132. löggjafarþing — 44. fundur
 17. janúar 2006.
Kjaradómur og kjaranefnd, 1. umræða.
stjfrv., 417. mál (ógilding úrskurðar). — Þskj. 634.

[14:05]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 634, það er 417. mál þingsins. Frumvarpið, sem er ríkisstjórnarmál, er frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd.

Ég held að öllum sé ljóst að ríkisstjórnin stóð frammi fyrir mjög erfiðu vandamáli eftir að Kjaradómur kvað upp úrskurð sinn þann 19. desember sl. Í úrskurðinum skyldu laun forseta hækka um 6,15%, en laun annarra sem undir dóminn heyra hækka að jafnaði um 8,16% og skyldu umræddar hækkanir taka gildi 1. janúar 2006. Á sama tíma hækkuðu laun á almennum vinnumarkaði almennt um 2,5%. Hinn 27. desember 2005 ritaði forsætisráðherra bréf til Kjaradóms þar sem farið var fram á það að úrskurðurinn yrði endurskoðaður. Kjaradómur hafnaði þessu með bréfi, dags. 28. desember 2005.

Í athugasemdum við frumvarpið eru raktar ástæður þess af hverju nauðsynlegt er talið að bregðast verði við ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember sl. og til hvaða aðgerða ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa. Í athugasemdunum kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Í ljósi þeirra áhrifa sem úrskurður Kjaradóms gæti haft á stöðu vinnumarkaðsmála, þar á meðal nýgert samkomulag aðila vinnumarkaðarins um kjaramál, og þeirra ófyrirsjáanlegu áhrifa sem slíkt hefði á stöðugleikann í efnahagsmálum, er nauðsynlegt að bregðast við ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember 2005. Hefur ríkisstjórnin ákveðið annars vegar að beita sér fyrir því að úrskurði Kjaradóms verði breytt með lagasetningu, þannig að í stað þeirra hækkana sem þar voru ákveðnar komi 2,5% hækkun frá 1. febrúar 2006, eins og gert er með frumvarpi þessu. Hins vegar mun ríkisstjórnin skipa nefnd til að fara yfir núgildandi lög um Kjaradóm og kjaranefnd. […] Er nefndinni ætlað að skila tillögum svo fljótt sem auðið er. Rétt þykir að launabreytingum hjá þeim sem Kjaradómur og kjaranefnd ákvarða laun fyrir verði haldið í lágmarki meðan farið verður yfir lögin. Af þessum sökum er í frumvarpi þessu jafnframt lagt til að Kjaradómi og kjaranefnd verði tímabundið settar viðbótartakmarkanir varðandi launabreytingar.“

Sjálft frumvarpið er tvær greinar. Í 1. gr. er lagt til að við lög nr. 120 1992, um Kjaradóm og kjaranefnd, bætist ákvæði til bráðabirgða. Í 2. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um gildistöku laganna.

Fyrsta málsgrein bráðabirgðaákvæðisins er efnislega á þá leið að úrskurður Kjaradóms frá 19. desember 2005 er felldur úr gildi frá og með 1. febrúar 2006. Frá sama tíma skulu mánaðarlaun og einingar samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 9. júní 2005 hækka um 2,5%.

Að því er varðar laun forseta Íslands var það athugað sérstaklega hvort ákvæði 2. málsl. 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem segir að óheimilt skuli að lækka greiðslur til forseta kjörtímabil hans kynni, að takmarka möguleika á að breyta úrskurði Kjaradóms að því leyti. Tilvitnað stjórnarskrárákvæði var nýmæli í stjórnarskránni 1944. Í skýringum við ákvæðið er það rakið að það miði að því að hindra að fjárhagslegum þvingunarúrræðum verði beitt gegn forseta. Sérstaklega er tekið fram í skýringunum að með ákvæðinu sé einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann hefði í upphafi haft, en engan veginn tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.

Ljóst er að með frumvarpi þessu er ekki farið gegn tilgangi stjórnarskrárákvæðisins. Nefna má að Kjaradómi var, með bráðabirgðalögum 3. júlí 1992 um breytingu á lögum um Kjaradóm, nr. 92/1986, falið að kveða upp nýjan úrskurð í stað úrskurðar síns frá 26. júní 1992. Kjaradómur kvað upp nýjan úrskurð 12. júlí 1992 í samræmi við efni bráðabirgðalaganna sem fól í sér lækkun launa frá því sem ákveðið var með fyrri úrskurði og tók hinn nýi úrskurður jafnt til forseta sem annarra sem undir fyrri úrskurð Kjaradóms féllu.

Önnur málsgrein er efnislega tvískipt en í fyrri málslið 2. mgr. er gert ráð fyrir að ekki verði um frekari breytingar á launum þeirra sem eru undir Kjaradómi og kjaranefnd að ræða á árinu 2006 nema þær séu í samræmi við umsamdar launahækkanir á almennum vinnumarkaði. Í þeim kjarasamningum er á árinu eingöngu gert ráð fyrir 2,5% hækkun launataxta sem kom til framkvæmda um nýliðin áramót nema annað leiði af niðurstöðum endurskoðunarnefndar samningsaðila á hinum almenna vinnumarkaði.

Í seinni málslið 2. mgr. er opnað fyrir Kjaradóm og kjaranefnd að taka tillit til sérstakra hópa og bregðast við breytingum sem kunna að verða á umfangi starfa eða verksviði einstakra embættismanna eða hópa embættismanna. Sem dæmi má nefna ef ákveðið er að sameina stofnanir eða fjölga eða fækka marktækt þeim verkefnum sem stofnun er ætlað að sinna. Þess skal þó gætt að slíkar breytingar valdi ekki röskun á vinnumarkaði.

Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skipa nefnd til að fara yfir núgildandi lög um Kjaradóm og kjaranefnd og að sú nefnd eigi að skila tillögum svo fljótt sem auðið er. Í því ljósi er í frumvarpinu ekki lagt til að takmarka lengur en út árið 2006 þær forsendur sem Kjaradómi og kjaranefnd er ætlað að starfa eftir. Á þeim tíma má ætla að annað tveggja hafi gerst: þeim viðmiðunum sem Kjaradómi og kjaranefnd sé ætlað að fylgja í launaákvörðunum sínum hafi verið breytt eða ákveðið hafi verið að láta þær haldast óbreyttar.

Virðulegi forseti. Ég er kominn að lokum máls míns og að þessum orðum töluðum legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.



[14:12]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er mikið vandræðamál sem við erum með hér til umfjöllunar, sem er úrskurður Kjaradóms, sem kallar nú á frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Eru þingmenn komnir í þá aðstöðu að véla hér um sín eigin laun og það hafa þeir líklega ekki gert síðan 1992 eða í tæp 14 ár.

Það er dálítið merkilegt að litast hér um bekki í þingsalnum og sjá það að hér er aðeins einn ráðherra mættur, hæstv. fjármálaráðherra Árni Mathiesen, en engir aðrir ráðherrar og afskaplega fáir þingmenn. Ég vek athygli á þessu, virðulegur forseti, vegna þess að ég tel að það mál sem hér er á ferðinni og upphaf þess megi rekja til aðgerða ríkisstjórnarinnar og málið sé á hennar ábyrgð og það sé á ábyrgð þingmanna stjórnarliðsins, m.a. hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar sem oft hefur haft hátt um laun þegar þau hafa verið hækkuð hjá láglaunafólki í landinu. Það sem hefur verið að gerast í Kjaradómi er á þeirra ábyrgð vegna þess að það endurspeglar þróun sem hefur átt sér stað inni í ráðuneytum og stofnunum ríkisins. Ég mun koma að því síðar, virðulegi forseti. En ég vil segja það svo að ég gæti nú alls réttlætis af því að ég kallaði hér eftir stjórnarliðum og nefndi þingmanninn Einar Odd Kristjánsson í því sambandi að hann situr hér í hliðarsal þannig að því sé nú til skila haldið. (Gripið fram í: Og hægra megin við þig.) Og hægra megin við mig.

Kjaradómur kvað upp umdeildan úrskurð 1992, eins og ég kom inn á áðan. Það eru því orðin 13 ár síðan þingmenn voru síðast að véla um kjör sín. Þá voru sett bráðabirgðalög á þann úrskurð Kjaradóms, það er viss samsvörun þarna á milli. Núna stendur til að setja lög á þingi en þá voru sett bráðabirgðalög á úrskurðinn. Í kjölfar þess úrskurðar var skipuð nefnd og síðan samþykkt ný lög um Kjaradóm og kjaranefnd á Alþingi. Nú er sagan sem sagt að endurtaka sig þó að í aðeins breyttri mynd sé.

Mig langar aðeins að fara lítillega yfir lögin um Kjaradóm og kjaranefnd og þær forsendur sem lágu þeirri lagasetningu til grundvallar árið 1992 vegna þess að ég tel að það skipti máli fyrir umræðuna. Fyrirkomulagið sem haft er á þessum hlutum er um margt ágætt. Lögin sem sett voru 1992 voru um margt ágæt. Að vísu var það gagnrýnt við þá lagasetningu að þessu skyldi vera tvískipt. Annars vegar sé Kjaradómur og hins vegar kjaranefnd. Það var gagnrýnt og talið að þetta ætti að vera ein og sama stofnunin en fyrir þessari tvískiptingu voru ákveðin rök. Kjaradómur úrskurðar nefnilega án samráðs eða málflutnings. Hann fellir einfaldlega úrskurð um kjör þeirra sem undir hann heyra. Í kjaranefnd hins vegar getur farið fram málflutningur að vissu leyti. Einstaklingar og stéttir geta lagt fram sjónarmið sín hjá kjaranefnd og sótt til kjaranefndar leiðréttingu á kjörum sínum. Þarna er munurinn, að Kjaradómur úrskurðar einhliða en í hinu tilvikinu er hægt að sækja og flytja sitt mál.

Í því felst væntanlega líka það að undir Kjaradómi á að vera miklu takmarkaðri hópur. Hugmyndin upphaflega 1992 var sú að þarna væru bara þingmenn og þar af leiðandi ráðherrar, sem eru jafnframt þingmenn, hæstaréttardómarar og héraðsdómarar og aðrir ekki. Það væru einvörðungu þessir aðilar sem heyrðu undir Kjaradóm, þeir sem ekki væri viðunandi að sæktu kjör sín til framkvæmdarvaldsins, til ríkisstjórnar eða ráðuneyta. Þessu var hins vegar breytt í meðförum þingsins og hópurinn stækkaður. Kannski voru það mistök af hálfu þingsins á sínum tíma þegar lögin voru sett.

Fróðlegt er að skoða ræðu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra um þetta mál. Í ræðu ráðherrans kemur m.a. fram þessi munur sem er á ákvæðunum um Kjaradóm og kjaranefnd. Í ræðu þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, Friðriks Sophussonar, kemur einnig fram að þrengja eigi þann hóp sem Kjaradómur taki til og hann skuli aðeins vera einhverjir sem ekki geta heyrt beint undir framkvæmdarvaldið.

Í ræðu hæstv. þáverandi fjármálaráðherra kemur líka fram að viðmiðunin sem Kjaradómi er þá sett er breytt á þann veg að í stað afkomuhorfa þjóðarbúsins skuli Kjaradómur taka tillit til almennrar launaþróunar á vinnumarkaði. Viðmiðuninni var sem sagt breytt og hún ætti að vera um almenna launaþróun á vinnumarkaði en ekki afkomuhorfur í þjóðarbúinu.

Þegar grannt er skoðað kemur einnig fram að munur er á ákvæðum um Kjaradóm og kjaranefnd hvað það varðar að Kjaradómur á að taka tillit til þróunar kjara á vinnumarkaði en kjaranefnd ekki. Ekki eru sömu skilyrði varðandi kjaranefndina. Þetta er auðvitað mikilvægt að hafa í huga þegar verið er að fjalla um þetta mál.

Í 5. gr. laganna segir, með leyfi forseta.

„Við úrlausn mála skal Kjaradómur gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem hann ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

En kjaranefnd er ekki með þetta ákvæði. Þar segir að kjaranefnd skuli gæta þess að laun þeirra sem undir hana heyra séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar og samræmi sé milli þeirra og þeirra launa hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga eða Kjaradóms. Sem sagt, þar er ekki sama viðmiðun við vinnumarkaðinn og er hjá Kjaradómi. Þetta er mikilvægt að haft sé í huga vegna þess að segja má að með þessu sé Kjaradómi ætlað ákveðið pólitískt tillit, honum sé ætlað að sýna vissa aðgát. Það má því að vissu leyti gagnrýna Kjaradóm fyrir að gera það ekki í því máli sem hér er til umfjöllunar því að Kjaradómur hefur stundum gert það. Í a.m.k. einu tilviki sem vitað er hefur hann gert það, tekið ákveðið pólitískt tillit sem orkar tvímælis. Það var í janúar 2004 þegar hann hefði með réttu átt að úrskurða 3% hækkun en gerði það ekki vegna þess að umræða sem fór fram í desember í þinginu um eftirlaunamál þingmanna vakti mikinn óróa og óánægju í samfélaginu. Það var ákveðið pólitískt tillit sem Kjaradómur tók þá þegar hann úrskurðaði ekki um þau 3%. Þau 3% tekur hann hins vegar inn núna í úrskurði sínum sem mér finnst orka tvímælis fyrst það var ekki gert á þeim tíma, þá hafi það bara átt að vera niður fallið. Hins vegar hefur Kjaradómur sagt að honum beri ekki að taka slíkt pólitískt tillit og eigi að úrskurða í samræmi við forsendurnar eins og þær eru í lögunum.

Það sem bæði Kjaradómur og kjaranefnd eiga að gera er að gæta innbyrðis samræmis í launakjörum við þá viðmiðunarhópa sem þar er eðlilegt að séu. Kjaradómur skoðar hvað kjaranefnd hefur verið að gera og kjaranefnd skoðar aftur hvað hefur verið að gerast í ráðuneytum og stofnunum sem undir ráðherrana heyra og síðan úrskurðar kjaranefnd í samræmi við þá þróun eins og henni ber og Kjaradómur úrskurðar líka í samræmi við þá þróun eins og Kjaradómi ber. Einbjörn togar í Tvíbjörn sem togar í Þríbjörn og allt í einu verður lýðum ljóst hvað þarna er á ferðinni, hvað þarna var að gerast í ríkisstofnunum og ráðuneytum og allt springur í loft upp. Það er ekki við Kjaradóm sem slíkan að sakast. Hann er í rauninni boðberi tíðinda og tíðindin eiga rót sína að rekja í ráðuneytunum sem eru auðvitað á forræði ráðherranna og á þeirra ábyrgð.

En þegar það gerist og þetta springur í loft upp og verður lýðum ljóst þá heyrist óp að vestan. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kemur fram og krefst þess að boðberi hinna válegu tíðinda, svo ég taki mér skáldaleyfi, verði hengdur fyrir það sem hann bar á borð fyrir þjóðina. Og það er stundum að þegar stigið er fast til jarðar í Reykjavík og ekki síst í ráðhúsinu þá heyrist óp að vestan. Stigið er fast til jarðar í Reykjavík og óhljóð heyrist frá Flateyri. Það var náttúrlega þannig þegar Reykjavíkurborg og borgarstjórnin í Reykjavík reið á vaðið og hækkaði laun hinna lægst launuðu í kjarasamningum, kom til móts við þá hópa, þá heyrðust mikil hljóð úr því horni.

Það sem borgarstjórinn í Reykjavík gerði var að gera kjarasamninga við lægst launaða starfsfólk borgarinnar algerlega opinskátt, það var allt uppi á borðinu, lá allt ljóst fyrir. Það sem hefur hins vegar verið að gerast í stofnunum ríkisins og ráðuneytum er að þar hefur verið vílað og dílað um kaup og kjör og það er allt meira og minna undir yfirborðinu sýnist manni á því sem hér er á ferðinni. Að samningar hafi verið gerðir milli forstöðumanna og starfsmanna með vitund og vilja ráðherra og þess vegna eru það ráðherrarnir sem bera ábyrgð á málinu en ekki Kjaradómur og þeir ættu auðvitað að sitja hér og taka þátt í þessari umræðu og segja okkur hvað þeir hafa verið að gera í ráðuneytunum.

Nú má ekki líta þannig á orð mín að ég telji að þeir starfsmenn ráðuneytanna sem hafa verið að fá kjarabætur í gegnum einhverjar slíkar aðgerðir séu ekki vel að sínum launum komnir, því að verður er verkamaðurinn launanna og það á jafnt við um ófaglærða starfsfólkið á leikskólum Reykjavíkurborgar og þar gilda sanngirnissjónarmið fyllilega eins og það á við um fólk í ráðuneytum ríkisins. En launastefna ríkisins verður að vera skýr. Um hvað ætlum við að sameinast í launamálum? Hver er stefnan í kjarasamningum? Með hvaða boðskap fer ríkið inn í kjarasamninga? Hverju vill það ná fram í kjarasamningum við þá sem það stendur í samningum við? Hvernig er framkvæmdin í launamálum? Hvernig lítur launastefna ríkisins út? Það þarf auðvitað að vera uppi á yfirborðinu þannig að hægt sé að gegnumlýsa þau laun sem samið er um. Hvernig sem um þau er samið þá þarf það að vera uppi á borðinu.

Ríkisstjórnin hefur kallað eftir ábyrgð almenns launafólks og hún hefur kallað eftir ábyrgð verkalýðshreyfingarinnar vegna þess efnahagsástands sem núna er. En síðan fara menn heim í ráðuneyti sín og aðhafast eitthvað allt annað og vísa frá sér ábyrgð þegar þeir eru í raun staðnir að verki. Það eru þeir sem eru staðnir að verki en ekki Kjaradómur.

Það hefur verið þannig hjá ríkisstjórninni að hún hefur oft talað í þá átt að hún hafi sýnt skilning á kjörum hinna lægst launuðu en það er bara í orði en ekki á borði. Það er viðvarandi gliðnun í samfélaginu og hún heldur áfram. Hægt er að fara yfir það m.a. hvernig það birtist okkur í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur um hvernig skattbyrðin hefur verið að þróast á undanförnum árum þar sem skattbyrðin er að þyngjast á hinum lægst launuðu og þeim sem eru með meðallaunin og léttast á þeim sem eru með hæstu launin. Þar kemur líka fram að ekki bara að raungildi heldur í krónum talið hafa framlög til barnabóta og vaxtabóta til þeirra sem eru með mestu framfærslubyrðina verið að minnka. Það er því víða hægt að bera niður í þessu sambandi. Hægt er að bera niður í launastefnunni, skattstefnunni, byggðastefnunni og allt ber að sama brunni, það dregur í sundur með fólki í landinu. Við getum líka talað um aldraða og öryrkja því ég þykist vita að allir þingmenn í salnum hafi fengið ótal bréf frá öldruðum og öryrkjum að undanförnu, ótal símhringingar yfir því hvernig málum er fyrir komið í þjóðfélaginu. Við þurfum ekki annað en lesa öll lesendabréfin í blöðunum núna. Ég hef sjaldan upplifað eins mikla óánægju og eins mikla reiði hjá þessum hópum og núna kraumar undir yfirborðinu.

Það er auðvitað spurning hvenær þjóðinni verður nóg boðið. Stundum er þjóðinni nóg boðið og þá grípur hún til sinna ráða. Ég minni í því sambandi á þegar þjóðinni fannst að það væri aðför að lýðræðisvitund hennar í gangi 2004, þá greip hún til sinna ráða og stöðvaði það sem þar var að gerast.

Þjóðin upplifði líka aðför gegn sómatilfinningu sinni, gegn siðferðiskennd sinni í fréttaflutningi DV núna á dögunum og þjóðin greip til sinna ráða. Spurningin er hvenær þjóðinni finnst að aðförin að réttlætiskenndinni hafi gengið of langt og grípi þá til sinna ráða. Mætti segja mér að ekki væri mjög langt í það miðað við hvernig þetta birtist okkur og hlýtur að birtast öllum þingmönnum hvort sem þeir eru í stjórnarandstöðu eða stjórnarliði þessa dagana. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á þessari gliðnun, ríkisstjórnin ber ábyrgð á því hvernig hefur dregið sundur með fólki. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á úrskurðinum, ríkisstjórnin ber líka ábyrgð á því klúðri sem þessi úrskurður lenti í því stjórnarandstaðan bauð upp á það að þing kæmi saman fyrir áramót og við þyrftum ekki nema 1–2 klukkutíma til að fresta þessu máli þannig að hækkunin kæmi aldrei til framkvæmda. Það er miklu verra að eiga við málið þegar hækkunin hefur orðið og þurfa að taka hana til baka heldur en ef hún hefði aldrei komið til framkvæmda. Þá hefði mönnum gefist meira tóm til að fara yfir þetta og gaumgæfa hvernig við gætum tekið á þessu, með hvaða hætti við gætum breytt lögunum um Kjaradóm og kjaranefnd og látið Kjaradóm úrskurða að nýju um þessa hluti. En ríkisstjórnin kaus að hafa ekki samráð við stjórnarandstöðuna, kaus að fara sínar eigin leiðir í þessu efni. Að vísu sagði forsætisráðherra að hann hefði skrifað bréf til Kjaradóms, haft samráð um það við stjórnarandstöðuna og formenn stjórnarandstöðuflokkanna og formenn þingflokka stjórnarandstöðunnar. Það samráð fólst í símhringingu þar sem tilkynnt var að ríkisstjórnin hygðist fara þessa leið og mundi segja ASÍ og Samtökum atvinnulífsins það á fundi þann sama dag. Það kalla ég ekki samráð vegna þess að samráð felst í því að menn setjist yfir málið, átti sig á hvaða leiðir er hægt að fara í því og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Það er samráð. Hitt er bara tilkynning um hvernig menn hyggist standa að verki.

Virðulegur forseti. Þetta mál allt saman er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hún hefur haldið klúðurslega á málinu eftir að það kom fram og það sem manni sýnist vera að endurspeglast í úrskurði Kjaradóms eru einfaldlega launaákvarðanir og launabreytingar sem hafa átt sér stað í ráðuneytum og stofnunum ríkisins sem kjaranefnd og Kjaradómur voru einfaldlega að fylgja eftir í samræmi við þau lög sem um þetta gilda þó að á hitt megi svo aftur fallast að vissulega beri Kjaradómi að sýna vissa aðgát í þessum efnum eins og lagaákvæði um hann ber vott um.



[14:30]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eftir að hafa hlustað á hv. þingmann tala í 15 mínútur þá brennur ein spurning á vörum mínum. Hvað var það sem hv. þingmaður vildi sagt hafa? Hvað í ósköpunum var það? Styður hv. þingmaður þetta frumvarp sem liggur fyrir Alþingi? Ef hún styður það, af hverju styður hún það? Það væri fróðlegt fyrir þingmenn og þjóðina að heyra það. Eða styður hún það ekki? Er hún á móti frumvarpinu? Það væri þá fróðlegt fyrir þingheim og þjóðina að frétta hvers vegna. Það væri nú gaman ef það gæti komið fram hvort hún styddi það eða hvort hún væri á móti því.



[14:31]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ákveð auðvitað sjálf hvernig ég haga málflutningi mínum í ræðustóli þingsins. Og ég ákveð auðvitað sjálf hvort ég kýs að nota þetta tækifæri til að gegnumlýsa þann tvískinnung sem einkennir stjórnarstefnuna og þá gliðnun sem stjórnarstefnan hefur valdið í landinu. Þetta mál mun að sjálfsögðu fara til þingnefndar. Ég geri ráð fyrir að það fari til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem ég á sæti og mun fjalla um málið og mun að sjálfsögðu kalla eftir þeim upplýsingum sem við þurfum til að taka afstöðu til málsins. Það kann vel að vera að niðurstaða mín verði sú að betra sé að fara aðrar leiðir að þessu máli en hér er lagt til. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að við þingmenn eigum ekki að taka þá launahækkun sem þarna er um að ræða. Það er afstaða mín. Við eigum að afsala okkur henni með lögformlega réttum leiðum. Spurningin snýst um hvaða leiðir eru bestar í því efni.



[14:33]
Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað ákveður hv. þingmaður það sjálf hvað hún segir eða hvaða afstöðu hún hefur. Það var ekki nýtt í þessu máli. Mér datt bara í hug að hitt hefði verið fróðlegt fyrir þingheim að frétta hver afstaðan væri. Kannski er hún engin eins og oft kemur fram þegar við horfum á gulu takkana hér, gulu ljósin. Engin afstaða. Það kæmi mér ekki á óvart að það yrði niðurstaðan hér.

En menn virðast algerlega hafa gleymt því um hvað málið fjallar. Það er talað um að einhver öskur og óp hafi komið frá Flateyri. Það er mjög rangt. Þetta mál fjallar um það að við sem þingheimur eigum að reyna að sýna einhvern trúverðugleika. Reyna að lafa í því að hafa einhvern trúverðugleika gagnvart þjóðinni ef þess væri einhver kostur. (Gripið fram í: Hvar varst þú í ...?) Það var það sem um var rætt. Það var það sem um var að ræða. (Gripið fram í.) Ég hef tekið til máls árum saman um launamál á Íslandi. Allir ættu að vita það sem rekur minni til þess nema sumir sem eru svo minnislausir eins og borgarstjórinn í Reykjavík sem man ekkert um það. Ég hef tekið til máls og alltaf á sama hátt, ég vara við þeirri launaþróun sem er hér á landi. Ég hef varað við því að skerða kjör og möguleika Íslendinga með því að fara svo óvarlega sem raun ber vitni, að hækka hér laun langt umfram framleiðniaukningu iðnaðarins. Þetta hef ég gert árum saman og því miður, virðulegi forseti, hafa mjög fáir tekið undir það. Aldrei hef ég fengið neinn stuðning frá stjórnarandstöðunni og kannski ekki heldur frá eigin liðsmönnum. Þetta er vandamálið sem við stöndum frammi fyrir. Um það fjallar þetta frumvarp. Því vona ég að menn hafi manndóm í sér til að styðja það.



[14:34]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og kom fram í svari mínu áðan er afstaða mín í málinu algerlega skýr, þ.e. þingmenn eiga ekki að fá til sín þá hækkun sem þessi úrskurður gerði ráð fyrir. Spurningin er hins vegar hvaða aðferð er hægt að nýta í því efni og þar er ekki allt leyfilegt. Það er ekki leyfilegt t.d. að sveigja og beygja stjórnarskrá ef um það er að ræða. Það er ekki leyfilegt að taka jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og gera ekkert með hana þó svo að við viljum ná fram einhverju tilteknu máli. Þetta verðum við að skoða í tengslum við þetta mál og þetta munum við skoða í efnahags- og viðskiptanefnd.

Sýna trúverðugleika, sagði þingmaðurinn Einar Oddur Kristjánsson. Gott. Sýna trúverðugleika. Ég veit vel að þingmaðurinn hefur staðið hér oft og talað um launamál. Hann hefur oft talað um að menn fari hér offari í ýmsum efnum. En hvar hefur varaformaður fjárlaganefndar verið þegar þessir hlutir hafa verið gerast í stofnunum ríkisins og í ráðuneytum ríkisins? Hann er ekki bara þingmaður að vestan, hann er varaformaður fjárlaganefndar. Hvað heldur þingmaðurinn að endurspeglist t.d. í fjáraukalögunum á hverju ári, í allri þessari miklu framúrkeyrslu í fjáraukalögunum? Hvað heldur þingmaðurinn að þar sé á ferðinni annað en það að menn halda sig ekki við þær forsendur sem gefnar voru í upphafi, m.a. í launamálum? Það hefði varaformaður fjárlaganefndar náttúrlega átt að skoða sérstaklega en standa ekki og æpa að borgarstjóranum í Reykjavík sem gerir kjarasamning fyrir algerlega opnum tjöldum og þar sem hlutirnir fara ekki fram úr áætlunum með þeim hætti sem gerist hjá ríkinu.



[14:36]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir notaði hér margoft í ræðu sinni sérkennilegt orðalag þegar hún talaði um að þingheimur hafi verið að véla um eitthvað í þessu máli. Þingheimur hefði verið að véla um mál. Hún talar líka um tvískinnung. Það vakti mig til umhugsunar um hvernig atkvæðagreiðslan fór árið 1992 þegar afgreidd voru lög um Kjaradóm og kjaranefnd. Þá kom í ljós að 45 þingmenn greiddu málinu atkvæði, níu greiddu ekki atkvæði, þar af fjórar kvennalistakonur. Þannig var nú atkvæðagreiðslan. Þetta er sú vélun sem hv. þingmaður talar hér um. Það var einróma vilji þingmanna að leysa það deilumál með þessum hætti. Ég get að einu leyti tekið undir með hv. þingmanni um það sem snýr að vinnubrögðum Kjaradóms. Ég er fyllilega sammála Kjaradómi að frá þessu máli varð ekki snúið með neinum hætti. Hann hefði gert lítið úr sínum eigin störfum og lögin voru alveg skýr um hvernig hann átti að vinna. En orðalag hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þegar hún segir að þingmenn séu að véla um málið er náttúrlega alveg fyrir neðan allar hellur.



[14:38]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að fá málfarsráðgjöf í ræðustól Alþingis frá hv. þm. Guðmundi Hallvarðssyni. Ég hef aldrei litið svo á að það að véla um hluti væri nokkuð neikvætt. Ég lít bara svo á að það merki að starfa að málum. Alþingi starfaði að þessu máli, Alþingi hafði skoðun á því. Það er ekkert neikvætt í því, hv. þingmaður, að þingið véli um mál. Það er bara góð og gild íslenska og í því felst bara að Alþingi starfi að máli og fjalli um það, sem það og gerði. Þá var það skoðun okkar sem vorum í Kvennalistanum, og fyrir því talaði m.a. þingkonan Kristín Ástgeirsdóttir, að ekki bæri að skilja Kjaradóm og kjaranefnd svona að, það bæri að hafa þetta í einni heild, og það er það sem menn tala um í dag að hafi kannski verið mistökin á sínum tíma. Ég veit ekki betur en að það hafi m.a. komið fram hjá Kjaradómi sjálfum núna í þeirri greinargerð sem hann gaf út að kannski hefði verið betra að hafa þetta í einni heild. Eða þá hitt, sem ýmsir töluðu um á þeim tíma, að hafa hópinn mjög þröngan sem Kjaradómur væri — ég þori ekki að segja véla — að fjalla um. Um þetta voru skiptar skoðanir á þeim tíma. Og það er að koma á daginn að kannski voru ýmsar breytingar sem þingið gerði frá því að frumvarpið var lagt fram ekki til bóta.



[14:40]
Guðmundur Hallvarðsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sá að hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hljóp út í horn í þingsalnum og ræddi við mikinn íslenskufræðing um það hvort hún hefði haft rétt eða rangt fyrir sér. Það er nú bara svo að þetta orðatiltæki að véla þýðir að afvegaleiða eða blekkja. Það er einmitt þannig sem hv. þingmaður hefur talað í ljósi þeirra staðreynda sem hér liggja fyrir að það voru 45 þingmenn sem samþykktu lögin á sínum tíma.



[14:40]
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að fara að leggjast í miklar orðskýringar í ræðustól Alþingis. Mér fannst að málvitund mín í þessu efni væri rétt og fór þess vegna og bar mig saman við okkar ágæta íslenskufræðing, Mörð Árnason, í þessum efnum og fékk staðfestingu hans á því. En ég held að við ættum að vera í efnisumræðu um málið en ekki í orðaskaki af þessum toga.



[14:41]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Eins mótsagnakennt og það kann að hljóma þá er það að vissu leyti gott að þetta leiðinlega klúðursmál skuli hafa komið fram. Vegna þess að það hefur þegar orðið og á enn eftir að verða tilefni til að þjóðin gaumgæfi þá kjaraþróun sem er að verða á Íslandi og hefur orðið á Íslandi á undanförnum árum. Þetta mál hefur orðið til þess að veita okkur innsýn í þjóðfélagið að þessu leyti. Ákvörðun Kjaradóms í lok desembermánaðar olli mikilli reiði í þjóðfélaginu. Hvers vegna? Vegna þess að Kjaradómur hafi ekki farið að lögum? Var það vegna þess að menn töldu að hann hefði ekki hlýtt þeim reglum sem honum voru settar? Ég held að reiðin hafi ekki orðið til að þeim sökum, því að í 5. gr. laga um Kjaradóm og kjaranefnd eru þessar reglur skilgreindar á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Við úrlausn mála skal Kjaradómur gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem hann ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

Ég held að hjá mjög mörgum sé sá skilningur lagður í þessi orð að sambærileg störf vísi til stöðu innan fyrirtækja og innan stjórnsýslunnar. Það er hinn almenni skilningur á því sem hér stendur. Þegar þróun kjara þeirra hópa er skoðuð, hvort sem er hjá ríkinu eða fyrirtækjum á markaði, þá hefur hún orðið umtalsvert meiri, þ.e. hækkanir hafa orðið umtalsvert hærri hjá þessum hópum en öðrum í þjóðfélaginu. Að þessu leyti endurspeglar Kjaradómur eða ákvörðun hans þann veruleika. Menn eru ekki að reiðast út af þessu. En síðan er á hitt að líta að leggja má annan skilning í orðin sambærileg störf og sambærilega ábyrgð. Hvor ber meiri ábyrgð, heilaskurðlæknir á sjúkrahúsi eða matráðskonan? Heilaskurðlæknirinn hefur einn mann undir hnífnum hverju sinni en matráðskonan ber ábyrgð á heilsu alls sjúkrahússins, allra þeirra sem þar eru og getur valdið umtalsvert meiri heilsufarslegum usla á stofnuninni ef út í þá sálma er farið. Hvor ber meiri ábyrgð?

Og hvað með ábyrgð þeirra sem sinna fötluðu fólki eða öldruðum á hjúkrunarheimilum og þurfa að vaka yfir þeim mörgum hverjum veikum og ósjálfbjarga allan sólarhringinn alla daga ársins? Hvor ber meiri ábyrgð, sá aðili eða forstjóri í fyrirtæki, svokallaðir stjórnendur? Það er þetta sem þjóðin er að horfa á. Hún er að horfa á þá gliðnun sem er að verða á milli þeirra sem stýra fólki og peningum og axla þess konar ábyrgð og hins vegar hinna sem sinna öðrum verkefnum og þurfa að sönnu að axla sína ábyrgð sem að mínum dómi er ekki minni. Þegar ákvörðun Kjaradóms varð lýðum ljós í desembermánuði þá varð hún táknræn um þessa gliðnun í samfélaginu og fólk reis réttilega upp.

Það hefur stundum verið sagt að það sé mjög mikilvægt að alþingismenn, ráðherrar og dómarar séu á mjög háum launum. Ég held að það sé mikilvægt að allir búi við góð kjör, þingmenn, dómarar og ráðherrar, en það á að sjálfsögðu við um aðrar stéttir líka. Ég vísaði til þeirra sem sinna fötluðum, sem sinna erfiðum störfum á sjúkrahúsum eða annars staðar í þjóðfélaginu, á sjó og landi. Ég held að það skipti máli að alþingismenn séu í talsambandi við þorra þjóðarinnar að þessu leyti og það verða þeir því aðeins að þeir deili kjörum með fólki eins og þau eru almennust. Ef menn trúa því virkilega að það safnaðist meiri úrvalssveit en hér er til staðar á þingi núna með því að stórhækka laun þingmanna þá held ég að það sé mikill misskilningur. Ef við horfum inn í fyrirtæki landsins, horfum á þetta fólk sem hefur tekist að klóra til sín milljónir og jafnvel tugi milljóna á mánuði, þá gef ég ekki mikið fyrir þann mannskap. Reyndar gef ég ekki mikið fyrir þá sem stýra núna þjóðarskútunni og vilja firra sig allri ábyrgð á því sem er að gerast. Eða vilja menn heyra hvað hæstv. viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir sagði í morgunútvarpi Ríkisútvarpsins 6. janúar?

Hún sagði um hið nýja Ísland launamisréttisins, með leyfi forseta:

„Já, ég er náttúrlega hissa og ég geri mér grein fyrir því að fólki ofbýður dálítið að þetta skuli vera orðið hið nýja Ísland, að laun forstjóra séu orðin svona há. Það er ósköp eðlilegt að fólki ofbjóði en hins vegar er þetta náttúrlega mál sem stjórnmálamenn geta ekki haft áhrif á að öðru leyti en því að setja ákvæði í lög eins og ég mun beita mér fyrir.“

„Eins og ég mun beita mér fyrir.“ En hæstv. ráðherra hefur beitt sér fyrir lagasetningum og keyrt þær í gegnum þingið í tíu ár og afleiðingarnar birtast okkur öllum stundum. Hvernig? Þær hafa birst okkur í skattkerfisbreytingum ríkisstjórnarinnar og við höfum farið yfir það reglulega, t.d. fyrir rétt rúmu ári þegar breytingar voru gerðar á tekjuskattskerfinu og eignarskattskerfinu. Þar kom í ljós að einstaklingur með eina milljón kr. í mánaðartekjur eykur ráðstöfunartekjur sínar um 12,4% vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar á meðan láglaunamaðurinn eykur þær um 7,7%, þ.e. einstaklingur með 100 þús. kr. Reyndar er það svo að þeir sem minnstar hafa tekjurnar eru núna farnir að greiða skatta sem þeir gerðu ekki áður. Lækkun tekjuskatta ofan á niðurfellingu hátekjuskatts í áföngum, sem þegar er lögfest og kemur til framkvæmda á þessu kjörtímabili, veldur því að einstaklingur með 12 millj. kr. árstekjur kemur til með að hagnast um eina millj. kr. á ári vegna tekjuskattsbreytinga ríkisstjórnarinnar. Og eins og ég gat um áðan er ávinningur þessa einstaklings 12,4% hærri ráðstöfunartekjur en hann hefur nú.

Í þessu samhengi höfum við ítrekað ábendingar Öryrkjabandalags Íslands að sú breyting hafi orðið á högum öryrkja að lífeyrisþegi sem ekkert hefur nema bætur almannatrygginga sé nú farinn að greiða jafngildi tveggja mánaða útborgunar á ári hverju í beina skatta. Enn augljósari er ávinningur hátekju- og stóreignafólks af niðurfellingu eignarskatts. Fram hefur komið að einstaklingar sem eiga skuldlausa fasteign á bilinu 50–100 millj. kr. greiða að meðaltali 385.749 kr. í eignarskatt. Þeir sem eiga skuldlausa eign að verðmæti meira en 100 millj. kr. greiða sem nemur að meðaltali 895.187 kr. Það er skattapakki ríkisstjórnarinnar sem kemur þessum hópum, hátekjufólkinu og stóreignafólkinu vel.

Í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum við verið því fylgjandi að breyta eignarskattinum þannig að skattviðmið verði hækkað verulega en að stóreignamenn verði hins vegar ekki undanþegnir skatti. Út á þetta ganga tillögur okkar. Við viljum létta sköttum af þeim sem ekki eru aflögufærir en láta hina sem mala gullið greiða af eignum sínum og tekjum og við höfum flutt tillögur í þá átt. Þetta er eitt af lagaákvæðunum sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra vísar til.

Annað sem ríkisstjórnin hefur gert er að taka stofnanir og umbreyta þeim í hlutafélög. Það hefur aukið á kjaramismun í þjóðfélaginu. Forstöðumenn, forstjórarnir og sá hluti stjórnsýslunnar sem er í þeim fyrirtækjum hefur stóraukið tekjur sínar en hinir lægstu hafa staðið í stað og í sumum tilvikum hafa tekjur þeirra lækkað að raungildi, ég get komið með dæmi um það ef menn óska eftir þess.

Síðan er á það að líta að þegar litið er á kjarasamninga ríkisins við opinbera starfsmenn þá hefur hlutfallslega verið gert betur við þá sem hafa hærri tekjurnar og hærri launin en hina sem eru á meðaltekjum eða á lægstu laununum. Þetta eru staðreyndir og þetta eru gjörðir ríkisstjórnarinnar.

Það er annað sem ég hef staldrað við í umfjöllun ríkisstjórnarinnar eða fulltrúa hennar og stjórnarmeirihlutans um þessi mál og það kom einnig fram í tali bankamálaráðherrans, viðskiptaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, í morgunútvarpinu 6. janúar. Þar kom fram að það er ekki misréttið sjálft heldur upphlaupin sem verða þegar fólk áttar sig á misréttinu sem valda ríkisstjórninni og atvinnurekendasamtökunum áhyggjum, ekki misréttið sjálft, heldur að fólk skuli koma auga á það.

Hæstv. ráðherra sagði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Svo er það sem hefur verið bent á að þarna sé um fyrirtæki að ræða sem séu að starfa á alþjóðamarkaði og það má rétt vera að svo sé og er rétt. Engu að síður þá þarf að koma alla vega þessum málum í þann farveg að það verði ekki þetta upphlaup í þjóðfélaginu þegar eitthvað svona kemur upp og þá held ég að ráðið sé það að hluthafarnir beri ábyrgð, að það séu hluthafarnir í viðkomandi fyrirtæki sem beri ábyrgð.“

Hér er verið að vísa í umræðu sem varð í tengslum við starfslokasamninga hjá FL Group, sem ég held að það heiti núna, gamla flugfélagið okkar. Það þarf sem sagt að koma í veg fyrir upphlaup í þjóðfélaginu og það er það sem segir einnig í 1. gr. í því frumvarpi sem við erum að ræða hér. Þar er vísað í það að þess skuli gætt að það valdi ekki röskun á vinnumarkaði. Þá eru menn að horfa á mótmæli sem verða í þjóðfélaginu og þá hættu að kjarasamningum verði sagt upp þegar möguleikar eru á því. Það er í þessa veru sem ríkisstjórnin er nú byrjuð að spinna sig áfram í þessum málum.

Hafa menn tekið eftir því að þau frumvörp sem hafa komið fram að undanförnu um nýjar opinberar stofnanir, einkum þær sem sinna fjármálaumsýslu af einhverju tagi, að æðstu stjórnendur, stjórnendur fyrirtækisins eru teknir út úr, ekki bara kjarasamningsumhverfinu heldur eru þeir líka teknir undan kjaranefnd og Kjaradómi? Hvers vegna? Vegna þess að það á að vera hægt að borga þeim hærri laun, enn hærri en kjaranefnd og Kjaradómur mundi ákvarða og það sem er enn betra, það er hægt að fela ákvörðunina. Þetta á að vera samningsatriði milli stjórnar, stofnunar og æðstu stjórnenda. Þetta var t.d. gert með nýjum lögum um Fjármálaeftirlitið. Þetta var gert með lögum um Íbúðalánasjóð og fleiri stofnanir. Með öðrum orðum, í þeim anda að ekki megi valda röskun og uppþotum þá segir ríkisstjórnin að það eigi að fela þessar ákvarðanir.

Ég hef verið talsmaður þess og flutti um það þingmál árið 1995 að ákvarðanir um launakjör alþingismanna og ráðherra eigi að taka hér í þessum sal og menn hafa sagt: Það er mjög erfitt. En er ekki líka erfitt að ákvarða kjör öryrkja eða kjör atvinnulausra? Er það ekki erfitt líka? Og það reyndist mönnum nú ekki ofviða að taka ákvarðanir um eigin eftirlaunakjör, um lífeyrisfrumvarpið, það gerðu menn. Það sem fylgdi í kjölfarið var umræða vegna þess að fólk gerði sér grein fyrir því að ábyrgðin var hér og það er mikilvægt að það sé alltaf ábyrgð á bak við þær ákvarðanir sem eru teknar um umdeild og umdeilanleg mál. Það er gert í kjarasamningum. Þar eru atvinnurekendur annars vegar og það eru verkalýðsfélögin hins vegar, samningar eru bornir undir atkvæði. Það er hægt að setja forsvarsmenn beggja aðila af ef því er að skipta.

En hér erum við búin að búa til einhvern óskapnað sem heitir kjaranefnd og Kjaradómur og sumir vilja kalla dómstól, sem er náttúrlega enginn dómstóll, þetta er nefnd í stjórnsýslunni sem heitir þessu nafni en er nú ekki virðulegri en svo að þetta er bara ósköp venjuleg nefnd sem starfar samkvæmt lögum og þau lög eru meira að segja mjög matskennd, eins og ég gat um hér áðan. Ég held að það væri miklu hreinna að taka þessar ákvarðanir inn í þingið að nýju.

En hér tala ég sem einstaklingur og ekki fyrir hönd flokks. Ég held reyndar að þessi mál séu í eðli sínu þverpólitísk. Ég held að fólk hafi mismunandi skoðun á þessu í öllum flokkunum. En um hitt erum við sammála í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og ég hygg að það eigi við um stjórnarandstöðuna almennt, að gjörðir ríkisstjórnarinnar á undangengnum tíu árum hafa leitt til aukins kjaramisréttis í þjóðfélaginu og ákvörðun Kjaradóms núna um kjör þingmanna, ráðherra, dómara, forseta og annarra sem hann tekur til eða ákvarðanir hans taka til, endurspegla reiði fólks vegna þess sem hér er að gerast, þar sem einstaklingar eru að kaupa og selja í fyrirtækjum fyrir mörg þúsund milljónir. Er að undra þótt mönnum blöskri og ofbjóði? Það eru hins vegar þingmenn og ráðherrar sem eru gagnrýndir fyrir þessa þróun og það er að vissu leyti alveg rétt og alveg réttmætt þó að við í stjórnarandstöðunni vísum ábyrgðinni alfarið á hendur ríkisstjórninni og stjórnarmeirihlutanum í því efni.



[15:02]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Launakjör alþingismanna, hver svo sem þau eru eða hvort sem þau taka til launanna sjálfra eða annarra réttinda, hafa jafnan vakið mikla umræðu í þjóðfélaginu og er í raun ekkert við það að athuga og eðlilegt að við sem störfum á hv. Alþingi þurfum að fjalla um þau mál sem að okkur sjálfum snúa varðandi laun og launakjör.

Hins vegar verð ég að segja, hæstv. forseti, að ég er ekkert viss um að við finnum betra fyrirkomulag til að ákveða laun alþingismanna heldur en að hafa einhvers konar úrskurðarnefnd um hver þau eigi að vera á hverjum tíma og við hvað þau eigi að miðast. Þetta segi ég þó ég hafi sjálfur tekið þátt í því um 25–30 ára skeið að semja um mín eigin kjör, þ.e. fyrir mína starfsstétt og þar með auðvitað talið sjálfan mig, og mun ég ekkert kveinka mér undan því að fjalla um launakjör okkar alþingismanna ef svo skipast mál að tekið yrði upp það fyrirkomulag að það þyrftum við að gera, enda held ég að ekki sé ástæða til að vera í neinum feluleik með umræðu um kjaramál alþingismanna frekar en annarra stétta.

Það skyldi þó ekki vera, hæstv. forseti, að málið sem við ræðum núna sem byggist á úrskurði Kjaradóms frá 19. desember síðastliðnum um hækkun á launum alþingismanna eigi einmitt rótina að rekja til þess að sum þeirra kjara sem dómurinn miðar við voru mönnum ekkert endilega sýnileg. Fólk sem er á hinum almennu töxtum í þjóðfélaginu og starfar á þeim kjörum sem samið er um almennt á vinnumarkaði gerði sér alla vega ekki grein fyrir því að þær viðmiðanir væru finnanlegar sem hægt væri að byggja rök á um að hækka laun alþingismanna yfir 8% nú um áramótin. Ég sem hér stend gerði mér að minnsta kosti ekki grein fyrir því að með rökum byggðum á samanburðarfræðum væri hægt að finna því stað að þeir sem eru að jafnaði best launaðir í þjóðfélaginu — þá er ég ekki að tala um þá sem eru starfandi í stórfyrirtækjunum og eru sjálftökumenn að sínum launum í raun, eiga þar ráðandi hluti og geta ráðið stefnunni sjálfir, heldur er ég að tala um þá sem starfa á vegum ríkisins, sveitarfélaga og um okkur alþingismenn — ég hygg að menn hafi ekki beinlínis talið að efni væru til þeirra hækkana sem Kjaradómur kemst að. Þegar maður hefur skoðað málið, umræður um það, blaðaskrif og greinargerðir, lögin um Kjaradóm og kjaranefnd og þá niðurstöðu sem við erum hér að ræða þá vekur það mann strax til umhugsunar, alla vega þann sem hér stendur sem hefur, eins og ég sagði áður, um margra áratuga skeið tekið þátt í því að semja um kjör við ákveðnar stéttir og löngum gert sér ljóst að það væri auðvitað samanburður á launum í þessu þjóðfélagi. Því dreg ég í efa, hæstv. forseti, að fyrirkomulagið sem er í lögunum núna um Kjaranefnd og kjaradóm sé heppilegt. Það geri ég vegna þess að mér sýnist innbyggt í lögin eins og þau eru að Kjaradómur muni ávallt taka mið af aðgerðum kjaranefndar og ef kjaranefnd kemst að þeirri niðurstöðu að tilefni sé til hækkana vegna þess að orðið hafi launaskrið eða að ákveðnir samningar hafi verið gerðir sem gefi tilefni til þeirrar viðmiðunar sem Kjaradómur kemst að þá verður ævinlega um að ræða víxlhækkanir þar sem Kjaradómur eltir kjaranefnd og kjaranefnd eltir síðan þær launaviðmiðanir sem hún getur fundið í breytingum varðandi laun viðmiðunarstétta.

Hvað leiddi þá til þess að kjaranefnd komst að þeirri niðurstöðu að hækka þyrfti laun ákveðinna hópa sem Kjaradómur hefur svo hengt sig á sem viðmiðun? Jú, hæstv. forseti, það er sennilega það að í kjarasamningum opinberra starfsmanna eru heimildir til þess að gera sérstaka stofnanasamninga, hækka þar laun innan stofnunar. Síðan held ég að það sé einnig tilflutningur á milli launaflokka ákveðinna stétta.

Hverjir samþykkja þá þennan grunn sem kjaranefnd og síðar Kjaradómur hengir sig á? Það er fjármálaráðuneytið, hæstv. forseti, það er fjármálaráðuneytið sem samþykkir að þessir samningar séu svo úr garði gerðir að launaskrið og launahækkanir geta átt sér stað á samningsbundnum tíma sem menn sjá ekkert endilega fyrir. Það er alla vega niðurstaða mín eftir að hafa farið í gegnum þau rök sem lögð voru fram varðandi röksemdir kjaradómsmanna að á þessa fyrstu hreyfingu í launakerfi opinberra starfsmanna hafi menn hengt sig og fylgt. Í bréfi frá formanni Kjaradóms, Garðari Garðarssyni, þ.e. svari til forsætisráðherra um Kjaradóm þar sem hann taldi hafa átt tvo kosti og báða vonda, segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Má þar einkum benda á að þann 26. apríl 2005 staðfesti fjármálaráðherra samkomulag við 24 stéttarfélög innan BHM um kjarasamninga félaganna, sem undirritað var þann 28. febrúar og síðan samþykkt í einstökum félögum í mars og apríl. Í samkomulaginu felst kerfisbreyting, þannig að 1. maí 2006 verður tekin upp ný launatafla sem er sameiginleg fyrir þau félög sem eru aðilar að því. Launatöflur þessara félaga hækkuðu mismikið, en meðalhækkun var á bilinu 5–5,5% Í framhaldi af þessum kjarasamningum ákvað kjaranefnd þann 28. júní sl. að hækka laun þeirra embættismanna sem undir hana heyra um 4,5%, afturvirkt frá 1. febrúar 2005.“

Þetta hygg ég, hæstv. forseti, að sé ein af ástæðum þess að Kjaradómur komst að þessari niðurstöðu. Þess vegna held ég að rétt sé að draga þá ályktun og velta því upp nú við 1. umr. um þetta mál sem reyndar hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir vék að áðan úr þessum ræðustóli, þ.e. að það kynni að vera galli á þeirri löggjöf um Kjaradóm og kjaranefnd sem sett var 1992 að vera með þetta fyrirkomulag, fyrst kjaranefndina og síðan Kjaradóm því það gerði það að verkum að þarna yrði samanburður og hver hækkaði annan.

Í 3. gr. laga um Kjaradóm segir, með leyfi forseta:

„Kjaradómur aflar sér af sjálfsdáðum nauðsynlegra gagna og upplýsinga og er honum rétt að krefjast skýrslna, munnlegra og skriflegra, af einstökum mönnum og embættismönnum.“

Síðan segir í 4. gr., með leyfi forseta:

„Kjaradómur getur kvatt sérfróða menn til starfa í þágu dómsins og til ráðuneytis um úrlausn mála.“

Í 5. gr. segir, með leyfi forseta:

„Við úrlausn mála skal Kjaradómur gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem hann ákveður og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að mér finnst að Kjaradómur hafi ekki tekið mikið tillit til þess hvernig ástandið var á almennum vinnumarkaði við þessa niðurstöðu sína og reyndar segir í bréfi formanns Kjaradóms, með leyfi forseta, um þessa viðmiðun:

„Nauðsynlegt er að finna aðferð til að ákvarða laun forseta, alþingismanna, ráðherra og æðstu embættismanna sem sæmileg sátt getur verið um. Það þarf líka að huga að því að ríkið er á samkeppnismarkaði um hæfasta starfsfólkið.“

Hæstv. forseti. Vel kann að vera að það sé samkeppni hjá ríkinu um fólk og menn þurfi að gæta þar að kjörum. Við sem störfum á hv. Alþingi þurfum hins vegar ávallt að huga að því að við alþingismenn getum aldrei verið leiðandi í launastefnu í þessu þjóðfélagi og ég held að það sé alveg sama hvort við tökum við niðurstöðum frá Kjaradómi eða hvort við ákveðum launin sjálfir í hv. Alþingi fyrir okkur alþingismenn, við getum aldrei gengið á undan í því og sagt: „Við skulum fá hærri prósentuhækkanir en almennt gerist í okkar þjóðfélagi.“ Við hljótum eðli málsins samkvæmt ævinlega að taka við niðurstöðu sem kemur á eftir því sem búið er að semja um í þjóðfélaginu og það var auðvitað ætlunin á sínum tíma með því að setja lög um Kjaradóm og kjaranefnd.

Viðbrögð þjóðfélagsins við þessari niðurstöðu voru auðvitað hörð og eðlilegt að þau yrðu þannig eins og staðan er. Ég vil orða það svo, hæstv. forseti, að gjá sé að myndast milli þeirra sem hafa lægri launin og hinna sem hærri launin hafa í þjóðfélaginu. Ég tala ekki um þá sem starfa í fyrirtækjunum og eru þar í toppstöðum, stjórnunarstöðum. Þar er keyrt gjörsamlega á skjön við það sem þekkst hefur á Íslandi fram að þessu. Það er ekki undarlegt, í ljósi stefnu ríkisstjórnarinnar, að launþegasamtök hafi brugðist hart við þeirri ákvörðun Kjaradóms að hækka laun alþingismanna og annarra yfir 8%. Launþegar áttu jú að fá 2,5% hækkun í byrjun janúar.

Stjórnarandstaðan taldi að ákvörðun Kjaradóms ætti ekki að ganga fram. Við buðumst strax til þess þegar málið kom upp á borðið að þingið yrði kallað saman milli jóla og nýárs til að fjalla um það. Við buðumst jafnframt til að taka eingöngu þetta mál fyrir, fjalla um það tiltölulega fáar klukkustundir og afnema þessa hækkun. Ég er enn á þeirri skoðun, hæstv. forseti, að betra hefði verið að afnema þessa hækkun en að fara þá leið sem ríkisstjórnin leggur til, að taka hluta af hækkuninni inn í ákvörðun fyrir framtíðina eins og frumvarpið er úr garði gert. Ég tel að betra hefði verið að fara í forsendur laganna um Kjaradóm og kjaranefnd og skoða þann samanburð allan án þess að laun okkar hækkuðu. Það hefði verið ákvörðun nýs Kjaradóms, á grundvelli lagabreytinga sem við náum væntanlega saman um, að ákveða hvaða breytingar hefðu átt að verða á launum okkar á nýjan leik.

Mér fannst undarlegt að forustumaður ríkisstjórnarinnar, hæstv. forsætisráðherra, skyldi ekki taka tilboði stjórnarandstöðunnar um að kalla saman stutt þing milli jóla og nýárs og klára þetta mál. Frá þeim tíma hefðum við getað tekið fyrir drög að breytingum á frumvarpi um Kjaradóm og kjaranefnd, sem mér sýnist óhjákvæmilegt að taka til gagngerrar umræðu, að fara yfir hvernig með skuli fara í framtíðinni og hvaða forsendur megi þar leggja til grundvallar.

Ég held að alþingismenn geti aldrei gengið á undan með að hífa upp laun í þjóðfélaginu þannig að aðrar stéttir, jafnvel með lakari laun en við alþingismenn, þurfi að miða sig við að við höfum farið af stað með eitthvert sérstakt launaskrið eða launastefnu. Við hljótum að þurfa að taka mið að því sem samið er um á almennum vinnumarkaði og leggja sérstaklega út af því. Í bréfi formanns Kjaradóms segir um það atriði, með leyfi forseta:

„Leiðsögn Kjaradóms um það atriði er þó heldur veikburða í lögunum en þar segir „Enn fremur skal Kjaradómur taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði.““

Þetta finnst formanni Kjaradóms veikburða tilsögn. En ég hef alltaf skilið orðið „skal“ sem fyrirskipun. Þar segir „Enn fremur skal Kjaradómur ...“ og þá beri að taka það yfir. Það var a.m.k. niðurstaða Kjaradóms í janúar 2004 að láta ekki verða af 3% hækkun til alþingismanna vegna umræðu sem áður hafði farið fram um launakjör alþingismanna og sérstaklega lífeyrisréttindi þeirra, þ.e. í desember árið á undan. Ég held að það hafi verið mikil mistök af Kjaradómi að fella þær launabætur inn í þessa hækkun. Ég tel að það sé óábyrgt miðað við stöðuna.

En hvers vegna er ástandið svo viðkvæmt að slíkar breytingar megi ekki taka til baka eða gera leiðréttingar? Það er auðvitað vegna þess, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin hefur keyrt fram stefnu í málum launafólks sem veldur geysimiklum deilum og ósætti. Það er ekkert launungarmál að skattstefna ríkisstjórnarinnar hefur fært þeim hæst launuðu verulegar kjarabætur. Langt umfram það sem láglaunafólki hefur boðist. Skerðingarákvæði sem bitna á öryrkjum og eldri borgurum, þar sem tekjur þeirra úr lífeyrissjóði eða atvinnutekjur skerða bætur þeirra frá Tryggingastofnun með svokallaðri 45% reglu, eru auðvitað gjörsamlega óþolandi. Launakjör hinna lægst launuðu eru óviðunandi. Þar til viðbótar hefur skattstefna ríkisstjórnarinnar fjölgað þeim sem greiða skatt af tekjum undir 100 þús. kr. á mánuði.

Hæstv. forseti. Er nema von að íslensk alþýða mótmæli þessari stefnu? Hún fékk tilefni til að mótmæla þegar alþingismenn og æðstu embættismenn áttu að fá meiri hækkun. Þá sprakk blaðran og það voru eðlileg viðbrögð hjá íslenskri alþýðu.



[15:22]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 120/1992, um Kjaradóm og kjaranefnd. Það er óþarfi að fara yfir forsögu þess að málið er komið í sali Alþingis sem fyrsta mál eftir þingfundahlé í kringum áramót. Ég held að flestir þekki aðdragandann að málinu og þá umræðu sem orðið hefur í kringum úrskurð Kjaradóms sem kveðinn var upp 19. desember síðastliðinn. Það er kannski óþarfi að fara mörgum orðum um aðdragandann og umræðuna sem fylgt hefur.

Frumvarpið sjálft er ekki stórt í sniðum. Við þingmenn stjórnarandstöðu sáum það fyrst í morgun. Ég verð að segja fyrir mig að ég átti von á frumvarpi sem liti aðeins öðruvísi út. Ég mun fara yfir það á eftir. En í meginatriðum snýst frumvarpið um að úrskurður Kjaradóms frá 19. desember 2005 skuli falla úr gildi frá og með 1. febrúar næstkomandi. Frá sama tíma skulu mánaðarlaun og einingar samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 9. júní 2005 hækka um 2,5%.

Hvað segir 1. gr., eða fyrri hluti 1. gr. frumvarpsins, okkur? Jú, hún segir okkur að úrskurður sem Kjaradómur kvað upp og tók gildi um áramótin skuli falla úr gildi mánuði síðar og laun þeirra sem taka laun samkvæmt Kjaradómi skuli lækka frá sama tíma.

Þegar maður veltir fyrir sér með hvaða hætti Kjaradómur og síðan kjaranefnd ákvarða laun þeirra sem undir þá falla og skoðar ákvarðanir hans aftur í tímann þá getur maður ekki séð að dómurinn eða kjaranefnd hafi farið út fyrir verksvið sitt með uppkvaðningu úrskurða sinna. Lögin eru þrátt fyrir allt það skýr um að Kjaradómur og kjaranefnd skuli taka tillit til þess sem gerist í sambærilegum stéttum. Ef menn skoða það af sanngirni er ekki hægt annað en að komast að þeirri niðurstöðu að kjaranefnd og síðan Kjaradómur hafi 19. desember síðastliðinn í raun staðfest launahækkanir sem orðið hafa hjá sambærilegum stéttum.

Frumvarpið hefur því í för með sér að þeir sem taka laun samkvæmt Kjaradómi eigi að hækka minna en sambærilegir hópar undanfarin tvö ár. Það þýðir líka að þeir sem taka laun samkvæmt Kjaradómi skuli hækka minna en þeir sem hafa laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar. Frumvarpið tekur reyndar einnig á fjölmörgum sem heyra undir kjaranefnd. Ég sé ekki betur en að textinn um að einingar, samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 9. júní 2005, skuli hækka um 2,5%, þýði að sá fjöldi sem tekur hluta af starfskjörum sínum í svokölluðum einingum og fékk útborgað samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá og með 1. janúar á þessu ári, upp undir 2000 starfsmenn ríkisins, muni einnig taka á sig lækkun launa verði frumvarpið að lögum. Það er því ekki einungis tekið á þeim hóp sem Kjaradómur hefur yfir að segja. Samkvæmt orðanna hljóðan í frumvarpinu get ég ekki skilið það öðruvísi en svo að þeir sem taka hluta launa í einingum og heyra einnig undir kjaranefndina taki á sig lækkun á launum frá og með 1. febrúar, sé miðað við áramótin.

Bara sem dæmi, þá er einingin samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 19. desember, 4.975 kr. Samkvæmt frumvarpinu verður einingin 4.715 kr. eða 260 kr. lægri. Það mun hafa þau áhrif að u.þ.b. 2000 starfsmenn munu fá lægri laun útborguð í febrúar en þeir fengu í janúar. Gott væri ef hæstv. fjármálaráðherra gæti staðfest skilning minn á því sem þarna stendur. En með því að lesa frumvarpið í gegn sé ég a.m.k. ekki betur en að svona sé í pottinn búið.

Hverjir heyra undir kjaranefndina og munu fá lægra útborgað en þeir fengu um síðustu mánaðamót? Það eru samkvæmt lögum: Sendifulltrúar og sendiherrar; skrifstofustjórar, ráðuneytisstjórar og skrifstofustjóri Alþingis; forsetaritarinn, skrifstofustjóri Hæstaréttar, vígslubiskupar, prófastar og prestar; saksóknarar, vararíkissaksóknari, ríkislögmaður og sýslumenn; lögreglu- og varalögreglustjórar; skattstjórar og yfirskattanefndarmenn; forstöðumenn allra ríkisstofnana og ríkisfyrirtækja, þar með taldir skólameistarar. Þetta frumvarp mun hafa áhrif nokkuð stóran hóp og því þætti mér vænt um það ef hæstv. ráðherra gæti staðfest þennan skilning minn.

Í athugasemdum með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Í ljósi þeirra áhrifa sem úrskurður Kjaradóms gæti haft á stöðu vinnumarkaðsmála, þar á meðal nýgert samkomulag aðila vinnumarkaðarins um kjaramál, og þeirra ófyrirsjáanlegu áhrifa sem slíkt hefði á stöðugleikann í efnahagsmálum, er nauðsynlegt að bregðast við ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember 2005.“

Þegar maður les þennan passus yfir í greinargerðinni veltir maður fyrir sé hvort hér sé ekki verið að hengja bakara fyrir smið. Þar er bakarinn Kjaradómur og vísað í að með úrskurði Kjaradóms sé stöðugleikinn settur í hættu meðan það er smiðurinn sem er ábyrgur. Hann heitir Geir H. Haarde, hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra. Er ríkisstjórnin ekki að beina athyglinni frá þeirri staðreynd að hún sjálf og enginn annar fer með forræði yfir samningum við starfsmenn sína og býr m.a. sjálf til þá viðmiðun sem kjaranefnd og Kjaradómur eiga að styðjast við í störfum sínum? Ef úrskurður Kjaradóms hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir stöðugleikann hljóta þá ekki gerðir ríkisstjórnarinnar og fyrrum hæstv. fjármálaráðherra Geirs H. Haardes að vera undirrót þess vanda sem lýst er í frumvarpi ríkisstjórnarinnar sem við ræðum hér? Er ekki ríkisstjórnin með öðrum orðum að segja að sá vandi sé til komin vegna hennar sjálfrar? Hún kýs hins vegar að nefna Kjaradóm í því sambandi fremur en að benda á sjálfa sig axla þá ábyrgð sem hún ber í málinu.

Sá sem hér stendur er meira en tilbúinn til þess að taka þátt í því að hækkun til þingmanna og ráðherra verði minni en gert er ráð fyrir í úrskurði Kjaradóms. En af hverju og til hvers — er ekki þörf á að ræða það frekar í stað þess að beina spjótum að þeim aðilum sem vinna samkvæmt lögum og reglum að verkefni sem við höfum falið þeim? Það getur ekki verið auðvelt hlutverk að sitja í kjaranefnd og Kjaradómi, hafa tiltölulega skýrar verklagsreglur samkvæmt lögum en standa síðan frammi fyrir því að þurfa að taka á sig allmikla gagnrýni fyrir það eitt að fara að þeim lögum. Ræðum þá í alvöru hvort launabilið á Íslandi sé of mikið, hvort launabilið hjá hinu opinbera sé of mikið. Skoðum í alvöru og ræðum af hreinskilni hvort ekki sé ástæða til þess að hækka hærri laun hjá ríkinu minna en þau lægri og þá tímabundið, jafnvel frysta hærri launin tímabundið til að geta híft lægri launin upp og minnkað launabilið. Ef verið væri að tala um einhverja slíka heildstæða aðgerð með það skýra markmið að draga úr launabilinu hjá hinu opinbera og á almennum markaði væri umræðan á annan veg.

Við þekkjum öll þá miklu umræðu sem varð í kringum úrskurð Kjaradóms, hróp og köll að vestan voru nefnd hér fyrr í umræðunni. Er nokkur hissa þó að maður velti því fyrir sér hvernig menn vinna og hvernig menn taka á málum? Við munum öll hróp og köll að vestan, þegar borgarstjórinn í Reykjavík samdi við láglaunastéttir hjá borginni um hækkun launa, um hvers konar vá væri fyrir dyrum, landauðn blasti við af því að gerður var samningur um að hækka lægstu launin. En á sama tíma eru í gangi hjá ríkinu talsvert miklar hækkanir á launum þeirra sem fara með mannaforráð, stjórnenda, millistjórnenda og embættismanna sem enginn virðist hafa gert sér grein fyrir, eða hvað? Af hverju verður þetta mikla upphlaup þegar Kjaradómur kveður upp sinn úrskurð og gerir ekkert annað en að staðfesta þetta? Kjaradómur skýrir það ákaflega vel í bréfum sínum til hæstv. forsætisráðherra og í þeim úrskurði sem lagður var fram að einungis væri verið að breyta kjörum þess hóps sem heyrir undir hann til samræmis við það sem kjaranefndarfólk og viðmiðunarhópar höfðu áður fengið.

Getur verið að þáv. hæstv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, hafi ekki vitað hvað var að gerast í ríkisstofnunum eða ríkisfyrirtækjum? Getur verið að núv. hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki vitað hvað var að gerast í ráðuneytum almennt og hvað var að gerast hjá ríkisstofnunum í stofnanasamningum og viðbótarsamningum við þær launatöflur sem um hafði verið samið? Ég á bágt með að trúa því að menn sitji svo sofandi í störfum sínum að þeir hafi ekki áttað sig á þessu og ekki vitað af þessu. Rekstrarkostnaður stofnana og ráðuneyta er að miklum hluta laun og eins og bent hefur verið á áður hér í umræðunni sjáum við það í fjáraukalögum á hverju ári að stofnanir þurfa á auknu fé að halda umfram áætlanir. Maður skyldi halda að hæstv. fjármálaráðherra á hverjum tíma eða ráðherrar hæstvirtir í ráðuneytum skoði orsakir þess að stofnanir og fyrirtæki ríkisins fara aftur og aftur yfir fjárlög.

Mér finnst satt að segja full ástæða til að velta upp þeirri spurningu hvort æðstu embættismenn þjóðarinnar — og undanskilja þá okkur þingmenn og ráðherra — eigi að gjalda fyrir það að vera settir í hóp með þjóðkjörnum fulltrúum þegar kemur að ákvörðun starfskjara. Ég velti því líka fyrir mér hvort það sé viðeigandi að skerða kjör þeirra frá því lögskipaða ferli sem kemst að niðurstöðu um launabætur. Eins og ég sagði áðan er ég ekki að tala um þingmenn og ráðherra. Við í þessum sal getum tekið þá ákvörðun sjálf að falla frá þeirri hækkun kjara sem ákveðin hefur verið. Ég hef lýst þeirri skoðun minni hér og fleiri samfylkingarþingmenn að við teljum að við eigum að gera svo nú.

Hverjir eru þessir æðstu embættismenn sem falla undir Kjaradóm og munu verða fyrir því að lækka í launum eða hækka minna en sambærilegar stéttir? Fyrir utan okkur þingmenn og ráðherra er það forseti Íslands, forseti Hæstaréttar, aðrir hæstaréttardómarar, ríkissaksóknari, ríkissáttasemjari, ríkisendurskoðandi, biskupinn yfir Íslandi, dómstjórinn í Héraðsdómi Reykjavíkur, aðrir dómstjórar, héraðsdómstjórar og umboðsmaður barna. Þetta er sá hópur sem hefur verið settur undir Kjaradóm og mun því, ef frumvarpið verður að lögum, verða fyrir skerðingu á sínum kjörum í samanburði við viðmiðunarstéttir.

Nú mun þetta frumvarp ganga til efnahags- og viðskiptanefndar og þar þurfum við að sjálfsögðu að skoða helstu ástæður fyrir úrskurði Kjaradóms. Það hlýtur að vera mikilvægt fyrir okkur að greina eins nákvæmlega og hægt er hver launaþróunin hjá hinu opinbera og einnig á almennum markaði hefur verið síðustu tvö ár. Ef úrskurður kjaranefndar frá 28. júní er skoðaður og þær forsendur sem þar koma fram er alveg augljóst að kjaranefnd og Kjaradómur eru að reyna að taka tillit til launaskriðs hvort sem það er vegna samkeppni á vinnumarkaði, stofnanasamninga eða annarra atriða. Í úrskurði sínum frá 28. júní er kjaranefnd að færa kjör þeirra aðila sem heyra undir kjaranefnd til samræmis við launabreytingar og launaskrið sem orðið hefur frá því um áramótin 2005 og fram til júní.

Þessi ákvörðun kjaranefndar er afturvirk frá 1. febrúar og endar í 4,5% en kjaranefndin segir að þessi úrskurður sé til kominn vegna þess að hinn 26. apríl árið 2005 staðfesti þáv. hæstv. fjármálaráðherra samkomulag við 24 stéttarfélög innan BHM um kjarasamninga félaganna sem undirritaður var 28. febrúar sl. og samþykktur af einstökum félögum í mars og apríl. Í samkomulaginu sem hæstv. fjármálaráðherra gerði fyrir hönd ríkisins felst kerfisbreyting. Frá 1. maí 2006 verður tekin upp ný launatafla sem er sameiginleg fyrir félögin. Samhliða verða teknar upp fleiri breytingar á launakerfinu. Með öðrum orðum er verið að segja okkur í þessum úrskurði að talsverðar breytingar séu fram undan á árinu 2006. Samt sem áður liggur nú fyrir frumvarp til laga frá hæstv. ríkisstjórn þar sem vald Kjaradóms og kjaranefndar til þess að fylgjast með breytingum á launum þeirra hópa sem þeir aðilar sem kjaranefnd og Kjaradómur ákvarða laun fyrir bera sig saman við. Það er verið að hefta kjaranefnd og Kjaradóm í því að fylgja launaþróuninni eins og hún verður samkvæmt sérstöku samkomulagi sem fjármálaráðherra gerði við BHM og mun fara að tikka 1. maí 2006, vegna þess að í frumvarpinu segir að kjaranefnd og Kjaradómur megi ekki taka tillit til annarra breytinga en umsaminna lágmarksbreytinga á vinnumarkaði allt þetta ár, allt árið 2006.

Við hljótum að velta því fyrir okkur í alvöru þegar við horfum yfir þetta frumvarp til laga sem ríkisstjórnin kemur hér inn með hraði eftir mikla og óvægna umræðu — umræðu sem á fullan rétt á sér í ljósi þess sem fram hefur komið eftir að menn fóru að skoða forsendur Kjaradóms — hvernig á því stendur að þetta kemur inn með þessum hætti. Hvers vegna var ekki hægt að verða við mjög eindregnum óskum okkar í stjórnarandstöðunni um að fresta hreint og klárt úrskurði Kjaradóms eins og hann lá fyrir í desember þannig að hann tæki ekki gildi um áramótin? Þá kæmi ekki til þess að síðar á árinu og eins og nú liggur fyrir, 1. febrúar, þyrfti að skerða aftur laun eða taka til baka hækkanir sem fólk var búið að fá greitt út í sín launaumslög. Það hlýtur alltaf að vera verra að þurfa að gera það. Ef farið hefði verið að okkar ráðum værum við í betri stöðu núna. Ef gildistöku úrskurðarins hefði verið frestað hefðum við nú tíma til þess að velta því fyrir okkur hvernig best væri að breyta ákvörðun launa þeirra hópa sem heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd og hvernig við vildum sjá þau mál í framtíðinni. Við þyrftum ekki að vera á handahlaupum eins og við erum núna.

Frú forseti. Við munum, eins og ég segi, örugglega fara vel yfir þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd, ég held að það sé full ástæða til þess. Það er talsverður tími fram til 1. febrúar þannig að ekki liggur lífið á að klára þetta á einum eða tveimur dögum. Við verðum okkar vegna, vegna þeirra sem eru í Kjaradómi, vegna þeirra sem sitja í kjaranefnd og vegna þeirra tæplega tvö þúsund einstaklinga sem verða fyrir því að fá lægri útborguð laun í febrúar en janúar, að skoða í alvöru af hverju mál eru svona komin.



[15:42]Útbýting:

[15:43]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég á sæti í efnahags- og viðskiptanefnd sem fær það frumvarp sem við ræðum hér, um Kjaradóm og kjaranefnd, til umfjöllunar. Ég vil láta það koma fram að við fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd munum auðvitað greiða fyrir þessu máli eins og kostur er til að það fái afgreiðslu úr nefndinni þannig að það geti tekið gildi eins og hér er gert ráð fyrir og þessi umdeildi úrskurður og ákvæði þessa frumvarps geti tekið gildi miðað við 1. febrúar. Ég vil þó segja að það er mjög nauðsynlegt að við fáum eins eðlilegt svigrúm og kostur er til að fjalla um málið í efnahags- og viðskiptanefnd. Vænti ég þess að stjórnarmeirihlutinn verði við óskum okkar um þá sem við þurfum að kalla til til fundar við okkur þannig að við höfum eðlilegt svigrúm, sem ég held að við ættum að geta haft, til að fjalla með sómasamlegum hætti um þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að ræða kjaramálin í þjóðfélaginu og þá gliðnun sem hefur orðið í tekjuskiptingunni, m.a. vegna stjórnvaldsákvarðana í tengslum við þetta frumvarp sem felur í sér að fella úr gildi ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember 2005. Ég held að það sé líka full ástæða til þess að við skoðum launakerfi ríkisins almennt og gegnsæi þess og launastefnu ríkisvaldsins almennt, til að mynda að við reynum að meta hvort hún stuðli að launajöfnun kynjanna og hvort launastefna ríkisins stuðli að gliðnun milli hátekju- og lágtekuhópanna hjá hinu opinbera eins og við sjáum um allt þjóðfélagið. Ég held að við verðum að gefa okkur tíma í efnahags- og viðskiptanefnd til að skoða þá hlið á málinu en einblína ekki einungis á efnisatriði 1. gr. þessa frumvarps sem hér er til umfjöllunar.

Ég tel að sú óánægja sem braust út í þjóðfélaginu vegna úrskurðar Kjaradóms hafi verið réttmæt, ekki síst þegar hún er skoðuð í því andrúmslofti aukinnar misskiptingar sem verið hefur í þjóðfélaginu á undanförnum mánuðum og missirum þar sem stjórnendur á fjármálamarkaði til að mynda hafa verið í fararbroddi fyrir launakjörum, starfsloka- og kaupréttarsamningum sem eru fullkomlega úr tengslum við allan raunveruleika í þjóðfélaginu og af þeirri stærðargráðu að fólki blöskrar og er fullkomlega misboðið. Í nafni stöðugleika er því sífellt haldið að launafólki að ekki sé svigrúm til launahækkana og það verði að sætta sig við hóflegar launahækkanir. Því er eðlilegt að upp úr sjóði þegar þeir betur settu og hærra launuðu í ríkiskerfinu fá til sín meiri launahækkanir en það og sumir það miklar að segja má að þær slagi í sumum tilvikum hátt upp í lágmarkslaun í landinu.

Virðulegi forseti. Ég tel að ekki sé við Kjaradóm að sakast þó að niðurstaða hans hafi orðið á þann veg sem hún varð. Ég held að það sé rétt sem fram hefur komið hjá formanni dómsins að kjaradómsmenn fóru í einu og öllu að lögum við þennan úrskurð. Ég hef skoðað þetta mál nokkuð, bæði með tilliti til þessa úrskurðar og þess úrskurðar sem kveðinn var upp árið 1992. Það er sannfæring mín að Kjaradómur hafi í einu og öllu farið að þeim lögum og lagafyrirmælum sem honum er gert að fara eftir. Varðandi þessa ákvörðun Kjaradóms er kannski einungis hægt að benda á að í upphafi árs var ekki úrskurðað í Kjaradómi með líkum hætti og í kjaranefnd. Mig minnir að það hafi verið 3% hækkun til þess hóps sem Kjaradómur ákveður laun fyrir og þess vegna kemur fram veruleg hækkun nú þegar Kjaradómur ætlar raunverulega að bæta kjaradómsfólki það upp að hann hafi ekki úrskurðað þá hækkun sem kjaranefndarfólk fékk í upphafi árs 2004.

Mig langar, virðulegi forseti, að nýta aðeins tíma minn til að ræða þá gliðnun sem orðið hefur í þjóðfélaginu og af hverju niðurstaða Kjaradóms og kjaranefndar er með þeim hætti sem við stöndum frammi fyrir og er komin inn á borð okkar þingmanna til að veita lagastoð og kalla þann úrskurð aftur. Við sjáum aftur og aftur hvernig láglaunahóparnir, lægst launaða fólkið á vinnumarkaðnum, t.d. í umönnunarstörfunum, hafa orðið undir sem orðið hefur með aukinni markaðs- og alþjóðavæðingu sem breikkað hefur bilið milli ríkra og fátækra og birtist okkur m.a. í aukinni stéttaskiptingu í þjóðfélaginu. Við höfum áþreifanlega orðið vitni að því í vetur hvernig mannekla í umönnunarstörfum bitnar á mörgum barnafjölskyldum í landinu vegna lélegra launakjara og hvernig flótti brestur á í þessum starfsstéttum þegar þensla er á vinnumarkaðnum. Laun og kjör umönnunarstétta eru í raun til skammar og langt undir öllum velsæmismörkum. Það er líka fyrir neðan allt velsæmi hvernig margir atvinnurekendur og aðrir reka ávallt upp ramakvein ef gerð er tilraun til að bæta kjör þessara hópa, eins og borgarstjórinn gerði með svo myndarlegum hætti fyrir skömmu og mættu margir taka sér borgarstjórann til fyrirmyndar, vegna þess að það er orðið knýjandi í þjóðfélaginu að setjast yfir það hvernig við getum bætt kjör láglaunafólks og fólks með meðaltekjur án þess að það renni upp allan launastigann þar sem þeir fá mest sem mest hafa fyrir. Það er full ástæða til að menn skoði það í efra lagi þessa launakerfis hvort skapast geti einhver sátt um að frysta hæstu launin í stjórnsýslunni, hjá ráðherrum, þingmönnum og embættismönnum, um einhvern tíma sem yrði þá nýttur til að hækka upp þá sem lægst eru settir í launastiganum hjá hinu opinbera. Ég held að við verðum að hugleiða það af fullri alvöru vegna þess að við sjáum afleiðingar þess að bíða í þjóðfélaginu þegar við getum ekki mannað mikilvæg umönnunarstörf eins og raun ber vitni og við höfum séð í vetur.

Stjórnvöld eiga líka verulegan þátt í þeirri gliðnun sem orðið hefur í þjóðfélaginu sem vert væri að ræða, bæði með skattatilfærslum frá lágtekju- og meðaltekjufólki yfir til fjármagnseigenda og fyrirtækja. Það væri alveg tilefni til þess að fara hér yfir það hvernig ríkisvaldið hefur stuðlað að tekjutilfærslu í þjóðfélaginu og þar með átt drjúgan þátt í að skapa þá gliðnun sem orðið hefur, m.a. með þeim skattbreytingum sem hér hafa verið gerðar á umliðnum mánuðum og missirum þar sem verulegum fjármunum hefur verið varið til skattalækkana sem fyrst og fremst hafa skilað sér til þeirra sem betur eru staddir í þjóðfélaginu. Auðvitað er til skammar að þeir sem lægstar hafa tekjurnar séu allt í einu farnir að borga hlutfallslega miklu meiri skatta en þeir gerðu fyrir nokkrum árum og að af 120 þús. kr. séu kannski teknar 10–13 þús. kr. í skatt. Þetta hefur auðvitað gerst að verulegu leyti með því að skattleysismörkin hafa ekki fylgt neysluvísitölu eða launavísitölu og munar þar tugum milljarða króna sem hafa verið nýttir til að létta skattbyrðina á þeim sem betur hafa það. Það er ástæða, virðulegi forseti, að halda því til haga í þessari umræðu vegna þess að þetta er líka umræða um tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu og ástæðulaust að einblína eingöngu á þá lagagrein sem hér er til umfjöllunar. Við þurfum að setja hana í víðara samhengi. Það er einnig ljóst að öryggisnet velferðarkerfisins hefur gliðnað, ójöfnuður hefur vaxið mikið þrátt fyrir efnahagsuppsveiflu á liðnum árum og er skýrsla Stefáns Ólafssonar um lífskjör öryrkja kannski ekki síst til marks um það.

Á þeim úrskurði Kjaradóms sem við fjöllum hér um eru auðvitað margar hliðar. Eins og ég sagði áðan er það skoðun mín að Kjaradómur hafi ekki farið út fyrir þær leiðbeiningar og lagafyrirmæli sem hann starfar eftir. Í lögum um Kjaradóm og kjaranefnd eru ákvæði um að báðir þessir úrskurðaraðilar eiga við ákvörðun launakerfa að gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum hjá þeim sem hún fjallar um þannig að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Kjaradómur á síðan að taka tillit til þróunar kjaramála á vinnumarkaði. Kjaranefnd á að gæta að samræmi sé milli launa hjá þeim sem hún ákveður laun fyrir og þeirra launa sem greidd eru hjá ríkinu á grundvelli kjarasamninga. Í ljósi þessa úrskurðar er líka athyglisvert að kjaranefnd á samkvæmt lögum að sjá til þess að samræmi sé í launaákvörðun nefndarinnar og launaákvörðun Kjaradóms en hugsunin er vafalaust sú að Kjaradómur leggi línurnar. En við upplifðum nákvæmlega annað núna við þessa ákvörðun að Kjaradómur hafði m.a. hliðsjón af ákvörðunum kjaranefndar.

Ég held að það eigi líka alveg við, virðulegi forseti, að rifja upp árið 1992 þegar Kjaradómur felldi úrskurð þar sem kjaradómsfólki var ákveðin launahækkun sem fól í sér allt að 97% hækkun á launum þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna sem síðar var breytt með lögum í 1,7% hækkun til samræmis við það sem gerst hafði á almennum vinnumarkaði. Það er líka rétt að nefna, sem er mjög athyglisvert, að eftir að Alþingi hafði breytt þeim úrskurði með lögum og falið Kjaradómi að kveða upp annan úrskurð á grundvelli þeirra laga sem þá voru sett, sem var 1,7% hækkun, og velja átti fólk í Kjaradóm á nýjan leik, þá færðust kjaradómsmenn undan endurkjöri. Þetta var að mig minnir í janúar 1993. Það er athyglisvert að skoða þau rök sem sett voru fram af þeim sem skipuðu Kjaradóm og ástæðuna fyrir því að kjaradómsmenn færðust undan endurkjöri árið 1993. Ástæðan var sú að þeim þóttu lögin jaðra við að vera marklaus og að þau væru mjög óskýr og ekki væri auðséð hvernig alþingismenn ætluðust til að lögin væru túlkuð, en lögin einkenndust af því að þær reglur sem settar voru í einni setningu voru ómerktar í þeirri næstu. Þegar til þess er litið eiga alþingismenn auðvitað nokkra sök á þeirri stöðu sem nú er komin upp þegar slík lög hafa verið látin standa óbreytt í meira en áratug. Það hefur raunverulega allt komið fram sem kjaradómsmenn sögðu árið 1993 þegar þeir færðust undan endurkjöri, að lögin sem Kjaradómur er að dæma eftir núna eru á margan hátt óskýr og erfitt að úrskurða eftir þeim. Þetta ætti að kenna okkur ákveðna lexíu þegar farið verður að skoða hvernig framtíðarfyrirkomulag verður við ákvörðun þeirra launa sem Kjaradómur og kjaranefnd hafa ákveðið. Ég held að menn hafi þó lært það af því, hver svo sem niðurstaðan verður, að ef þetta verður í þessum farvegi áfram verði Kjaradómur og kjaranefnd sameinuð í einn dóm eða eina nefnd því að við sjáum hvað það býður upp á að hafa lögin með þeim hætti sem við upplifum hér núna.

Það er líka athyglisvert að rökstuðningur dómsins árið 1992 var með líkum hætti og nú. Þegar dómurinn hafnaði tilmælum þáverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, um að endurskoða úrskurðinn kom fram að mikið ósamræmi væri eða hefði orðið í kjörum þeirra sem dómurinn ákvað laun fyrir og launaskriði sem m.a. fjármálaráðuneytið hafði þá staðið fyrir hjá sambærilegum hópum innan ríkiskerfisins. Engin lagaleg eða efnisleg rök væru því fyrir endurskoðun eða breytingu, sagði Kjaradómur árið 1992. Engin lagaleg eða efnisleg rök, sagði Kjaradómur þegar hann var beðinn um af forsætisráðherra að endurskoða úrskurðinn. Með nákvæmlega sama hætti segir Kjaradómur nú að engin efnisleg eða lagaleg rök séu fyrir breytingu. Kjaradómur var þá eins og nú að fara að lagafyrirmælum og þurfti þá eins og nú að glíma við innbyrðis ósamræmi í launakjörum sem ríkisstjórn og ráðherrar höfðu sjálfir staðið fyrir. Þess vegna á forsætisráðherra auðvitað ekki að undra það neitt sérstaklega þegar Kjaradómur kveður upp þennan úrskurð, eins og fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra þegar þessi úrskurður lá fyrir. Auðvitað er það svo að alþingismenn eiga nokkra sök á þessari stöðu eins og ég nefndi miðað við það að hafa látið lögin standa óbreytt í meira en áratug þrátt fyrir að þau hefðu verið verulega gagnrýnd á sínum tíma.

Það kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, Jóni Gunnarssyni, að þetta frumvarp mun líka skerða að einhverju leyti kjör þeirra sem taka laun samkvæmt úrskurði kjaranefndar. Ég er ekki viss um að allir átti sig á því að þessi lög taka líka til þeirra þannig að þau munu skerða einingar hjá því fólki sem hefur hluta af launum sínum í formi þessara greiðslna eða eins og segir í frumvarpinu en það kom fram í því að þetta ætti líka að taka til einingagreiðslna, með leyfi forseta:

„Frá sama tíma skulu mánaðarlaun og einingar samkvæmt úrskurði Kjaradóms frá 9. júní 2005 hækka um 2,5%.“

Það þýðir að einingar kjaranefndarfólks munu einnig skerðast, auk þess sem ákvæði 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins felur í sér að verið er að frysta hækkanir hjá kjaradómsfólki og einnig fólki sem fær laun sín samkvæmt úrskurði kjaranefndar frá og með gildistöku laga þessara til loka árs 2006. Eiga launin að taka mið af samningsbundnum hækkunum kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði.

Ég held að við ættum kannski að skoða það svolítið hvort ekki sé ástæða til að hafa meira gegnsæi í launastefnu ríkisins og spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki ástæðu til að hafa meira gegnsæi í launastefnu ríkisins, t.d. varðandi þessar einingagreiðslur. Laun sem Kjaradómur ákveður er aðeins hluti launa hjá flestöllum sem hann ákvarðar laun fyrir nema hjá ráðherrum og þingmönnum og getur kjaradómsfólk haft allt að tæplega 270 þús. kr. fyrir þessar einingar auk sinna föstu launa. Ég spyr hvort ekki sé eðlilegt að hafa þetta gegnsætt og opið þannig að þessar einingagreiðslur séu þá ekki úrskurðaðar heldur falli bara inn í föst laun viðkomandi aðila sem ég held að væri mjög æskilegt að skoða sérstaklega.

Ég þarf út af fyrir sig, virðulegi forseti, ekki að hafa mörg fleiri orð um frumvarpið sem við fjöllum um. Það er alveg ljóst, eins og fram kom hjá t.d. síðasta ræðumanni, að þeir sem eru undir Kjaradómi lækka í launum líkt og þingmennirnir og hafa sumir sagt að þeir gjaldi fyrir það að vera undir úrskurði Kjaradóms með líkum hætti og þingmenn og ráðherrar. Hefði verið hreyft við þessum launahækkunum ef þeir væru ekki í hópi með þingmönnum og ráðherrum? Ég man ekki eftir því, þó að það hafi verið úrskurðað hjá kjaranefnd, að það hafi verið neinn órói í kringum þá hækkun til þeirra kjaranefndarmanna enda dreifðist sú hækkun meira. En það er auðvitað eðlilegt og sjálfsagt að fara þá leið að leggja til í frumvarpinu, eins og hér er lagt til, að breyta þessum úrskurði Kjaradóms. Það er spurning hvaða leið á að fara í því efni og hvort sú leið sem hér er lögð til — og það viljum við skoða alveg sérstaklega — standist lagafyrirmæli og hvort hún standist það að allir séu jafnir fyrir lögum og hvort hún standist líka stjórnarskrána.

Hér eru fjórar mínútur eftir í ræðustólnum en ljósið blikkar á mig.

(Forseti (JBjart): Það mun vera ósamræmi á milli klukku í tölvu hjá forseta og í ræðupúlti en klukkan hjá forseta mun vera sú rétta og samkvæmt því er ræðutíma hv. þingmanns lokið.)

Þetta er náttúrlega mjög óheppilegt, virðulegi forseti, að ég horfi hér á klukku sem gefur mér fjórar mínútur sem ég átti eftir að …

(Forseti (JBjart): Forseti vill gefa þingmanninum kost á að ljúka ræðu sinni en þó innan þeirra marka sem greint var frá.)

Ég þakka fyrir.

Það sem ég vildi segja í lokin er að við skoðum sérstaklega ákvæði stjórnarskrárinnar í þessu sambandi vegna þess að ég held að við verðum að líta til þess að í Kjaradómi og kjaranefnd er unnið eftir sambærilegum lagafyrirmælum. Þeir sem fá úrskurð sinn samkvæmt niðurstöðu kjaranefndar hafa fengið á þessu tímabili hærri laun en kjaradómsfólkið og því er hugsanlegt að einhverjir þeir sem Kjaradómur úrskurðar laun fyrir leiti réttar síns fyrir dómstólum verði þessi lög sett og það verðum við auðvitað að ganga úr skugga um í efnahags- og viðskiptanefnd, að þau lög sem við setjum í þessu efni standist stjórnarskrána og standist lög þannig að allir séu jafnsettir fyrir lögum. Ég minnist þess að þegar sambærilegur úrskurður eða líkur þessum var kveðinn upp árið 1992 risu dómarar upp og sögðu að mjög væri vegið að sjálfstæði dómstólanna og er vel hugsanlegt að það sama muni gerast varðandi þá breytingu sem hér er lögð til og við gætum alveg staðið frammi fyrir því að það muni ekki allir una þessari niðurstöðu. Þess vegna er mikilvægt að við fáum svigrúm til þess í efnahags- og viðskiptanefnd að skoða það að við séum sæmilega örugg fyrir því að þau lög sem við setjum standist stjórnarskrána og ákvæði hennar um að allir skuli jafnir fyrir lögum þegar við erum með fyrir framan okkur lög sem taka bæði til kjaradómsfólks og kjaranefndarfólks, að því hafa verið úrskurðuð misháar launahækkanir á þessu tímabili.



[16:05]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Hér hefur verið mælt fyrir frumvarpinu og allítarleg umræða hefur farið fram í dag af hálfu þingmanna. Einnig hefur verið mikil umræða í þjóðfélaginu öllu um kjaramál, dóm Kjaradóms sem féll nú fyrir áramótin og er þá tilefni til þessarar umræðu og frumvarps sem liggur fyrir.

Þegar niðurstaða Kjaradóms varð ljós um kjör þeirra starfsmanna sem undir hann falla, þ.e. þingmanna, ráðherra og svokallaðra æðstu embættismanna þjóðarinnar, þegar sá úrskurður kom fram um hækkun á kjörum þeirra olli það mikilli umræðu og var eins og vaknað væri upp við vondan draum um hvað væri að gerast í þjóðfélaginu. Í frumvarpi þessu er lagt til að sá úrskurður eða ákvörðun Kjaradóms verði felld úr gildi og viðmiðun breytt. Dómurinn tók gildi um síðustu áramót. Í því fjargviðri sem varð þegar dómurinn var birtur fyrir jólin lögðum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að þing yrði kvatt saman og ákvörðun tekin um eða lagt til við þingið að það gerði samþykkt sem kæmi í veg fyrir að dómurinn eða þær breytingar sem kveða á um kjör æðstu embættismanna ríkisins kæmu til framkvæmda 1. janúar.

Í stað þess að verða við þeirri eðlilegu kröfu ákvað forsætisráðherra eftir margs konar klúður eins og við þekkjum í umræðunni fyrir jólin og fyrir áramótin, að kalla Kjaradóm inn á teppið, eins og hann gæti skipað honum fyrir sem er nú orðinn háttur stjórnvalda hér, að halda að þau geti deilt og drottnað ef einhver lög eða einhver úrskurður kveður á um eitthvað sem þeim kemur á óvart að þá geti þau bara kallað viðkomandi inn á teppið og beðið hann að breyta úrskurðinum eða niðurstöðunni. Þetta eru svo sem viðbrögð hjá hæstv. forsætisráðherra Framsóknarflokksins sem koma okkur ekki á óvart en sýna kannski meira veruleikafirringuna sem stjórnvöld eru orðin haldin, að halda að þau geti bara kallað fyrir ráð og dómstóla og sagt þeim fyrir verkum. Það er einmitt þessi veruleikafirring sem mér finnst vera kannski einn alvarlegasti þátturinn í þessari umræðu allri, þ.e. veruleikafirring stjórnvalda og ráðherranna, sérstaklega forsætisráðherra.

Yfirlýsingar forsætisráðherra voru um að þetta hefði komið honum ofboðslega mikið á óvart, að þessi hækkun, þessi breyting sem Kjaradómur lagði til hefði komið honum mikið á óvart. En Kjaradómur var einungis, eins og hann ítrekaði síðan í áliti sínu og sérstakri greinargerð, að fara eftir þeim lögum og þeim viðmiðunum sem honum voru sett við ákvörðun á kjörum umræddra starfsmanna og tók þá viðmið af fólki í samfélaginu sem þeim hafði verið uppálagt að taka mið af við breytingar á kjörum.

Þjóðin öll hefur fylgst með þeim gríðarlegu launahækkunum, kjarahækkunum sem einstakir þjóðfélagshópar annað hvort eru að fá eða eru að skammta sér á undanförnum árum, sérstaklega núna á síðustu missirum. Ég er með dæmi hérna, af því að í dagblaði í gær var minnst á hvernig stjórnendur íslenskra bankastofnana hafa skammtað sér með einum eða öðrum hætti eða fengið launa- og kjarahækkanir í svo svimandi upphæðum að fæst okkar geta einu sinni hugsað í þeim tölum, að fólk sé að fá milljónir króna á dag í kjarabætur. Þessi mikla breyting sem hefur orðið í samfélaginu á síðustu missirum, gliðnunin sem er orðin á kjörum þeirra sem eru með hæstu tekjurnar og hinna sem eru með lægri tekjur, við sjáum hana öll, en hæstv. forsætisráðherra sér hana ekki og kom þetta óskaplega mikið á óvart. Mér finnst það kannski vera, frú forseti, einn alvarlegasti þátturinn í þessu máli, þ.e. veruleikafirring forsætisráðherra að halda síðan að hann geti kallað dóm eins og Kjaradóm fyrir sig og skipað honum að breyta niðurstöðu. Nei, það eru forsendurnar í samfélaginu sem speglast í þessum úrskurði og á því hefði forsætisráðherra átt að átta sig en ekki að taka Kjaradóm og fara að leysa niður um hann og skipa honum að koma með einhvern annan úrskurð en honum var mögulegt að gera samkvæmt þeim lögum sem hann starfar eftir.

Það var því afar óskynsamlegt af forsætisráðherra og ríkisstjórninni að hafna þeim afdráttarlausu tillögum og kröfum stjórnarandstöðuflokkanna, Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Samfylkingarinnar og Frjálslynda flokksins um að þing kæmi saman og kæmi í veg fyrir að þessi lög kæmust til framkvæmda 1. janúar og yrði þá sett nefnd í að kanna forsendur fyrir m.a. Kjaradóm en einnig fyrir þeim launabreytingum, kjarabreytingum sem eru að verða núna í þjóðfélaginu og engin sátt er um. Það er engin sátt um þær breytingar sem núna eru að verða í þjóðfélaginu á kjörum.

Ég leyfi mér t.d. að vitna í ágæta grein sem Þorvaldur Gylfason skrifar í síðasta blað Vísbendingarinnar sem ber yfirskriftina „Bað einhver um þennan ójöfnuð?“ Bað einhver um hann? Hann verður ekki til af sjálfu sér, hann verður til fyrir stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum, í kjaramálum, í allri þeirri lagaumgerð sem lýtur að skiptingu fjár, skiptingu hinna veraldlegu gæða, og það er lagaumgerð af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Bað einhver um þennan ójöfnuð? Ekki held ég að þjóðin hafi beðið um hann. En það er þessi ójöfnuður sem er að birtast í úrskurði Kjaradóms og forsætisráðherra segir: Mér kom þetta mjög mikið á óvart. Veruleikafirring forsætisráðherra er ógnvekjandi, frú forseti.

Það er einmitt aukinn ójöfnuður, kjaramismunun í samfélaginu sem er ógnun við efnahagslegan stöðugleika og ekki bara ógnun við efnahagslegan stöðugleika, hún er líka ógnun við þá samfélagslegu vitund og samfélagslegu samkennd sem hefur verið styrkur íslensku þjóðarinnar um langt árabil. Það að allir einstaklingar eigi að hafa sama rétt til að fá að njóta sín og njóta verka sinna, m.a. í kjörum, er forsenda fyrir öflugu samfélagi sem byggist upp á samkennd eins og við höfum lengst af verið. Frá árunum 1999–2000 hefur launa- og kjaramunur, tekjumunur í samfélaginu aukist alveg gríðarlega. Sem dæmi er notaður stuðull, svokallaður Gini-stuðull, sem sýnir þetta innra jafnvægi og því lægri sem hann er, því meiri jöfnuður er.

Árið 2000 er þessi stuðull 26, á hliðstæðu róli og í öðrum ríkjum í Skandinavíu, Danmörk er t.d. með 25. En á fjórum árum hefur hann hækkað upp í 31 hér á Íslandi, miklu, miklu meira en í nágrannalöndum okkar. Við erum að sigla inn í svipað samfélag og hið bandaríska þar sem launamunurinn, kjaramunurinn, tekjumunurinn er mikill en meðaltalið sýnir mjög góða stöðu — meðaltal tekna þjóðarinnar er mjög gott en það segir bara hálfa söguna og varla það. Meðaltal á kjörum Íslendinga segir ekki neitt, er einungis blekking. Það er mismununin sem segir það sem við þurfum að fá að vita og hún vex hratt. Hún birtist m.a. í því að Kjaradómur telur að svokallaðir viðmiðunarhópar, sem honum var gert að taka mið af við ákvörðun launa æðstu embættismanna ríkisins, hafi hækkað miklu meira en laun á almennum vinnumarkaði og því verði, samkvæmt þeim lögum sem dómurinn starfar eftir, að hækka laun umræddra hópa.

Þetta þurfum við fyrst og fremst að hugsa um. Þegar við lítum nú á það frumvarp til laga sem flutt er hér eru rökin fyrir því að afnema þurfi eða fella úr gildi hluta af úrskurði Kjaradóms þau að að óbreyttu muni hann stefna stöðugleika efnahagsmála í hættu. Gott og vel, það er alveg sjálfsagt að skoða hvort þessi hækkun sé eðlileg og sanngjörn. En fyrst og fremst þarf að skoða forsendurnar því að það eru þær sem eru ógnun við hinn efnahagslega stöðugleika — dómur Kjaradóms speglar það sem er að gerast í samfélaginu, það sem er í rauninni ógnun við efnahagslegan stöðugleika.

Þess vegna leggjum við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs til að í umræðum um þetta mál — úr því að þessi hækkun er hvort eð er komin til framkvæmda og hægt að gera hana með einum eða öðrum hætti afturvirka — verði skoðað hvort þingið er sátt. Vill þingið hafa þann gríðarlega kjaramun sem núna er að verða í samfélaginu og hefur orðið til fyrir stefnu þessarar ríkisstjórnar, hefur orðið til fyrir efnahagsstefnu ríkisstjórnar sem keyrir efnahagssamfélag áfram á viðskiptahalla — gert er ráð fyrir að hann verði á milli 150 og 160 milljarðar á síðasta ári — keyrir áfram á gríðarlegum vaxtamun við útlönd, keyrir áfram á gríðarlegri skuldasöfnun? En það eru aðeins þeir sem hafa veð sem geta náð sér í eyðslufé með því að keyra neyslu sína á skuldum. Sú launastefna sem við stöndum frammi fyrir í úrskurði Kjaradóms er hluti af rangri efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Það á að ráðast á hana og breyta þá kjörum þingmanna og ráðherra í kjölfarið. En það á ekki að taka á þeim þáttum og því má búast við því að hér verði bara um yfirklór að ræða og horft verði fram hjá því sem er að gerast.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, rakti einmitt mjög ítarlega í ræðu sinni þessa mismunun, rakti kjör aldraðra, kjör öryrkja og kjör starfsfólks í heilbrigðiskerfinu. Kjör þessa fólks lækka hlutfallslega á móti kjörum hinna sem hafa hæstu launin. Við þekkjum þær skattabreytingar sem ríkisstjórnin hefur verið að beita sér fyrir á síðustu árum. Þær fela í sér skattaívilnanir til hátekjufólks, skattaívilnanir til þeirra sem hafa tekjur sínar af fjármagni og af hagnaði en hlutfallslega aukna skattbyrði á lægstu tekjur. Ættum við ekki að taka þetta mál fyrir líka þegar við nú ætlum að fara að búa til einhverja kjarasátt?

Það er einmitt þessi mismunun sem speglast í dómi Kjaradóms. Það er hægt að hafa áhyggjur af forsætisráðherra sem ekki gerir sér grein fyrir því að Kjaradómur speglar gjörðir ríkisstjórnarinnar eða afleiðingar þeirra sem koma fram í auknum kjaramun meðal þjóðarinnar. Það er hægt að hafa áhyggjur af forsætisráðherra sem ekki fylgist betur með því sem er að gerast í samfélaginu og velur það að kalla Kjaradóm inn á teppið og biðja hann að breyta niðurstöðu sinni og verður síðan hissa þegar Kjaradómur segir að niðurstaðan sé í samræmi við það sem lög kveða á um og spegli einungis það sem er að gerast í samfélaginu. Það er hægt að hafa áhyggjur af því að forsætisráðherra og ríkisstjórn skuli vera það veruleikafirrt að átta sig ekki á því hvað er að gerast.

Frú forseti. Það er annað sem hefur verið að gerast í þessu sambandi. Ríkisstjórnin og meiri hlutinn hér á Alþingi hafa ákveðið, í lagasetningum um einstakar nýjar stofnanir á vegum ríkisins, að forstöðumenn þeirra taki ekki laun með hefðbundnum hætti samkvæmt kjarasamningum. Nú síðast má nefna lög um samkeppniseftirlit. Það var mikið mál fyrir ári síðan að setja ný lög um samkeppniseftirlit — forstjóri Samkeppnisstofnunar var ráðinn með hefðbundnum hætti áður — og var einmitt mjög umdeilt hér á þingi. Nú ákvað þingið að forstjóri Samkeppniseftirlitsins skuli ráðinn af stjórn stofnunarinnar og forstjóri annast daglega stjórnun á starfsemi og rekstri eins og segir í 6. grein — stjórn stofnunarinnar ákveður starfskjör forstjóra.

Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hér: Er ætlunin að ákvarðanir af þessum toga verði teknar upp eða hvernig á að ákveða laun forstjóra Samkeppniseftirlitsins og annarra stofnana sem verið er að breyta lögum um þar sem forstöðumenn eru ráðnir utan hefðbundinna kjarasamninga? Við vorum að ræða um Fjármálaeftirlitið um daginn þar sem líka er veitt heimild til þess að ráða ákveðna starfsmenn utan hefðbundinna kjarasamninga. Það er verið að hlutafélagavæða ríkisstofnanir og er þá kannski einn tilgangurinn með því að komast hjá því að ráða viðkomandi forstöðumenn samkvæmt kjarasamningum til þess að geta borgað þeim mun hærri laun? Mér finnst ríkisvaldið, frú forseti, verða að hafa einhverja heildstæða stefnu varðandi kjör þó ekki sé nema forstöðumanna ríkisstofnana hvort sem þær eru í formi hlutafélaga eða ekki. Svo virðist ekki vera.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, frú forseti, höfum lagt fram þingmál þar sem við leggjum til að skattbyrðin verði færð af lágtekjufólki og yfir á hátekjufólk, þveröfugt við það sem ríkisstjórnin er að gera. Við höfum lagt til að fjármagnstekjuskattur verði hærri á þá sem hafa hæstar tekjur. Með þeim hætti viljum við stuðla að jöfnuði því að allt er þetta hluti af heildarkjaramynd, heildarskiptingu tekna og gjalda, samfélagslegra gjalda í samfélaginu. Það verður að horfa á alla þessa þætti saman. Þegar þetta frumvarp um breytingar á lögum um Kjaradóm verður tekið fyrir nú í nefndum þingsins finnst mér, frú forseti, eðlilegt að það fari líka til félagsmálanefndar sem hefur það hlutverk að fylgjast með jöfnuði í samfélaginu. (Forseti hringir.) Það er fleira en bara laun, frú forseti, sem hafa áhrif á kjör. (Forseti hringir.) Það eru skattar, það eru önnur gjöld, frú forseti, (Forseti hringir.) og ég vil að þetta sé allt saman skoðað heildstætt þegar farið verður ofan í þessi kjaramál.



[16:26]
Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við eins og alþjóð veit að ræða ansi sérstakt mál sem að mínu mati hefði mátt koma í veg fyrir. Vegna tregðu ríkisstjórnarflokkanna við að fara eftir óskum stjórnarandstöðunnar um að kalla þing saman fyrir gildistöku þessa úrskurðar hafa nú komið upp mörg álitamál. Eitt af þeim felst í því hvort þetta inngrip sé með einhverjum hætti óeðlilegt og óheppilegt eða fari hugsanlega í bága við stjórnarskrá.

Við sjáum að þar sem þessi úrskurður hefur nú þegar tekið gildi getur þetta vakið ákveðnar spurningar varðandi lögmæti þess að setja þau lög sem þetta frumvarp lýtur að. Við sjáum að lagaprófessorar hafa velt því fyrir sér hvort þetta standist og þetta er auðvitað eitt af því sem efnahags- og viðskiptanefnd mun að sjálfsögðu skoða vel í sinni vinnu.

Í fréttum sjónvarpsins frá 30. desember sl. er talað við Eirík Tómasson lagaprófessor — inngangurinn að þeirri frétt er, með leyfi forseta:

„Einn embættismaður ríkisins á þó ekki von á launalækkun, það er forseti Íslands.“

Síðan er vitnað beint í ummæli Eiríks Tómassonar þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Vegna þess að í stjórnarskránni er beinlínis tekið fram að óheimilt sé að lækka greiðslur til forseta kjörtímabil hans, þ.e. laun og aðrar greiðslur.“

Annar lagaprófessor tekur í svipaðan streng, Sigurður Líndal fyrrv. lagaprófessor.

Hann segir 9. janúar sl. í viðtali við NFS, með leyfi forseta:

„Í lögum um laun forseta Íslands segir að Kjaradómur skuli annast það verk. Þetta er í 1. gr. þeirra laga. Síðan segir í 2. gr. laga um Kjaradóm, þ.e. að þetta skuli gert á þennan hátt, og þar er svo þetta ítrekað og Kjaradómur hefur síðan ákveðið þessi laun á grundvelli 5. gr. með þeim viðmiðum sem þar eru. En síðan segir í 9. gr. stjórnarskrárinnar að óheimilt sé að lækka laun forseta kjörtímabil hans. Nú, af þessu dreg ég þá ályktun að þarna hafi laun forseta verið ákveðin lögum samkvæmt eins og segir í stjórnarskránni og þá jafnframt að þeirri ákvörðun verði ekki breytt út kjörtímabil hans.“

Þarna eru tveir virtir lagaprófessorar búnir að velta því fyrir sér hvort það inngrip sem þetta frumvarp lýtur að standist stjórnarskrá. Ég geri mér fulla grein fyrir því að í greinargerðinni með stjórnarskránni frá 1944 segir í lögskýringargögnum varðandi 9. gr., með leyfi forseta:

„Með fyrirmælunum er einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann í upphafi hafði en engan veginn tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.“

Þetta segir í athugasemdum með stjórnarskránni sem var samþykkt 1944 og að sjálfsögðu þurfum við að skoða þetta ákvæði 9. gr. í því ljósi. Ef þannig er í pottinn búið að lagaákvæði séu það afgerandi að þau stangist jafnvel á við greinargerðina gildir að sjálfsögðu ákvæðið sem slíkt því að athugasemdir með lagaákvæðum eru einungis lögskýringargögn. Það eru til dæmi þar sem dómstólar hafa komist að því að skilningur í greinargerð sé ekki í samræmi við orðalag sjálfs ákvæðisins. En þetta þarf efnahags- og viðskiptanefnd að skoða og væntanlega fá þessa ágætu lagaprófessora á sinn fund því að þetta skiptir að sjálfsögðu líka miklu máli.

Síðan eru fleiri álitamál varðandi þetta frumvarp sem varða hina hópana sem heyra undir Kjaradóm. Hér er ekki einungis um að ræða þingmenn, ráðherra og forseta, hér eru aðrar stéttir sem hafa fengið þessa launahækkun í samræmi við úrskurð Kjaradóms en munu síðan fá skerðingu með þessu frumvarpi, verði það samþykkt. Það má t.d. velta fyrir sér sanngirninni í því að þegar Kjaradómur ákvað að setja upp ákveðna launatöflu árið 2003 þá ákvað hann að hæstaréttardómurum skyldi vera skipað í launaflokk 137 en í þeim flokki í kjaranefnd var ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins. Þarna var sem sagt vilji Kjaradóms að þessir aðilar, hæstaréttardómarar og síðan ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, væru í sama flokki.

Með þessu frumvarpi breytist þetta, hæstaréttardómarar munu þá fara niður um einn og hálfan launaflokk, vera á bilinu 135 til 136, og það má alveg velta fyrir sér hvort það sé sanngjarnt gagnvart þeim. Ég tek að sjálfsögðu undir það sem aðrir þingmenn Samfylkingarinnar hafa sagt hér í dag, við erum að sjálfsögðu tilbúin að samþykkja þetta frumvarp hvað varðar launahækkanir þingmanna og ráðherra en hitt þarf auðvitað frekari skoðunar við. Við hér á þingi sáum þetta frumvarp fyrst í morgun og þar sem það eru álitamál í því þarf að skoða þetta mjög vel.

Annað álitamál hefur verið vakið hér í umræðunni en það varðar einingarnar svokölluðu sem kjaranefndarfólk fær sem hluta af kjörum sínum. Því hefur verið velt upp hvort frumvarpið muni skerða þær einingar og þar af leiðandi ná til kjaranefndarfólks en ekki einungis til kjaradómsfólks. Þetta þarf auðvitað að fást á hreint, það er álitamál hvort þetta nái til viðkomandi fólks sem heyrir undir kjaranefnd en reglan varðandi þessar einingar hefur verið að þær væru 1% af 130. launaflokki. Þetta þurfum við líka að skoða, hvort verið sé að skerða réttindi þessa stóra hóps sem heyrir undir kjaranefnd en það eru allt að tvö þúsund einstaklingar. Það er því ýmislegt sem nefndin þarf að skoða og við hér í þinginu einnig.

Í öðru lagi vil ég nefna að ég er sammála öðrum hér inni um að við teljum að Kjaradómur hafi einfaldlega sinnt skyldu sinni með þessum úrskurði, þ.e. hann hafi ekki brotið lög eða eitthvað slíkt. Hann ákvað úrskurð sinn út frá þeim forsendum sem eru í lögunum, þar á meðal leit Kjaradómurinn til kjaranefndar og á þeim tíma sem kjaranefnd úrskurðaði hækkanir sínar bárust engin mótmæli varðandi það.

Síðan er annað viðmið sem Kjaradómur þarf að líta til, það eru svokallaðar viðmiðunarstéttir og hækkanir þeirra stétta liggja að sjálfsögðu hjá ríkisstjórninni og fjármálaráðherra þess tíma og núverandi. Það er fyrirmyndin sem kjaranefnd og Kjaradómur líta til þannig að ef við ætlum að líta á upphaf þessa máls þá þarf auðvitað að skoða þá samninga sem hæstv. ráðherrar eru ábyrgir fyrir því að þannig byrjaði þetta. Þannig eiga kjaranefnd og Kjaradómur að starfa, það verður að líta á almenna launaþróun og þessar viðmiðunarstéttir. Pólitísk ábyrgð liggur því þar, hún liggur ekki hjá Kjaradómi, hún liggur hjá hæstv. ríkisstjórn því að það er hún sem semur og setur standardinn og við þurfum auðvitað að ræða hér eins og oft áður almennt um kjarapólitík í landinu.

Skoðum einfalda staðreynd sem sýnir að þessi þróun ætti ekki að koma hæstv. ráðherrum á óvart. Tökum saman fjárlögin árin 2000–2004 þá var samkvæmt þeim áætlað að þessi fjárlög mundu skila 82 milljarða kr. afgangi. En þegar reikningurinn var gerður upp var niðurstaðan sú að þar varð 8 milljarða kr. halli, þ.e. í stað 82 milljarða kr. afgangs varð 8 milljarða kr. halli. Við vitum að langstærstur hluti ríkisútgjalda eru laun svo þessar launahækkanir ættu ekki að koma neinum á óvart. Til gamans má nefna að árið 2003 jukust ríkisútgjöld um að meðaltali 2 milljónir kr. á klukkustund frá samþykktum fjárlaga. Þetta endurspeglar og undirstrikar þau lausatök sem ríkisstjórnin hefur á ríkisfjármálunum og við í stjórnarandstöðunni höfum iðulega bent á. Ábyrgðin liggur því hjá ríkisstjórninni og þessar tölur sýna að þetta ætti ekki að koma þeim á óvart, ábyrgðin hvað þetta varðar liggur ekki hjá Kjaradómi.

Í þriðja lagi vil ég nefna að þetta kerfi, þ.e. kjaranefnd og Kjaradómur, þarfnast endurskoðunar og nefnd sem er búið að boða undir forustu Jóns Sigurðssonar fyrrverandi ráðherra mun væntanlega fara í þá vinnu fljótlega upp úr samþykkt þessa frumvarps, en ég tel að eitt af lykilatriðunum í þeirri vinnu þurfi að vera að tryggja gegnsæi. Við sjáum að þetta kerfi er ekki mjög gegnsætt og þá vil ég sérstaklega taka það fram með þær einingar sem bætast við launin að það geta verið allháar upphæðir sem viðkomandi einstaklingur fær í þeim. Ef við tökum kjaranefndina fyrst, þá eru samkvæmt úrskurði hennar föst laun ráðuneytisstjóra 655 þúsund kr. en síðan bætast við einingar allt að 200 þús. kr. til viðbótar. Við sjáum líka að skattstjórar eru með tæplega 470 þús. kr. í laun en einingar sem bætast við eru allt að 190 þús. kr.

Ef við hlaupum hratt yfir og skoðum þær stéttir sem eiga að heyra undir Kjaradóm sjáum við að samkvæmt Kjaradómi eru hæstaréttardómarar með 630 þús. kr. í laun en þeir eru með einingar upp á 223 þúsund, sem segir það að þeirra laun eru 850 þúsund en ekki 630 þúsund. Þetta sýnir okkur að kerfið þarf að vera gegnsærra. Ég skil ekki alveg þörfina á að hafa þetta einingakerfi, ég skil ekki af hverju það er ekki einfaldlega hægt að hafa bara laun. Að sama skapi tel ég að þingfararkaupið ætti að endurspegla þau raunverulegu kjör sem við höfum. Þingmenn hafa eitthvert fyrirbæri sem heitir starfskostnaðargreiðslur, sem eru u.þ.b. 50 þús. kr. og að mínu mati ætti sú greiðsla einfaldlega að vera hluti af þingfararkaupinu (Gripið fram í: Hækka það betur.) til að gera launin sýnilegri. Við þurfum að hafa það á bak við eyrað að laun almennt, sérstaklega þessara stétta, þurfa að vera sýnileg og ég tel að sú nefnd sem nú verður sett á koppinn eigi að skoða þetta með hliðsjón af því.

Við sjáum líka annan vinkil, það eru hinir svokölluðu stofnanasamningar sem að sjálfsögðu hafa bein áhrif á þessa ákvörðun kjaranefndar og ákvörðun Kjaradóms. Þeir eru í sjálfu sér ekki sérstaklega sýnilegir en hins vegar geta þeir velt ýmsu af stað eins og þetta mál sýnir, þar sem kjaranefnd og Kjaradómur hafa m.a. tekið mið af þeim stéttum sem hafa gert stofnanasamninga.

Mig langar að lokum að tala aðeins almennt um kjaramál því að þetta gerist ekki í einhverju tómarúmi, Kjaradómur starfar ekki í einhverju tómarúmi. Þetta kemur okkur við að sama skapi og starfslokasamningar í viðskiptalífinu koma okkur við og við eigum að hafa skoðun á þessu, ég tala nú ekki um þegar þessar ákvarðanir, hvort sem þær eru teknar á hinum almenna vinnumarkaði eða gerðar í formi starfslokasamninga eða hjá Kjaradómi, geta stefnt stöðugleikanum á vinnumarkaðnum í voða. Þess vegna eigum við að hafa skoðanir á þessu og eigum að ræða þetta.

Varðandi kjarapólitíkina í þessu landi sem oft tekur á sig skrýtnar myndir, þá tókum við eftir hvers konar viðbrögð borgarstjórinn í Reykjavík fékk þegar Reykjavíkurlistinn ákvað að gera það sem allir hafa verið að tala um, þ.e. að hækka laun lægstu stétta, svokallaðra umönnunarstétta, sem allir þingmenn hafa talið þörf vera á. Þegar það er loksins gert er viðkomandi stjórnmálamaður gagnrýndur harðlega fyrir að gera það sem við öll boðum og er svo sannarlega tímabært, þ.e. að hækka lægstu launin, en sem betur fer hefur Reykjavíkurlistinn staðið það af sér. Að sama skapi tel ég einnig að kjör leikskólakennara þurfi endurskoðunar við, en þegar þeirra kjör hafa verið leiðrétt tel ég að við þurfum að huga að því afskaplega vandlega hvort aðrar stéttir eigi ekki að sýna þessum stéttum þann skilning að hleypa ekki þessari hækkun upp allan stigann. Ef það gerist náum við aldrei að hækka lægstu launin í samfélaginu og þar af leiðandi náum við ekki að manna þessar stofnanir o.s.frv. Það þarf að ríkja skilningur hjá öðrum stéttum og í samfélaginu, ef við ætlum að hækka laun lægstu stétta má sú hækkun ekki hlaupa upp allan stigann. Þetta er mikilvægt.

Við sjáum það varðandi viðbrögð þjóðarinnar við þessum Kjaradómi að þau eru auðvitað að mörgu leyti skiljanleg. Fólki í landinu svíður staðreynd á borð við þá að þriðji hver eldri borgari er með 110 þús. kr. á mánuði eða minna og af þessum 110 þús. kr. borgar hann um 15 þús. kr. í skatt. Við sjáum einnig að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í skattamálum þjónar fyrst og fremst þeim sem eru með hærri tekjur, þegar þú ert með flatar tekjuskattslækkanir þá færðu meiri krónutölulækkun eftir því sem tekjur þínar eru hærri, eðlilega, en við í Samfylkingunni buðum þingheimi upp á aðra leið til að lækka skatta sem fólst í að lækka matarskattinn sem hefði komið öllum hópum til góða og ekki síst venjulegu fjölskyldufólki og millistéttinni. Þetta er auðvitað bara pólitískur ágreiningur um hvora leiðina ætti að fara. Það er kannski ágætt að rifja það upp, þar sem ég hef nú tíma, hvernig þessar framkvæmdir ríkisstjórnarinnar í skattamálum munu komast mismunandi til skila til ólíkra hópa.

Við sjáum það t.d. að þegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru allar komnar til framkvæmda eftir tvö ár þá mun fjölmennasti hópur einstæðra foreldra fá u.þ.b. 8 þús. kr. lækkun á mánuði en að sama skapi fær maður sem er með milljón á mánuði lækkun upp á tæpar 100 þús. kr. í hverjum mánuði eða tæplega tólf sinnum hærri upphæð en einstaklingur sem er í fjölmennasta hópi einstæðra foreldra. Hálaunahjón með tæpa milljón kr. á mánuði samanlagt fá eftir að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru komnar til framkvæmda um 66 þús. kr. í skattalækkun á mánuði eða tæplega 800 þús. kr. ári. Í fjölmennasta hópi millitekjuhjóna sem eru með 375 þús. kr. á mánuði fær fólk rúmlega helmingi lægri upphæð en þá sem hin efnuðu hjón fá frá ríkisstjórninni. Í þessu endurspeglast auðvitað ákveðinn grundvallarmunur á hugmyndafræði ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar.

Ef við skoðum einungis þær skattalækkanir sem koma til framkvæmda á þessu ári mun tekjuskattslækkun ríkisstjórnarinnar færa grunnskólakennara með meðallaun u.þ.b. ígildi eins bleiupakka á mánuði en milljón króna maður, maður með eina millj. kr. á mánuði fær u.þ.b. 23 þús. kr. í skattalækkun mánaðarlega eða sem kannski samsvarar einni utanlandsferð í hverjum mánuði.

Þetta er auðvitað mikill munur og í þannig andrúmslofti er alveg skiljanlegt að fólk setji spurningarmerki við starfslokasamninga og Kjaradóm o.s.frv. Við sjáum með fyrirbæri eins og hinum velþekkta Gini-stuðli, sem mælir ójöfnuð í viðkomandi samfélagi, að ójöfnuður í okkar samfélagi hefur verið að aukast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Að sama skapi hefur skattbyrði einstaklinga einnig verið að aukast og svar fjármálaráðherra við fyrirspurn þingmanna Samfylkingarinnar staðfestir að æ stærri hópur greiðir hærra hlutfall tekna sinn í tekjuskatt en hann gerði árið 1995 þegar núverandi ríkisstjórn tók við. Fólk borgar því hærra hlutfall af tekjum sínum í skatt og að sama skapi er skattbyrði lægstu hópanna að aukast. Þetta er þróun sem við þurfum að snúa við og ef við lítum á tölur OECD hefur skattbyrði einstaklinga aukist mest á Íslandi frá árinu 1990 af öllum ríkjum OECD fyrir utan Grikkland. Þetta er afrakstur þessarar stefnu ríkisstjórnar ójafnaðar og aukinnar skattbyrði.

Þetta tengist auðvitað þessu atriði sem við erum að tala um hér í dag. Fólkið í efnahags- og viðskiptanefnd mun að sjálfsögðu skoða þetta frumvarp vel og það ber að vanda sérstaklega vel til verka varðandi stjórnarskrána og önnur álitamál sem bæði prófessor Eiríkur Tómasson og prófessor Sigurður Líndal hafa vakið máls á. En ég held að það sé alveg augljóst og að fólk sjái það að við hefðum getað komist hjá ýmsum af þessum álitamálum með því að fara þá leið sem stjórnarandstaðan bauð ríkisstjórninni fyrir áramótin sem laut að því að kalla saman þing og fresta gildistöku þessa úrskurðar. Þá stæðum við ekki frammi fyrir þeirri staðreynd að úrskurðurinn hefur tekið gildi, fólk er búið að fá greitt samkvæmt honum ein mánaðamót og nú stefnir í að fara til baka og það vekur einfaldlega spurningar. Leið stjórnarandstöðunnar var því augljóslega skynsamleg og hún hefði fækkað álitamálum í þessu máli sem eru alveg næg fyrir að mínu mati.



[16:45]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Sú umræða sem hér fer fram sprettur af þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar að leggja fram frumvarp um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Segja má að niðurstaða Kjaradóms þann 19. desember hafi valdið nokkrum úlfaþyt í samfélaginu og ríkisstjórnin og kannski fleiri hafi bókstaflega farið á taugum þegar sú niðurstaða lá fyrir.

Það er kannski rétt að menn muni hina svokölluðu þjóðarsátt sem menn tala um í samfélaginu og eru búnir að gera ansi lengi. Í hálfan annan áratug hafa menn talað um þjóðarsátt og það ætti kannski að vera farið að renna upp fyrir fólki að einhverjir slíkir hlutir fyrnist og verði svolítið úreltir þegar þeir eru að verða eins og hálfs áratugar gamlir og að þær heitstrengingar sem menn höfðu uppi á þeim tíma séu kannski ekki lengur fullkomlega gildar, enda búið að bregða út af þessari svokölluðu þjóðarsátt býsna oft og af mörgum aðilum í gegnum tíðina.

Hvernig skildu menn þessa þjóðarsátt í upphafi? Ég hygg að flestir hafi skilið hana þannig að sátt væri um að engir aðilar þrengdu fram háum eða nýjum kjörum sem röskuðu því jafnvægi sem væri í samfélaginu og að menn færu varlega í launakröfur og hækkanir á launum í samfélaginu. Þannig held ég að flestir hafi skilið þetta í upphafi. Síðan sáu menn að þetta gat ekki haldið til frambúðar, það varð auðvitað að vera hægt að lagfæra laun hjá einstökum starfshópum og stéttum. Þá var farið að loka öðru auganu gagnvart einhvers konar breytingum á launakjörum. Hækkun lægstu launa hefur það stundum verið kallað og stundum leiðrétting hjá einstökum hópum. Þetta hefur smám saman verið að vinda upp á sig þannig að heilar stórar starfsstéttir hafa jafnvel verið að fá verulega miklar launabreytingar til lagfæringar og skemmst er að minnast t.d. samninga kennara á síðasta ári eða næstsíðasta ári öllu heldur sem menn litu á sem slíka leiðréttingu.

Það sem ég er að segja er að sú stefna sem gilt hefur þennan tíma hlýtur í rauninni að vera úrelt í dag að því leyti til að ekki er hægt að horfa á hana með sömu augum og menn gerðu í upphafi. Auðvitað er full ástæða til að ábyrgir aðilar í samfélaginu fari varlega með samningsréttinn og reyni að sjá til þess að ekki fari allt á hvolf í samfélaginu. En það er ekki hægt að koma með andköfum og upphrópunum þó að nýir kjarasamningar sjái dagsins ljós sem færi láglaunafólki, eins og t.d. umönnunarstéttum hjá Reykjavíkurborg, góðar kjarabætur miðað við þau laun sem þar voru. Þess vegna er ástæða til að menn horfi á kjaramálin kannski með meiri rósemd en raun ber vitni, án þess þó að missa sjónar á þeim stöðugleika sem þarf að varðveita.

Þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir var staðan sú gagnvart launum opinberra embættismanna og þingmanna að um þau hafði verið endalaust stríð. Niðurstaðan varð síðan sú að menn samþykktu lögin um kjaranefnd og Kjaradóm á árinu 1992 og sú leið sem þar var valin hefur verið í gildi síðan og kerfislega séð tel ég að hún hafi reynst nokkuð vel, þó að ég hafi frá upphafi haft þá skoðun að þarna væri ástæða til að skoða betur hvort ekki ætti að vera um eina kjaranefnd að ræða frekar en tvær eins og er núna. En viðmiðanirnar sem þessar nefndir, Kjaradómur og kjaranefnd, hafa haft eru auðvitað teknar af sambærilegum launum í samfélaginu og hætta er á að einhvers konar víxlverkanir fari að myndast þegar um er að ræða annars vegar kjaranefnd og hins vegar Kjaradóm, sem eru jafnvel að taka mið af ákvörðunum hvors annars.

Framkvæmd launastefnu ríkisstjórnarinnar er fólgin í þessu. Það er alveg auðséð að ákvarðanir um laun starfsmanna á vegum ríkisins hafa haft afgerandi áhrif á þær niðurstöður sem hafa komið út úr kjaranefnd og Kjaradómi. Þegar ríkisstjórnin ákvað að hægt yrði að gera þessa svokölluðu stofnanasamninga urðu til með gerð þeirra nýjar viðmiðanir. Þessir stofnanasamningar færðu yfirmönnum stofnana og ýmsum starfsmönnum sem heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd miklar hækkanir, þ.e. viðmiðanir sem Kjaradómur og kjaranefnd fá með því að skoða laun yfirmanna stofnana og starfsmanna urðu til að laun hækkuðu verulega í framhaldinu. Ríkisstjórnin getur því ekki annað en axlað ábyrgð af því að ákvarðanirnar fóru að hækka verulega, þær sem kjaranefnd og Kjaradómur voru að taka gagnvart launum opinberra starfsmanna sem þar eiga undir.

Einnig er ástæða til að minna á að forusta launþegasamtakanna hefur látið þessa þróun svona nokkurn veginn átölulausa í gegnum tíðina. Það þarf ekki að segja mér eða öðrum að þeir hafi ekki vitað nákvæmlega hvað var á ferðinni og hvers konar þróun hafi verið í gangi gagnvart embættismönnum og öðrum sem taka laun samkvæmt Kjaradómi og kjaranefnd, en þeir hafa af einhverjum ástæðum ekki beitt sér mjög hart vegna þessara breytinga — þangað til núna í desember sl. að þá virtist vera að þeim fyndist að nú væri nóg komið og þeir mótmæltu þeim úrskurði Kjaradóms sem þá leit dagsins ljós mjög hart. Ég er í sjálfu sér ekki hissa á því vegna þess að þeir hafa boðað hina svokölluðu þjóðarsátt sínu fólki með þeim hætti að hún hefur ævinlega verið notuð til þess að sætta menn við að mínu viti býsna lélega samninga á undanförnum árum fyrir almennt launafólk í landinu og afar lélega samninga í samanburði við kjör margra í samfélaginu. Þess vegna er ég ekki hissa á því þó að komið hafi að þeim degi að forusta launþegasamtakanna í landinu risi upp og segði: Hingað og ekki lengra.

Þetta hefði ríkisstjórninni auðvitað átt að vera fullkomlega ljóst þegar hún var að móta launa- og kjarastefnu sína, að ef hún yrði með þeim hætti að svo miklar hækkanir yrðu sem raun bar vitni mundi hinni svokölluðu þjóðarsátt vera stefnt í voða. En ekki virðast menn á þeim bæ hafa verið svo óttaslegnir gagnvart þessu að þeir hefðu af því þær áhyggjur að þeir kæmu í veg fyrir áframhaldandi launahækkanir. En eftir að dómur var kveðinn upp í desember í Kjaradómi er greinilegt að ríkisstjórnin hefur tekið við sér og telur nú ástæðu til að endurskoða launastefnuna sem uppi er. Spurningin er: Hvernig ætla menn að fara að því? Varla geta menn reiknað með að hægt sé að hoppa til baka og breyta kjörum þeirra til lækkunar sem hafa fengið hækkanir á undanförnum árum. Ég held að engum detti í hug að hægt sé að labba inn í stofnanir ríkisins með nýja kjarasamninga og miklu verri til þeirra sem þar eru og hafa fengið hækkanir á undanförnum árum.

Þess vegna tel ég að það hefði átt að vera leiðin eins og stjórnarandstaðan lagði til fyrir hátíðarnar, fyrir áramótin, að fresta því að niðurstaða Kjaradóms kæmi til framkvæmda, setja af stað skoðun á málinu upp á nýtt hvort og hvernig menn ætluðu að breyta þessari launastefnu ríkisins og láta síðan koma í ljós hvaða leiðir menn fyndu í því efni.

Þetta vildi ríkisstjórnin ekki gera og niðurstaðan er sú að ríkisstjórnin ákveður inngrip má segja handvirkt inn í þá samninga sem fyrir hendi eru, þessa niðurstöðu sem fyrir hendi er. Ríkisstjórnin ákveður það að meiri hlutinn á Alþingi eigi að ákveða þá prósentu sem eigi að koma í staðinn fyrir það sem Kjaradómur hafði ákveðið að ætti að vera. Þessu er ég afar ósammála og tel að þarna hefðu menn átt að klára málið. Úr því að ríkisstjórnin lét ekki að vilja minnihlutaflokkanna á Alþingi og lét þessa hækkun ganga í gegn standa menn frammi fyrir því að sú hækkun sem Kjaradómur kvað upp er orðin staðreynd.

Að mínu viti er helsta leiðin núna sú að setja þá nefnd af stað sem hæstv. forsætisráðherra hefur talað um að setja á laggirnar og láta hana fara að vinna en hlaupa ekki til og grípa inn í þá niðurstöðu sem fyrir liggur og hefur komið til framkvæmda. Það finnst mér vera afar slæm niðurstaða, fyrir nú utan það að ljóst er að það er margt sem ástæða er til að skoða því að þessi ákvörðun getur t.d. farið í bága við stjórnarskrána. Hún getur það gagnvart forseta Íslands þar sem algjörlega skýrt ákvæði er þar sem segir að óheimilt skuli að lækka greiðslur til forseta kjörtímabil hans. Í athugasemdum við frumvarpið er talað um það sérstaklega og vitnað í athugasemdir með stjórnarskránni 1944. Í skýringum er sérstaklega tekið fram að með ákvæðinu sé einungis verndaður réttur forseta til sömu krónutölu og hann hefði í upphafi haft, en engan veginn tryggt að kaupmáttur krónunnar haldist óbreyttur.

Mér finnst þetta ekki nægileg rök í málinu, að þetta orðalag hafi verið þarna til staðar í athugasemdum. Það sem gildir er auðvitað það sem stendur í sjálfri stjórnarskránni, fyrir nú utan það að með dómi Kjaradóms er komin niðurstaða í krónutölu og með því að þetta frumvarp yrði að lögum væri verið að breyta þeirri krónutölu. Ef menn vilja fara í hártoganir út af einhverju orðalagi er full ástæða til að gefa gaum að þessu.

En það er fleira sem varðar stjórnarskrána sem ástæða er til að gefa gaum ef niðurstaðan verður þessi. Það eru fleiri en ég og þeir lagaprófessorar sem hafa látið í sér heyra, Sigurður Líndal t.d., sem hafa nefnt að þetta fari í bága við stjórnarskrána hvað varðar forsetann.

Og nú hefur borist bréf til þingflokksformanna. Það bréf skrifar Dómarafélag Íslands til forseta Alþingis og ég sé ástæðu til að lesa það vegna þess að það hefur ekki verið gert að umræðuefni hér. Það á sannarlega erindi inn í þessa umræðu.

Bréfið er stílað: Til Alþingis Íslendinga. Forseti Alþingis, frú Sólveig Pétursdóttir, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjaradómur hefur allt frá því að hann var stofnaður árið 1962 ákveðið laun dómara, fyrst hæstaréttardómara og síðan einnig héraðsdómara frá árinu 1984. Að baki þessu býr það sjónarmið að ekki er æskilegt að framkvæmdarvaldið fjalli um eða ákveði laun dómara.“

Þarna eru dómarar að fjalla um kjör sín og hvort Alþingi geti gripið inn í með þeim hætti sem hér er ætlað. Ég ætla ekki að lesa þetta bréf allt saman upp en vitna aðeins í það.

Þar er m.a. sagt:

„Athygli er vakin á því að fyrirhuguð breyting til lækkunar á kjörum þeirra sem falla undir Kjaradóm beinist aðeins að fámennum hópi ríkisstarfsmanna. Leikur vafi á hvort slík ákvörðun stenst 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði.“

Hér er sem sagt Dómarafélag Íslands að skrifa hæstv. forseta Alþingis.

Svo segir hér, með leyfi forseta:

„Einnig skal áréttað að ákvörðun Kjaradóms frá 19. desember sl. hefur þegar tekið gildi. Löggjafinn hefur með setningu laga nr. 120/1992 fengið mönnum þann rétt til launa sem Kjaradómur ákveður og eru þau laun með því orðin eign þeirra og verður þeim ekki breytt vegna þeirrar verndar sem eignarréttur nýtur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar.“

Áfram segir, með leyfi forseta:

„Með bréfi dagsettu 11. þ.m.“ — ég vek athygli á því, 11. þ.m. — „beindi stjórn Dómarafélags Íslands samhljóða erindi til forsætisráðherra. Í því bréfi var þess einnig farið á leit að ekki yrði lagt til við Alþingi að breyting yrði gerð á þeim kjörum sem dómurum hafa verið ákveðin af Kjaradómi. Kæmi hins vegar til þess að Alþingi samþykkti breytingar í þá veru kynni félagið að telja sig knúið til þess að láta reyna á hvort þær væru samrýmanlegar stjórnarskránni.“

Ég verð að segja það alveg eins og er að ég átel hæstv. forsætisráðherra harðlega fyrir að hafa setið á þessu bréfi. Hann fékk þetta bréf frá Dómarafélaginu þann 11. janúar, fyrir sex dögum, og kom þessum sjónarmiðum ekki einu sinni á framfæri þegar umræðan fór af stað. Helst hefði ég kosið að hæstv. forsætisráðherra hefði gert það fyrr og strax og hann fékk bréfið í hendur. Það á vissulega erindi inn í þá umræðu sem hér fer fram. (Gripið fram í: Fjármálaráðherra …) Hæstv. fjármálaráðherra virðist ekki hafa fengið þetta bréf í hendur. Hann upplýsir það sjálfsagt hér á eftir hvort hann hefur séð þetta bréf og hvort hann hefur talið ástæðulaust að taka mark á því. Af gerðum hæstv. forsætisráðherra má ráða að hann hefur ekki talið ástæðu til þess að veita þessu bréfi neina sérstaka athygli.

Það er dálítið merkilegt með þá ríkisstjórn sem nú situr og hefur setið lengi að þegar upp koma vafamál gagnvart stjórnarskránni hefur stjórnarskráin ekki verið látin njóta vafans jafnvel þó að á þau sé bent af til þess bærum aðilum. Það hefur ævinlega verið látið reyna á það hvort stjórnarskráin stenst þegar að herðir. Alþingismenn eiga ekki að standa þannig að málum. Sé vafi uppi eiga menn að láta stjórnarskrána njóta hans.



[17:05]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það kom fram í máli síðasta ræðumanns, hv. þm. Jóhanns Ársælssonar, að ýmsir annmarkar eru á þessu máli og er nokkurra þeirra getið í bréfi Dómarafélags Íslands sem hv. þm. vitnaði í. Fleiri annmarkar komu upp í hugann eftir fréttaflutning þann 19. desember. Sigurður Líndal háskólaprófessor kom þá fram í fréttum fjölmiðla og sagði að það væri stjórnarskrárbrot að taka til baka launahækkun þá sem Kjaradómur hafði ætlað forseta Íslands — álitamálin eru hér greinilega nokkur. Hv. efnahags- og viðskiptanefnd á fyrir höndum erfitt verk að fara ofan í þá annmarka sem virðast til staðar og auðvitað er eðlilegt að hlutirnir séu skoðaðir afar gaumgæfilega út frá þeim ábendingum sem hafa borist og þá ekki hvað síst núna frá Dómarafélaginu.

Þetta bréf frá Dómarafélagi Íslands sýnir auðvitað líka að alþingismenn eru ekki eyland. Þeir eru ekki afmarkaður hópur í samfélaginu, aðrir hópar heyra undir Kjaradóm með sama hætti og þeir. Og þó að alþingismönnum, þjóðkjörnum fulltrúum þjóðarinnar, hafi brugðið við þá ákvörðun Kjaradóms að laun til fólks í þessum sal skyldu hækka um rúmlega 8% á sama tíma og almenn taxtalaun hækkuðu um 2,5% þá verður að segja eins og er að alþingismenn, þessir 63, geta harla lítið gert annað en það sem að þeim snýr í þessu tiltekna máli. Þá spyr maður sjálfan sig og um leið forsvarsmenn í Samtökum atvinnulífsins hvort það séu þeir 63 einstaklingar sem hér sitja sem eru að setja þjóðfélagið á annan endann eða slíta í sundur friðinn á launamarkaði. Mér er nú til efs, frú forseti, að svo sé. Vandamálið er auðvitað miklu, miklu stærra og miklu alvarlegra en svo að þeir 63 einstaklingar sem sitja í þessum sal og þiggja laun úr opinberum sjóðum geti með því að lækka sín laun kippt því í liðinn.

En hvers vegna erum við í þessari stöðu hvað launamál varðar? Hvernig stendur á því að gliðnunin á milli þeirra sem bera mikið úr býtum í launalegu tilliti og hinna sem minnst bera úr býtum er orðin svo mikil sem raun ber vitni? Og í framhaldi af því: Á ríkisstjórnin kannski einhverja sök í því máli? Kann að vera að stefna ríkisstjórnarinnar eigi þar hlut að máli? Mitt svar við því er já. Ríkisstjórnin ber mikla ábyrgð í þessu máli og kippir engu í liðinn með því að leggja fram þetta frumvarp um að ógilda síðustu niðurstöðu Kjaradóms. Vandamálið er miklu, miklu stærra en svo að hægt sé að klóra yfir það með því frumvarpi sem við ræðum hér.

Ef við skoðum mynd af því hvernig laun hafa þróast í landinu sést að frá 1995 hefur orðið gríðarleg breyting í þeim efnum. Þegar hinn svokallaði Gini-stuðull er skoðaður og útreikningar tengdir honum hvað varðar þau 20% sem mest hafa í íslensku samfélagi og hin 20% sem minnst hafa þá var bilið á milli þessara tveggja hópa árið 1995 talan 2,5. Ég veit að hv. þm. Pétur Blöndal er að skrifa þetta hjá sér, stærðfræðingurinn sem hann er fer strax af stað og skoðar málið út frá vísindum fræðigreinarinnar sem hann þekkir miklu betur en ég. Þessi stuðull — talan 2,5, sem árið 1995 myndaði bilið á milli þeirra þeirra 20% sem höfðu mest og hinna 20% sem höfðu minnst — hefur hækkað og er á árinu 2004 4,5. Á sama tíma og bilið á milli þessara 20% beggja megin á ásnum er orðið þetta mikið hjá okkur er sambærileg tala í Danmörku 3. Hvað segir það okkur? Launabilið á milli þeirra sem mikið bera úr býtum og hinna sem minnst bera úr býtum er orðið miklu, miklu meira hér en á Norðurlöndunum sem eðlilegt er að við berum okkur saman við.

Hvert stefnum við þá? Eigum við að skoða Bandaríki Norður-Ameríku á þessum sama skala? Ef við skoðum þau 20% sem mest hafa í Bandaríkjunum og hin 20% sem hafa minnst er umrædd tala 8. Í því samfélagi er ójöfnuður á milli ríkra og fátækra langmestur. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Er það þangað sem við stefnum? Erum við komin að gömlu deilumáli vinstri og hægri manna? Ætla íslensk stjórnvöld að stefna til Bandaríkjanna og gera Ísland að einni stjörnu í viðbót í því flaggi? Er raunhæft að við spyrjum þeirrar spurningar í dag? Mér sýnist það. Það er greinilega að draga miklu meira í sundur með ríkum og fátækum hér á Íslandi en í nágrannalöndum okkar.

Þá spyr maður sig: Hvaða aðferðum beita ríkisstjórnir í nágrannalöndum okkar í þessu tilliti? Er ekki rétt að ríkisstjórnin okkar skoði það afar gaumgæfilega til þess að við getum sveigt af þeim kúrs sem við erum á núna? Ef við viljum ekki svona mikið launabil skulum við grípa til aðgerða annarra en þeirra að klóra yfir síðustu niðurstöðu Kjaradóms. Það er engin leiðrétting í því fólgin, það lagar ekki grunninn í málinu. Það er grundvallaratriði að stefna ríkisstjórnarinnar í launamálum kallar þetta yfir okkur.

Sem dæmi má nefna fyrirtækjavæðingu stofnana hins opinbera og einkavæðing opinberra stofnana er annað dæmi. Við vitum það öll sem hér sitjum og höfum auðvitað oft tekist á um það að við einkavæðingu ríkisfyrirtækja breytist í fyrsta lagi launastrúktúr fyrirtækisins. Forstjórinn sem trónir á toppnum í hlutafélaginu, sem áður var ríkisstofnun, þarf nú einungis að ræða um laun sín við stjórnarformann í viðkomandi fyrirtæki. Við þekkjum öll hneykslismálin sem fjölmiðlar og almenningur fóru mikinn yfir, starfslokasamninga hjá FL Group þar sem forstjórarnir og stjórnarformaður fyrirtækisins sátu á skrafi um það hversu mörg hundruð milljónir eða margir tugir milljóna ættu að falla í hlut forstjóranna við starfslok.

Ég spyr, frú forseti: Er það eðlilegur framgangsmáti að einkavæða ríkisfyrirtæki, gera þau að hlutafélögum til þess að skapa þann jarðveg að hægt sé að semja á þessum nótum við forstjórana um ofurlaun af því tagi sem við sjáum að nú á sér stað? Ég er mjög hugsi yfir þessu öllu saman. Ég tel að ríkisstjórnin hafi sveigt af þeirri braut sem mörkuð hefur verið í okkar samfélagi, þeirri braut að við höfum reynt að halda okkur við ákveðinn jöfnuð að þessu leyti.

Ég ætla að bæta einu við í sambandi við FL Group. Mér datt í hug af því að ég var að tala um einkavæðingu, hvað varð um hlut ríkisins í Flugleiðum? Af hverju er FL Group sem einu sinni var að öllu leyti og síðan að hluta til ríkisfyrirtæki allt í einu bara orðið þetta einkafyrirtæki sem það er? (Gripið fram í.) Ríkið hefur átt stóran hlut í Flugleiðum. (Gripið fram í.) Já, það seldi þau. Ríkið seldi hlutinn sinn í Flugleiðum til að auðvelda það að hægt væri að fara með fyrirtækið inn á þessa braut sem nú er raunin. Þess vegna spyr ég: Er það ekki svolítið á okkar ábyrgð að halda ríkinu, hinu opinbera, inni í þeim fyrirtækjum sem annast grunnþjónustu í landinu? Ég er t.d. með raforkumarkaðinn í huga? Við stefnum hraðbyri í það að stórfyrirtæki á mælikvarða okkar, eins og orkufyrirtækin, lendi inn á sömu braut og þá er það þessi ríkisstjórn sem nú situr sem er ábyrg. Hún klórar ekki yfir það með breytingu á lögunum um Kjaradóm og kjaranefnd.

Frú forseti. Af þessu tilefni rifjaðist upp fyrir mér nokkuð sem ég hafði heyrt sagt um látinn þingmann, Stefán heitinn Jónsson, sem á sínum tíma var mjög mikilvirkur þingmaður. Hann flutti hér á þingi oftar en einu sinni tillögu til þingsályktunar og fór þar fyrir fríðu liði, tillögu um hámarkslaun. Það fór svo í sambandi við þetta mál að mér datt í hug að rifja upp rök Stefáns Jónssonar í því máli. Ég hef þessa tillögu í höndunum eins og hún var þegar hann flutti hana árið 1979. Hann talaði fyrir henni 1979. Hún var lögð fram 6. nóvember 1978. Í hópi meðflutningsmanna fyrrverandi hv. þm. Stefáns Jónssonar voru Helgi Seljan, Jónas Árnason, Kjartan Ólafsson og enginn annar en Ólafur Ragnar Grímsson, núverandi forseti Íslands. Í tillögutexta þessarar þingsályktunartillögu segir, með leyfi forseta:

„Alþingi skorar á ríkisstjórnina að láta undirbúa löggjöf um hámarkslaun, þar sem kveðið verði á um að ekki megi greiða hærri laun hér á landi en sem svarar tvöföldum vinnulaunum verkamanns miðað við 40 stunda vinnuviku.“

Frú forseti. Ég minni á að það er 1979 sem talað er fyrir þessari tillögu á Alþingi. Það er ekki lengra síðan en svo að hv. þingmenn létu sér detta í hug að raunhæft væri að fara fram með tillögu af þessu tagi. Ég vil ítreka það að við förum aðeins aftur í tímann með Stefáni, ekki lengra heldur en þetta þó, til 1979 og rifjum upp þann anda sem þá ríkti. Áfram segir í tillögutextanum, með leyfi forseta:

„Jafnframt verði loku fyrir það skotið að einstaklingar gegni nema einu fastlaunuðu starfi, og eins fyrir hitt að átt geti sér stað duldar launagreiðslur í formi neins konar fríðinda, umfram hámarkslaun. Með breytingu á skattalögum skal að því stefnt að einkafyrirtæki hagnist ekki á lögbundinni lækkun hæstu launa, og skal því fé, sem rennur til ríkissjóðs af þessum sökum eða sparast með niðurskurði á launum embættismanna í efstu launaþrepum, varið til almennrar kjarajöfnunar og annarra félagslegra umbóta.“

Þannig lýkur, frú forseti, tillögutexta þeirra félaga frá 1979. Andinn í þessum texta sýnir okkur að menn töldu þarna strax vera þörf á ákveðinni vakt, ákveðinni varðstöðu af því að standa þyrfti vörð um það að launabilið yrði ekki svo breitt að óbrúanlegt yrði. Þess vegna m.a. sýna þeir líka sína stéttvitund á þennan hátt, að þeir telja að það fé sem rynni í ríkissjóð við þessa aðgerð eigi að renna til almennrar kjarajöfnunar og til annarra félagslegra umbóta. Það skiptir nefnilega máli, frú forseti, að þeir sem meira bera úr býtum taki á sínar herðar stærri hluta af velferðarkerfinu. Það hvernig þessi ríkisstjórn hefur heimilað að öryrkjar og láglaunafólk sé farið að bera skattbyrðar sem aldrei var — sem ekki var á þeim tíma þegar Stefán Jónsson mælti fyrir þessari tillögu sinni — er ábyrgðarhluti og það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem þar á í hlut. Og að hátekjufólk skuli greiða lægra skatthlutfall, eins og vikið hefur verið að í máli ræðumanna sem hér hafa talað á undan, er auðvitað ósvinna og það er ekki hægt að láta það viðgangast að láglaunafólk og öryrkjar séu að greiða jafnstórt hlutfall af sinni innkomu í skatt og raun ber vitni. Þeir sem meira bera úr býtum þurfa að axla þær byrðar sem af okkar sameiginlegu sjóðum leiða.

Hæstv. forseti. Mig langar til að fara aðeins áfram í greinargerð með tillögu hv. þm. Stefáns Jónssonar og félaga af því að mér finnst það kippa okkur svolítið inn í kjarna þessa máls sem við hér nú ræðum og gera okkur svolítið meðvituð um ræturnar og það hvaðan við erum komin og hvert við stefnum. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Að hyggju flutningsmanna er unnt, með því að lögbinda ákveðið hlutfall milli almennra launa verkamanns og hæstu launa, að búa svo um hnútana að kjarabætur til handa verkamönnum verði sá biti í aski hinna hálaunuðu sem þeir fái alls ekki ýtt til hliðar ef þeir hyggjast bæta mötu sína.“

Frú forseti. Það er gaman að lesa þessi gömlu þingskjöl þar sem íslenskan er svo fögur að manni finnst maður vera að lesa ljóð. Það er af sem áður var í þeim efnum, því miður, (Gripið fram í.) þannig að að mörgu leyti gætum við tekið til fyrirmyndar ýmsa þætti sem eldri þingmenn höfðu á valdi sínu á árum áður. En svo segir áfram í greinargerð Stefáns Jónssonar, með leyfi forseta:

„Svo dæmi sé tekið þá yrði það óframkvæmanlegt, eftir setningu slíkra laga sem hér eru ráðgerð, fyrir bankastjóra eða aðra forsjónarmenn íslenskra efnahagsmála, sem nú hafa margföld verkamannslaun, að veita sjálfum sér kjarabót, svo sem við hefur borið, samtímis því sem þeir úrskurða að ekki séu efnahagslegar forsendur fyrir almennri kauphækkun, sem verkafólk hefur náð fram með harðri og kostnaðarsamri baráttu til að vega upp á móti kjararýrnun, sem runnin var undan rifjum hinna fyrrnefndu.

Því kveðum við á um tvöföld verkamannslaun sem hámark, að við tökum mið af fornri hefð hérlendri um hlutaskipti á sjó, þar sem þeim skipverjum, er mesta bera ábyrgðina á úthaldinu öllu og lífi og limum áhafnar að auki, voru ætluð tvöföld laun hásetans, hins almenna verkamanns á skipinu.“

Herra forseti. Hér rökstyðja þessir heiðursmenn sem gengu götuna á undan okkur hvers vegna þeir telji það vera heilbrigt og heilbrigðismerki að sett séu mörk við því hversu stórt þetta launabil getur orðið. Ég verð að segja að mér finnst ekki óeðlilegt að við rifjum upp þessi sjónarmið því við erum þar stödd núna að við erum að missa fótanna. Við erum að horfa upp á fólk, láglaunastéttirnar sem geta ekki framfleytt sér af mánaðarlaunum sínum og þegar við horfum til þess lifistandards sem er í þessu samfélagi þá er það skömm að hér skuli vera láglaunastéttir sem ná ekki endum saman mánaðamót eftir mánaðamót á sama tíma og hægt er að gera starfslokasamninga á þeim nótum sem ég nefndi áðan við forstjóra á borð við forstjóra FL Group.

Ábyrgðin er ríkisstjórnarinnar og ríkisstjórnin klórar ekki yfir þá ábyrgð með þeirri breytingu sem er til staðar í því frumvarpi sem við nú ræðum. Það þarf miklu meira til. Það þarf breytt hugarfar. Það þarf að horfa á heildarmyndina. Það þarf að ákveða á hvaða kúrs við erum og svara þeirri spurningu hvort við ætlum að stefna að sams konar samfélagi og er í Bandaríkjunum þar sem bilið á milli fátækra og ríkra breikkar stöðugt að því er virðist út úr öllu korti án þess að nokkuð sé verið að gera tilraunir til að stöðva það. Mér þykir það mjög miður ef ríkisstjórnin sem fer fyrir málum á Íslandi er á þeirri braut. En mér fannst allt of margar vísbendingar vera um að svo sé.



[17:24]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það verður að segjast eins og er að þær umræður sem hér hafa farið fram í dag eru að mörgu leyti mjög skemmtilegar. Þær hafa hins vegar farið um víðan völl. Það kemur ekkert á óvart og er að sjálfsögðu, má segja, eðlilegt þegar þing kemur saman eftir jóla- og áramótahlé. Hins vegar hafa margar rangfærslur verið hafðar hér í frammi og ég held að ég verði eiginlega að segja að það væri of langt mál fyrir mig að fara út í að leiðrétta það allt saman enda held ég að flest af því hafi verið leiðrétt áður. Þær leiðréttingar eiga því að liggja fyrir í Alþingistíðindum.

Málflutningurinn (Gripið fram í: ... fyrirvari.) í meginatriðum hefur eiginlega verið á þá leið að vandamálið sem við erum að glíma við sé allt saman ríkisstjórninni að kenna (Gripið fram í.) og að hæstv. fjármálaráðherrann, hvort heldur þáverandi eða núverandi, hafi hækkað laun opinberra starfsmanna of mikið. En samt sem áður verðskulda opinberir starfsmenn þessi laun sem fjármálaráðherrann hefur samið um við þá. Vandamálið er samt sem áður það að fjármálaráðherrann samdi um of há laun við opinberu starfsmennina. (Gripið fram í: Verður er verkamaður launa sinna.) Verður er verkamaður launa sinna.

Hins vegar er borgarstjóranum í Reykjavík hrósað fyrir að hækka laun sinna opinberu starfsmanna (Gripið fram í.) og er það svo sem ekkert skrýtið miðað við það hverjir hafa haldið uppi málflutningnum. En þetta er auðvitað ekkert sérstaklega trúverðugt heildaryfirbragð á umræðunni þó að það sé, eins og ég sagði áðan um umræðuna, skiljanlegt að því sé haldið fram.

Umræðan hefur hins vegar líka verið á áhugaverðari nótum, þ.e. um launahlutföllin í þjóðfélaginu og um launaþróunina. Um launahlutföllin er það að segja að jafnvel í svo íhaldssömu þjóðfélagi sem við búum í er fátt jafntregbreytanlegt og launahlutföllin. Ég minnist þess einu sinni að hafa heyrt virtan hagfræðing sem ég tek mikið mark á segja að þau launahlutföll sem við búum við hafi upphaflega verið sett fyrir mörg þúsund árum í Mesópótamíu, að þannig sé þessum málum háttað, enda sýnir meira að segja reynsla okkar síðustu áratugina það að jafnvel þegar við höfum reynt að breyta launahlutföllunum til hagsbóta fyrir þá lægst launuðu þá hefur það sjaldnast tekist og ef það hefur tekist þá hefur það jafnan verið tímabundið því þeir sem síðan eru hærra launaðir hafa notað fyrsta tækifæri til að beita þeim tökum sem þeir hafa til að hækka laun sín aftur umfram það sem þeir lægst launuðu höfðu. Með þessu er ég ekki að segja að við eigum ekki að reyna að bæta kjör hinna lægst launuðu og að við eigum ekki að reyna að hafa áhrif á þetta. Ég er bara að benda mönnum á að það er ekki auðvelt verk og það hefur margsinnis verið reynt með þessari niðurstöðu.

Síðan hefur mörgum fundist launaþróunin stefna í öfuga átt við það sem menn hafa verið að reyna og sjálfsagt eru til upplýsingar og tölur um það. Meira að segja hefur umræðan farið út í það að rifja upp gömul frumvörp, frá því fyrir að nálgast 30 árum, um hámarkslaun. Ég verð að segja að ég þakka guði fyrir að þetta frumvarp var ekki samþykkt. Hvar værum við í dag ef þetta frumvarp hefði verið samþykkt og sett hefðu verið á hámarkslaun 1978 eða 1979? Hvar hefði þá verið drifkrafturinn til að koma sjálfum sér áfram og bæta stöðu sína sem er auðvitað drifkrafturinn í því þjóðfélagi sem við búum í? Hver hefði þá farið að leggja það á sig að fjármagna háskólanám til að geta bætt stöðu sína? Hvaðan hefðu peningarnir átt að koma þá til að borga námsskuldirnar, lánin sem menn þurftu að taka (Gripið fram í: Var ekki ...) og skólagjöldin sem menn hafa þurft að borga? Því menn hafa sótt nám sitt víða og það er ekki alls staðar þar sem ekki kostar neitt að vera í háskóla. (Gripið fram í.) Ég þakka guði fyrir það, jafnvel þó mætir menn og skemmtilegir með fagurt málfar hafi flutt þessar tillögur, að þær voru ekki samþykktar.

Hins vegar er það svo, frú forseti, (Gripið fram í.) ef ég fæ að halda áfram að tala fyrir hv. þingmanni, að ríkið hefur takmörkuð áhrif á launaþróun. Þar ræður almenni markaðurinn mestu. Það er jafnframt stefna ríkisins að láta almenna markaðinn leiða í kjarasamningum og þróun launa. Í því sambandi verður að undirstrika að launaþróun hjá hinu opinbera byggist eins og annars staðar í þjóðfélaginu að langmestu leyti á samningum, með þeirri undantekningu sem um er fjallað í frumvarpinu sem er til umræðu. Þeir samningar eru opnir fyrir alla og þar er ekki um neina leynd að ræða. Á undanförnum árum hafa hins vegar verið gerðar breytingar á þeim. Reynt hefur verið að gera þá sveigjanlegri. Það hefur verið gert í samráði, í góðu samstarfi og í samningum við samningsaðila ríkisins. Þar er engin leynd. Það er ekkert verið að fela af því sem gerist í launamálum hjá ríkinu.

Það hefur verið rætt um gagnsæi, að stefna ríkisins í launa- og kjaramálum ætti að vera gagnsæ. Samkvæmt því sem ég hef sagt hljóta menn að draga þá ályktun að svo sé, að launa- og kjarastefnan sé gagnsæ. Í því sambandi hefur verið rætt um einingar hjá Kjaradómi og kjaranefnd, að betur færi á því að þær væru inni í heildarlaununum og þær ákvarðanir sem þar eru teknar yrðu með því gegnsærri. Ég held reyndar að þessar einingar flæki málið ekki meira en svo að a.m.k. þeir blaðamenn sem um þetta fjalla eiga auðvelt með að reikna einingarnar inn í og birta heildarlaun viðkomandi. Öllum þeim sem fylgjast með fréttum af þessu á að vera ljóst hver launin eru í heildina og hvernig þau eru uppbyggð. Einingarnar hafa hins vegar komið til tals í dag af öðrum orsökum. Hv. þingmenn hafa haft áhyggjur af því að tengsl væru milli eininga Kjaradóms, sem þetta frumvarp mundi hafa áhrif á ef samþykkt yrði, og eininga kjaranefndar. Einingarnar hjá þessum aðilum eru algjörlega óháðar hver annarri og þær breytingar sem eru hér lagðar til á einingum Kjaradóms munu þar af leiðandi ekki hafa áhrif á einingar kjaranefndar.

Hér hefur einnig verið fjallað um stöðu dómara og bréf frá dómarafélaginu. Ég get ekki neitað því að ég hef séð það bréf. Þegar samsvarandi mál voru til umræðu árið 1992 voru fengnir lögmenn til að fara í þessi atriði. Það var samhljóða niðurstaða þeirra, og að þeirra mati enginn vafi á því, að það væri algjörlega á valdsviði Alþingis að taka ákvarðanir um laun þessara aðila á þann hátt sem hér um ræðir. Laun þessara aðila hefðu verið ákveðin með launalögum og með þessu væri það raunverulega gert á sama hátt. Löggjafarvaldið hefði falið Kjaradómi, sem væri einhvers konar opinber gerðardómur, að taka ákvarðanir og Alþingi gæti tekið þær ákvarðanir til sín aftur hvenær sem væri.

Varðandi eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar þá eru laun sem eru ákvörðuð á þennan hátt í raun laun framtíðarinnar og ekki undir vernd eignarréttarákvæðisins og hægt að breyta þessum launum með lögum. Það ákvæði ætti við um laun samkvæmt samningum sem væru þá væntanlega tímabundnir samningar. Þá væri hægt væri að bera við eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar.

Því var líka haldið fram í þessu samhengi að gerðar væru breytingar á þessum tiltekna hópi sem í væru fleiri aðilar en dómarar þannig að ákvörðunin beindist ekkert sérstaklega að dómurunum. Þeir falla undir þessi lög á sama hátt og aðrir og hinar almennu forsendur sem eiga við um allan hópinn eiga við um dómarana líka. Þessar skýringar tel ég góðar og gildar í þessu máli enda frá virtum lögmönnum sem vel eru metnir. Þeir hafa jafnvel verið nefndir til sögunnar í umræðunni í dag.

Málefni forsetans voru líka nefnd. Ég fór reyndar yfir það í framsöguræðu minni og vitnaði þá til greinargerðar sem fylgdi þeim nýmælum sem sett voru í stjórnarskrána 1944 hvað það varðar. Ég held að þau lögskýringargögn sem þar er um að ræða séu algjörlega tæmandi hvað þetta varðar og að á því leiki enginn vafi. Ekki ætla ég að neita hv. þingmönnum sem hafa áhyggjur af þessu, sem þurfa að fjalla um málið í nefnd og taka afstöðu til þess bæði í nefnd og í atkvæðagreiðslum, um að þeir leiti af sér allan grun í þeim efnum.

Auðvitað er það svo um mörg lögfræðileg atriði að menn geta haft á þeim mismunandi skoðanir. Enda er það opin heimspekileg spurning, kannski er hún líka praktísk, hvort í lögfræðilegu álitaefni geti einungis verið um eina rétta skoðun að ræða eða hvort tilfellið sé að í einu og sama lögfræðilega álitaefninu geti verið tvær jafnréttháar niðurstöður. Ég hef ekki komist að niðurstöðu í þessu efni sjálfur. Ég veit að bæði virtir og vel menntaðir lögfræðingar og aðrir lögspekingar deila um þessi atriði og munu sjálfsagt deila lengi enn.



[17:37]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra í ræðu minni fyrr í dag hvort það væri réttur skilningur hjá mér að verðmæti þeirra eininga sem kjaranefnd ákvarðar sínu fólki mundi minnka í samræmi við þá lækkun sem kemur fram með frumvarpinu varðandi Kjaradóm. Ráðherra hefur svarað því að sá skilningur sé ekki réttur. Ég þakka honum fyrir það. Við höfum þannig umræðuna á hreinu og byggjum hana ekki á misskilningi. Einingar milli Kjaradóms og kjaranefndar hafa hingað til verið jafnsettar en nú verður það ekki svo lengur heldur mun ekki einungis gliðna á milli föstu launa þessa tveggja hópa heldur mun líka gliðna á milli annarra launa í formi eininga.

Ég mundi vilja spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér um að eftir sem áður hafi þetta frumvarp talsverð áhrif fyrir þann stóra hóp sem heyrir undir kjaranefnd. Á ég þá við seinni málsgrein 1. gr. þar sem settar eru hömlur á kjaranefnd við að ákvarða laun á þessu ári. Gæti það ekki haft talsverð áhrif á kjaranefndarfólkið ef um launaskrið verður að ræða á árinu?



[17:38]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Við fyrri spurningunni er það svar að einingarnar hafa ekki verið jafnháar. Það hefur verið mismunur á úrskurðum kjaranefndar og Kjaradóms undanfarin ár. Þar hefur verið mismunur á og einingar Kjaradóms verið lægri. En leiðréttingin varð, eins og Kjaradómur sagði, til jöfnunar í desember þannig að nú munu einingar Kjaradóms lækka aftur.

Hins vegar er það rétt hjá hv. þingmanni að verði þetta frumvarp að lögum gæti það haft áhrif á kjör þeirra sem heyra undir kjaranefnd á næsta ári verði einhverjar breytingar sem kjaranefnd hefði hugsanlega tekið tillit síðar á árinu. Hins vegar verður líka að taka tillit til þess sem ég sagði í framsöguræðu minni, að við gerum ráð fyrir að nefndin sem Jón Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra, leiðir muni vinna fljótt og vel og þá muni frumvarp og hugsanlega nýsamþykkt lög koma til framkvæmda löngu fyrr en kemur að lokum gildistíma þeirra laga sem verða til verði frumvarpið samþykkt.



[17:39]
Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er gott að hæstv. ráðherra skuli staðfesta þann skilning minn að frumvarpið geti haft talsverð áhrif á hinn stóra hóp sem heyrir undir kjaranefnd. Annað langar mig að spyrja hæstv. ráðherra um: Með hvaða rökum svarar hann t.d. hæstaréttardómurum varðandi frumvarpið sem hér liggur fyrir? Telur hann rétt að þeir lækki í launum miðað við viðmiðunarhópa?

Í maí 2003 var hæstaréttardómurum skipað í launaflokk 137 eða hliðstætt því. Í þeim flokki í kjaranefnd var ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins. Verði þetta frumvarp að lögum mun ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins eftir sem áður halda sínum föstu launum. Þar verður ekki breyting. En hæstaréttardómari sem átti að taka laun miðað við launaflokk 137 mun fá laun miðað við launaflokk á milli 135 og 136. Með hvaða rökum rökstyður ráðherra svona ákvörðun?



[17:41]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að kveða upp úrskurð um hvað séu réttlát laun fyrir einstaka aðila. En ég svara hins vegar þeim spurningum sem fram eru bornar á þann hátt að að baki þessu frumvarpi búa þau grundvallarsjónarmið að tryggja þann stöðugleika sem við mögulega getum í launamálum þjóðarinnar og skapa ráðrúm til að fara yfir lög um Kjaradóm og kjaranefnd þannig að sú þróun sem af þeim lögum leiðir verði ekki til að raska efnahagslegum stöðugleika og hafa neikvæð áhrif á launaþróun í þjóðfélaginu.



[17:42]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er nú einu sinni þannig í samfélagi okkar að það er mikilvægt að við fylgjum þeim lögum og reglum sem gilda hverju sinni. Ég held að Aristóteles hafi einhvern tímann orðað það þannig að rétt væri að fylgja jafnvel ranglátum lögum, einfaldlega til að ekki verði grafið undan þjóðskipulaginu eða regluverkinu sem gildir hverju sinni. (Gripið fram í: Sókrates.) Það gæti hafa verið Sókrates sem sagði það. Mig minnti að það hefði verið Aristóteles en við skulum ekki gera það að umræðuefni hér.

Af þessum sökum, m.a. á grundvelli þessara fullyrðinga, langar mig að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í nokkuð. Hann leggur fram þetta frumvarp sem fjallar m.a. um laun forseta Íslands. Alveg sama hvaða skoðun menn hafa á forseta Íslands, hvort menn eru sáttir við hann í embætti eða ekki, þá verðum við að virða það að í stjórnarskránni er mjög skýrt ákvæði sem segir að óheimilt sé að lækka laun forseta á kjörtímabilinu. Nú hafa laun forseta Íslands verið hækkuð og ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann standi að fullu við að tiltekin lögskýringargögn (Forseti hringir.) gangi framar skýru orðalagi stjórnarskrárinnar, ákvæði hennar.



[17:43]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér finnst ánægjulegt að heyra hv. þingmann lýsa því yfir að hann telji rétt að fara eftir lögum enda þótt þau séu ranglát. Það er út af fyrir sig ágætt að hafa það í þingtíðindum.

Mér fannst kveða við þann tón að hv. þingmaður teldi að ég hefði einhverja þá skoðun á forseta Íslands sem leiddi til að ég hefði sérstakan áhuga á að lækka laun forsetans. Ég vil bara nota tækifærið og vísa því algjörlega á bug. Þar eru engin tengsl á milli. Ég hef engan sérstakan áhuga á að lækka laun forseta Íslands nema þá í því samhengi sem við vinnum að hér. Ég tel rétt að hið sama verði látið yfir alla ganga sem fá laun sín ákvörðuð á þennan hátt. Það væri rangt af okkur að undanskilja forsetann í þessu efni. Ég tel enga ástæðu að finna í stjórnarskránni, miðað við þær skýringar sem fylgdu breytingunum, sem leiði til að við ættum að víkja frá því að hið sama verði látið yfir alla ganga í þessu efni. Enda byggist það á forsendum (Forseti hringir.) þessa frumvarps.



[17:45]
Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svo sem ekki gera hæstv. fjármálaráðherra upp þá skoðun að það sé vegna viðhorfa hans til forseta Íslands sem hann er að leggja til að þessi laun séu lækkuð. Það þarf ekkert að koma á óvart þó að við reynum að leita skýringa og átta okkur á því hvers vegna hæstv. ríkisstjórn gengur fram með þessum hætti í ljósi skýrra ákvæða stjórnarskrárinnar sem kveður mjög skýrt á um að óheimilt sé að lækka laun forseta. Og það þarf ekkert að koma á óvart þó að hugrenningar eins og þessar vakni í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið og flokksmenn hæstv. fjármálaráðherra hafa kannski staðið fyrir að miklu leyti frá því að núverandi forseti var kjörinn með lýðræðislegum hætti. Maður spyr hvernig á því standi að hæstv. fjármálaráðherra sé í raun og veru tilbúinn að taka þessa áhættu í ljósi skýrra ákvæða stjórnarskrárinnar og beita því fyrir sig að lögskýringagögn gangi framar skýrum orðum stjórnarskrárinnar. Það er þetta sem situr eftir.



[17:46]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta mjög ótilhlýðilegt. Og jafnvel þó að núverandi forseti Íslands hafi setið á Alþingi og við höfum tekist á um ýmis málefni og það sé auðvitað ljóst að við séum ekki sammála um alla hluti, þá kannast ég ekki við að ég hafi nokkurn tíma gefið tilefni til þess að það hvarflaði að hv. þingmönnum að ég færi að beita einhverju í störfum mínum til að klekkja á forsetanum. Mér þykir mjög miður ef það er orðið að einhverju sérstöku umræðuefni hér og ég er sannfærður um að það hvarflar ekki að forsetanum heldur að svo sé.

En fyrst hv. þingmaður spyr hins vegar svona nákvæmlega um þetta verð ég að minna á að 1992, þegar við tókum á málum á svipaðan hátt, var þetta gert á nákvæmlega þennan hátt eða ekki nákvæmlega en að breyttum aðstæðum þá var launum forsetans breytt á þennan hátt og þá var atkvæðagreiðsla um það í þinginu. Ég greiddi atkvæði með því þá eins og ég mun gera núna og það gerðu fleiri þingmenn, þar á meðal hæstv. forseti og hv. formaður þingflokks Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) sem voru sammála mér þá um þetta atriði stjórnarskrárinnar og eru það vonandi enn þá.



[17:47]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Stóru drættirnir, launabilið í samfélaginu, gliðnunin á milli hinna ríku og fátæku var inntakið í ræðu minni. Hæstv. ráðherra vék að í því ræðu sinni síðast að það hafi verið ámælisvert eða svo mátti skilja af máli hans að honum hafi þótt ámælisvert af stjórnendum Reykjavíkurborgar að hækka laun þeirra ófaglærðu á leikskólum Reykjavíkurborgar sem lægst höfðu launin. Hann nefndi í því sambandi að þetta væri nánast náttúrulögmál, nefndi Mesópótamíu til sögunnar og þetta hafi verið eilíft baráttumál, það gengi bara ekki að minnka þetta bil eða að ná lægstu laununum upp.

Nú langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra, því að með þessu sem hann segir finnst mér hann vera að gera þá sem lægst hafa launin að ákveðnum blórabögglum hvað varðar efnahagsmálin og óstöðugleikann í samfélaginu: Er hæstv. ráðherra þeirrar skoðunar að hækkun lægstu launanna sé líkleg til að ógna stöðugleikanum í samfélaginu umfram það sem háu launin gera?



[17:49]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta tækifæri til að leiðrétta það ef einhver hefur skilið það svo að ég hafi sagt að það hafi verið ámælisvert að hækka launin. Ég hef hvergi tjáð mig um þá samninga sem gerðir voru hjá Reykjavíkurborg eða látið í ljós eitthvert sérstakt álit á þeim og var ekki að því áðan. (Gripið fram í.) Ég held reyndar að það sé ekki tilhlýðilegt vegna þeirrar stöðu sem fjármálaráðherra hefur gagnvart samningsaðilum sínum að hann sé að tjá sig sérstaklega og hafa skoðanir á þeim samningum sem aðrir í opinbera geiranum gera. Það sem ég er hins vegar að reyna að segja er að það verður auðvitað að skoða þessa umræðu um launahlutföllin og launaþróunina í samhengi við það sem áður hefur verið að gerast. Menn verða að gera það á raunhæfan hátt og ef menn ætla að gera á því breytingar þarf miklu meira að gerast en einhver innantóm slagorð. Hættan er alltaf sú og reynslan sýnir það að hækkun hjá hinum lægst launuðu verður ekki bara þar heldur fer upp allan skalann og þá er hún hættuleg.



[17:50]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar hækkunin hjá hinum lægst launuðu fer upp allan skalann og til hinna hæst launuðu þá verður hún hættuleg, segir hæstv. ráðherra. Með öðrum orðum það eru ofurlaunin sem rugga þessum báti núna. Það eru háu launin sem eru orsakavaldurinn en það er ekki lágu laununum að kenna. Það er ekki þeim sem eru með lág laun að kenna, það er miklu frekar því að kenna að þeir sem eru á betri launum vilja alltaf meira. Mikið vill meira. Og því meira sem menn hafa því meira virðast þeir vilja fá í viðbót. Þess vegna er ekkert óeðlilegt að maður spyrji: Hversu mikið er nóg? Er fólk aldrei komið með nóg? Er fólk búið að gleyma því að það að hafa laun fyrir vinnu sína er til þess að við getum framfleytt okkur? Ef það er ekki ábyrgð ríkisstjórnarinnar að reyna að stemma stigu við þessu og tala þetta niður þá er þessi ríkisstjórn ekki að standa sig í stykkinu.



[17:51]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þegar launin hækka upp allan skalann verður það hættulegt ef ekki er innstæða fyrir því í aukinni verðmætasköpun svo ég haldi áfram frá fyrri ræðu minni. Það er þá auðvitað heildin sem skiptir máli, það eru ekki endilega þeir efstu heldur heildin sem tekin er út úr verðmætasköpuninni sem laun ef þau eru ekki í samræmi við aukna verðmætasköpun. Þess vegna þarf að fara varlega í þessum efnum. Það er ekki það að menn vilji ekki hækka laun hinna lægstu heldur er það bara staðreynd að í launamálum og launasamningum eru það samanburðarfræðin sem gilda og menn miða sig við næsta og þar næsta og þar fram eftir götunum og þá hefur þetta þau áhrif sem við erum að lýsa og menn hafa verið að glíma við árum, áratugum, árhundruðum og jafnvel árþúsundum saman. En við skulum ekki gefast upp, nei, nei, við skulum halda áfram en aðalatriðið er að á endanum bætum við kjörin fyrir alla.



[17:53]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég bað um andsvar en því var hafnað þannig að ég bjóst ekki við að komast upp í andsvar en það kom hér fram.

(Forseti (RG): Ég vil benda þingmanninum á að því var ekki hafnað heldur var ég að benda honum á að hann væri númer fjögur til að ljóst væri að það mundi minnka ræðutímann og það væri gott fyrir þingmenn að vita það.)

Það hefur þá orðið smámisskilningur og ég biðst afsökunar á því.

Það kom fram í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að stjórnarandstaðan hefði bent á að ríkisstjórnin væri sökudólgurinn í þessum hækkunum. En í ágætu bréfi og greinargerð frá formanni Kjaradóms bendir hann einfaldlega á og rökstyður það rækilega í bréfi sínu að þessar hækkanir megi einmitt rekja til ákvörðunar ríkisstjórnarinnar. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann sé ósammála því sem fram kemur í bréfi formanns Kjaradóms.



[17:54]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það sem þetta snýst í rauninni um er að Kjaradómur og kjaranefnd hafa á ákveðnu tímabili tekið á mismunandi hátt á ákveðinni launaþróun sem hefur orðið annars staðar í þjóðfélaginu og það hefur gerst í tvígang. Annars vegar þegar Kjaradómur hefur ekki hækkað laun en kjaranefnd hefur hækkað laun og hins vegar þegar Kjaradómur hefur hækkað laun minna en kjaranefnd og þá raskast hið svokallaða innra samræmi sem um er að ræða. Það er nefnd Jóns Sigurðssonar sem er ætlað að fara ofan í það hvernig við komum í veg fyrir að slíkir hlutir gerist.

Það sem ég var hins vegar að benda á í ræðu minni er að það er verið að gagnrýna fjármálaráðherra fyrir að hækka laun opinberra starfsmanna en síðan er sagt að verðugur sé verkamaður launa sinna. Menn bæði gagnrýna hækkunina og svo segja þeir líka að menn eigi að hafa þessi háu laun.



[17:55]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil þessi svör hæstv. fjármálaráðherra þá svo að hann taki einfaldlega undir þann skilning sem fram kemur í bréfi formanns Kjaradóms að rekja megi hækkunina til ákvarðana ríkisstjórnarinnar og hann sé ekki ósammála því.

En það kemur einnig fram í þessu ágæta bréfi, sem skrifað er á aðfangadag til hæstv. forsætisráðherra, að með þessari hækkun nái laun samkvæmt Kjaradómi sem verið er að fella úr gildi með frumvarpinu ekki þeirri launaþróun sem orðið hefur á þessu árabili sem má, samkvæmt bréfi formannsins, fyrst og fremst rekja til ákvarðana ríkisstjórnarinnar. Er ráðherra sammála þessu eða ósammála? Það væri gott að fá það fram í umræðunni en kenna ekki stjórnarandstöðunni um að vera að drepa málinu á dreif.



[17:56]
fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki að segja að einhver sé að drepa málinu á dreif. Ég er heldur ekki að taka neina sérstaka efnislega afstöðu til þess sem Kjaradómur gerði. Ég er einfaldlega að taka afstöðu til þeirra afleiðinga sem úrskurður Kjaradóms gæti haft í för með sér. Það er það sem við erum að gera hér.

Ég er hins vegar að lýsa þeim ákveðna tvískinnungi sem mér finnst vera í umræðunni, sem er að menn segja að þetta sé ríkisstjórninni að kenna, hún hafi hækkað laun opinberra starfsmanna allt of mikið og þá hafi þurft að hækka laun þeirra sem heyra undir Kjaradóm og kjaranefnd, og segja svo á eftir að auðvitað eigi opinberir starfsmenn sem fengu launahækkunina skilið að fá þá launahækkun. Síðan tala menn líka um að það sé kannski ekki hægt að hafa neitt öðruvísi kerfi fyrir Kjaradóm og kjaranefnd en um er að ræða og að miða þurfi við þessar viðmiðunarstéttir og þar fram eftir götunum. Þá erum við bara komin í hring í umræðunni. Og það sem við erum að reyna að gera með þessu frumvarpi og nefndarskipuninni er að skapa ráðrúm til að skoða þessa hluti upp á nýtt og reyna að láta ekki þau mál fara úr böndunum sem varða launamál þjóðarinnar.



[17:58]
Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Í því sambandi komumst við ekki hjá því að ræða dálítið um þrískiptingu valdsins sem er hugmynd heimspekinga frá því úr frönsku stjórnarbyltingunni um það að til að vernda borgarann þurfi að skipta ríkisvaldinu í þrennt, þ.e. dómsvald, framkvæmdarvald og löggjafarvald og að þessir þrír þættir eigi að vera óháðir.

Nú er mjög margt í okkar kerfi á Íslandi sem brýtur þessar reglur. Við erum t.d. með ráðherra sem bæði er framkvæmdarvald og löggjafarvald í sömu persónunni. Við erum með forseta sem bæði er framkvæmdarvald og löggjafarvald að forminu til og við erum með fjárlagafrumvarp sem ákveður ákveðnar framkvæmdir fyrir framkvæmdarvaldið sem enginn ber þá ábyrgð á og flest frumvörp sem Alþingi samþykkir eru ekki samin af Alþingi heldur af ráðuneytum, þ.e. framkvæmdarvaldinu og meira að segja af þeim stofnunum, frú forseti, sem framkvæma lögin, sem er að mínu mati afskaplega hættulegt þegar þeir sem framkvæma lögin eru í þeirri stöðu að semja fyrsta uppkast að lögunum. Þá er alltaf hættan sú að framkvæmdaraðilinn semji vopn í hendurnar á sér til að berja á borgurunum.

Við erum líka með lágmarksrefsingar í ýmsum lögum sem segja má að sé inngrip löggjafarvaldsins í dómsvaldið því að dómarar geta þá ekki lengur dæmt eins og þeim finnst sanngjarnt og þeir eiga að fylgja sannfæringu sinni í því. Við erum því með ýmislegt sem brýtur þessa þrískiptingu og eitt af því er t.d. Kjaradómur hvar hann tilheyrir í þessari þrískiptingu. Samkvæmt nafninu heyrir hann undir dómsvaldið en sumir segja að hann sé í rauninni bara framlenging á framkvæmdarvaldinu og heyri undir fjármálaráðuneytið þó að það geti ekki sagt til um hvernig Kjaradómi eigi að dæma.

Þegar menn taka ákvarðanir í lífinu þá hafa þær ákvarðanir áhrif á aðra einstaklinga. Ef ég geng eftir Austurstræti þarf ég að gæta mín á að rekast ekki utan í næsta mann. Þetta eru óskrifuð lög mikið til og margar ákvarðanir sem við tökum hafa áhrif á aðra. Ég hef kallað það að þar séu haghafar í samræmi við hugtakið hluthafar í hlutafélögum. Það eru haghafar sem hafa hag af ákvörðun sem ég tek. Sumar ákvarðanir eru þess eðlis að þær mikil áhrif, t.d. starfslokasamningar sem trufla mjög marga, t.d. ofurlaun hjá fótboltamönnum, tónlistarmönnum og forstjórum. Menn virðast aðallega horfa á síðastnefnda hópinn í ofurlaunum en síður á fótboltamenn eða tónlistarmennina sem fá launin erlendis. Þetta truflar allan samanburð í kjaramálum. Starfslokasamninga hef ég aldrei skilið. Ég skil ekki hvers vegna ætti að borga mönnum fyrir að hætta að vinna. Það er allt í lagi að borga þeim fyrir að byrja að vinna og fyrir að vinna en ekki fyrir að hætta að vinna. Það hef ég aldrei skilið.

Inn í þetta kemur líka umræðan um sýnileg laun og ósýnileg. Talað hefur verið um lífeyrisréttindi þingmanna, að þau séu sérstök. Það hefur verið talað um starfskostnaðargreiðslu sem flestir þingmenn taka en ekki þó allir. Það hefur einnig verið talað um það þegar forseti var skattfrjáls, ekki kom það fram. En þegar skattfrelsið var afnumið að tillögu sem lögð var fram á Alþingi, um að hann borgaði skatt eins og aðrir, þá þurfti að hækka launin og nánast tvöfalda þau. Þar voru sem sagt ósýnileg laun sem fólust í því að hann borgaði hvorki virðisaukaskatt, tekjuskatt eða yfirleitt nokkra skatta og makinn ekki heldur á sínum tíma. En það hefur verið aflagt.

Málið sem hér er til umfjöllunar er afskaplega vandræðalegt vegna þess að við erum a fjalla um okkar eigin laun. Hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sagði reyndar að hann hefði oft samið um laun sín. Það er eflaust rétt en þá er hann að semja við einhvern annan en sjálfan sig. Hann var að semja við útgerðarmann, eða einhvern slíkan, sem stóð á bremsunni gegn því að hækka launin. En við borgum launin sjálf, við ákveðum fjárveitinguna og við borgum þau sjálf. Þess vegna er þetta afskaplega vandræðalegt mál.

Það er alltaf vandræðalegt í þessari þrískiptingu valdsins að finna út hver eigi að ákveða launin á toppnum. Hver á að ákvarða laun hæstaréttardómara? Hver á að ákvarða laun þingmanna? Hver á að ákvarða laun ráðherra? Eigum við að láta Kjaradóm gera það? Hann heyrir undir dómsvaldið og er þá í raun að ákvarða sín eigin laun. Hann er tilnefndur af Hæstarétti, eins og staðan er í dag, og Alþingi og ráðuneyti. Hann er því í rauninni að ákvarða eigin laun. Þetta eru vandkvæðin en ég kem inn á þau á eftir.

Kjaradómurinn sem féll í desember kom á afskaplega óheppilegum tíma og getur varla hugsast verri tími. Þá var nýbúið að ganga frá kjarasamningum á almennum markaði vegna svokallaðra rauðra strika, vegna þess hve húsnæðisverð hafði hækkað mikið, og eingöngu vegna þess, sýndi verðbólgan mjög háa tölu. Án húsnæðisverðsins var mjög lítil verðbólga en þetta dugði til að kjarasamningar voru í uppnámi. Það þurfti að semja. Menn náðu tiltölulega góðri lendingu í því, mjög farsælli lendingu fyrir alla. Menn sáu fram á að ekki yrðu verkföll og kjarasamningar ekki lausir. Þar náðist lending en ekki voru allir sáttir við það. Launahækkunin var mjög lítil og hæfileg. Í kjölfar þessa, rétt á eftir, kemur úrskurður Kjaradóms um 8% hækkun til toppanna í þjóðfélaginu. Þeirra laun eru kannski einna mest í umræðunni. Ég segi ekki að allt hafi orðið vitlaust, frú forseti, en um þetta urðu miklar umræður. Þetta var mjög óeðlilegt.

Þá komum við að þessu sem ég nefndi áðan, um haghafa. Menn geta ekki hegðað sér, eigi að vera jafnvægi í þjóðfélaginu, eins og þeir séu einir, eyland. Þeir verða að taka mið af öllum aðstæðum. Það hefði þurft að gera í þessu dæmi líka. Þess vegna er þetta frumvarp fram komið. Það mildar áhrifin af ákvörðun Kjaradóms og ég styð það vegna þess.

Ef við ræðum hins vegar um þrískiptingu valdsins og ef Kjaradómur er dómstóll, eins og stendur reyndar í lögum um hann, með leyfi frú forseta: „Kjaradómur skal skipaður fimm dómendum og jafnmörgum varadómendum.“ Það er talað um dómara þannig að þetta er dómstóll. Þar með er bréf hæstv. forsætisráðherra til dómsins í raun inngrip framkvæmdarvaldsins í dómsvaldið og það sem við ræðum í dag, lagabreytingin, inngrip löggjafarvaldsins í dómsvaldið. Hvort tveggja er afskaplega varasamt ef við lítum á það að verja borgarann fyrir ofríki ríkisins. En nú er það ekki þannig að hæstaréttardómarar og þingmenn séu veikasti þátturinn í mannlífinu. Ef við horfum á þetta með þeim augum og gætum þess að þetta verði ekki fordæmi, að Alþingi geti farið að breyta dómum með lögum, þá er þetta kannski í lagi. En ég vil benda á að allir ættu að stefna að því að hafa þessa þrískiptingu valdsins eins hreina og hægt er. Þess vegna ætti svona lagað ekki að koma fyrir aftur.

Laun þingmanna eru afskaplega vinsælt umræðuefni. Þau hafa ekki verið hækkuð svo ég muni án þess að um það hafi spunnist gífurlegar umræður um allt þjóðfélagið. Margir hafa áhuga á þessu. Sérstaklega þeir sem eru jafnvel með hærri laun. Það eru kannski fulltrúar ASÍ og SA sem hafa miklar skoðanir á launum þingmanna án þess að gefa upp sín eigin laun. Ég veit ekki einu sinni hvaða laun þeir hafa. En þeir hafa miklar skoðanir á launum þingmanna og laun þingmanna mega helst ekki hækka mikið. Árið 1992 var þetta leyst þannig að þingmenn, í staðinn fyrir að ákveða laun sín sjálfir, settu þeir upp Kjaradóm og töldu sig þar með hafa leyst málið þannig að óháður aðili sem ákvæði þetta. Það breytir engu. Þetta er jafnmikið ágreiningsefni í þjóðfélaginu eftir sem áður.

Þetta er dálítið skrýtið. Ég tel að flestir vilji að Alþingi sé sæmilega mannað. Til þess að fá mannskap á skútuna þarf væntanlega að borga sæmileg laun þannig að menn tapi ekki miklu í lífskjörum við það að verða þingmenn. Heilmikið hefur áunnist í því með Kjaradómi. Ég held að laun þingmanna hafi hækkað umtalsvert og væntanlega hafa fleiri áhuga á því að bjóða sig fram til þings, enda er mikil velta í þingsalnum og mikil breyting í hverjum einustu kosningum, sem menn átta sig kannski ekki á.

Áðan var rætt um eignarrétt og bréf sem var vitnað í. Nú er það þannig að laun eru gjald fyrir vinnu, þau eru ekki réttindi. Menn vinna til að fá laun. Ef menn líta á launin sem eignarrétt þá segja þeir að menn vinni ekki fyrir laununum sínum. Ég skil það þannig. Ég held að laun geti aldrei orðið eignarréttur vegna þess að það á að koma vinna á móti. Það má ekki gleyma því.

En varðandi vandamálið hver eigi að ákvarða laun ráðherra, þ.e. framkvæmdarvaldsins; dómara, þ.e. dómsvaldsins; og þingmanna, þ.e. löggjafarvaldsins, þá hef ég stungið upp á því, og sting upp á því enn, að við förum eftirfarandi leið, frú forseti: Fráfarandi þing ákvarði laun næsta þings í tíma. Ef við mundum ákveða núna fyrir vorið að laun þingmanna yrðu einhver tala, 500 þús. kr. eða eitthvað slíkt og lífeyrisréttur eins og fyrir venjulegt fólk, eitthvað svoleiðis, eða við segjum að launin yrðu 700 þús. kr., ef einhverjum þykir það betra. Ef einhverjum finnst þau laun vera há þá býður sá hinn sami sig fram til þings. Það er fínt og þá yrði væntanlega meira framboð af hæfara fólki á þing, eða jafnhæfu eða hvernig sem það vill vera. Þá verður meira fjör í prófkjörum. Ef núverandi þingmenn ákveða þessa tölu mjög háa þá ættu þeir á hættu að missa þingsæti sitt og missa af laununum. Þeir mundu sem sagt saga af greinina sem þeir sitja á. Ég held að þetta væri ágætisleið til að losa úr þessari klemmu. Það virkar greinilega ekki að setja þetta yfir á dómsvaldið.

Síðan vil ég að Alþingi, vegna þess að það hefur fjárveitingavald, ákvarði laun bæði dómara, dómsvaldsins, og ráðherra, framkvæmdarvaldsins, þ.e. það sem þeir fá til viðbótar við þingfararkaup. Þetta yrði einnig gert tímanlega og ákvarðað fyrir næsta kjörtímabil. Rökstuðningurinn bak við þessa hugmynd er sá að Alþingi er alltaf kosið á fjögurra ára fresti. Það getur ekki treyst því að halda vinnunni áfram. Þess vegna getur það lagt til bæði laun næsta þings og hinna þáttanna í þrískiptingu valdsins. Þetta er hugmynd sem ég vildi gjarnan að menn ræddu í alvöru til að leysa þennan vanda. Þegar búið er að ákvarða launin fyrir næsta kjörtímabil — síðan má hafa það einhverja verðtryggingu á því innan kjörtímabilsins í fjögur ár. En ef mönnum finnast launin há þá geta þeir boðið sig fram. Það er bara æskilegt og fínt. Þá væri hugsanlegt að þeir sem láta hæst hjá aðilum vinnumarkaðarins byðu sig bara fram til þings, þeim sem þættu launin vera góð. Þá fáum við kannski enn hæfara fólk á þing.



[18:11]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Á ræðumanni er helst að skilja að hann haldi að þingmenn bjóði sig eingöngu fram vegna launanna. Á hinn bóginn getur verið að einhverjir séu ekki þingmenn vegna launanna og vilji bara vera þingmenn. Væri þá ekki alveg eins hætta á því að menn ákvæðu bara engin laun til að tryggja að sem fæstir sæktu í þessi störf? Væri það einn möguleikinn?



[18:12]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að margir þingmenn eru ekki á þingi vegna launanna. Ég hef því miður oft heyrt af því í prófkjörum þegar ég hef reynt að fá fólk til að bjóða sig fram að það segist ekki hafa efni á því. Það segir að það sé með svo miklar námsskuldir og annað slíkt og að það mundi lækka mikið í launum við að fara á þing. Það er miður.

Auðvitað þarf að vera sátt um þau laun sem Alþingi ákveður. Það er fráleitt ef ákveðið er að launin séu núll því að þá mundu þeir einir sækja um að vera þingmenn sem hefðu efni á því og hefðu nægilegar eignir eða tekjur annars staðar. Það væri líka neikvætt. Þetta þurfum við að hafa í huga.

En ég held að ná þurfi ákveðinni sátt í þjóðfélaginu um hvernig menn vilji launa hásetana á þessari skútu og hvernig menn vilja hafa hana mannaða.



[18:13]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Er þetta ekki, þegar öllu er á botninn hvolft, einfaldlega mjög varasöm hugmynd, þ.e. að menn geti einfaldlega ákveðið launin það lág að einungis efnamenn sem sækist í þessi störf? En burt séð frá því er ég ósammála því viðhorfi að menn stjórnist af og ráði sig í störf eingöngu vegna launa. Þar skipta ýmsir aðrir þættir verulega miklu máli. Fólk vill einfaldlega standa sig og láta gott af sér leiða. Það á við um þingmenn og í öðrum störfum, t.d. framkvæmdastjóra. Þessi umræða um laun og að menn fái einfaldlega betri framkvæmdarstjóra við að hækka launin eða hafa ofurháa starfslokasamninga, finnst mér komin út í óefni. Ég held að það þurfi að fara að vinda ofan af þessu. Þetta er hrein og klár vitleysa.



[18:14]
Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Menn vinna örugglega af margvíslegum hvötum. Það eru mismunandi hvatir sem leiða til þess að menn sinni starfi af fullri alúð. Það er rétt að sumir sýna mikinn metnað þrátt fyrir lág laun. Hins vegar er þjóðfélag okkar þannig uppbyggt að menn eru verðlaunaðir með hærri launum. Það er þannig. Þetta hefur viðgengist á skipum, að menn eru fá hlut af aflaverðmætum. Það er til að verðlauna þá sem fiska mikið. Við borgum mönnum hærri laun fyrir ábyrgð, menntun, dugnað og snilld þannig að laun eru ákveðinn mælikvarði á hvernig menn standa sig í starfi.

Þó er kannski rétt hjá hv. þingmanni að kannski hafi verið lögð of mikil áhersla á að þetta sé eini mælikvarðinn og að hugsanlega megi hverfa frá þeirri hugsun að miða svo mikið við laun. Ég tek undir það. En ég held að við hverfum ekki frá því að laun verði alltaf einhver mælikvarði á það hvernig menn standa sig í starfi, hvort þeir eru duglegir, stundvísir, snjallir, trúir, vel menntaðir o.s.frv. Ég held að það þurfi alltaf að borga það með launum.



[18:15]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum hér að ræða frumvarp um að afnema svokallaða ákvörðun Kjaradóms. Það hefur verið nefnt m.a. af hæstv. fjármálaráðherra að umræðan sé full af tvískinnungi. Ég get tekið undir það. Ég vil að menn velti fyrir sér hvers vegna við erum að afnema þessa 8% hækkun og koma henni í samræmi við það sem gerist á almennum vinnumarkaði. Talað er um að það sé verið að rjúfa einhverja sátt í þjóðfélaginu. Það er mjög sérstakt að heyra það hér frá fulltrúum ríkisstjórnarinnar sem hafa í rauninni verið að auka misskiptingu í þjóðfélaginu. Skattar hafa verið lækkaðir á þeim sem hafa háu launin en hækkaðir hlutfallslega á þeim sem hafa lágu launin. Og síðan þegar einhver svona mál lenda í kastljósinu, þá verða menn vandræðalegir og reyna jafnvel að drepa umræðunni á dreif. Það er margt mjög undarlegt í aðdraganda þessa máls, frú forseti, t.d. þegar hæstv. forsætisráðherra biður umræddan Kjaradóm, ræðir við formanninn, að endurskoða málið út frá sömu forsendum og hann hafði áður. Ég verð að segja að eftir að hafa lesið bréf formanns Kjaradóms, mjög gott bréf sem hann ritaði hæstv. forsætisráðherra á aðfangadag, þá skil ég að mörgu leyti hvers vegna ekki var hægt að endurskoða ákvörðunina. En hvað verður til þess að það var ekki hægt? Jú, það eru verk ríkisstjórnarinnar. Verk ríkisstjórnarinnar sem ég hafði rakið hér fyrr í andsvörum, það var sú ákvörðun að hækka laun í kjarasamningum og einnig sú ákvörðun kjaranefndar að hækka laun jafnvel afturvirkt á miðju síðasta ári, laun embættismanna sem voru í einhverjum viðmiðunarhópum. Þegar kjaranefnd miðar við suma hópa sem hækka þá verður þetta eins og einhver víxlverkun og allir hækka og slík umræða um kjaramál endar með ósköpum. Að vissu leyti má styðja það að menn fari í þessa vinnu og endurskoði öll þessi launakjör. En út frá þeim forsendum að fara að ákvarða aftur og biðja formann Kjaradóms að ákveða aftur eins og hæstv. forsætisráðherra óskaði eftir, það er mjög barnalegt. Maður furðar sig á því að honum skuli detta þetta í hug í stað þess, ef þetta var svona brýnt og aðkallandi, þá átti auðvitað að kalla þing saman og taka á þessu áður en úrskurðurinn náði fram að ganga.

Það er margt sem mjög athyglisvert í þessu bréfi frá formanni Kjaradóms, Garðari Garðarssyni. Þar rekur hann hvers vegna hækkunin varð svona mikil, 8% hækkunin. Það má m.a. rekja til áramótanna 2003 þegar hér voru sett eftirlaunalög. Eftir að þau höfðu verið sett og valdið mikilli ólgu í samfélaginu, þá treysti Kjaradómur sér ekki til að hækka laun alþingismanna og æðstu embættismanna vegna þeirrar ólgu. Þannig að það var verið að taka þá hækkun út núna með þessum dómi sem kemur tveimur árum síðar. Þetta er mjög athyglisvert sérstaklega í ljósi þess að hæstv. forsætisráðherra sagði eftir að þau lög voru sett að nú ætti að taka á því að menn geti ekki verið á eftirlaunum í fullu starfi hjá ríkinu. En hvað hefur gerst? Hefur maðurinn eitthvað gert í því? Hann hefur sagst gera það en síðan runnið á rassinn með það. Ég á eftir að sjá hvort hann renni á rassinn með þessa vinnu eða hvort þetta fari hér í gegnum þingið, þessi lækkun og hækkunin seytli svo út aftur einhvern tímann seinna. Eða hvort það verði raunverulega tekið á málinu.

En ég get vissulega tekið undir að það er ákveðinn tvískinnungur í umræðu um kjaramál. Ég vil þá fyrst og fremst tala um verkalýðshreyfinguna í þeim efnum. Hún hefur látið hvað hæst þegar verið er að hækka laun og jafnvel í fyrirtækjum sem eru á markaði þar sem menn fá starfslokasamninga. Þar fá menn borgað fyrir að hætta í vinnunni, fá fyrirframsamninga, jafnvel upp á heilan milljarð, eins og forstjóri FL Group, en mér skilst að hann fái 198 millj. á ári ef hann nær að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til hans. Svo háar upphæðir snerta almenning. Hagnaður af reglulegri starfsemi svona fyrirtækis er langt frá því að vera í þessum háu hæðum. Þetta er allt meira og minna óinnleiddur gengishagnaður sem menn eru að gera út á og spila með fram og aftur. En það sem er kannski sérkennilegt í þessu er að verkalýðshreyfingin lætur hátt á sama tíma og hún er að fjárfesta í fyrirtækjum sem hún gagnrýnir, í fyrirtækjum sem gera starfslokasamninga upp á 300 millj. fyrir tvo fyrrum forstjóra. Þetta er auðvitað algerlega ólíðandi. Ríkisstjórnin þykist vera að halda friðinn með þessari gjörð. En því miður þarf meira til. Það þarf að taka á kjörum eldri borgara. Það þarf að taka á kjörum öryrkja. Það gengur ekki að vera með það sem mér sýnist að megi kalla sýndargjörð að mörgu leyti. Það er verið að hækka skatta á öryrkja og lækka skatta á hátekjuhópa. Síðan kemur svona frumvarp inn þar sem menn segjast ætla að taka á því að vera ekki að rjúfa friðinn í samfélaginu þegar stöðugt er verið að breikka bilið. En ekki nóg með það, þegar spurt er út í hver þróunin yrði ef eða þegar ríkisstjórnin hefur náð að hrinda í framkvæmd stefnumálum sínum í skattamálum, þá fást engin svör hjá ríkisstjórninni. Það er eins og þau laun sem verið er að lækka hér séu málið. En ég er einfaldlega á því að þetta sé sýndarmennska.

En það verður fróðlegt að vita hvort farið verði gaumgæfilega í gegnum forsendur fyrir þessari hækkun Kjaradóms og við í Frjálslynda flokknum munum fylgja því eftir að svo verði gert. Því eins og áður segir þá kemur fram að rekja megi hækkunina til aðgerða ríkisstjórnarinnar og einnig að launaþróun hefur verið hærri en sú hækkun sem orðið hefur á kjörum æðstu embættismanna þjóðarinnar á þessu tímabili sem var tekið til viðmiðunar í bréfi formanns Kjaradóms.

En eflaust verður farið gaumgæfilega í gegnum þetta mál og einnig þetta undarlega fyrirbæri sem Kjaradómur er. Það er nauðsynlegt að menn séu ekki með Kjaradóm og kjaranefnd og síðan þurfi að endurraða og að gæta einhvers samræmis á milli nefnda og á vegum ríkisins. Það er orðið löngu tímabært að það verði í raun farið í gegnum þessa vinnu. Einnig tel ég að það sé vafasamt að sumir af þessum embættismönnum eigi í rauninni að heyra undir Kjaradóm. T.d. eins og umboðsmaður barna. Ég veit í rauninni ekki hvað við erum að gera við þetta embætti lengur. Hvaða tilgangi það þjónar yfirleitt í stjórnsýslunni. Mér finnst í raun tímabært að fara að skoða það með gagnrýnum huga, það er ekki einu sinni hægt að auglýsa starfið með viðunandi hætti. Hæstv. forsætisráðherra fékk ádrepur frá umboðsmanni Alþingis um hvernig hann stóð að því. Síðan virðist sem tilgangur og forsenda fyrir embættinu sé mjög vafasamur, tilgangslítið embætti sem kostar þjóðfélagið háar upphæðir. Við sjáum fleiri dæmi um hvernig má spara hjá ríkinu og hvort að menn séu í rauninni að blása ríkið út t.d. með því að ákveða laun með einhverjum kjaradómum og kjaranefnd og svo verður einhver víxlverkun og hægri höndin veit varla hvað sú vinstri gerir. Og eftir að ákvörðunin hefur verið tekin þarf að leiðrétta hana. Ég veit í rauninni ekki út frá hvaða forsendum sú leiðrétting á að vera eftir að hafa lesið bréf formanns Kjaradóms um laun æðstu embættismanna.



[18:26]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er til umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um Kjaradóm og kjaranefnd. Ég hélt að ég yrði þess heiðurs aðnjótandi að verða síðasti ræðumaðurinn til að taka þátt í 1. umr. um frumvarp ríkisstjórnarinnar. En mér sýnist reyndar að hv. þingmaður Ögmundur Jónasson taki við keflinu af mér og klári þetta mál.

Það er athyglisvert að það eru ekki margir þingmenn ríkisstjórnarflokkanna sem hafa tekið til máls í þessari umræðu. Enda er þetta vandræðamál fyrir ríkisstjórnina. Við þekkjum öll farsann sem fór af stað rétt fyrir jólin þar sem hæstv. forsætisráðherra fór með aðalhlutverk og formaður Sjálfstæðisflokksins fór með aukahlutverk og svo átti varaformaður fjárlaganefndar innkomu sem var afar dramatísk, reyndar í gegnum síma í beinni útsendingu á einni útvarpsstöðinni. Það hafði verið mikil umræða um laun og launaskrið í landinu og mottóið hjá sumum var að það væri eðlilegt að laun toppanna og forstjóra á ofurlaunum mundu hækka. En stórhættulegt að laun þeirra sem minnst úr býtum bera mundu nokkuð hækka. Borgarstjórinn, Steinunn Valdís, fékk skömm í hattinn frá nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fyrir að gera samning við borgarstarfsmenn á lágum launum því sá samningur mundi koma af stað miklu launaskriði upp allan skalann og þá væri voðinn vís. Um þetta hafa þingmenn haft nokkra umræðu hér í dag. Þegar Kjaradómur úrskurðar að dómarar, þingmenn, ráðherrar og fleiri eigi að fá rúmlega 8% launahækkun kom það hæstv. forsætisráðherra gífurlega óvart. En lengi vel gerir hann samt ekkert í málinu þrátt fyrir að stjórnarandstaðan krefjist þess að þing komi saman til að ræða þessi mál og afnema hækkunina. Þá humma menn það bara fram af sér alveg nægilega lengi til að það sé orðið of seint og fara jafnvel fram á að Kjaradómur hugsi sig nú betur um. Hvort hann sé ekki til í að lækka þessa prósentutöluhækkun eitthvað svo að almúginn sé nú sáttur. Svo er reynt að sparsla eitthvað yfir vandræðaganginn með að taka málið upp núna og breyta úrskurði Kjaradóms afturvirkt. Svo fréttum við að forstjórar stórfyrirtækjanna séu á himinháum launum, miklu hærri en okkur hefði órað fyrir og á ég þá við stjarnfræðilega starfslokasamninga, jafnvel eftir nokkurra mánaða störf. Þá blöskrar auðvitað sumum. Ég fagna hins vegar umræðunni sem fór af stað í kjölfarið. Það kemur nefnilega í ljós að launabilið er og hefur verið að stóraukast á síðustu missirum. Sú staðreynd sem við í Vinstri hreyfingunni — grænu framboði höfum haldið fram, að við séum að sigla á ofsahraða frá norrænu samfélagi þar sem laun hafa verið nokkuð jöfn og sanngjörn, inn í eitthvert amerískt módel með forstjórum á súperlaunum og ráðherrum sem eru yfir alla hafnir. En viljum við þetta? Vill íslenska þjóðin að launabilið sé að aukast og verði meira í ætt við Ameríku en Ísland? Nú er hægt að velta því fyrir sér hvað séu sanngjörn laun og hvað ekki og hversu mikil ábyrgð fylgir hverju starfi o.s.frv. Hv. þingmaður Ögmundur Jónasson fór einmitt inn á þau mál fyrr í umræðunni og velti þar upp áhugaverðum samanburði.

Mér þótti skemmtilegt þegar einn af fáum þingmönnum ríkisstjórnarinnar tók til máls áðan, hv. þingmaður Pétur H. Blöndal, þá vildi hann bæta inn í þessa ofurlaunagrúppu fótboltaköppum og tónlistarmönnum. Skýtur það nú nokkuð skökku við vegna þess að við vitum að fótboltamenn eiga nú venjulega ekki alveg eins langan starfsferil og forstjórar. Mér að vitandi eru laun tónlistarmanna afar mismunandi og hátt kaup þeirra varir venjulega stutt. Þetta er auðvitað bara liður í því að reyna að sópa þessari umræðu undir teppið. Ríkisstjórnin er nefnilega komin í klemmu.

Með ósanngjörnum eftirlaunalögum sem ríkisstjórnin setti stuttu fyrir jólin 2003 hófst ferli sem við sjáum ekki enn þá fyrir endann á. Þetta frumvarp varpar ljósi á það skrúfstykki sem stjórnin er í og er að reyna að losa sig úr með vandræðalegum hætti.



[18:32]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstvirtur forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta frumvarp. Þetta er í annað sinn sem ég kveð mér hljóðs um málið. Umræðan hefur að mörgu leyti verið fróðleg. Við höfum heyrt vangaveltur manna um hvernig þessu verði best háttað í framtíðinni, um ákvörðun launakjara þingmanna, ráðherra, dómara og annarra sem heyra undir Kjaradóm. Við höfum heyrt að vinir og félagar háttvirtra stjórnarþingmanna, ég nefni þar hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur tekið þátt í þessari umræðu, hafa ekki komið á þing vegna þess hve lág launin eru. Þeir treysta sér ekki til að bjóða sig fram til Alþingis vegna launakjaranna. Engu að síður eru sömu hv. þingmenn og halda þessu fram samþykkir því að þessi launahækkun verði kölluð til baka. Hvernig skyldi standa á því? Það er vegna þess að þeir óttast að hún valdi óróa í samfélaginu og setji kjarasamninga úr skorðum þegar þar að kemur að þeir verða uppsegjanlegir. Mér finnst þessi tónn hafa verið einkennandi fyrir þessa umræðu af hálfu ríkisstjórnarinnar, ráðherra og þingmanna stjórnarmeirihlutans. Reyndar má heyra þann tón frá talsmönnum atvinnurekenda sem hafa fordæmt ákvarðanir Kjaradóms. Það er sem sagt ekki misréttið sem menn gagnrýna heldur hitt að menn komi auga á misréttið, að það valdi óróa í samfélaginu og geti hugsanlega valdið því að kjarasamningum verði sagt upp þegar þar að kemur.

Annað sem hefur verið áberandi í þessari umræðu eru þau viðhorf ráðherra og stjórnarmeirihlutans að þetta sé nokkuð sem komi þeim nánast ekki við. Kjaramisréttið í þjóðfélaginu kemur ríkisstjórninni ekkert við. Þá vilja þeir gleyma því að það er á vegum ríkisstjórnarinnar sem samið er við opinbera starfsmenn almennt. Það er staðreynd að samið hefur verið um meiri hækkanir til handa þeim sem standa efst í launakerfinu en til hinna sem standa neðar í launakerfinu. Þetta er eitt af þeim viðmiðum sem Kjaradómur horfir á þegar hann tekur ákvarðanir. Eins hefur verið ráðist í margvíslegar kerfisbreytingar í opinberum rekstri sem einnig hafa stuðlað að auknum kjaramun. Þar nefni ég t.d. hlutafélagavæðingu sem hefur orðið þess valdandi að æðstu stjórnendur í fyrirtækjum hafa hækkað mjög í launum. Kjör þeirra hafa batnað á alla lund. En þeir sem standa lægst hafa iðulega staðið í stað. Kjör þeirra hafa jafnvel versnað að raungildi.

Enn er á það að líta að í kjarakerfinu hafa verið gerðar breytingar sem ganga út á að forstjórar fyrirtækja eða ríkisstofnana fái hærri laun en tíðkast hjá þeim sem taka laun sín samkvæmt kjarasamningum eða ákvörðunum kjaranefndar eða Kjaradóms. Ég nefndi dæmi um þetta: Fjármálaeftirlitið, Íbúðalánasjóð og fleiri aðila. Þar er reynt að liðka um fyrir launahækkunum til æðstu stjórnenda og jafnframt hvílir mikil leynd yfir slíkum samningum. Þetta eru allt gerðir ríkisstjórnarinnar. Þá eru náttúrlega ónefnd afrekin á sviði skattamála sem hygla hátekjufólkinu í þjóðfélaginu, hátekju- og stóreignafólki, á kostnað þeirra sem hafa verstu kjörin. Við þekkjum að öryrkjar, sem eru á lægstu launum og ekki greiddu tekjuskatta þegar skattkerfinu var breytt undir lok 9. áratugarins, greiða núna umtalsverða skatta eða sem nemur örorkubótum tveggja mánaða. Það greiða þeir núna á ári. Þetta eru allt gjörðir ríkisstjórnarinnar. Reiðin í samfélaginu beinist að þessu.

Menn horfa á það sem er að gerast hjá fyrirtækjum, stóreignamönnum og stórbröskurum sem taka til sín milljónir, tugmilljónir og jafnvel hundruð milljóna í tekjur. Þetta er tekið inn með margvíslegum hætti, bæði í launum og öðrum kjörum. Þar er vert að nefna fjármagnstekjuskattinn. En sem kunnugt er liggur sá mannskapur allur í bómull, með 10% skatt á sama tíma og launafólk greiðir þrefalt hærra eða rúmlega það.

Við höfum komið með tillögur um breytingar hvað þetta snertir. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett fram fjölmörg þingmál sem lúta að kjarajöfnun í þjóðfélaginu. En ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég er því fylgjandi að þessi kjarahækkun verði tekin til baka og þar með vil ég leggja áherslu á þá forgangsröð sem hér á að vera við lýði. Á meðan öryrkjum, atvinnulausum og láglaunafólki er skammtað úr hnefa á ekki að hækka launin hjá því fólki sem bestu kjörin hefur og að sjálfsögðu á ekki að gera það hlutfallslega meira en gerist annars staðar. Helst á að snúa dæminu algerlega við og byrja á að bæta kjör þeirra sem hafa þau lökust.

Ég held að við þekkjum öll, í tengslum við þessa umræðu eða umræðu undanfarna daga og vikur, reiðina sem er í brjóstum þess fólks sem getur ekki séð sér eða sínum farborða, yfir að horfa upp á ákvarðanir af því tagi sem hér er um að ræða. Ég hef fengið fjölda símtala frá fólki, frá öryrkjum og láglaunafólki sem berst í bökkum, getur varla haldið húsnæði sínu. Það eru áhöld um að það haldi húsnæði sínu og það getur ekki séð sér og sínum farborða. Það krefst að sjálfsögðu annarrar forgangsröðunar í þessum sal. Ég mun styðja það.