132. löggjafarþing — 28. fundur
 23. nóvember 2005.
Skattamál í tengslum við Kárahnjúkavirkjun.
fsp. SJS, 318. mál. — Þskj. 345.

[12:02]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Á 130. löggjafarþingi lagði ég fyrirspurn fyrir hæstv. þáverandi fjármálaráðherra um ýmislegt sem varðaði skattamál tengd Kárahnjúkavirkjun eða þeim framkvæmdum og þá sérstaklega hvernig hagað yrði skattheimtu af launum erlendra starfsmanna. Ég spurði sérstaklega hvaða álitamál og vandamál fjármálaráðuneytið teldi líklegt að kæmu upp eða kynnu að koma upp í sambandi við skattalega meðferð mála af þessu tagi.

Svar ráðuneytisins á þskj. 821 á 130. löggjafarþingi vakti nokkra athygli, og var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Að mati ráðuneytisins eru engin sérstök álitamál eða vandamál sem upp kunna að koma í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar umfram það sem upp kann að koma vegna annarra framkvæmda af þessari stærðargráðu.“

Þetta svar vakti mikla undrun mína vegna þess að þá þegar virtist annað blasa við. Fréttir voru af ýmsum erfiðleikum sem tengdust m.a. skráningu erlendra starfsmanna, eða ekki-skráningu, sem tengdist því að erlendir starfsmenn komu inn í landið á skammtímaskilmálum í sumum tilvikum og hurfu síðan úr landi aftur án þess að greiða eina einustu krónu. Vandséð var hvernig fjármálaráðuneytið íslenska, skattyfirvöld, ætlaði að ná af þeim sköttunum eftir að þeir voru komnir til síns heima.

Ég lagði því aftur fram fyrirspurn á sama þingi og þá munnlega sem svarað var 5. maí 2004 og enn sat fjármálaráðuneytið við sinn keip og hélt því blákalt fram að þrátt fyrir þó þá reynslu sem þá var komin á að engin sérstök vandamál eða álitamál væru líkleg til að koma upp eða hefðu komið upp í sambandi við skattalega meðferð mála vegna þessara framkvæmda.

Í þriðja sinn lagði ég fram fyrirspurn á 131. löggjafarþingi, á þskj. 416, og spurði ráðuneytið hvort það væri enn þeirrar skoðunar að engin sérstök vandamál hefðu komið þarna upp í sambandi við skattalega meðferð. Þá lá fyrir, og hefur reyndar gert lengi, mikil óánægja sveitarfélaga á svæðinu með hvernig hagað var skráningu erlendra starfsmanna og ljóst að útsvarstekjur skiluðu sér ekki til sveitarfélaganna neitt í líkingu við það sem átt hefði að gera ef allur sá fjöldi erlendra starfsmanna sem starfaði á svæðinu hefði greitt sínar skyldur.

Enn var svarið hið sama.

Nú blasir það við samkvæmt fréttum t.d. í sjónvarpinu fyrir nokkru síðan að innheimta skatta af erlendum starfsmönnum við Kárahnjúka eru enn í ólestri vegna rangra skráninga og innheimtuárangur sýslumannsembættisins á Seyðisfirði á síðasta ári vegna tekna ársins 2003 hrapaði niður í 37%, úr 90% eins og hann var að jafnaði áður en þessar framkvæmdir hófust í umdæminu.

Ég ítreka því enn spurningu mína (Forseti hringir.) til fjármálaráðherra: Er ráðuneytið enn þeirrar skoðunar að þarna séu engin sérstök álitamál eða vandamál uppi?



[12:05]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Svar við fyrirspurn hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem hann ber fram um hvort ráðherra sé „enn þeirrar skoðunar að engin sérstök álitamál eða vandamál séu uppi eða hafi komið upp í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar“ er svohljóðandi að þessu sinni:

Að mati fjármálaráðherra eru engin sérstök álitamál eða vandamál uppi í sambandi við skattalega meðferð mála vegna Kárahnjúkavirkjunar umfram það sem upp kann að koma vegna framkvæmda af þessari stærðargráðu. Varðandi þessa framkvæmd sem aðrar kemur oftar en ekki upp sú staða að túlkun forsvarsmanna fyrirtækja sem að framkvæmdinni standa á einstökum ákvæðum skattalaga fer ekki alltaf saman við túlkun skattyfirvalda. Við slíkar aðstæður kæra aðilar alla jafna niðurstöðu skattyfirvalda til þar til bærra stjórnvalda, eins og yfirskattanefndar, þar sem málin eru endanlega til lykta leidd.

Það hefur gerst í málum sem tengjast þessari framkvæmd og eru þau í sínum eðlilega farvegi. Rétt er að geta þess að ágreining um skattskyldu og skattstofna má einnig bera undir dómstóla.



[12:07]
Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að skattheimta erlendra starfsmanna hefur ekki skilað sér til viðkomandi sveitarfélags. Útsvarstekjur sveitarfélagsins af þessum starfsmönnum eru því ekki eins og áætlaðar voru. Jöfnunarsjóður aftur á móti áætlar tekjur sveitarfélagsins með tilliti til þess fjölda erlendra starfsmanna og starfsmanna sem eru á svæðinu og eiga að greiða útsvar. Hann áætlar útsvarstekjur sveitarfélagsins með tilliti til þess og áætlaðra tekna starfsmannanna og lækkar framlag jöfnunarsjóðs til sveitarfélagsins þar af leiðandi.

Sveitarfélagið Fljótsdalshérað verður því fyrir tvöfaldri skerðingu, þ.e. fær ekki þær útsvarstekjur sem því ber og verður fyrir skerðingu úr jöfnunarsjóði vegna þessa.



[12:08]
Dagný Jónsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Því er ekki að neita að þetta ferli allt hefur haft leiðindabrag á sér. Það hefur verið erfitt hjá sveitarfélögunum fyrir austan sem hafa lent í áætluninni sem hv. þm. Þuríður Backman kom inn á áðan. Sérstaklega vil ég í því ljósi nefna Fljótsdalshérað en þar hefur verið áætlað á þá verkamenn sem komu hingað í skammtímaskráningu og hafa jafnvel aldrei látið sjá sig á svæðinu. Þetta hefur síðan verið dregið frá framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og því er staða sveitarfélaganna mun verri fyrir vikið. Sveitarfélögin hafa leitað eftir því að fá fund með stjórnvöldum, ræða málin og fara yfir þau. Ég vona svo sannarlega að eitthvað fari að gerast í þeim málum. Sveitarfélögin verða af verulegum tekjum. Þau eru ekki að biðja um að þessar skatttekjur skili sér beint, heldur að jöfnunarsjóðurinn taki tillit til þess að þessir verkamenn hafa ekki starfað á svæðinu. Mér finnst eðlilegt að jöfnunarsjóðurinn taki þetta til skoðunar.



[12:09]
Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það má út af fyrir sig kalla það aðdáunarverða staðfestu hjá fjármálaráðuneytinu að gefa sífellt sama ranga svarið við þessari spurningu. Það er auðvitað stórkostlega ámælisvert að fjármálaráðuneytið skuli bera svona þvætting á borð fyrir Alþingi í formlegum svörum við formlegum fyrirspurnum, ýmist munnlegum eða skriflegum, að þarna hafi engin vandamál verið í skattalegri framkvæmd.

Ég vek athygli á því að frá byrjun hefur verið spurt um álitamál eða vandamál í skattalegri framkvæmd, hvað varðar skattalega meðferð mála. Það tekur til skattalegrar framkvæmdar, álagningar, innheimtu og málsins í heild sinni. Hvernig getur hæstv. fjármálaráðherra komið hér, og forveri hans, aftur og aftur og sagt að þetta sé allt í lagi, það séu engin sérstök vandamál þarna uppi umfram það sem búast megi við af framkvæmdum af sömu stærðargráðu?

Hér er náttúrlega framkvæmd á ferðinni sem er algerlega sérstök í sögunni, unnin að uppistöðu til af erlendu starfsfólki sem er á nýjum kjörum í landinu, kjörum sem áður voru nánast óþekkt, í gegnum starfsmannaleigur o.s.frv. Við höfum aldrei áður átt skipti við aðila eins og Impregilo sem hegðar sér með þeim hætti sem það fyrirtæki hefur gert.

Þó að svo kunni að fara að það takist að ná þessu fé af fyrirtækinu að lokum — sem það ætlar síðan fyrir dómstóla með og reyna að ná rétti sínum fyrir dómstólum, ef það verður neytt til að borga, ábyrgjast greiðslur starfsmannanna — er framkvæmdin, innheimtan og hvernig þetta hefur komið út fyrir sveitarfélögin og óvissan sem þar hefur skapast þannig, að það er eins og hver annar þvættingur að bera það á borð í svari við fyrirspurn á Alþingi að þetta hafi allt verið með eðlilegum hætti og í lagi. 37% innheimtuárangur hjá sýslumanninum á Seyðisfirði á árinu 2003 (Forseti hringir.) er auðvitað ekki í lagi. Og hvað eiga svona svör að þýða, frú forseti, við fyrirspurnum á Alþingi?



[12:12]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon snúa út úr orðum mínum. Enginn sagði að engin mál hefðu komið upp þarna. Það sem var verið að segja er að það er ekkert meira en menn hefðu getað átt von á í svona framkvæmd. Þau mál eru einfaldlega til meðferðar í kerfinu.

Það vill þannig til að aðilar hafa heimild til að vera ósammála stjórnvöldum um þessa hluti og þeir hafa heimild til að skjóta málum sínum áfram í kerfinu. Það á við um þá aðila sem eru með starfsemi á Kárahnjúkum eins og annars staðar. Við verðum að virða þann rétt þeirra og virða það að okkar kerfi gerir ráð fyrir ákveðnum farvegi og hvernig úr málum er unnið. Því er ástæðulaust að gera eitthvað sérstaklega mikið eða meira úr því en tilefni er til og snúa út úr þeim svörum sem hér koma fram. Og það að mér sýnist trekk í trekk. Auðvitað vill hv. þingmaður að þarna séu stór vandamál og ekkert nema vandamál. Hann hefur verið á móti framkvæmdinni alveg frá upphafi (ÞBack: Nei, nei, nei, nei.) og það hlýtur að liggja á bak við þetta að reyna að gera sem mest úr þeim málum sem þar koma upp, gera þau að einhverjum sérstökum og stórum vandamálum þegar staðan er sú að þau mál sem þarna hafa komið upp eru ekki stærri en búast mátti við í framkvæmd af þessari stærðargráðu. Þau eru í sínum eðlilega farvegi og þau munu verða til lykta leidd samkvæmt þeim lögum og reglum sem hér um gilda, og jafnt hjá þeim aðilum sem starfa við Kárahnjúka og annars staðar á landinu.



[12:14]
Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Hv. 5. þm. Norðaust. hefur óskað eftir að bera af sér sakir en forseti sér ekki alveg hvernig það fellur undir þingsköpin þegar hér er verið að svara fyrirspurn undir ákveðnum dagskrárlið.