132. löggjafarþing — 26. fundur
 21. nóvember 2005.
tekjuskattur og eignarskattur, 1. umræða.
stjfrv., 326. mál (hækkun sjómannaafsláttar). — Þskj. 358.

[17:40]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Frumvarpið er 326. mál þingsins og er að finna á þskj. 358.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á grunnfjárhæð sjómannaafsláttar, auk þess sem lagðar eru til breytingar sem lúta að skattframkvæmd.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að grunnfjárhæð sjómannaafsláttar verði hækkuð um 2,5% frá 1. janúar 2006 og komi til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2006. Þessi hækkun er í samræmi við þá hækkun persónuafsláttar sem samþykkt var haustið 2004.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að breyting verði á viðmiðunardagsetningu þess, hvar menn skuli telja fram og hvar lagt skuli á þá ár hvert. Lagt er til að miðað verði við að menn skuli telja fram og vera skattlagðir þar sem þeir áttu lögheimili 31. desember ár hvert í stað 1. desember eins og nú er. Ástæður þess að miðað hefur verið við 1. desember en ekki síðasta dag ársins liggja í vinnulagi fyrri tíma, en ljóst er að verulegar tæknilegar framfarir hafa átt sér stað frá því að framangreint tímamark var lögfest. Núgildandi fyrirkomulag hefur hins vegar tafið fyrir vinnslu skattyfirvalda og aukið hættu á villum og því er þessi breyting lögð til.

Hæstv. forseti. Með þessum orðum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.



[17:42]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér tvö atriði, annars vegar hækkun á sjómannaafslætti og í sjálfu sér á meðan við höldum þeim skatti, sem í raun er ekki skattur heldur afsláttur í krónum talið, þá er eðlilegt að hækka hann miðað við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins eins og við höfum gert á hverju ári varðandi ýmiss konar gjöld sem menn þurfa að borga til ríkisins. Ég geri ráð fyrir að stjórnarandstaðan muni mótmæla þessu nákvæmlega eins og hún mótmælti á sínum tíma sambærilegri hækkun á alls konar gjöldum til ríkisins. Hins vegar vil ég lýsa því yfir, frú forseti, að ég er á móti sjómannaafslættinum sem slíkum og hef mörgum sinnum lagt til að hann verði felldur niður. En á meðan við höldum honum finnst mér þetta rökrétt.

Í öðru lagi er lagt til að viðmiðun skattskyldu verði miðuð við 31. desember og ég vil að hv. nefnd, sem ég reyndar stýri, fari vel ofan í það af hverju ekki ætti að miða við 1. janúar ár hvert þar sem það er fyrsti dagurinn í því skatttímabili sem um er að ræða. Ég held að meiri rök séu fyrir því en að hafa það síðasta dag ársins áður. En það gerist svo sem ekki mikið á milli 31. desember og 1. janúar alla jafna.