132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

gögn með frumvarpi um Ríkisútvarpið.

[12:02]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Eitt af þeim málum sem hér liggja og bíða 1. umr. er frumvarp ríkisstjórnarinnar og menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið.

Í júlí, hygg ég að það hafi verið frekar en júní, var það frumvarp boðað á ný í þinginu með mikilvægri breytingu sem var sú að rekstrarformið sem í frumvarpinu í fyrra var sameignarfélag skyldi nú vera hlutafélag. Fyrir því var sögð sú ástæða að athugasemdir frá ESA leyfðu ekki annað en að stofnað yrði hlutafélag um rekstur Ríkisútvarpsins.

Þegar þingið kom saman bar ég strax upp það erindi í menntamálanefnd að fá þessi samskipti ESA og íslensku ráðuneytanna, fjármálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins. Það mál var þar sett í athugun, fund af fundi satt að segja, og að lokum var, að ég hygg í desembermánuði, komið með þau svör frá ráðuneytinu — það annaðist þá formaður nefndarinnar hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson — að ráðuneytin gætu ekki orðið við því en þessi bréfaskipti og samskipti og þeir textar allir mundu fylgja frumvarpinu sem væri verið að leggja fram. Ég sætti mig að sinni við það, enda lítið annað að gera þó að rök væru nú ekki á bak við þá skýringu. En þegar frumvarpið kom fylgdu engir slíkir textar nema endursögn á þessum samskiptum.

Ég tel, forseti, að ekki sé hægt að hefja umræðu um málið án þess að fá þessa texta og beini því þess vegna til forseta að fá textana hjá ráðherrunum tveimur, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. menntamálaráðherra, hvor þeirra sem er með þetta mál nákvæmlega, til þess að 1. umr. geti hafist eða tefjist ekki af því tilefni.



[12:04]
Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá ósk eða kröfu hv. þm. Marðar Árnasonar að þessar upplýsingar komi fram enda liggja þær allri málsmeðferð til grundvallar og þeirri meginbreytingu sem varð á frumvarpi til laga um Ríkisútvarpið frá hæstv. menntamálaráðherra á milli áranna 2005 og 2006. Frumvarpið sem kom fram í fyrra endaði á pólitískum ruslahaugum, svo ófullkomið sem það var, og sérstaklega út af því fyrirkomulagi sem þar var sett fram á rekstrarformi Ríkisútvarpsins sem þá átti að heita einhvers konar sameignarfélag, sameignarfélag sem einn aðili átti að standa á bak við og eiga. Það mál féll um sjálft sig enda náði það aldrei pólitísku flugi. Nú kemur málið fram að nýju þar sem Ríkisútvarpinu er ætlað að vera hlutafélag í eigu ríkisins.

Að þeirri meginbreytingu á málinu liggja þær upplýsingar sem hér er óskað eftir og hefur ítrekað verið óskað eftir í menntamálanefnd í vetur. Þangað bárust þær fréttir að á upplýsingunum væri von, upplýsinganna væri að vænta og þær kæmu, eins og við þingmenn Samfylkingarinnar skildum það, áður en málið kæmi fram á Alþingi.

Nú er málið komið fram á Alþingi og hefur verið boðað sem eitt af fyrstu málum þessa vorþings sem nú er að hefjast. En upplýsingarnar eru ekki komnar fram, upplýsingar sem virðist eiga að halda frá hinu háa Alþingi. Það er algjörlega óboðlegt að ætlast til þess að Alþingi taki afstöðu til þessarar meginbreytingar á rekstrarformi og fyrirkomulagi Ríkisútvarpsins og maður hlýtur að spyrja: Af hverju er þetta óðagot á Ríkisútvarpsfrumvarpinu, af hverju er verið að keyra það í gegn án þess að þessar upplýsingar liggi fyrir? Af hverju er verið að keyra það í gegn áður en margboðuð löggjöf um fjölmiðla, aðra fjölmiðla landsins kemur fram?



[12:06]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Það er rétt sem fram kom hjá hv. þm. Merði Árnasyni að hann óskaði eftir því á fundi menntamálanefndar fyrir nokkru að umrædd gögn yrðu lögð fram. Í framhaldi af því óskaði ég eftir að fá gögnin í hendur frá menntamálaráðuneytinu að hans beiðni. Þegar mér bárust svör frá ráðuneytinu lá fyrir að gögnin voru ekki tilbúin, þau lágu ekki fyrir enda voru samskipti milli ráðuneytanna og Eftirlitsstofnunar EFTA bæði á skriflegu og munnlegu formi. Mál eins og þessi hafa reyndar verið til umræðu og ég veit að fulltrúar ráðuneytisins voru nú í þessari viku á fundi ESA þar sem mér skilst að þessi málefni hafi m.a. verið til umræðu. Ég tel því rétt að ráðuneytið og Eftirlitsstofnunin fái svigrúm til að ganga frá þessum gögnum þannig að hægt verði að leggja þau fram með formlegum hætti.

Ég get líka upplýst hv. þingmann um að ég hef upplýsingar úr ráðuneytinu um að það verði gert. Menntamálanefnd munu berast þessi gögn þegar þar að kemur og ég geri ráð fyrir að það verði fyrr en síðar, ég óskaði sérstaklega eftir upplýsingum um það í dag að loknum fundi menntamálanefndar.

Ég er hins vegar ósammála hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni um að ekki sé hægt að ræða frumvarp menntamálaráðherra um Ríkisútvarpið. Ég tel að það sé alveg hægt og veit ekki betur en að það sem þar kemur fram um samskipti ráðuneytisins við ESA sé satt og rétt og þar sé hlutunum rétt til haga haldið. Hann spyr af hverju verið sé að keyra málið áfram. Það er ekki verið að keyra málið áfram, það er engin ástæða til að bíða með það og ég bendi á að m.a. Starfsmannasamtök RÚV hafa sérstaklega óskað eftir því að málinu verði hraðað þannig að hægt verði að (Forseti hringir.) eyða óvissu um framtíð starfsmanna þeirrar stofnunar, hvort sem hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni finnst það fyndið eða ekki.



[12:09]
Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég hef töluvert miklar efasemdir um að réttmætt sé að breyta Ríkisútvarpinu í hlutafélag. Á sínum tíma lagði ríkisstjórnin upp með annað í farteskinu, hún ætlaði að hafa það sjálfseignarfélag í atvinnurekstri. Ástæðan fyrir því að ríkisstjórnin hvarf frá því var sú niðurstaða sem kom frá ESA. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar um stefnubreytingu var tekin á grundvelli gagna sem þaðan komu. Þess vegna er einfaldlega sanngjarnt að við í stjórnarandstöðunni og þingmenn eigum kost á því að meta þá stefnubreytingu og ræða þetta frumvarp á grundvelli nákvæmlega sömu gagna og ríkisstjórnin tók sína ákvörðun. Ég tel þess vegna að ekki sé hægt að hefja umræðu um frumvarpið um RÚV nema þessi gögn liggi fyrir.

Nú hefur hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson, sem greinilega hefur staðið sig vel sem formaður menntamálanefndar í því að reyna að afla gagnanna, upplýst að það sé vilji ráðherrans að þau verði lögð fyrir á síðari stigum. Frú forseti, það gengur ekki upp. Við getum ekki rætt frumvarpið við 1. umr. án þess að hafa þau gögn. Það er ekki nóg að þau berist síðar. Því síður er það hægt, frú forseti, þar sem skýrt kemur fram í greinargerðinni að einhver óljós túlkun er þarna á ferð. Ég t.d. get ekki lesið út úr greinargerðinni með frumvarpinu að það sé ótvírætt að niðurstaða ESA sé á þennan veg. Því segi ég að það kemur ekki til mála að ræða frumvarpið nema þessi gögn séu til staðar við 1. umr. Mér finnst það ósvinna af þinginu ef málið er tekið til umræðu án þess að við höfum þær upplýsingar.



[12:11]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er í hæsta máta tortryggilegt að þessi gögn skuli ekki nú þegar vera komin í hendur okkar þingmanna. Ég staðfesti það að hv. þm. Mörður Árnason bað um, ég held ég geti nokkurn veginn fullyrt það, á hverjum einasta fundi nefndarinnar á haustþinginu að þessi gögn yrðu okkur til reiðu. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson tók því ævinlega afar ljúfmannlega og vissi aldrei annað en að gögnin væru á leiðinni og kunni engar skýringar á þeim seinagangi í afgreiðslu ráðuneytisins sem olli þeim töfum sem raun ber vitni. Og enn eru gögnin ekki komin okkur í hendur.

Nú segir hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að það sé eitthvað verið að vinna með þau, verið sé að útfæra hinn munnlega þátt þeirra. Það er ekki boðlegt að færa okkur þau skilaboð ofan úr ráðuneyti að verið sé að útfæra þau tæknilega og það sé þess vegna sem við höfum ekki fengið þau. Það er eitthvað meira sem hangir á spýtunni. Þess vegna segi ég, frú forseti: Það er í hæsta máta tortryggilegt að við skulum ekki hafa fengið nú þegar þau gögn sem ráðuneytið sjálft hafði til þess að semja frumvarpið.

Varðandi síðan hitt hvort breyta eigi Ríkisútvarpinu í hlutafélag þá er ég sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að mögulega er það einn stærsti ásteytingarsteinninn í breytingum á Ríkisútvarpinu, þ.e. hvort vænlegt sé og hvort það sé affarasælt að fara út í slíkar breytingar. Ég er þeirrar skoðunar að það sé það ekki og ekki eigi að hrófla við rekstrarformi stofnunarinnar. Við getum gert allar þær breytingar sem við hugsanlega þurfum að gera eða verðum sammála um að gera þurfi á Ríkisútvarpinu til að efla það og styrkja án þess að rekstrarformi þess verði breytt. En til þess að taka þá umræðu í þingsölum er auðvitað ljóst að við þurfum að hafa þessi gögn frá ESA þó svo að stóri sannleikurinn um hvort Ríkisútvarpið eigi að vera hlutafélag eða ekki leynist örugglega ekki í þeim gögnum.



[12:13]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að hefja mál mitt á því að þakka hv. þm. Merði Árnasyni fyrir að hafa vakið athygli okkar á Alþingi á þessum málatilbúnaði öllum saman því að þjóðinni hefur jú verið talin trú um það að einmitt þetta álit frá Eftirlitsstofnun EFTA skipti mjög miklu máli þegar tekin var sú ákvörðun að breyta frumvarpi um Ríkisútvarpið.

Ég er hér með grein úr Morgunblaðinu 6. desember sl. þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi ráðherra um Ríkisútvarpið sem lagt var fram á Alþingi sl. vor, var eins og kunnugt er, gert ráð fyrir því að stofnuninni yrði breytt í sameignarfélag. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) gerði hins vegar umtalsverðar athugasemdir við það fyrirkomulag. Þær áttu því þátt í því að gerðar eru tillögur um hlutafélagaform í nýju frumvarpi.“

Í ljósi þess hljóta hin loðnu svör sem við fengum að vekja mikla furðu, þær upplýsingar sem við fengum hjá formanni menntamálanefndar, hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, að þetta byggi í rauninni allt saman á mjög óljósum forsendum, einhverju ótilgreindu skriflegu efni, vænti ég, og síðan einhverju snakki við embættismenn úti í Evrópu, sennilega í gegnum símalínur. Þetta eru náttúrlega vinnubrögð sem eru ekki boðleg og ég vil segja að hér leggst nú frekar lágt fyrir kappana í Sjálfstæðisflokknum sem kenna sig við sjálfstæði og tala oft digurbarkalega um fullveldi þjóðarinnar, að þeir skuli núna lúta erlendu valdi, lúta svo lágt fyrir erlendu valdi að það sé í raun og veru ekki annað sem þurfi til til að þeir breyti heilu frumvörpunum, frumvörpin skipta miklu máli, en að hafa átt í einhverju ótilgreindu snakki við ókunnuga embættismenn sem enginn veit hverjir eru, hvaða umboð þeir hafa og annað þar fram eftir götunum. Þetta er náttúrlega einfaldlega ekki boðlegt, hér hljóta menn, sérstaklega hæstv. menntamálaráðherra, að gera snarlega bragarbót á.



[12:15]
Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þingflokkur Samfylkingarinnar tekur undir þá kröfu sem hv. þm. Mörður Árnason og aðrir fulltrúar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd hafa sett fram um að fá gögn um samskipti ESA og íslenskra stjórnvalda. Ég lít svo á að þar sé bæði um bréfleg samskipti að ræða sem og minnisblöð um munnleg samskipti. Ég lít einnig svo á, virðulegi forseti, að við séum að fara fram á að Alþingi hlutist til um það að við fáum skráningu samskiptanna frá íslenskum stjórnvöldum en einnig frá fulltrúum ESA þannig að fulltrúar okkar í menntamálanefnd sem og alþingismenn allir geti metið þau samskipti út frá sínum forsendum en ekki matreidd samskipti frá íslenskum stjórnvöldum. Okkur hefur ekki gefist það vel.

Við tökum því undir þá kröfu fulltrúa okkar Samfylkingarinnar í menntamálanefnd að þetta mál verði ekki rætt fyrr en gögnin hafa verið birt alþingismönnum, dreift til okkar allra, þannig að út frá þeim forsendum og vinnu okkar getum við metið þá niðurstöðu sem íslensk stjórnvöld komust að þegar frumvarpið um RÚV var lagt fram. Það kom fram hjá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni, formanni menntamálanefndar, að það hefði verið fundur í síðustu viku. (SKK: Í vikunni.) Núna í vikunni, enn frekar, ég tala nú ekki um ósköpin. Það er langt síðan frumvarpið kom fram. Og það er full ástæða til þess ef íslensk stjórnvöld eru enn að ræða um fyrirkomulag þessara mála við fulltrúa ESA að við fáum að fylgjast náið með því og þangað til bíður umræðan um frumvarp RÚV.



[12:17]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa flutt þingmál á Alþingi sem miðar að því að treysta stöðu Ríkisútvarpsins í þjóðareigu og starfsemi þess öfluga. Það væri því mikilvægt að þetta þingmál okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs kæmi á dagskrá jafnvel á undan frumvarpi menntamálaráðherra sem mun koma fram seinna, ef það kemur þá fram.

Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs vörum við hugmyndum ríkisstjórnarinnar um að hlutafélagavæða RÚV og finnst reyndar furðulegt að þingmenn Framsóknarflokksins skuli veita því brautargengi að flytja það mál í þinginu því að eftir því sem best er vitað hafa a.m.k. einhverjir framsóknarmenn á einhverjum flokksþingum lagst gegn því. Lágkúru- og undirlægjuháttur Framsóknarflokksins varðandi það að hlutafélagavæða RÚV virðist ekki eiga sér nein takmörk.

Hlutafélagavæðing er bara aðdragandi að því að selja. Við þekkjum það með Landssímann, hann var hlutafélagavæddur. Þá komu hástemmdar yfirlýsingar um að þetta væru bara breytingar á rekstrarformi til að styrkja rekstrarlega stöðu fyrirtækisins. Meira að segja frá þáverandi samgönguráðherra. Skömmu seinna var settur í gang söluferill, enda er það eðli hlutafélagavæðingar að það skuli selt. Þess vegna er hugmyndin nú að hlutafélagavæða RÚV, Ríkisútvarpið okkar, bara aðdragandi að því að selja það. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs erum því algerlega andvígir og teljum mikilvægt að þjóðin eigi sitt ríkisútvarp og ekki eigi að véla með það með þeim hætti sem einkavæðingarsinnar ríkisstjórnarinnar gera nú.

En það sem er enn furðulegra er að rökin fyrir því að nú er verið að koma með nýjar tillögur af hálfu ríkisstjórnarinnar um rekstrarformið skuli hafa byggst á einhverjum umsögnum eftirlitsnefndar eða dómstóls Evrópusambandsins eða EFTA en það má ekki láta þingheim fá þau gögn. Nei, einkavæðingin verður að fá að ganga óáreitt og engin gögn mega trufla hana. Það er það sem hér er á ferðinni.



[12:19]
Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti. Ég ætlaði einmitt að taka til máls um störf þingsins en fara ekki efnislega umræðu um sölu Símans eða hlutafélagavæðingu Ríkisútvarpsins eins og hv. þm. Jón Bjarnason gerði í ræðu sinni og misnotaði að mínu mati þingsköp Alþingis þegar hann notaði tækifærið og tók til máls fyrir utan það hversu víðáttuvitlaus málflutningur þingmannsins var. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að fara nánar út í það en maður hefur sjaldan heyrt annað eins og hefur maður heyrt margt í gegnum tíðina en fátt eins og þetta. (Gripið fram í.)

Ef ég get fengið að halda áfram að tala fyrir frammíköllum frá hv. þm. Jóni Bjarnasyni þá langar mig til að segja út af því sem fram hefur komið í umræðunni fram að þessu af því að hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, nefndu það að menntamálaráðherra bæri alla ábyrgð á því að þessi gögn væru ekki komin fram þá vil ég benda hv. þingmönnum á og það eiga þeir að vita að þetta mál varðar samskipti íslenska ríkisins við ESA og mál sem varða ESA og samskipti íslenska ríkisins við þá eftirlitsstofnun heyra náttúrlega undir fjármálaráðuneytið en ekki menntamálaráðuneytið. (Gripið fram í.) Menn eru að því leyti að beina spjótum sínum að röngum aðila.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan að samskipti ráðuneytanna við ESA hafa að hluta til verið óformleg og það liggja ekki fyrir skriflega öll samskipti milli þessara aðila þannig að eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að leggja allt fram sem farið hefur á milli þessara aðila. Það liggur fyrir og er ekkert tortryggilegt við það. Ég tel að við getum alveg rætt málið, menn geta tekið efnislega afstöðu til efnisatriða frumvarpsins hvort sem þessi gögn liggja fyrir eða ekki. Ég held að menn ættu að róa sig niður (Forseti hringir.) og sjá hvort þessi gögn muni ekki liggja fyrir áður en frumvarp hæstv. menntamálaráðherra verður rætt vegna þess að svo getur vel farið.



[12:21]
Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég þakka þann stuðning sem komið hefur fram í umræðunni við beiðni mína til forseta um að hlutast til um það við ráðherrana tvo, fjármálaráðherra og menntamálaráðherra, sem fara saman með (Gripið fram í.) þetta mál, sinn með hvorn þátt þess. Það vekur furðu mína að heyra hinn vaska og knáa og ágæta formann menntamálanefndar, hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, halda því fram að það sé vegna anna í ráðuneytinu nánast sem ekki hafi tekist að búa þessi gögn þannig út að hægt sé að afhenda þau. Í sjálfri greinargerðinni kemur þó fram að fundur var haldinn með ESA og embættismönnum fjármála- og menntamálaráðuneytisins 9. júní í sumar. Það kemur líka fram að fyrsta bréfið var sent 3. júní frá ESA og síðan hefur e.t.v. eitthvað gengið með óformlegum eða misformlegum hætti á milli en í greinargerðinni er það nefnt að fjármálaráðuneytið hafi svarað bréfi ESA 15. ágúst. Það er nokkurn veginn tæpum fjórum mánuðum áður en frumvarpið kemur fram og hefði átt að vera hægðarleikur fyrir þessi ráðuneyti að leggja fram þau gögn sem þá lágu fyrir á þessum tíma. Það er því miður ekki hægt að taka mark á hinum annars ágæta formanni menntamálanefndar hvað þetta varðar en ég vil taka fram í því samhengi að hér tel ég ekki við hann að sakast í þessu efni. Eitt svarið var þannig að gögnin væru í þýðingu þannig að ráðuneytin virðast ekki hafa haft mjög skýra línu um það til hvers ætti að afhenda þessi gögn.

Ég tel, forseti, að ekki sé hægt að stofna til 1. umr. fyrr en þessi gögn fást þannig að ef ráðuneytin, fjármála- og menntamálaráðuneyti og yfirmenn þeirra, ætla að tefja 1. umr. þá er (Forseti hringir.) það þeim í sjálfsvaldi en ég bið forseta að stilla svo til að þetta mál, frumvarpið um Ríkisútvarpið hf., geti fengið þinglega meðferð hið fyrsta.