132. löggjafarþing — 23. fundur
 16. nóvember 2005.
Vegaframkvæmdir í Heiðmörk.
fsp. VF, 266. mál. — Þskj. 279.

[15:36]
Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Virðulegi forseti. Á ráðstefnu um vatn sem samtökin Landvernd, BSRB og fleiri héldu þann 29. október síðastliðinn komu fram áhyggjur vegna vegaframkvæmda í Heiðmörk. Það er í sjálfu sér eðlilegt að þeir sem hugsa til framtíðar hafi áhyggjur þegar til stendur að fara í vegaframkvæmdir, ég tala ekki um ef þær eru stórfelldar og á svo viðkvæmu útivistar- og vatnsverndarsvæði sem Heiðmörk er. Heiðmörk er vatnsverndarsvæði og ber að vernda og virða sem slíkt enda aðalvatnsból íbúa á höfuðborgarsvæðinu og mikil framtíðarauðlind.

Hvernig veg hyggst samgönguráðherra ætla að leggja í Heiðmörk, hversu langan veg og hvar? Er verið að opna fyrir möguleikann á hraðbraut í gegnum Heiðmörk?

Í mastersritgerð Páls Stefánssonar, Framkvæmd vatnsverndar og stjórnun vatnsauðlindar á höfuðborgarsvæðinu, segir, með leyfi forseta:

,,Umferðinni í Heiðmörk er beint á veg nærri vatnsbólum. Mikil og þung umferð er eftir Elliðavatnsvegi inn á grannsvæði vatnsbólsins í Dýjakrókum. Líkansreikningar til að meta líkur á mengun vatnsbóla hafa aðeins verið gerðir fyrir hluta svæðisins. Olíuflutningar, mikill umferðarþungi og hætta á umferðarslysum er ákveðin ógn fyrir vatnsverndina. Breyta þarf akstursleiðum í Heiðmörk til að draga úr líkum á mengun í vatnsbólum vegna umferðaróhappa. Hagsmunir vatnsverndar þurfa að vega meira þegar kemur að því að skipuleggja umferðarmál á vatnsverndarsvæðinu.“

Af þessum sökum spyr ég hæstv. samgönguráðherra:

1. Hyggst ráðherra heimila Vegagerðinni að leggja bundið slitlag á veg um Heiðmörk? Ef svo er, hvenær hefjast framkvæmdir og hvenær er áætlað að þeim ljúki?

2. Hefur verið gert umhverfismat vegna þessara framkvæmda? Ef svo er ekki, verður það gert áður en þær hefjast?



[15:38]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Valdimar I. Friðriksson spyr:

„Hyggst ráðherra heimila Vegagerðinni að leggja bundið slitlag á veg um Heiðmörk? Ef svo er, hvenær hefjast framkvæmdir og hvenær er áætlað að þeim ljúki?“

Svar mitt er svohljóðandi: Fyrir nokkrum árum var Heiðmerkurvegur tekinn á vegaskrá sem landsvegur. Þetta var gert að ósk bæjaryfirvalda á höfuðborgarsvæðinu, einkum Reykjavíkurborgar, til þess að tryggja aðkomu ríkisins að kostnaði við vegi um Heiðmörk. Var ákveðið að ein ákveðin leið um svæðið yrði valin sem þjóðvegur og er lýsinga hennar í vegaskrá eftirfarandi:

„Tilvitnun 408 Heiðmerkurvegur. Af hringvegi við Rauðhóla um Heiðmörk á Elliðavatnsvegi við enda Vífilsstaðavegar.“ — Þetta er skýringin.

Í gildandi vegáætlun fyrir árin 2005–2008 eru fjárveitingar til vegarins af svonefndum ferðmannaleiðum, samtals 77 millj. kr. Miðað hefur verið við að þessar fjárveitingar yrðu notaðar til að leggja bundið slitlag, malbik, á núverandi veg án þess að honum yrði breytt að öðru leyti. Þess má geta að mjög er kvartað undan ástandi núverandi vegar og annarra vega í Heiðmörk, ekki síst vegna rykmengunar.

Í haust var sótt um framkvæmdaleyfi til heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar og Kópavogssvæðisins og til umhverfissviðs Reykjavíkurborgar til að malbika um 4 km kafla í norður frá Vífilsstaðahlíð. Þeirri beiðni var hafnað og m.a. óskað eftir frekara skipulagi og rökstuðningi fyrir þörf á framkvæmdum. Þar eð þrýstingur um aðgerðir á veginum hefur fyrst og fremst komið frá umsjónaraðilum Heiðmerkur og vegfarendum er eðlilegt að aðilar innan borgarkerfisins og eftir atvikum hjá öðrum sveitarfélögum á svæðinu samræmi sjónarmið sín án þátttöku ríkisins.

Eins og áður hefur komið fram var áformað að leggja slitlag á núverandi veg án frekari breytinga. Það er skoðun okkar í ráðuneytinu að ríkið sé alls ekki réttur aðili til að standa að skipulagningu Heiðmerkur. Raunar má setja spurningarmerki við það hvort umræddur vegur eigi að teljast þjóðvegur. Það er því skoðun mín að fresta beri framkvæmdum, a.m.k. þar til spurningum varðandi skipulag hefur verið svarað og viðkomandi yfirvöld hafa komist að niðurstöðu um að leggja megi veg í Heiðmörk. Í því sambandi er rétt að fram komi að Vegagerðin metur það svo að ekki sé unnt að halda við malarvegum á svæðinu, m.a. vegna mengunarhættu.

Við næstu endurskoðun samgönguáætlunar má eftir atvikum athuga breytta notkun þeirra fjármuna sem áætlaðir voru til Heiðmerkurvegar. Í því ljósi er unnið af hálfu samgönguráðuneytisins.

Í annan stað er spurt:

„Hefur verið gert umhverfismat vegna þessara framkvæmda? Ef svo er ekki, verður það gert áður en þær hefjast?“

Svar mitt er: Ekki hefur verið gert umhverfismat vegna þeirra framkvæmda sem áformaðar voru enda ekki gert ráð fyrir öðrum breytingum en slitlagi vegarins. Það er allt innan þeirra marka sem sett eru um slíkar framkvæmdir og ekki meira um það að segja.



[15:42]
Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka samgönguráðherra skýr svör. Eins og fram kemur virðist greinilega þurfa að taka svolítið á fyrirbrigðinu stjórnskipulag varðandi þetta svæði. Eins og ráðherra bendir á er málið á valdi sveitarfélaganna en samt er um að ræða gífurlega mikilvægt vatnsverndarsvæði, mikla auðlind til framtíðar. Ég tel því að ríkið eigi a.m.k. að hafa auga með þeim framkvæmdum og stjórnskipun á svæðinu.