132. löggjafarþing — 39. fundur
 8. desember 2005.
verslunaratvinna, 2. umræða.
stjfrv., 345. mál (EES-reglur, höfundarréttargjald). — Þskj. 379, nál. 547, brtt. 548.

[14:11]
Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum (fylgiréttargjald). Nefndarálitið er á þskj. 547 og þar kemur fram hverjir komu fyrir nefndina, hverjir skiluðu umsögnum og það að markmiðið með frumvarpinu sé að innleiða listmunauppboðsákvæði tilskipunar Evrópusambandsins og ráðsins, um rétt höfunda til þóknunar við endursölu frumgerðar listaverks (fylgirétt).

Við umfjöllun málsins kom fram það sjónarmið að óeðlilegt væri að ríkið innheimti sem skatt fjármuni sem renna eiga til einkaaðila. Jafnframt var því velt upp hvort umfang innheimtunnar væri svo lítið að kostnaður vegna hennar stæði ekki undir tekjunum.

Þá var gerð tillaga sem kemur fram í nefndaráliti, þ.e. rætt var um að breyta reglugerðarheimild og taka burt að hafa þyrfti samráð við ákveðinn aðila, heldur talað um hagsmunaaðila.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali. Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Kristján L. Möller, Ásta Möller, Ögmundur Jónasson, Siv Friðleifsdóttir og Lúðvík Bergvinsson.

Frú forseti. Ég vildi gjarnan geta þeirrar skoðunar minnar að ég tel mjög óeðlilegt og jafnvel ekki samrýmast stjórnarskránni að ríkið innheimti sem skatt gjöld eða fjárhæðir sem síðan renna til einkaaðila eins og hér er um að ræða. Þegar menn kaupa listaverk og selja þau síðan sem eign sína kynni maður að halda að þeir ættu þessa eign og þyrftu hugsanlega að sæta því að borga höfundarréttargjöld til listamannsins — ríkið á ekki að koma inn í það að innheimta þau höfundarréttargjöld fyrir listamanninn, ekkert frekar en ríkið kemur ekki inn í þegar innheimt eru alls konar gjöld sem menn eiga rétt á í þjóðfélaginu. Í stjórnarskránni er kveðið mjög nákvæmlega á um skatta, hvernig leggja eigi á að skatta. Það má eingöngu gera með lögum og að sjálfsögðu eiga skattar að renna til ríkis og sveitarfélaga. Það er mjög óeðlilegt að ríkið sé notað, og sá styrkur sem innheimta ríkisins hefur til skattheimtu, þegar hinar innheimtu fjárhæðir renna síðan til einkaaðila, einkafyrirtækja eða samtaka slíkra aðila.



[14:15]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Samstaða er um það í efnahags- og viðskiptanefnd að standa að þessum lagabreytingum sem eru eins konar aðlögun að tilskipun frá Evrópusambandinu og á að gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Það varð nokkur umræða um það í nefndinni hvaða hlutfall ætti að innheimta vegna sölu á listaverkum. Það sjónarmið kom fram í umræðunni, þó að það sé ekki að finna í nefndarálitinu, að eðlilegt væri að taka það mál til skoðunar í framtíðinni þótt niðurstaðan yrði sú sem raun ber nú vitni.

Ég kveð mér þó fyrst og fremst hljóðs til að ræða atriði sem er hv. formanni efnahags- og viðskiptanefndar hjartfólgið og hann gerði að umtalsefni hér, innheimtu gjalda fyrir aðra óskylda aðila. Mér finnst ekkert óeðlilegt við að ríkið hafi milligöngu um að innheimta þetta gjald sem er eins konar höfundarréttargjald til listamanna eða erfingja þeirra. Mér finnst ekkert óeðlilegt við það en því segi ég að þetta sé hv. þingmanni hugleikið að hann hefur oft orðað þetta varðandi innheimtu á stéttarfélagsgjöldum og þykist ég vita að hann sé að feta sig inn á þær slóðir í umræðunni. Það kemur fram í nefndaráliti að orðað hafi verið að mönnum þætti óeðlilegt að ríkið innheimti sem skatt fjármuni sem renna eiga til einkaaðila. Þótt það sé alveg rétt að það hafi verið orðað í nefndinni vil ég taka fram að það er ekki sjónarmið allra nefndarmanna.



[14:17]
Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að rætt var um það hvort þyrfti að bregða frá reglugerð Evrópusambandsins sem kveður á um lágmark, þ.e. 4% upp að 50 þús. evrum. Það má fara hærra og það var farið hærra, upp í 10% upp að 3 þús. evrum og síðan 5% upp að 50 þús. evrum í staðinn fyrir 4%. Þetta var rætt í nefndinni, kostir og gallar beggja leiða. Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta vantaði kannski í nefndarálitið.

Það er þó ljóst að of há gjöld geta hamlað uppboðum þar sem menn selja þá kannski frekar beint eða í gegnum listaverkasala og geta þannig óbeint komið eigendum slíkra listaverka í koll og þar með listamanninum sjálfum. Þá minnkar óhjákvæmilega eftirspurn eftir listaverkum.

Þetta var rætt í nefndinni og hefði með réttu átt að koma fram í nefndaráliti.

Varðandi innheimtu ríkisins á ýmsum gjöldum fyrir einkaaðila og félagasamtök — það er rétt að þetta er mér hjartfólgið vegna þess að ég hef svarið eið að stjórnarskránni, herra forseti. Ég les út úr henni að skatta megi ekki leggja á nema með lögum og ríkið getur ekki innheimt annað en skatta og þóknunargjöld af borgunum. Þóknunargjöld eru þess eðlis að menn fá þjónustu í samræmi við gjaldið sem þeir borga og skattar eru þá allt annað, þ.e. þegar ríkið innheimtir eitthvað þegar þjónustan sem veitt er stendur ekki alveg undir því eða engin þjónusta er veitt í staðinn. Skattar eiga að renna til, samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu á sköttum, opinberra aðila, þ.e. til ríkis eða sveitarfélaga. Aðrir eiga ekki að njóta skatta.

Við erum hins vegar með töluvert mikið í lagasafninu af slíkum gjöldum. Ég nefni fiskræktargjald sem er í lögum um lax- og silungsveiði, iðnaðarmálagjald, skyldugreiðslu opinberra starfsmanna til stéttarfélaga opinberra starfsmanna, hvort sem þeir eru félagsmenn eða ekki. Mönnum er gert að borga í stéttarfélag opinberra starfsmanna þótt þeir séu ekki félagar og þótt þeir vilji ekki vera félagar og þótt þeir séu á móti þeirri stefnu sem félagsskapurinn predikar, t.d. í sambandi við að vatnsréttarmál séu mannréttindi. Það er ekki víst að allir opinberir starfsmenn vilji skrifa upp á það en þeir verða samt sem áður að borga undir þá skoðun. Það má náttúrlega segja að það brjóti ákvæði stjórnarskrárinnar um skoðanafrelsi.

Ég hef unnið að því og flutt um það frumvörp, og mun halda áfram að flytja frumvörp um það, að ríkið hætti að innheimta gjöld fyrir aðila þar sem fjármunir renna til einkaaðila.



[14:21]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Það er alveg guðvelkomið að taka þessa umræðu ef hv. þm. Pétur H. Blöndal óskar eftir því að ræða um gildi stéttarfélaga á þessum næstsíðasta degi þingsins fyrir jól. Það er alveg sjálfsagður hlutur. Hann hlýtur að hafa einhverja sérstaka kvöð og helsi af því að fólk taki þátt í stéttarfélagsvinnu og að fólk greiði til stéttarfélaga jafnvel þótt það sé ekki félagar í viðkomandi félögum. Ég vil benda hv. þingmanni, og öllum sem orð mín heyra, á að allir, hvort sem þeir eru í stéttarfélaginu eða standa utan þess, njóta þeirra kjara sem stéttarfélagið hefur náð fram í sínu starfi. Gildir þá einu hvort um er að ræða lífeyrisréttindi, veikindarétt eða önnur kjör sem launafólk býr við.