132. löggjafarþing — 40. fundur
 9. desember 2005.
búnaðargjald, 2. umræða.
stjfrv., 332. mál (lækkun gjalds). — Þskj. 364, nál. 513, brtt. 515.

[16:25]
Frsm. landbn. (Drífa Hjartardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á lögum um búnaðargjald, nr. 84/1997, með síðari breytingum, frá landbúnaðarnefnd.

Með frumvarpinu er lagt til að búnaðargjald verði lækkað úr 2% í 1,2% vegna niðurfellingar laga um Lánasjóð landbúnaðarins. Búnaðargjaldið lækkar í samræmi við það hlutfall sem áður rann til lánasjóðsins. Á árinu 2004 námu álagðar tekjur af búnaðargjaldi 312 millj. kr. og þar af runnu 115 millj. kr. til Lánasjóðs landbúnaðarins, eða rétt tæp 37% teknanna.

Búnaðargjald var fyrst innheimt á árinu 1997 og innheimtufyrirkomulag einfaldað með því að sameina innheimtuferli nokkurra gjalda og hafa einn gjaldstofn undir heitinu búnaðargjald en markmiðið var að gera innheimtuna einfalda, örugga og ódýra.

Nefnd á vegum forsætisráðuneytisins er að störfum þar sem verið er m.a. að skoða fyrirkomulag vegna sjóðagjalda. Þá telur nefndin brýnt að niðurstöður þeirrar nefndar komi sem allra fyrst.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar:

1. Lagt er til að í 1. gr. frumvarpsins verði eingöngu breytt prósentuhlutfallinu varðandi búnaðargjaldið en óþarft er að taka málsliðinn upp í heild sinni í frumvarpstextanum. Með þeirri breytingu sem hér er lögð til kemur skýrar fram að aðeins sé verið að breyta prósentuhlutfallinu.

2. Lagt er til að í stað hlutfallstölunnar „2.00%“ í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. laganna komi: 1,2%.

3. Lagt er til að gildistökuákvæðið breytist þannig að lögin öðlist gildi 1. janúar 2006 og komi til framkvæmda við ákvörðun fyrirframgreiðslu á árinu 2006 og við álagningu búnaðargjalds á árinu 2007.

4. Lagt er til að sett verði ákvæði til bráðabirgða sem kveði á um að mismunur á hluta Lánasjóðs landbúnaðarins, sbr. 6. gr. laganna, í endanlega ákvörðuðu búnaðargjaldi skv. 5. gr. laganna og fyrirframgreiddu gjaldi skv. 4. gr. laganna skuli vera á ábyrgð Lífeyrissjóðs bænda. Skv. 2. gr. laga nr. 68/2005 fellur Lánasjóður landbúnaðarins niður 31. desember 2005 og kemur því í hlut Lífeyrissjóðs bænda að taka ábyrgð á að greiða þann mismun til búvöruframleiðenda sem skapast getur vegna fyrirframgreiðslunnar.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali.

Anna Kristín Gunnarsdóttir, Margrét Frímannsdóttir og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir álitið með fyrirvara.

Guðjón A. Kristjánsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu með sama fyrirvara og framangreindir nefndarmenn.

Undir þetta nefndarálit rita Drífa Hjartardóttir formaður, Anna Kristín Gunnarsdóttir með fyrirvara, Magnús Stefánsson, Einar Oddur Kristjánsson, Margrét Frímannsdóttir með fyrirvara, Kjartan Ólafsson, Dagný Jónsdóttir og Valdimar L. Friðriksson með fyrirvara.



[16:29]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur skrifuðum við þingmenn Samfylkingarinnar undir þetta álit með fyrirvara hvað varðar álagningu og skiptingu búnaðargjalds. Ástæðan fyrir því að þrátt fyrir að fram hafi komið á fundi í nefndinni að samkomulag er um skiptingu búnaðargjaldsins milli búgreina teljum við í fyrsta lagi að það sé ekki hlutverk löggjafans að skipta gjaldtökunni niður á búgreinafélögin heldur eigi samtök bændanna að sjá um það og í öðru lagi er endurskoðun í gangi hjá nefnd sem hæstv. forsætisráðherra hefur skipað, en sú nefnd varð til vegna þess að árið 2002 leituðu samtök smábátasjómanna til umboðsmanns Alþingis og óskuðu eftir því að gjaldtaka í þágu hagsmunasamtaka þeirra yrði endurskoðuð.

Umboðsmaður Alþingis taldi sig ekki hæfan til að skera úr um það heldur beindi þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að þetta yrði skoðað sérstaklega. Nú í sumar var skipaður starfshópur af forsætisráðherra sem á að skoða gjaldtökuna í þágu hagsmunasamtakanna í heild sinni. Við teljum því eðlilegt að það hefði verið beðið eftir því að sá starfshópur lyki sinni vinnu en við viðurkennum hins vegar að það er nauðsynlegt að gera þarna ákveðnar breytingar í kjölfar þess að Lánasjóður landbúnaðarins var seldur og skrifum að fullu undir það, en höfum fyrirvarann fyrst og fremst vegna þess að þarna er ekki að okkar mati alveg skýrt hvert hlutverk löggjafans á að vera annars vegar og samtaka bænda hins vegar.



[16:31]
Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Á þskj. 338, 311. mál, er frumvarp til laga um búnaðargjald þar sem ég legg til að allur lagakaflinn verði felldur niður. Mér hefði nú þótt eðlilegt, herra forseti, að það yrði rætt samhliða þar sem sú lagasetning gengur lengra. Það sem núna stendur eftir af búnaðargjaldinu er eingöngu félagsgjöld og eilítið gjald til Bjargráðasjóðs, sem er tryggingafélag eins og hvert annað tryggingafélag. Hann gæti í raun starfað sjálfstætt. Sumir bændur eru undanþegnir því að greiða í Bjargráðasjóð þannig að þeir gætu þess vegna greitt þangað áfram sem vildu og hinir látið það vera.

Á dagskrá þingsins í dag, undir dagskrárlið 23, um verslunaratvinnu, er svipað dæmi þar sem ríkið innheimtir gjöld fyrir einstaklinga af uppboðum á myndlist. Ég benti á að það fengi varla staðist stjórnarskrána, að innheimta með skattlagningarvaldi ríkisins gjöld sem renna til einstaklinga og félagasamtaka.

Það er einmitt það sem situr eftir af búnaðargjaldinu, þ.e. álögur á alla bændur í landinu fyrir að eiga aðild að einhverjum félögum sem eru tilgreind. Þetta eru opinber stéttarfélög nákvæmlega eins og í Sovétríkjunum. Við getum ímyndað okkur hvernig það er ef maður er neyddur til að greiða félagsgjald til félags sem hefur stefnu sem hann er andsnúinn. Segjum að hann sé á móti þeirri stefnu. Hann er þar með látinn fjármagna útbreiðslu á skoðunum sem hann er andsnúinn. Þetta brýtur bæði félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar, skattlagningarákvæði og skoðunarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar. Ég mundi vilja að menn skoðuðu hreinlega í alvöru að leggja þetta niður sem allra fyrst.



[16:33]
Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Það frumvarp til laga sem hér er komið til 2. umr., um breytingu á lögum um búnaðargjald, er eins og hv. formaður landbúnaðarnefndar, Drífa Hjartardóttir, greindi frá að meginhluta til komið vegna sölu á Lánasjóði landbúnaðarins. Hann hefur verið seldur en til þessa hefur ákveðið gjald af landbúnaðarframleiðslu runnið til sjóðsins til að styrkja lánveitingar í landbúnaði.

Ég minni á að við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs töldum ekki rétt að selja lánasjóðinn og lögðumst gegn því. Við höfðum aðrar tillögur og bentum t.d. á að Lánasjóður landbúnaðarins og Lífeyrissjóður bænda gætu sameinast og þar yrði ákveðin grunnlánaþjónusta við landbúnaðinn til jafnaðar. Við vitum að eftir sölu lánasjóðsins verður ekki jafn aðgangur að lánsfé eins og var, óháð búsetu eins og sjóðurinn tryggði á sínum tíma. Ég tel að það hafi aukið á misrétti og misvægi lánamöguleika til atvinnurekstrar og uppbyggingar í landbúnaði um allt land að hafa selt Lánasjóð landbúnaðarins.

Ég vil líka gagnrýna sölu lánasjóðsins varðandi það að þegar hann var boðinn til sölu voru sparisjóðirnir útilokaðir frá því að gera tilboð í hann. Þess var krafist að sú lánastofnun sem byði í hann hefði að baki sér alþjóðlegt lánshæfismat. Maður hefði haldið að sparisjóðirnir væru nógu sterkir gagnvart svo litlum sjóði að ekki þyrfti að krefjast þess en með því voru sparisjóðirnir útilokaðir frá kaupum.

Lánasjóðurinn er seldur og þar með er eðlilegt, ég hef fullan skilning á því, að fella niður það gjald sem áður rann af framleiðslunni til sjóðsins. Hins vegar tel ég að með frumvarpinu sé gengið lengra. Það hefði verið eðlilegt að taka einungis ákvörðun um að fella gjaldið niður.

Frumvarpið kom mjög seint inn í nefndina og ekki gafst tóm til að leita eðlilegra skriflegra umsagna um málið þótt þær breytingar sem þar eru gerðar snerti allmarga aðila með skiptingu á búnaðarmálasjóðsgjaldinu. Ég tel að það hefði átt að vinna það mál betur og get ekki stutt málsmeðferðina á þeim forsendum.

Hins vegar tek ég fram að ég styð félagslega uppbyggingu, að við stöndum vörð um félagslegt kerfi bænda og um samstöðu þeirra. Ég vísa á bug orðum, sem ég er alls ekki sammála, hv. þingmanns, fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Péturs Blöndals sem taldi að brjóta ætti niður félagskerfi bænda. Ég tel mikilvægt og mun standa með öllum ráðum vörð um félagskerfi bænda, herra forseti.