132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
staða íslensks skipaiðnaðar.
fsp. SigurjÞ, 323. mál. — Þskj. 355.

[13:57]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Í fyrra fór hér fram umræða um framtíð íslenska skipasmíðaiðnaðarins. Hún fór m.a. fram í tengslum við það að stjórnvöld sendu varðskip til viðgerða úr landi, alla leið til Póllands, þrátt fyrir að sambærilegt tilboð hefði komið frá Slippstöðinni á Akureyri í viðgerð á skipunum. Það er fullvíst og kom reyndar fram í svari við fyrirspurn sem ég lagði fyrir hæstv. dómsmálaráðherra að kostnaðurinn hefði verið svipaður og hefði örugglega verið þjóðhagslega miklu hagkvæmara að vinna verkið hér heima á Akureyri en að senda það úr landi.

Í þessum umræðum fullyrti hæstv. byggðamála- og iðnaðarráðherra að leggja ætti fram tillögu fyrir ríkisstjórnina frá nefnd sem skipuð var og hafði nýlokið við gerð skýrslu um samkeppnishæfni skipasmíðaiðnaðarins. Það er ekki fyrsta skýrslan sem gerð verið hefur á vegum stjórnvalda á undanförnum árum heldur eru þær orðnar nokkrar, hér er bunki af skýrslum, en lítið virðist vera um efndir á því að framkvæma það sem lofað hefur verið að gera. Í þessari umræðu fullyrti hæstv. byggðamála- og iðnaðarráðherra að það ætti að fylgja þessum tillögum fast eftir í ríkisstjórninni. Tillögurnar voru lagðar fram í fimm liðum. Það voru tvær megintillögur. Annars vegar að hækka endurgreiðslur af aðflutningsgjöldum og hins vegar að fara sömu leið og Evrópusambandið, að skilgreina skipasmíðaiðnaðinn sem hátækniiðnað og þá mætti hækka styrki allt upp í 20% ef þeim væri varið til hönnunar og hátækni í iðnaðinum, en þá þyrfti auðvitað að tryggja að styrkirnir væru notaðir til þeirra verka. Það hefur ekkert gerst og því hef ég beint þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort ekki eigi eitthvað að fara að gerast. En það sem hefur gerst á undanförnum árum í valdatíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, það var reyndar áður en að núverandi hæstv. iðnaðarráðherra kom til valda, er að samkeppnisstaðan var skert. Menn lækkuðu endurgreiðsluhlutfallið af aðflutningsgjöldum úr 6,5% í 4,5% og það eru afrek ríkisstjórnarinnar. Ég hefði talið tímabært að huga að því hvað eigi að verða um þennan iðnað því það blasir við m.a. í mínu kjördæmi, á Akranesi, að menn vilja fá einhver svör í skipasmíðastöðinni þar og ekki síður á Akureyri, í kjördæmi hæstv. iðnaðarráðherra. Það væri fróðlegt að frétta af því hvort einungis eigi að gera þessa skýrslu eða hvort við megum búast við einhverjum aðgerðum.



[14:00]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Á undanförnum árum hafa stjórnvöld lagt ríka áherslu á að bæta starfsskilyrði atvinnulífs og stuðla þannig að aukinni samkeppnishæfni atvinnulífsins hér á landi. Þetta hefur skilað verulegum árangri sem m.a. kemur fram í auknum hagvexti, nýsköpun, útrás fyrirtækja og auknum kaupmætti. Frá 1995 til ársins 2005, eða sl. tíu ár, hefur t.d. samkeppnisstaða Íslands í fjölþjóðlegum samanburði farið úr 25. sæti í það fjórða samkvæmt mati virtrar stofnunar í Sviss og í það sjöunda samkvæmt World Economic Forum. (GAK: Er engin stofnun …?) Þetta er hækkun um tvö sæti að meðaltali á ári sl. tíu ár sem verður að teljast góður árangur ekki síst með hliðsjón af því að það er langtímaþróun sem skiptir máli í þessu sambandi en ekki sveiflur á milli einstakra ára.

Einnig hefur verið unnið að margvíslegum aðgerðum til stuðnings atvinnurekstri almennt sem m.a. varðar skipasmíðaiðnað. Almennt starf er innt af hendi er varðar atvinnuþróun og þjónustu við fyrirtæki innan stofnana svo sem Impru nýsköpunarmiðstöðvar, Iðntæknistofnunar, rannsóknastofnana, atvinnuþróunarfélaga og annarra sem að þessum málum koma. Einnig hafa samkeppnissjóðir svo sem Tækniþróunarsjóður verið efldir verulega.

Gripið hefur verið til sérstakra ráðstafana í skipaiðnaði til að treysta starfsskilyrði greinarinnar þannig að hún keppi á jafnréttisgrundvelli við erlenda samkeppnisaðila. Í þessu sambandi má m.a. nefna viðamikla úttekt á samkeppnisstöðu greinarinnar sem gerð var árið 2002. Á vegum iðnaðarins var gerð úttekt á stöðu og framtíð skipaiðnaðarins við Faxaflóa í apríl 2005 og jafnframt var gerð skýrsla á vegum ráðuneytisins um samkeppnisstöðu skipasmíðaiðnaðarins á febrúar 2005.

Í þessum skýrslum kemur skýrt fram að á umliðnum árum hafa orðið miklar breytingar á ytra umhverfi í skipasmíðaiðnaði vegna margvíslegra þátta sem ekki er á valdi stjórnvalda að hafa áhrif á. Í því sambandi má nefna eftirfarandi atriði: Alþjóðleg samkeppni er afar mikil og skipasmíðar hafa verið að færast til láglaunalanda. Hreyfanleiki verkefna er mjög mikill á milli landa. Miklar breytingar hafa orðið á skipaflotanum sem hafa haft áhrif á skipaiðnaðinn. Afkastageta er of mikil í skipaiðnaði og verðsamkeppni mikil. Auknar alþjóðlegar kröfur eru í verkefnum í skipaiðnaðinum.

Svo virðist sem rekja megi helstu erfiðleika í skipaiðnaði til breytinga á mörkuðum í iðnaðinum vegna alþjóðlegra og innlendra áhrifaþátta sem ekki er á færi stjórnvalda að fást við heldur er það atvinnugreinarinnar að glíma við slík atriði á sama hátt og aðrar greinar gera. Í þessu sambandi má þó geta þess að veitt er endurgreiðsla vegna aðflutningsgjalda að upphæð 4,5% vegna nýsmíði og meiri háttar endurbóta til samræmis við það sem erlendis er gert til að greinin geti keppt á grunni jafnræðis við erlenda keppinauta. Nýsmíði smárra fiskibáta úr plasti hefur farið vaxandi vegna aukinnar eftirspurnar á innlendum sem erlendum mörkuðum sem er enn eitt dæmi um breytingar sem eru að gerast í greininni. Þess er einnig að geta að miklar stóriðjuframkvæmdir hafa skapað fjölda verkefna í skipaiðnaði sem nýst hafa greininni afarvel ekki síst vegna samdráttar í skipaverkefnum.

Að síðustu vil ég nefna að starfshópur á vegum fjármálaráðuneytisins er að störfum til að yfirfara atriði er varða tolla og breytingar sem orðið hafa og varða endurgreiðslur á aðflutningsgjöldum í skipasmíðaiðnaðinum. Þetta starf mun taka nokkurn tíma eða nokkrar vikur til viðbótar vegna flókinna atriða sem þar eru til umfjöllunar.



[14:05]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Mér er spurn hvort hæstv. iðnaðarráðherra og ég séum í sama landi. Vegna þess að ég skil ekkert í þessum orðum hérna. Teljandi upp í hvaða sæti við erum á hinum og þessum listum. Erum við ekki hamingjusamasta þjóð í heimi líka? Ég er bara ekki alveg viss um það. Staðreyndirnar tala sínu máli. Það er verið að senda rannsóknaskip og varðskip úr landi. Á meðan fer Slippstöðin á Akureyri á hausinn og eins og fyrirspyrjandi, hv. þm. Sigurjón Þórðarson, benti á hefði sennilega verið miklu ódýrara að framkvæma þá viðgerð á Akureyri. Ætlar hæstv. iðnaðarráðherra að segja mér að þetta sé bara allt í góðu lagi? Á meðan blasir við gjaldþrot hjá Slippstöðinni upp á meira en 1 milljarð. Og það að stóriðjuframkvæmdir hafi komið skipasmíðaiðnaðinum sérstaklega til góða, það er fullkominn misskilningur. Ég veit ekki betur en einmitt þetta gjaldþrot hjá Slippstöðinni sé út af einhverri Kárahnjúkadellu. (Forseti hringir.)



[14:06]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég verð eiginlega að taka undir orð hv. þm. Hlyns Hallssonar. Í hvaða samfélagi er hæstv. iðnaðarráðherra eiginlega? (Iðnrrh.: Í hvaða landi eru Vinstri grænir?) Vinstri grænir eru nefnilega á Íslandi. Það er þannig. En þegar ráðherrann talar um að stóriðjuframkvæmdirnar fyrir austan hafi komið skipasmíðaiðnaðinum á Akureyri sérstaklega vel, þá ætti hæstv. ráðherra að kynna það fyrir fyrrverandi kjósendum sínum á Akureyri sem munu vonandi aldrei kjósa hana aftur á þing.

Frú forseti. Ráðherrann svaraði ekki þeim spurningum sem beint var til hennar af hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni. Hvað hefur iðnaðarráðherra gert til að framkvæma þau atriði sem aðilar bæði af hálfu ráðuneytisins og af hálfu samtaka atvinnulífsins og iðnaðarins voru sammála um að þyrfti að gera til að bæta samkeppnisstöðu skipasmíðaiðnaðarins? Hvað hefur verið gert? Álglýja iðnaðarráðherra og trú á að álverksmiðjur bjargi skipasmíðaiðnaðinum á Íslandi er alveg með endemum. Hvað hefur ráðherra gert til að framfylgja þeim tillögum (Forseti hringir.) sem lagðar voru til til að styrkja skipasmíðaiðnaðinn á Íslandi og gera hann samkeppnishæfan? (Forseti hringir.) Það er það sem spurt er um, frú forseti.

(Forseti (JBjart): Af tilefni ræðu hv. þingmanns Jóns Bjarnasonar vill forseti minna þingmenn á að virða tímamörk. Tímamörk eru einungis ein mínúta í stuttum athugasemdum.)



[14:08]
Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það, ég hélt að hæstv. iðnaðarráðherra væri stödd í einhverju öðru landi núna við þann lestur á þeim stíl sem hún hafði með sér úr iðnaðarráðuneytinu. Hvílík öfugmæli. Bæta starfsskilyrði íslensks iðnaðar. Enda svo á að skýra okkur enn einu sinni frá því að starfshópurinn um íslenskan skipaiðnað og samkeppnishæfni iðnaðar á Íslandi sé enn að störfum og eigi mikið eftir vegna þess að málið sé flókið. Þvílíkt og annað eins. Hæstv. ráðherra fær falleinkunn fyrir störf sín að iðnaðarmálum hvað varðar skipaiðnaðinn á Íslandi.

Það er annar iðnaður sem er að leggja upp laupana núna um þessar mundir og verður líka rós undir öfugum formerkjum í hnappagat hæstv. ráðherra. Það er íslenskur skinnaiðnaður. Hvað hefur hæstv. ráðherra gert í því? Akkúrat ekki neitt. Á næstu vikum er verið að loka á Akureyri vinnustað sem var einu sinni jafnvel 80–100 manna vinnustaður, er núna tæplega 20 manns. Þar er verið að leggja niður þá starfsemi vegna þess að samkeppnisgrunnur iðnaðarins er ekki fyrir hendi. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Iðnaðarráðherra fær falleinkunn í flestum þessum málaflokkum að mínu mati.



[14:09]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í þessari fyrirspurn var spurt svona nokkurn veginn um hvað ætti að verða um skipaiðnaðinn á Íslandi. Það var held ég meginefni fyrirspurnarinnar.

Nýlega hefur verið sagt frá því af Samtökum iðnaðarins að raforkuverð til iðnaðarfyrirtækja hafi hækkað verulega. Er það í algjörri andstöðu við það sem hæstv. iðnaðarráðherra tjáði okkur þegar rætt var um raforkulögin á sínum tíma. Ég kallaði þá aðgerð nafni sem ég tek mér ekki oft í munn, en orðaði það svo að ráðherrann hefði verið að gera axarsköft í öllu því máli. Ég held að ég geti alveg endurtekið það því niðurstaðan er sú að það sem ekki átti að verða varð í hækkun raforkuverðs. Við höfum ekki haft neinn hag af því sem gert hefur verið í raforkumálum, því miður, ekki heldur fyrir skipaiðnaðinn.



[14:10]
Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Skipasmíðaiðnaðurinn á Íslandi er mikil sorgarsaga og hún er ekki að byrja núna. Hún byrjaði í kringum 1990 og jafnvel fyrir þann tíma. Síðan hafa ríkisstjórnir og iðnaðarráðherrar allar götur fram á þennan dag gjörsamlega brugðist í því að tryggja þeim iðnaði einhverja framtíð. Þannig er það. Hæstv. iðnaðarráðherra sem nú situr hefur ekki staðið sig betur en hinir. En það er lítið orðið eftir af skipasmíðaiðnaðinum. Hann er bara búinn. Það er verið að smíða nokkrar trillur hérna í landinu, annað er það nú ekki. Örfá fyrirtæki eru eftir í þessum iðnaði og þau eru að gera eitthvað allt annað en að vinna í skipasmíðum. Þannig er það. Hæstv. ráðherra ætti að spara sér löngu ræðurnar um hvað sé verið að skoða og segja mönnum hvað hún ætlar að gera. Og með hvaða hætti hún telur að það geti gagnast skipasmíðaiðnaðinum. Fram að þessu hefur allan vilja skort hjá yfirvöldum í landinu til að styðja þennan iðnað. (Forseti hringir.) Þeir hafa hins vegar haft nógan skilning á því (Forseti hringir.) að framleiða þurfi kindakjöt og mjólk í landinu.



[14:12]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra mjög fyrir svörin. Það kemur skýrt fram í svörum hæstv. ráðherra byggðamála- og iðnaðar að hún hefur ekkert gert. Hún varði tíma sínum aðallega í að tala um aðra hluti, t.d. um að Ísland væri ofarlega á einhverjum lista. Ég get upplýst hæstv. ráðherra um að menn eigi ekki að taka svona lista allt of alvarlega og það m.a. að Ísland er mjög ofarlega á spillingarlistanum þrátt fyrir að Framsóknarflokkurinn t.d. og ýmsir aðrir flokkar, svo sem Sjálfstæðisflokkurinn, fela fjárframlög í sjóði sína. Þetta mundi náttúrlega hvergi líðast nema í svörtustu Afríku. Menn eiga því ekki að taka þessa lista allt of hátíðlega heldur verkefni dagsins.

Verkefni dagsins er skipasmíðaiðnaður og ég spyr hæstv. ráðherra út í það. Hún hefur áður sagt að hún ætlaði að fylgja málinu fast eftir og nú er liðið tæpt ár síðan hún sagði þau orð og hefur ekkert gert. Hún hefur náttúrlega verið upptekin af ýmsum öðrum verkum, svo sem að breyta raforkukerfi landsmanna og leita eftir nýjum og nýjum álverum, jafnvel þremur í sömu viku. Ég tel að áður en lengra er haldið á þeirri braut að hækka t.d. rafmagnið á iðnaðarfyrirtæki, skipasmíðaiðnaðinn og á þá sem búa í dreifbýli, verðið er orðið það hátt að auka þarf skattheimtu á aðra íbúa til þess að lækka þann kostnað, þá eigi menn að staldra við og snúa sér að þessu verkefni. Um þúsund manns störfuðu í þessum iðnaði og þeim hefur farið hríðfækkandi. Þeir sem vinna enn þá hjá þessum fyrirtækjum eru jafnvel að vinna í einhverjum öðrum verkum. Hér eru tækifæri. Menn eiga ekki bara að afskrifa þetta eins og hæstv. ráðherra virðist gera. Ég er á því og vonast til að þessi umræða verði til að ráðherra láti nú hendur standa fram úr ermum og taki til og skoði þessi mál í alvöru því að það er kominn tími til að hrinda þessum ágætu skýrslum í framkvæmd.



[14:14]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég ætti náttúrlega að vera mjög hnuggin og döpur þegar ég kem hér upp þegar fimm til tíu hv. þingmenn eru búnir að koma hér upp og hundskamma mig. En einhverra hluta vegna er það alls ekki svo. Það er kannski vegna þess að hv. þingmenn hafa verið svo ótrúlega ómálefnalegir í málflutningi sínum og farið með svo mikla vitleysu að mér er eiginlega vandi á höndum hvernig ég á að nota þennan litla tíma sem ég hef til að bregðast við öllum þeim ósköpum. (Gripið fram í.)

Það sem ég ætla fyrst að segja er að ég ber enga ábyrgð á því að varðskipin fóru úr landi. Ég er margbúin að segja hv. þingmönnum það. (Gripið fram í: Ríkisstjórnin …) Hæstv. forseti. Hver hefur orðið hérna? (Gripið fram í: Af hverju fór Björn út?) Það vill svo til að í ríkisstjórn Íslands fer bara einn ráðherra með hvert málefni og hvern málaflokk og ég fer ekki með þann málaflokk sem hér um ræðir. Það er löngu búið að koma fram og ég hef reyndar sagt það opinberlega að ég tel að grundvöllur hafi verið til að gera við þessi skip á Akureyri.

Síðan er það sem kom út úr þeirri vinnu sem fór fram m.a. á mínum vegum um hvaða aðgerðir væru líklegar til að geta borið árangur í sambandi við skipasmíðaiðnaðinn. Það sem þar var efst á blaði var að hækka endurgreiðslur á aðflutningsgjöldum úr 4,5 í 6%. Það er þetta sem ég sagði í lok ræðu minnar áðan að er til umfjöllunar innan fjármálaráðuneytisins sem fer með tollamál. Það er ekki langt þangað til vona ég að svör berist um hvernig farið verður með þetta mál. Þetta er stærsta málið.

Svo fara hv. þingmenn að tala um skinnaiðnað og það náttúrlega kemur augljóslega fram ágreiningur innan Samfylkingarinnar því einn þingmaður vill setja peninga úr ríkissjóði í skinnaiðnaðinn. Hinn talar um að allir peningar fari í kindakjöt og mjólk. Landbúnaðarstefnan er því út og suður þar.

Síðan er það raforkuverðið, að það hafi hækkað. Það hefur lækkað. Ég ætla að biðja hv. þingmenn að átta sig á því (Forseti hringir.) að það hefur almennt lækkað. Að minnsta kosti (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) til fyrirtækja á landsbyggðinni. (Gripið fram í.)