132. löggjafarþing — 28. fundur
 23. nóvember 2005.
Svörun í þjónustusíma.
fsp. JBjarn, 247. mál. — Þskj. 247.

[12:35]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. viðskiptaráðherra sem fer jafnframt með neytendamál sem hljóðar svo:

Hafa verið settar eða kemur til álita að setja þjónustukvaðir á fyrirtæki eða þjónustuaðila með almannaskyldur eða ráðandi markaðshlutdeild þar sem kveðið yrði á um hámarksbiðtíma eftir svörun í þjónustusíma?

Hvatinn að fyrirspurninni var persónulegs eðlis. Ég þurfti nauðsynlega að ná í þjónustusíma Símans, 800 7000, og eftir að hafa beðið á línunni í einar 15 mínútur kom svar um að ég væri númer 30 á biðlista. Þetta var skömmu fyrir hádegi og þar sem ég hélt að illa stæði á þá reyndi ég aftur eftir hádegi. En þá endurtók sig sama sagan. Eftir allnokkra bið sagði mér símsvari: Þú ert nr. 30. Símtölum verður svarað í réttri röð, eitthvað svoleiðis. Ég sá fyrir mér að dagurinn færi ekki í annað en að bíða eftir því að mér yrði svarað í þjónustusímanum.

Eftir að ég sendi þessa fyrirspurn inn hef ég fengið fjöldann allan af símtölum og viðbrögðum frá fólki sem hefur lent í því nákvæmlega sama. Þá fór ég að velta því fyrir mér að þetta er eins og ákveðin vara eða þjónusta sem maður er áskrifandi að og mikilvægt er að eiga aðgang að henni, ekki síst þegar um ráðandi markaðshlutdeild er að ræða og maður hefur ekki í önnur hús að venda með þá þjónustu. Mér datt í hug að spyrja hæstv. ráðherra neytendamála hvort að þetta séu eðlilegir viðskiptahættir, samkvæmt lögum um óréttmæta viðskiptahætti, gagnsæi markaðarins og samkvæmt lögum um neytendakaup sem lúta að því að þjónusta skuli uppfylla ákveðnar kröfur. Málið hefur einnig alvarlegri hlið. Það snertir líka öryggismál. Fleiri fyrirtæki sem eru með ráðandi markaðshlutdeild eru með símsvörun sem ekki er hægt að komast að nema í gegnum einhvern slíkan þjónustusíma.

Ég get nefnt það í lokin að það tókst með klækjum að komast inn á aðalskrifstofu Símans og koma þar áleiðis skilaboðum um að hringja í mig. Þetta var á fimmtudegi og á mánudegi var hringt og spurt: Varst þú að reyna að ná sambandi við þjónustuverið? Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðherra neytendamála hvort að þetta sé eðlilegt.



[12:39]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá fróðlegu reynslusögu sem hér var sögð en svar mitt er eftirfarandi. Hið einfalda og stutta svar við fyrirspurn hv. þingmanns er nei. Hvorki hafa verið settar né kemur til álita að setja þjónustukvaðir á fyrirtæki eða þjónustuaðila með almannaskyldur eða ráðandi markaðshlutdeild þar sem kveðið yrði á um hámarksbiðtíma eftir svörum í þjónustusíma. Ég tel að slíkt komi engan veginn til álita einfaldlega vegna þess að það er sannfæring mín að veiti fyrirtæki ekki góða þjónustu lifi þau ekki af á markaði. Neytendur fara þá yfir til samkeppnisaðila með viðskipti sín eða að nýir aðilar koma inn á markaðinn sem veita betri þjónustu. Ég tel ekki koma til álita að setja slíkar stífar reglur á atvinnulífið. Markaðurinn sér um þetta sjálfur.

Hv. þingmaður vísar til fyrirtækja eða þjónustuaðila með ráðandi markaðshlutdeild. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á þeirri meginreglu í samkeppnisrétti að ekkert bannar fyrirtækjum að vera markaðsráðandi. Þau mega hins vegar ekki misnota markaðsráðandi stöðu sína. Þannig er kveðið á um, í 11. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, að misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé bönnuð og að misnotkunin geti m.a. falist í að beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs, settar séu takmarkanir á framleiðslu, markaði eða tækniþróun o.s.frv. Þessi ákvæði eiga sér samsvörun í Evrópurétti. Það þurfa ekki að koma til sérstakar reglur um hvernig fyrirtæki og stofnanir svara í síma.



[12:41]
Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Þetta var afar athyglisvert svar hjá hæstv. viðskiptaráðherra og yfirmanni samkeppnis- og neytendamála í landinu. Það er ekki í mörg hús að venda ef undirtektirnar undir hugmyndir um að markaðsráðandi fyrirtækjum eða einokunarfyrirtækjum sé veitt aðhald af hálfu stjórnvalda eru slíkar þegar kemur að þjónustu sem fyrirtækin ein hafa í boði en veitt er með þeim endemum sem hér var lýst eða önnur sambærileg tilvik koma upp. Er þá svar hæstv. viðskiptaráðherra alltaf hið sama: Markaðurinn sér um þetta.

Hæstv. ráðherra talar eins og fullkomin samkeppni sé á þessum markaði og að fyrirtæki sem veiti slælega þjónustu muni bara hverfa. En ef fyrirtækið er bara eitt, hvert eiga menn þá að snúa sér? Við erum að tala um grimmilegt fákeppnis- og einokunarumhverfi sem ríkisstjórnin hefur reyndar átt þátt í að búa til. En þá skulu landsmenn bara éta það sem úti frýs og sætta sig við eins lélega þjónustu á ýmsum sviðum og þá gerist af því að hæstv. ráðherra trúir því að markaðurinn muni sjá um allt saman.



[12:42]
Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég hef áhyggjur af því að samkeppnismál og neytendamál séu í höndum ráðherra sem ekki hefur ríkari skilning á þeim verkefnum. Ég vil benda á lögin um póstþjónustu þar sem settar þjónustuskyldur um hversu lengi bréf mega vera að berast, frá því að þau eru sett í póst þar til að þau eiga að vera komin til viðtakanda. Það þykir eðlileg þjónustukrafa. Með sama hætti er hægt að gera nákvæmlega sömu þjónustukröfu til markaðsráðandi fyrirtækis eins og Símans. Jafnvel þótt hann væri ekki markaðsráðandi nema í einstökum landshlutum, eins og hann er, væri eðlilegt að setja honum þjónustukvaðir.

Ég bendi á lögin sem hæstv. ráðherra er ábyrg fyrir að séu framkvæmd. Ég bendi á lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins. Ég bendi líka á lögin um neytendakaup sem fjalla m.a. um þau atriði sem ég hef minnst á, hjá markaðsráðandi aðilum í sölu á vöru og þjónustu. Ég er áskrifandi að þessari þjónustu. Ráðherra er í sjálfu sér ábyrg fyrir því að þjónustan sé sett í þann ramma að hagsmunir neytenda séu tryggðir.

Ég óska því eftir því, frú forseti, að hæstv. ráðherra íhugi þetta mál frekar. Þessi sjálfvirka símsvörun sem er að ryðja sér til rúms, ekki bara hjá Símanum heldur hjá mörgum öðrum mikilvægum fyrirtækjum og stofnunum, má ekki koma þannig niður að það virðist aldrei eða seint og illa hægt að ná eðlilegu sambandi.



[12:44]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Sá rammi sem hv. þingmaður er að tala um eru samkeppnislög í landinu og jafnvel fleiri lög sem hann nefndi í ræðu sinni. Það er ekki mitt að kveða upp úr um hvort eitthvert fyrirtæki úti í bæ hafi brotið lög. Það verður að fara sína leið innan kerfisins.

Samkeppnislögin voru til meðferðar á síðasta þingi. Við skerptum á ýmsum ákvæðum í þeim lögum og þar að auki var sett á stofn ný stofnun, Samkeppniseftirlit, sem tekur við af Samkeppnisstofnun. Hún fær verulega aukna fjármuni til ráðstöfunar til að halda utan um sín mál og ég er sannfærð um að það verði gert á viðunandi hátt.

En það sem hv. þingmaður var fyrst og fremst að leita eftir var málefni sem ég get ekki haft afskipti af. Ég tel hins vegar að hann hafi komið rækilega á framfæri kvörtun með því að segja þessa reynslusögu úr ræðustól á Alþingi. Það hlýtur að hafa sín áhrif á fyrirtækið sem þarna á í hlut.