132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
eldi á villtum þorskseiðum.
fsp. ÖS, 185. mál. — Þskj. 185.

[13:02]
Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þorskurinn hefur verið ein mikilvægasta fisktegundin við Ísland. Segja má að Ísland hafi síðustu tvær aldir að miklu leyti byggst upp í kringum veiðar og verkun á þorski. Hér við land höfum við horft fram á að þorskafli dvínaði og við norðanvert Atlantshaf hafa þorskstofnar hrunið. Sem betur fer hafa menn fundið vörn gegn því í vaxandi þorskeldi. Ég held að við séum öll sammála, sem höfum tekið þátt í umræðum um það á hinu háa Alþingi, að þorskeldi sé vænlegt til framtíðar. Hins vegar eru margvísleg tæknileg vandamál enn óleyst varðandi þorskeldi. Það er nokkuð erfitt að koma þorskseiðum upp þótt klakið sjálft sé auðvelt. Það er t.d. erfitt að ráða bót á þeirri sterku tilhneigingu þorsksins að éta hver annan í eldinu.

Menn hafa velt því fyrir sér hvort hægt sé að fara aðrar leiðir í upphafi. Sú umræða spratt af þeirri staðreynd að merkir fiskifræðingar í hópi okkar fyrstu vísindamanna á því sviði, t.d. Árni Friðriksson, komust að raun um að sums staðar á landinu, þar sem þorskklak var á skyldum svæðum og sérstakar landfræðilegar aðstæður ríktu, var nánast hægt að ganga að stórum flekkjum þorskseiða. Þetta átti t.d. við í Húnaflóa og innarlega í Ísafjarðardjúpi. Sú hugmynd spratt því að fara þá leið að veiða úr þessum flekkjum og ala þau seiði upp. Þetta hefur verið gert síðustu árin á Nauteyri við Ísafjarðardjúp. Ég hef sjálfur skoðað það og hrifist af því hvernig menn hafa leyst ákveðin vandamál sem því fylgdu. Ég tel ekki að nein hætta sé búin náttúrulegu seiðauppeldi. Við vitum að núllseiðin, þ.e. seiði sem ekki eru orðin eins árs, fargast í stórum stíl af náttúrunnar völdum. Um 95% þeirra deyja drottni sínum áður en þau ná fyrsta hausti. Ég held þess vegna að töluverðar veiðar á slíkum seiðum mundu ekki leiða til stórskaða eins og stundum hefur mátt skynja á sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar.

Ég tel líka að þessi aðferð gæti orðið grunnur að góðum kynbótum sem sannarlega þarf að fara í í framtíðinni. Þarna þarf að fá fram þá einstaklinga úr mjög stóru mengi sem eru mest hraðvaxta. Ég spyr því hæstv. sjávarútvegsráðherra, sem hefur nokkra þekkingu á þessari starfsemi, hvernig ráðuneytið meti reynsluna af veiðum villtra þorskseiða af núllárganginum í Ísafjarðardjúpinu og áframeldinu annars staðar og í öðru lagi hvort ráðherra telji ekki rétt að heimila enn frekari veiðar slíkra seiða til að ala til manneldis. Ég held að það gæti hentað mjög vel samhliða því að byggja upp þorskeldi á grundvelli kynbóta.



[13:05]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þingmanni fyrir að bera fram þessar spurningar sem ég tel að snerti mikilvægt mál sem við hljótum að binda miklar vonir við.

Hv. þingmaður spyr í tveimur töluliðum:

„1. Hvernig metur ráðuneytið reynsluna af veiði villtra þorskseiða af núllárgangi í Ísafjarðardjúpi og áframeldi þeirra annars staðar?“

Svarið er: Tilraunir með föngun á fyrsta ári til áframeldis hófust í Ísafjarðardjúpi í desember árið 2001. Þá náðust aðeins 2.600 þorskseiði en reynslan af þeirri tilraun þótti samt lofa góðu. Því var undirbúin frekari tilraun sem fram fór haustið 2002. Frá þeim tíma hefur hraðfrystihúsið Gunnvör hf., sem ásamt Háafelli hf. hefur staðið að verkefninu, árlega fengið tilraunaleyfi frá sjávarútvegsráðuneytinu. Veiðarnar hafa gengið mjög vel. Þær hafa verið stundaðar nálægt landi í innanverðu Ísafjarðardjúpi á 8–20 föðmum á litlum sérútbúnum eikarbáti. Mjög lítil afföll hafa orðið við veiðarnar og meðafli annarra tegunda yfirleitt verið lítill. Þar er þó einkum um að ræða ýsu- og lýsuseiði. Þau eru flokkuð frá eins og unnt er og sleppt aftur.

Veiðarnar hafa farið fram í ágúst og september. Þá eru þorskseiðin aðeins 1–5 grömm á þyngd og 50–90 millimetrar að lengd. Á undanförnum fimm árum hafa alls verið veidd 2,8 millj. þorskseiði á fyrsta aldursári í Ísafjarðardjúpi. Segja má að eldi seiðanna hafi einnig gengið vel þó að þurft hafi að takast á við ýmis vandamál eins og hv. þingmaður nefndi áðan.

Helstu úrlausnarefnin eru að venja seiðin á tilbúið þurrfóður og koma í veg fyrir sjálfrán og sjúkdóma. Afföll í strandeldi hafa frá september til apríl verið 55–60%, sem segja má að sé viðunandi árangur ef tekið er tillit til þess að enn er um þróunarvinnu að ræða. En afföll í náttúrunni fyrir sama aldurshóp og tímabil eru líklega meiri að jafnaði. Við útsetningu sjókvíar að vori hefur meðalþyngd seiðanna verið um 100 grömm.

Önnur spurning hv. þingmanns er svohljóðandi: „Telur ráðherra ekki rétt að heimila enn frekari veiðar slíkra seiða til að ala til manneldis?“

Sú skoðun er ríkjandi á meðal þorskeldismanna að föngun á villtum seiðum og eldi á þeim sé tímabundin ráðstöfun meðan ekki standa til boða kynbætt seiði en í framtíðinni munu þorskeldi að mestu byggjast á kynbættum eldisseiðum sem framleidd verða í eldisstöðvum.

Stofnað hefur verið fyrirtækið Icecod hf. til að sjá um kynbætur á eldisþorski og seiðaframleiðslu. Hluthafar eru Stofnfiskur, Hafrannsóknastofnun, Fiskey, Þorskur á þurru landi og Prokaria. Seiðaframleiðslan hefur farið fram í tilraunaeldisstöð Hafrannsóknastofnunar á Stað á Reykjanesi og hefur numið um 200 þús. seiðum á ári nú hin síðari ár. Fyrsti vísir að kynbættum þorskseiðum hérlendis verður settur á markað nú í haust.

Við þróun seiðaeldisins er mikilvægt að geta borið saman vöxt hjá villtum seiðum og seiðum sem klakið hefur verið út í eldisstöð. Unnið hefur verið að slíku rannsóknarverkefni á vegum hraðfrystihússins Gunnvarar hf., Háafells hf., Stofnfisks hf. og útibús Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði. Föngun á villtum þorskseiðum hefur verið mjög gagnleg við að þróa tæknilegar lausnir við áframeldi á þorski sem nýtast munu síðar við eldi á seiðum sem klakið er í eldisstöðum. Seiðin hafa farið í þrjá staði, Álftafjörð við Ísafjarðardjúp hjá hraðfrystihúsinu Gunnvör, til Eyjafjarðar hjá Brimi og Eskifjarðar þar sem Eskja starfar. Þannig hefur fengist reynsla af þorskeldi við mismunandi umhverfisaðstæður. Hafrannsóknastofnun telur ekki að svo stöddu ástæðu til að ýta undir aukna föngun villtra seiða, einkum ef veiðitíminn yrði lengdur fram á haustið. Ekki er talið að takmarkaðar veiðar hafi áhrif á viðgang villta þorskstofnsins svo lengi sem þær eru stundaðar síðsumars áður en sá tími er liðin er mest náttúruleg afföll eiga sér stað.



[13:09]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er allt gott um þessa tilraun að segja. Hún er mjög merkileg og færir okkur fram á við. Ég hef hins vegar nokkrar áhyggjur af einu varðandi þróunina í Ísafjarðardjúpi. Það tengist vegagerð. Ég vona að hæstv. samgönguráðherra hlýði á mál mitt. Það stendur til að þvera Mjóafjörðinn. Í þessum firði, Mjóafirði, voru eitt árið nánast öll þau seiði sem fóru í eldi á Nauteyri. Þar voru reyndar hvalir, bæði hnúfubakur og hrefna, einnig við ætisöflun. Við þverun fjarðarins er hætt við að straumakerfi hans breytist. Ég vildi beina því til hæstv. samgönguráðherra að það verði vandlega skoðað hvort ekki þurfi að setja rásir undir þar sem gert er ráð fyrir að þverunin verði þannig að sjávarstraumar og straumakerfið í þessum firði, sem ég tel mjög mikilvægt varðandi þorskeldið, verði ekki sett úr jafnvægi með þeirri framkvæmd sem fyrirhuguð er.



[13:10]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Við vitum öll að veiðar á villtum stofnum dragast saman alls staðar í heiminum. Öll aukning á fiski til manneldis kemur í gegnum eldi. Við erum í vandræðum með þorskstofninn hjá okkur, að byggja hann upp, og höfum verið talsvert lengi í þeim vandræðum. Við hljótum að þurfa að velta fyrir okkur öllum leiðum til þess að auka þekkingu okkar á fiskeldi og magn á eldisþorski. Auðvitað er mikilvægt að við fylgjumst með og reynum að vera þar í fararbroddi sem fiskveiðiþjóð en látum ekki aðra, t.d. frændur okkar Norðmenn taka þar frumkvæði.

Tilraunaeldisstöð Hafró á Stað í Grindavík hefur ræktað þorsk eða klakið út þorskseiðum. Hæstv. ráðherra upplýsti að það væru 200 þús. seiði á ári, sem eru afskaplega fá seiði til að byggja á áframeldið. Við hljótum því að reyna, hvað sem Hafró segir, að skoða möguleikana á að ná í meira af villtum seiðum á meðan framleiðslan er ekki meiri í eldisstöðvum en raun ber vitni til að viðhalda og þróa þekkingu á áframeldi.



[13:11]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Tilraunir í þorskeldi eru góðra gjalda verðar þótt ég telji reyndar að íslensku fiskimiðin geti verið svo gjöful, ef rétt er á málum haldið, að best sé að láta náttúruna sjálfa sjá um að framleiða þorskinn. Við vitum að á fyrri hluta 20. aldar skipti afrakstur fiskimiðanna við Ísland fleiri hundruðum þúsunda tonna af þorski árlega.

Þessar tilraunir gefa hins vegar oft ákveðnar vísbendingar um margt varðandi líffræði þorsksins sem er íhugunar virði, t.d. varðandi kynþroskann. Hér er ég með skýrslu um þorskeldi á Íslandi sem sýnir að við kynþroska léttist þorskur um 40%. Hrygnur léttast meira en hængar og stærri hrygnur léttast meira en minni hrygnur. Svo kemur annað í ljós, þ.e. að afföll aukast verulega við hrygningu hjá þorskinum. Í eldi á þorski í kerjum á landi hafa afföll verið allt að 30% yfir hrygningartímann. Hvað skyldi það segja okkur um ástandið hjá villta fiskinum, ástandið sem nú er hjá þorskstofninum? Þar er eitt stærsta vandamálið einmitt ótímabær kynþroski.



[13:13]
Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að fagna fyrirspurn hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um reynsluna af áframeldi á þorski. Þær upplýsingar sem komu frá ráðherra um að bæði reynslan af föngun seiða og áframeldi þeirra lofi góðu eru mjög jákvæðar. Það hefur orðið mikil þróun í fiskeldi á síðustu áratugum og þrátt fyrir að ekki hafi tekist vel til í að byggja upp laxeldi við okkar aðstæður, í sama mæli og í nágrannalöndunum, þá ber að hafa í huga að kjörhitastig þorsksins er lægra. Hann er því betur fallinn til eldis við íslenskar aðstæður en laxinn. Fiskeldi er jafnframt dæmigerð atvinnugrein fyrir landsbyggðina og því nauðsynlegt að hlúa vel að því.



[13:14]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel ekkert því til fyrirstöðu að heimila frekari veiðar á seiðum til áframeldis. Þessar veiðar munu einfaldlega, þar sem af er tekið, auka lífslíkur seiðanna sem eftir verða í náttúrunni. Ég held að það sjái varla högg á vatni þótt veitt sé miklum mun meira. Ég tel að menn eigi ekki að hafa áhyggjur af þessum málum.

En hvað varðar fullyrðingar sem hafa komið fram, um að allir þorskstofnar séu að dragast saman í heiminum þá er það ekki rétt. Það kom m.a. fram í máli hv. fyrirspyrjanda. Við sjáum að það eru einfaldlega sveiflur í fiskstofnum. Í Barentshafi hafa menn ítrekað spáð hruni. Í Færeyjum eru einfaldlega sveiflur og alls ekki hrun. Ég hef fylgst með umræðunni um að allt horfi til verri vegar og að eina leiðin út úr vandanum sé fiskeldi á þorski og jafnvel þurfi að veiða loðnu til að gefa fiskinum að éta. Ég er á því að við séum að algerum villigötum í þeirri umræðu. Við eigum miklu frekar að leitast við að stjórna betur veiðum á (Forseti hringir.) villtum fiski en við höfum gert.



[13:15]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Vegna athugasemda hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar um fyrirhugaða vegagerð í Mjóafirði þá liggur ljóst fyrir að það þarf að gæta sín mjög á því að trufla ekki vistkerfin þegar verið er að þvera firði. Það er afar mikilvægt fyrir okkur. Ég hlýt að vísa til þess að þarna hefur farið fram umhverfismat og áform um vegagerð á þessu svæði hafa legið fyrir. Við verðum að treysta því að umhverfismatsskoðunin tryggi að ekki sé gengið á náttúruna og vistkerfinu ógnað eins og hv. þingmaður vakti athygli á. Engu að síður þarf að hafa auga með þessu og vil ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna. Ég tel að Vegagerðin leggi sig mjög fram um allar rannsóknir vegna slíkra framkvæmda og taki að sjálfsögðu tillit til þeirra krafna sem fylgja umhverfismati í þeim efnum.



[13:16]
Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hv. þm. Sigurjón Þórðarson sagði að það væri kannski orðum aukið að stofnar væru allir á niðurleið. Það er alveg rétt hjá honum. Stöku þorskstofnar kunna að vera í þokkalegu standi. Hins vegar virðist þetta vera línan mjög víða og ég óttast að það hvernig við höfum hagað veiðum okkar hafi breytt arfgerð stofnanna sem leiðir til þess að erfitt verður að ná þeim upp í fyrri stöðu aftur. Ég vil hins vegar þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra þau svör sem hann gaf. Ég finn að hann er áhugamaður um þetta. Ég vara hann hins vegar við því að taka of mikið mark á Hafró í þessum efnum. Ég tók eftir því að það speglaðist ákveðin íhaldssemi í orðum sem hann hafði eftir sérfræðingum Hafró. Þeir vara við að farið sé í þessar veiðar, þær eigi einungis að vera tímabundnar, sérstaklega ef farið er að sækja lengra fram á haustið. En það hefur enginn talað um það. Það er einungis verið að tala hér um veiðar á þeim tíma sem afföllin verða mest. Ég rifja það upp að íhaldssemin hjá Hafró hefur verið svo mikil að það hefur nánast þurft að klípa út með glóandi töngum leyfi til að veiða villt þorskseiði í þessum tilgangi.

Ég segi því við hæstv. sjávarútvegsráðherra að ef hann ætlar sér að verða frumkvöðull á þessu sviði og hjálpa öðrum frumkvöðlum þá á hann að gæta sín mjög á ráðleggingum Hafró og leita frekar ráða í þessum sal. Ég tel að hér séu margir menn sem geti hjálpað honum í þeim efnum.

Ég er þeirrar skoðunar að framtíðin í þorskeldi muni byggjast á kynbættum þorski. En ég tel að það sé langt í land að við náum það vel kynbættum stofni að það skipti verulegu máli og miða ég þá við reynsluna af laxeldi. Fram að þeim tíma held ég að við eigum að þróa þorskeldi með þessum hætti. Ég fór fyrir nokkrum dögum austur á Eskifjörð þar sem menn eru að ala áfram seiði sem koma úr Nauteyrinni. Það gengur vel. Verðið er gott og það kemur líka fram að þorskur sem er alinn í kvíum verður öðruvísi í laginu. Hnakkastykkið, sem er dýrast, (Forseti hringir.) verður miklu dýpra og stærra. Ég held, frú forseti, að hér sé um að ræða atvinnugrein sem gæti orðið vel arðvænleg í framtíðinni.



[13:19]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Það stendur upp úr þessari umræðu að það er almenn skoðun manna að þorskeldi sé mjög vænlegt og að við eigum að styðja við bakið á því. Þannig hefur það líka verið og það hefur raunar komið fram hér í ákvörðunum þingmanna, m.a. í því að við tókum á sínum tíma ákvörðun um að setja á sérstakan fiskeldiskvóta, 500 tonn á ári, sem úthlutað er. Ég er alveg sannfærður um að ef það hefði ekki verið gert stæðum við miklu aftar en raun ber vitni í þessum efnum. Heilmikill stuðningur var í því fólginn og það eyddi ákveðinni óvissu sem menn hefðu annars staðið frammi fyrir. Á undanförnum árum höfum við verið að byggja upp mjög mikilvægan rannsóknarsjóð fyrir sjávarútveginn, sem við köllum Aukið virði sjávarfangs, AVS-sjóður, og sá sjóður hefur líka lagt til peninga til að styðja við bakið á þorskeldismönnum. Við höfum í verki sýnt áhuga á því að vel sé staðið að þessum málum.

Í tímans rás eftir því sem reynslan verður meiri verður ljóst að ekki er auðhlaupið að þessu. Þetta er enginn gullgröftur eins og menn héldu í upphafi, margir hverjir. Þetta kostar heilmikið og þróunin hefur verið sú að það eru tiltölulega fá fyrirtæki sem stunda þetta enda er þetta bæði fjármagnsfrekt og krefst mikillar þekkingar. Menn hafa líka verið að tala um hvort ekki væri eðlilegra að við huguðum frekar að fiskveiðiráðgjöfinni o.s.frv. Það er auðvitað sjálfsagður hlutur en það er hins vegar algerlega samrýmanlegt því að við stöndum vel að málum í fiskeldinu.

Hv. 1. þm. Reykv. n. sagði líka að Hafrannsóknastofnun væri íhaldssöm í þessum efnum. Það má vel vera. Ég ætla hins vegar að lýsa því yfir mjög einarðlega að ég vil að við höldum þessum seiðaveiðum áfram. Ég tel það nauðsynlegt. Ég er hins vegar sammála Hafrannsóknastofnun og ég hygg að hv. þingmaður hafi sagst vera það áðan þegar hann sagði að menn teldu það varhugavert að veiða lengra fram á haustið. Við eigum að gera það þegar náttúrulegu afföllin eru sem minnst. En að sjálfsögðu eigum við ekki að láta skort á veiðinni standa í vegi fyrir því að við getum þróað þorskeldið eðlilega. Það er sjálfsagður hlutur.