132. löggjafarþing — 28. fundur
 23. nóvember 2005.
Kjarabætur til vistfólks á dvalar- og hjúkrunarheimilum.
fsp. ÁRJ, 159. mál. — Þskj. 159.

[13:56]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég spyr hæstv. heilbrigðisráðherra um hvort áform séu upp um að bæta kjör þeirra sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarstofnunum. En vasapeningafyrirkomulagið sem þar tíðkast hefur farið mjög fyrir brjóstið á mörgum, og þá sérstaklega öldruðum.

Ég vitna hérna í blaðagrein úr Morgunblaðinu frá 7. október síðastliðnum með yfirskriftinni: Alþingismenn okkar munu aldrei þurfa að sækja um vasapeninga. Þar fjallar Halldór Þorsteinsson um aðbúnað aldraðra og segir meðal annars: „Þegar menn eru vistaðir á opinberum stofnunum hvaða nafni sem þær kunna að nefnast, er þeim ekki beinlínis tekið með virktum. Öðru nær, þeir eru í einu orði sagt lítillækkaðir og auðmýktir.“

Í greininni talar hann einnig um sviptingu mannréttinda með vasapeningafyrirkomulaginu þar sem ellilífeyririnn rennur til að greiða fyrir vistina og vistmenn þurfi síðan að sækja um vasapeninga sem sé niðurlægjandi. Hér er ég að tala um þá aldraða sem nánast einvörðungu hafa almannatryggingagreiðslur sér til framfærslu en þeir missa þær greiðslur við að fara inn á hjúkrunarheimili eða stofnanir. Kjör þessa hóps aldraðra eru mjög bág. Þarna er um að ræða rúmlega 1.700 manns og síðan 230 öryrkja sem ég ætla að gera að umtalsefni í annarri fyrirspurn sem ég vonast til að hæstv. ráðherra svari mér í næsta fyrirspurnatíma, eftir viku.

Vasapeningarnir eru tæpar 22.000 kr. á mánuði og þeir skerðast um 65% þeirra tekna sem viðkomandi hefur yfir 7.000 kr. og falla alveg niður við 39.000 krónurnar. Þetta eru auðvitað óviðunandi kjör fyrir veikt fólk, fólk sem nánast ekkert getur veitt sér, hvað þá vikið einhverju að sínum nánustu. Þeir þurfa að kaupa ýmsar nauðsynjar, svo sem eins og snyrtivörur og ýmsa þjónustu, þó er það mismunandi eftir hjúkrunarstofnunum hversu mikið af þeirri þjónustu þeir þurfa að greiða. En þetta dugar svo sannarlega ekki einu sinni fyrir fötum til skiptanna. Þeir sem eiga rétt á lífeyrissjóði missa líka lífeyri sinn við að fara inn á stofnun en halda eftir 48.000 kr. sem er þó aðeins skárra hlutskipti.

En ég spyr hæstv. ráðherra: Finnst honum þetta kerfi og þessi kjör viðunandi? Og eru áform uppi um að breyta þeim? Ég minni á svar hæstv. ráðherra frá síðastliðnum mánudegi í óundirbúnum fyrirspurnatíma þar sem var spurt hvort þessi hópur fengi jólauppbótina sem launþegar og lífeyrisþegar munu fá nú 1. desember og hæstv. ráðherra talaði um að hann mundi bæta þessum hópi þetta með sanngjörnum hætti. Hvað er sanngjarn háttur fyrir þennan hóp sem er með um rúmlega 260.000 kr. í árstekjur, þ.e. fólkið með vasapeningana, rúmlega 1.700 aldraðir og 230 öryrkjar? Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað hyggst hann gera til að bæta kjör þessa fólks?



[13:59]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég byrja þar sem hv. þingmaður endaði varðandi þá eingreiðslu sem var spurt um í fyrirspurnatíma það sem ég sagði að við afgreiddum með sanngjörnum hætti. Ég skrifaði undir reglugerð í gær um eingreiðsluna þar sem hún er í samræmi við það samkomulag sem gert hefur verið og í samræmi við það sem aðrir fá og þeir sem eru inni á stofnunum munu njóta þessarar eingreiðslu. En spurt er hvort áform séu um að bæta kjör þeirra sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarstofnunum. Spurningin snýr að öldruðum sem vistast á stofnunum og þá væntanlega bæði bótagreiðslum og þjónustu við aldraða.

Hinn 25. september 2002 skipaði ríkisstjórnin starfshóp sem ætlað var að verða farvegur formlegs samráðs stjórnvalda og Landssambands eldri borgara um breytingar á almannatryggingalögum og endurskoðun á lífeyrisgreiðslum er komi til framkvæmda á næstu árum. Þá var starfshópnum einnig ætlað að fjalla um uppbyggingu hjúkrunarheimila og þjónustu við aldraða með það að markmiði að stytta biðlista og bæta þjónustu.

Starfshópurinn var skipaður fulltrúum fjögurra ráðuneyta og Landssambands eldri borgara og skilaði tillögum með skýrslu þann 19. nóvember 2002. Ríkisstjórnin samþykkti að beita sér fyrir því að tillögurnar næðu fram að ganga og var áréttað að aðilar vildu áframhaldandi samráð um þau viðfangsefni sem tillögurnar taka til og annað sem upp kann að vera tekið í samráðsnefnd aðila.

Í framhaldi af framangreindu skipaði ég 31. maí 2005, samráðsnefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir efndir á samkomulaginu frá 2002 og jafnframt á nefndin að meta stöðu aldraðra eins og hún er nú. Nefndin hefur nú skilað áliti um efndir frá samkomulaginu 2002 og það hefur verið efnt að undanteknu einu atriði sem út af stendur, sem fjallar um sveigjanleg starfslok. Í framhaldi af þessu munum við nú halda fundi í samráðsnefnd ríkisstjórnarinnar og aldraðra og halda áfram að fara yfir málefni aldraðra í samstarfshópnum og ákvarðanir sem tengjast eldri borgurum og þær munu taka mið af framangreindu nefndarstarfi, áætlunum og skýrslu stýrihóps um stefnumótun. Þetta á einnig við um aldraða sem dvelja á dvalar- og hjúkrunarheimilum og við munum fjalla um kjör þeirra á sama vettvangi. Og ég vona að við gerum það núna á næstu dögum, en næstu fundir eru áætlaðir með öldruðum núna á allra næstu dögum. Þessi mál eru þar undir og verða til umfjöllunar á þessum vettvangi.



[14:03]
Guðmundur Magnússon (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir að koma fram með þetta mál, því það er svo sannarlega brýnt, og ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svörin sem hann gaf um að eitthvað verði gert.

Ég spyr líka hvort ekki væri rétt að kanna að gera svipað og Danir gerðu fyrir rúmum tíu árum þegar þeir lögðu niður slíka vasapeninga. Þar fær fólk fullar, eðlilegar örorkubætur. Síðan greiðir það húsaleigu og eðlilegan hluta af heimiliskostnaði en ríkið greiðir alla þjónustu.



[14:04]
Jónína Bjartmarz (F):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ástu R. Jóhannesdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Mér finnst betra að hafa það sem sannara reynist og oftast er það nú svo. Hv. þingmaður talaði um árslaun viðkomandi sem væru á dvalar- og hjúkrunarheimilum. Við erum auðvitað ekki að tala um árslaun, við erum að tala um vasapeninga sem ná þessari fjárhæð. Við erum eingöngu að tala um þessa fjárhæð í vasapeninga sem lágmark vegna þess að það eru einungis þeir sem hafa engar tekjur aðrar en frá almannatryggingum sem eru með þessa fjárhæð, aðrir eru með meira. Eins og fram kom á fundi í heilbrigðis- og trygginganefnd í morgun eru þeir ekki nema 1% aldraðra eftir því sem samtök aldraðra sögðu okkur. (Gripið fram í.) Það eru einungis þeir sem eru með þessa fjárhæð.

Hins vegar vil ég halda því til haga að þetta fyrirkomulag hefur farið fyrir brjóstið á mörgum, en ég vil líka benda á að margt fólk á hjúkrunarheimilum kysi þetta fyrirkomulag ef það væri valkvætt, vegna þess að fólk er ekki á hjúkrunarheimilum út af engu. (Forseti hringir.) Margt af því fólki er ekki fært um að annast eigin fjármál og þyrfti að treysta á aðstandendur sína um að annast fjármálin ef þetta fyrirkomulag væri ekki fyrir hendi.



[14:05]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Þetta er ágæt umræða og mig langar aðeins að leggja orð í belg varðandi einmitt þann hóp á öldrunarstofnunum sem eingöngu er með vasapeninga. Þetta er ekki mjög há upphæð, rúmar 20 þús. kr. sem þurfa að standa undir persónulegum kostnaði. Fram kom hjá fulltrúum stjórnenda öldrunarheimila í heilbrigðisnefnd í morgun að það er afar mismunandi á milli heimila hversu mikið heimilismenn þurfa að taka þátt í kostnaði, t.d. við þvott á fatnaði, hárgreiðslu og fótsnyrtingu. Það kom m.a. fram að á Hrafnistu þurfa menn ekki að greiða neitt fyrir þvott á fatnaði en á Grund þurfa þeir ekki að taka neinn þátt í kostnaði við hár- og fótsnyrtingu. Það er því ljóst að þegar vasapeningar verða teknir til endurskoðunar þarf jafnframt að fara eftir ábendingum Ríkisendurskoðunar, en fram kom í nýlegri skýrslu um þjónustu við aldraða að stjórnvöld hafa ekki sett fram lágmarkskröfur um magn á gæðaþjónustu. (Forseti hringir.) Þetta þarf að skoða samhliða.



[14:06]
Drífa Hjartardóttir (S):

Virðulegi forseti. Þetta er afskaplega athyglisverð umræða sem hér fer fram. Ég vil bara vekja athygli á því sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði að samningurinn og samkomulagið við Félag eldri borgara hefur verið uppfyllt nema með sveigjanlegu starfslokin sem ég veit ekki annað en að verið sé að vinna í, því að hér var samþykkt þingsályktunartillaga sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson var 1. flutningsmaður að, að mig minnir. Vonandi verður tekið tillit til þess.

Því er lítið haldið til haga í umræðunni um eldri borgara að eignarskatturinn var afnuminn. Hann hlýtur að hafa komið mörgum til góða, þó reyndar ekki þeim sem dvelja á hjúkrunarheimilum. Ég tek undir það sem hv. þm. Ásta Möller sagði áðan að það er mjög mismunandi hvað vistmenn þurfa að greiða varðandi þjónustu sem þeir fá.



[14:08]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér fer fram. Hins vegar verð ég að viðurkenna að það kemur mér verulega á óvart ef þær upplýsingar eru réttar að aðeins 1% aldraðra sem eru inni á stofnunum sé eingöngu með dagpeninga. Ég hélt að hlutfallið væri miklu hærra. Einnig kemur mér á óvart í skýrslu Ríkisendurskoðunar eins og fram kemur í réttmætri athugasemd frá hv. þm. Ástu Möller um hve mikið misræmi er á milli stofnana varðandi þjónustu og greiðsluþátttöku þeirra sem þar dvelja. Það segir sig sjálft að það er mjög dýrt fyrir þá sem hafa eingöngu vasapeninga að greiða fyrir þjónustu eins og þvott eða að þurfa jafnvel að sjá sér sjálfir fyrir húsgögnum í herbergið. Þetta misræmi er ein af meginathugasemdunum sem gerðar eru í skýrslu Ríkisendurskoðunar um aðbúnað aldraðra, og skortur á reglum og samhæfingu á milli stofnana varðandi þjónustuna og síðan eftirlitið.



[14:09]
Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir orð síðasta ræðumanns varðandi eftirlit með því hvaða þjónusta er veitt á hjúkrunarheimilum eða öldrunarstofnunum. Á hitt ber að benda að hér er einhver misskilningur í gangi, því ef farið er inn á vef heilbrigðisráðuneytisins er þar til sérstakt skilmálablað sem segir til um hvaða þjónustu eigi að veita. Þar kemur m.a. fram að hjúkrunarheimili og öldrunarstofnanir eiga að sjá um þvott fyrir einstaklinga. Hins vegar eru nokkur hjúkrunarheimili í borginni sem komast upp með að veita ekki þá þjónustu. Það er kapítuli út af fyrir sig.

Hvað varðar vasapeningana skulum við horfa til þess að á hjúkrunarheimilum geta daggjöld á mánuði verið allt frá 390 þús. og upp í 600 þús. eftir því hvaða hjúkrunarheimili eru skoðuð, hvort það er Sóltún eða önnur heimili. 10 þús. kr. vasapeningar eru í örfáum tilvikum. Við skulum ekki gleyma því heldur að margir eru með greiðslur úr lífeyrissjóði, sem betur fer, og þeir geta haldið lífeyrirssjóðstekjum sínum upp að 47 þús. kr. á mánuði. Það er því í mörg horn að líta hvað þetta áhrærir. (Forseti hringir.)

Að lokum vildi ég aðeins lýsa áhyggjum mínum af (Forseti hringir.) og vonast þó til að því verði sinnt en það eru sveigjanleg starfslok sem enn er ófrágengið (Forseti hringir.) við félag eldri borgara.

(Forseti (BÁ): Forseti vill árétta að ræðumenn haldi sig innan þeirra tímamarka sem gefin eru til að gera stuttar athugasemdir sem er aðeins ein mínúta.)



[14:10]
Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu sem er þörf og þyrfti auðvitað að vera mun lengri um þennan hóp.

Ég vil byrja á því að fagna því sem hæstv. ráðherra sagði í svari til mín að í gær hafi hann undirritað samkomulag um að þessi hópur lífeyrisþega, sem eru 1.703 aldraðir og 230 öryrkjar, muni ekki fara í jólaköttinn að þessu sinni heldur fái þær 26 þús. kr. sem aðrir fá 1. desember. Ég fagna því þar sem þetta er hópur sem fær yfirleitt ekki uppbætur og hann fær ekki eingreiðslur. Hann þarf að lifa af þessum 21.900 kr. á mánuði, þ.e. fyrir helstu persónulegum nauðsynjum. Það er hins vegar tómt bull að það sé 1% lífeyrisþega. Í ræðu sinni talaði hv. þm. Jónína Bjartmarz um lífeyrisþega sem eru á strípuðum bótum og eru úti í samfélaginu en ekki inni á stofnunum, sem er fólkið sem við erum að tala um hér. Það er fólk sem á ekki peninga til að kaupa sér föt til skiptanna. Ég hef margar staðfestingar fyrir því. Þetta fólk fær heldur ekki stuðning frá félagsþjónustu sveitarfélaganna. Þarna verður að taka á og það mynduglega, hæstv. ráðherra. Vasapeningakerfið er auðvitað gamaldags kerfi. Við hljótum að geta tekið upp annað kerfi sem okkur er sæmandi því að slíkt ölmusukerfi er niðurlægjandi. Það er alveg rétt sem margir aldraðir segja í greinum sem þeir hafa verið að skrifa um það.

Hvað það varðar að verið sé að standa við samkomulag við aldraða þá hef ég hef ekki tíma til að fara yfir það en ég vil t.d. spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi staðið við það atriði sem eru skammtímainnlagnir fyrir heilabilaða þar sem átti að fjölga þeim. Mér skilst eftir þeim upplýsingum sem ég hef að þeim hafi fækkað frekar en fjölgað. Ég hvet hæstv. ráðherra til að skoða það en fagna því að hann ætlar ekki að láta þann hóp lífeyrisþega sem er á stofnunum og er með vasapeninga verða út undan þegar eingreiðslan kemur til greiðslu fyrir jólin.



[14:13]
heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál sem er viðamikið. Ég tek undir það sem hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson sagði að það eru skilmálar um aðbúnað á heimasíðu okkar. Ég vil einnig taka undir að þörf er á að auka eftirlitið. Við gerum okkur alveg grein fyrir því í ráðuneytinu.

Ég vil aðeins koma inn á það sem hv. þm. Guðmundur Magnússon sagði um danska kerfið. Ég tel það mjög athyglisvert og mjög til skoðunar að taka upp slíkt kerfi. Eldri borgarar hafa lagt áherslu á það í kröfum sínum að hætt verði að taka fjárráðin af fólki eins og gert er og að fólk borgi leigu, eins og hv. þingmaður nefndi. Það er mjög til athugunar. Við höfum einmitt verið að skoða þetta mál sérstaklega og munum fara yfir þau með samtökum eldri borgara. En ég heyri á undirtektum hér að hljómgrunnur er fyrir breytingu og ég tel ástæðu til að skoða það í fullri alvöru. Við munum ræða þessi mál á næstunni í því samráði sem við höfum við eldri borgara, enda hafa þeir farið fram á slíka breytingu og talið hana verið tímabæra, en við þurfum náttúrlega að fara vel yfir hvernig framkvæmdin yrði á slíku. Ég tel að við þurfum að breyta til þarna og auka um leið fjölbreytni í búsetu þeirra sem þurfa á (Forseti hringir.) hjúkrunar- eða þjónusturými að halda.