132. löggjafarþing — 21. fundur
 15. nóvember 2005.
textun, frh. 1. umræðu.
frv. GAK o.fl., 42. mál (sjónvarp, kvikmyndir o.fl.). — Þskj. 42.

[18:07]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Við tökum þá upp þráðinn þar sem frá var horfið með að ræða frumvarp til laga um textun en hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson mælti fyrir því nú síðdegis.

Virðulegi forseti. Ég tel að hér sé um að ræða bæði þarft og merkilegt lagafrumvarp, frumvarp sem varðar ótrúlega stóran hluta þjóðarinnar. Ef þetta frumvarp verður að lögum verður sjónvarpsstöðvum skylt að texta allt íslenskt efni sitt innan fimm ára eftir að lögin taka gildi. Flutningsmenn frumvarpsins eru sex þingmenn allra stjórnarandstöðuflokkanna með Frjálslynda flokkinn í fararbroddi.

Þetta frumvarp mun tryggja heyrnarskertum og heyrnarlausum aðgang að upplýsingum, afþreyingar- og fræðsluefni til jafns við þá sem hafa fulla heyrn.

Hér er að sjálfsögðu um fullgilt mannréttindamál að ræða, mál sem varðar rúmlega 10% þjóðarinnar sem í dag líða fyrir heyrnarskort eða algert heyrnarleysi. Það er í raun með ólíkindum að krafan um þetta skuli ekki hafa komið fram fyrr í frumvarpi hér á hinu háa Alþingi og mér finnst það segja meira en mörg orð um hversu hógvær og lágvær þessi þjóðfélagshópur, heyrnarskertir, hefur verið fram til þessa í kröfum sínum um bætur varðandi þessi málefni. Staðreyndin er nefnilega sú þegar maður skoðar þessi mál þá erum við Íslendingar skammarlega skammt á veg komnir með að texta íslenskt sjónvarpsefni og í þeim efnum stöndum við langt að baki nágrannalöndunum, við erum á svipuðu stigi og Albanía með um einn klukkutíma af textuðu innlendu efni á mánuði.

Mér finnst það vera okkur til háborinnar skammar og í raun og veru alveg með ólíkindum að sjónvarpsstöðvarnar skuli ekki fyrir löngu hafa sýnt viðleitni til að bæta úr þessu því að tækni til að texta sjónvarpsefni hefur tekið stórstígum framförum á undanförnum árum. Í dag er hægt að texta beinar sjónvarpsútsendingar með slíkum búnaði og það má nefna hér sem dæmi að allar beinar sjónvarpsútsendingar frá breska þinginu eru nú textaðar með þannig tæknibúnaði. Hér á Íslandi væri hægt að nefna sjónvarpsfréttirnar sem dæmi í þessu sambandi. Sjónvarpsfréttir hér eru ekki textaðar í dag nema útlendingar mæli á erlenda tungu. Þá setja menn inn texta svo að hinir heyrandi fái skilið hvað sagt er. En mér finnst, herra forseti, að það sé alveg sjálfsögð krafa að fréttir séu alfarið textaðar. Þær eru þegar til innritaðar sem texti, fréttamenn skrifa texta sína, þulir og fréttamenn lesa þann texta þegar fréttirnar fara í loftið. Það sem ekki er til textað eru þá viðtalsbútar við viðmælendur fréttamanna en það ætti að vera hægur vandi að bæta úr því. Þetta þekki ég sjálfur mjög vel því að ég hef starfað sem fréttamaður á sjónvarpsstöð og veit alveg hvernig vinnsla frétta fer fram. Þetta er allt saman til í tölvunum. Það er ekkert mál að bæta úr þessu.

Þess vegna hlýtur maður að spyrja: Hvers vegna hafa sjónvarpsstöðvar hér á landi sem reka fréttastofur ekki fyrir löngu séð sóma sinn í að a.m.k. fréttatímarnir fari textaðir til útsendingar? Ríkissjónvarpið hefur um margra ára bil lagt út í þann kostnað að hafa fréttaþuli sem tjá sig á táknmáli í örfáar mínútur rétt fyrir fréttir. Það væri hægt að fella niður þann kostnað ef fréttirnar væru textaðar. Þarna gætu stöðvarnar og Ríkissjónvarpið sparað útgjöld á móti þeim kostnaði sem hlytist af því að senda út textaðar fréttir.

Sjónvarpsstöðvarnar hér á Íslandi reyna eins og þær geta að leggja skiljanlega metnað í að framleiða sjónvarpsefni á íslensku en þetta er yfirleitt mjög vinsælt efni, enda kærkomin hvíld fyrir fólk frá erlendum þáttum sem geta verið afskaplega misjafnir að gæðum. Fólk sem horfir á þessar stöðvar þarf nærri undantekningarlaust að greiða fyrir það há gjöld, afnotagjöld eða áskriftargjöld. En þeir sem búa við heyrnarskort sleppa ekki við að greiða þessi gjöld, þeir þurfa líka að borga þó að þeir fari kannski á mis við áhugaverðustu dagskrárliðina þar sem efni þeirra er ekki textað, en það eru íslensku þættirnir sem eru þeir dagskrárliðir sem fólk sækir mest í.

Mér finnst það mjög skrýtið þegar við skoðum hversu ótrúlega hátt hlutfall landsmanna eiga við heyrnarskort að stríða, 10% þjóðarinnar, að auglýsendur sem auglýsa fyrir útsendingar íslenskra þátta skuli ekki hreinlega gera kröfu um að þættirnir séu textaðir einmitt til að ná til þessa markhóps, þeirra sem eru heyrnarskertir. Þetta er fólk sem hefur kaupgetu á við alla aðra, þetta eru neytendur eins og aðrir og ætti að vera sjálfsagt fyrir þá sem eru að reyna að koma sínum boðskap á framfæri með auglýsingum að reyna með einhverjum hætti að ná til þessa hóps. En það virðist ekki vera og það ber að harma.

Virðulegi forseti. Ég vona að þetta frumvarp verði til þess að það renni upp ljós fyrir fólki og menn sjái að nú sé kominn tími til að gera bragarbót í málefnum heyrnarlausra og heyrnarskertra því að þetta fólk er alls ekki annars flokks borgarar. Það hefur sömu réttindi og allir aðrir íbúar þessa lands og er ekki verri Íslendingar en við hin þó að það eigi við örðugleika að stríða þegar kemur að heyrn. Það mætti þó halda að margir telji að hér sé um einhvers konar annars flokks borgara að ræða þegar maður lítur á hversu halloka þessi stóri þjóðfélagshópur fer í þjóðfélaginu þegar ýmis sjálfsögð þjónusta innan samfélagsins er skoðuð. Ég held að það væri skref í rétta átt, virðulegi forseti, ef Ríkissjónvarpið, Stöð 2 og fleiri sjónvarpsstöðvar tækju sig saman í andlitinu og færu að texta efni sitt og menn byrjuðu á því að texta fréttatímana. Því eins og ég sagði áðan ætti það að vera tiltölulega auðvelt mál og þyrfti ekki að kosta svo mikla peninga vegna þess að fréttirnar eru til staðar nú þegar textaðar.

Ég vona, virðulegi forseti, að þetta frumvarp fái brautargengi. Mér skilst að það fari nú inn í menntamálanefnd og þar fer Sjálfstæðisflokkurinn með formennsku. Við höfum séð það áður að í þingflokki Sjálfstæðisflokksins eru menn fljótir til þegar um slík mál er að ræða þó að ekki hafi þá verið um heyrnarskerta að ræða. Á síðasta ári komu 16 þingmenn Sjálfstæðisflokksins með núverandi formann menntamálanefndar í fararbroddi, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, fram með frumvarp til laga um breytingar á útvarpslögum þess efnis að sjónvarpsstöðvar mættu sýna beint frá íþróttaviðburðum án þess að þurfa að láta fylgja með íslenskt tal eða texta. Mér skilst að kveðið sé á um það í lögum að annaðhvort þarf að talsetja eða texta erlent efni sem fer út í gegnum íslenskar sjónvarpsstöðvar. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins voru í þessu tilviki fljótir til og vildu að heimilt yrði að sýna knattspyrnuna, enska fótboltann, í beinni útsendingu án texta eða talsetningar.

Sigurður Kári Kristjánsson, hv. núv. formaður menntamálanefndar og alþingismaður, sagði m.a., með leyfi forseta, við fjölmiðla:

„Núgildandi útvarpslög fela í sér mismunun og ójafnræði gagnvart þeim aðilum sem starfa á þessum markaði.“

Þarna höfðu þingmenn Sjálfstæðisflokksins með öðrum orðum miklar áhyggjur af því að ójafnræði væri milli þeirra sem starfa á þessum markaði, þeirra sem selja þetta efni til neytenda. Ég vænti þess, og trúi ekki öðru fyrr en ég tek á því, að þingmenn Sjálfstæðisflokksins beri sömu virðingu fyrir neytendum og vilji að þeir hafi líka jafnan rétt til þess að skilja það sem fram fer á hverjum tíma. Ég vænti þess að þeir sjái það í hendi sér að það sé hreinlega óþolandi að 10% þjóðarinnar skuli þurfa að búa við það augljósa misrétti sem felst í því að ekki er gert skylt að íslenska íslenskt sjónvarpsefni.

Ég læt þar með lokið máli mínu en ítreka enn og aftur ósk mína og vonir um að þetta mál fái nú betri afgreiðslu en á síðasta ári, verði afgreitt fljótt og hratt í gegnum menntamálanefnd og geti orðið að lögum í vetur.