132. löggjafarþing — 46. fundur
 19. janúar 2006.
siglingalög, 1. umræða.
stjfrv., 376. mál (öryggi á sjó). — Þskj. 432.

[13:52]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á siglingalögum, nr. 34/1985, með síðari breytingum. Frumvarp þetta er lagt fram m.a. vegna ábendinga frá siglingaráði síðasta vor. Markmið frumvarpsins er að stuðla að auknu öryggi til sjós með skýrari og víðtækari ákvæðum vegna hættulegrar hegðunar eða ástands skipstjóra eða annarra skipverja sem fara með stjórn skips. Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að sambærileg mörk gildi um skilgreint vínandamagn í blóði skipstjórnarmanna eða skipverja og eru í umferðarlögum. Hliðstætt ákvæði er jafnframt að finna í lögum um loftferðir.

Gengið er út frá því að viðkomandi sé óhæfur til starfsins reynist vínandamagn í blóði hans vera yfir 0,5 prómill eða nemi vínandamagn í lofti sem hann andar frá sér 0,25 milligrömmum í lítra lofts. Gert er ráð fyrir að grandaleysi aðila um ástand sitt leysi hann ekki undan sök.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ákvæðin gildi um fleiri áhafnarmeðlimi en eingöngu skipstjóra eins og nú er, þ.e. skipverja eða aðra starfsmenn sem hafa með hendi starfa í skipi, stjórni skipaferðum eða veiti öryggisþjónustu vegna skipaferða. Reynist framangreindir aðilar óhæfir til að rækja starfa sinn á fullnægjandi hátt, t.d. vegna neyslu áfengis, ofskynjunarefna eða annarra örvandi eða deyfandi efna vegna sjúkdóms eða þreytu eða af öðrum orsökum, skal það varða sektum eða fangelsi. Hafi framangreindir aðilar orðið valdir að skipstrandi, árekstri eða öðru sjóslysi með yfirsjónum eða vanrækslu í starfi varðar það jafnframt sektum eða fangelsi. Þá er gert ráð fyrir því nýmæli í frumvarpinu að tilraun til stjórnunar skips geti reynst refsiverð. Slíkur áskilnaður er nauðsynlegur vegna sönnunarörðugleika undir ákveðnum kringumstæðum.

Loks er í frumvarpinu byggt undir heimildir lögreglu og annarra sem með löggæsluvald fara til að taka á málum af því tagi sem hér um ræðir. Lögð er sú skylda á skipstjóra og aðra skipstjórnarmenn að gangast undir öndunarpróf að kröfu lögreglu eða annarra sem með löggæsluvald fara. Skyldan nær jafnframt til þess að hlíta kröfu sömu aðila um læknisskoðun, þar á meðal blóð- og þvagrannsókn. Lagt er til að ákvæðin gildi fyrir öll skip óháð stærð þeirra og lengd. Siglingalög gilda að öðru leyti um skráningarskyld skip, þ.e. skip yfir sex metra að lengd.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni umræðu vísað til hv. samgöngunefndar.



[13:55]
Hjálmar Árnason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé fyllilega tímabært að flytja svona frumvarp því sagan sýnir að skipstjórnarmenn hafa lent í vandræðum vegna drykkjuskapar, stöku dæmi hafa komið upp og sum hver allalvarleg. En ég skal viðurkenna, frú forseti, að við fyrsta yfirlestur á þessu ágæta frumvarpi brá mér örlítið í brún. Ég skil þau öryggissjónarmið að sá sem ber ábyrgð á skipstjórn, farkosti, þurfi að vera allsgáður vegna þess að um mannslíf er að tefla. En við fyrsta yfirlestur sýndist mér þetta eiga við alla skipverja og leist mér nú ekki beinlínis á. Ég vil því bera fram þá fyrirspurn, til að fá alveg úr því skorið hjá hæstv. ráðherra, hvort t.d. glaðlyndur þjónn eða matreiðslusveinn á skemmtiferðaskipi sem vill kannski aðeins hýrga upp á sig í starfi sínu, hvort það mundi teljast refsivert ef yfir ákveðin mörk er farið. Eða nær þetta einungis til stjórnunarhlutans uppi í brú? (GHall: Eða kokkur á kútter frá Sandi?) Eða kokkur á kútter frá Sandi, eins og hv. formaður samgöngunefndar spyr.



[13:57]
samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ábendingu hv. þingmanns. Hér er fyrst og fremst um það að ræða að þetta fjalli um þá áhafnarmeðlimi sem fara með ábyrgðarstörf við stjórnun skipanna. Fyrst og fremst er um slíkt að ræða. Við þekkjum það að þeir sem sinna vélbúnaði og taka þátt í stjórnun skipsins eða gegna að öðru leyti ábyrgðarstörfum sem tengjast siglingum þurfa að sjálfsögðu að vera allsgáðir og mjög mikilvægt að þar bregði ekki út af. Ég tel að það geti ekki verið að þetta nái til þeirra sem sinna öðrum störfum sem tengjast ekki beint öryggisþáttum. En allra annarra aðila.



[13:58]
Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mál sem lengi vel hefur verið í umræðunni annars staðar en meðal íslenskrar sjómannastéttar. Við þekkjum það að t.d. hjá Alþjóðaflutningaverkamannasambandinu hefur þetta mál verið mjög í brennidepli, áróður gegn hvers konar áfengisneyslu um borð í skipum. Auðvitað er full ástæða til að taka hér á með þessum hætti. Við þekkjum það eins og hv. þm. Hjálmar Árnason kom inn á varðandi skemmtiferðaskip. Ég hef einmitt rætt við Íslendinga sem hafa verið í yfirmannastöðum á skemmtiferðaskipum, að þar eru reglur mjög hreinar og beinar. Menn geta fengið sér alkóhól eða bjór á milli vakta en það er algjörlega skilyrðum háð hvernig menn eigi að bera sig að áður en þeir koma á vaktina og hversu langt má líða frá því viðkomandi neytti áfengis og þar til viðkomandi kemur á vakt, alveg nákvæmlega eins og er með flugáhafnir.

Það var nú um tíma á íslenska kaupskipastólnum á árum áður að nokkuð var um það að áfengi væri haft um hönd. Það var ekki algengt meðal skipstjórnenda heldur frekar kannski annarra í áhöfn. En auðvitað getur stafað af þessu hætta og skip er þannig vinnustaður að það getur allt gerst hvort sem menn eru á vakt eða frívakt. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að þeir sem eru á frívakt séu ávallt tilbúnir til verka ef eitthvað ber að höndum. Ég tel því að frumvarpið sé mjög af hinu góða og styð það heils hugar þegar það verður tekið til umfjöllunar í hv. samgöngunefnd.