132. löggjafarþing — 23. fundur
 16. nóvember 2005.
Umferð vélknúinna faratækja í ósnortinni náttúru.
fsp. KolH, 241. mál. — Þskj. 241.

[18:14]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Segja má að yfirskrift þessarar fyrirspurnar sé öræfakyrrð en gæti líka verið prump í vélsleðum og bensínfnykur. Mig langar til að eiga orðastað við hæstv. umhverfisráðherra um aukna umferð alls konar vélknúinna farartækja um náttúru landsins, ekki einasta hefðbundinna bifreiða sem komast sífellt lengra og lengra vegna þess sem sumir vilja kalla tæknilegrar fullkomnunar, heldur ekki síður umferðar vélsleða á jöklum og vélbáta á vötnum.

Kveikjan að þessari fyrirspurn er reyndar grein eftir Guðjón Jensson, náttúruverndara úr Mosfellsbæ, sem hann skrifaði í Morgunblaðið í formi lesendabréfs þriðjudaginn 16. ágúst í sumar. Mig langar til að vitna til orða Guðjóns en hann segir, með leyfi forseta:

„Íslensk vötn eru einhverjar fegurstu náttúruperlur landsins. Yndislegt er að heyra kvak himbrimans, lómsins og álftarinnar langar leiðir, róa litlum árabát út á vatnið og njóta kyrrðarinnar. Undanfarin ár hef ég ásamt fjölskyldu, ættingjum og vinum átt ómældar ánægjustundir á Skorradalsvatni í Borgarfirði.“

Svo heldur Guðjón áfram — þessi grein heitir reyndar Skorradalsvatn — og segir okkur frá því að það sé tvennt sem trufli hann við þessa iðju, að róa á litlum árabát út á Skorradalsvatn, annars vegar áhrif Andakílsárvirkjunar á vatnið en hins vegar vaxandi umferð vélknúinna farartækja á vatninu. Og Guðjón segir í greininni, með leyfi forseta:

„Á dögunum rakst ég á nýuppsett skilti við Skorradalsveg í Hvammslandi þar sem vegfarendur eru hvattir að taka með sér bækling og kynna sér hraðbáta af ýmsu tagi. Mig rak í rogastans. Á boðstólum er m.a. hraðbátur með 640 hestafla Volvo penta vél sem getur komið bát þessum á ógnarhraða. Eldsneytistankurinn rúmar á fimmta hundrað lítra!“

Guðjón heldur áfram, og það er gaman að glugga í þessa grein hans af því að hann er vel pennafær, og spyr í lokin og reyndar spyr ekki heldur beinlínis skorar á ráðherra umhverfismála, Umhverfisstofnun, Náttúruvernd ríkisins, Fuglaverndarfélag Íslands, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Landvernd, sveitarfélög landsins sem og alla aðra þá aðila sem málið varða að skoða þessi mál betur. Hann segir að nauðsynlegt sé að umhverfisráðuneytið setji í samvinnu við sveitarfélög sanngjarnar reglur um hávaða og hraðatakmörk vélknúinna farartækja á vötnum og tilgangurinn er augljós, segir Guðjón, „að koma í veg fyrir meiri röskun en þegar er orðin á þessum náttúruperlum landsins“.

Af þessu tilefni hef ég lagt þessar tvær fyrirspurnir fyrir hæstv. ráðherra, hvort til álita kæmi að setja sérstakar reglur um umferð vélknúinna báta á ám og vötnum og til hvaða aðgerða hæstv. ráðherra hafi gripið vegna aukinnar umferðar utan merktra slóða á hálendinu.



[18:17]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Það er rík hefð og réttur fyrir því að almenningur geti farið um vötn. Er það m.a. bundið í vatnalög þar sem segir í 115. gr., með leyfi forseta: „Öllum er rétt að fara á bátum og skipum um öll skipgeng vötn.“

Í náttúruverndarlögum er vísað til þess að þetta ákvæði gildi um umferð um ár og vötn. Þrátt fyrir þessa skýru og opnu heimild eru möguleikar á takmörkunum þar á. Hér má nefna hljóðvistarákvæði laga nr. 7 frá 1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og hávaðareglugerð nr. 933 frá 1999. Því verður ekki neitað að ákveðinn galli felst í því að ekki sé minnst á óbyggð svæði, einungis byggð, þar með talið sumarhúsabyggð. Þar er tilgreindur hámarkshávaði frá umferð upp á 45 desíbel en með fráviksheimild allt upp í 70 desíbel. Á nokkrum friðlýstum svæðum eru settar takmarkanir á umferð vélknúinna báta svo sem á Vestmannsvatni. Það kann hins vegar að vera ástæða til að setja slíkar reglur á fleiri afmörkuðum svæðum, svo sem vegna náttúruverndar og grenndarsjónarmiða og nærgætni við íbúa eða frístundabyggð. Þó verður auðvitað að hafa í huga rétt manna til umferðar á bátum svo sem þeim sem nýttir eru til hefðbundinna nytja eins og veiða. Jafnframt ber ætíð að hafa í huga ævafornan almannarétt um för á vötnum sem hlýtur þó að takmarkast að einhverju leyti af öðrum hagsmunum og rétti almennings til að upplifa og njóta náttúru og útivistar án þess að skerða möguleika annarra til hins sama.

Hvað snertir akstur utan vega hefur óneitanlega verið svo að hann hefur verið vandamál, ekki síst á hálendinu þar sem landið er mjög viðkvæmt. Reglur hafa reynst vera ónákvæmar þar sem kveðið hefur verið á um að akstur utan vega þar sem náttúruspjöll geti hlotist af sé bannaður. Reynslan hefur sýnt að erfitt hefur verið að fylgja eftir ákvæðum reglugerða og fá dóma fyrir meint brot. En til að skýra þessi ákvæði var reglugerðin endurskoðuð síðastliðið vor og ný reglugerð sett um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands. Markmið hennar er að tryggja að umgengni um náttúruna sé með þeim hætti að ekki hljótist af náttúruspjöll og stuðla að verndun hinnar viðkvæmu náttúru Íslands. Meginreglan er sú að bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega í náttúru Íslands en þó er heimilt að aka vélknúnum ökutækjum á jöklum, svo og snæviþakinni og frosinni jörð svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum.

Akstur útlendinga á eigin bílum, eða bílaleigubílum, hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum. Því miður eimir enn eftir af því að í auglýsingum sé beint eða óbeint gefið til kynna að akstur utan vega hér á landi sé sjálfsagður. Til að sporna við þessu hefur Umhverfisstofnun gefið út bækling sem hefur verið dreift á bílaleigur og í ferjuna Norrænu. Jafnframt hafa landverðir reynt að upplýsa og fræða fólk, bæði um gildandi reglur og líka um hversu viðkvæmt svæði sé um að ræða. Þá hefur Umhverfisstofnun fundað með ríkislögreglustjóra og í framhaldi af þeim fundi og með hliðsjón af skýrari reglum var eftirlit lögreglu með akstri utan vega aukið umtalsvert í sumar. Auk þess stóð Ferðafélag Fljótsdalshéraðs fyrir umfangsmikilli og vandaðri kynningu í sumar á því að akstur utan vega er bannaður. Félagið gerði þetta í samvinnu og með dyggum stuðningi mjög margra aðila, svo sem lögregluyfirvalda, Umhverfisstofnunar, bílaleigna, tryggingafélaga og umhverfisráðuneytisins. Ég tel að það hafi verið mjög til fyrirmyndar hvernig félagið stóð að þessari kynningu sinni og lét útbúa alls konar efni til að dreifa til ferðamanna.



[18:22]
Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra greinargóð svör. Ég veit að hún ber sama ugg í brjósti og við hin sem höfum áhyggjur af auknum akstri utan vega í viðkvæmri náttúru landsins og fagna því hinni nýju reglugerð. Auðvitað gerum við okkur grein fyrir því að almannaréttinn um frjálsa för, hvort heldur er á ám eða vötnum eða um náttúru Íslands, má ekki takmarka. En við verðum líka að gá að því að réttinn til öræfakyrrðar hlýtur líka að verða að virða, við sem reynum að njóta náttúrunnar höfum ólíkra hagsmuna að gæta. Ég held því að ekki sé fjarri lagi að hæstv. umhverfisráðherra gefi þessu örlítinn gaum, sérstaklega þegar svo er orðið að um að vötn landsins fara kannski fleiri, fleiri bátar á dag með mörg hundruð lítra bensíntanka. Við megum auðvitað ekki kalla yfir okkur óhöpp af því tagi sem maður sér fyrir sér að gætu mögulega átt sér stað við einhverjar aðstæður sem gætu skapast á vötnum þar sem þessir bátar fara um.

Hljóðvistarreglur og hávaðareglugerð eru hvort tveggja þættir eða tæki sem nota mætti til þess að reyna að vekja fólk til umhugsunar. Ef til vill er það bara slíkt, þegar öllu er á botninn hvolft, sem þarf að gera, þ.e. að vekja fólk til umhugsunar um að það er ekki sjálfsagt enda þótt við eigum ökutæki sem geta farið upp um fjöll og firnindi, vélsleða sem við getum ekið um á hjarni eða jöklum, að þenja þessi tæki og gefa í botn á öllum tímum sólarhringsins. Það verður kannski aðeins að skoða hvort slíkar hávaðareglur geti náð yfir akstur fólks í náttúru landsins.

Sjálf hef ég reynt að tilkynna til lögreglu um akstur bíla utan vega sem voru langt frá alþjóðaleið og enginn möguleiki fyrir lögreglu að komast til að sjá viðkomandi. Svo neita menn náttúrulega bara og þá er auðvitað ekki hægt að knýja fram neina dóma um nein mál. Ég þakka svörin.



[18:24]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir áhyggjur hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Ég verð að viðurkenna að stundum á kyrrum kvöldum í dalnum þar sem ég bý er kyrrðin rofin og ég játa það að ég vil heldur hafa kyrrðina og fuglasönginn en hávaða af t.d. vélhjólum eða bílum. Þannig er það auðvitað. Hávaði er hins vegar fylgifiskur okkar mannanna og ekki er við öðru að búast þegar maður býr nálægt öðru fólki en að maður verði var við það. Hins vegar finnst mér allrar athygli vert hvort ekki beri að taka þessi mál til nákvæmari skoðunar. Eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni gætu verið ástæður til að setja reglur víðar en gert hefur verið til þessa.