132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
mál Ölgerðarinnar gegn umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur.
fsp. SigurjÞ, 296. mál. — Þskj. 315.

[14:35]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég hef lagt fram fyrirspurn fyrir hæstv. umhverfisráðherra um hluti sem skipta okkur miklu máli, hún varðar hollustu og öryggi matvæla. Ég er á því að hæstv. umhverfisráðherra ætti að sinna þessu af mikilli kostgæfni og ég er viss um að hún hefur örugglega velt þessu fyrir sér. Ef svo er ekki þá væri það ærið undarlegt.

Þann 17. mars í fyrra kvað úrskurðarnefnd um hollustuhætti og mengunarvarnir upp úrskurð. Þessi nefnd, fyrir þá sem ekki vita það, er ein af 58 úrskurðarnefndum í stjórnsýslunni. Ég hef svo sem miklar efasemdir um þessar úrskurðarnefndir, sem hefur komið hér fram áður. Þetta er orðinn fjöldinn allur af nefndum sem starfa einhvers staðar úti í bæ. Það kemur fram í þessum úrskurði nefndarinnar að hún líti á að lög nr. 93/1995, um matvæli, séu með öllu ónothæf í því að matvælaframleiðendum verði ekki selt sjálfdæmi um hvaða bætiefnum þeir bæta í matvörur og drykki landsmanna og í hve miklum mæli.

Flestum er ljóst að íblöndun bætiefna, svo sem vítamína í miklum mæli, getur beinlínis verið óholl og á það sérstaklega við um börn. Það hefur komið fram í úrskurði þessarar nefndar að yfirvöldum hefur beinlínis verið bannað að ætlast til þess að matvælaframleiðendur vari börn við að neyta ákveðinna drykkja. Einnig hefur hún kveðið upp þann úrskurð að yfirvöldum matvælaeftirlits er beinlínis bannað að koma í veg fyrir dreifingu matvæla sem geta verið óholl. Þess vegna ætti það að vera forgangsverkefni umhverfisráðherra, eins og ég sagði í byrjun, sem fer með málefni matvæla í ríkisstjórninni, að bregðast við þessum úrskurði. Hefur hæstv. ráðherra brugðist við þessum úrskurði og ef svo er hver hafa viðbrögðin verið? Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit hafa beitt 19. gr. reglugerðar nr. 285/2002 sem segir að það eigi að sækja um leyfi til Umhverfisstofnunar. En nú segir í þessum úrskurði, sem ég óska eftir viðbrögðum hæstv. ráðherra við, að 19. gr. sé marklaus, það sé marklaust að menn eigi að sækja um leyfi. Það hljóta því að vera lágmarksviðbrögð hæstv. ráðherra að fella 19. gr. úr gildi. Það er með öllu óþolandi að vera með í reglum og lögum einhverjar greinar sem hafa ekkert gildi.



[14:38]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. og fyrirspyrjanda, Sigurjóni Þórðarsyni, að hollusta og öryggi matvæla er mjög mikilvægt málefni fyrir okkur öll og þess vegna skiptir miklu máli að þar sé vel að verki staðið. Í úrskurði úrskurðarnefndar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, sem var kveðinn upp þann 21. mars 2005 í máli Ölgerðar Egils Skallagrímssonar gegn umhverfis- og heilbrigðisstofu Reykjavíkur, var dreifingarbann sem sett var á vítamínbættan drykk ölgerðarinnar Kristall PLÚS fært úr gildi. Það er óhætt að segja að úrskurður nefndarinnar kom á óvart.

Í reglugerð um aukefni, nr. 285/2002, er bráðabirgðaákvæði þar sem segir að þar til reglugerð um íblöndun bætiefna verði sett geti Umhverfisstofnun veitt leyfi til notkunar bætiefna. Í framangreindum úrskurði segir m.a.:

„Eigi verður séð að refsingar og viðurlög í reglugerð um aukefni í matvælum nr. 285/2000, með stoð í lögum um matvæli í XI. kafla laga nr. 93/1995, eigi við um úrræði stjórnvalda um bætiefni í matvælum.“

Með þessu er gefið til kynna að ekki sé rétt að fjalla um íblöndun bætiefna í reglugerð um aukefni.

Í umhverfisráðuneytinu hefur verið unnið að nýrri reglugerð um íblöndun bætiefna og í drögum að reglugerð sem nú liggja fyrir er gert ráð fyrir að íblöndun bætiefna sé háð leyfi Umhverfisstofnunar og að heimilt sé að setja skilyrði, m.a. um merkingar viðkomandi vöru, í leyfið. Einnig eru í drögunum ákvæði um þvingunarúrræði og viðurlög. Vegna ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið um frjálst vöruflæði þarf að tilkynna drög að reglugerð um íblöndun bætiefna, samanber lög um skipti á upplýsingum um tæknilegar reglur um vörur og fjarþjónustu, nr. 57/2000, þar sem ekki eru í gildi samevrópskar reglur um íblöndun bætiefna. Þetta ferli stendur nú yfir og búast má við að niðurstaðan liggi fyrir á næstu vikum. Þetta tekur sinn tíma.

Ég vil einnig geta þess í þessu sambandi að á öðrum Norðurlöndum eru nú í gildi reglur um að íblöndun bætiefna sé háð leyfum þannig að ég á ekki von á öðru en að þetta gangi fram með þeim hætti.



[14:42]
Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir svörin en það væri fróðlegt að fá nánari upplýsingar um það hvenær þess er að vænta að þessar reglur nái fram að ganga og hvort ekki sé eðlilegt fram að því að fella umrædda 19. gr. úr gildi. Það er ljóst, samkvæmt úrskurðarnefndinni, að hún hefur enga stoð í lögum. Það er einfaldlega villandi fyrir framleiðendur að hafa þessa grein, fyrirtæki sækja um á grundvelli hennar og greiða jafnvel gjald og svo kemur í ljós að það er ekki hægt að krefjast þess að menn fari að reglunum.

Ég vil taka það skýrt fram að ég er alls ekki fylgjandi því að allar reglur séu mjög strangar og ekki heldur að þær séu mjög flóknar. Það er mjög mikilvægt hvað varðar matvælaeftirlit að við höfum einfaldar og skýrar leikreglur og menn séu ekki með einhvern texta inni í reglugerðum og öðru sem á ekkert að fara eftir. Það er fjöldinn allur af ákvæðum í reglugerðum sem ekki er farið eftir í þessum geira sem hæstv. ráðherra stjórnar. Ég þekki það úr mínu fyrra starfi. Ég tel því mjög mikilvægt að taka til einmitt í þessum geira, vera ekki með óþörf ákvæði inni og ef setja á reglur verði það gert fljótt og örugglega.

Að öðru leyti þakka ég hæstv. ráðherra fyrir svörin og óska eftir því að hún geri grein fyrir því, ef hún hefur tök á, hvenær þess er að vænta að þessar reglur verði settar.



[14:44]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Varðandi það hvenær þess sé að vænta að þessu ferli verði lokið þá get ég ekki sagt nákvæmlega fyrir um það. Miðað við reynsluna gæti það kannski verið í mars sem við gætum búist við því. Ferli af þessu tagi tekur nokkra mánuði, allt upp í hálft ár.

Hvað snertir að fella út 19. gr. þá tel ég að það sé ekki rétt því að annars vegar er þar um að ræða reglugerð um aukefni en hins vegar er um að ræða reglugerð um íblöndun bætiefna þannig að ég tel ekki rétt að fella burtu 19. gr.