132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur.
fsp. AKG, 275. mál. — Þskj. 289.

[12:42]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í morgun var ein fyrsta fréttin í útvarpinu að Óshlíðin milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar væri lokuð vegna snjóflóðahættu og þegar ég opnaði Bæjarins besta í tölvunni blasti við frétt um að bíll hefði lent í flóðinu þar í morgun. Þetta snjóflóð féll á jaðri þess svæðis sem áætlað er að fari í göng samkvæmt áætlun ríkisstjórnarinnar og kemur af völdum austnorðaustanáttar sem almennt er ekki talin hættuleg á þessu svæði gagnvart snjóflóðum. Í gær féll flóð á stað þar sem flóðavörn er fyrir hendi en hluti þess fór engu að síður á veginn. Hættulegustu áttirnar eru norðan og norðvestan en í þeim áttum safnast mikill snjór víða á þessari leið og ómögulegt að verjast flóðum eins og dæmin sanna. Auk snjóflóða fellur grjót iðulega á veginn og eins og við munum var það einmitt grjóthrun sem kom að stað þeirri hreyfingu sem þó er á málinu núna. Þetta er á vegi sem ungmenni fara á leið sinni í skóla, margir aka til og frá vinnu og til að sækja þjónustu til Ísafjarðar. Ríkisstjórnin ákvað að setja fjármagn til jarðgangagerðar á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur en því miður er ekki fyrirhugað að fara þá leið sem tryggja mundi til fulls öryggi vegfarenda heldur aðeins öryggi af broti á leiðinni.

Það er andstætt vilja mikils hluta íbúanna sem manna best þekkja til aðstæðna og getur ekki talist fullnægjandi úrlausn og allra síst eftir að upplýsingar Hörpu Grímsdóttur hjá Snjóflóðasetri Veðurstofunnar komu fram. Þær leiddu í ljós mun meiri áhættu við ferðalög á þessu svæði en áður var talið. Það er í raun ósmekklegt að ræða peninga í sömu mund og framkvæmdir sem tryggja eiga líf og heill samborgaranna en þó nauðsynlegt þar sem fjárhagsleg rök eru borin fram fyrir áætlun ríkisstjórnarinnar.

Ef farin verður sú gangaleið sem fyrirhuguð er í dag, sem ég vona að verði ekki niðurstaðan, stendur eftir kostnaður við viðhald á stærsta hluta leiðarinnar milli byggðarkjarnanna. Það verður að koma inn í reikningsdæmið þegar mismunandi jarðgangakostir eru metnir auk þess sem taka verður með í reikninginn að mörg göng eru hlutfallslega dýrari en jafnlengd í einum göngum vegna þess hve gangamunnarnir eru dýrir. Ég spyr því:

1. Hver hefur verið árlegur kostnaður við viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur sl. fimm ár?

2. Hver var viðhaldskostnaðurinn a. vegna ofanhruns, b. vegna sjávarrofs og hruns úr vegi?

3. Hvernig skiptist fyrrgreindur kostnaður á a. þann kafla sem fyrirhugað er að leggist af við gerð jarðganga samkvæmt núverandi hugmyndum, b. aðra hluta vegarins sem verða áfram í núverandi vegstæði?



[12:45]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr, með leyfi forseta:

„1. Hver hefur verið árlegur kostnaður við viðhald vegarins á milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur sl. fimm ár?“

Svar mitt er svohljóðandi: Aðeins er fjallað um kostnað við hreinsun rása í þessu svari, viðgerðir á mannvirkjum til varnar grjóthruni og viðgerðir vegna sjávarrofs. Til viðbótar er og hefur verið nokkur kostnaður við úrbætur, uppsetningu varnarbúnaðar.

Kostnaði við grjóthrun og hreinsun rása á Óshlíð og Súðavíkurhlíð hefur lengi verið haldið til haga en ekki skipt á hlíðarnar. Sú skipting er því áætluð en annað er sérstaklega merkt Óshlíðinni. Rétt er að taka einnig fram að ekki er fjallað um almennan viðhaldskostnað við yfirlagnir og ekki heldur um almennan rekstur, svo sem eftirlit, snjómokstur, merkingar og lýsingu. Á árunum 2001–2005 hefur sá kostnaður sem spurt er um verið samtals 33,4 millj. kr. hvað varðar Óshlíðina.

Auk þess er spurt hvernig þessi fyrrgreindi kostnaður skiptist. Svar mitt er að ekki eru til gögn um hvernig þessi kostnaður skiptist á einstaka hluta Óshlíðar. Það sem venja er að kalla Óshlíð nú, þ.e. frá Skarfaskeri út á Óshóla, er um 5,5 km. Grjóthrun er mjög mismikið á milli kafla og langmest úti á Skriðunum þar sem nú er til umræðu að leggja jarðgöng ríflega kílómetralöng. Það er mat þeirra manna sem sjá um þessi verkefni að um tveir þriðju hlutar kostnaðarins geti verið á þeim kafla. Fyrir liggja, eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, nýlegar skýrslur, mat á hruni á þessum svæðum. Það er mjög góð skýrsla og gagnleg fyrir okkur til þess að hafa til hliðsjónar um þessar mundir.

Það er spurt um aðra hluta, en eins og fyrr greinir hefur þessi kostnaður ekki verið sundurgreindur á einstaka hluta Óshlíðarinnar. Heildarkostnaðurinn er sem sagt 33,4 milljónir á því tímabili sem um er að ræða.

Vegna þess sem kom fram hjá hv. þingmanni er alveg nauðsynlegt að undirstrika það alveg sérstaklega hvað varðar úrbætur á veginum um Óshlíð að engar ákvarðanir hafa verið teknar aðrar en þær að leggja fjármuni í endurbætur, þ.e. í jarðgöng til þess að standa að varanlegum og öruggum úrlausnum á veginum fyrir Óshlíðina. Rannsóknir eru hafnar og það verður fyrst að loknum þeim rannsóknum sem endanleg ákvörðun verður tekin um jarðgöngin. Það er alveg ljóst að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að fara í úrbætur á Óshlíðinni snúast um að gera þennan veg öruggan og það verður engin önnur leið valin en sú sem við getum verið örugg um að tryggi sem allra best þessa leið. Fljótlega á þessu ári fæst vonandi niðurstaða hvað það varðar.



[12:50]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til þess að skýrar yfirlýsingar verði gefnar um það hvernig verði farið með þennan veg. Fyrir 15–20 árum síðan voru mikið í umræðunni svokallaðir ó-vegir, þ.e. Ólafsvíkurenni, Ólafsfjarðarmúli og Óshlíðin. Framkvæmdir við tvo fyrrnefndu vegina tókust prýðilega. Gerð voru göng til Ólafsfjarðar og góður vegur lagður um Ólafsvíkurenni. Óshlíðin mistókst. Menn verða að horfast í augu við það. (Gripið fram í: Þeir eru hógværir Bolvíkingar.) Bolvíkingar hafa kannski verið hógværir en það er, held ég, ekki aðalástæðan fyrir því að menn hafa ekki klárað þennan veg. Þarna þarf að taka á og það þarf að hugsa málið til framtíðar. Menn verða að hugsa það út frá þeirri staðreynd hvaða veg eigi að hafa þarna inni í langri framtíð og að það sem menn geri núna geti verið hluti af þeirri lausn eða niðurstaðan.



[12:51]
Kristinn H. Gunnarsson (F):

Virðulegi forseti. Óshlíðin er í raun samheiti yfir þrjár fjallshlíðar sem liggja utan í Óshyrnu, Arafjalli og Nál eða Búðarhyrnu. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar á liðnu hausti miðaðist við að bregðast við ástandi sem uppi var í fyrstnefndu fjallshlíðinni á svonefndum Skriðum. Auðvitað hlaut það að vera meining ríkisstjórnarinnar að grípa til aðgerða sem gerðu Óshlíðina alla öruggan veg þannig að menn máttu ekki líta svo á að ákvörðunin afmarkaðist við einn þriðja af þessari leið.

Nú hefur hæstv. samgönguráðherra tekið af allan vafa um skilning á þessu, að menn eiga við rannsókn málsins nú að líta til hlíðarinnar í heild, allra þessara þriggja fjallshlíða, og menn munu í framhaldinu ákvarða legu jarðganga sem þjóna því markmiði að hafa öruggan (Forseti hringir.) veg alla leið, virðulegi forseti.



[12:53]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það kann vel að vera rétt eins og hér var kallað fram í áðan að Bolvíkingar hefðu verið hógværir. Ég hygg að svo hafi verið því að menn voru náttúrlega strax á áratugnum 1980–1990 að takast á um hvort gera ætti göng til Bolungarvíkur eða fara um Óshlíðina.

Nú er hins vegar staðan sú að menn una þessu óöryggi ekki lengur og ég held að það sé einboðið að gera jarðgöng, og fagna þess vegna yfirlýsingu hæstv. samgönguráðherra, að nota þær lausnir einar sem nægja til fullkomins öryggis, þ.e. þess öryggis að hrun og snjóskriður séu ekki sú hætta sem verið hefur og að þær lausnir sem gerðar verði dugi til þess að losna út úr því óvissuástandi og hættuástandi sem er á þessum vegi. Auðvitað hefði verið betra ef menn hefðu tekið þá ákvörðun á sínum tíma en um það deildu menn nú á Vestfjörðum, ef ég man rétt, í kosningunum 1983.



[12:54]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Það var fagnaðarefni þegar gefin var út yfirlýsing af hálfu ríkisstjórnarinnar um að ráðist yrði í gangagerð og lagfæringar og endurbætur á veginum um Óshlíð nú í haust en óneitanlega fylgdi visst óöryggi þeim yfirlýsingum þar sem aðeins voru gefin fyrirheit um að ráðast í það með einhverjum ákveðnum tilteknum hætti og láta síðan málin standa að hluta til óleyst að mati heimamanna.

Heimamenn hafa haft alveg skýra afstöðu í þessu máli. Þeir vilja fá varanlega örugga lausn í þessum samgöngum og hafa bent á heildstæð jarðgöng á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar. Þess vegna er það fagnaðarefni, finnst mér, að hæstv. samgönguráðherra hefur lýst því hér yfir að þar bindi menn sig ekki við eina fyrir fram gefna leið heldur hafi þeir það að meginmarkmiði að rannsakaðir verði til hlítar allir þeir kostir sem til greina koma til þess að halda þarna uppi öruggum samgöngum og sá kostur valinn sem miði að því að treysta sem best samgönguöryggi þarna á milli. Mér finnst, eftir því sem ég skil yfirlýsingu ráðherra, að ekki sé lengur um það að ræða að ríkisstjórnin ætli bara að binda sig við þá einu fyrir fram gefnu leið (Forseti hringir.) sem tilkynnt var í haust, heldur besta úrkostinn. Síðan þarf að taka líka leiðina til Súðavíkur, frú forseti. (KHG: Þá er að fagna.)



[12:56]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvar sá misskilningur hefur fyrst kviknað að það lægi fyrir nákvæmlega hvar menn ætluðu að setja jarðgöngin milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Þessi mál eru núna í rannsóknarferli og rannsóknin er til þess að leiða í ljós hvar eigi að koma fyrir þessum jarðgöngum til að þau tryggi það sem hæstv. samgönguráðherra hefur ævinlega sagt og hefur núna áréttað enn og aftur hér í þessum ræðustóli, að við munum ekki ganga frá þessu máli öðruvísi en að við tryggjum fullkomið öryggi með varanlegum aðgerðum á þessari leið. Það er enginn ágreiningur um það, hvorki innan héraðs á Vestfjörðum né hér í þinginu. Ég geri ráð fyrir því að menn vilji að það verði gert þannig.

Það liggur hins vegar fyrir að hættulegasti kaflinn — og það kemur m.a. fram í rannsóknum Hörpu Grímsdóttur og líka Vegagerðarinnar — er ysti hluti vegarins. Þess vegna er ekki óeðlilegt að menn hafi verið sérstaklega að ræða það mál. En kjarni málsins er sá sem hæstv. ráðherra var að segja hérna — það var mjög skýr yfirlýsing — að við ætlum ekki að ganga frá þessu máli nema með varanlegum og öruggum jarðgöngum og það er náttúrlega mjög mikilvægt í þessu sambandi að ákvörðun ríkisstjórnarinnar á liðnu (Forseti hringir.) hausti braut algjörlega ísinn í þessari umræðu og gerði það að verkum að við getum yfir höfuð talað um þetta sem örugga og varanlega leið (Forseti hringir.) alveg eins og allir ætla sér að stefna að.



[12:57]
Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og ég er að vissu leyti ánægð með þau. Ég er ánægð með að heyra að markmiðið sé skýrt, þ.e. að tryggja öryggi vegfarenda á leiðinni sem hér er til umræðu. En það vantaði mikilvægt atriði í svar ráðherra, þ.e.: Hvenær er fyrirhugað að tryggja að vegfarendur geti farið á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar án þess að þurfa að óttast um líf sitt?

Ef sú leið verður farin sem hefur verið til umræðu frá því að fjármagnið var tryggt til framkvæmda þá vantar stóra hluta inn á leiðina og ekkert gefur okkur vísbendingu um hvenær eigi að ráðast í það framhald og það m.a. veldur íbúum Bolungarvíkur miklum áhyggjum. Það er ekkert skrýtið þó að fólk hafi talið að umrædd leið sem nú er uppi á borðinu sé sá kostur sem eigi að fara. Fjármagnið bendir eindregið til þess. Umræðan hefur eingöngu verið um þá leið nema sú umræða sem hefur verið haldið uppi af Bolvíkingum sjálfum og það er þeirra verk sem hefur þó valdið því að verið er að skoða aðrar leiðir. Ég fagna því að þrýstingur Bolvíkinga virðist vera að bera árangur og ég hvet Bolvíkinga til að halda fast áfram í viðleitni sinni til að fá ein jarðgöng á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar þannig að vegfarendur verði öruggir á leið sinni þarna á milli.



[12:59]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er misskilningur að þrýstingur hafi leitt til þess að verið sé að taka ákvarðanir um úrbætur á Óshlíðinni. Það sem veldur því er það ástand sem blasir við okkur öllum, þ.e. að mjög mikið grjóthrun hefur verið í Óshlíðinni og að mati heimamanna og þeirra sem best þekkja til meira en áður hefur verið, sérstaklega þarna á Skriðunum. Þess vegna var tekin ákvörðun um að fara í þær aðgerðir sem verið er að rannsaka og undirbúa.

Hv. þm. Jón Bjarnason talaði um að óöryggi hefði fylgt yfirlýsingu um þessar framkvæmdir. Ég held að ekki geti hafa fylgt því neitt óöryggi. Fyrst og fremst fylgdi öryggistilfinning þeim ákvörðunum sem voru teknar, hlýtur að vera, þ.e. að við sjáum fyrir okkur framkvæmdir á þessum kafla, Óshlíðinni.

Hv. fyrirspyrjandi Anna Kristín Gunnarsdóttir kvartaði undan því að tímasetningar hafi vantað. Hv. þingmaður spyr einungis um það hér hver hafi verið kostnaður við að viðhalda þessum vegi milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur þannig að hér eru því ekki til umræðu neinar tímasetningar um framkvæmdir. Það er misskilningur. Hins vegar skil ég að hv. þingmenn séu áhugasamir um að vita hvernig framvindan verður og ég er alveg sannfærður um að við þingmenn Norðvesturkjördæmisins munum koma okkur saman um að taka rækilega á þessu máli þegar rétti tíminn er kominn og að (Forseti hringir.) þá muni tímasetningar væntanlega liggja fyrir þegar búið er að undirbúa verkið.