132. löggjafarþing — 46. fundur
 19. janúar 2006.
athugasemdir um störf þingsins.

heimild Fjármálaeftirlitsins til að beita dagsektum.

[13:32]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í fréttum sjónvarps í vikunni kom fram að Fjármálaeftirlitið teldi brýnt að brugðist yrði við með lagasetningu svo það gæti beitt þrýstingi til að fá fram svör frá einstaklingum sem eru til rannsóknar hjá eftirlitinu. Eftirlitið sendi 1. nóvember 2005 bréf þar að lútandi til hæstv. viðskiptaráðherra en engin viðbrögð hafa komið fram við því. Fjármálaeftirlitið sendi bréfið í kjölfar þess að í haust úrskurðaði kærunefnd um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi að Fjármálaeftirlitið hefði ekki heimild samkvæmt lögum til að beita einstaklinga dagsektum ef þeir neituðu að veita eftirlitinu umbeðnar upplýsingar. Í bréfi Fjármálaeftirlitsins til ráðherra er sérstaklega getið sem tilefnis að eftirlitið hafi haft til athugunar hvort virkur eignarhluti hafi myndast í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Um það hafa staðið miklar deilur sem rekja má til að fyrri stjórn var velt úr sessi á síðasta ári.

Fjármálaeftirlitið taldi að valdatakan í sparisjóðnum kynni að hafa verið lögbrot og málinu hefur verið vísað til ríkislögreglustjóra. Eftirlitið beindi fyrirspurn vegna þessa til nokkurs fjölda aðila sem það hafði vitneskju um að tengdust viðskiptum eða eignarhaldi í Sparisjóði Hafnarfjarðar. Í bréfinu kom fram að tilteknir aðilar hefðu þráfaldlega virt að vettugi fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins. Málið liggur því þannig að eftirlitið hefur takmörkuð úrræði til að rækja þá skyldu sem því er falið, að hafa eftirlit með virkum eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum. Orðrétt segir í bréfi þess til ráðherra:

„Þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu til upplýsingagjafar er mönnum frjálst að gefa Fjármálaeftirlitinu langt nef og hunsa að gefa þeim upplýsingar við rannsókn mála því eftirlitið hefur engin úrræði til að fylgja upplýsingunum eftir.“

Fjármálaeftirlitið segir að heimildir þess til að hafa nauðsynlegt eftirlit með virkum eignarhlutum á fjármálamarkaði sé í uppnámi. Hið sama gildir um lög um vátryggingastarfsemi, lífeyrissjóði og verðbréfaviðskipti. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hann ætli að bregðast við þessari beiðni Fjármálaeftirlitsins. Megum við eiga von á því á næstu dögum að fá fram frumvarp sem veitir eftirlitinu þær heimildir sem kallað hefur verið eftir? Ég minni á að Fjármálaeftirlitið hefur óskað tafarlausra viðbragða í þessu máli.



[13:34]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja máls á þessu. Þannig er að stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins, Stefán Svavarsson, dósent við Háskólann í Reykjavík, gerði bréfi eftirlitsins til ráðuneytisins ágætlega skil í ræðu sinni á ársfundi stofnunarinnar sem haldinn var í nóvember. Ræða formannsins hefur verið aðgengileg á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins síðan, auk þess sem umfjöllun formannsins um niðurstöður kærunefndar voru gerð skil í fjölmiðlum.

Það að Fjármálaeftirlitið skuli hafa sent ráðuneytinu erindi um áhyggjur sínar af því að geta ekki skotið niðurstöðum kærunefndar til frekari umfjöllunar dómstóla hefur því verið opinbert mál um nokkra hríð. Ég tel ekki ástæðu til að fara yfir bréf Fjármálaeftirlitsins enda hefur verið gerð grein fyrir því. Hins vegar vil ég láta þess getið sem ekki hefur komið fram opinberlega áður að síðastliðið haust var hafin í viðskiptaráðuneytinu vinna við frumvarpssmíð sem hefur það að markmiði að styrkja eftirlitsheimildir Fjármálaeftirlitsins. Við þá vinnu hefur m.a. verið farið yfir úrskurði kærunefndar, ekki aðeins þann sem varð tilefni bréf Fjármálaeftirlitsins, m.a. til að komast að því hvar kærunefnd teldi að eftirlitsheimildirnar væru ekki nægilega skýrar.

Ákvæði um dagsektir og stjórnvaldssektir koma þar til skoðunar ásamt öðrum úrræðum sem Fjármálaeftirlitið telur sig þurfa að hafa. Vinna við það er langt komin og sérfræðingar ráðuneytisins hafa sagt mér að líkur séu á að hægt sé að leggja fram frumvarp í framhaldi af því á vorþingi. Ég vonast svo sannarlega til þess að svo verði og það verði afgreitt fyrir vorið.



[13:37]
Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum haft áhyggjur af veikri stöðu Fjármálaeftirlitsins. Það hefur eiginlega heyrt beint undir viðskiptaráðherra. Viðskiptaráðherra er líka ráðherra bankamála og stóð fyrir einkavæðingu og sölu bankanna, sem Fjármálaeftirlitið átti að hafa eftirlit með þótt það heyrði undir sama ráðherra. Við höfum því lagt til á Alþingi að kannað verði hvort ekki sé réttast að færa Fjármálaeftirlitið undir Alþingi þannig að sjálfstæði þess verði tryggt frá framkvæmdarvaldinu. Ég tel það mikilvægan kost.

Fjármálaeftirlitið hefur verið gagnrýnt fyrir linkind. Skemmst er að minnast þess að Bjarni Ármannsson lýsti á fundi í janúar fyrir ári áhyggjum sínum af því að Fjármálaeftirlitið nyti ekki þeirrar virðingar sem því ber og sumir markaðsaðilar, eins og hann sagði orðrétt, með leyfi forseta: „... færu oft inn á grá svæði, og það jafnvel viljandi.“ Þetta sagði einn aðalbankastjóri landsins um stöðu Fjármálaeftirlitsins.

Við hefðum dæmi um að ef einstakir forstöðumenn hafa ætlað að sýna sjálfstæði í störfum þá hafi stofnanir verið lagðar niður, þeim sagt upp eða látnir hætta, dæmi um þetta eru Þjóðhagsstofnun og Samkeppnisstofnun.

Þá er spurningin: Hvaða viðbrögð ætlar hæstv. viðskiptaráðherra að sýna Fjármálaeftirlitinu þegar það reynir að reka af sér slyðruorðið, standa undir nafni og sinna þeirri eftirlitsskyldu sem því er falin samkvæmt lögum? Ætlar viðskiptaráðherra að standa við bakið á Fjármálaeftirlitinu, veita því nægar heimildir og stuðning til að hafa nauðsynlegt eftirlit með fjármálamarkaðnum og veita honum aðhald sem allir telja þarft? Þetta er afar brýnt frú forseti. Ætlar hæstv. ráðherra kannski bara að láta nýráðinn forstöðumann Fjármálaeftirlitsins, sem reynir að reka slyðruorðið af því embætti, hætta fyrir að ætla að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum? Eða ætlar hann að bakka hann upp?



[13:39]
Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Nú er það þannig að ég studdi ekki lög um sparisjóði sem sett voru fyrir tveimur þingum. Ég tel raunar erfitt að halda þeim sem eigendum fyrir utan hið almenna viðskiptabankakerfi. Það breytir ekki því að hér voru sett lög um sparisjóði. Það er mikilvægt að þau lög séu virt og þeim sé framfylgt. Það er óþolandi staða fyrir Fjármálaeftirlitið að eiga að framfylgja lögum frá Alþingi án þess að hafa til þess viðunandi tæki. Það er óviðunandi að viðskiptaráðherra taki ekki af öll tvímæli um að við fáum a.m.k. í vetur frumvarp þessa efnis og segi aðeins að það séu líkur á því. Hér er ekki eftir neinu að bíða. Það tók ekki mörg missiri eða ár að leggja fram sparisjóðafrumvarpið á sínum tíma. En þegar Fjármálaeftirlitið kallar eftir tækjum til að fylgja lögunum fram þá er mikilvægt að skilaboð Alþingis séu skýr og það fái fljótt og vel þau tæki sem það þarf á að halda til að halda uppi aga á fjármálamarkaði. Óvíða í íslensku samfélagi er eins mikilvægt að skilaboðin séu skýr og á fjármálamarkaði og í þeim reglum sem um hann gilda.

Það er líka óþolandi aðstaða fyrir Fjármálaeftirlitið að það borgi sig í öllum tilfellum að áfrýja ákvörðunum þess. Sá sem áfrýjar til úrskurðarnefndar hefur engu að tapa. Málið fer aldrei fyrir dómstóla en ef hann er svo heppinn að vinna þá kemst Fjármálaeftirlitið ekki lengra með málið. Það hlýtur að draga alla vinnslu mála mjög á langinn og gera þetta mikilvæga eftirlit óskilvirkt. Ég hvet því hæstv. viðskiptaráðherra til að lýsa því yfir afdráttarlaust að frumvarp um Fjármálaeftirlitið og tæki þess komi fram á þessu þingi. Það hlýtur að eiga greiða leið í þingsölum og fá málefnalega og skjóta umfjöllun.



[13:41]
Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að margir stóðu í þeirri trú að Fjármálaeftirlitið hefði traust lög til að styðjast við til að sinna lögbundnum skyldum sínum. Í haust kom á daginn að svo er ekki. Nú hefur stofnunin óskað eftir því að ríkisstjórnin og Alþingi beiti sér fyrir lagabreytingum til að fá nauðsynlegar lagastoðir til að sinna hlutverki sínu. Ég verð að lýsa furðu yfir viðbrögðum hæstv. viðskiptaráðherra, að verða ekki við þeirri beiðni.

Um er að ræða mjög alvarlegt mál, yfirtöku á sparisjóði sem grunur leikur á að sé saknæm. Málinu hefur verið vísað til lögreglu til umfjöllunar þar. Ég vil taka undir þær áskoranir sem hér hafa komið fram, um að ríkisstjórnin og Alþingi beiti sér hið allra fyrsta fyrir því að nauðsynlegar lagabreytingar verði gerðar.



[13:43]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Hér fer fram mjög þörf umræða. Hún snertir í raun hraða viðskiptalífsins. Það fer á ógnarhraða. Hlutir skipta um eigendur mjög hratt en á meðan fylgir stjórnsýslan ekki eftir. Fjármálaeftirlitið hefur ekki heimildir til þess að ná fram markmiðum sínum. Það er ekki hægt að una við það. Við sjáum það ekki einungis af sparisjóðsmálum. Það kom úrskurður um að yfirtökuskylda hefði myndast hjá eigendum FL Group. Þá virðist búið til eitthvert málamyndasamkomulag við einn stærsta banka þjóðarinnar Landsbanka Íslands um að hann taki yfir eigurnar að nafninu til en eftir sem áður haldi fyrri eigendur, hvort sem verður, hagnaði eða tapi af þessum bréfum. Þetta gengur auðvitað ekki svona lengur. Menn verða að taka til í þessum málum. Það er löngu tímabært.



[13:44]
Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra svörin. Hæstv. ráðherra segir að verið sé að endurskoða lögin og vænta megi þess að lög verði sett um þetta í vor. Ég spyr hæstv. ráðherra: Dugir það Fjármálaeftirlitinu? Hefur hæstv. ráðherra sett sig í samband við Fjármálaeftirlitið og spurt hvort það dugi því að bíða fram á vor eftir því að slík lög taki gildi?

Þeir báðu 1. nóvember um tafarlausa lagaheimild í þessu efni. Þeir eru með rannsókn í gangi vegna Sparisjóðs Hafnarfjarðar og ég spyr: Dugir það? Mér þykir ráðuneytið ansi svifaseint í þessu efni og ég spyr: Ef það er fleira undir í breytingum á þessum lögum, er þá ekki hægt að taka þennan eina þátt út úr til að Fjármálaeftirlitið fái þá lagaheimild sem þeir hafa kallað eftir?

Fjármálaráðuneytið kallar ekki svo oft eftir lagaheimildum. Það hlýtur að vera brýnt þegar beðið er um tafarlausa lagaheimild í þessu efni. Fjármálaeftirlitið kallaði í fyrra líka eftir heimild til að beita stjórnvaldssektum þegar um væri að ræða markaðssvik, t.d. ef viðskipti væru með verðbréf á grundvelli innherjaupplýsinga. Ég sé ekki að ráðherrann hafi orðið við því ákalli Fjármálaeftirlitsins. Ég spyr: Er verið að endurskoða þetta í lögunum? Munum við sjá ákvæði í frumvarpi frá ráðherra um að hægt verði að beita stjórnvaldssektum þegar um er að ræða markaðssvik?

Ég nefni líka ákvæði um að lengja eignarhaldstíma hlutabréfa, í þeim tilvikum sem stjórnendur fjármálafyrirtækja maka krókinn og græða hundruð milljóna á kaupum á hlutabréfum í þeim fyrirtækjum sem þeir starfa hjá, sem er auðvitað ekki annað en siðlaus fjármálagerningur. Á þessu verður að taka, m.a. með lengingu á eignarhaldstíma slíkra bréfa. Ég nefni þetta af því að ráðherrann talar um að það sé verið að endurskoða lögin. Munum við sjá þessi ákvæði í þeim lögum sem ég nefndi og hefur Fjármálaeftirlitið sæst á að bíða eftir lagasetningu fram á vor um þessi mál?



[13:46]
viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir það að hér er mikill stuðningur við Fjármálaeftirlitið. Ég held að mikilvægt sé að svo sé vegna þess að það gegnir mikilvægu hlutverki í stjórnsýslu okkar. Það hlutverk verður æ mikilvægara með þeirri öru þróun sem er á fjármálamarkaði og kaupum Íslendinga á bönkum í fjármálafyrirtækjum erlendis sem eykur enn á verkefni og skyldur hinnar mikilvægu stofnunar. En ég geri eiginlega kröfu til að hv. þingmenn hlusti þegar talað er til þeirra en mér fannst það að minnsta kosti ekki vera með hv. þm. Ögmund Jónasson þegar hann talar um að ekki eigi að verða við þessari beiðni. Það er alveg af og frá að halda því fram vegna þess að eins og kom fram í máli mínu erum við að vinna frumvarp í ráðuneytinu og höfum reyndar verið að því síðan í haust og áður en þetta bréf barst hafði sú vinna hafist. Sú vinna gengur fyrst og fremst út á að styrkja eftirlitsheimildir. Það sem kemur fram í bréfinu umrædda gerir í sjálfu sér það að verkum að fara þarf betur yfir úrskurði kærunefndarinnar því Fjármálaeftirlitið heldur því fram og telur sig hafa þessar heimildir. Hins vegar kemst úrskurðarnefndin að annarri niðurstöðu. Þetta gerir það að verkum að ráðuneytið þarf að vanda sig alveg sérstaklega í þessu máli.

Ég geri mér grein fyrir að frumvarpið mun fá greiðan gang í gegnum hv. Alþingi og það er mikilvægt að finna þennan mikla stuðning. Þess verður ekki langt að bíða að frumvarpið birtist.