132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
atvinnumál á Ísafirði.
fsp. KHG, 339. mál. — Þskj. 373.

[14:16]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Á síðustu árum hefur verið að festast í sessi sú stefna að einbeita afli hins opinbera til að byggja upp þrjá byggðarkjarna á landinu utan áhrifasvæðis höfuðborgarsvæðisins. En það hefur stækkað og nær nú allt frá Reykjavík og vestur á Snæfellsnes og austur fyrir fjall, austur í Rangárvallasýslu og til Suðurnesja. Svæðin sem menn hafa komist að niðurstöðu um að reyna að styrkja byggð sérstaklega á eru á miðju Austurlandi, í Eyjafirðinum, einkum á Akureyri, og síðan á Vestfjörðum og þá einkum á Ísafirði.

Við höfum séð að hið opinbera hefur varið miklum tíma og kröftum til að ná árangri á þessu sviði og vissulega hefur margt gerst. Mikil uppbygging menntastofnana í Eyjafirði hefur styrkt Akureyri mjög mikið sem stærsta byggðarkjarna utan höfuðborgarsvæðisins og hinar miklu og að sumu leyti umdeildu framkvæmdir á Austurlandi, virkjunarframkvæmdir og álversframkvæmdir, hafa snúið við langvarandi byggðaþróun þannig að nú er fólki að fjölga þar og atvinnulíf að styrkjast.

Nýlega kom út skýrsla á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins sem heitir Landfræðilegt litróf íslenska fasteignamarkaðarins. Hún dregur þetta fram en hún dregur það líka fram að um þriðja svæðið, Ísafjörð, gegnir öðru máli en um hin tvö. Á því svæði hefur fólki fækkað um 2.100 frá árinu 1990 til 2004. Raunhækkun launa á þessu svæði hefur verið helmingur þess sem annars staðar hefur verið á landinu þannig að laun hafa lækkað í hlutfalli við það sem orðið hefur hjá öðrum landsmönnum. Og í þriðja lagi hefur fasteignaverð þar lækkað um 28% en það hefur hækkað alls staðar annars staðar á landinu, 24% á Austurlandi og 30% á Norðurlandi eystra.

Þegar ríkið ákvað að selja Símann gerðist það að nýir eigendur ákváðu að draga úr atvinnustarfsemi sinni á Ísafirði með því að loka starfsstöð dótturfyrirtækis síns sem heitir Já á Ísafirði og færa störfin sem þar eru eða voru til Akureyrar og Egilsstaða. Meiningin hjá hinum nýju eigendum var að styrkja starfsstöður sína á þessum tveimur stöðum en loka á Ísafirði.

Í ljósi þeirrar þróunar sem hefur verið á atvinnumálum á Ísafjarðarsvæðinu spyr ég hæstv. ráðherra:

1. Hyggst ráðherra bregðast við ákvörðun Símans um að loka starfsstöð fyrirtækisins Já á Ísafirði í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur þá stefnu að efla Ísafjörð sem byggðarkjarna?

2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir fjárveitingu til atvinnuuppbyggingar á Ísafirði til mótvægis við samdrátt sem leitt hefur af sölu Símans?



[14:20]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hvert starf er dýrmætt sérstaklega þar sem atvinnuástand er ótryggt. Ákvörðun Símans um að leggja niður starfsstöð Já á Ísafirði er mér eins og öllum sem láta sér atvinnumál á landsbyggðinni einhverju skipta áhyggjuefni. Boðað hefur verið að með lokun starfsstöðvarinnar leggist af fimm stöðugildi um næstu áramót eða um nýliðin áramót. Það munar um minna. Bæjarstjórn Ísafjarðar hefur aftur á móti brugðist við þessu af framsýni að mínu mati og dugnaði og þar munu menn greinilega ekki ætla að sitja hjá aðgerðalausir. Bæjarstjórinn hefur ýtt úr vör vinnu til að meta með hvaða hætti hægt sé að skapa grundvöll fyrir stofnun og rekstur nýs fyrirtækis sem tæki að sér símaþjónustu, t.d. fyrir fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Það er von mín að sú vinna leiði til farsæls árangurs enda er mun farsælla að heimamenn geti boðið fram þjónustu á viðskiptagrundvelli en að ríkið komi að málum með beinum hætti.

Atvinnuuppbygging á Ísafirði er meðal mikilvægustu áherslna í væntanlegri byggðaáætlun sem vonandi verður rædd hér á næstu dögum. Þar ber hæst framkvæmd vaxtarsamnings Vestfjarða sem var undirritaður sl. vor. Aðilar að þessum samningi eru helstu fyrirtæki á Vestfjörðum, bankar og sparisjóðir, auk sveitarfélaga og opinberra stofnana. Markmið samningsins er að efla Vestfirði sem eftirsóttan valkost til búsetu, m.a. með að styrkja vaxtargreinar svæðisins og efla svæðisbundna þekkingu. Lagt er til grundvallar að þetta muni fjölga sterkum og arðsömum fyrirtækjum sem geti boðið vel launuð störf sem auki framboð á vörum og þjónustu og leiði til þess að samkeppnishæfni svæðisins eflist. Það er Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða sem annast framkvæmdastjórn samningsins en í því telst m.a. vinna við uppbyggingu klasa á kjarnasviðum Vestfjarða og önnur verk sem eru til þess fallin að efla samkeppnisstöðu svæðisins.

Á gildistíma samningsins sem er frá miðju ári 2005 og til ársloka 2008 mun iðnaðarráðuneytið verja 75 millj. kr. til framkvæmdar vaxtarsamningsins en heildarkostnaður við hann er um 140 millj. Það er því ómögulegt annað en að álykta að umtalsverðu fé sé nú varið til atvinnuuppbyggingar á Vestfjörðum og Ísafjörður vafalítið í brennidepli hvað það varðar.

Þá hefur iðnaðarráðuneytið gert samkomulag við sjávarútvegsráðuneytið um að efla rannsóknir og þróunarstarf á sviði sjávarútvegs. Til grundvallar liggur sameiginlegt markmið ráðuneytanna, að efla nýsköpun í atvinnulífinu. Þar er um ræða tvö verkefni. Annars vegar eru rannsóknir í fiskeldi og fiskalífeðlisfræði í tengslum við þorskeldi. Það samstarfsverkefni er einnig í samstarfi við Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og fyrirtæki á Vestfjörðum. Fyrirtækin hafa fram til þessa lagt áherslu á áframeldi þorsks sem hefur skapað mikla þekkingu á þorskeldi og lagt grunn að eldi frá klakstærð sem nú verður þungamiðja rannsóknanna.

Hins vegar er um að ræða veiðarfærarannsóknir á vegum Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði sem eru rannsóknir sem verið hafa í nokkurri lægð um tíma. Það er sérstaklega við hæfi að veiðarfærarannsóknir og þróunarvinna verði tekin upp að nýju á Ísafirði enda er þar byggt á sérkennum og styrkleika atvinnulífsins á svæðinu auk þess sem þær eru vel fallnar til að efla atvinnulíf og styrkja búsetu í víðara samhengi. Þá er rétt að minna á að teknar hafa verið upp rannsóknir á snjóflóðum, snjóflóðavörnum, sem er annað verkefni sem hvergi á betur heima en á Vestfjörðum þar sem snjóflóðahættan er einna mest á landinu. Þetta er það sem ég vildi nefna í þessu sambandi og það mætti nefna fleira.



[14:24]
Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það munar auðvitað um fimm störf á stað eins og Ísafirði. Það er því miður svo að sjávarútvegurinn hefur dregist saman á Vestfjörðum í heild og einnig á Ísafirði á undanförnum árum. Það er allt gott um það ef menn ætla að búa til byggðaáætlun og reyna að fylgja henni eftir og vonandi kemur eitthvað út úr því. En hæstv. forsætisráðherra sagði hér fyrir einhverjum missirum síðan, sennilega einu og hálfu til tveimur árum, núverandi forsætisráðherra, að það hlyti að fara að koma að Vestfjörðum og Norðvesturkjördæminu í að stuðla þar að atvinnuuppbyggingu. Það hefði auðvitað verið fróðlegt ef hæstv. forsætisráðherra hefði verið viðstaddur þessa umræðu.

Það er hins vegar áhugavert að taka á málum eins og voru kynnt á Ísafirði nýlega um rannsóknarstöð á veðurkerfum veraldar (Forseti hringir.) og byggja það upp.



[14:25]
Hlynur Hallsson (Vg):

Frú forseti. Það er dálítið skemmtilegt að þau flokkssystkin hv. þingmaður Kristinn H. Gunnarsson og hæstv. iðnaðarráðherra og reyndar byggðamálaráðherra skuli vera hér saman í ræðustól að spjalla um atvinnumál á Ísafirði. En þetta leiðir huga minn að öðru máli vegna þess að Síminn, eða þetta fyrirtæki Já, er auðvitað orðið einkafyrirtæki og ríkisstjórnin getur þess vegna fríað sig allri ábyrgð á að störfum sé fækkað á Ísafirði. En það er annað mál hér fyrir þinginu, það er að háeffa Ríkisútvarpið. Þess vegna hef ég miklar áhyggjur af því í augnablikinu hvað verði gert þar á bæ. Verður dregið úr starfsemi Ríkisútvarpsins á Ísafirði? Eða Akureyri eða Egilsstöðum? Verður einhver af þessum stöðvum lögð niður? Ég mundi óska þess að hv. þingmaður hefði meiri áhyggjur af því sérstaklega vegna þess að Framsóknarflokkurinn, stór hluti hans, (Forseti hringir.) er einmitt á móti því að hlutafélagavæða Ríkisútvarpið.



[14:27]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég vil minna á að þegar rætt var um sölu Símans hér þá mátti heyra á stjórnarliðum að þar væri bara um sérstakt byggðamál að ræða. En nú virðist raunin vera önnur. Við sjáum að, ekki bara á Ísafirði heldur líka á Blönduósi, fækkar störfum. Ég er á því að menn geti ekki gert svona. Menn verða að svara fyrir þetta. Hæstv. ráðherra svarar út og suður. Ætlar hún að bregðast við? Ég gat ekki heyrt að hún segi eitt eða neitt um það. Það var inni í þessum vaxtarsamningi sem er nú lítið annað en fallegt plagg og ég á eftir að sjá að hann hafi einhver áhrif. Þetta er því miður eitt af þessum glansritum sem koma frá iðnaðarráðuneytinu rétt eins og skýrslan sem ég var að ræða hér áðan um skipasmíðaiðnaðinn. Það koma einhverjar skýrslur. Ekki á hverju ári, alla vega á öðru hverju ári. Og kannski margar á ári. En síðan er ekkert gert með þær. Ég er á því að umræðan um byggðamál fari að brenna meira og meira á fólki í landinu og vonandi fara framsóknarmenn að átta (Forseti hringir.) sig á að því að þessi umræða skiptir máli.



[14:28]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Fáir landshlutar hafa orðið verr úti í ruðningsáhrifum stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar en einmitt Vestfirðir. Hæstv. ráðherra sendi þeim þá kveðju á sl. sumri þegar var verið segja þar upp fjölda fólks í fiskvinnslu vegna ruðningsáhrifanna, að ruðningsáhrifin vegna stóriðjuframkvæmda væru af því góða því þá leitaði fólk væntanlega í önnur störf. Þetta voru kaldar kveðjur til Vestfirðinga.

Sala Símans. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar — græns framboðs gagnrýndum hana. Við vorum á móti sölu Símans og töldum að það ætti að beita styrk hans til að efla þjónustu í samfélaginu út um land. Framsóknarflokkurinn valdi að ganga fram fyrir skjöldu og selja Símann og þar með þjónustuna og setja hana í uppnám. Þannig að uppsagnirnar á Ísafirði, Blönduósi og Siglufirði daginn eftir að skrifað var undir samninginn komu okkur ekkert á óvart. Þetta er þessi einkavæðingarstefna sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og byggðamálaráðherra hefur gengist fyrir. Og hvað með Orkubú Vestfjarða nú? (Forseti hringir.) Frú forseti. Ég hef áhyggjur af þessari stefnu.



[14:29]
Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er fyllsta ástæða til að kalla eftir viðbrögðum stjórnvalda við afleitri byggðaþróun á Vestfjörðum. Það er líka fyllsta ástæða til að kalla eftir viðbrögðum hæstv. ráðherra við áframhaldi á þeirri þróun í framhaldi af einkavæðingu Símans. Ég get alveg tekið undir að menn eru að gera ýmislegt sem væntanlega mun verða til að styrkja atvinnulífið, eins og vaxtarsamninginn sem hæstv. ráðherra nefndi eða samkomulag milli einstakra stofnana um að auka rannsóknir á tilteknu sviði.

En atriðin sem hæstv. ráðherra nefndi voru komin til sögunnar áður en sú ákvörðun var tekin sem ég er að spyrja hæstv. ráðherra um viðbrögð við. Ég fæ því ekkert annað út úr svörum ráðherrans en að ráðherrann sér ekki ástæðu til að bregðast við með neinum hætti í tilefni af þessum tíðindum að öðru leyti en að fagna því að opinber aðili, bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, hugsi sér að reyna að gera eitthvað til að bæta úr. Mér finnst það standa reyndar nær hæstv. ráðherra að beita sér í þeim efnum en bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar þótt ég efist ekki um að þeir vilji allt gera sem er á þeirra valdi til að bæta úr þessu. En sveitarfélög hafa ekki mikla peninga til að standa í atvinnuuppbyggingu eða styrkja atvinnulíf á sínu svæði. Ríkið hefur haft það sem sitt verkefni.

Virðulegi forseti. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar óskaði eftir því að fá keypta þessa starfsstöð. Það var ekki í boði. Fyrirtækið Síminn var ekki tilbúið til að leyfa öðrum aðila að reka hana áfram. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að svör hæstv. ráðherra eru mér veruleg vonbrigði. Mér finnst þau sýna töluvert skeytingarleysi í garð íbúa þessa landshluta sem svo mikið hafa mátt þola á undanförnum 15 árum í fækkun íbúa og samdrætti í atvinnulífi.



[14:32]
iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Það kom mér ekki á óvart að hv. þingmenn væru neikvæðir og kæmu með neikvæð innlegg og það er langt gengið þegar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er orðinn sá jákvæðasti í hópnum. Auðvitað vita hv. þingmenn það mjög vel að alltaf er verið að leita leiða til að styrkja atvinnulífið af hálfu ríkisvaldsins, en það er ekki eins og það sé einfalt mál. Við vitum dæmi þess víða á landsbyggðinni að nógir peningar eru í sjóðum og nóg af fyrirtækjum sem vilja styrkja atvinnulífið en engu að síður ganga peningarnir ekki út vegna þess að ekki eru fyrir hendi áhugaverð tækifæri til atvinnusköpunar. Þetta er ekki eingöngu spurning um fjármagn, það þurfa líka að vera áhugaverðir kostir í stöðunni. Við erum alltaf að leggja okkur fram um að svo verði, t.d. með því að efla nýsköpun — nú er fram undan sérstakt átak í þeim efnum — og fleira mætti telja. Hv. þingmenn tala um að það hafi verið neikvætt að selja Símann vegna landsbyggðarinnar. En það er síður en svo. Það er búinn til fjarskiptasjóður upp á 2,5 milljarða sem mun styrkja fjarskiptakerfið í landinu. Það er eins og þetta sé ekki þess virði að tala um það einu sinni. Að þingmaður Norðvesturkjördæmis leyfi sér að koma hér upp, Sigurjón Þórðarson, og tala um vaxtarsamning Vestfjarða sem eitthvert ómerkilegt plagg. Ég veit að Vestfirðingar eru eyðilagðir þegar þeir heyra þingmenn sína tala svona. (Gripið fram í.) Og ef hv. þingmenn Norðvesturkjördæmis halda að það sé mikilvægast fyrir þetta kjördæmi og fyrir þessi svæði að tala allt niður á svæðinu þá er það mikill misskilningur.

Í byggðaskýrslu, sem ég hef nýlega dreift í þinginu, kemur fram að á tímabilinu 1996–2000 fækkaði íbúum landsbyggðarinnar um 2.000, fjölgaði hins vegar um 1.500 á síðustu 4 árum sem ég hef verið byggðamálaráðherra.