132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
eldsneytisflutningar til Keflavíkurflugvallar.
fsp. MÞH, 261. mál. — Þskj. 274.

[12:24]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um eldsneytisflutninga til Keflavíkurflugvallar. Þetta mál hefur oft komið til umræðu áður en það er kannski ástæða til að taka það aðeins upp á hinu háa Alþingi, sérstaklega í ljósi umræðu sem átti sér stað rétt fyrir áramótin í kjölfar þess að mikið slys varð í Englandi þar sem kviknaði í Buncefield-olíubirgðastöðinni við Hemel Hempstead rétt norðan við London. Þar varð stórslys, margir slösuðust og mikið tjón, milljónir lítra af eldsneyti urðu þar eldi að bráð. Ég hygg að það mál hafi vakið marga til umhugsunar enda var það augljóst á umræðum m.a. í borgarstjórn Reykjavíkur að athygli manna beindist þá mjög að olíubirgðastöðinni í Örfirisey. Það hefur áður komið til tals að hugsanlega stafaði hætta af þeirri olíubirgðastöð því að hún er aðeins örfáa kílómetra frá okkur þar sem við erum nú, á hinu háa Alþingi í miðborg Reykjavíkur. Þar er skipað upp miklu af olíu árlega en síðan er stór hluti af þeirri olíu keyrður í gegnum höfuðborgina og síðan um Reykjanesbrautina til Keflavíkur. Þar eru náttúrlega stórir viðskiptavinir, til að mynda á Keflavíkurflugvelli. Mér skilst að um sé að ræða u.þ.b. 80 þúsund tonn af eldsneyti árlega sem fara um Reykjanesbrautina. Ég vil því bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. samgönguráðherra:

1. Hefur ráðherra einhver áform um að beita sér fyrir því að hætt verði að flytja um 80.000 tonn af eldsneyti með tankbílum frá Reykjavík um Reykjanesbraut til Keflavíkurflugvallar?

2. Mun ráðherra beita sér fyrir því að þessu eldsneyti verði frekar skipað upp í Helguvíkurhöfn?

3. Hefur farið fram áhættugreining á þessum miklu eldsneytisflutningum um byggð á höfuðborgarsvæðinu, eftir Reykjanesbraut til Keflavíkurflugvallar?

4. Ef fyrirhugaðar eru aðgerðir af hálfu ráðherra, hverjar eru þær og hvenær er þeirra að vænta?



[12:27]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að bera upp þessa fyrirspurn.

Í fyrsta lagi er spurt: „Hefur ráðherra einhver áform um að beita sér fyrir því að hætt verði að flytja um 80.000 tonn af eldsneyti með tankbílum frá Reykjavík um Reykjanesbraut til Keflavíkurflugvallar?“

Svar mitt er svohljóðandi: Fyrir það fyrsta tel ég að við eigum að leita allra leiða til að dregið sé úr eldsneytisflutningum eftir miklum umferðaræðum. Hins vegar er alveg ljóst að ekki verður hægt að flytja eldsneyti á milli Keflavíkur og Reykjavíkur nema önnur leið finnist til að tryggja eldsneyti fyrir flugvélar á Keflavíkurflugvelli. Í athugun er hjá utanríkisráðuneytinu og varnarliðinu að viðskiptavæða hluta af eldsneytisbirgðastöðinni í Keflavík og sinna þaðan eldsneytisþörf almennrar flugstarfsemi á Keflavíkurflugvelli. Ég vona að niðurstaða liggi fljótlega fyrir og hún leiði til þess að dregið verði úr akstri með eldsneyti milli Reykjavíkur og Keflavíkur eins og mögulegt er.

Í öðru lagi er spurt: „Mun ráðherra beita sér fyrir því að þessu eldsneyti verði frekar skipað upp í Helguvíkurhöfn?“

Eins og ég sagði er unnið að því að fá hluta eldsneytisgeymslunnar í Helguvík undir hluta þess eldsneytis sem í dag er ekið milli Reykjavíkur og Keflavíkur, þ.e. flugvélaeldsneyti sem flutt er til Keflavíkurflugvallar. Það er mikilsvert að vel takist til en málið er í höndum varnarliðsins og utanríkisráðuneytisins eins og hv. þingmenn vita. Ég mun fyrir mitt leyti styðja þessar fyrirhuguðu breytingar eftir því sem ég get en þar verða heildarhagsmunir að ráða og lausn að finnast á þeim aðstæðum sem eru í Helguvík.

Í þriðja lagi er spurt: „Hefur farið fram áhættugreining á þessum miklu eldsneytisflutningum um byggð á höfuðborgarsvæðinu, eftir Reykjanesbraut til Keflavíkurflugvallar?“

Áhættugreiningar hafa verið gerðar m.a. af Olíudreifingu árið 2000 en einnig hefur Skeljungur unnið afleiðingamat. Niðurstaðan var sú að áhætta væri mjög lítil en hún hefur síðan minnkað vegna tvöföldunar hluta Reykjanesbrautar. Í greiningu Olíudreifingar kom m.a. fram að flutningar eldsneytis á milli Reykjavíkur og Keflavíkur eru lítill hluti umferðar á leiðinni. Allir þungaflutningar, þar með talið eldsneytisflutningar, hafa í för með sér vissa hættu. Aðrar flutningaleiðir en um Reykjanesbraut eru lengri og auka þar með heildaráhættu, þ.e. aðra hættu en mengun vatnsbóla og losun gróðurhúsalofttegunda. Með Suðurstrandarvegi skapaðist nýr möguleiki á flutningi eldsneytis til Grindavíkur en um umtalsvert lengri leið væri að ræða og því yrði fyrst og fremst um tilflutning á áhættu að ræða ef sú leið yrði farin. Ekki er um aðrar leiðir að ræða til Keflavíkur. Komið hefur til tals að flytja olíu sjóleiðina til Grindavíkur. Sú leið krefst umtalsverðs fjárfestingarkostnaðar. Ný mannvirki í Grindavík mundu kosta verulegar fjárhæðir. Ef mögulegt yrði að fá afnot af mannvirkjum NATO í Helguvík drægi það hins vegar úr kostnaði og er augljóslega besti kosturinn. Að lokum er rétt að benda á að aðstaðan í Helguvík yrði eingöngu notuð undir eldsneyti fyrir flugið en bensín, gasolía og steinolía yrði áfram flutt landleiðina til Voga samkvæmt upplýsingum sem samgönguráðuneytið hefur frá þeim aðilum sem sinna þessum flutningum og sinna sölu á eldsneyti.

Í fjórða lagi er spurt: „Ef fyrirhugaðar eru aðgerðir af hálfu ráðherra, hverjar eru þær og hvenær er þeirra að vænta?“

Eins og fram hefur komið er það í höndum utanríkisráðuneytisins og varnarliðsins að leita leiða og finna lausn á því að nýta aðstöðuna í Helguvík sem ég tel að sé augljóslega besti kosturinn.

Það sem snýr að samgönguráðuneytinu er auðvitað fyrst og fremst tvöföldun Reykjanesbrautarinnar til að bæta þessar aðstæður og auka öryggið. Að því verki er nú unnið og sér fyrir endann á því. En ég vil að lokum undirstrika að ég tel að það eigi að leita allra leiða til að draga úr slíkum flutningum á þessum meginumferðaræðum og Helguvíkurhafnarlausnin væri besti kosturinn og vonandi getur það gerst sem fyrst.



[12:32]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Árlega fara hundruð bíla, þungra olíuflutningabíla með tengivagna frá olíubirgðastöðinni í Reykjavík til Keflavíkurflugvallar með flugvélaeldsneyti. Hver þessara bíla slítur veginum á við nokkur þúsund einkabíla. Því má segja með sanni að slíkir flutningar kosti ríkissjóð árlega tugi ef ekki hundruð millj. kr. Þar að auki fara þessir bílar nærri aðalvatnsbólum Suðurnesjabúa og þarf ekki að fara mörgum orðum um hvaða áhrif slys þar hefði. Samtímis þessu liggur við að aðstaða er að skapast í Helguvík eins og ráðherra vék að. Ég fagna þeirri undirtekt sem kom fram í máli ráðherra um að stefna að því að færa þessa flutninga til Helguvíkur, spara þar með ríkisvaldinu milljónir króna, draga úr mengunarhættu og auka skilvirkni í alla staði. Með öðrum orðum, öll rök mæla með því að svokölluð Helguvíkurleið verði farin og (Forseti hringir.) ég fagna stuðningi hæstv. ráðherra við þær hugmyndir.



[12:33]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Það var gott að heyra að hæstv. ráðherra tekur undir að leitað verði allra leiða til að minnka eða draga verulega úr flutningum á eldsneyti eftir Reykjanesbraut frá höfuðborgarsvæðinu til Suðurnesja. Eldsneytið sem um ræðir er talsvert miklu meira en þau 80 þús. tonn sem um er talað í fyrirspurninni og full ástæða til að reyna að draga úr þeim flutningum eins og hægt er.

Aftur á móti fannst mér þegar hæstv. ráðherra ræddi Helguvíkurleiðina sem við köllum svo, þ.e. að nota tanka í Helguvík sem eldsneytisbirgðastöð fyrir flugvélabensín aðallega, að þá væri ágætisvilji til að styðja það. En mér fannst hæstv. ráðherra ekki kveða nægilega fast að orði um að hann sem samgönguráðherra mundi beita sér fyrir eða þrýsta á að sú leið verði farin. Hæstv. ráðherra vísaði ábyrgðinni yfir á utanríkisráðuneytið og varnarliðið. Sagðist styðja að reynt yrði að finna leið til að hægt væri að taka þetta upp sem fyrst. En mér finnst vanta að hæstv. ráðherra segi okkur að hann ætli að beita sér fyrir því eða þrýsta verulega á að sú leið verði farin. (Forseti hringir.)



[12:34]
Böðvar Jónsson (S):

Frú forseti. Sveitarstjórnir á Suðurnesjum hafa lengi lagt áherslu á það mál sem nú er rætt sem snýr að því að draga úr flutningi eldsneytis um Reykjanesbraut með því að nýta þau mannvirki sem til staðar eru í Helguvík. Í Helguvík er ein besta aðstaða á landinu til uppskipunar og geymslu á eldsneyti en þau mannvirki eru í eigu Mannvirkjasjóðs NATO og Bandaríkjamanna. Í dag er staðan sú að þessi aðstaða er vannýtt, aðeins um fjórðungur hennar er nýttur á hverju ári. Leiðslur liggja frá þessum tönkum og upp á Keflavíkurflugvöll þannig að ef aðeins verður byrjað á því að skipa upp flugvélaeldsneyti í Helguvík þá má draga úr eldsneytisflutningum um Reykjanesbraut sennilega um 70–80%. Stjórn Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum samþykkti á dögunum áskorun um nýtingu tankanna í Helguvík og það er því frekar ástæða til að skora á utanríkisráðherra að beita sér fyrir því að viðeigandi aðilar heimili nýtingu á þeim mannvirkjum sem þarna eru frekar en að samgönguráðherra fari að setja einhver boð og bönn við þessum flutningum.



[12:35]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Hér er fyrirspurn frá Magnúsi Þór Hafsteinssyni um eldsneytisflutninga til Keflavíkurflugvallar. Eins og hefur komið fram í máli þingmanna heyrist mér allir vera sammála um að það sé auðvitað algjör della að vera að flytja allt þetta eldsneyti frá Örfirisey og til Keflavíkur. Ég varð líka fyrir dálitlum vonbrigðum með svör hæstv. samgönguráðherra vegna þess að þetta er ekkert nýtt mál sem var að koma upp í gær og mér finnst málin ganga heldur hægt hérna. Auðvitað á að skikka herinn til að láta af hendi þessa tanka sem þeir eru hvort sem er ekkert að nota. Ef ekki vill betur þá legg ég til að við þjóðnýtum þá aðstöðu sem þarna er. Herinn er hvort sem er á leiðinni burtu og farið hefur reyndar fé betra.



[12:36]
Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er hreyft mjög brýnu öryggismáli. Eins og menn vita eru þúsundir tonna af olíu fluttar með tankbílum frá olíubirgðastöðinni í Örfirisey um Reykjavík, Kópavog, Garðabæ, Hafnarfjörð og sem leið liggur suður á Miðnesheiði í viku hverri. Þetta er brýnt öryggismál og hefur m.a. komið fram hjá bæjarstjórninni í Hafnarfirði ósk um það til samgönguyfirvalda að fram fari ný áhættugreining á þessum flutningum. Það dugar ekki að stóla á áhættugreiningu sem gerð var fyrir fimm eða sex árum af hagsmunaaðilum. Yfirvöld sjálf verða að gera áhættugreiningu og til þess þarf líklega samstarf samgönguráðuneytis, umhverfisráðuneytis og utanríkisráðuneytis til þess síðan að ná þeim samningum sem við þurfum að ná til að geta skipað upp í Helguvík.



[12:38]
Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að fagna því að mjög breið samstaða virðist vera um það meðal þingmanna úr öllum flokkum að ástandið eins og það er í dag sé í rauninni alveg fáránlegt og algerlega óviðunandi. Það eru ekki aðeins þessir miklu flutningar um Reykjanesbraut heldur líka það að við erum með gríðarlega stóra olíu- og bensínbirgðastöð. Olíu- og bensínbirgðastöð allra landsmanna er nánast í miðborg Reykjavíkur. Maður hlýtur að velta því fyrir sér með miklum ugg hvað mundi gerast ef þarna yrði slys, ef þarna kæmi upp eldur. Jafnvel að árás yrði gerð á þessa stöð. Maður veit náttúrlega aldrei. Og hversu stórt svæði yrði þá að rýma í Reykjavík ef vindáttir væru óhagstæðar og annað þess háttar. Við munum öll greinilega eftir því þegar bruninn mikli varð í Hringrás fyrir rúmu ári og hvaða hættuástand skapaðist þar.

Mér finnst svolítið undarlegt að heyra svör hæstv. samgönguráðherra, því að þó að fram komi mjög skýrt hjá honum að hann sjái alveg í hendi sér að staðan eins og hún er í dag sé alveg fáránleg, þá skuli hann vísa á utanríkisráðuneytið. Ég tel að þetta sé í rauninni verkefni allrar ríkisstjórnarinnar og skiptir engu máli hvaða ráðuneyti þar á í hlut. Hér er um svo augljóst þjóðþrifamál að ræða, að þessari olíu verði skipað upp og þá sérstaklega flugvélaeldsneytinu og reyndar hinu gjarnan líka í Helguvík þar sem aðstaðan er fyrir hendi, að ríkisstjórnin ætti að beita sér fyrir því í viðræðum við ameríska herinn eða NATO að við Íslendingar fáum að nota þessa aðstöðu í þeim mæli sem við svo sannarlega þurfum að gera.



[12:40]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þann ríka skilning hv. þingmanna á því að draga þurfi úr flutningum með því að færa til olíubirgðastöðvar. Ég hafði lúmskt gaman af því að heyra það frá hv. 5. þm. Norðaust., þingmanni Vinstri grænna, að lausnin fælist í því að skylda herinn til að leysa þetta fyrir okkur. Þannig að batnandi mönnum er best að lifa.

Það kann vel að vera að ég hafi ekki kveðið nógu sterkt að orði — það er þá kannski meðfædd hæverska mín — en sú afstaða mín liggur algerlega fyrir að ég tel að færa eigi olíubirgðastöðina til að koma í veg fyrir þessa miklu olíuflutninga á meginumferðaræðum.

Það liggur jafnframt fyrir að í gangi eru viðræður við varnarliðið um að nýta Helguvíkurhöfnina. Það fer ekkert á milli mála af hálfu samgönguráðuneytisins að viljinn er skýr hvað það varðar að við teljum að það eigi að færa þetta til Helguvíkur. Að því vinnum við án þess að það sé gert með digrum yfirlýsingum á Alþingi eða annars staðar. Ég tek því undir með hv. þm. Jóni Gunnarssyni, og öðrum þingmönnum Suðurkjördæmis, að þetta er leiðin að nýta Helguvíkina og hann má vera alveg viss um að viljinn er skýr og klár af minni hálfu hvað það varðar.