132. löggjafarþing — 31. fundur
 28. nóvember 2005.
faggilding o.fl., 1. umræða.
stjfrv., 361. mál. — Þskj. 403.

[18:24]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um faggildingu o.fl. á þskj. 403 sem er 361. mál þingsins.

Í frumvarpinu er lagt til að sett verði sérstök lög um faggildingu, en nú eru ákvæði um faggildingu í lögum um vog, mál og faggildingu, nr. 100/1992.

Frá því að ákvæði um faggildingu voru fyrst sett í íslensk lög hefur orðið mikil þróun í löggjöf hérlendis og á sviði Evrópuréttar. Stjórnvöld jafnt sem viðskiptalífið nota faggildingu í sífellt meira mæli sem aðferð til að veita formlega viðurkenningu á hæfni aðila til að framkvæma verkefni sem lög, reglur eða innri gæðakerfi mæla fyrir um.

Að undanförnu hafa kröfur verið að aukast á alþjóðavettvangi, og ekki síst hjá Evrópusamtökum faggildingaraðila, um að tryggja verði að faggildingarstofur njóti óyggjandi trausts sem óháðir matsaðilar á hæfi þeirra sem sækja um faggildingu til hinna ýmsu verkefna. Á vettvangi faggildingarstofa í Evrópu hefur á undanförnum árum einnig verið mælst til þess að í hverju ríki sé aðeins einn aðili sem hafi með höndum slíka starfsemi en í nokkrum ríkjum í Evrópu hafa fleiri en einn aðili verið viðurkenndir til að starfa að faggildingu í hlutaðeigandi Evrópuríki.

Frá árinu 1992 hefur faggilding verið í höndum Löggildingarstofu og nú Neytendastofu. Neytendastofa notar faggildar stofur til að sinna tæknilegu eftirliti í sínu umboði á sviði rafmagnsöryggis, markaðseftirlits og lögmælifræði auk þess að reka kvörðunarþjónustu.

Af framangreindum ástæðum þykir því nauðsynlegt að faggilding verði stjórnunarlega og fjárhagslega skýrt aðgreind frá starfsemi Neytendastofu eða annarra eftirlitsstjórnvalda þar sem hætta kann að vera á hagsmunaárekstrum. Þannig sé tryggt að faggilding sé framkvæmd af óháðum þriðja aðila sem stundi ekki starfsemi sem hann faggildir aðra til að starfrækja.

Í frumvarpinu er lagt til að Einkaleyfastofu verði falið að annast faggildingu samkvæmt lögunum. Heppilegast er talið að starfsemin sé felld að annarri starfsemi á vegum undirstofnunar ráðuneytisins fremur en að mynduð sé sérstök stofnun eins til tveggja starfsmanna. Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið hafði umsjón með því hvernig þróun faggildingarsviðs verður, svo sem hvernig auðlindir og mannafli vegna starfseminnar verði tryggður og hvaða þjónustu Einkaleyfastofa er skuldbundin til að inna af hendi gagnvart ráðuneytinu, atvinnulífinu og almannahagsmunum. Í gegnum árlegan undirbúning fjárlaga hverju sinni og með hliðsjón af innheimtum tekjum faggildingarsviðs samkvæmt gjaldskrá verður einnig skilgreint í samvinnu við ráðuneytið hve stór hluti skuli í framtíðinni koma ár hvert úr ríkissjóði. Með þessu er tryggt faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði faggildingarsviðs Einkaleyfastofu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að faggilding verði að nokkru leyti sjálfbær en þó er þess ekki vænst að sértekjur geti staðið undir meira en sem nemur helmingi af rekstrarkostnaði. Gert er ráð fyrir að framlag úr ríkissjóði muni nema helmingi af rekstrarkostnaði miðað við núverandi umfang starfseminnar. Stefnt er að því að framlög ríkissjóðs minnki á næstu fimm til sex árum í samræmi við áætlanir um að fjöldi viðskiptavina muni aukast bæði vegna þróunar á eftirlitsstarfsemi hins opinbera svo og vegna þess að kröfur í viðskiptalífinu um faggildingu eru sífellt að aukast.

Hæstv. forseti. Frumvarpið skiptist í fjóra meginkafla. Í I. kafla er fjallað um gildissvið og skilgreiningar, í II. kafla um faggildingu, framkvæmd faggildingar o.fl., III. kafli fjallar um tilkynnta aðila og samræmismat og í IV. kafla eru ýmis ákvæði, um þagnarskyldu, viðurlög og gildistöku. Að svo stöddu tel ég ekki ástæðu til að rekja efni einstakra greina frumvarpsins. Ég vil þó taka fram að við samningu þess hafði ráðuneytið m.a. samráð við fjármálaráðuneytið, Einkaleyfastofu, Neytendastofu og sendi ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur drög að frumvarpinu í samræmi við ákvæði laga þar að lútandi. Í bréfi ráðgjafarnefndarinnar, dags. 29. september sl., segir að ekki séu gerðar athugasemdir við efni frumvarpsins.

Eftirlitsnefndin leggur í erindi sínu áherslu á að við mat á kostnaði við framkvæmd laganna verði tekið fullt tillit til aukins mikilvægis faggildingarinnar og aukinna verkefna á því sviði.

Þá vil ég sérstaklega taka fram að við gerð frumvarpsins var höfð góð samvinna við fulltrúa úr atvinnulífinu, frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



[18:29]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna nú á að færa þessa starfsemi frá nýrri stofnun, Neytendastofu, sem nýbúið er að setja á stofn og yfir í Einkaleyfastofuna. Maður veltir því fyrir sér hvers vegna þetta fór til Neytendastofu vegna þess að hún er ný stofnun. Hvað varð til þess að þessu er síðan kippt út jafnharðan? Þetta vekur upp spurningar um hver vinnubrögðin voru í kringum það þegar Neytendastofa var sett á stofn.



[18:30]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi starfsemi hefur verið hjá Löggildingarstofu. Síðan breytist Löggildingarstofa í Neytendastofu og kröfurnar aukast um sjálfstæði þannig að það sé hægt að treysta því að ekki séu hagsmunatengsl á milli faggildingarstarfseminnar og annarrar starfsemi sem fram fer í viðkomandi stofnun. Þetta er gert að kröfu Evrópusambandsins og hefur ekkert með það að gera að nýlega var Löggildingarstofu breytt í Neytendastofu. Það er alveg óháð þessu máli.



[18:31]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja út í starfsemi faggildingarsviðs sem er verið að setja á legg núna, og verður, ef frumvarpið verður að lögum, innan Einkaleyfastofu. Samkvæmt greinargerðinni mun þetta svið faggilda starfsemi af fjölbreyttu tagi, bifreiðaskoðun, lífræna ræktun og fiskeftirlit og einungis er um tvo starfsmenn að ræða sem eiga að löggilda alla þessa mismunandi starfsemi sem hefur síðan eftirlit með fjölmörgum aðilum í þjóðfélaginu.

Mig langaði að spyrja hæstv. ráðherra hvort einn til tveir starfsmenn dygðu í svo víðtæka starfsemi? Það væri mjög áhugavert að fá það inn í umræðuna hvort fram hefði farið mat á því. Fljótt á litið virðast þessum starfsmönnum falin viðamikil störf.



[18:32]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu hefur það verið metið og í rauninni er bara einn starfsmaður í dag. Við reiknum því með að starfsemin fari vaxandi á næstu árum. Í umsókn frá fjármálaráðuneytinu sést mjög nákvæmlega hvernig áætlað er að þetta muni þróast á næstu árum. Við gerum vissulega ráð fyrir að þarna verði aukin starfsemi. Ef þetta þróast á einhvern annan veg er alltaf tækifæri til að bregðast við því með fjárlögum. En við reiknum líka með að tekjurnar aukist eins og þarna kemur fram. Ég held því að þetta sé allt saman þokkalega ígrundað.



[18:33]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ekki hissa á því að hæstv. ráðherra hafi veigrað sér við að rekja frekar en hún gerði í framsögu sinni efni frumvarpsins. Stundum hafa komið inn á borð til okkar frumvörp sem eru gjörsamlega óskiljanleg. Þetta frumvarp er eitt af þeim sem ég held, með tilliti til þess sem ræða á hér á eftir, að íslensk málnefnd ætti að taka sérstaklega fyrir. Það hlýtur að vera skilyrði fyrir góðum lögum að þeir sem eftir þeim eiga að vinna og þeir sem lögin ná til, sem verða býsna margir aðilar miðað við það frumvarp sem hér er til umfjöllunar og þróunina eins og hún hefur orðið og má ætla að hún verði á næstu árum, skilji það. Æ fleiri aðilar þurfa að vinna eða a.m.k. sækja rétt sinn eftir þessu frumvarpi ef það verður að lögum.

Mig langar aðeins að grípa niður í frumvarpið, t.d. í 2. gr. þar sem talað er um skilgreiningar. Það hlýtur að vera tilgangurinn að skilgreina orðin til þess að auka skilning hv. þingmanna, hæstv. ráðherra og ég tala nú ekki um þeirra sem eiga að vinna eftir frumvarpinu, ef það verður að lögum. Þetta eru tiltölulega einföld orð, orð sem ég hefði haldið að væru til í íslensku máli og ekki þyrfti að flækja á nokkurn hátt. Í 2. gr. segir, með leyfi forseta, að prófun merki:

,,… ákvörðun eins eða fleiri eiginleika viðfangs samræmismats samkvæmt verklagsreglu.

Skoðun merkir athugun á hönnun vöru, vöru, ferli eða uppsetningu búnaðar og ákvörðun á samræmi þess við tilgreindar kröfur, eða almennar kröfur, og skal þá byggt á faglegum úrskurði.

Tilnefning merkir heimild stjórnvalds til samræmismatsaðila til að stunda tiltekna samræmismatsstarfsemi.

Tilnefndur aðili merkir aðila sem stjórnvald hefur heimilað að stunda tiltekna samræmismatsstarfsemi.

Tilkynntur aðili merkir aðila sem stjórnvöld hafa tilkynnt til Eftirlitsstofnunar EFTA, framkvæmdastjórnar ESB og annarra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins að uppfylli viðeigandi kröfur til þess að framkvæma samræmismat og stunda samræmismatsstarfsemi samkvæmt tiltekinni tæknilegri reglugerð.

Góðar starfsvenjur við rannsóknir merkir gæðakerfi sem varðar skipulagsferlið og skilyrðin fyrir áætlun, framkvæmd, eftirlit, skráningu, gagnageymslu og skýrslugjöf að því er varðar heilbrigðis- og umhverfisöryggisrannsóknir sem eru ekki klínískar.“

Faggilding í 4. gr.:

,,Faggildingarsvið veitir faggildingu fyrir skoðunarstofur, prófunarstofur, kvörðunarstofur og vottunarstofur og annast mat á tilnefndum aðilum, þ.e. hæfni þeirra og hæfi til að starfa samkvæmt þeim lögum og reglum sem gilda á því sviði sem starfsemi hins tilnefnda aðila tekur til. Faggildingarsvið annast einnig mat á góðum starfsvenjum við rannsóknir og önnur verkefni sem kveðið er á um í lögum þessum.“

Síðan kemur í 8. gr. gjaldskráin fyrir hina flóknu þjónustu sem á að fara að veita. Þar segir, með leyfi forseta:

,,1. Umsóknar- og skráningargjald. Umsóknar- og skráningargjald er gjald fyrir upplýsingar fyrir umsókn, móttöku, skráningu, yfirferð umsóknar og fylgiskjala og stutta álitsgerð um niðurstöður fyrstu yfirferðar, svo og undirbúningsheimsókn til umsækjanda þegar það á við.

2. Faggildingargjald. Faggildingargjald er gjald fyrir mat á tilnefndum aðilum sem í er fólgið val á matsmönnum, gerð verk- og tímaáætlunar, mat á gæðakerfi og tæknilegri starfsemi umsækjanda, skýrslugerð, ákvörðun um faggildingu eða niðurstöðu mats og stjórn faggildingar eða mats á tilnefndum aðila.

3. Eftirlitsgjald. Eftirlitsgjald er gjald fyrir umsýslu við eftirlit með faggildum eða tilnefndum aðila, val á matsmönnum, gerð verk- og tímaáætlunar, mat á gæðakerfi og tæknilegri starfsemi, skýrslugerð, ákvörðun eða álitsgerð um niðurstöður og stjórn eftirlitsins.“

Í fjórða lagi á að taka gjald fyrir mat á góðum starfsvenjum við rannsóknir.

Tilkynntur aðili í 9. gr.:

,,Faggildingarsvið annast mat á hæfni og hæfi þess sem vill öðlast réttindi til þess að framkvæma samræmismat sem skylt er að framkvæma á vöru, ferli eða þjónustu í samræmi við lög og reglur sem innleiða nýaðferðartilskipanir í íslenskan rétt og gilda um hlutaðeigandi vöru, þjónustu eða ferli.“

Virðulegi forseti. Það er algjörlega með ólíkindum að hægt sé að setja fram á Alþingi lagafrumvarp sem virðist vera nánast bein þýðing og nýyrðasmíð og gera mál sem er í sjálfu sér ekkert mjög flókið þannig úr garði að það verði okkur nánast óskiljanlegt.

Ég lagði töluverða vinnu í að lesa mig í gegnum frumvarpið og greinargerðina. Vinnan á þessu er á þann veg að ég tel að nefndin sem fær það til umfjöllunar þurfi í fyrsta lagi að koma því yfir á skiljanlegt íslenskt mál og gera það þannig úr garði að allir þeir aðilar sem málið snertir geti unnið eftir því og sótt rétt sinn eftir því. Það er ekki síður þörf á því að menn geti sótt rétt sinn eftir að slík tilskipun verður leidd í lög á Íslandi — sem ég reikna með að þingflokkar stjórnarliða hafi þegar fjallað um því það er dálítið langt síðan fyrstu ákvæðin um faggildingu voru sett í íslensk lög og töluverð þróun hefur orðið í löggjöf hérlendis á sviði Evrópuréttar síðan. Stjórnvöld jafnt sem viðskiptalífið hafa notað faggildinguna. Það er að færast í vöxt. Það er nauðsynlegt fyrir okkur, ekki síst með tilliti til þess þegar við sækjum fram með vöru okkar á markað erlendis, að þarna séu samræmdar reglur, vel skiljanlegar og sem menn geta auðveldlega leitað til. Sú er ekki raunin með þetta frumvarp, virðulegi forseti. Ég furða mig á því að þessu frumvarpi skuli vera hleypt í gegnum yfirlestur á Alþingi, lestur sem hlýtur að eiga sér stað á frumvörpum eins og þessum, inn í þingsal til umfjöllunar. Þetta virkar á mann eins og verið sé að gera einfalda hluti mjög flókna.

Ég er með spurningar til hæstv. ráðherra hvað varðar sjálfstæði faggildingarstofu og þá stefnu að það beri að tryggja sjálfstæði hennar. Faggildingarstofa á samt sem áður að vera á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort svo sé t.d. annars staðar á Norðurlöndunum. Ég veit að það er aðeins annað fyrirkomulag í Danmörku en spyr hvernig fyrirkomulagið er annars staðar á Norðurlöndunum. Ég vil líka spyrja um faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði, sem á að vera tryggt fyrir faggildingarstofu, þegar u.þ.b. helmingur af fjárveitingum til hennar á að koma frá íslenska ríkinu þar til öll gjaldtakan sem ég fór yfir áðan er farin að skila sér og starfsemin að standa undir sér. Þangað til er gert ráð fyrir því, verði frumvarpið óbreytt að lögum, að 25,6 millj. kr. verði veittar til faggildingarstofu á árunum 2006–2010. Eftir þann tíma er áætlað að þessi litla stofnun, sem er með einn mann í starfi að ég held núna, og verður tveggja manna stofnun, eigi að standa undir sér. Það kemur m.a. fram einhvers staðar í greinargerð með þessu sérkennilega frumvarpi að nauðsynlegt sé að hafa tvo starfsmenn en frá 1992 hafi einn maður verið að störfum, haustið 1998 hafi annar starfsmaður verið ráðinn en þá hafi sá sem fyrir var horfið frá störfum. Þá var bara einn eftir og kemur fram í greinargerðinni að nauðsynlegt sé að ráða annan (Gripið fram í.) þar sem ekki væri talið nógu gott að hafa einn starfsmann. Til að tryggja stöðugleika í starfseminni og trúverðugleika á faggildingarsviði þurfi að starfa þar a.m.k. tveir starfsmenn. Þá er gert ráð fyrir að helmingurinn af rekstrarkostnaðinum sem reiknað er með — núna komi úr ríkissjóði um 4,1 millj. kr., ekki kemur fram hverjar sértekjur stofnunarinnar eru í dag en reiknað er með því að þær aukist. Sérstaklega held ég að það verði fróðlegt að sjá hverju gjald fyrir mat á góðum starfsvenjum við rannsóknir eigi eftir að skila þessari stofnun. Ég held að það hljóti að verða mjög fróðlegt fyrir okkur að fylgjast með því hvernig þeir tveir einstaklingar sem starfa eiga á faggildingarstofu taka að sér að skoða og meta sérstaklega góðar starfsvenjur við rannsóknir og taka fyrir það gjald.

Þetta er afar sérkennilegt frumvarp svo ekki sé meira sagt. Fyrst og fremst vegna orðalagsins og nýyrðasmíðar sem einhver hefur tekið að sér við samningu þess. Ég beini því til nefndarinnar að leggja fyrst vinnu í að breyta einstökum greinum, setja frumvarpið yfir á íslenskt mál áður en farið verður að skoða verksvið stofnunarinnar. Eins og þetta er, hér eru setningar upp á nálægt hálfa síðu, er þetta illskiljanlegt og útilokað fyrir þá sem eiga að starfa eftir frumvarpinu í framtíðinni að gera það.



[18:45]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður hefur skemmt sér yfir þessum texta, en við þurfum nú að hafa í huga að þetta er nýyrðasmíð, eins og kom reyndar fram hjá henni, og um er að ræða þýðingar frá staðlaráði og þýðingardeild utanríkisráðuneytisins. Þegar um er að ræða nýyrði í íslensku máli getur vel verið að þetta komi spánskt fyrir sjónir við fyrstu sýn en engu að síður held ég að vandað hafi verið til verksins. Þarna er um hugtök að ræða sem eru kannski fyrst og fremst þekkt á enskri tungu og þeir sem starfa við þetta eflaust almennt séð færir á enska tungu og ef þeir skilja það betur á þann veg er ekkert nema gott um það að segja. En ég er ekkert að tala gegn því að það verði skoðað í hv. nefnd hvort þarna er hægt að bæta úr.

Hvað varðar hin Norðurlöndin þá eru hlutirnir, eins og hv. þingmaður sagði, með öðrum hætti í Danmörku. Þar er um sjálfseignarstofnun að ræða. Í Noregi hafa stjórnvöld skilið þessa starfsemi frá eins og við erum að gera hér. Í Svíþjóð eru hlutirnir ekki eins langt komnir hvað það varðar en eflaust þurfa þeir að ganga sama veg því að um er að ræða kröfur um algjört sjálfstæði hvað varðar þessa faggildingu.

Hins vegar, eins og ég sagði hér áðan, verður að sjálfsögðu að fylgjast með þróuninni og ef málin þróast í einhverja allt aðra átt en lagt er upp með í þessu frumvarpi hlýtur að gefast tækifæri til að bregðast við því.



[18:47]
Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki dreg ég í efa að þeir sem eiga að vinna eftir þessu frumvarpi, verði það að lögum, séu vel mæltir á enska tungu og geti skoðað tilskipunina á ensku og farið yfir hana. Engu að síður ber okkur skylda til þess að setja þetta inn í íslenskan lagatexta og hann verður þá að vera þannig að hann sé aðgengilegur og skiljanlegur. Hingað til hefur ekki þurft að tiltaka sérstaklega hvað er tilnefning, tilnefndur aðili eða tilkynntur aðili, það hefur legið fyrir. En hér koma algjörlega nýjar skilgreiningar á orðum sem við höfum haft í íslensku máli og þekkjum ágætlega.

Mér finnst að við eigum að gera þær kröfur hér á hv. Alþingi að sá texti sem frá okkur fer sé skiljanlegur, að þeir sem eiga að vinna eftir þeim lagatexta þegar hann hefur verið samþykktur geti það, að hann sé öllum aðgengilegur og skiljanlegur. Það er þessi texti ekki.

Ég fagna því hins vegar að það verður skoðað hvað hin Norðurlöndin eru að gera á þessu sviði, ég hef aðeins verið að kíkja á það sjálf. Ég held að sú leið sem Danir fóru sé mjög skynsamleg en kannski rétt að bíða með að stíga þau skref sem þeir hafa stigið nú þegar. En ég sé ekki að faglegt og fjárhagslegt sjálfstæði faggildingarsviðs Einkaleyfastofu sé tryggt með ríkisframlagi. Hingað til hafa framlög ríkisins á fjárlögum ekki verið nein trygging fyrir faglegu og fjárhagslegu sjálfstæði. Það hefur ekki verið þannig.



[18:49]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það hljóti nú að vera augljóst að við stofnum ekki til sjálfseignarstofnunar fyrir einn eða tvo menn. Með því að gera þetta með þessum hætti, að fela Einkaleyfastofu að annast faggildingu, erum við að hugsa um ákveðið hagræði sem af því hlýst frekar en að setja á fót nýja stofnun, jafnvel sjálfseignarstofnun eins og hv. þingmaður stingur upp á, þar sem starfa tveir einstaklingar og jafnvel ekki nema einn. Það náttúrlega gengur ekki.

Ég held að sjálfstæði sé tryggt með þessum hætti og þetta hefur verið borið undir aðila sem fjalla um þessa hluti hjá Evrópusambandinu og ég skil það þannig að þetta sé samþykkt. En ef hv. þingmaður hefur betri tillögur má alltaf skoða slíkt.



[18:50]
Margrét Frímannsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skoðað að gera þjónustusamning við sjálfstæða aðila um að veita þessa þjónustu. Ekki kemur fram í frumvarpinu eða greinargerðinni að það hafi sérstaklega verið skoðað. Vissulega er um tvo einstaklinga að ræða sem eiga að starfa að þessu verkefni. En hefði þá verið hægt að leysa það með því að gera þjónustusamning við einkaaðila?



[18:51]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég get vel tekið undir að þetta frumvarp sé mikil hrákasmíð, þessi orð og þessar skilgreiningar. Því miður er það ekki einstakt að slík frumvörp komi frá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Þess er skemmst að minnast að ekki er langt síðan mælt var fyrir öðru frumvarpi, sem í raun er búið að mæla fyrir tvisvar, þar sem sömu orðalepparnir og skringilegheitin komu inn aftur og aftur. Það er kominn tími til þess, hæstv. ráðherra, að þessu verði breytt.

Við vorum að ræða hér um vatnalögin og þá var mannvirki skilgreint með þeim hætti að það væru einhverjar manngerðar tilfæringar, það voru mannvirki í því frumvarpi. Í þessu frumvarpi er prófun ákvörðun eins eða fleiri eiginleika viðfangs samræmismats samkvæmt verklagsreglu. Þetta er algjörlega óskiljanlegt og það er löngu orðið tímabært að taka á þessu.

Sú hrákasmíð sem er hér á blaði, og nefnist frumvarp til laga, leiðir hugann að öðru: Hvers vegna er hlutunum komið fyrir á þennan hátt í ráðuneytinu? Við fengum þau svör frá ráðherranum að löggildingarsviðið, sem á að fara inn í Einkaleyfastofuna nú, hafi lent inni á Neytendastofu og að allt hafi þetta verið gert á hraðferð. Það var undir því yfirskyni að það ætti að bæta eitthvað aðstöðu almennings. Samkeppniseftirlit var sett á fót og þessi Neytendastofa. Það virtist nú ekki takast betur en svo að við stöndum hér í þeim sporum að taka út úr því sem var hent inn á Neytendastofu fyrir nokkrum mánuðum.

Það leiðir hugann að því hve mikið mönnum lá á að brjóta Samkeppnisstofnun upp og helst að losna við forstjórann sem þar starfaði. Þá voru hin og þessi verkefni tínd út og stofnuninni skipt upp, í Neytendastofu og Samkeppniseftirlit. Síðan þarf að laga allt núna. Og lagfæringin er ekki betri en svo að við höfum hér frumvarp sem er mjög skringilegt. Þó að ég sé vanur að lesa í gegnum texta sem fjalla um eftirlit og opinbera stjórnsýslu á ég erfitt með að skilja margt af því sem þar stendur. Ég held að það verði mjög þungt í vöfum fyrir þá sem þurfa að starfa eftir þessum lögum að skilja hvað t.d. prófun er. Prófun merkir ákvörðun eins eða fleiri eiginleika viðfangs samræmismats samkvæmt verklagsreglu. Ég held að það verði erfitt að skilja þetta fyrir þann sem á að fara eftir þessum lögum og vinna eftir þeim.

Ég legg til að hæstv. ráðherra dragi þetta frumvarp einfaldlega til baka og komi með nýtt. Það er greinilegt að í öllum flýtinum sem fylgdi því þegar verið var að brjóta Samkeppnisstofnun upp lenti eitt og annað inni hjá Neytendastofu sem ekki á þar heima og búið er að setja yfirfrakka á Samkeppniseftirlitið, sérstök stjórn sem horfir yfir öxlina á forstjóranum. Síðan þarf að lagfæra þetta.

Í andsvörum nefndi hæstv. ráðherra að þessi einn eða tveir starfsmenn ættu að fylgjast með fjöldanum öllum af eftirlitsaðilum sem eiga að hafa eftirlit með mismunandi starfsemi í þjóðfélaginu. Til dæmis eiga þeir að votta að þeir sem starfa hjá aðalskoðun bifreiða geri það samkvæmt öruggri verklagsreglu. Þeir eiga einnig að faggilda umhverfisvottun. Það er mjög vítt starfssvið sem þessi einn til tveir eiga að fylgja eftir. Ég tel þetta mjög vafasamt vegna þess að það er ákveðin tilhneiging núna í lögum að færa meira og meira af eftirliti í einhverja faggildingu.

Í síðustu viku fjölluðum við um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Þá kom inn einhver breyting og ég fékk aldrei fullnægjandi skýringu á því hjá hæstv. umhverfisráðherra hvers vegna verið væri að setja hana inn í lögin. Þá kom það upp úr dúrnum að það væri til að samræma eitthvað í sambandi við róluvelli, það var helsta skýringin. En ég tel að það sé mögulega önnur skýring á þessu. Það er verið að færa ákveðið eftirlit í hendurnar á faggiltum aðilum og það er í sjálfu sér allt í lagi. Það kemur fram í greinargerðinni að faggilding sé formleg viðurkenning til þess að geta sinnt trúnaðarstörfum á sviði opinbers eftirlits. Í sjálfu sér er það allt í lagi ef menn ganga að því vísu hvað það þýðir.

Þýðir það t.d. að um leið og eitthvert eftirlit er fært frá hinu opinbera og inn í einhverja faggilta stofu, eftirlitsstofu, að almenningur eigi þá ekki rétt á að sjá ákveðin gögn. Þetta skiptir verulega miklu máli, sérstaklega ef litið er til ýmissa mála á sviði réttar um neytendur. Eiga neytendur rétt á því að fá að sjá gögn sem varða öryggi matvæla? Þessari spurningu þurfum við að velta fyrir okkur.

Ég tel að þegar eftirlitið er fært í meira mæli inn í þessar skoðunarstofur, sem hafa þá vottun, sé verið að hefta aðgang almennings að ákveðnum gögnum. Það eiga menn að ræða með opnari hætti en nú er gert. Í því sambandi má spyrja hvort almenningur eigi rétt á að skoða þau gögn, eftirlitsskýrslur, sem skoðunarstofur skoða hjá fiskvinnslum? Ég efast um að svo sé. Hins vegar á almenningur ríkan rétt á að fá gögn sem snúa t.d. að heilbrigðiseftirliti. Sá er munurinn. Þegar verið er að færa eftirlitið inn í löggiltar skoðunarstofur verður að vera ljóst hvort verið er að hefta aðgang almennings að viðkomandi gögnum.

Menn verða líka að hafa í huga að þegar þetta eftirlit er komið í hendurnar á einkareknum skoðunarstofum þá þurfa þvingunarúrræði eftir sem áður að vera í höndum opinberra aðila. Menn verða að hugsa betur fyrir því hvernig ná á böndum utan um það.

En eins og áður segir hvað varðar allar þær skilgreiningar sem koma fram í 2. gr., þá hlýtur að vera hægt að gera þetta betur, frú forseti. Það er alveg með ólíkindum að bjóða upp á þetta.