132. löggjafarþing — 45. fundur
 18. janúar 2006.
um fundarstjórn.

lengd fyrirspurnatíma.

[16:08]
menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Ég vil koma því á framfæri við forseta og forsætisnefnd þingsins að veita meiri tíma fyrir okkur ráðherra til þess að svara fyrirspurnum. Ég er hér með einar sjö eða átta fyrirspurnir á dagskrá og það komast bara tvær að og nú er klukkan rúmlega fjögur. Eins og við þekkjum og vitum þá eru iðulega þingflokksfundir á milli fjögur og sex þannig að ég mælist til þess, þannig að ég geti svarað fyrirspurnum þingmanna, að ráðherra fái meiri og aukinn tíma til þess að svara þeim fyrirspurnum.



[16:09]
Forseti (Þuríður Backman):

Forseti hefur móttekið ósk hæstv. ráðherra. Fyrirspurnatíminn hefur verið lengri í dag en samkvæmt venju. Við hófum hér fund klukkan tólf og þannig stendur á samkvæmt því sem fyrir liggur að fyrirspurnir eru mjög margar og það hefur verið reynt eftir bestu vitund að raða niður fyrirspurnum á hæstv. ráðherra eftir því sem þeir hafa verið við. En forseti mun taka beiðni hæstv. menntamálaráðherra til skoðunar.