132. löggjafarþing — 39. fundur
 8. desember 2005.
staðgreiðsla opinberra gjalda og virðisaukaskattur, 2. umræða.
frv. SKK o.fl., 18. mál (vanskil á vörslufé). — Þskj. 18, nál. 526, brtt. 527.

[13:09]
Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, og lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með áorðnum breytingum. Nefndarálit þetta er að finna á þskj. 526 og þar er talið upp hvaða gestir komu á fund nefndarinnar og eins hvað lagt var til í frumvarpinu.

Í umsögnum skattrannsóknarstjóra og fjármálaráðuneytisins komu fram athugasemdir um að ósamræmi væri milli frumvarpstexta og greinargerðar, þ.e. að orðalag frumvarpstextans væri rýmra en til stæði. Við umfjöllun málsins var einnig bent á að ákvæði laganna væru of ósveigjanleg og gæfu dómara ekki færi á að taka tillit til ýmissa aðstæðna, svo sem greiðslu á hluta vanskila og reglulegum skilum á gögnum. Þá kom fram að heimild virðist skorta fyrir þeirri framkvæmd skattrannsóknarstjóra að fella niður mál áður en þeim er vísað til yfirskattanefndar eða til opinberrar rannsóknar.

Með hliðsjón af framanrituðu leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu þannig að tekið verði fram að fésektarlágmark, þ.e. tvöföldun upphaflegrar skuldar, eigi ekki við hafi brot einskorðast við að standa ekki skil á viðkomandi sköttum, enda hafi verið staðin skil á verulegum hluta skattfjárhæðar eða málsbætur eru miklar. Dómara er því veitt aukið svigrúm til að ákvarða sekt í þessum málum.

Enn fremur leggur nefndin til að skattrannsóknarstjóra verði heimilað að gefa aðila kost á að ljúka refsimeðferð með því að greiða sekt enda sé málið upplýst og um minni háttar brot er að ræða, t.d. ýmiss konar athafnaleysisbrot, svo sem að skila ekki tilteknum upplýsingum eða gögnum til skattyfirvalda, vanskilamál svo og þegar brotlegir aðilar hafa leitast við að firra skattkröfueiganda, ríkissjóð og sveitarfélög tjóni með því að greiða áfallnar kröfur meðan á meðferð málsins stendur. Þótt brotið sé unnið með saknæmum hætti er alvarleiki þess talsvert annar en þegar um hefðbundin skattsvik er að ræða enda hafa málsatvik verið upplýst eins og áður hefur komið fram. Oft eiga brotlegir sér málsbætur umfram fremjendur annarra skattalagabrota, einkum þær að brotið hafi ekki verið drýgt til persónulegs ábata né heldur í hagnaðarskyni.

Nefndin telur að með sektarákvörðun skattrannsóknarstjóra sé þess að vænta að meðferð skattsvikamála fyrir dómstólum og yfirskattanefnd fækki og ætti því öll meðferð mála af því tagi að verða bæði hraðari og skilvirkari. Hugmyndir sem hér eru settar fram um afgreiðslu mála með sektum eiga sér hliðstæðu í lögreglumálum, sbr. 115. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og hefur gefist vel.

Með breytingunni er réttarstaða sökunautar bætt með því að auka möguleika hans á að ljúka refsimeðferð skjótar en verið hefur og án þess að brot verði opinbert. Það er einnig ótvírætt aukinn réttur að sökunautur veit við sektarboð hvaða fjárhæð honum er ætlað að greiða í sekt. Sætti sökunautur sig ekki við sektarboðið, hann telur það of hátt eða vill ekki sæta slíkri meðferð getur hann ætíð hafnað sektarboði og fer þá um málið samkvæmt almennum reglum með venjulegri dómsmeðferð eða sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd.

Sett er það skilyrði að málsmeðferðinni ljúki innan sex mánaða frá því að rannsókn skattrannsóknarstjóra lauk. Telur nefndin þann frest hæfilegan. Ljúki málsmeðferð ekki innan sex mánaða fer um málið samkvæmt almennum reglum með venjulegri dómsmeðferð eða sektarmeðferð fyrir yfirskattanefnd. Nefndin telur ekki rétt að gera ráð fyrir að vararefsing fylgi ákvörðun skattrannsóknarstjóra heldur fari um innheimtu sekta samkvæmt reglum sem gilda um innheimtu sekta fyrir yfirskattanefnd.

Til þess að ná markmiði breytingartillagnanna er nauðsynlegt að gera sambærilegar breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, og lögum nr. 94/1996, um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, og þarf fyrirsögn frumvarpsins að breytast í samræmi við það.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Jóhanna Sigurðardóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Ásta Möller, Ögmundur Jónasson, Siv Friðleifsdóttir og Lúðvík Bergvinsson.

Frú forseti. Ég vil bæta við örfáum orðum frá eigin brjósti um þetta mál. Það var fyrst lagt fram af núverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni, og fleirum. Það hefur tekið nokkuð miklum breytingum í meðförum nefndarinnar en það fjallar um það að dómarar hafa þurft að sæta mjög ósveigjanlegum reglum við uppkvaðningu dóma þannig að flestum hefur fundist það vera mjög óréttlát niðurstaða, sem fram hefur komið, sérstaklega í þeim málum þar sem menn hafa greitt inn á skuldina og í raun verið refsað fyrir það. Ég held að hér sé um mjög mikla réttarbót að ræða og er mjög ánægður með þá niðurstöðu sem fengist hefur.



[13:14]
Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það mál sem hér er komið úr nefnd og til 2. umr. hefur tekið, eins og hv. formaður efnahags- og viðskiptanefndar sagði, miklum breytingum frá því að það fyrst kom inn. Reyndar var það fyrst lagt fyrir Alþingi í fyrra af hæstv. sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni.

Málið fékk í fyrra mikla og góða umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd en ekki tókst að ljúka málinu. Frá upphafi hafði nefndin mikla samúð með því sjónarmiði að dómarar sem fá það verkefni að gera mönnum fésektir fái heimild til að fara niður fyrir lágmarkssektir sem kveðið var á um. Eins og lögin eru nú er meginreglan sú að að lágmarki skuli tvöfalda sektargreiðslur miðað við þau vanskil sem áætlað er að viðkomandi hafi ekki gert skil á virðisaukaskatti. Það er að lágmarki að refsingin verði tvöföld skattskuldin. Hins vegar var málið þannig í upphafi úr garði gert að menn höfðu af því miklar áhyggjur að það gæti skaðað mjög möguleika innheimtuaðila að innheimta virðisaukaskatt og hugsanlega gætu menn skilað virðisaukaskattsskýrslu og það eitt mundi duga jafnvel til að komast hjá nokkurri refsingu.

Þetta mál hefur því fengið góða og mikla umræðu undanfarin tvö ár. Ef ég man rétt lagði hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson það fram í haust og í framhaldi af þeirri miklu umræðu sem fram fór í fyrra og einnig núna er niðurstaðan sem nú er fengin að minni hyggju mjög góð og mjög ánægjuleg. Ég hæli hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að halda utan um málið eins og hann gerði. Ég held að málið hafi þroskast mikið í meðförum nefndarinnar og eins og málið kemur út núna er það mjög ásættanlegt og meira en það, það tryggir að dómarar geta farið niður fyrir lágmarksrefsingu þegar sérstök sjónarmið eiga við og eins var gerð ákveðin bragarbót á þeim stöðum sem lengi hefur verið í framkvæmd en vart haft lagastoð, þ.e. að skattrannsóknarstjóri hefur afgreitt mál sem hann hugsanlega ekki gat og ekki mátti. Hér er skotið stoðum undir þá afgreiðslu að skattrannsóknarstjóri getur afgreitt minni háttar mál eða allt að 6 millj. kr. eins og tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir.

Sú umræða sem fram hefur farið hefur verið mjög af hinu góða. Hún hefur þroskað málið, margir komu fyrir nefndina og ég held að niðurstaðan sé sú að allir séu mjög sáttir við það eins og það lítur út núna. Ég ætla ekki að hafa um þetta langt eða mikið mál en vil að lokum segja að ég held að fleiri nefndir geti tekið sér til fyrirmyndar þau vinnubrögð sem tíðkuðust í þessu máli, sérstaklega þegar niðurstaðan er í samræmi við það sem við sjáum hér nú.



[13:18]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég kem fyrst og fremst til að lýsa ánægju minni með að þetta mál skuli verða að lögum. Fyrsti flutningsmaður að því nú er hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson en auk hans standa að málinu þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum þannig að þetta er þverpólitískt mál. Eins og fram kom hafði hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, núverandi ráðherra, upphaflega lagt málið fram en það er eitt sem við gætum lært af þessu máli og það er nokkuð sem iðulega hendir þingmannamál, jafnvel þótt það sé byggt á þverpólitískri samstöðu, að þau verða oft afgangs. Ég held að þetta sé dæmi um mál sem hefur liðið fyrir það að við reynum að leysa það á síðustu metrunum.

Ég tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni, það var unnið vel að þessu máli í efnahags- og viðskiptanefnd. Þar hefur verið fullur vilji til að leiða málið til lykta áður. Í rauninni er það harmsefni að það skuli ekki hafa tekist fyrr því að þetta hefur farið mjög illa með marga einstaklinga en nú er málið sem betur fer að komast í höfn. Ég fagna því.



[13:20]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu um þetta mál en mér finnst samt ástæða til að leggja hér orð í belg. Það er svo sem búið að gera grein fyrir forsögu þessa máls sem upphaflega var lagt fram af hæstv. núverandi sjávarútvegsráðherra, Einari K. Guðfinnssyni, og síðan fékk ég það hlutverk að fylgja því eftir eftir að sá ágæti maður settist í ráðherrastól. Í þetta skipti, eins og áður, hafa þingmenn úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi sameinast um það, þ.e. flutningsmenn frumvarpsins, að gera breytingar á núverandi löggjöf um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um virðisaukaskatt. Við höfum séð í allt of langan tíma niðurstöður í dómsmálum sem varða þetta réttarsvið sem hafa verið alveg sérstaklega ósanngjarnar. Ástæða hefur verið til að bregðast við þeim niðurstöðum með breytingum á löggjöfinni. Ég fagna því verulega að slíkar tilraunir beri nú árangur.

Eins og fram hefur komið í umræðunni eru allir sammála um nauðsyn þess að gera breytingar á lögunum. Ég hef fundið það, ekki bara núna í vetur eftir að þetta mál kom fram, heldur á síðustu missirum að skattyfirvöld, lögmenn, aðilar í viðskiptalífinu og ekki síst dómarar hafa beðið um breytingar og bíða eftir breytingum á þessum lögum til að geta brugðist við þeim aðstæðum sem við erum hér að fjalla um og frumvarpið varðar með sanngjarnari hætti en gert hefur verið.

Ég minnist þess þegar þetta mál var til umræðu á sínum tíma að þá var varaþingmaður á þingi, Hilmar Gunnlaugsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann tók til máls um málið og rifjaði upp þegar hann sjálfur var dómari við Héraðsdóm Austurlands og fékk mál eins og þessi til meðferðar og lýsti því hvernig það hefði verið og hvernig dómarar horfðu á slík mál. Hann lýsti því að í sjálfu sér hefði það verið mjög sorglegt fyrir hann sem dómara að þurfa að komast að þeirri niðurstöðu sem hann komst að, einfaldlega vegna þess að lögin eru eins og þau eru, og voru þá eins og þau eru nú. Dómararnir verða að fara eftir lögunum en niðurstöðurnar eftir sem áður hafa verið ósanngjarnar í þessum málum. Það horfir nú til betri vegar þegar þetta frumvarp verður samþykkt sem lög héðan frá Alþingi.

Ég fagna því sérstaklega að hæstv. sjávarútvegsráðherra kemur hér í salinn þegar þetta mál er til meðferðar og vonandi verður þetta til þess að réttlætið nái fram að ganga. Það er nefnilega þannig að auðvitað viljum við virkt skatteftirlit og að menn skili sköttum sínum og skyldum eftir því sem vera ber en þetta mál snýst kannski fyrst og fremst um það að gefa því fólki sem verður fyrir áföllum, hvort sem það er af heilsufarsástæðum eða öðru, tækifæri til að rísa upp eftir að það verður fyrir áföllum í rekstri. Ég tel að þær breytingar og sá texti sem nú liggur fyrir gefi dómurum möguleika á að líta til slíkra þátta.

Ég tel að nefndin hafi unnið afskaplega vel í þessu máli. Ég þakka henni kærlega fyrir þá miklu og málefnalegu vinnu sem lögð hefur verið í málið, sérstaklega formanni nefndarinnar, hv. þm. Pétri H. Blöndal, og ekki síður fulltrúum minni hlutans í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég held að sú lending sem hér hefur verið fundin og sú niðurstaða sem hv. þingmaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar hefur mælt fyrir sé afskaplega skynsamleg og vel unnin. Þar kemur skýrt fram, í texta breytingartillögunnar, að dómarar muni hafa tækifæri til að líta til þess við ákvörðun refsinga eða skatta ef málsbætur viðkomandi aðila sem í þessum málum standa eru miklar. Þetta tel ég ákaflega mikla réttarbót, fagna henni og þakka að lokum nefndinni fyrir að afgreiða málið og að gera það með svo miklum myndarbrag sem breytingartillögur og nefndarálit gefa til kynna.

Að svo búnu lýk ég máli mínu og vonast til þess að þetta frumvarp verði samþykkt sem lög frá Alþingi nú fyrir hlé.



[13:26]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég vil vegna nokkurra orða í ræðu síðasta hv. ræðumanns og ekki síður vegna viðbragða eins flutningsmannsins, hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur, í dagblaði fyrr í vikunni taka fram að mér sýnast þær breytingar sem hafa orðið á þessu frumvarpi í meðförum nefndarinnar vera til mikilla bóta og heilla. Ég tel að gagnrýnendur hins upphaflega frumvarps hafi haft rétt fyrir sér og náð sínu fram með þessum breytingum.

Það er rétt sem komið hefur fram í ræðum sem hér hafa verið fluttar að líta má svo á að hinar ströngu reglur um refsingar vegna vanskila á vörsluskatti geti verið ósanngjarnar og að það sé rétt að hjálpa fólki sem lent hefur í áföllum, persónulegum eða fjárhagslegum, í þeim viðskiptum sem leiða menn til slíks. Ég vil þó ítreka að eftir sem áður, hvað sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson flytur margar ræður um það, eru skil á vörslusköttum meiri skylda en að standa sig á ýmsum öðrum sviðum. Vörsluskattar eru skattar sem menn fara með og eru fé frá öðru fólki sem á að renna til samneyslu, þar á meðal velferðarþjónustu. Það er alvarlegt mál að standa ekki skil á því fé. Hins vegar er auðvitað í því máli, eins og öllum öðrum, munur á ásetningsbrotum eða auðgunarbrotum og síðan því sem kann að koma fyrir menn út úr vandræðum eða jafnvel af einhvers konar misskilningi.

Þetta vil ég bara að komi fram þannig að ekki leiki neinn vafi á því að hér í þinginu er enn litið svo á að það að standa skil á vörslusköttum sé fyrsta skylda þeirra sem standa í viðskiptum og fá vörsluskatta í hendur þess vegna.



[13:28]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég stend einungis upp til að fagna því að þetta mál sé komið svona vel á veg, og sérstaklega vil ég láta í ljósi ánægju yfir því að um afgreiðslu þess virðist hafa tekist mikil samstaða. Það er samstaða um málið í efnahags- og viðskiptanefnd og ég tel að málið hafi batnað í meðferð nefndarinnar. Þetta er gott dæmi um hvernig þingið getur tekið á einstökum málum, einstökum réttlætismálum eins og þessu. Ég held að það sé þannig með þessa löggjöf sem nú er verið að breyta að mjög mörgum okkar sveið þetta óskaplega og fannst þetta mál mjög óréttlátt. Þess vegna var málinu hreyft á sínum tíma en ég var á þeim tíma fyrsti flutningsmaður þess og með mér voru flutningsmenn úr öllum stjórnmálaflokkum. Nú hefur það tekist, eftir mikla og góða vinnu efnahags- og viðskiptanefndar sem ástæða er til að þakka fyrir að málið er komið hingað inn í Alþingi og um það er mikil samstaða.

Þess vegna er ástæða til að ætla að því verði lokið núna vel fyrir jól og að það verði að lögum. Ég hef orðað það þannig að með því að við breytum þessum lögum muni margir sem ella hefðu átt heldur slæma daga fram undan eiga gleðileg jól. Ég held að ástæða sé til að fagna því og árétta það sem ég var að segja að þetta mál er eitt dæmi um það hvernig þingið getur tekið á málum. Hér var um að ræða þingmannamál sem var flutt á sínum tíma, mál sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur síðan unnið að á mjög sjálfstæðan og vandaðan hátt. Þessi vinnubrögð eru til fyrirmyndar. Ég hefði að vísu kosið að málið hefði verið afgreitt síðasta vor en mér sýnist hins vegar málið hafa batnað síðan þá þannig að ég iðrast þess ekki, heldur fagna ég því að málið sé komið svona vel á veg og að það verði samþykkt núna fyrir jólin.