132. löggjafarþing — 32. fundur
 29. nóvember 2005.
staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar, 1. umræða.
stjfrv., 329. mál (kjördæmi kirkjuþings o.fl.). — Þskj. 361.

[16:04]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Frumvarp það sem ég mæli fyrir er flutt á grundvelli samþykktar kirkjuþings í október sl. sem beindi tilmælum til mín að flytja þetta frumvarp til laga um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.

Þegar frumvarp um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar var til umræðu á Alþingi sem varð síðar að lögum nr. 78/1997, þjóðkirkjulögunum, var lagasetningunni hagað með þeim hætti að um væri að ræða rammalöggjöf sem setti þjóðkirkjunni ytri mörk sem hún gæti síðan unnið út frá sjálf og skipað sínum innri málum og sett innri reglur, m.a. með setningu starfsreglna frá kirkjuþingi. Ég tel að löggjöfin frá 1997 hafi reynst vel en eins og jafnan er má alltaf gera betur og það hefur verið gert af hálfu kirkjunnar. Kirkjuþing kaus árið 2004 nefnd sem var falið að fara yfir prófastsdæmaskipan landsins en biskupafundur hafði þá lagt til víðtækar breytingar á henni. Nefndinni var einnig falið að skoða núgildandi fyrirkomulag kosninga til kirkjuþings. Nefndin kynnti tillögurnar almennri kynningu um allt land og aflaði umsagnar héraðsfunda, og skilaði síðan biskupafundur og kirkjuráð áliti sínu. Nefndin taldi að 21. gr. laganna um kjördæmaskipan til kirkjuþings væri of þröng. Þar eru kjördæmin njörvuð niður í níu tiltekin kjördæmi og taldi nefndin að þetta ákvæði stæði í vegi fyrir að hægt væri að gera nauðsynlegar breytingar á skipan prófastsdæma.

Með frumvarpi því sem ég flyt nú er einkum ætlað að losa um þetta ákvæði þannig að kjördæmaskipan og skipan prófastsdæma geti verið með öðru móti. Ef frumvarpið verður að lögum verður kosið til kirkjuþings samkvæmt hinni nýju skipan á næsta ári en kjörtímabil þingsins er fjögur ár.

Kirkjuþing og yfirstjórn kirkjunnar telja mjög brýnt að hún geti gert breytingar á starfsreglum um kirkjuþing og kjör þingsins. Þá er það einnig skoðun þjóðkirkjunnar að hún fái sjálf að ráða fjölda kirkjuþingsfulltrúa, m.a. í því skyni að geta jafnað vægi kjördæma. Áfram gildir þó að leikmenn skuli vera fleiri en vígðir. Í dag eru 12 leikmenn á kirkjuþingi en prestar eru níu. Í stað orðsins „prestar“ er lagt til að komi orðið vígðir en það hugtak nær einnig yfir aðra vígða menn er starfa innan þjóðkirkjunnar svo sem djákna. Þá telur þjóðkirkjan ekki rétt að hafa niðurnjörvað í lagatexta hvernig umdæmaskipting vígslubiskupsembættanna, stiftanna, skuli vera og vill geta breytt þeim umdæmamörkum ef hún sér ástæðu til.

Með hliðsjón af tillögum kirkjuþings flyt ég þetta frumvarp og mælist til að Alþingi taki það til umræðu og síðan meðferðar í nefnd.

Ég nefndi áðan að kosið væri til kirkjuþings á næsta ári. Ef frumvarpið nær ekki fram að ganga á því þingi sem nú situr frestast framkvæmdin um fjögur ár því þá yrði kjörið til kirkjuþings samkvæmt þeirri skipan sem gildir að óbreyttum lögum. En verði frumvarpið að lögum má ætla að aukakirkjuþing verði kallað saman svo unnt verði að ganga frá nýjum starfsreglum um kirkjuþingskjör.

Ég segi hið sama um þetta frumvarp og það sem ég flutti áður að af hálfu ráðuneytisins hefur ekki verið leitað umsagnar um það eða skoðun annarra en þess sem lagði það fyrir ráðuneytið að flytja þetta mál á Alþingi. Ég legg því til að hv. allsherjarnefnd skoði málið í því ljósi og legg til að frumvarpinu verði vísað til hennar að lokinni umræðu.



[16:09]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að vera stuttorður um þetta litla frumvarp hæstv. dómsmálaráðherra. Eins og hæstv. dómsmálaráðherra sagði er m.a. lagt til að kirkjuþing hafi vald til að skipa kjördæmum með sama hætti og sóknum, prestaköllum, prófastsdæmum og einnig að ákveða fjölda kirkjuþingsmanna. Ég styð heils hugar að þjóðkirkjan sé sem mest sjálfstæð í störfum sínum. Mér finnst alveg sjálfsagt að verða við þeim óskum sem hér er verið að gera, t.d. að kirkjuþing sjálft geti ákvarðað skipan umdæma vígslubiskupa. Sá þingmaður sem hér stendur vill meira að segja auka sjálfstæði þjóðkirkjunnar það mikið að hann vill sjá fullan aðskilnað milli ríkis og kirkju. Það er kannski umræða sem við tökum síðar. En við þurfum einhvern tímann að taka þá umræðu.

Ég sé að í 2. gr. frumvarpsins er vikið að því að á kirkjuþingi skuli leikmenn vera fleiri en vígðir. Í athugasemdum við frumvarpið er talað um að rétt þyki að ganga ekki lengra en svo að áskilja áfram í lögum að leikmenn verði í meiri hluta á kirkjuþingi eins og nú er. Mig langar þá að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Af hverju er ekki gengið lengra í ljósi þeirrar hugmyndafræði þjóðkirkjulaga sem komið er inn á í frumvarpinu sjálfu, að kirkjan hafi sem mest sjálfræði um eigin mál? Væri þetta ekki alveg kjörið fyrir kirkjuna sjálfa, kirkjuþing, að taka ákvörðun um hvort leikmenn skuli vera fleiri vígðir eða ekki? En það getur vel verið að kirkjan vilji hafa þetta með þessum hætti. Því er ástæða til að spyrja hæstv. dómsmálaráðherra: Af hverju er ekki gengið lengra hvað þetta varðar?

Við sjáum einnig í 3. gr. að ætlast er til að frumvarpið verði að lögum 1. janúar 2006. Það er augljóslega ætlast af okkur í allsherjarnefnd að hafa hraðar hendur í ljósi þess að aðeins fimm þingfundadagar eru eftir. En á meðan þetta mál þarf ekki að fara til umsagnar ætti það af okkar hálfu alveg að vera hægt.



[16:11]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það frumvarp sem hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra hefur mælt fyrir um breyting á lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar er svo sem ekki mikið að vexti. En ég vil þó árétta og halda til haga sjónarmiðum varðandi skipan mála hjá þjóðkirkjunni. Ég er þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að þjóðkirkjan, sem er ríkiskirkja, haldi um og sé þáttur í grunnmenningarstarfi þjóðarinnar og hún hefur verið það um aldir. Skipan prestakalla, prófastsdæma og biskupsumdæma hefur verið hluti af íslenskri þjóðskipan um aldir og þess vegna er alveg ástæða til að gera ekki meiri breytingar á þeirri skipan en nauðsynlegt er til að starfsemi þjóðkirkjunnar geti aðlagast og fylgt nýjum og breyttum tímum. Og að öðru leyti að hafa í huga hina miklu og sterku menningarskyldur sem þjóðkirkjan hefur í íslensku samfélagi.

1. gr. lýtur að 18. gr. laga um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar. Gert er ráð fyrir að hún verði felld burt eins og hún er nú. Hún er núna í þremur undirliðum. 18. gr. í núgildandi lögum sem gert er ráð fyrir að falli brott, hljóðar svo, hæstv. forseti:

„Umdæmi vígslubiskups í Skálholti nær yfir Múla-, Austfjarða-, Skaftafells-, Rangárvalla-, Árness-, Kjalarness-, Reykjavíkur-, Borgarfjarðar-, Snæfellsness- og Dala-, Barðastrandar- og Ísafjarðarprófastsdæmi.

Umdæmi vígslubiskups á Hólum nær yfir Húnavatns-, Skagafjarðar-, Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi.

Kirkjuþing getur ákveðið aðra skipan vígslubiskupsumdæma. Öðlast hin nýja skipan þá fyrst gildi er tvö kirkjuþing hafa samþykkt slíka tillögu óbreytta.“

Í upphafi greinarinnar er kveðið á um hin fornu skipan biskupsstólanna á sínum tíma, Hólabiskupsdæmis og Skálholtsbiskupsdæmis. En síðan er ákvæði um að kirkjuþing geti ákveðið aðra skipan eins og reyndar raunin er orðin á að t.d. Hólabiskupsdæmi tekur nú yfir stærra svæði, tekur yfir hluta af Múlaprófastsdæmi og líklega Norður-Múlasýslu, eða gamla Austurland. Kirkjuþing hefur nú þegar heimild til að breyta þessu. Ég sé því ekki að kveða þurfi neitt nánar á um það í umræddri grein. Mér finnst 1. gr. í hinu nýja frumvarpi óþörf, þ.e. að fella eigi alla þessa þætti niður, en hún hljóðar svo: „Kirkjuþing ákveður skipan umdæma vígslubiskupa.“ Mér finnst 1. gr. óþörf. Allar þessar heimildir eru í núverandi grein til að kirkjuþing geti hnikað þar til en haldið til haga hinni fornu skipan biskupsdæma sem mér finnst alveg vera réttmætt. Þess vegna finnst mér þessi 1. gr. bara algerlega óþörf og snertir ekkert sjálfstæði kirkjunnar á nokkurn hátt miðað við þau lög sem núna eru fyrir hendi.

Þá er það 2. gr. þar sem gert er ráð fyrir að fella niður þrjár undirgreinar í 21. gr., þ.e. um að skipa landinu í kjördæmi til að kjósa til kirkjuþings. Það má í sjálfu sér segja að þau atriði megi skoða á hverjum tíma en ég vil þó vara við einu í þessari umræðu og það er sú tilhneiging að fækka hratt sóknarprestum í dreifbýli. Sú heimild sem hér er verið að taka inn er í rauninni að létta undir það ferli að fækka sóknarprestum í dreifbýli. Sóknarprestar eru mjög mikilvægir í allri samfélagsþjónustu í hinum dreifðu byggðum. Ekki er nú hin almenna félagsþjónusta of mikil þar og sóknarprestar gegna þar mjög margþættu og mikilvægu hlutverki ekki hvað síst en einnig í þéttbýlinu. En ég vil draga sérstaklega fram mikilvægi þeirra einmitt í hinum stóru og dreifðu byggðum. Þar gegna þeir afar mikilvægu samfélagshlutverki, menningarhutverki, fyrir utan trúarhlutverk sitt og að rækta kristindóminn, en ég vil alveg eins og ekkert síður draga hin verkefnin fram.

Verum minnug þess t.d. þegar sjávarþorpið Bíldudalur á Vestfjörðum stóð frammi fyrir þrengingum í atvinnulífinu, sem það reyndar stendur enn frammi fyrir. Þar voru lokanir fyrirtækja og uppsagnir á fólki í stórum stíl og byggðarlagið átti í miklum erfiðleikum. Samtímis var verið að leggja niður prestakallið þar. Nánast allir íbúar sendu áskorun til kirkjuyfirvalda um að fresta því og gera það ekki þá vegna þess að þá var einmitt hvað mest þörf á að sóknarprestur væri til staðar og veitti þann stuðning sem hann ætti í samfélagslegu tilliti við byggðarlagið. Því miður var það að engu haft.

Ég vil láta það koma fram að hlutverk presta, hlutverk þjóðkirkjunnar hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli, er mjög mikilvægt hvað varðar samfélagslega þætti og menningarlega arfleifð sem við bæði erum að varðveita og líka að gera sýnilega, halda fram, rækta o.s.frv. Og þó að færa megi rök fyrir því að vægi starfsemi þjóðkirkjunnar eins og annarra eigi að færast allt inn þar sem þéttbýlið er mest og fjöldinn eigi að ráða þar ferð, þá vil ég líka draga fram þetta vægi sem ég nefndi, mikilvægi þjóðkirkjunnar og prestanna úti um hinar dreifðu byggðir í samfélagslegu og menningarlegu tilliti. Ég vil að farið sé varlega í að veikja stöðu dreifbýlisins og prestanna í dreifbýlinu með því að ýta undir möguleika eða létta undir það ferli að fækka þeim. Ég tel að skoða eigi þessar breytingar með varúð. Þjóðkirkjan er ein af elstu stofnunum þjóðfélags okkar og fara á varlega í að breyta skipan hennar.



[16:20]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég er alveg sammála síðasta ræðumanni um að fara eigi varlega þegar verið er að skipa málum þjóðkirkjunnar. Ég tel að í þessu frumvarpi felist ekkert um að sóknarprestum eigi eftir að fækka, það leiði ekki af neinu því sem hér er verið að ákveða. Hér er verið að ákveða að taka út þá skiptingu á kjördæmum kirkjuþings sem miðuð er við prófastsdæmi. Ekki er neitt fjallað um sóknarpresta eða fjölda þeirra í þessu frumvarpi. Ég hef heldur ekki orðið var við það hjá kirkjunni að hún gangi þannig fram til verks að hún átti sig ekki á skyldum sínum við hinar dreifðu byggðir og nauðsyn þess að halda þar uppi þjónustu.

Mér finnst hins vegar meginsjónarmiðið í þessu frumvarpi vera það sem kom fram í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar að annaðhvort felum við kirkjunni að annast sín mál eða við felum henni það ekki. Hvers vegna skyldum við hér hafa meira vit á því eftir að reynsla hefur fengist á framkvæmd þessara laga síðan 1997 hvort málum skuli skipað eins og þau eru nú í 21. gr. varðandi kirkjuþingið eða á þann veg sem kirkjuþingið sjálft kýs og ætlar að sé betra fyrir starfsemina sem þar fer fram?

Síðan eru tengsl á milli 18. gr., sem hv. þm. Jón Bjarnason vék að, og 21. gr. sem verið er að breyta í þessum lögum, eins og segir í athugasemd um 1. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Lagt er til að ákvæði 18. gr. laganna verði einfaldað frá því sem nú er þó efnisbreyting sé lítil. Er það nauðsynlegt vegna samhengis við önnur ákvæði frumvarps þessa. Samkvæmt því verði afnumin upptalning prófastsdæma. Kirkjuþing ákveði skipan vígslubiskupsumdæma eins og verið hefur.“

Það er þetta sem verið er að gera með þessu frumvarpi. Ekki er verið að hrófla neitt við grundvallarstarfsemi þjóðkirkjunnar um landið allt heldur er verið að fjalla um það í frumvarpinu hvernig menn kjósa fulltrúa á kirkjuþing. Ef hv. nefnd getur lokið yfirferð sinni á frumvarpinu á næstu dögum þá er það af hinu góða miðað við gildistökuákvæðið en það er að sjálfsögðu ekki neitt meginatriði í þessu hvort það er 1. janúar eða einhvern tíma síðar á árinu 2006. Aðalatriðið varðandi þær tímasetningar er spurningin um hvort unnt verði að kjósa til næsta kirkjuþings samkvæmt hinum nýju reglum eða ekki. Ég mundi því æskja þess að hv. nefnd hraðaði afgreiðslu málsins með það í huga en ekki endilega með dagsetninguna 1. janúar 2006.



[16:23]
Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þjóðkirkjan er ríkiskirkja, a.m.k. enn, og ég sé enga sérstaka ástæðu til að flýta fyrir þeim breytingum að hún verði það ekki áfram. Þar af leiðandi er mjög eðlilegt að þingmenn hafi skoðun á því hvernig málum hennar er skipað þó að sjálfsögðu sé eðlilegt að hún hafi stærstan rétt á að gera tillögur þar um.

Ég vil bara ítreka það sem ég sagði í ræðu minni að samkvæmt 18. gr. hefur kirkjuþing nú þegar heimild til að ákveða skipan vígslubiskupsembætta sem var breyting frá hinni gömlu skipan Hóla- og Skálholtsbiskupsdæma þannig að í sjálfu sér er ekkert sem rekur á eftir þessu. Þær breytingar sem verið er að leggja til í 21. gr. eru hins vegar vægisbreytingar, þ.e. að kirkjuþingsfulltrúar verði kosnir með öðrum hætti inn. Sá háttur er að breyta kjördæmaskipuninni þannig að vafalaust verði farið meira eftir fólksfjölda varðandi skipan kirkjuþings, verið er að breyta væginu þar. Ég hef vissan skilning á því sjónarmiði en vil líka draga fram hin sjónarmiðin sem vilja oft að mínu viti gleymast eða ekki fá þær áherslur sem eðlilegt er, hvort sem er í þessu máli eða öðru, sem er dreifbýlið með dreifðri byggð og líka með takmarkaðri annarri opinberri þjónustu, félagsþjónustu, menningarþjónustu. Þá horfir maður til þeirra starfa sem ríkið er þegar ábyrgt fyrir úti í hinum dreifðu byggðum og (Forseti hringir.) ber að halda í sem kostur er (Forseti hringir.) og ætti þess vegna að vera á varðbergi gagnvart þeirri vægisbreytingu sem hér er verið að leggja til, herra forseti.