132. löggjafarþing — 23. fundur
 16. nóvember 2005.
Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.
fsp. SJS, 205. mál. — Þskj. 205.

[13:01]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ill meðferð og pyndingar Bandaríkjamanna á föngum sínum í fangelsum í Afganistan og einkum þó í hinu illræmda Abu Ghraib-fangelsi í Írak eru alþekktar. Sama á við um hundruð fanga, aðallega frá Afganistan sem bandaríska leyniþjónustan og bandaríski herinn hafa flutt og geymt í búrum í herstöðinni við Guantanamo-flóa á Kúbu. Þar er föngum haldið, þeir geymdir við ómannúðlegar aðstæður árum saman og án þess að þeim sé birt ákæra. Bandarísk stjórnvöld neita því að viðkomandi njóti verndar sem stríðsfangar og þaðan af síður sem óbreyttir borgarar og reyna að skapa nýtt hugtak utan laga og alþjóðaréttar með tali um réttlausa vígamenn eða hryðjuverkamenn.

En margföld mannréttinda- og lögbrot bandarískra stjórnvalda í meðferð fanga eru ekki þar með upptalin. Í ljós hefur komið að bandaríska leyniþjónustan CIA stundar mikinn feluleik í sambandi við flutninga á föngum um heiminn og felur sig á bak við leppfyrirtæki til að dulbúa flug á vegum opinberra aðila sem einkaflug, sem auðvitað er einnig lögbrot. Rökstuddur grunur er um að fangar séu vísvitandi fluttir til landa þar sem pyndingar viðgangast og harðneskjuleg meðferð á föngum er látin óátalin. Leynifangelsi á nokkrum vel völdum stöðum í heiminum, þar á meðal í fleiri en einu Austur-Evrópuríki er það nýjasta í þessum málum. Því miður virðist hafið yfir vafa að slíkt dulbúið, ólöglegt fangaflug með einstaklinga sem mannréttindi eru gróflega brotin á hafi margoft farið um íslensku lofthelgina og bæði Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur hafi verið notaðir í því skyni. Að minnsta kosti vel á annan tug flugvéla sem hafa margar hverjar lent hér margoft hafa komið þar við sögu á síðustu fjórum árum. Vélar hafa komið frá eða farið til flugvalla eins og Sola-flugvallar við Stavanger, Kastrup, Álaborg og Billund í Danmörku, Arlanda og Bromma í Svíþjóð, Luca-flugvallar á Möltu, Búdapest í Ungverjalandi, Mombay á Indlandi, Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og fleiri og fleiri staðir. Í a.m.k. tveimur tilvikum hafa flugvélar farið hér um og lent sem átt hafa viðkomu í Guantanamo-herstöðinni á Kúbu á svipuðum tíma. Vél með flugnúmer N35NK sem lenti hér 11. desember 2004 og 28. janúar 2005 og vél með flugnúmer N1HC sem lenti á Íslandi bæði 25. ágúst 2002 og 30. nóvember 2004. Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra af þessu tilefni:

Er ráðuneytinu kunnugt um þetta flug og að íslensk lofthelgi og íslenskir flugvellir hafi verið notaðir? Ef svo er, munu íslensk stjórnvöld meina flugvélum eftirleiðis með fanga eða slíkt flug að nota íslenska lofthelgi og afnot af íslenskum flugvöllum?



[13:04]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort utanríkisráðuneytinu sé kunnugt um að flugvélar á vegum bandarísku leyniþjónustunnar með fanga eða meinta hryðjuverkamenn sem hvorki njóta verndar né meðhöndlunar samkvæmt alþjóðasáttmálum hafi farið um íslenska lofthelgi eða notað Keflavíkurflugvöll. Ef svo er, hver væru viðkomandi flugnúmer, hvaðan væri flogið og hvort og hvaða upplýsingar voru veittar um farm og á hvers vegum flugið væri.

Ég vil taka það skýrt fram strax að utanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um flug um íslenska lofthelgi eða Keflavíkurflugvöll af því tagi sem talað er um í fyrirspurninni. Bandarísk stjórnvöld hafa ekki sótt um yfirflugs- eða lendingarleyfi fyrir slíkar flugvélar. Flutningar á föngum sem ekki samræmast alþjóðalögum og skuldbindingum Íslands væru augljóslega í óþökk íslenskra stjórnvalda.

Ég vil rifja upp fyrir þingheim að borgaraleg flugumferð um nær allan heim grundvallast samkvæmt alþjóðasamningum á því að ekki þarf sérstök leyfi til að fljúga um lofthelgi ríkja í friðsamlegum tilgangi með vörur eða fólk, þar með talið fanga. Erlend borgaraleg loftför hafa samkvæmt þessu víðtæka heimild til flugs um íslenska lofthelgi. Íslensk stjórnvöld krefjast ekki frekar en stjórnvöld annarra ríkja upplýsinga um farþega einkaflugvéla sem fara um íslenska lofthelgi eða millilenda hér. Þess má geta að 1.500–2.000 einkaflugvélar fara um Keflavíkurflugvöll á ári hverju og sæta þar hefðbundinni afgreiðslu og eftir atvikum tollskoðun eða landamæraeftirliti.

Um vélar á vegum erlendra stjórnvalda, svokallaðra ríkisloftfara, gildir almennt sú regla að sækja ber um yfirflugs- og lendingarleyfi. Í umsóknum um yfirflugsheimildir og lendingarleyfi ber einungis að greina frá ef hergögn eða hættulegur varningur er um borð en ekki er skylt að greina frá því hvaða fólk kann að vera um borð.

Þegar fyrirspurn þingmannsins barst mér var staðgengill sendiherra Bandaríkjanna boðaður á fund í utanríkisráðuneytinu og honum afhent fyrirspurnin í enskri þýðingu og beðið um svör frá bandarískum stjórnvöldum við því sem þar er spurt um og að þeim snýr. Á fundi í utanríkisráðuneytinu nokkru síðar með fulltrúum bandaríska sendiráðsins í Reykjavík var lýst vonbrigðum með að svör lægju þá ekki fyrir og beðið um skýr og skjót viðbrögð. Síðar þann dag fór sendiherra Íslands í Washington með sömu skilaboð í bandaríska utanríkisráðuneytið. Þar var jafnframt tekið fram að íslensk stjórnvöld gengju út frá því að fangaflutningar sem þessir hefðu ekki átt sér stað enda væri þá brotið gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Óformlega hafa þau svör borist frá Bandaríkjastjórn að Bandaríkin virði fullveldi og lögsögu Íslands í einu og öllu, geri ekki ráð fyrir að Keflavíkurflugvöllur verði notaður í þeim tilgangi sem um er spurt og loks að kæmi slíkt til álita mundu bandarísk stjórnvöld fyrst eiga um það samráð við íslensk stjórnvöld.

Að mínum dómi eru þessi svör því miður alls ekki fullnægjandi enda er þeirri spurningu ósvarað hvort umræddir flutningar hafi átt sér stað eða ekki. Bandarískum stjórnvöldum hefur verið gerð grein fyrir þessari afstöðu minni og ítarlegri svara krafist. En eins og kunnugt er hafa fleiri lönd krafist svara hjá Bandaríkjamönnum um þessi mál auk þess sem skyld mál hafa einnig verið til umræðu og umfjöllunar á Bandaríkjaþingi.

Þingmaðurinn spyr einnig hvort ráðherra telji meðferð fanga sem hvorki njóta verndar og réttinda sem venjulegir borgarar né sem stríðsfangar, eins og gilda mun um fanga í Guantanamo-fangabúðunum á Kúbu, vera brot á alþjóðalögum. Hann spyr hvort íslensk stjórnvöld muni meina flugvélum með fanga eða meinta hryðjuverkamenn sem þannig eru meðhöndlaðir aðgang að íslenskri lofthelgi og afnot af íslenskum flugvöllum ef svo væri.

Hvað þessa spurningu varðar liggur fyrir, m.a. eftir umræður á Alþingi síðast í mars á þessu ári, að íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að Bandaríkjamenn sem aðrir fari í einu og öllu eftir gildandi mannúðar- og mannréttindalögum. Hér er m.a. um að ræða alþjóðasamning um bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð og Genfarsamningana, en í þeim felast grundvallarreglur alþjóðlegra mannúðarlaga á stríðstímum og reglur um meðferð stríðsfanga.

Þá hafa íslensk stjórnvöld tekið bæði formlega og óformlega upp málefni fanganna í Guantanamo við bandarísk stjórnvöld og lýst áhyggjum vegna stöðu fanganna. Af þessu er ljóst að íslensk stjórnvöld mundu ekki heimila flug af því tagi sem um er talað í fyrirspurninni um íslenska lofthelgi eða leyfa slíkum flugvélum afnot af íslenskum flugvöllum.



[13:09]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta svar var enn þá aumara en ég átti von á og það er alveg í stíl við það hversu linkulega hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnin hefur tekið á þessu máli. Það liggur fyrir í upplýsingum sem danska þingið hefur fengið að flugvélar með þekktum skrásetningarnúmerum eru grunaðar um að hafa flutt fanga m.a. um Ísland til ríkja þar sem vitað er að pyndingum er beitt við yfirheyrslur. Það er krafa stjórnarandstöðunnar, það er krafa Samfylkingarinnar að utanríkisráðherra gefi út yfirlýsingu um að flugvélum með þessum þekktu númerum verði bannað að fljúga um Ísland. Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra hefur ekki gert það? Hvernig stendur á þessum undirlægjuhætti gagnvart Bandaríkjamönnum? Meira að segja Morgunblaðið segir í leiðara að engu sé að treysta um upplýsingar stjórnvalda varðandi aðferðir CIA. Svo kemur ráðherrann hingað og segir að hann sé í einhverjum kurteisum bréfaskriftum. Þetta er spurning um grundvallaratriði.



[13:10]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur ekki upplýst um það hvort Bandaríkjamenn kynnu að hafa fundið sér leyfi til þeirra flutninga sem hér um ræðir í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um stuðning við stríðið í Írak vegna þess að þeir flutningar að mestu, sem menn grunar að fram hafi farið, eru í beinum tengslum við styrjöldina í Írak sem íslensk stjórnvöld styðja, þar á meðal hæstv. utanríkisráðherra. Yfirlýsing stjórnvalda á sínum tíma var þannig orðuð að auðvelt er fyrir Bandaríkjamenn að túlka hana sem framlag Íslands með öllum hætti og þar á meðal þeim sem hér er um að ræða.

Forseti. Fyrir 30 árum var líka utanríkisráðherra á Íslandi sem hét Geir. Hann hét Geir Hallgrímsson. Hann lýsti því yfir í umræðum um kjarnorkuvopn á Keflavíkurflugvelli að íslensk stjórnvöld og Íslendingar allir vildu ekki slík vopn. Nú á sá utanríkisráðherra sem starfar á okkar tímum og heitir líka Geir að lýsa því yfir að íslensk stjórnvöld og Íslendingar vilji ekki fangaflutninga eða bandalag við þjóðir sem ekki virða mannréttindi.



[13:12]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegi forseti. Einhverjar öruggustu samtímaheimildir um alþjóðamál, stórblöð á borð við Washington Post, hafa greint frá því að fangaflutningar fari fram yfir Atlantshafið með flugvélum sem staðfest er að hafi lent á Íslandi. Vestan hafs er í öldungadeild Bandaríkjaþings unnið að lagasetningu til að taka á málinu. Austan hafs hefur Evrópusambandið fyrirskipað rannsókn en á Íslandi situr hæstv. utanríkisráðherra bljúgur með hendur í skauti og bíður eftir því að einhver komi að svara honum. En það kemur enginn að svara honum. Er hæstv. ráðherra svo hræddur um að herinn sé að fara að hann þori ekki að anda á Bandaríkjamenn? Eða er það kannski vegna þess að við erum meðsek? Meðsek vegna framgöngu þessarar ríkisstjórnar um innrásina í Írak. Hún er í okkar nafni og meðferðin á föngum í Abu Ghraib og meðferðin á óbreyttum borgurum í Írak er á okkar ábyrgð og þeir fangaflutningar sem hér kunna að fara fram eru á okkar ábyrgð (Forseti hringir.) og í okkar nafni því ef hæstv. utanríkisráðherra ætlar ekki að hafast að um að stöðva þá þá eigum (Forseti hringir.) við hlutdeild í þeim flutningum.



[13:13]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Forseti vill minna hv. þingmenn á að stutt athugasemd felur aðeins í sér eina mínútu.



[13:13]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hefur svarað alveg ótvírætt þeirri spurningu sem fyrir hann var lögð. Íslensk stjórnvöld munu ekki samþykkja það að flugvélar með fanga eða meinta hryðjuverkamenn hafi aðgang að íslenskri lofthelgi eða afnot af íslenskum flugvöllum. Ég fagna því að afstaða ráðherrans og ríkisstjórnarinnar er ótvíræð í því efni. Ég vil hins vegar hvetja hæstv. ráðherra til þess að hann og ríkisstjórnin öll gangi hart fram í því að íslensk yfirvöld fylgi eftir þessum vilja og sitji ekki með hendur í skauti og bíði eftir að Bandaríkjamenn upplýsi um það sem þeir hugsanlega hafa í hyggju.

Því miður er staðan sú að Bandaríkin, þessi brjóstvörn lýðræðis um áratugi, eru orðin uppvís að því að sniðganga alþjóðamannréttindasáttmála og fótumtroða almenn grundvallarmannréttindi og þeim er því miður ekki treystandi, virðulegi forseti.



[13:15]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Stöðugt berast ábendingar, staðhæfingar og upplýsingar um falsfréttir og blekkingar sem lagðar voru fram til að réttlæta ólögmæta innrás í Írak. Ábendingar um að íslensk lofthelgi og flugvellir hafi verið notaðir til ólöglegra fangaflutninga eigum við þar af leiðandi að taka mjög alvarlega. Við megum ekki gleyma því að allt tengist þetta innrásinni í Írak og við erum á lista hinna viljugu þjóða. Því tel ég mikilvægt að upplýst verði við þessa umræðu og er tengt þessu máli hversu víðtæk heimild íslenska ríkisins er til bandarískra yfirvalda á notkun flugvalla og lofthelgi í baráttunni við hryðjuverkamenn, eins og kom fram við stuðning okkar við ólögmæta innrás í Írak.



[13:16]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Niðurlæging íslenskra stjórnvalda í þessu máli er alveg hrikaleg. Eftir að hafa lýst yfir stuðningi við Bandaríkjamenn við innrásina í Írak taka Bandaríkjamenn sér leyfi til að fljúga með fanga yfir land okkar til að fara með í ólögleg fangelsi sem þeir eru með einhvers staðar í leynum. Og það er nöturlegt, það kom einmitt frétt í fjölmiðlum í gær eða fyrradag þar sem bandaríski herinn var að finna leynifangelsi í Írak sem var þar á vegum stjórnvalda. Þeir þyrftu líklega að nota þessa sömu hermenn til að leita uppi sín eigin leynifangelsi og koma þessum málum á hreint gagnvart heiminum hvernig þeir haga sér. Þetta er auðvitað slík niðurlæging fyrir stjórnvöld á Íslandi að ekkert nema krafa og að henni verði fylgt eftir til enda um að fá að vita hvað hefur gerst á þessum tíma er ásættanlegt. Það er ekki hægt að sætta sig við annað en að fá að vita þetta. Síðan verða menn að taka afstöðu til þess hvernig á að bregðast við í framhaldi af því.



[13:17]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst það grátbrosleg staðreynd að til þurfti þessa fyrirspurn frá stjórnarandstöðuþingmanni til að íslenska ríkisstjórnin brygðist við og færi að spyrja Bandaríkjamenn erfiðra spurninga í þessu máli. Það er nefnilega þannig að þeir sem fylgjast með fréttum af alþjóðamálum vita ósköp vel að lengi hefur verið uppi grunur um að Bandaríkjamenn væru að flytja fanga yfir hafið, m.a. um íslenska lofthelgi, á vit pyndingaböðla í ónefndum fangelsum í löndum sem okkur eru framandi. Þetta þurfti ekki að koma neinum á óvart. Hér eru menn að sjálfsögðu að uppskera eins og þeir hafa sáð til, menn sem upphaflega studdu hina glæpsamlegu innrás í Írak sem efnt var til á grundvelli upploginna saka, styrjaldar sem kostað hefur tugi þúsunda borgara, saklausra borgara lífið. Enn þá fleira fólk býr nú við ævarandi örkuml, að ekki sé talað um þau andlegu sár sem orðið hafa á íröksku þjóðinni. Þessir menn eiga að skammast sín.



[13:18]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Mér finnst það mjög alvarlegt að hæstv. utanríkisráðherra skuli svara eins og hann gerir á fremur litlausan hátt, kurteislega, nánast diplómatískan. Hér sýnist mér vera krafa á hæstv. utanríkisráðherra og ríkisstjórnina alla um að ríkisstjórnin sýni að það renni blóð í æðum hennar. Fólk krefst þess að þessi flug séu fordæmd, fortakslaust fordæmd og við krefjumst þess hér í þessum sal af hæstv. utanríkisráðherra að hann fordæmi þessar misgerðir Bandaríkjamanna. Hann á auðvitað að gera það. Hann á að sýna okkur að honum renni í skap eins og okkur öllum þegar við sjáum að við höfum setið hér nokkuð aðgerðalaus á meðan fangaflug af þessu tagi hefur eflaust farið um flugvelli okkar og verið dulbúið sem borgaralegt flug. Allar vísbendingar benda til þess.

Hæstv. utanríkisráðherra á auðvitað að sýna viðbrögð sem eru honum sæmandi en ekki þá kurteisi sem hér hefur verið gagnrýnd.



[13:20]
Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Þessar umræður eru mjög sérkennilegar en kannski ekki óvenjulegar ef maður rifjar upp gamlar umræður sem varða Keflavíkurflugvöll og varnarmál okkar Íslendinga. Það liggur ljóst fyrir samkvæmt yfirlýsingu utanríkisráðherra að flug af því tagi sem fyrirspurnin fjallar um verður ekki heimilað um íslenska lofthelgi og slíkum flugvélum verður ekki leyft að hafa afnot af íslenskum flugvöllum. Þetta kom skýrt fram í niðurlagi ræðu hæstv. ráðherra. Ef maður hefur það í huga er augljóst að þær ræður sem síðan hafa verið haldnar eru haldnar af mönnum sem ekki kunna að hlusta og ekki kunna að skilja það sem talað er.



[13:21]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tel mig hafa undir höndum gögn og heimildir sem sanna það því miður að íslensk lofthelgi og íslenskir flugvellir hafa verið misnotaðir í þessu skyni og ég get afhent ráðuneytinu þau ef mönnum er þægð í því.

Ég þakka svörin og ég þakka í sjálfu sér það sem hæstv. utanríkisráðherra hefur aðhafst til að afla upplýsinga í málinu. En það sem á vantar er að íslensk stjórnvöld með formlegri tilkynningu til bandarískra stjórnvalda lýsi því yfir að þau vilji ekkert slíkt hafa hér á landi, hvorki á flugvöllum né í lofthelgi okkar með sambærilegum hætti og Danir hafa gert. Þrátt fyrir svör hæstv. ráðherra vantaði það upp á að það væri gert með formlegum hætti af íslenskra stjórnvalda hálfu að koma þeirri afstöðu okkar á framfæri sem hæstv. ráðherra lýsti í niðurlagsorðum sínum. Það er algerlega óásættanlegt að Ísland sé aðili að eða leggi slíkum lögbrotum og mannréttindabrotum lið sem þarna fara fram. Einmitt vegna aðildar Íslands að innrásinni í Írak og vegna aðgangs Bandaríkjamanna að Keflavíkurflugvelli er sérstök ástæða til að þetta sé gert skýrt og það er lágmark að íslensk stjórnvöld tilkynni Bandaríkjamönnum með formlegri orðsendingu að allt slíkt sé óheimilt og eftirleiðis verði slíku flugi vísað frá íslensku lofthelginni og lendi hér flugvélar engu að síður í þessum erindagerðum verði þær kyrrsettar, málin rannsökuð og föngunum um borð tryggð full mannréttindi. Vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra telur sig enn vera að draga að upplýsingar í málinu þá hyggst ég, frú forseti, breyta fyrirspurn minni í beiðni um skriflegt svar þannig að hæstv. ráðherra geti þá svarað henni með formlegum hætti skriflega þegar þau gögn sem hann er enn að bíða eftir eru komin í hans hendur. En ég tel að það þoli ekki bið að íslensk stjórnvöld sendi frá sér formlega yfirlýsingu í þessum efnum og verði ríkisstjórnin ekki til þess þá á Alþingi að gera það og við munum taka það upp á vettvangi utanríkismálanefndar að það verði gert.



[13:23]
utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Það fer auðvitað ekkert á milli mála að pyndingar samrýmast ekki alþjóðalögum og eru fordæmanlegar og forkastanlegar í öllum tilvikum. Ég hélt ekki að það þyrfti að taka fram í þessum sal. En það er ekki lögbrot eða ólöglegt að flytja fanga milli staða. Það er gert á hverjum einasta degi innan lands og utan og slíkur flutningur fer fram í lofthelgi Íslands áreiðanlega mjög oft án þess að ástæða sé til að (Gripið fram í.) gera veður út af því.

Við höfum ekki í höndum upplýsingar um að um lofthelgi okkar eða flugvelli okkar hafi farið flugvélar með fanga sem hafi átt að flytja til pyndinga og það er kjarninn í þessu máli. Við höfum ekki upplýsingar um það. Við mundum ekki leyfa það og við fordæmum að sjálfsögðu allt sem viðkemur slíku. Það liggur alveg fyrir. Þetta eru alveg skýr svör af minni hálfu.

Við höfum hins vegar ekki fengið enn þá að mínum dómi fullnægjandi svör við fyrirspurnum okkar hjá Bandaríkjastjórn. Við höfum látið afstöðu okkar í þessum málum koma skýrt fram gagnvart þeim, eins og ég gat um áðan, látið það koma fram að við gengjum út frá því að flutningar sem þessir hefðu ekki átt sér stað án okkar vitundar og afstaða okkar gagnvart Bandaríkjamönnum er alveg skýr og mótmæli Dana voru ekki mikið formlegri en þetta, hv. þingmaður.