132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
sjófuglar.
fsp. MÁ, 338. mál. — Þskj. 372.

[14:45]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Fréttir í sumar og haust bentu til þess að sjófuglastofnar við landið væru enn í þeirri lægð sem þeir voru í í fyrra eða að hruni komnir. Auk stuttnefju og langvíu og fleiri svartfugla sem rætt var um í fyrra eru tíðindi þessa vetrar, hausts og síðasta sumars þau að hinn sérstaki vinur okkar krían hefur farið halloka og orðið fyrir skakkaföllum. Varp kríunnar er talið hafa mistekist víðast um land.

Við ræddum þetta í fyrra þegar hæstv. umhverfisráðherra svaraði fyrirspurn minni um svipað efni og gerði með glæsibrag. Þá ræddum við um að hrun af þessu tagi þyrfti ekki að skaða stofninn þótt einstaklingar hans verði fyrir barðinu á því eða séu í lægð eitt, tvö eða þrjú tímabil. En til langframa komast stofnarnir í hættu og þess vegna þurfum við að vita nákvæmlega hvað er í gangi til að geta brugðist við ef okkur er það unnt.

Þessi tíðindi gilda ekki líkt og var í fyrra bara um Ísland heldur eru sömu fréttir sagðar með tilbrigðum á öllu svæðinu við norðanvert Atlantshaf og raunar inn á Norðursjó. Í sumar og í haust mátti sjá töluverða umræðu í Bretlandi, t.d. á BBC-vefnum, um breytingar á stofnum sjófugla. Þar töluðu menn um að annars vegar væru loftslagsbreytingar mjög skýrar, sögðu blaðamenn og fræðimenn sem til var vitnað, sem yllu þessu en einnig gætu fiskveiðar átt hlut að máli. Við ræddum líka um það í fyrra, um hvor orsökin væri á bak við þetta eða báðar. En auðvitað kemur líka til greina, sem við verðum að muna, að í einstökum tilvikum, svo sem eins og um kríuna, geta ráðið tilviljunarbundnar eða lítt skýranlegar ástæður sem náttúran ósköp einfaldlega svarar okkur ekki um.

Ég hef þess vegna lagt fram fyrirspurn sem liggur fyrir á þingskjali. Ég spyr sérstaklega um tillögur sem hæstv. ráðherra ætlaði að fá í fyrra um samvinnu Náttúrufræðistofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Háskóla Íslands á högum sjófugla.



[14:48]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Í apríl á seinasta ári hélt umhverfisráðuneytið fund með fulltrúa sjávarútvegsráðuneytis og þeirra stofnana sem helst hafa lagt stund á sjófuglarannsóknir, þ.e. Hafrannsóknastofnunar, Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þar kom fram almennur áhugi á að efla sjófuglarannsóknir hér við land í samstarfi þessara stofnana. Ákveðið var að fullvinna stöðuskýrslu um sjófuglarannsóknir og forgangsraða tillögum um rannsóknir.

Fulltrúar stofnananna þriggja hafa síðan sameiginlega sótt um fjármögnun frá Rannís til að endurmeta á þremur árum varpstofna íslenskra bjargfugla. Slíkt mat hefur ekki verið gert í rúm 20 ár. Sú umsókn hljóðaði upp á 7 millj. kr. kostnað á þremur árum, umfram laun og aðstöðu umsækjenda. En heildarkostnaður rannsóknaáætlunarinnar er áætlaður um 18 millj. kr. Jafnframt hafa leiðir til að efla vöktun á stofnbreytingum bjargfugla á Íslandi og nýliðun verið ræddar milli stofnananna.

Krían er langlífur fugl og lengi hefur verið þekkt að varpafkoma er mjög breytileg milli ára. Mörg dæmi eru þekkt um að kríur hafi svæðisbundið ekki komið upp neinum ungum einstök ár og er ekkert nýtt við það. Ástæður afkomubrests hjá kríu hafa ekki verið rannsakaðar beint hérlendis en menn hafa tekið eftir ungadauða sem rekja má til fæðuskorts og vosbúðar. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á tengsl fæðuframboðs og varpafkomu og ef framboð fæðu er lítið þurfa foreldrar að vera lengur á veiðum og jafnvel bæði í einu. Litlir kríuungar þola illa fjarveru beggja foreldra því að þeir stjórna ekki líkamshita sínum sjálfir. Þess vegna þarf lítið út af að bera. Kuldi og væta þegar klak er í hámarki getur riðið baggamuninn.

Sumarið 2005 varð vart afkomubrests hjá kríu víða um land. Auk þess var afkoma lunda í Vestmannaeyjum léleg. Lundar sáust bera óvenjuleg fæðudýr í unga sína. Það bendir til þess að framboð sandsílis og ungviðis loðnu og síldar auk ljósátu hafi verið með minna móti. Engar mælingar fara fram á framboði helstu fæðudýra sjófugla sem reyndar eru þau sömu og margra nytjafiska.

Arnþór Garðarsson prófessor hefur hafið vöktun á varpafkomu ritu og ráðgert er að efla þá vinnu í samstarfi Líffræðistofnunar Háskólans, Hafrannsóknastofnunar, Náttúrufræðistofnunar Íslands og náttúrustofa víða um landið. Varpafkoma ritu er auðmælanleg og lýtur líklega sömu lögmálum og afkoma kríuvarps og lundavarps. Mjög takmörkuð vöktun er í gangi á bjargfuglum í dag. Erfitt er að túlka þær niðurstöður á landsvísu. Þau gögn sem liggja fyrir benda þó til töluverðrar fækkunar stuttnefju síðustu 20 ár. Langvíu og ritu fjölgaði lengst af en langvíum fækkaði þó sumarið 2005. Álka stóð í stað. Ekki er vitað hvort sömu breytingar hafa átt sér stað í stóru vestfirsku fuglabjörgunum. Þar verpa 80% langvía og álkna og 90% stuttnefja. Vegna stærðar þessara bjarga eru veruleg aðferðafræðileg vandamál við mat á stofnstærð fuglanna sem kalla á tímafreka úttekt.

Víðtækar rannsóknir hafa farið fram á fæðuvali sjófugla við Ísland og fæða þeirra á öllum árstímum er ágætlega þekkt. Breytileiki í framboði fæðu er hins vegar ekki vaktaður í dag og eru því tengsl fæðuframboðs, afkomu og stofnstærðar lítt þekkt. Mikilvægt er að efla rannsóknir á þessum tengslum og það gæti leitt til þess að nota megi fjölda og afkomu sjófugla sem vísi um ástand hafsins.

Breytingar á fuglastofnum hér og í nágrannalöndum hafa ekki verið tengdar með skýrum hætti við loftslagsbreytingar. Sýnt hefur verið fram á að sveiflur í loftslagi hafi áhrif á afkomu sjófuglastofna. Menn hafa auk þess haft áhyggjur af neikvæðum áhrifum sandsílaveiða á fuglastofna umhverfis Norðursjó og má telja líklegt að lífríki hafsins taki stakkaskiptum ef spár um breytingar á loftslagi á næstu árum ganga eftir. Afleiðingar hækkaðs hitastigs eru flókin ferli og erfitt að spá fyrir um langtímaafleiðingar. Breytt hitastig getur valdið verulegum breytingum á útbreiðslu lífvera, sumar hverfa en aðrar koma í staðinn. Þetta hafa íslenskir vísindamenn m.a. bent á í umfjöllun um nytjastofna sjávar á Íslandsmiðum.



[14:53]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel þessa umræðu áhugaverða að mörgu leyti og sérstaklega þegar menn ræða ekki aðeins um einn og einn dýrastofn í einu, líkt og í umræðum um þorskveiðar. Þá taka menn einhverja prósentu af stofni en ég tel miklu nær að horfa á lífríkið í samhengi. Ég hef séð það í erlendri vísindaskýrslu að menn sjá sveiflur í fjölda sjófugla og í fiska, og að þessar sveiflur fylgjast að.

Þeir fuglar sem við ræðum um hér lifa á sandsíli. Við vitum einnig, af veiðum undanfarins árs, að ýsu hefur fjölgað gífurlega mikið. Hún étur að einhverju leyti sömu fæðu og sjófuglarnir þannig að það má vera að skýringin á fugladauðanum kunni að vera sú að ýsan aféti kríuna. Það er spurning sem vert er að spyrja sig og ég fagna því að Náttúrufræðistofnun og Hafrannsóknastofnun ætla að vinna saman að lausn þeirrar gátu.



[14:55]
Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Bágt gengi sjófuglastofna við landið er mikið áhyggjuefni. Mér finnst að það geri að verkum að við Íslendingar og íslensk stjórnvöld ættum að íhuga leiðir til að stórauka fuglarannsóknir á Íslandi. Ísland er mikilvæg varpstöð fyrir fjölmargar varpfuglategundir og sjófugla á Norður-Atlantshafi og er hugsanlega um að ræða sóknarfæri fyrir íslenska vísindamenn til að vinna að samstarfsverkefnum t.d. við erlendar rannsóknarstofnanir, á fuglastofnum umhverfis landið.

Ég tel að það sem minnst hefur verið á hér, að fuglarnir hafi átt erfitt uppdráttar, sé einmitt eitt af merkjum um að vistkerfið í hafinu umhverfis Ísland sé í ójafnvægi. Það er eitthvað mikið að og ekki allt með felldu. Hér var minnst á sandsíli, samspil sandsílis og ýsu. Við getum líka minnst á loðnu og hugsanleg tengsl milli loðnuveiða og lélegs gengis þessara fuglastofna. Þannig mætti halda áfram lengi.



[14:56]
Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég þakka ágæt svör ráðherrans og góðar umræður að auki. Það kemur kannski ekki á óvart að þingmanni þyki hægt ganga. Í fyrra var svarað með því ágæta svari að tengja ætti saman þessar þrjár rannsóknarstöðvar. Nú hefur það að vísu gerst að þær hafa verið tengdar saman en rannsóknir eru ekki hafnar og fjárhagsgrundvöllur þeirra ekki ljós. Við skulum vona að það gangi vel.

Ég tek undir með síðasta hv. ræðumanni um að rannsóknir á þessu atriði séu mjög merkilegar. Við þurfum að fá úr því skorið hvað af þessu kann að stafa af veiðum okkar í sjó og hvað má rekja til loftslagsbreytinga. Það er augljóst að vistkerfið, eins og hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson sagði, er ekki í jafnvægi. Hvort það er tímabundið vitum við ekki. Við vitum af kreppum í sjófuglastofnum langt aftur í tímum. Mig minnir að umhverfisráðherra hafi í fyrra nefnt árið 1327 í annálum frá fræðimönnum sínum. Það kann að vera um það að ræða. En hitt er sennilegra að þetta séu annars vegar áhrif sjávarútvegs okkar og hins vegar loftslagsbreytinganna.

Ég vil segja að lokum að miklu máli skiptir að rjúfa eða taka niður þá múra sem hér hafa spillt fyrir á milli rannsókna í sjó og rannsókna á landi. Sjófuglarnir teljast landmegin og heyra undir umhverfisráðherra meðan fæða þeirra heyrir undir sjávarútvegsráðherra. Fæðan er ekki rannsökuð nema svo vilji til að Hafrannsóknastofnun skipti sér af henni vegna þess að hún varði nytjafiska. Hafrannsóknastofnun hefur hingað til aðeins rannsakað það sem kemur nytjafiskum við. Ég fullyrði að það er m.a. ástæðan fyrir því að við vitum jafnlítið um vistkerfi sjávar við Ísland og raun ber vitni. Ég vona að úr þessu verði bætt.



[14:58]
umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka þessa ágætu umræðu. Ég vil líka nefna það sérstaklega að staðsetning fuglabjarga, þar sem er auðugt fuglavarp, er engin tilviljun. Þar eru auðvitað hentugir varpstaðir fyrir fuglana nálægt gjöfulum fiskimiðum. Þess vegna geta tiltölulega litlar breytingar á dreifingu í fæðunni valdið því að sjófuglabyggðir leggist af. Sjófuglar eru líka áberandi og það er fremur auðvelt að telja þá ef við berum þá saman við aðrar lífverur. Ég tel að það væri merkilegt innlegg í rannsóknir. Betri þekking á samspili átu og umhverfisþátta fyrir sjófuglastofna hér á landi er nauðsynleg til að skýra og fylgjast með þeim breytingum sem geta orðið.

Mér fannst líka mjög góð ábending sem hv. þm. Mörður Árnason fram með, þ.e. að nauðsynlegt væri að brjóta niður múra á milli fræðigreina og stofnana. Ég tel að það sé bráðnauðsynlegt þannig að þau tæki, sem við höfum til að skoða þetta eins vel ofan í kjölinn og hægt er, vinni saman, þær stofnanir vinni saman sem stunda þessar rannsóknir. Samspil tegundanna þarf að rannsaka eins vel og kostur er. Það gæti þá leitt til þess að nota megi, eins og ég nefndi hér fyrr í ræðu minni, t.d. tölur um fjölda og rannsóknir á afkomu sjófugla sem vísi um ástand hafsins.