132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
rækjustofninn í Arnarfirði.
fsp. SigurjÞ, 354. mál. — Þskj. 388.

[13:40]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það má segja að sjávarþorpið Bíldudalur sé mjög þjakað af kvótakerfinu og þarna í þessu litla þorpi í Arnarfirði kristallast vitleysa kvótakerfisins. Það gerir það í nýtingarstefnu og ég hefði haldið að þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra kæmi vestan af fjörðum þá gæti hann breytt hlutunum í þá átt sem hann hefur boðað undanfarin ár og jafnvel áratugi, að það ætti að breyta einhverju í kvótakerfinu til hagsbóta fyrir fólkið sérstaklega á Vestfjörðum. Ég hefði haldið að hann mundi líta á ástandið þar með gagnrýnum huga og breyta því sem augljóslega er vitleysa. Þetta kristallast nú á þessu ári í hvernig ástandið er í nýtingarstefnu hæstv. sjávarútvegsráðherra á Vestfjörðum. Hvernig gerir það það? Jú, það er gefinn út kvóti sem er 300 þúsund tonn í rækju í upphafi síðasta árs (Gripið fram í.) nú, 3000 tonna kvóti. Síðan er hann aukinn enn og aftur í ljósi einhverra niðurstaðna. En í lok ársins er rækjan einfaldlega búin og allar veiðar stöðvaðar. Þrátt fyrir alla þessa ráðgjöf og ég segi nú, hvað hefði orðið um þetta ef það væri einhver jafnstöðuafli? En þarna er búið að gera athuganir æ ofan í æ og menn komast að því að rækjan er horfin þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi lagt í einhverja tilraun þarna vestur á fjörðum, upp á 70 millj. kr., í að fóðra fiskinn sem er að éta upp rækjuna. Til að koma í veg fyrir að þorskurinn og ýsan éti upp rækjuna er lögð loðna fyrir þorskinn. Ég segi það að Bakkabræðrum norðan úr Fljótum í Skagafirði hefði ekki dottið í hug önnur eins vitleysa. Þeir hefðu auðvitað farið og reynt að veiða fiskinn, þeim hefði ekki dottið þetta í hug. En þetta dettur Sjálfstæðisflokknum í hug, að fara að fóðra afræningja sem eru að éta upp rækjuna. Þetta er hrein og klár della, það sjá allir.

Hvers vegna er þorskurinn ekki veiddur þarna? Ástæðan er einkum sú að það er ekki til kvóti og enn fremur vegna þess að fiskurinn er lítill og ef einhver ætti kvóta væri miklu nær að verja honum í að veiða stóran fisk sem maður fær meira verð fyrir. Ég er á því og ég vonast til þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra skoði þetta dæmi í alvöru og það verði til þess að hann breyti þessari nýtingarstefnu. Þetta getur ekki gengið svona lengur. Við sjáum það að allar bætur á þessari vitleysu gera einfaldlega vont verra.



[13:44]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr: „Hver er að áliti ráðherra ástæða þess að rækjustofninn í Arnarfirði hefur minnkað?“ Í könnun Hafrannsóknastofnunarinnar í október sl. fannst rækja á mjög takmörkuðu svæði innst í Borgarfirði, norðan Langaness í Arnarfirði og var heildarvísitala og vísitala kvendýra lág eða einn sjötti af vísitölunni haustið 2004. Nánar tiltekið fékkst rækjan aðeins í tveimur togum af 22. Til samanburðar fékkst rækja í fjórum togum af 22 í haustkönnun árið 2004. Mjög mikið var af ýsu, lýsu og þorski í öllum firðinum.

Eftir febrúarkönnun á síðasta ári þegar vísitala rækju var enn há og ýsa og þorskur höfðu gengið utar, voru leyfðar veiðar á 300 tonnum af rækju, ekki 300 þúsund tonnum eins og hv. þingmaður var með tilgátu um eða 3000 tonn heldur 300 tonnum af rækju. Talsverð óvissa var þar enn í mælingum á rækjustofninum í febrúar eins og var reyndar einnig í október 2004 þar sem rækjan var á minna svæði en vanalega miðað við árstíma. Eftir mánaðarveiði í mars sl., meiri dreifingu rækjunnar og góðan afla á sóknareiningu var ákveðið að auka aflamarkið í 450 tonn. Þetta var gert í samráði við heimamenn sem sendu Hafrannsóknastofnunni nákvæmar staðsetningar á rækjutogunum í Arnarfirði. Þannig fékkst mynd sem sýndi aukna útbreiðslu rækjunnar miðað við októberkönnunina 2004 og síst minni útbreiðslu miðað við febrúarkönnunina 2005.

Að ósk heimamanna og samkvæmt ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins stóð veiðitímabilið fram eftir sumri eða lengur en venja er þar sem illa gekk að veiða rækjuna á þeim takmarkaða tíma sem eftir var af vertíðinni. Bergmálsmæling Hafrannsóknastofnunarinnar á fiski, einkum þorski, fór fram í sérkönnunum fyrst í febrúar, því næst í júní og loks í október árið 2005. Febrúarkönnunin sýndi að lítið var af þorski í Arnarfirði en ýsa mælist illa í bergmálsmælingu sökum þess hve nálægt botni hún heldur sig eins og kunnugt er. Rækjukönnun sem fór fram í júní sýndi að mjög mikið var af ýsu í Arnarfirði sem hélt sig mun utar en fyrr um veturinn. Í júní var rækjan enn dreifð. Heldur meira var af þorski á sama stað og í febrúar og í október 2005 var bergmálsmælt á ný og fannst þá mikið af þorski og ýsu innst í Arnarfirði, í Borgarfirði nánar tiltekið, og mjög nálægt rækjutorfunni en heildarendurvarp á bolfiski í bergmálsmælingunni var margfalt meira en í febrúarkönnuninni 2004. Það er þess vegna ekki að undra, virðulegi forseti, að núna er talsverð þorskveiði í Arnarfirði og síðast í gær talaði ég við sjómann sem var að koma úr róðri og sagði mér að það fiskaðist ágætlega og það væru fjölmargir á veiðum þannig að upplýsingar hv. þingmanns um það að ekki væri verið að stunda þorskveiðar í Arnarfirði eru því einfaldlega rangar.

Samkvæmt reynslu fiskifræðinga hefur oft orðið mjög mikil þétting á rækju rétt áður en hún hverfur af svæðinu. Má þar t.d. vitna í hvernig rækjan í Húnaflóa þéttist gríðarlega innst inni í Miðfirði í febrúar árið 2000. Haustið 1999 var enn rækja innarlega í Húnaflóa en vísitala rækjustofns hafði minnkað verulega frá því veturinn 1997–1998 samfara því að mikið af þorski tók að halda sig allan veturinn á rækjuslóðinni. Það voru engar rækjuveiðar leyfðar á innanverðum Húnaflóa veturinn 1999 og 2000 og samt hvarf hún nánast öll.

Í grein eftir Unni Skúladóttur og fleiri um hrun rækjustofna á grunnslóð sem birtist í Ægi, 8. tölublaði 94. árgangi, er lýst hruni rækjustofna á fjórum fjörðum norðanlands samfara aukinni fiskgengd og einnig aukinni viðveru fisks á svæðunum allan veturinn. Upphaflega var talið að þorskur væri aðalafræninginn en á síðari árum hefur ýsu fjölgað gríðarlega á grunnslóð og þótt hún éti mun minna en þorskur að mati Hafrannsóknastofnunar þá er fjöldinn slíkur að ýsan getur haft töluverð áhrif. Það má þannig álykta að helsta ástæða minnkunar rækju í Arnarfirði sé vegna afráns fisks, þorsks, ýsu og að einhverju leyti lýsu á rækjustofninum enda aukin fiskgengd á grunnslóð undanfarin missiri eins og kunnugt er. Rækjuveiðarnar hafa auðvitað haft neikvæð áhrif sem viðbót við afránið sem væntanlega hefur aukist mjög einhvern tíma eftir umrædda bergmálsmælingu í júní sl. en þá safnaðist rækjan saman í eina torfu í ágúst innst inni í Arnarfirði. Sennilega hafa þá þorskur og ýsa smalað rækjunni innst í fjörðinn líkt eins og við höfum reynslu af víða eins og allir vita.



[13:48]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Verið er að gera tilraun í Arnarfirði sem ég held að sé áhugaverð út af fyrir sig þó að ég sé sammála því að útfærslan á henni geri ekki annað en að draga meiri fisk inn í fjörðinn, þ.e. í fóðurstöðvarnar. Þess vegna hefði auðvitað verið eðlilegt að draga línu þvert yfir fjörðinn innan við fóðurstöðvarnar og leyfa Bílddælingum að veiða þann fisk sem inn fyrir fer. Þá hefðu menn gert tvennt í einu. Í fyrsta lagi áttað sig á hvernig gengi að draga fisk í fjörðinn og halda honum á ákveðnum stöðum við ætistöðvarnar eða fóðurstöðvarnar og í öðru lagi að veiða þann fisk sem gengi inn á rækjuslóðina og koma þannig í veg fyrir rækjuhrun í Arnarfirði.

Ég held að Bílddælingum hefði ekki veitt af því að fá slíkan forgang. Það er rétt hjá hæstv. ráðherra að það er mikil veiði í Arnarfirðinum. En það eru ekki endilega skip frá Bíldudal sem stunda þær veiðar af krafti heldur miklu frekar skip frá öðrum stöðum sem hafa yfir meiri kvóta að ráða.



[13:49]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég heyrði ekki að hæstv. ráðherra segði álit sitt á þessari tilraun. Það væri þess vegna fróðlegt að fá að heyra hvað hann segir um hana. Hún er sjálfsagt áhugaverð en spurningin er hvort hún virkar ekki þveröfugt á rækjustofninn og ég held að það sé ástæða til að halda að svo geti verið. Veiðar á rækju hafa alltaf verið sveiflukenndar og rækjustofnar eru það og alveg sérstaklega í þessum litlu vistkerfum í fjörðunum. Sú veiði og það arðrán sem þar er í gangi á hverjum tíma hefur þess vegna gríðarleg áhrif. Ég tel að það sé full ástæða til að fara varlega í tilraun eins og þessa og spurningin er hvort menn hafi valið réttan stað fyrir hana þarna, en tilraunin er áhugaverð og full ástæða til að reyna hana við aðstæður þar sem ekki er verið að stofna lífríkinu í hættu.



[13:50]
Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Lögð hefur verið fram fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra um rækjustofninn í Arnarfirði. Það er annar rækjustofn, úthafsrækjan, sem við erum í vandræðum með. Fyrir áramót átti ég ágæta utandagskrárumræðu við hæstv. ráðherra um ástandið á úthafsrækjunni. Þar kom m.a. fram hjá hæstv. ráðherra að hann hefði skipað þriggja manna nefnd til að fara í gegnum hvað gera skyldi og hvernig staðan væri hvað úthafsrækjuna varðar. Því vil ég nota þann stutta tíma sem ég hef til að spyrja hæstv. ráðherra og vona að hann geti svarað því hvort þessi nefnd hafi skilað áliti og hvort niðurstaða sé komin frá henni og í framhaldi af því, hvað eigi að gera. Hverjar verða tillögur ráðuneytisins og hæstv. sjávarútvegsráðherra gagnvart úthafsrækjuútgerðunum, vinnslunum, bæjarfélögunum og starfsfólkinu? Ástandið er auðvitað mjög alvarlegt hvað þetta varðar. Ég hef ekki tíma til að fara yfir það núna en allir eru klárir á því hve vandamálið er mikið. Þess vegna vil ég, virðulegi forseti, spyrja hæstv. ráðherra: Hefur nefndin skilað áliti og hvað skal gera gagnvart úthafsrækjunni?



[13:52]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þessi tilraun vestur í Arnarfirði er náttúrlega grátbrosleg en hún ætti kannski fyrst og fremst að vera grátleg því að þetta er allt saman ein sorgarsaga og mikill harmleikur.

Hvernig er staðan? Rækjustofnarnir eru hrundir, hörpudisksstofninn er hruninn, flatfiskstofnarnir eru í sögulegu lágmarki, úthafskarfinn og þorskstofninn eru sömuleiðis í sögulegu lágmarki. Það virðist vera þó nokkuð af ýsu en hún er hætt að vaxa, sennilega út af ætisskorti, og það virðist vera þó nokkuð af ufsa. Loðnustofninn er sennilega hruninn. Er þetta ekki svolítið svart? Mér finnst það. Þetta er staðan í dag. Rækjan lifir á lífrænum efnum í hafinu, hún er m.a. hrææta. Gæti ekki verið að rækjan sé einmitt hrunin vegna þess að við erum búin að ganga allt of nærri loðnustofninum? Gæti það ekki verið skýringin? Hvernig væri nú að menn færu að hugsa? Lesið Bjarna Sæmundsson. Þið getið fundið nokkur skrif hans á heimasíðu minni. Hvað sagði hann fyrir 100 árum? Menn ættu aðeins að fara að hugsa sinn gang og athuga hvort þessi nýtingarstefna hafi ekki verið kolröng.



[13:53]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Það má vera að það sé áhugavert að gera eitthvað sem er órökrétt og þess vegna sé áhugavert að sjá hvað kemur út úr svona tilraun að fóðra fiska í því augnamiði að koma í veg fyrir að þeir éti upp rækjuna. En ég hefði talið miklu réttara að Bílddælingum væri einfaldlega heimilt að veiða þann fisk sem er að éta upp rækjuna þeirra. Hvað er að því? Jú, kerfið er svo heilagt í augum að kvótaflokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, að meira að segja þegar fiskur er að éta upp rækjustofna vestur á fjörðum eru menn ekki tilbúnir að fara í þá tilraun að leyfa fólkinu þar að veiða þann fisk heldur er farið í að gera eitthvað sem er algerlega órökrétt og afræningjunum er gefið að éta. Þetta er fáheyrt og í rauninni algjör vitleysa.

En það er annað sem þetta dæmi sýnir okkur, það er verið að meta rækjustofninn í afmörkuðum firði, þetta er ekki fiskur sem syndir langan veg, en þrátt fyrir að við séum með afmarkaðan fjörð og rannsóknarmenn sem koma og mæla fiskinn og gefa út leyfi og menn nái síðan ekki að fiska upp í þann kvóta sem gefinn er út, hverfur rækjan eins og dögg fyrir sólu og menn hætta að veiða. Þessi nýtingarstefna er della og ég trúi ekki öðru en að menn fari að skoða þetta dæmi vestur á fjörðum sem er afmarkað eins og áður segir í Arnarfirði, menn hljóta að skoða það með gagnrýnum hætti að þetta kerfi getur ekki verið svo heilagt að það megi rústa hverju þorpinu á fætur öðru.



[13:55]
sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst aðeins varðandi þá tilraun sem menn hafa verið að gera vestur í Arnarfirði og hér hefur verið gerð að umræðuefni, þá er ég ósammála hv. þingmönnum Magnúsi Þór Hafsteinssyni og Sigurjóni Þórðarsyni um að hún sé ekki áhugaverð. Ég er hins vegar alveg sammála hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni um að þetta er áhugaverð tilraun. Þetta er tilraun sem ég tel sjálfsagt að við höldum áfram.

Menn hafa verið að velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki þannig að við séum, eins og hér var sagt, að fóðra afræningjana, fóðra þorskinn og gera það að verkum að hann komi frekar inn í fjörðinn og liggi síðan í rækjunni. Nú liggur það alveg fyrir að ein vitneskjan sem menn hafa fengið af þessari tilraun er einfaldlega sú að þessi tilraun dregur að sér þorsk af tiltölulega afmörkuðu svæði. Reyndar af afmarkaðra svæði en menn trúðu í upphafi. Eitt af því sem gefur okkur upplýsingar er auðvitað að fara í tilraunir af þessu tagi. Það er því ekkert sem bendir til þess að það sé þannig eins og hv. þingmenn veltu fyrir sér að þessi tilraun verði þess valdandi að granda rækjunni í Arnarfirðinum. Það eru allt aðrar aðstæður sem valda því.

Hér var líka spurt um það sem ég nefndi í umræðu um rækju síðastliðið haust um að ég hefði skipað nefnd til að koma með hugmyndir varðandi stöðu rækjuiðnaðarins og rækjuveiðanna. Það er rétt og þessi nefnd hóf störf 26. október sl. og hún er einmitt að skila af sér núna þessa dagana. Vonandi get ég kynnt þessi mál jafnvel í dag eða á morgun þar sem ég kynni niðurstöður skýrslunnar og þá verður strax séð til þess að þær hugmyndir líti í meginatriðum dagsins ljós í þingmáli. Ég er með þessum hætti að reyna að bregðast við þessum bráða vanda. Hins vegar vil ég undirstrika að vandi rækjuiðnaðarins er ákaflega margslunginn eins og kom fram í umræðunni á sínum tíma og auðvitað er það ekki svo að það sé algerlega á valdi stjórnvalda að bregðast við að öllu leyti. Við munum hins vegar bregðast við eins og hægt er til að létta stöðu rækjuvinnslunnar og rækjuveiðanna og sýna þannig hug okkar í verki og undirstrika að við teljum mikilvægt að bregðast við í þessum efnum.