132. löggjafarþing — 23. fundur
 16. nóvember 2005.
Háhraðanettengingar.
fsp. BjörgvS, 117. mál. — Þskj. 117.

[13:25]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra hvort fyrirætlanir séu uppi um að tryggja þeim ríflega 20 þúsund íbúum landsbyggðarinnar sem eru án háhraðanettengingar aðgang að slíkri nettengingu á næsta fjárlagaári. Ef svo er hver er sú áætlun skipt eftir landsvæðum?

Tilefni fyrirspurnarinnar eru margvísleg, fyrst og fremst sú staða sem uppi er og kom fram í svari hæstv. samgönguráðherra við fyrirspurn minni sem laut að því hvaða sveitarfélög á landinu hafi háhraðatengingar og hver ekki, hver sé íbúafjöldi þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa háhraðatengingar sundurgreint eftir sveitarfélögum. Því svaraði hæstv. ráðherra skilmerkilega á þar síðasta þingi og kom fram að um 22 þúsund Íslendingar höfðu ekki aðgang að háhraðanettengingu, sem er mjög alvarlegt mál í þeirri búsetu- og byggðaþróun sem á sér stað núna þegar fólk flykkist á milli landsvæða. Aftur eru að eiga sér stað fólksflutningar út fyrir hið eiginlega höfuðborgarsvæði út á jaðra svæðisins og má segja að mikið rót fylgi þessum búferlaflutningum.

Í dag heyrir það til algerrar grunnþjónustu líkt og vatn, rafmagn og hiti þegar fólk velur sér búsetu, að hafa aðgengi að háhraðanettengingu. Það er ekki hægt að bjóða börnum sínum, unglingum eða heimilisfólki almennt upp á að ekki sé aðgengi að háhraðanettengingu þar sem einfaldlega er verið að setja þær byggðir hjá ef litið er til atvinnumöguleika, möguleika til fjarnáms og almennrar notkunar á netinu sem í dag heyrir til grundvallarþátta í daglegu lífi og allt byggist á. Það er mjög mikilvægt byggðanna vegna. Þær byggðir sem ekki búa við háhraðanettengingu eru annars flokks. Þær eru settar hjá.

Ég hef ítrekað skorað á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að í gegnum okkar öflugu samgöngufyrirtæki með aðstoð hins opinbera verði öllum þessum byggðum veitt aðgengi að háhraðatengingu. Víða er að sjálfsögðu möguleiki að veita slíkt aðgengi í gegnum örbylgju þar sem ekki er fjárhagslega hagkvæmt eða mögulegt að leggja streng. Það má því fara margar leiðir. Þetta er eins og munurinn á kerru og hesti og stórvirkum vinnuvélum. Í nútímabyggð verður að vera til staðar háhraðatenging. Því hef ég lagt þessa spurningu fyrir hæstv. samgönguráðherra.

Sums staðar í dag eru einkafyrirtæki eins og eMax, Ábótinn og fleiri að setja upp örbylgjutengingar sem er mjög vel og ágætlega gert. Það er einkaframtak þeirra og það ber að byggja undir og styðja við þau fyrirtæki sem fyrir eru og bjóða dreifbýlinu sums staðar upp á örbylgjuna en fyrst og fremst að öllum íbúum og öllum þessum landsvæðum bjóðist þetta gegn hliðstæðu verði og íbúum þéttbýlisins og með sambærilegum gæðum og álíka öflugum tengingum.



[13:28]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Svar mitt við spurningu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar er svohljóðandi:

Í fjarskiptaáætlun sem hið háa Alþingi samþykkti samkvæmt tillögu minni 11. maí sl. er sett fram svohljóðandi stefna í fjarskiptamálum:

Íslendingar verði í fremstu röð þjóða með hagkvæma, örugga og aðgengilega og framsækna fjarskiptaþjónustu. Í samræmi við þessa stefnu eru sett markmið varðandi ýmsa þætti fjarskiptaþjónustu, þar með talið um háhraðatengingar. Áætlunin gerir ráð fyrir að mörg af þeim markmiðum sem þar eru sett fram náist að verulegu leyti á markaðsforsendum, þ.e. án sérstakra aðgerða af hálfu stjórnvalda. Þar sem markaðurinn leysir ekki þessi mál, þ.e. býður upp á viðunandi þjónustu er við það miðað að stjórnvöld geti komið að málinu.

Fyrir liggur að stjórnvöld munu fjármagna að hluta eftirfarandi þrjú stór verkefni á sviði fjarskipta sem ríkisstjórnin hefur sett í forgang:

Í fyrsta lagi. Að auka aðgengi að farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins og um leið öryggi vegfarenda með því að stuðla að aukinni útbreiðslu GSM-farsímanetsins við hringveginn, helstu stofnvegi og fjölfarna ferðamannastaði. Þetta er gert í ljósi þess að farsíminn gegnir mikilvægu hlutverki í samskiptum í nútímaþjóðfélagi auk þess sem ljóst er að almenn eign slíkra farsíma er mikilvægur liður í öryggi viðkomandi þrátt fyrir að GSM-farsímakerfið hafi ekki verið hannað sem öryggiskerfi sérstaklega.

Í öðru lagi. Gert er ráð fyrir að fjármunum verði varið til þess að stuðla að dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött. Nauðsynlegt er að tryggja að sjófarendur og íbúar strjálbýlli svæða sem ekki njóta fullnægjandi þjónustu eigi möguleika á að ná sjónvarpsdagskrá RÚV auk hljóðvarps, Rásar 1 og 2 stafrænt í gegnum gervihnött. Markmiðið er að stafrænt sjónvarp nái til allra landsmanna.

Í þriðja lagi. Sérstaklega er varðar spurningu fyrirspyrjanda er gert ráð fyrir öflugri uppbyggingu á háhraðatengingum á þeim svæðum sem ekki er líklegt að verði þjónað á markaðslegum forsendum. Háhraðatengingar eru einn af grunnþáttum tækninnar sem gerir upplýsingasamfélag nútímans mögulegt. Markmiðið er að hraða þróun upplýsingasamfélagsins þannig að allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu. Í áætluninni segir að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingu árið 2007.

Þess má geta að síðustu bæirnir við Djúpið voru að tengjast netinu og Síminn er að ljúka síðasta áfanga við tengingu samkvæmt alþjónustukvöð sinni. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins verður í byrjun næsta mánaðar búið að tengja alla Íslendinga við netið sem þess hafa óskað. Þetta er auðvitað bylting fyrir þá sem hlut eiga að máli.

Skilgreining á háhraðatengingu er ekki einhlít og tekur mið af þörfum hvers og eins á hverjum tíma sem velur sér hraða við hæfi. Hraði í notkun í dag hefur ekki verið kortlagður sérstaklega en þarfirnar eru mjög misjafnar. Í áætluninni er reynt að spá fyrir um ákveðna þróun í þeirri bandbreidd sem almenningi í þéttbýli stendur til boða á viðráðanlegu verði. Þegar liggur fyrir að flestir Íslendingar sem þess óska eiga val um fleiri en eina leið til að tengjast internetinu og eiga oftast aðgang að hraða sem hentar þörfum viðkomandi. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins m.a. frá fjarskiptafyrirtækjum og Póst- og fjarskiptastofnun geta um 95% landsmanna nú þegar tengst háhraðanetum sem eru í samræmi við viðmið áætlunarinnar í formi xDSL ljósleiðara, kapal og þráðlaust, þ.e. örbylgju WiMAX eða gervihnött. Leysa þarf því vanda þeirra tæplega 5% sem eftir standa með skipulegum hætti með lausnum sem horfa til framtíðar en eru tæknilega óháðar. Þessi hópur er bundinn við ákveðin landsvæði. Miðað er við að ríkið geti komið að málum þar sem ekki eru markaðslegar forsendur fyrir hendi. Miðað er við að þessi þáttur fjarskiptaáætlunar komi til framkvæmda á árunum 2006–2010 og er unnið að útfærslu um þessar mundir.

Ákveðið hefur verið að skipa sérstaka verkefnisstjórn sem haldi utan um framkvæmd fjarskiptaáætlunar. Verkefnisstjórnin verði jafnframt stjórn fjarskiptasjóðs sem mun fjármagna þau verkefni í áætluninni sem stjórnvöld taka þátt í. Ljóst er að háhraðavæðingin er stórt verkefni sem stjórnvöld verða að vanda sig við. Ráðuneytið hefur ákveðið að fela Póst- og fjarskiptastofnun þetta verkefni í samræmi við ákvæði 23. gr. fjarskiptalaga. Stofnunin mun nú hefjast handa við undirbúning verkefnisins og nánari útfærslu þess og við munum nýta þá fjármuni sem sala Símans hefur gefið okkur færi á og er til umfjöllunar á hinu háa Alþingi.



[13:34]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir þessa fyrirspurn. Þar var í engu ofsagt um þá brýnu þörf sem er á tryggri tengingu við dreifbýli landsins og góðum hraða. Auk þess vil ég benda á það að háhraðatenging er mjög mikilvæg fyrir ýmsa vegna starfa sinna, t.d. bændur. Bændur eru farnir að nýta sér bókhald sem byggist á háhraðatengingum í auknum mæli og auk þess er ferðaþjónusta bænda vaxandi atvinnugrein og þeir nýta sér m.a. netið til þess að kynna þjónustu sína. Það á að vera hægt að panta sér þá þjónustu í gegnum netið en það er því miður víða illmögulegt eða ótryggt og jafnvel ekki hægt vegna þess hve tengingar eru lélegar og víða ekki fyrir hendi.



[13:35]
Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Það er alveg ljóst að það eru mjög framsæknar hugmyndir sem liggja að baki þeirri samgönguáætlun sem nú er í gildi. Og af þeirri ástæðu að Síminn var seldur er nú hægt að fjármagna það að þau 5% notenda sem ekki hafa haft aðgang að háhraðatengingu komist í samband við háhraðanet.

Þetta skiptir gífurlega miklu máli. Þetta er eitt stærsta byggðamálið að mínu mati og þegar við förum og hittum fólk í hinum dreifðu byggðum verðum við mjög vör við það hversu geysilega mikið mál þetta er, bæði varðandi atvinnusókn en ekki síður hvað varðar það að ná sér í menntun en það hefur aukist mjög að fólk um hinar dreifðu byggðir sæki sér framhaldsmenntun í gegnum tölvukerfið.



[13:36]
Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að vekja athygli á þessu máli í dag með fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra.

Virðulegi forseti. Ég lít svo á að aðgengi að háhraðatengingu sé og eigi að vera skilgreindur hluti af nauðsynlegri grunnþjónustu hér á landi, vegna þess að í því samfélagi sem við búum í dag á þetta að vera hluti af grunnþjónustu svo sem eins og vatni, hita og öðru vegna þess hve stóran þátt netið og aðgengi að því spilar í samfélaginu og daglegum störfum. Þetta hefur áhrif á tækifæri til menntunar, þetta hefur áhrif á tækifæri til atvinnu svo ekki sé talað um menningarþáttinn á netinu, í gegnum tölvuna, í gegnum háhraðatengingar, þar er að finna stóran hluta af því sem kallast dægurmenning dagsins í dag. Ég tel að það eigi ekki að halda ungu fólki úti á landi utan við þann þátt sem finna má á netinu þannig að ég vil sjá háhraðatengingu sem skilgreindan hluta af grunnþjónustunni.



[13:37]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra að þessi þjónusta er orðin einn af grundvallarþáttum sem fólk gerir kröfu um að sé í lagi og lítur á sem forsendu fyrir vali á búsetu. Það skiptir því miklu máli að ríkisvaldið hraði eftir föngum uppbyggingu á þessu kerfi þar sem markaðurinn sjálfur byggir það ekki upp á eigin forsendum.

Ég fagna því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að uppbygging á háhraðatengingu verði hraðað þannig að allir sem þess óska geti fengið tengingu eigi síðar en á árinu 2007. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að stjórnvöld sýni vilja sinn í þessu verki, gefi út skýrar yfirlýsingar um að þau ætli að gefa fólki kost á þessari tengingu og fyrir tilskilinn tíma þannig að menn viti að tæknin muni koma og hún muni koma fljótt. Það skiptir öllu máli, virðulegi forseti.



[13:39]
Drífa Hjartardóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir með hv. fyrirspyrjanda varðandi mikilvægi þess að háhraðatenging sé alls staðar á landinu. Það skiptir miklu máli varðandi búsetuskilyrði, nám og það kom mjög vel fram í máli hæstv. samgönguráðherra að það er svo sannarlega verið að vinna að þessum málum.

Það eru margir sem hafa valið að búa úti í sveit og vinna í gegnum háhraðanetið og geta þá verið þar sem er afskaplega gott. Ég vil líka vekja athygli á því að nokkur sveitarfélög hafa sjálf haft frumkvæði að því að koma á háhraðatengingu en þar verða samt sem áður eftir þessi 5% sem er svo mikilvægt að ríkið sjái um og ætlar að gera með sölu Símans.



[13:40]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp örstutt til að hvetja hæstv. samgönguráðherra áfram til dáða í þessum efnum því ég leyfi mér að segja að háhraðatenging eða tenging við internetið er partur af grunnþörfum fólks alveg eins og hiti, vatn og rafmagn. Ævintýri netsins eru slík, allur aðgangur að upplýsingum, möguleikar til að senda frá sér upplýsingar, finna gögn og annað á netinu, þetta er náttúrlega alger bylting og sjálfsagt mannréttindamál að allir landsmenn hafi aðgang að þessu. Mér sýnist við vera á ágætri leið með þessa hluti, að mörgu leyti. Ef hér kemur stafrænt gervihnattasjónvarp þá erum við í góðum málum hvað það varðar. Ef okkur tekst að halda áfram að koma á góðu GSM-sambandi víða um land og reynum jafnframt að halda í NMT-kerfið, en mér þykir vænt um það kerfi og vil sjá að það verði áfram eftir árið 2007. Síðan þegar það bætist við að við náum að landa þessum 20 þúsundum sem eiga eftir að fá háhraðanet þá held ég að við séum í fínum málum.



[13:41]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. samgönguráðherra lýsir yfir vilja sínum til að háhraðavæða dreifbýlið sem út af er sett nú á næstu missirum og að hluti símasilfursins verði notaður til þeirrar mikilvægu uppbyggingar, enda ekki nema sanngjarnt að svo sé.

Ég vil skora á hann að beita sér fyrir því að þeirri uppbyggingu ljúki fyrr en seinna því það er ekki ofmælt þegar sagt er að aðgengi að einhvers konar lágmarksnettengingu, háhraðatengingu, liggi búsetu að mörgu leyti til grundvallar sérstaklega þegar yngra fólk er að velja sér búsetu. Sjálfur gæti ég ekki haft daglega fasta búsetu austur í Gnúpverjahreppi ef ég væri ekki svo heppinn að einkafyrirtæki byði þar upp á örbylgjusamband sem er alveg viðunandi þokkalegur háhraði og má segja að bæti úr brýnustu þörfinni. Þess vegna er ástæða til að skora á yfirvöld og hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér af fullu kappi fyrir því að þessar fyrirætlanir hans gangi eftir. Það eru tímamót og það eru tíðindi og ég fagna því að á borðinu liggi fyrirætlan um að ljúka háhraðavæðingunni fyrir þessi 5–10% sem eftir standa á næstu 18 mánuðum. Ég skora á hann að flýta því eins og nokkur kostur er. Þetta er bylting fyrir sveitirnar, bylting fyrir byggðirnar úti á landi að fólk geti stundað bæði nám og vinnu í gegnum tölvuna heima hjá sér og oft fer þetta saman. Þetta skiptir öllu máli. Þetta opnar nýjar víddir og ný tækifæri fyrir byggðirnar. Upplýsingahraðbrautin er grundvallaratriði í nútímanum. Þess vegna er ástæða til að fagna þessari fyrirætlan og hvetja hæstv. ráðherra til að fylgja henni fast eftir af kappi.



[13:43]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég fagna viðbrögðum hv. þingmanna við þessari fyrirspurn og svörum mínum. Það er alveg ljóst að menn átta sig á því að fjarskiptaáætlunin sem ég lagði fram og Alþingi samþykkti markar hér mikil tímamót, þau áform sem þar eru og ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja 2,5 milljarða af símasölunni til þess að byggja upp fjarskiptin í landinu.

Eitt af markmiðum í fjarskiptaáætluninni lýtur að háhraðatengingum ríkisstofnana sem er ástæða til að vekja athygli á. En öflugar tengingar ríkisstofnana, sérstaklega á landsbyggðinni eru mjög mikilvægur grundvöllur fyrir frekari þjónustu í sveitarfélögunum þegar háhraðatengingarnar eru komnar inn í miðju sveitarfélaganna þar sem ríkisstofnanir eru og þar með geta fyrirtæki og einstaklingar nýtt sér þá uppbyggingu.

Þegar er hafið samstarf við fjármálaráðuneytið og önnur ráðuneyti um framkvæmd þessara markmiða og samgönguráðuneytið hefur talið að ein leið til að ná árangri í þessu sé útboð á allri fjarskiptaþjónustu eða öllum fjarskiptatengingum og þjónustu við ríkisstofnanir sem nýta háhraðatengingar. Ég tel að það sé mikilvæg leið til að ná markmiðum okkar, að útvíkka þannig háhraðanetið, auka hraðann í samræmi við markmið fjarskiptaáætlunarinnar, auka samkeppni, bæta þjónustu og lækka verðið. Ég tel að með því að bjóða út alla fjarskiptaþjónustu ríkisins skapist skilyrði til þess að ríkisstofnanirnar tengist og þar með aukist áhugi fjarskiptafyrirtækjanna á því að veita almenningi á þessum stöðum þessa þjónustu sem ég tel afar mikilvæga.