misskilningi byggð.

Hins vegar er alltaf, virðulegi forseti, þó nokkuð um að upp komi ófyrirsjáanlegir hlutir. Þá er bara að taka því. Einnig er um það að ræða og rétt að það komi fram að nokkrar færslur í fjárreiðulögunum, sjálfsagt upp á einar 10–15 millj. kr., má rekja til handvammar hjá meiri hluta fjárlaganefndar við afgreiðslu í fyrra, ákveðnir hlutir sem við höfðum bókað komust ekki rétt til skila. Það hefur verið leiðrétt og ríkisstjórnin tekið það til greina. Það hefur farið í gegn en slíkt mun alltaf gerast þótt leiðinlegt sé að þurfa að segja frá því.

Það er líka rétt að sumar greiðslur í frumvarpinu eru því miður illverjanlegar. Menn hafa komið hvað eftir annað og rætt um þau atriði, t.d. um embætti forseta Íslands. Nú er það leiðrétt mörg ár aftur í tímann og verður að segja þá sögu eins og hún er. Því miður hefur fjármálastjórn þess embættis verið til töluverðs vansa. Það er fullyrt við okkur í fjárlaganefnd að á milli forsætisráðuneytisins og embættis forsetans fari fram umræða um að einhver sem hafi beina yfirstjórn komi að málinu og það væri þá forsetaritari sem bæri ábyrgð á fjárreiðunum. Ég ætla að vona að það gangi eftir vegna þess að það er alveg rétt sem menn hafa sagt, að við getum ekki látið þetta vera svona.

Ýmsum öðrum stofnunum hefur ekki gengið nógu vel þótt þeim hafi fækkað verulega. Þeim stofnunum sem við eigum í stórvandræðum með hefur fækkað verulega. Á hinn bóginn hef ég ekki tekið eftir því að neinn talaði um að hjá sjúkrastofnunum, sem hafa verið stærstu liðirnir hjá okkur og ekki síst háskólasjúkrahúsið, hefur tekist að ná umtalsverðum rekstrarárangri. Miðað við það sem við höfum fjallað um á undanförnum árum finnst mér ástæða til að fara um það viðurkenningar- og þakkarorðum. Þetta var eitthvað sem sumir voru farnir að trúa að væri óviðráðanlegt. En nú er að nást þar árangur og það er ástæða til að vera ánægður með það.

Þarna er ein færsla sem ég ætla að taka sérstaklega undir gagnrýnina á, þ.e. færslu upp á 276 millj. kr. í utanríkisráðuneytinu til sendiráðanna. Skýringin sem nefndin fékk á þessu máli var sú, frá ráðuneytisstjóranum, að utanríkisráðuneytið hefði ekki sinnt hagræðingarkröfu gagnvart þeim sem sett hefur verið í fjárlög síðastliðin fimm eða sex ár. Það er náttúrlega skelfilegt, virðulegi forseti, þegar ráðuneytið hagar sér svona. Ég vil trúa því að slíkt endurtaki sig ekki enda er vansinn mikill. Við höfum líka rætt, ég og formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Magnús Stefánsson, við ríkisfjármálanefnd og ráðuneytið um að við verðum að breyta vinnubrögðum gagnvart kröfunni um hagræðingu. Það er sjálfsagt að ríkið geri kröfur til rekstraraðila sinna eins og gerð er krafa til rekstraraðila í frjálsum atvinnurekstri um hagræðingu. Það er engin ástæða til að gefa það eftir á nokkurn hátt. Það að ráðuneyti geti stungið því undir stól árum saman er ekki verjanlegt. Það er vítavert í alla staði, hvernig sem á það er litið. Ég ætla rétt að vona, virðulegi forseti, að ekkert ráðuneyti vogi sér hér eftir að sýna þinginu slíka óvirðingu, að virða ekki kröfur og lög árum saman en biðji hins vegar um háar fjárhæðir. (Gripið fram í: Við höfum sagt þetta áður.)

Í heildina tekið, virðulegi forseti, verður þó að segja að rekstrartilfærslur í fjáraukalögum í ár eru minni en við höfum fengist við á undanförnum árum. Þótt afkoman sé mun betri af ýmsum ástæðum, ekki síst vegna viðskiptahallans, fáum við inn verulegar umframtekjur miðað við það sem við ætluðum. Ég vona, virðulegur forseti, að þær umframtekjur hverfi vegna þess að þau kaup á erlendum varningi sem standa á bak við þetta eiga ekki að eiga sér stað. Vonandi hverfa þessar tekjur. Vonandi verður ríkissjóður ekki með svo mikinn afgang á næsta ári. Ég ætla hreint að vona það. Það er engin ástæða til þess að ríkið taki svo gríðarlega peninga inn og það gerir í ár.

Virðulegi forseti. Meginmarkmið efnahagsstefnunnar hefur nokkurn veginn staðist. Við settum okkur það mark að samneyslan í landinu mundi ekki hækka um nema 2% og millifærslurnar í ríkiskerfinu ekki nema um 2,5%. Samneyslan er aðeins yfir því markmiði en millifærslurnar eru töluvert undir því. Í heildina hefur þetta staðist. Og að vera ekki með nema með 2,3–2,2% hækkun í heildina á ári, eins og núna, sem við vitum að mun enda með hagvöxt yfir 6%. Þótt við vitum ekki nákvæmlega hvenær það verður en það verður ekki fyrr en einhvern tíma næsta vor sem þeir útreikningar koma, er náttúrlega einhver mesti árangur sem við höfum náð í ríkisrekstri, hinum opinbera rekstri. Við höfum alltaf átt í vandræðum með það, virðulegur forseti, og haft tilhneigingu til að hækka samneysluna umfram vöxt þjóðarbúsins. Í ár hefur tekist að lækka hana hlutfallslega. Ég tel ástæðu til að fagna því. Við ætluðum okkur að ná því markmiði og okkur hefur tekist það. Þetta er meginmarkmiðið.

Ég vil ítreka það sem ég hef oft sagt áður: Aðhald að samneyslunni og aðhald að tilfærslunum er miklu meira atriði til lengri tíma fyrir þróun ríkisfjármálanna en hve margar milljónir til eða frá eru í afgang. Það geta vel verið þær aðstæður í efnahagslífinu að verjandi sé og jafnvel af hinu góða að við rekum ríkissjóð einhvern tíma með halla. Það eigum við að gera ef efnahagslífið kallar á það. Við erum með óeðlilega góða afkomu núna sem byggist á óeðlilegri neyslu, óeðlilegum kaupmætti í erlendum varningi.

Við verðum þó að halda áfram því markmiði, sem er aðalatriðið, að halda aftur af samneyslunni og passa að hún vaxi minna en þjóðarbúið í heild. Það er hið stóra markmið. Þannig getum við áfram tryggt það sem tekist hefur síðustu 10–12 árin, að gera Ísland að ríki hvar ríkisfjármálin eru einna traustust í heiminum. Það eru örfá ríki, Noregur, Ísland, Sviss, Lúxemborg og nokkur önnur sem hafa þá hluti í lagi og eru til fyrirmyndar. Sú afkoma ríkisins, slík staða ríkisins er grundvöllur sem framtíðin byggir á, að við skuldsetjum okkur ekki langt fram í tímann og stela lífskjörum af næstu kynslóð, hinum ungu, hinum óbornu. Það gera þær þjóðir sem skuldsetja sig upp fyrir rjáfur til að halda uppi neyslunni á hverjum tíma. Það gerum við ekki. Við erum að lækka skuldirnar og búa til lífskjör fyrir framtíðina. Þess vegna skulum við fagna þessu núna, að við stöndum svo vel. Við skulum fagna því mjög og óska sjálfum okkur til hamingju með það. Næsta árið verðum við kannski dálítið blankari en það er líka allt í lagi, okkur veitir ekkert af því að kynnast því líka.



[16:14]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlustaði með athygli á ræðu hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar en hnaut um eitt atriði. Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar er lögð til 98 millj. kr. aukafjárveiting til að jafna út rekstrarhalla forsetaembættisins. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði að þeir sem sæti eiga í fjárlaganefnd hefðu orðið þess áskynja að rekstur þess embættis hefði verið til vansa mörg undanfarin ár. Mér hefði þótt fróðlegt að fá nánari fréttir af þessu.

Ég á ekki sæti í fjárlaganefnd. Ég hef ekki heyrt um þetta áður. Þetta kemur mér svolítið á óvart því að ég hefði reiknað með því að hægt væri að reka forsetaembættið frá ári til árs, nokkurn veginn innan ramma fjárlaga. Ég held að það væri að mörgu leyti gott fyrir alþingismenn að fá nánari upplýsingar um þetta.

Síðan langar mig einnig að spyrja: Hvað hefur í raun brugðist hjá utanríkisráðuneytinu varðandi það að verða við þessum hagræðingarkröfum? Hvers vegna hefur mönnum ekki tekist að ná fram þeirri hagræðingu sem hlýtur að vera eðlilegt að gera kröfu um, sérstaklega í ljósi hinna gríðarlega háu upphæða sem mér sýnist að eigi að láta renna til utanríkisráðuneytisins í þessum fjáraukalögum?



[16:16]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum oft rætt málið við embættismenn um forsetaembættið og mig minnir að einn embættismaður hafi svarað: Það er erfitt fyrir okkur að sparka upp fyrir okkur.

Auðvitað er forsetaembættið þannig embætti að menn bera virðingu fyrir því, það er æðsta embættið. Því er mjög slæmt ef það virðir ekki lög. Fjárlögin eru lög og öllum ber að fara eftir þeim. Það er mjög slæmt þegar hin æðstu embætti eins og embætti forseta Íslands eða Alþingi sjálft koma á fjáraukalögum og hafa ekki getað farið eftir þessu.

Varðandi seinni spurninguna, um utanríkisráðuneytið, get ég ekki svarað öðru en því að ég veit ekki annað en okkur hefur verið sagt. Við gerum þessar kröfur. Við gerð fjárlaganna eru gerðar og samþykktar af ráðherrum ákveðnar kröfur um hagræðingu. Þær eru mismunandi frá einu ári til annars. Það hefur komið fram í greinargerðum og skýringum hve miklar þessar kröfur eru. Síðan er ráðuneytunum gert skylt að setja þetta inn á rekstrarliði sína. Þið getið séð það víða, t.d. í ráðuneytum þar sem ég tel að þetta sé gert til mikillar fyrirmyndar, t.d. í dómsmálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. Þar eru hagræðingarkröfur nákvæmlega tíundaðar inn á hin ýmsu embætti og stofnanir og þeim gert skylt að hlíta því og það gengur eftir.

Ég kann enga aðra skýringu á þessu með utanríkisráðuneytið en þá að ráðuneytið hafi ekki gert kröfu til þessara stofnana um þá hluti. Ég skil þetta ekki öðruvísi en svo virðist sem þeir hafi ekki sett fram þessa kröfu og því hafi embættin ekki talið sér skylt að fara eftir henni. Ég veit ekkert annað.



[16:18]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu er ég hjartanlega sammála því að embættum ríkisins ber að fara að lögum og skiptir þá engu hvort um er að ræða forsetaembættið eða einstök ráðuneyti, til að mynda utanríkisráðuneytið. Það hlýtur að vera alvarlegt mál þegar forsetaembættið virðist fara svo langt fram úr fjárlögum. Það hlýtur líka að vera alvarlegt þegar utanríkisráðuneytið virðist fara jafnhrikalega fram úr fjárlögum á hverjum tíma, eins og vísbendingar eru um í þessu frumvarpi til fjáraukalaga.

Nú veit ég svo sem ekki, virðulegi forseti, hvort það var gert en ég ætla að leggja til — hafi það ekki verið gert geri ég það að tillögu minni — að það verði hreinlega farið út í greiningu á þessum hlutum. Mér heyrist á svari hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar að slík greining hafi ekki farið fram. Það ætti hreinlega að gera slíka greiningu og athuga í hverju þessar framúrkeyrslur felast, bæði hjá forsetaembættinu og utanríkisráðuneytinu. Alþingi ætti að fá skýrslu um hvað hafi farið úrskeiðis. Það er að sjálfsögðu mjög alvarlegt ef ekki einu sinni fulltrúar í fjárlaganefnd vita hvað hefur átt sér stað. Er þetta risna eða ferðalög? Er þetta uppihald á embættismönnum, rekstur sendiráða, opinberar heimsóknir? Í hvað hafa þessir peningar farið?



[16:20]Útbýting:

[16:20]
Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. um fjáraukalög vegna ársins 2005 er eðlilegt að umræðan fari vítt um sviðið þar sem um umfangsmikið mál er að ræða, fjárlög íslenska ríkisins. Hv. þm. Jón Bjarnason hélt áðan mikla ræðu og talaði m.a. um að fyrirhugaðar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar tefldu stöðugleikanum í tvísýnu. Hv. þingmaður segir að ríkisstjórnin eigi að fresta fyrirhuguðum skattalækkunum. En honum til upplýsingar, þegar hv. þingmaður talar um gríðarlega miklar skattalækkanir, þá vegur það þannig að þegar við lækkum tekjuskattsprósentuna um eitt prósent þá eru það rúmlega fjórir milljarðar kr., sem er 0,04% af landsframleiðslu þjóðarinnar. Hv. þingmaður telur að þessi 0,04% af landsframleiðslu þjóðarinnar skipti höfuðmáli í þessu samhengi. Svo er ekki og að sjálfsögðu mun ríkisstjórnin standa að því, eins og þeir stjórnmálaflokkar sem að henni standa lofuðu fyrir síðustu alþingiskosningar, að lækka skattálögur á almenning í landinu, enda hefur verið fast haldið utan um ríkissjóð á undanförnum árum og skuldir ríkissjóðs snarlækkað á tímabilinu.

Hv. þm. Jón Bjarnason og flokksfélagar hans tala mikið um ruðningsáhrif vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi, að það sé eitt höfuðatriðið í að gengi krónunnar er eins og raun ber vitni í dag, og þar af leiðandi standi sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan höllum fæti. En eru þær framkvæmdir sem nú standa yfir á Austurlandi svo mikill áhrifavaldur fyrir gengisþróunina á undanförnum missirum? Svarið er nei. Hér hefur veruleikinn verið skrumskældur allsvakalega. Ef við horfum á aðra þætti er snerta gengisþróunina getum við séð að kaup erlendra aðila og spákaupmennska á íslenskum skuldabréfum erlendis hefur undanfarin missiri numið vel á annað hundrað milljörðum kr. Menn hafa nefnt 130 milljarða kr. í því samhengi. Það hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á gengisþróunina og stjórnvöld geta ekki haft áhrif á þá þróun.

Íslensku viðskiptabankarnir hafa farið mikinn í útlánaaukningu og erlendri skuldasöfnun sem hefur áhrif á stöðu krónunnar. Aukningin á milli júlí 2004 og júlí 2005 er 955 milljarðar kr. Nú hef ég tekið dæmi um að gjaldeyrisviðskipti erlendis eru 130 milljarðar kr., í spákaupmennsku, 955 milljarðar í útlánaaukningu bankanna, en á sama tíma er áætlað innstreymi gjaldeyris vegna stóriðjuframkvæmda í landinu, ekki bara á Austurlandi heldur líka í kjördæmi hv. þm. Jóns Bjarnasonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar, sem eru staddir í salnum, sé um 35 milljarðar kr. Við sjáum að sú innkoma sem menn héldu að stóriðjunni mundi fylgja, þ.e. innflutningur á gjaldeyri, er miklu minni en upphaflega var haldið. Erlent vinnuafl vinnur að miklu leyti að uppbyggingunni, þessir fjármunir streyma að nokkru leyti úr landi og þar af leiðandi er innkoman minni.

Öll rök hníga að því að virkjanaframkvæmdir á Austurlandi eða á Vesturlandi hafi ekki haft þau gríðarlegu áhrif sem forustumenn vinstri grænna hafa haldið fram úr ræðustól Alþingis. Af málflutningi þeirra mætti helst ráða að aðeins séu framkvæmdir á einum stað á landinu sem ríkisstjórnin stendur fyrir, að þær séu á Austurlandi. Svo er ekki. Það eru miklar framkvæmdir á Vesturlandi í þessum efnum en þær eru lítill hluti í þessu stóra samhengi.

Hæstv. forseti. Ég vil síðan nefna einstök mál sem koma fram nú við 2. umr., þ.e. tillögur frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar. Fyrst vil ég nefna unglingalandsmótið í Vík í Mýrdal sem fær 15 millj. kr. á fjáraukalögum þessa árs vegna hinnar miklu uppbyggingar sem átti sér stað í tengslum við það glæsilega mót. Þessir viðburðir, unglingalandsmótin, hafa haft gríðarlega mikið að segja fyrir þau byggðarlög sem hafa haldið þessa viðburði. Það er mikilvægt fyrir fjárveitingavaldið að styðja við bakið á þessum byggðarlögum þannig að virðingu íþróttarinnar sé viðhaldið og stutt sé við bakið á viðkomandi sveitarfélögum sem hafa mikinn metnað við að halda slík mót.

Það er mikilvægt að fjárveitingavaldið standi áfram vel að þeim verkefnum. Fram undan er unglingalandsmót á Laugum í Reykjadal. Það er mikilvægt að fjárveitingavaldið haldi áfram, hér eftir sem hingað til, að koma að þeim verkefnum enda mikilvægt, þar sem um miklar framkvæmdir er að ræða í tengslum við þessi mót.

Umræðan um vegamál hefur verið fyrirferðarmikil, bæði í tengslum við gerð vegáætlunar og fjárlög á undanförnum árum, ekki síst á síðustu missirum. Ýmis jarðgöng hafa verið nefnd til sögunnar í því samhengi. Ég vil af þessu tilefni fagna sérstaklega 300 millj. kr. sem verja á til endurbóta og öryggisráðstafana við Óshlíðarveg. Það er mikilvægt að gæta öryggis þeirra vegfarenda sem um þann veg fara. Í framhaldinu á síðan að ráðast í jarðgangagerð á því svæði.

Ég hef verið talsmaður þess að gera sem flest jarðgöng á landsbyggðinni. Þó verður að hafa ýmislegt í huga við slíkar ákvarðanir. Að sjálfsögðu skiptir arðsemi framkvæmdanna miklu máli en öryggi vegfarenda skiptir ekki síður máli. Það er gríðarleg umferð um þennan veg og því styð ég þessa framkvæmd heils hugar og vonast til að Vestfirðingar líti þessa framkvæmd augum innan fárra ára. Þess ber einnig að geta að að sjálfsögðu fleygir þessari tækni sífellt fram, framkvæmdir verða ódýrari og verkþekking eykst. Ég tel um vísi að ræða að miklu meiri framkvæmdum og í miklu meiri mæli en á undanförnum árum í jarðgangagerð hér á landi.

Jafnframt hljótum við að fagna því að veittar eru 100 millj. kr. til hálkuvarna á þjóðvegum landsins. Það er mjög mikilvægt mál. Sem vegfarandi á þjóðvegunum get ég vitnað um að aðstæður á vegum landsins hafa breyst gríðarlega á undanförnum árum með tilkomu þess að flutningar fluttust af sjó yfir á vegina. Með því hafa ákveðnar hættur skapast, ekki síst í vályndum veðrum. Því er mikilvægt að vel sé staðið að hálkuvörnum og ég fagna því sérstaklega að við þann málaflokk sé aukið.

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu, eins og kom fram í 1. umr. um málið, skiptir sala Símans, markaðsvæðing Símans, miklu máli fyrir þau fjáraukalög sem við munum afgreiða á næstu missirum. Staða ríkissjóðs hefur stórbatnað fyrir vikið. Velheppnaðri markaðsvæðingu Símans er lokið og við getum ráðist í mörg verkefni á sviði samgangna, fjarskipta, aukinnar nýsköpunar og uppbyggingar í atvinnumálum á landsbyggðinni. Við hljótum að fagna því, þingmenn alls landsins, að tilverugrundvöllur byggðarlaganna sé styrktur með þeim hætti. Það er mikilvægt því að án markaðsvæðingar Símans hefðum við ekki getað farið í jafnumfangsmiklar framkvæmdir og í augsýn eru á næstu árum.



[16:29]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef spurningu til hv. þm. Birkis J. Jónssonar sem ásamt fleirum í meiri hluta fjárlaganefndar hefur lagt fram breytingartillögur við fjáraukalögin þar sem lögð eru til nokkur útgjöld til viðbótar þeim sem fyrir eru í því frumvarpi til fjáraukalaga sem þegar liggur fyrir. Nú hefur verið fjallað töluvert um það, m.a. fjallaði hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson heilmikið um fjárreiðulögin í ræðu sinni og þá miklu bót sem þau hafa fært í öll vinnubrögð hvað varðar fjárlög hér á landi. Við vitum að himinn og haf er á milli þess fjárlagafrumvarps sem samþykkt er á hinu háa Alþingi á hverju ári og ríkisreikningsins og loks hinnar endanlegu niðurstöðu vegna þess að þegar kemur að fjáraukalögum þá er svo sannarlega gefið í og töluvert miklu bætt við og fjárlögin standast aldrei og eins og ég sagði er himinn og haf milli fjárlaga og niðurstöðu.

Fjáraukalögin eigum við að nota til þess að mæta brýnum verkefnum, eins og t.d. því sem ég tel að við ættum að ráðast í núna, þ.e. að auka fjármagn til Sólvangs í Hafnarfirði sem þarf svo sannarlega á því að halda. Ég vil því spyrja hv. þingmann sem stendur að tillögu ásamt öðrum í meiri hluta fjárlaganefndar um þá neyð sem hvílir á bak við 15 millj. kr. framlag til að styrkja gerð spænsk-íslenskrar orðabókar: (Forseti hringir.) Hvaða nauðsyn knýr á um að svo sé gert nú?



[16:31]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór yfir forsendur fjárlaga fyrir árið 2005. Auðvitað er það svo þegar fjárlög eru gerð hverju sinni að þau eiga að sýna sem gleggsta mynd af afkomu ríkissjóðs. Í mínum huga, því miður ekki í hugum sumra, er allt á bullandi uppleið í íslensku þjóðfélagi og mikil sigling á öllu efnahagslífinu. Ef það væri svo að þær áætlanir sem ríkisstjórnin gerði væri einhver blekkingaleikur þess efnis að fegra stöðu ríkissjóðs og afkomu hans væri það náttúrlega alvarlegt mál. Þvert á móti er í þeim forsendum sem nú liggja fyrir í fjáraukalagafrumvarpinu fyrir árið 2005 svo til allar tölur góðar og til hagsbóta fyrir afkomu ríkissjóðs. Stjórnarmeirihlutinn hefur því ekki verið að fegra hlutina á einn eða annan veg. Til dæmis hefur fjárfesting í samfélaginu stóraukist, var áætluð 18 milljarðar en verða 28,5 og fleira mætti nefna.

Af því að hv. þingmaður spurði um spænsk-íslenska orðabók er það trúlega mikilvægt mál sem er örugglega komið á einhvern rekspöl því annars mæltum við ekki fyrir því hér. Það eru mjög mörg mikilvæg mál í þessum efnum. (Gripið fram í.) Ég talaði um öryggi vegfarenda, hv. þm. Jón Bjarnason, sem fara um Óshlíð. Það er mjög mikilvægt mál, hálkuvarnir upp á 100 millj. kr. er mikilvægt mál. Ég held því að hv. þingmenn ættu ekki að gera lítið úr þeim tillögum (Gripið fram í.) sem stjórnarmeirihlutinn gerir hér. (Gripið fram í.) Hvað Sólvang varðar hefur hæstv. heilbrigðisráðherra sagt að úrbætur verði í þeim efnum á næstunni en ég vil minna hv. þingmann á að það tekur tíma að koma þeim úrbótum á. Nú er einungis rúmur einn og hálfur mánuður til áramóta og hægt er að bregðast við þeim í fjárlögum ársins 2006.



[16:33]
Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst þetta. Það sem af er þessari öld eru að meðaltali um 20 milljarða kr. frávik milli fjárlaga og ríkisreiknings. Það er náttúrlega ekki viðunandi. Fjárlögin verða að gefa raunsanna mynd af því sem fram undan er og af því ástandi sem við búum við. Það er ekki hægt að nota fjárlögin áfram til að fegra hér mynd af samfélagi sem er ekki til.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi til fjáraukalaga eru auðvitað fjölmörg atriði og fjölmörg dæmi um framlög eða útgjöld sem hefði vel mátt staðsetja í fjárlög annaðhvort á síðasta ári eða í fjárlögum fyrir árið 2006. Vil ég þar nefna eitt afar brýnt verkefni sem ráðast á í og það er viðhald og endurbætur á Þjóðleikhúsinu, og ég segi þó fyrr hefði verið. Lagt er til í fjáraukalögum að 250 milljónum verði varið til viðhalds og endurbóta á Þjóðleikhúsinu. Þetta er auðvitað verkefni sem átti að ráðast í fyrir löngu. Þetta er verkefni sem menn verða að leggja fram heildstæða mynd af hvernig þeir ætla að framkvæma. Ég tel ekki rétt að koma með í fjáraukalög 250 millj. kr. útgjöld vegna endurbóta á Þjóðleikhúsinu þegar því hefur verið svarað þannig til í menntamálanefnd að ekki muni nást að eyða því fé eða nota það á þessu ári til endurbótanna. (Gripið fram í.) Það eru slík dæmi sem ég vil nefna hér sem ég tel að við verðum að gera bragarbót á. Ég vil heyra hvernig hv. þm. Birkir J. Jónsson lítur á þennan lið.



[16:36]
Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafi ekki hlustað vel á fyrra svar mitt við andsvari hennar þar sem ég tók fram að þau fjáraukalög sem við ræðum nú sýna miklu meiri rekstrarafgang af stöðu ríkissjóðs og miklu lægri skuldastöðu ríkissjóðs. Svo talar hv. þingmaður um að stjórnarmeirihlutinn í þinginu sé að fegra stöðu ríkissjóðs. Ég held að hv. þingmaður hafi ekki lesið þau gögn sem fyrir liggja því að staða ríkissjóðs er miklu sterkari í ár en á síðasta ári þegar við lögðum fram frumvarp til fjárlaga árið 2005 og ég held að enginn hér inni nema hv. þm. Katrín Júlíusdóttir deili við okkur um það. (Gripið fram í.)

Hæstv. forseti. Við búum í velferðarsamfélagi, við höfum aldrei varið meira fjármagni til heilbrigðisþjónustunnar. Staða Landspítalans í fjáraukalagafrumvarpinu er allt önnur en hún hefur verið á undanförnum árum. Við höfum þurft að auka framlög til Landspítalans vegna ýmissa atriða en við þurfum þess ekki í þeim fjáraukalögum sem við nú ræðum. Þrátt fyrir það er starfsfólks Landspítala – háskólasjúkrahúss að vinna glæsilegt verk, hjartaaðgerðum og fleiri aðgerðum hefur stórfjölgað á milli ára en samt hefur kostnaðurinn ekki aukist að sama skapi. Við erum að ná árangri, ekki aðeins í ríkisfjármálunum heldur einnig í heilbrigðismálum og velferðarmálum. Við skulum minnast þess að í tengslum við markaðsvæðingu Símans ætlum við að stórefla uppbyggingu á sviði geðfötlunar. Þar þurfum við að bæta úr. Við höfum verið í miklu átaki í uppbyggingu á sviði málefna fatlaðra, að eyða þeim biðlistum sem þar eru, í ágætu samstarfi við hússjóð Öryrkjabandalagsins.

Hæstv. forseti. Við erum á mjög góðri leið og við erum síður en svo að reyna að fegra stöðuna í þeirri umræðu sem hér fer fram.



[16:38]
Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Það eru nokkur atriði varðandi fjáraukalagafrumvarpið sem ég vil spyrja um áður en við afgreiðum það til atkvæðagreiðslu. Undir liðnum Heilbrigðisráðuneyti er gert ráð fyrir aukningu á fjármagni til hjúkrunarheimila almennt. Gerð er þar tillaga um 100 millj. kr. óskipt framlag vegna rekstrarvanda hjúkrunarheimila. Líklega eru þar fyrir nú þegar í fjárlögunum 200 millj. kr. Það gætu því verið liðlega 300 millj. kr. sem þarna kæmu í pott sem skipta á milli hjúkrunarheimila.

Mikill fjöldi aðstandenda hjúkrunarheimila, sveitarfélög og sjálfseignarstofnanir sem reka slík heimili, hafa komið á fund fjárlaganefndar og gert nefndinni grein fyrir rekstrarvanda sínum, að viðmiðunarfjármagn á hvern einstakling sem þar dvelur sé allt of lágt miðað við þann kostnað sem óhjákvæmilegur er. Að undanförnu hefur einmitt mikið verið rætt á Alþingi um aðbúnað og kjör aldraðra á hjúkrunarheimilum og elliheimilum. Ég tel að áður en við ljúkum meðferð fjárlaga og fjáraukalaga eigi að koma nákvæm og ítarleg skýrsla eða greinargerð frá heilbrigðisráðuneytinu um það hvernig tekið verður á fjárhagsvanda hjúkrunarheimila og öldrunarheimila. Það er afar brýnt.

Varðandi þá upphæð sem hér er verið að bæta í pottinn upp á 100 millj. kr. finnst mér eðlilegt að skipting á því fjármagni, upp á rúmar 300 millj. kr. sem samtals yrði þá í þessum potti á hin ýmsu hjúkrunarheimili í landinu, liggi fyrir. Það sé fjárlaganefnd og síðan Alþingi sem staðfestir eða vinnur þær tillögur. Ég hef áður borið þessa ósk upp í fjárlaganefnd og ítreka það nú að tillögur varðandi skiptingu fjármagns á hjúkrunarheimili úr umræddum potti upp á liðlega 300 millj. kr. verði unnar í fjárlaganefnd og komi þaðan til þingsins.

Ég vil einnig gera að umtalsefni fjármagn sem beðið er um á fjáraukalögum vegna sölu Símans sem hv. þm. Birkir J. Jónsson talaði fjálglega um. Hv. þingmaður gleymdi að allar skoðanakannanir sem birtust frá Gallup og Félagsvísindastofnun síðastliðin ár sýndu að afgerandi meiri hluti þjóðarinnar var andvígur sölu Símans og vildi að hann yrði áfram í þjóðareign og styrk hans beitt til að koma upp öflugu fjarskiptakerfi í landinu, auk þess sem Síminn hefur skilað drjúgum tekjum í ríkissjóð. Ég held að landsmenn séu langflestir áfram sammála um að sala Símans hafi verið vitlaus, bæði viðskiptalega séð, þetta var fyrirtæki sem var vel rekið og skilaði góðum arði í ríkissjóð, og auk þess var þá líka hægt að beita honum til þess að styrkja fjarskiptakerfið í landinu. Þessi árátta framsóknarmanna að einkavæða og selja almannaþjónustuna er með ólíkindum, frú forseti. Nú síðast í fréttum var verið að tilkynna að iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins teldi nauðsynlegt að einkavæða Rarik. Það væri orðið svo erfitt fyrir Rarik að vera í almenningseign að nú þyrfti að einkavæða það. Þetta var í fréttum klukkan fjögur. Það er því ekkert lát á einkavæðingaráráttu Framsóknarflokksins. Við ræddum í gær einkavæðingu á vatninu, að auðlindin vatn yrði einkavædd og gæti orðið sölu- og markaðsvara og nú kom í fréttunum að iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins vildi einkavæða Rarik. Það er ekkert lát á einkavæðingunni.

Hvað varðar Símann er sagt að ráðgjafaraðstoð við einkavæðingu hans hafi kostað tæpar 800 millj. kr. Greint er frá því að stór hluti upphæðarinnar hafi farið til fyrirtækisins Morgans Stanleys sem gera átti tillögur um einkavæðingu Símans, tillögur sem síðan var reyndar ekkert farið eftir. Engu að síður þurfti að borga nálægt 600 millj. kr. fyrir það. Loks fóru á milli 100 og 200 millj. kr. eitthvert annað. Við höfum beðið um skýringu á þeim kostnaði í fjárlaganefnd en ekki fengið og hverjir fengu þessa peninga fyrir umsýslu við einkavæðingu og sölu Símans. Ég ítreka að tæpum 800 millj. kr. var varið til sölu Símans, stór hluti af því fé fór í ráðgjöf sem ekkert var gert með, ráðgjöf til fyrirtækisins Morgans Stanleys. Hinn hluti upphæðarinnar fór til einhverra ráðgjafa sem ekki hefur enn verið gerð grein fyrir hverjir eru.

Hv. þm. Birkir Jón Jónsson kom inn á stöðu efnahagsmála og vildi gera lítið úr þeim erfiðleikum sem margar útflutningsgreinar standa frammi fyrir. Það sýnir veruleikafirringu þingmanna Framsóknarflokksins berlega að þeir skuli ekki einu sinni viðurkenna að margar atvinnugreinar eiga í miklum erfiðleikum vegna stöðu efnahagsmála, vegna hás gengis og vegna hárra vaxta. Þetta þarf svo sem ekki að koma á óvart ef efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar er höfð í huga.

Ég vil leyfa mér að vitna í Birgi Ísleif Gunnarsson, fyrrverandi seðlabankastjóra, sem sagði í samtali við Viðskiptablaðið 8. des. 2004, þegar verið var að ganga frá fjárlögum fyrir árið 2005, með leyfi forseta:

„Menn mega auðvitað búast við háu gengi næstu tvö ár þegar svo gríðarlegar framkvæmdir koma inn í hagkerfið á svona stuttum tíma. Það nemur um einum þriðja af landsframleiðslu og allt fjármagnað ýmist með erlendu eiginfé eða lánsfé frá útlöndum.“ — Þarna er verið að tala um stóriðjuframkvæmdirnar. — „Við slíkar aðstæður er ekkert um annað að ræða en að menn megi búast við háu gengi.“

Það er svo aftur annað mál hvort það verður nákvæmlega eins og það er í dag því að það getur sveiflast upp og niður og í rauninni, frú forseti, hefur það bara farið niður. Gengi krónunnar hefur stigið, gengisvísitalan hefur lækkað og miklu, miklu meir en búist var við. En seðlabankastjóra var alveg ljóst hver ástæðan var, það voru hinar gífurlegu stóriðjuframkvæmdir samtímis fyrir austan og hér á suðvesturhorninu, allt of stórar framkvæmdir miðað við íslenskt efnahagskerfi og íslenskan vinnumarkað enda eru þessar framkvæmdir ekki aðeins að tröllríða efnahagskerfi þjóðarinnar heldur einnig vinnumarkaðnum og öll þjóðin er nú upptekin af þeirri umræðu hvernig megi verja kaup og kjör og almannaréttindi og vinnu fólks, sama af hvaða þjóðerni það er, sem hefur komið hingað til lands til að vinna í uppsprengdri þenslu á þessum afmörkuðu sviðum.

Á meðan verða aðrar atvinnugreinar að lúta í lægra haldi. Við þekkjum þá umræðu að hvert fyrirtækið á fætur öðru verður að hætta. Ég er t.d. með tölur frá ferðaþjónustunni, frú forseti. Fulltrúar ferðaþjónustunnar komu á fund samgöngunefndar nýverið og gerðu henni grein fyrir að ef efnahagsástandið breytist ekki þá verða ekki mörg ferðaþjónustufyrirtæki eftir á næsta ári. Þeir lögðu fram tölur í því sambandi. Ferð sem kostaði 100 þús. ísl. kr. haustið 2004 hefði verið verðlögð á 1.386 dollara árið 2004 en árið 2005, í óbreyttum krónutölum íslenskum, hefði hún kostað 1.627 dollara, hún hefði hækkað um 17,4%. Nú hefur innlendur kostnaður líka hækkað talsvert þannig að ferð sem kostaði 100 þús. ísl. kr. árið 2002 kostar atvinnurekandann meira en þá. Í raun hefði hann þurft að fá meira, þannig að gengi íslensku krónunnar hefur í raun og veru hækkað um 43,3% ef miðað er við dollarann.

Fulltrúar ferðaþjónustunnar sögðu að þeir ættu erfitt með að setja fram verðskrár fyrir næsta ár miðað við þetta gengi, annaðhvort yrði að gefa verðið upp í íslenskum krónum eða hafa verðið svo hátt að hætta væri á að enginn fengist til að koma til landsins. Þeir greindu nefndinni frá því að margar stórar ferðaskrifstofur eru að taka Ísland af sínum lista um viðskipta- og skemmtiferðir vegna þess hversu gengið er óhagstætt.

Ferðaþjónustan er þó sú atvinnugrein sem hefur skilað hvað mestum gjaldeyristekjum nettó til þjóðarbúsins á undanförnum árum og hefur verið í hvað örustum vexti. En í ár stendur hún í stað. Hún stendur nánast í stað hvað varðar ferðamannafjölda til landsins og gjaldeyristekjurnar, sem hafa aukist línulega undanfarin ár, virðast líka standa í stað eða jafnvel lækka. Samtök ferðaþjónustunnar óttast verulega um framhaldið snúist dæmið ekki við.

Það er öllum ljóst hverjar eru orsakirnar, frú forseti. Það er efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar, stóriðjustefna sem er keyrð áfram, skattalækkunarstefna sem hyglar þeim ríku og eykur á þenslu í samfélaginu, kannski umfram allt þessir tveir þættir, en auk þess vitlausar aðgerðir hvað varðar lán til húsnæðismála. Þegar bankarnir fóru að lána allt upp í 100% lán til íbúðakaupa eða lána út á íbúðir varð líka sprengja á þeim markaði.

Við höfum lagt hér til, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, aðgerðir sem beri að grípa til nú þegar til að freista þess að skapa jafnvægi í efnahagslífinu. Það gerist ekkert í einum grænum hvelli en þó geta ákveðnar aðgerðir ráðið úrslitum. Í fyrsta lagi ber að stöðva öll áform um frekari stóriðjuframkvæmdir í landinu, enda er ærið verk að ljúka þeim framkvæmdum sem þegar eru í gangi þó ekki sé nú þegar farið að tala um nýjar. Fiskverkandi á Vestfjörðum sagði í sumar að þegar iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins kæmi í fjölmiðla og tilkynnti um viðræður um stofnun og byggingu nýs álvers ryki krónan upp og samkeppnisstaða fiskvinnslunnar versnaði. Kveðja iðnaðarráðherra til Vestfirðinga, þegar þeir voru hundruðum saman að missa vinnuna, var sú að ruðningsáhrif stóriðjunnar gætu líka verið af hinu góða. Þarna skilur á milli stefnu ríkisstjórnarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem vill jafnvægi í atvinnumálum.

Í öðru lagi ber að gefa þegar í stað út yfirlýsingu um að fallið verði frá, a.m.k. að sinni, skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Þessi tvö atriði munu vega þungt í að rétta af efnahagslíf þjóðarinnar og þá sjá menn að það er ætlunin að viðhalda öðru atvinnulífi hér á landi en bara álbræðslum.

Síðan leggjum við til að þegar í stað verði tekið upp formlegt samráð og samstarf við aðila vinnumarkaðarins, samtök bænda, neytenda, öryrkja og aldraðra og aðra þá aðila sem efni standa til um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Slíkt víðtækt samráð er til þess fallið að undirstrika hve mikið er í húfi. Fólkið í landinu á þegar öll kurl koma til grafar mest undir því að verðbólga og óstöðugleiki í efnahagsmálum heyri sögunni til. Ástandið bitnar að lokum á almenningi í formi lakari lífskjara, ótryggari atvinnu, þyngri skuldabyrði og þar fram eftir götunum.

Frú forseti. Staða efnahagsmála, staða útflutningsgreinanna, staða atvinnulífsins vítt og breitt um landið er mikið áhyggjuefni um þessar mundir. Þó að nú sé gumað af miklum tekjum ríkissjóðs, sem að stórum hluta verða til vegna skattlagningar á viðskiptahalla og einkaneyslu, þá eru það ekki varanlegir tekjustofnar. Við eigum að snúa okkur að því að grípa til aðgerða sem treysta og byggja upp aftur fjölbreytt atvinnulíf, styðja við útflutningsgreinarnar þannig að þær fái eðlilegt rekstrarumhverfi og verði samkeppnishæfar á mörkuðum erlendis. Fólk sem stundar hér atvinnu, hvort sem það er í fiskvinnslu, ferðaþjónustu, hátækniiðnaði eða í sprotafyrirtækjum, á líka að hafa eðlilega samkeppnisstöðu hér innan lands svo að fyrirtækin þurfi ekki að flytja starfsemi sína úr landi eins og nú er raunin. Það er brýnt að taka á þessu og helst strax.

Frú forseti. Ég hef lokið máli mínu.