132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
jafnstöðuafli.
fsp. KHG, 316. mál. — Þskj. 343.

[13:21]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Þegar verið var að koma kvótakerfinu á fyrir rúmum 20 árum var þó nokkuð rætt um það hvort menn ættu ekki að ákveða veiðiheimildir til lengri tíma, t.d. þriggja eða fimm ára í senn, í stað þess að gera það sem varð ofan á að ákveða aflamark árlega á hverja tegund sem sett var í kvóta. Þannig gætu útvegsmenn vitað hvað þeir mættu veiða næstu árin að magni til og heimildir þær sem þeir hefðu undir höndum væru ekki að breytast árlega eins og óhjákvæmilegt varð með því fyrirkomulagi sem tekið var upp.

Menn settu líka fram efasemdir um að þessar árlegu breytingar yrðu nokkuð frekar til þess að byggja upp fiskstofnana en tillaga var borin fram, reyndar af Vestfirðingum mörgum hverjum, um að taka ákvörðun til lengri tíma í senn og halda sig við hana og breyta ekki nema ákveðnar kennitölur vikju það langt frá viðmiðunum að ástæða væri til að gera breytingar.

Ég vil nefna sem dæmi, virðulegi forseti, miklar sveiflur sem orðið hafa í tveimur fiskstofnum á undanförnum árum. Fyrst í þorskinum — fiskveiðiárið 1995–1996 var t.d. ákveðið að veiða mætti 155 þús. tonn af þorski. Á aðeins þremur fiskveiðiárum var þetta magn aukið um 95 þús. tonn og síðan minnkað aftur á næstu þremur árum um 71 þús. tonn úr 250 þús. niður 179 þús. Þarna verður á sex fiskveiðiárum gríðarleg sveifla bæði upp og síðan niður í því magni sem veiða má í þessum stofni. Samt verður ekki séð að þorskstofninn hafi neitt byggst upp við það að taka þessar árlegu hreyfingar á því sem veiða mátti úr stofninum á þessum árum. Varðandi ýsuna eru sveiflurnar jafnvel enn meiri. Þar var á fiskveiðiárinu 1994–1995 leyft að veiða 65 þús. tonn. Það var síðan lækkað niður í 30 þús. tonn á sex fiskveiðiárum en síðan var magnið þrefaldað á fjórum fiskveiðiárum upp í 90 þús. tonn.

Ég vil í ljósi þessa, virðulegi forseti, og stöðu þorskstofnsins sérstaklega, bera fram þá fyrirspurn til sjávarútvegsráðherra sem er að finna á þskj. 343 um afstöðu ráðherrans til jafnstöðuafla.



[13:24]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. þingmanni að bera fram þessa spurningu sem er eftirfarandi:

„Hver er afstaða ráðherra til jafnstöðuafla, þ.e. þess að ákvarða til lengri tíma en eins árs, t.d. þriggja eða fimm ára, heildarafla sem veiða má úr nytjastofnum sem nauðsynlegt er talið að takmarka veiðar á?“

Þessi fyrirspurn á rætur að rekja til umræðu sem hefur átt sér stað um langt skeið og einkanlega hér á árum áður meðal hagsmunaaðila í sjávarútvegi og annarra sem láta sjávarútveg til sín taka. Þetta er að mínu mati mjög eðlileg og áhugaverð spurning og sjálfsagt að taka þessi mál til umræðu fordómalaust. Með jafnstöðuafla er hér átt við fastsetningu aflamarks til lengri tíma. Ástæðurnar fyrir þessari umræðu eru einkum af þrennum toga eftir því sem mér sýnist.

Í fyrsta lagi finnst sumum óeðlilegt að verið sé að breyta aflamarki frá ári til árs þegar þekkingarstigið er ávallt háð tiltekinni óhjákvæmilegri skekkju.

Í öðru lagi hefur verið litið til setningar fasts aflamarks til nokkurra ára þar sem slíkt er afar eftirsóknarvert við skipulag veiða, vinnslu og sölu afurða. Mig minnir að það hafi ekki síst verið það sem lá til grundvallar þegar menn lögðu fram þessar hugmyndir á sínum tíma.

Í þriðja lagi er það viðhorf uppi að þar sem ekki hafi tekist að stýra veiðum með árlegu aflamarki á grundvelli ráðlegginga Hafrannsóknastofnunar beri að reyna eitthvað nýtt, svo sem að fastsetja aflamark yfir nokkurra ára tímabil.

Ég ætla fyrst og fremst að dvelja við fyrstu tvö atriðin sem ég tel að vert sé að gera grein fyrir. Það er að eðlilegra sé að fastsetja aflamark til þriggja til fimm ára frekar en að breyta ráðgjöfinni árlega þegar þekkingarstigið er takmörkunum háð og við erum líka háð skipulagi veiða, vinnslu og sölu afurða. Meðal annars sé ekki eðlilegt að gera smávægilegar breytingar á aflamarki þegar óvissan er töluverð. Eins og nú er háttað helgast slíkar breytingar á aflamarki fyrir þorsk á árlegri stofnúttekt þar sem aflamarkið miðast við miðgildi stofnmarks sem er umlukið óvissu. Þannig getur aflamarkið hækkað eða lækkað smávægilega á milli ára þó svo að breytingarnar séu vel innan skekkjumarka matsins. Þetta skiptir þó ekki sköpum varðandi nýtingu og skipulag en kann að sýnast óeðlilegt.

Ef hins vegar er sóst eftir því að jafna afla á milli ára, fastsetja aflamark til nokkurra ára, án þess að auka áhættu, þarf að stilla veiðunum meira í hóf og hugsanlega sætta sig við minni afla. Röksemdafærslan gekk reyndar út á það fyrir nokkrum árum. Menn töldu að með þessu væri verið að sætta sig við að sveiflurnar færu ekki upp á við. Mönnum var þetta alveg ljóst á sínum tíma. En hins vegar væri þá dýfan ekki jafnskörp niður á við heldur. Það er ljóst að áhættan af fastsetningu aflamarks til nokkurra ára, þriggja til fimm ára, eins og fram kemur í fyrirspurninni, er meiri eftir því sem fiskurinn er skammlífari því þá eru veiðarnar háðar færri aldurshópum og þar með árgöngum. Loðnuveiðar eru gott dæmi um þetta, þær eru að langmestu leyti bornar uppi af einum árgangi. Það væri ekki ráðlegt að stilla upp sama aflamarki til þriggja til fimm ára fyrir loðnuveiðar þar sem hrygningarstofninn auk veiða á vertíð hefur sveiflast frá 250 þús. tonnum til 2 millj. tonna síðustu áratugi. Þegar einn lélegur árgangur kemur inn í veiðistofninn, hvað þá tveir eða fleiri í röð, gætu of miklar veiðar haft alvarlegar afleiðingar eins og átti sér stað á árunum eftir 1980. Ef nýta á stofninn af skynsemi er nauðsynlegt að hafa á hverri vertíð mælingu á því sem óhætt er að veiða og ég held að um það sé í sjálfu sér enginn ágreiningur.

Við langlífari tegundir eins og þorsk er áhættan af fastsetningu aflamarks til nokkurra ára ekki eins mikil. Það blasir auðvitað við. Áhættan markast hins vegar af því hversu góð spáin um nýliðun er á því tímabili sem á að fastsetja aflamarkið og raunverulegri sveiflu í nýliðun frá ári til árs. Eftir því sem sveifla í nýliðun og óvissan er meiri þeim mun varlegar virðist þurfa að fara við setningu aflamarks til nokkurra ára. Við fyrstu sýn gæti virst að minnka þyrfti afla árlega svo áhætta sé viðunandi þó svo að nauðsynlegt sé að gera sérstaka greiningu á þessu áður en slíkt er fullyrt. Það er líka ástæða til að vekja athygli á því í þessu sambandi að hugmyndir um jafnstöðuafla eiga að mínu mati miklu frekar við þegar verið er að tala um tiltölulega stóran veiðistofn. Ef við erum að tala um lítinn veiðistofn er augljóst mál að það að fastsetja aflamarkið skapar ákveðna áhættu gagnvart veiðunum í tiltölulega minni veiðistofni. Þegar þessi umræða fór fram fyrir nokkrum árum voru menn væntanlega miklu frekar að tala um stærri veiðistofn heldur en hann er í dag. Ég árétta að veiðistofninn er að mínu mati ekki í neinni hrunhættu en á árum áður var þorskstofninn stærri.

Þessi umræða er áhugaverð. Það eru á henni margir fletir. En við þær aðstæður sem nú eru treysti ég mér ekki til að leggja til jafnstöðuafla gagnvart þorski.



[13:29]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég hefði nú talið áhugaverðara að menn væru hér að tala um jafnstöðusókn til að fá þá raunverulega mælingu á fiskmagni á veiðislóðinni á hverjum tíma. Það var þannig, hæstv. forseti, að frá árunum 1920 fram til 1990 var meðalafli þorsks á Íslandi í kringum 290 þús. tonn í 70 ár. Frá 1990 til dagsins í dag er meðalaflinn á Íslandsmiðum um 220 þús. tonn. Það munar 70 þús. tonnum frá því sem var og því sem hefur verið. Ég held að það sé mjög áhugavert að láta sóknina sýna okkur sveiflurnar í þorskstofninum milli ára og þess vegna væri jafnstöðusókn miklu æskilegri heldur en að ákveða jafnstöðuafla sem menn geta einfaldlega ekki spáð fyrir um. Það hafa dæmin sýnt. Dæmin sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tók hér áðan varðandi þorskinn annars vegar og ýsuna hins vegar sýna að framtíðarspá milli ára um þetta er ekki mjög markviss.



[13:31]
Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Hér hreyfir hv. fyrirspyrjandi, Kristinn H. Gunnarsson, áhugaverðu máli sem hæstv. ráðherra sagði að við yrðum að fara yfir og ræða fordómalaust en mér fannst þó þegar hæstv. ráðherra fór yfir rök með og móti því sem hér er verið að spyrja um þá gætti ákveðinna fordóma í garð þessarar leiðar.

Við vitum náttúrlega að það er mikil skekkja fyrir hendi í vísindunum um fiskinn í sjónum og þar er ekki um nein nákvæmnisvísindi að ræða. Ég held að það væri vel þess virði að velta því fyrir sér í fullri alvöru hvort stærstu nytjastofnar á Íslandsmiðum mundu ekki nýtast okkur betur ef við reyndum að velta fyrir okkur jafnstöðuafla til lengri tíma. Að minnsta kosti held ég að það væri fróðleg æfing að byrja á að prófa slíka áætlun til þriggja ára, þó að hún sé ekki í gildi, til að sjá hvernig hún kemur út miðað við þann afla og ráðleggingar sem gerðar eru á hverju ári, til að sjá hvort sú leið er fær.



[13:32]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég hygg að hugmyndir um jafnstöðuafla séu að nokkru leyti varhugaverðar nú á þessum síðustu og verstu tíðum. Fyrir það fyrsta mundi þetta náttúrlega eyðileggja möguleika ríkisstjórnarflokkanna á að finna hinn svokallaða kosningakvóta sem finnst alltaf á fjögurra ára fresti og sást síðan í Sjallanum á Akureyri í apríl árið 2003.

Í annan stað er ástandið á Íslandsmiðum einfaldlega varhugavert eins og er. Það er mikil óvissa um helstu nytjastofna, til að mynda loðnu sem er týnd og bólar ekkert á og er hugsanlega hrunin. Það er líka mikil óvissa varðandi þorskinn, þorskstofninn sem er í miklum vandræðum eins og við bentum á í umræðum á Alþingi fyrir jól. Það stefnir í að hann dúndrist niður ef áfram verður haldið á sömu braut og undanfarin ár, að heildaraflamagnið dúndrist niður í u.þ.b. 150 þúsund tonn jafnvel áður en þessu kjörtímabili lýkur.

Ég held að það sé miklu nær fyrir okkur þingmenn að ræða hvað við höfum gert rangt á undanförnum árum og hvernig við getum bætt ráð okkar í þeim efnum en að hugleiða svona hugmyndir núna þegar niðursveiflan er í fullum gangi.



[13:33]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Þessi fyrirspurn lýsir í rauninni hvers konar ógöngur við erum komin í með kvótakerfið. Það kerfi sem hefur verið við lýði síðustu árin hefur skilað miklu minni afla en var fyrir daga þess og ég hef miklar efasemdir um jafnstöðuafla til margra ára. Hvers vegna? Ástæðan er fyrst og fremst sú að dýrastofnar og ekki hvað síst fiskstofna sveiflast gífurlega og mönnum hefur reynst mjög erfitt að spá fyrir um stærð fiskstofna og jafnvel hvað hafi verið veitt mikið hlutfallslega úr stofninum og menn hafi ofmetið það jafnvel mörg ár aftur í tímann. Ef menn ætla að fá mikinn afla þegar dýrastofnar eru í uppvexti þá þarf auðvitað að hafa jafna sókn. Og síðan þegar sóknin er jafnmikil, að hafa þá jafnstöðusókn og þegar dýrastofnar eru í lægð þá fá menn einfaldlega minni afla. Þannig er þetta. Og það er miklu betra fyrir dýrastofna og árangursríkara fyrir nýtingu.



[13:34]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Eitt af vandamálum sem fylgir kvótakerfinu er að það tryggir hámarkssókn þegar veiðistofninn er í mestu lægðinni, því þá geta menn framselt veiðiréttindi milli svæða og ef þeir ná ekki fiskinum á sínu svæði þá næst hann á öðru svæði. Þannig er gengið hart að fiskstofnum í kvótakerfi, sérstaklega þegar þeir eru í lægð.

Ég tel líka að það sé fyllilega ástæða til að velta fyrir sér upplýsingunum sem við höfum um stærð fiskstofnanna og þar er loðnan alveg sérstaklega til athugunar, af því að hæstv. ráðherra nefndi hana. Í skýrslu Hafrannsóknastofnunar þar sem fjallað er um fiskstofnana í 21 ár og fram koma tillögur stofnunarinnar um nýtingu á þeim, kemur í ljós að loðnustofninn er stabílasti veiðistofninn. Það komast engir aðrir stofnar nærri honum hvað varðar tillögur fiskifræðinga til veiða, nema karfastofnarnir samanlagðir. Aðrir stofnar koma þar langt á eftir og þegar menn halda ræðurnar um að þetta sé skammlífur stofn o.s.frv. þá hljóta þeir að staðnæmast við þessar staðreyndir úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar.



[13:36]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni fyrir framlag þeirra. Mér finnst niðurstaðan, bæði úr svörunum og umræðunni vera sú að málið er áhugavert og það er eðlilegt að menn hugi að því að ræða áfram þær hugmyndir sem voru settar fram á sínum tíma um jafnstöðuafla. Meðal annars vegna þess að árangur okkar af uppbyggingu þorskstofnsins hefur ekki orðið sem skyldi. Fyrsta tillagan um hámarksafla á þorski þegar kvótakerfið var sett á árið 1984 voru 200 þúsund tonn. Á yfirstandandi fiskveiðiári erum við að veiða 198 þúsund tonn þannig að niðurstaðan er sú að okkur hefur ekkert miðað áfram. Það hlýtur að hvetja menn til að velta fyrir sér öllum hugmyndum sem upp hafa komið í þeirri von að úr þeim komi einhver rök eða ábendingar sem menn geta nýtt sér til þess að þróa áfram fiskveiðistjórnun okkar til að ná betri árangri en verið hefur.

Ég er út af fyrir sig sammála því að eðlilegasta og besta leiðin væri auðvitað að fylgja sveiflunum í stofnunum þannig að við gætum gefið út breytilega heildarveiði í stofnunum eftir því hversu sterkir þeir eru á hverjum tíma. En vandinn er sá að þekking okkar á lífríkinu er svo takmörkuð að það er gríðarleg óvissa hjá vísindamönnum okkar í því hver sannleikurinn er á hverjum tíma um hvern og einn stofn. Þess vegna held ég að hugmyndin um jafnstöðuafla eigi fullan rétt á sér og mér fannst ég heyra á röksemdum hæstv. ráðherra þar sem hann dregur fram það sem mælir með þessu að þannig væri líklegra að menn næðu árangri til lengri tíma í að byggja upp viðkomandi fiskstofna, sérstaklega þorskstofninn.



[13:38]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka þessa ágætu umræðu. Mér hefur fundist hún bæði fróðleg og málefnaleg. Menn hafa auðvitað verið að glíma við spurningu sem er gríðarlega stór og skiptir okkur öllu máli, þ.e. hvernig við getum tryggt okkur hámarksafrakstur af fiskstofnunum við landið. Auðvitað hafa menn mismunandi sjónarmið í þeim efnum. Það er ekkert óeðlilegt við það. Þess vegna tel ég að umræðan sé af hinu góða og það sé hluti af því að við komumst að niðurstöðu, að við reynum að ræða þessi mál bæði við leikmenn á hinum pólitíska vettvangi og líka vísindamenn og ég tala nú ekki um við þá sem starfa í greininni.

Þess vegna hygg ég að það hafi verið mjög eðlilegt á sínum tíma að menn settu fram hugmyndir um jafnstöðuaflann af ástæðum sem ég nefndi áðan, bæði vegna þess að menn teldu að upplýsingar sem menn hefðu um lífríkið væru takmarkaðar og líka hitt sem skiptir mjög miklu máli og menn lögðu á þeim tíma mikla áherslu á og það var að reyna að ná utan um þetta, fá einhverja heildarmynd og menn gætu unnið betur og skipulagt sig betur í greininni og komist þannig að skynsamlegri niðurstöðu og náð meiri árangri m.a. á mörkuðum. Þetta eru auðvitað allt saman mjög eðlileg rök og þegar við erum að ræða um skipulag sjávarútvegs okkar þá verðum við auðvitað að hafa alla þessa þætti undir, bæði hinn líffræðilega þátt sem er til grundvallar en síðan auðvitað líka þessa hagfræðilegu efnahagslegu þætti og það sem snýr að mörkuðunum okkar. Ég tel því að þessi umræða sé mjög eðlileg.

Við höfum hins vegar kosið að styðjast við það sem kallað er aflaregla við þorskveiðar. Sú aflaregla sem núna er notuð til að ákveða kvótann gerir ráð fyrir að aflinn sé takmarkaður við 25% af meðalstærð veiðistofns í upphafi árs og áætlar stærð veiðistofns í upphafi næsta árs. En það er hins vegar athyglisvert að við höfum síðan bætt við þessa almennu reglu nýju ákvæði sem í raun og veru er á vissan hátt tilraun til að koma til móts við hugmyndir um jafnstöðuaflann, þ.e. að gert er ráð fyrir því að aflamarkið, kvótinn, breytist ekki meira en um 30 þúsund tonn á ári, alveg sama hvernig þróunin í lífríkinu er. Þessi 30 þúsund tonna stuðari er þarna til staðar þannig að það er athyglisvert að hugmyndafræðin á bak við jafnstöðu aflans hefur þannig ratað inn í þetta með vissum hætti þó að það sé ekki að fullu eða öllu leyti.