132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
háskólanám sem stundað er í fjarnámi.
fsp. BjörgvS, 183. mál. — Þskj. 183.

[15:40]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra hvort ráðherrann hyggist bregðast við fjárhagslegum vanda fræðslumiðstöðvanna á Suðurlandi, Vesturlandi, Suðurnesjum og reyndar Norðurlandi vestra líka, sem halda úti háskólanámi í fjarnámi sem allt stefnir í að leggist af eða verði í miklum ógöngum ef svo fer fram sem horfir. Mikil aðsókn er í fjarnámið í gegnum fræðslumiðstöðvarnar sem í grunninn hafa það hlutverk. Eins og fram kemur í samningi um símenntunarmiðstöðvar eru framlög ríkisins fyrst og fremst til þess að standa undir grunnstarfsemi stöðvanna, fjárveitingu upp á 9–10 milljónir á ári skilgreint sem grunnframlög og til grunnverkefna og tekur ekki til fjarnámsins á háskólastigi og þeirrar þjónustu sem símenntunarmiðstöðvarnar veita í því samhengi.

Mikil aðsókn er að þessu námi. Ábyrgðin er að sjálfsögðu ríkisins og ríkið á að standa undir henni en þróun mála hefur verið sú að ekki hefur tekist samkomulag á milli símenntunarmiðstöðvanna og hins opinbera um fjármögnun þeirra. Reiknað var út hjá símenntunarmiðstöðvunum að þessi þjónusta í fyrra hafi kostað þær á bilinu 10–12 milljónir hver. Því er um veruleg framlög að ræða.

Núna á sér stað ákveðin mismunun á milli símenntunar- og fræðslumiðstöðvanna eftir því hvar þær eru staðsettar á landinu. Stofnanir á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi vestra fá t.d. ekki hliðstæð framlög til uppbyggingar og miðlunar háskólanáms og Vestfirðir og Austurland. Nú síðast ákváðu t.d. Samtök sunnlenskra sveitarfélaga að verja 80 milljónum kr. til uppbyggingar háskólanáms á Suðurlandi til að koma í veg fyrir að háskólanámið og fjarnámsþjónusta Fræðslunetsins legðist hreinlega af. Markmiðið er að sjálfsögðu að auka framboð á háskólanámi á Suðurlandi og koma í veg fyrir að illa fari. En ábyrgðin er ríkisins og það þýðir engan undanslátt í málinu. Þetta eru merkilegar menntastofnanir sem ollu ákveðinni byltingu fyrir byggðirnar og sérstaklega í ljósi þess að hlutfall háskólamenntaðra úti á landi er mun lægra en á höfuðborgarsvæðinu, eins og fram kom í svari við fyrirspurn Önnu Kristínar Gunnarsdóttur fyrir áramót. Það hlutfall er verulega óhagsætt landsbyggðinni.

Þessar símenntunarstöðvar geta ekki sætt sig við það að fá ekki hliðstæð framlög og önnur landsvæði á landsbyggðinni og sveitarfélögin hafa því tekið málið í sínar hendur og sýnt lofsvert frumkvæði til að koma í veg fyrir að fjarnám í háskólamenntun leggist af. Því er ástæða til að skora á hæstv. menntamálaráðherra að beita sér fyrir því að ríkisvaldið axli þá ábyrgð sem það ber á þessu háskólanámi eins og öllu öðru og komi að fjárhagslegum rekstri og fjárhagsvanda fræðslumiðstöðvanna með myndarlegum og endanlegum hætti.



[15:44]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr á þá leið:

„Hyggst ráðherra bregðast við fjárhagslegum vanda fræðslumiðstöðvanna á Suðurlandi, Vesturlandi og á Suðurnesjum sem halda úti háskólanámi í fjarnámi, en allt stefnir í að það leggist af? Ef svo er, hvernig?“

Starfsemi nýju símenntunarmiðstöðvanna á landsbyggðinni hefur aukist jafnt og þétt eins og menn vita á síðustu árum. Miðstöðvarnar voru stofnaðar á árunum 1998–2003 en á því tímabili var gert sérstakt átak til þess að auka markvisst símenntun í landinu. Miðstöðvarnar eru sjálfseignarstofnanir, rétt er að undirstrika það, og rekstur þeirra er því ekki á ábyrgð ríkisins. Stofnaðilar miðstöðvanna eru sveitarfélög, fræðsluaðilar, stéttarfélög, ýmis félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki.

Nemendum sem sækja sér þjónustu símenntunarmiðstöðvanna má skipta í þrjá hópa. Í fyrsta lagi þeir sem sækja símenntunarnámskeið til miðstöðvanna. Í öðru lagi þeir sem nýta sér þjónustu símenntunarmiðstöðva vegna fjarnáms við framhaldsskóla og í þriðja lagi þeir sem nýta sér þjónustu símenntunarmiðstöðvanna vegna háskólanáms.

Fjöldi þeirra er nýta sér aðstöðu stöðvanna til fjarnáms á háskólastigi hefur vaxið úr því að vera 44 haustið 2000 í um 670 haustið 2005 og er í algjöru samræmi við þá miklu menntasókn sem við stöndum fyrir og höfum staðið fyrir á síðustu árum og allir eru mjög meðvitaðir um. Þar af, af þessum 670, voru samtals 206 nemar í fjarnámi á háskólastigi hjá stöðvunum á Suðurlandi, Vesturlandi og á Suðurnesjum. Algengt er að hver nemandi ljúki um níu einingum á önn. Menntamálaráðuneytið gerir árlega samning til eins árs í senn við hverja símenntunarmiðstöð á grundvelli fjárveitinga frá Alþingi. Samningur ráðuneytisins við stöðvarnar kveður á um að þær beiti sér m.a. fyrir margs konar námskeiðahaldi, samstarfi menntastofnana og geri almenningi kleift að stunda nám með fjarkennslusniði. Í samningunum er auk þess getið að leggja beri sérstaka áherslu á samstarf við menntastofnanir á framhalds- og háskólastigi.

Á fjárlögum 2005 fær hver stöð 9,9 milljónir. Þeirri fjárhæð er ætlað að standa undir grunnkostnaði við rekstur stöðvanna svo sem húsnæðiskostnaði, rekstri tölvubúnaðar og launum forstöðumanna stöðvanna. Auk þess fær hver stöð um 1,3 millj. kr. til reksturs FS-netsins þannig að hver stöð fær frá Alþingi rúmar 11 milljónir. Allar stöðvarnar fá sömu upphæð og nema greiðslur til þeirra samtals rétt rúmum 100 millj. kr. á fjárlögum þessa árs.

Fyrir háskólanema er stunda nám í fjarkennslu við símenntunarmiðstöðvarnar greiðir menntamálaráðuneytið eftir sömu reglum og greitt er fyrir aðra háskólanema og rennur sú greiðsla beint til viðkomandi háskóla og má því segja að ríkið sé að axla ábyrgð á þeim kostnaði sem fellur til vegna fjarnemanna á háskólastigi því að við erum að greiða fyrir nemana, við gerum það í gegnum háskólastigið. Háskólar hafa hins vegar ekki greitt gjald til símenntunarmiðstöðva vegna þjónustu við fjarnema. Þetta mál hefur verið til skoðunar innan ráðuneytisins og á síðasta ári skilaði nefnd skipuð fulltrúum ráðuneytisins, símenntunarmiðstöðvanna og háskólanna, sem falið var að fjalla sérstaklega um opinberan stuðning við fjarnám utan höfuðborgarsvæðisins, niðurstöðu sinni. Nefndin skoðaði ýmsa möguleika á því hvernig hægt væri að haga stuðningi við símenntunarmiðstöðvar vegna fjarnáms á háskólastigi. Almenn sátt virðist vera um það sjónarmið að bæta eigi aðstöðu fólks á landsbyggðinni til háskólanáms með því að veita tiltekna þjónustu af hálfu símenntunarmiðstöðva. Hafa símenntunarmiðstöðvar fært rök fyrir því að slík framlög verði hækkuð til þess að hægt sé að bjóða þjónustu við háskólanema með byggingu námsvera og annarrar námsaðstöðu.

„Sé litið til framtíðar er það skoðun nefndarinnar“, svo vitnað sé til hennar, með leyfi forseta, „að takmörk séu fyrir því hve langt sé hægt að ganga í slíkri jöfnun aðstöðu út frá byggðasjónarmiðum með því að byggja upp þjónustu vegna háskólanáms. Til lengri tíma litið eigi fagleg sjónarmið háskóla að ráða hversu mikla þjónustu símenntunarmiðstöðvar veita fjarnemum á háskólastigi.“

Stuðningur við uppbyggingu og aðstöðu til háskólanáms á landsbyggðinni hlýtur því að taka mið af stefnu ríkisins, m.a. í byggðamálum hverju sinni. Ríkisstjórnin hefur verið að efla þennan stuðning verulega og má nefna stofnun háskólasetra á Ísafirði og Egilsstöðum í því sambandi, sem hafa verið sérstök tilraunaverkefni á meðal sveitarfélaganna á þeim svæðum, sem og á milli iðnaðar- og menntamálaráðuneytisins. Við erum því að halda áfram að byggja upp tækifæri fyrir landsmenn alla til að stunda háskólanám. Við ætlum að sjálfsögðu að halda því áfram en ég tel rétt að líta sérstaklega til þess hvernig til tekst á Egilsstöðum og Ísafirði og það er engin tilviljun að þeir staðir hafa verið valdir. Það er m.a. og ekki síst vegna þess að fjarlægð þeirra sem þar búa er mun meiri inn á þau svæði sem mest háskólastarfsemi er og þar af leiðandi er nokkuð mikill aðstöðumunur.



[15:49]
Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Forstöðumenn símenntunarmiðstöðva eða samtök þeirra sendu fulltrúa sinn á fund menntamálanefndar fyrir áramótin þegar við vorum að vinna að fjárlögum. Það fólk sem til okkar kom bar sig afar illa hvað varðar fjárhagsstöðu símenntunarmiðstöðva og var beinlínis með ákall til menntamálanefndar um að brýn þörf væri á úrbótum. Hæstv. menntamálaráðherra talar á þann veg að hún sé sammála stjórnarandstöðunni á Alþingi og forstöðumönnum símenntunarmiðstöðva um að það sé veruleg bót á jafnrétti til náms þegar við horfum á landsbyggðina andspænis höfuðborgarsvæðinu að hafa þessar símenntunarmiðstöðvar og að þær geti sinnt hlutverki sínu með sóma. Nú bið ég hæstv. menntamálaráðherra að athuga að ef þær fá ekki fjárhagsgrundvöll til að starfa á þá endar þetta í gríðarlegri gjaldtöku af einstaklingunum sem stunda þetta nám. Það má ekki gerast, það yrði dauðadómur.



[15:50]
Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Mér fannst þetta vont svar hjá hæstv. menntamálaráðherra. Hún notaði nær allan sinn tíma til að rekja upplýsingar um hluti sem ekkert var spurt um og koma þessu máli ekkert við.

Það er nokkuð ljóst að það vantar skilning hjá hæstv. menntamálaráðherra á mikilvægi þess að efla tækifæri fólks um allt land til að mennta sig eða þá það vantar viljann hjá hæstv. ráðherra til að gera það sem til þarf. Það er ekki aðeins á Ísafirði, Egilsstöðum og Akureyri sem fólk þarf að mennta sig, það er um allt land. Það er skylda okkar og nauðsynlegra en nokkuð annað til framtíðar að gefa Íslendingum um allt land færi á að mennta sig.



[15:51]
Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta var afleitt svar hjá hæstv. ráðherra og mikil vonbrigði. Hæstv. ráðherra ætlar ekki að svara ákalli frá símenntunarmiðstöðvunum um að bjarga því fjarnámi á háskólastigi sem þar er rekið.

Miðstöðvarnar hafa tvíþætt hlutverk. Annars vegar er það fullorðinsfræðslan og símenntunarþjónustan og hins vegar háskólanám í gegnum fjarnám sem þróast hefur samhliða. Þar er ábyrgð ríkisvaldsins alveg skýr og alveg á hreinu og háskólarnir greiða netunum ekkert fyrir þá þjónustu. Um er að ræða nokkra tugi milljóna á ári sem er ákaflega lítið fé í þessu stóra samhengi en skiptir þessar stöðvar miklu máli — eru allar fjárhæðir heimsins fyrir þeim af því að þær geta ekki haldið úti starfsemi sinni nema ríkið axli ábyrgð sína, komi að rekstri stöðvanna og veiti þeim framlög til að standa undir þessu námi. Hvað varðar aðgang fólks að háskólanáminu skiptir ekki máli hvort um er að ræða 200, 400 eða 500 kílómetra á milli umrædds landsvæðis og höfuðborgarsvæðisins.

Sá hvati sem felst í starfsemi stöðvanna og þjónustu við fjarnám á háskólastigi skiptir sköpum. Tugir ef ekki hundruð Íslendinga fara í háskólanám — fólk sem ekki hefði gert það hefði það þurft að taka sig upp og flytja til Reykjavíkur. Gildir þá einu hvort um er að ræða fólk á Suður- eða Vesturlandi eða fólk lengra í burtu, á Egilsstöðum eða Vestfjörðum. Það skiptir ekki öllu máli.

Nefndin náði ekki samkomulagi um greiðslur fyrir fjarnám á háskólastigi og það er óþolandi staða. Ég skora á hæstv. menntamálaráðherra að bregðast við, taka af skarið og tryggja þessum símenntunarmiðstöðvum, fræðslunetum, þá fjármuni sem þær þurfa á að halda til að halda úti þessari mikilvægu þjónustu hvað varðar fjarnám á háskólastigi. Þessi þjónusta er bylting fyrir byggðirnar og byggðarlögin. Fyrir nokkra tugi milljóna á ári skapast tækifæri fyrir fólk sem þar býr.



[15:53]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég vísa því alfarið á bug að ekki sé skilningur af minni hálfu eða annarra í ríkisstjórninni á því að efla tækifæri allra landsmanna til náms. Það höfum við einmitt verið að gera á undanförnum árum og allar nemendatölur á háskólastigi sýna það. Menn verða einfaldlega að fylgjast með og vera með á nótunum hvað það varðar.

En mér finnst þetta nokkuð köld vatnsgusa framan í þau merkilegu verkefni sem við stöndum fyrir á Ísafirði og á Egilsstöðum, að við megum ekki taka þau fram yfir sem tilraunaverkefni — þau svæði eru í áberandi mikilli fjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu og aðstaða þeirra sem þar búa til þess að stunda háskólanám er áberandi verst. Mér finnst þetta köld vatnsgusa framan í þau merku verkefni á háskólastigi sem við stöndum saman að, iðnaðarráðherra, menntamálaráðherra og svo sveitarfélög og íbúar á þeim svæðum. Að sjálfsögðu er það markmið ríkisstjórnarinnar að halda áfram að fjölga tækifærum allra á öllum skólastigum úti um allt land, fjölga tækifærum til náms, og það höfum við verið að gera og munum halda því áfram. Hins vegar er alveg ljóst að við í menntamálaráðuneytinu erum að greiða fyrir háskólanema hvar sem þeir eru á landinu. Háskólarnir fá borgað fyrir nemendur. Ef þessir nemar eiga að vera hlutfallslega dýrari en aðrir erum við komin inn á svið byggðamála og það þurfum við líka að ræða á þeim vettvangi. Þess vegna hafa iðnaðarráðuneyti og ráðuneyti menntamála verið í góðu samstarfi um að stuðla að enn frekari uppbyggingu menntunar á öllum skólastigum um land allt og að sjálfsögðu munu málefni símenntunarmiðstöðvanna á þeim svæðum sem fyrirspurnin lýtur að verða tekin til gaumgæfilegrar skoðunar eins og önnur svæði.