132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
kynferðisafbrotamál.
fsp. JóhS, 271. mál. — Þskj. 285.

[15:15]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fram kom í nóvember sl. að umfang mála úr barnaverndar- og réttarvörslukerfinu sem snerta kynferðisbrot gegn börnum hafi nær tvöfaldast á tíu árum á sama tíma og sakfellingum fjölgaði aðeins um eina. Málunum fjölgaði úr 123 að meðaltali á árunum 1995–1997 í að meðaltali 222 mál á árunum 2002–2004 en sakfellingum fjölgaði hins vegar einungis um eina á þessu sama tíu ára tímabili eða úr 16 í 17.

Á þessu verður að leita skýringa því það er fullkomlega óeðlilegt og hreinlega eitthvað að þegar sakfellingum fjölgar aðeins um eina á sama tíma og málum hefur fjölgað um helming. Ástæða er til að taka fram að þetta eru mál sem barnaverndaryfirvöld hafa til meðferðar en ekki tilkynningar um meint kynferðisbrot en þá er búið að sía út mál sem ekki var talin ástæða til að kanna frekar. Sjö ár eru liðin frá því að Barnahús tók til starfa sem gjörbreytti aðstöðu barna sem verða fyrir kynferðisbrotum. Forstjóri Barnaverndarstofu hefur haldið því fram að breytingin sem gerð var á lögunum 1999 um meðferð opinberra mála hafi verið afar óheppileg fyrir framgang mála í réttarvörslukerfinu. Í Barnahúsi eru það ólíkir fagaðilar, barnaverndarstarfsmenn ásamt lögreglu, sem sameiginlega skoða þessi mál sem gafst mjög vel þar sem sérfræðingar Barnahúss taka rannsóknarviðtöl við börnin án þess að fulltrúar réttarvörslukerfisins séu viðstaddir.

Áhrifin af lagabreytingunni sem gerð var 1999 eru þau að meiri hluti skýrslutaka af börnum fer fram í dómshúsi en ekki lengur í Barnahúsi sem gerir lögreglu og ákværuvaldi erfiðara um vik en meðan skýrslutakan fór fram í Barnahúsi sem er auðvitað miklu manneskjulegri meðferð á barni sem lent hefur í svo hræðilegum glæp sem kynferðisbrot gegn barni er. Í dómshúsi er frumskýrslugerð gerð að dómsathöfn og í því felst að verjandi sakbornings og jafnvel sakborningurinn sjálfur hefur rétt til að vera viðstaddur frumskýrslutöku af barni. Forstjóri Barnaverndarstofu hefur lýst því þannig að með þessu sé ekki jafnræði með ákæruvaldi og sakborningi en yfirheyrslan yfir sakborningi fer þá fyrst fram eftir að frumskýrslutöku yfir barni er lokið, sem er afar óeðlilegt. Rannsókn sem gerð hefur verið í Svíþjóð sýnir að þeim mun meira sem sakborningur veit um gögn lögreglu á hann auðveldara með að blekkja og þegar sakborningur er viðstaddur skýrslutöku yfir barni veit hann nákvæmlega hvaða sönnunargögn lögreglan hefur og getur jafnvel hagrætt sönnunargögnum.

Ég hef því lagt nokkrar spurningar fyrir ráðherra sem lúta að því sem ég hef hér lýst, m.a. það hvort ráðherra telji eðlilegt að á sama tíma og aðrar þjóðir, t.d. Svíar og Norðmenn, eru að koma á fót Barnahúsi að íslenskri fyrirmynd hefur sú þróun átt sér stað hér að meiri hluti skýrslna af börnum eru teknar í dómshúsi og minni hluti í Barnahúsi, sem ég tel að gangi fullkomlega gegn hagsmunum barnsins og því eigi að breyta. Fyrirspurnirnar lúta í fyrsta lagi að jafnræði sem ég hér nefni að ekki sé með ákæruvaldi og sakborningi og hver sé skoðun ráðherrans á því. Í öðru lagi er spurt um Barnahúsið. Í þriðja lagi er spurt hvort ráðherra telji ástæðu til að breyta lögum um meðferð opinberra mála. Og í fjórða lagi hvaða skýringu ráðherra telji vera á því að þótt (Forseti hringir.) kynferðisbrotum hafi fjölgað verulega á síðustu árum hefur sakfellingum aðeins fjölgað um eina.



[15:19]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Þetta er mikið mál og erfitt að svara því hér á skömmum tíma. Engar rannsóknir liggja fyrir um að það að sakborningur og verjandi séu viðstaddir skýrslutöku leiði til þess að ekki sé sakfellt í máli. Það hefur hvergi hefur komið fram nein niðurstaða sem byggir á rannsóknum sem rökstyður það.

Varðandi breytinguna sem gerð var á lögunum 1999 þá er það svo, eins og fram kom, að lögunum um meðferð opinberra mála var breytt og það var talið börnum til hagsbóta til að þau þyrftu einungis einu sinni að koma fyrir dóm og gefa skýrslu í stað þess að þurfa að mæta ólíkum aðilum oft og rifja upp sama málið. Það að þessir aðilar séu viðstaddir sem fyrirspyrjandi nefndi er í samræmi við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og við getum ekki gengið fram á þann veg í þessum málum að við göngum gegn þeim sáttmála.

Ég tel líka að það sé ekki rétt sem kemur fram í fyrirspurninni, sem fyrirspyrjandi gefur sér, að hér sé sú þróun að meiri hluti skýrslna af börnum séu teknar í dómshúsi og minni hluti í Barnahúsi. Ég hef ekki tölur sem sýna þetta og ég veit ekki hvaðan þessar fullyrðingar eru komnar og á hverju þær byggjast. Þeir sem að þessum málum starfa á vegum dómsmálaráðuneytisins telja að þarna sé kannski jafnt á komið ef það eru þá ekki fleiri yfirheyrslur sem fara fram utan dómsalanna. Yfirheyrsla á barni er dómsathöfn og það er því dómari sem hefur forráð á því hvar sú yfirheyrsla fer fram. Hæstiréttur hefur ítrekað staðfest að sá háttur sem t.d. dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur hafa haft standist fyllilega kröfur laganna um skýrslutöku.

Þegar rætt er um þetta má velta því fyrir sér hvort skynsamlegt sé að rífa barnið úr umhverfi sínu úti á landi og flytja það í Barnahús ef yfirheyra þarf það út af slíku máli. Ég hef heimsótt héraðsdómstóla víða um land þar sem búin hefur verið sérstök aðstaða til þess að taka skýrslur af börnum við þessar aðstæður. Ég tel að í ýmsu tilliti sé það skynsamlegri háttur að nýta þá aðstöðu í heimabyggð heldur en að gera kröfu til þess að þessi börn séu flutt til Reykjavíkur í Barnahús til skýrslutöku. Þetta verða menn að hafa í huga þegar um þessi mál er rætt og menn velta þessum þáttum fyrir sér. Mestu máli hlýtur að skipta að rétt sé staðið að málum og að málsmeðferð sé vönduð eins og lög gera ráð fyrir.

Lögin um meðferð opinberra mála eru til endurskoðunar og þar er að sjálfsögðu farið yfir þau sjónarmið sem fram hafa komið frá því að breytingin var gerð 1999 á lögunum um meðferð opinberra mála og önnur sjónarmið sem fyrir liggja. Það verður tekin afstaða til þeirra við endanlega gerð frumvarpsins og síðan verður málið náttúrlega rætt í þinginu og þá hafa þingmenn tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.

Varðandi þá fullyrðingu sem kemur fram í lokaspurningunni um að kynferðisbrotamálum hafi fjölgað verulega á síðustu árum þá liggja núna fyrir nýjar tölur, Afbrotatölfræði 2004 frá ríkislögreglustjóra, og þar kemur fram að brotum sem varða blygðunarsemisbrot og kynferðisbrot hafi fækkað 2004. Slíkum brotum fjölgaði nokkuð árið 2000 og síðan aftur árið 2003 en fækkaði verulega árið 2004 þannig að ekki er rétt að segja og halda því fram að það sé einhver stígandi í þessu, þetta er mismunandi á milli ára, það er alveg greinilegt.

Í skýrslu ríkissaksóknara segir, með leyfi forseta:

„Málum er varða kynferðisbrot, einkum nauðgunarmálum, fjölgaði mjög árin 2002 og 2003 en fækkaði á árinu 2004. Árið 2004 bárust ríkissaksóknara 43 mál í þessum brotaflokki, þar af leiddu 10 mál til ákæru eða innan við fjórðungur málanna. Einu máli var vísað aftur til lögreglu til frekari rannsóknar. Af þeim 10 málum sem ákært var í var sakfellt í fjórum málum en sýknað í þremur. Þremur málum er enn ólokið í héraðsdómi.

Hlutfall niðurfelldra mála og sýknudóma er hátt í þessum málaflokki.“

Það á ekki heldur að alhæfa á þann veg eins og gert er í 4. spurningu hv. þingmanns um þessi mál, það verður (Forseti hringir.) að skoða þau á grundvelli þeirra rannsókna sem fyrir liggja.



[15:24]
Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki stillt mig um að koma með athugasemd um lánleysi ríkisstjórnarinnar varðandi þau þýðingarmiklu mál sem hér er hreyft en það er litið til Íslands erlendis frá hvað varðar Barnahúsið, sem var fjöður í hattinn fyrir ríkisstjórnina á sínum tíma, en það hefur allt verið látið reka á reiðanum með aðstöðuna í Barnahúsi síðan. Ég hlýt að varpa því inn í umræðuna, þó að ég geri ekki ráð fyrir því að hæstv. ráðherra svari því, hver ber ábyrgðina á því að læknisrannsóknir í Barnahúsi á börnum sem sætt höfðu kynferðisofbeldi lágu niðri í nærri eitt og hálft ár vegna kostnaðar? Heilbrigðisráðuneytið eða félagsmálaráðuneytið? Mér er kunnugt um að Barnaverndarstofa gerði allt sem hún gat til að upplýsa þessi ráðuneyti. Og svo hitt sem virðist ekki hafa náð í gegnum umræðuna: Er það sæmandi að verðleggja slíkar rannsóknir á 5 milljónir kr. sem þýðir u.þ.b. 200 þúsund á barn? Hvað er eiginlega að okkur við meðferð þessara mála?



[15:25]
Guðrún Ögmundsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka upp þetta brýna mál. Við eigum að gera það með reglubundnu millibili hér.

Mig langar líka að benda aðeins á varðandi þessa fyrirspurn að vandinn liggur í Reykjavík, hann liggur nefnilega ekki úti á landi. Hann liggur eiginlega í því að dómstólarnir í Reykjavík eða dómshúsið nýta ekki Barnahúsið. Það er fyrst og fremst Héraðsdómur Reykjaness sem nýtir það, hann er með öll sín mál í Barnahúsi.

Það er eitt sem er afar mikilvægt að hafa í huga, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á og ég vil nefna hér, að varðandi læknisrannsóknir þá er Barnahúsið eini sérhæfði staðurinn til að skoða lítil börn. Við getum rétt ímyndað okkur hvað það er vandasamt mál eftir kynferðislega misnotkun á alveg niður í tveggja ára gömlum börnum. Ég veit að við erum fyrirmynd annars staðar, við erum líka fyrirmynd í Bandaríkjunum, við erum að gera alveg ótrúlega góða hluti. Mér finnst því alveg spurning um að einhver rýnihópur vinni áfram með hæstv. dómsmálaráðherra varðandi það (Forseti hringir.) sem verið er að ströggla um hér.



[15:27]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra ber fyrir sig 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu varðandi það að meintur sakborningur og verjandi hans eigi að fá að vera viðstaddir skýrslutöku af barni í meintu ofbeldismáli gegn því. Ég vil segja það hér og gefa hæstv. ráðherra þá leiðsögn að það sé í hæsta máta óeðlilegt að meintur ofbeldismaður, meintur barnaníðingur og verjandi hans séu viðstaddir yfirheyrslu yfir barninu sjálfu, meintu fórnarlambi ofbeldismannsins, áður en ofbeldismaðurinn sjálfur gefur skýrslu. Það er ekki þannig sem 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu var hugsuð. Henni var ekki ætlað að auðvelda barnaníðingum að hagræða málflutningi sínum þannig að þeir geti tekið mið að málflutningi barnsins við sinn málflutning. Hæstv. ráðherra verður að skilja þetta. Þetta er í grundvallaratriðum misskilningur. Auðvitað geta sakborningar og verjendur þeirra verið viðstaddir eða hlustað á skýrslu fórnarlambsins eftir að (Forseti hringir.) ofbeldismaðurinn sjálfur er búinn að gefa sinn vitnisburð.



[15:28]
Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Það er ekki að heyra á hæstv. dómsmálaráðherra að hann hafi miklar áhyggjur af þessum málum eða að fórnarlömb í kynferðisbrotamálum geti vænst þess að það sé á einhvern hátt verið að hlúa betur að þeim og bæta stöðu þeirra. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að mér fundust svör hæstv. ráðherra með ólíkindum. Hefur hæstv. ráðherra enga skoðun á því hvernig það er fyrir þá sem lenda í slíku að þurfa að standa frammi fyrir því að ekki sé jafnræði með ákæruvaldi og sakborningum í kynferðisbrotamálum og að gerendur í slíkum málum séu viðstaddir þegar málin eru tekin fyrir? Það er með öllu óeðlilegt eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni.

Það er líka mjög óeðlilegt að ekkert skuli vera gert til að auka það að leitað sé til Barnahúss á sama tíma og aðrar þjóðir, eins og hér hefur komið fram, eru að nýta þá góðu reynslu sem við höfum af Barnahúsi. Allt á þetta upptök sín í þeirri lagabreytingu sem gerð var 1999. Það hefur komið fram opinberlega, af því að mér heyrðist á hæstv. ráðherra að það væri umdeilt hvort meiri hluti skýrslna sé tekinn í dómshúsi og minni hluti í Barnahúsi, það hefur komið fram opinberlega að svo sé þó að ráðherra reyni að mótmæla því.

Þó að ráðherra vitni hér í einhverjar nýjar tölur frá 2004 þar sem hann heldur því fram, sem ég skal ekkert rengja, að kynferðisbrotamálum hafi ekki fjölgað heldur fækkað frá árunum 2002 og 2003 þá er það engu að síður staðreynd að aðeins hefur verið ein sakfelling á því 10 ára tímabili sem ég vitnaði í þegar fjölgun á málum er frá 123 í 222. Og þó að um sé að ræða fækkun, virðulegi forseti, á kynferðisbrotamálum þá hefur sakfellingum ekki fjölgað, (Forseti hringir.) eða er það svo, hæstv. dómsmálaráðherra?



[15:30]
dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Vissulega tel ég þetta alvarleg mál og vissulega vil ég að lögregluyfirvöld og aðrir hafi þau tæki sem nauðsynleg eru til að taka á þessum málum, upplýsa þau og leiða þau til lykta og að þeir sem sekir eru hljóti dóm. Ég skil ekki hvernig hv. þingmanni dettur í hug að ég hafi aðra skoðun á því. Það sem ég er hins vegar hér að gera er að svara fyrirspurnum þingmannsins sem hún leggur fyrir mig og þar vitna ég í gildandi landslög sem Alþingi samþykkti árið 1999 um þetta, sem eru talin vera í samræmi við mannréttindasáttmála Evrópu hvort sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, eða einhverjir aðrir, skýrir hann á þann veg sem hún gerði. Það er talið að okkur beri að hafa lög okkar svona til þess að það sé í samræmi við 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og verða menn að líta til þess sáttmála hvort sem það kemur þeim vel eða illa í einstökum málum. Það verður að skoða sáttmálann og það sem í honum stendur um réttarstöðu fólks.

Varðandi þá tölfræði sem ég vitnaði til er þetta tölfræði annars vegar frá ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra en hv. þingmaður hefur ekki nefnt neina tölfræði máli sínu til stuðnings. Hún hefur ekki komið með nein gögn sem rökstyðja þær niðurstöður sem lesa má út úr þeim fyrirspurnum sem fyrir mig voru lagðar. (Gripið fram í.) Þetta eru getgátur og einhverjar ályktanir dregnar af einhverju sem ekki er sýnt fram á nægilega vel til að ég geti tekið afstöðu til þess hvort það er rétt eða rangt. Það er ekkert sem bendir mér á það að þróunin sé á þann veg sem hv. þingmaður (Gripið fram í.) segir.

Svíar og Norðmenn líta til Barnahúss og ég fagna því. En við höfum okkar lög um að dómarar ráði því hvar athafnir þeirra fara fram.