132. löggjafarþing — 37. fundur
 7. desember 2005.
réttarstaða sjómanna.
fsp. SigurjÞ, 282. mál. — Þskj. 297.

[16:50]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina eftirfarandi spurningu til hæstv. félagsmálaráðherra. Spurningin er mjög mikilvæg og varðar réttarstöðu sjómanna: Hefur ráðherra kannað réttarstöðu sjómanna á smábátum sem eru án kjarasamninga?

Í umræðunni hefur ekki farið mjög hátt að þeir eru án allra kjarasamninga hvað varðar launakjör, veikindarétt og svo má lengi telja. Samningsleysi sjómanna hefur ekki fengið mikla umfjöllun undanfarið en fyrir fimm árum var talsvert fjallað um það í Morgunblaðinu. Þar sagði þá að kjarasamningar væru í burðarliðnum. Sú fæðing hefur gengið mjög örðuglega, hríðir hafa staðið yfir í fimm ár. Ég er á því að hæstv. félagsmálaráðherra eigi að bregða sér í gervi fæðingarlæknis og reyna að koma þessu barni í heiminn vegna þess að hér er um mjög mikilvægt mál að ræða.

Mikið hefur verið fjallað um þau brot sem framin hafa verið á erlendum verkamönnum hvað varðar starfsmannaleigur og við erum að vinna bót á því, m.a. með nýju frumvarpi. Einnig var rætt hér um réttleysi blaðburðarbarna og mér skilst að a.m.k. sum fyrirtæki hafi tekið sig verulega á hvað það varðar. Ég er á því að það sé löngu orðið tímabært að taka á þessu máli.

Menn hafa einnig velt vöngum yfir því að erfiðlega gangi að manna fiskiskipaflotann. Ég er á því að hér sé eina skýringuna að finna, mennirnir hafa einfaldlega engan kjarasamning. Yfirleitt ganga samskiptin ágætlega á milli útgerðarmanna þessara smábáta og sjómanna en það er ekki einhlítt. Við í Frjálslynda flokknum höfum fengið neyðarkall frá sjómönnum á Skagaströnd. Þeir sögðu farir sínar ekki sléttar í viðskiptum við mjög ósanngjarnan útgerðarmann, að þeirra sögn, sem braut á þeim, hafði af þeim laun og rak þá fyrirvaralaust ef þeir reyndu að krefjast réttar síns.

Víða má sjá mikinn vilja meðal útgerðarmanna til að taka á þessu máli, bæði skín það stundum í gegn í viðtölum við formann Landssambands íslenskra smábátaeigenda og nýlega samþykkti Smábátafélagið Elding á Ísafirði að fara í samninga við sjómenn. Hér er um mjög brýnt mál að ræða sem hefur ekki farið mjög hátt en full þörf er á að ræða. Þetta mál varðar mjög marga, nokkur hundruð manns, og þetta kvótakerfi sem þeir vinna í hefur leitt til þess að sumir þeirra hafa lent í því að vera jafnvel neyddir til að taka þátt í leigu aflaheimilda. Það er orðið nauðsynlegt að setja ramma utan um þessa starfsemi.

Það verður fróðlegt að fá að heyra svör hæstv. ráðherra hvað þetta varðar.



[16:53]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson hefur beint til mín fyrirspurn um það hvort félagsmálaráðherra hafi kannað réttarstöðu sjómanna á smábátum sem eru án kjarasamninga. Út af fyrir sig gæti ég svarað þessu með líkum hætti og einn fyrrverandi hæstv. ráðherra gerði hér í þingsalnum einhvern tíma, svaraði spurningunni einfaldlega með því að segja nei. Ég ætla þó ekki að gera það. Hins vegar er svarið: Nei, engin könnun hefur farið fram á vegum félagsmálaráðuneytisins á réttarstöðu sjómanna á smábátum. Ég vil bæta eftirfarandi við það einfalda svar: Nokkur áhöld eru um hvort það er í verkahring félagsmálaráðherra að svara fyrirspurn sem snertir réttarstöðu sjómanna. Í áranna rás hefur sú venja skapast að samtök útgerðarmanna og sjómanna hafa kosið að eiga orðastað við sjávarútvegsráðherra þegar þau á annað borð hafa viljað ræða hagsmuna- og réttindamál sín við stjórnvöld. Aðbúnaður og öryggi um borð í skipum heyrir til verksviðs samgönguráðherra.

Það er jafnljóst að það er löng og viðtekin venja hér á landi að samtök aðila vinnumarkaðarins semji um kaup og kjör launafólks sem og önnur vinnuskilyrði í frjálsum samningaviðræðum. Oftar en ekki hefur það komið fram hjá samtökum atvinnurekenda og launafólks að þau afþakka afskipti stjórnvalda og löggjafarvalds og vilja skipa málum sín í milli með kjarasamningum sem gerðir eru á milli jafnsettra samningsaðila í frjálsum viðræðum. Þar af leiðandi hafa stjórnvöld fylgt þeirri stefnu að gefa hagsmunasamtökum á vinnumarkaði mikið svigrúm til að semja sín í milli um réttindi og skyldur atvinnurekenda og launamanna án opinberra afskipta.

Þess eru þó dæmi að samtök aðila vinnumarkaðarins og stjórnvöld hafi komið sér saman um að vissum lágmarksréttindum sé betur fyrir komið í lögum en að öðru leyti séu samningar um nánari útfærslu og betri réttindi í höndum samningsaðila atvinnurekenda og launafólks. Þessir aðilar hafa meðal annars komið sér saman um ákveðnar samskiptareglur við gerð frjálsra kjarasamninga, sem finna má í lögum, en þar er gert ráð fyrir að samningsaðilarnir geti notið atbeina ríkissáttasemjara til þeirra starfa. Lög um ríkissáttasemjara falla vissulega undir málefnasvið félagsmálaráðuneytis, enda þótt því sé ekki ætlað þar sérstakt hlutverk.

Þetta kerfi byggist auðvitað á því að allir aðilar gangist við skyldu og ábyrgð sem fyrst og fremst felst í því að ræða við gagnaðilann og gera samning þar sem aðilar setja niður á blað hvernig skipa eigi réttindum, skyldum, kaupi og kjörum. Við þessu hafa aðilar gengist og ég trúi því að það séu einmitt þær samskiptareglur sem eru grunnurinn að þeirri uppbyggingu og velferð sem ríkir hér á Íslandi enda hefur víðtæk sátt ríkt um þær í samfélagi okkar.

Hæstv. forseti. Líkt og forverar mínir í starfi hef ég lagt áherslu á að eiga gott og náið samráð við helstu samtök atvinnurekenda og launafólks um breytingar á gildandi lögum og reglugerðum sem og aðra þá þætti er varða vinnumarkaðinn. Ég hef ekki í krafti embættis míns vald til að skylda einstaka aðila á vinnumarkaði til gerða á kjarasamningum og er því þeirrar skoðunar að þetta málefni eigi betur heima á öðrum stað en hér í þingsalnum þótt það sé sjálfsagt að taka það hér til umræðu. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli hér. Ég vil líka nota tækifærið sem hér gefst til að hvetja þá aðila sem hér eiga hlut að máli til að vinna að gerð kjarasamninga sem ætlað er að ná til þeirrar starfsstéttar sem þingmaðurinn vísar til hér í fyrirspurn sinni. Vinnumarkaðskerfi okkar byggist á gerð slíkra samninga og því kerfi viljum við viðhalda. Ég ítreka það, hæstv. forseti, að ég hvet þá aðila sem hér eiga í hlut eindregið til að koma sér saman um slíkan samning.



[16:57]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. félagsmálaráðherra að málefni sjómanna heyra undir marga ráðherra. Við búum svo vel að tveir ráðherrar ríkisstjórnarinnar eru í salnum núna, þ.e. hæstv. félagsmálaráðherra og síðan hæstv. samgönguráðherra, og málefni sjómanna heyra að hluta til undir báða þessa hæstv. ráðherra.

Nú er það svo að við sem vinnum hér í þessum sal, þessir 63 þingmenn, förum með löggjafarvaldið í þessu landi í umboði þjóðarinnar. Ég held að full ástæða sé til að skoða þessi mál mjög vandlega og athuga hvort löggjafarvaldið geti einmitt ekki komið að lausn þessa máls, til að mynda með lagasetningu. Það yrði hreinlega færð inn lagaskylda þess efnis að kjarasamningar skuli gilda á smábátum hér við land. Mér er kunnugt um að formaður Frjálslynda flokksins, Guðjón Arnar Kristjánsson, hefur verið að skoða þetta mál mjög ítarlega á undanförnum vikum. Hann hefur verið í sambandi við marga sjómenn og ég vona að það sem hann er að vinna að fái góðar undirtektir, bæði hjá ráðherrum og einnig þingmönnum. Mér finnst ekki sæmandi á Íslandi árið 2005 að hér sé heil stétt manna án samninga.



[16:58]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég var ekkert sérstaklega ánægður með svörin hjá hæstv. félagsmálaráðherra. Hann segir að hann hafi ekki vald til að koma á kjarasamningi en hann hefur samt fullt vald og heimild í lögum til að kanna þá stöðu sem upp er komin. Það hefur ítrekað komið fram í umræðunni, þótt það hafi ekki farið hátt, að brotinn sé réttur á þessum mönnum, launamönnum. Hvers vegna ekki að kanna það, hæstv. ráðherra? Ég skil ekkert í svona svörum. Ég hefði talið eðlilegt að fara yfir það. Ég veit ekki hvort sjómenn eru flokkaðir aftar en t.d. erlendir verkamenn. Það er búið að fara í mikla vinnu hvað þá varðar. Og hvað varðar blaðburðarbörn, það var ekki talið lítilvægt að kanna stöðu þeirra. Mér finnst þetta vera stórmál sem varðar þá sem vinna hættulegustu og erfiðustu störfin. Ef það er ekki nógu fínt og flott fyrir ráðherra að kanna það finnst mér það félagsmálaráðuneytinu til skammar.

Ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra taki sig á í þessu máli. Ég bjóst sannast sagna við því, frú forseti, að hann kæmi hérna og tæki þessari ábendingu vel. Ég bjóst við að hann segði: Jú, það er rétt að skoða málið, þetta er búið að vera lengi í umræðunni og staðan hjá þessum mönnum er erfið vegna þess að þetta eru oft og tíðum lítil fyrirtæki. Þeir eru miklu nálægari yfirmönnum sínum og þess vegna getur verið erfitt fyrir þá að krefjast réttar síns, sérstaklega ef upp úr dúrnum kemur að staðan er eins og hún er sögð í þessu bréfi sem við fengum í Frjálslynda flokknum, að menn séu unnvörpum reknir fyrir það eitt að fara fram á það að fá launin sín greidd.

Ég vonast til þess að hæstv. ráðherra fari að átta sig á alvöru málsins. Þetta snýst um kjör þeirra sem vinna erfiðustu störfin og ein hættulegustu störfin í þjóðfélaginu. Ef eitthvað ætti að vera forgangsverkefni hjá hæstv. ráðherra er það þetta mál.



[17:01]
félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Mér finnst hv. þingmanni ekki sæmandi að ýja að því að þetta mál sé ekki nægilega fínt eða flott fyrir þann sem hér stendur. Þetta mál snýst ekkert um það. (SigurjÞ: Hvað þá?) Það sem ég sagði áðan var að ég hef ekki vald til að knýja menn til að ganga frá slíkum samningi. Hins vegar er ekkert því til fyrirstöðu, hv. þingmaður, ef við höldum ró okkar, að kanna þetta mál. Ekki hefur verið leitað til ráðuneytis míns sérstaklega með það. Ég mun að sjálfsögðu, ef það verður gert, fara yfir málið með þeim aðilum sem fara fram á það, að sjálfsögðu.

Ég vil hins vegar árétta það sem ég sagði áðan, í landi okkar ríkir samningsfrelsi og hér eru lög um stéttarfélög og vinnudeilur. Þau fela í sér umgjörð um samskipti atvinnurekenda og launafólks. Ég legg áherslu á og tek undir það með hv. þingmanni að það er sjálfsagt og eðlilegt að hvetja þessa aðila til að koma sér saman um gerð kjarasamnings. Ef menn leita eftir því við mig sem félagsmálaráðherra og okkur í félagsmálaráðuneytinu að við förum yfir þetta mál með aðilum munum við að sjálfsögðu gera það. Ég vil að það liggi alveg skýrt fyrir, hæstv. forseti.