132. löggjafarþing — 46. fundur
 19. janúar 2006.
Siglingastofnun Íslands, 1. umræða.
stjfrv., 375. mál (fulltrúi skemmtibátaeigenda í siglingaráð). — Þskj. 431.

[13:49]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, með síðari breytingum. Markmið frumvarpsins er að styrkja siglingaráð sem ráðgefandi aðila fyrir Siglingastofnun og samgönguráðuneytið með aðkomu fulltrúa samtaka skemmtibátaeigenda að ráðinu. Hlutverk siglingaráðs er m.a. að fjalla um öryggismál skipa og öryggismál sjófarenda og þykir af þeim sökum eðlilegt að samtök skemmtibátaeigenda eigi þar fulltrúa til jafns við aðra hagsmunaaðila. Hingað til hafa skemmtibátaeigendur ekki haft fulltrúa í ráðinu.

Í frumvarpinu er lögð til fjölgun fulltrúa í siglingaráðinu úr ellefu í tólf. Samkvæmt gildandi fyrirkomulagi er gert ráð fyrir að samgönguráðherra skipi átta fulltrúa í ráðið eftir tilnefningu auk þriggja án tilnefningar. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að tilnefndir fulltrúar verði alls níu talsins og þar af einn sem hagsmunasamtök skemmtibátaeigenda komi sér saman um að tilnefna. Áfram er gert ráð fyrir að samgönguráðherra skipi þrjá fulltrúa án tilnefningar. Fyrirkomulag þetta er sett fram í samráði við fulltrúa starfandi samtaka skemmtibátaeigenda sem í dag eru alls fjögur. Ávinningur af frumvarpinu er einkum fólginn í því að standa vörð um hagsmuni fulltrúa skemmtibátaeigenda hvað varðar öryggi í siglingu. Aðild þeirra að siglingaráði kemur til með að auðvelda þeim aðkomu að ýmsum mikilvægum málum í tengslum við öryggi sjófarenda sem og skemmtibáta og auðveldar upplýsingastreymi til þeirra.

Ég legg til, virðulegi forseti, að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. samgöngunefndar.



[13:50]
Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Í sjálfu sér þarf ekki að hafa mörg orð um frumvarpið. Það er afskaplega auðvelt að fjölga í siglingaráði og fá þar inn fulltrúa skemmtibátaeigenda og eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er full ástæða til þess. Ég vil því aðeins lýsa yfir stuðningi við það. Við höfum orðið vör við það á síðustu árum í kjölfar aukinnar velferðar hjá þjóðinni að hún leitar sér stöðugt að meiri og fjölbreyttari frístundaáhugamálum. Eitt af því eru skemmtisiglingar. Skemmtibátum hefur fjölgað mjög ört að undanförnu út um allt land. Þetta eru ekki neinar litlar fleytur þó sumar séu sannarlega það, svona rómantískir litlir segl- eða árabátar. En við erum líka að tala um kraftmikla báta sem fara hratt yfir og langt út og þess vegna þarf að gæta fyllsta öryggis. Því er mjög mikilvægt að raddir þeirra heyrist í siglingaráði sem vélar um siglingar í kringum landið og þess vegna lýsi ég yfir stuðningi við þetta ágæta frumvarp.