132. löggjafarþing — 46. fundur
 19. janúar 2006.
samkeppnisstaða fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga, fyrri umræða.
þáltill. GÞÞ o.fl., 66. mál. — Þskj. 66.

[16:45]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga. Er ég flutningsmaður ásamt hv. þingmönnum Ástu Möller og Gunnari Örlygssyni.

Tillagan er stutt, hún hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela viðskiptaráðherra að gera athugun á því hvort og á hvaða sviðum fyrirtæki í eigu ríkis og sveitarfélaga eru í samkeppni gagnvart einkaaðilum, einnig að kanna hvort þessi fyrirtæki hafi eflt samkeppnisstöðu sína gagnvart einkafyrirtækjum á undanförnum árum.

Ráðherra skili Alþingi skýrslu um málið fyrir 1. apríl 2006.“

Málið er í sjálfu sér ekki flókið en afskaplega þarft. Það var flutt á á 131. löggjafarþingi og í greinargerð með tillögunni þá segir svo, með leyfi forseta:

„Stofnunum ríkisins hefur fjölgað og rekstur þeirra orðið æ umfangsmeiri á undanförnum árum. Sökum umfangs síns hefur rekstur ríkisins mikil áhrif á starfsumhverfi og starfsmöguleika fyrirtækja í landinu. Ýmsar vísbendingar hafa komið fram um það á síðustu missirum að ríkisstofnanir séu að teygja anga sína inn á fleiri svið sem einkafyrirtæki hafa eða geta alfarið sinnt. Stundum má rekja verkefni þessara stofnana til aukinna skyldna sem á þær eru lagðar samkvæmt lögum. Dæmi eru þó um að aukin verkefni ríkisstofnana stafi af rúmri túlkun á þeim lögum sem þær starfa eftir. Í sumum tilvikum hafa ríkisstofnanir þannig farið í beina samkeppni við einkaaðila um verkefni. Þá hefur þess gætt að ríkisstofnanir hafi í auknum mæli tekið yfir eða falið annarri ríkisstofnun verkefni sem þær hafa áður falið einkaaðilum. Ríkisstofnanir virðast jafnframt bjóða minna út en áður.

Með þessari útvíkkun á starfsemi opinberra fyrirtækja standa stjórnvöld beint eða óbeint að því að þrengja að starfsemi einkafyrirtækja í landinu í stað þess að hlúa að þeim og skapa þeim eðlilegt svigrúm til að vaxa og dafna í heilbrigðu samkeppnisumhverfi. Það gætu þau m.a. gert með því að leitast við að skipta við einkafyrirtæki sé þess nokkur kostur og efla þannig atvinnulíf á Íslandi.

Skoða þarf hvort lögbundnar skyldur stofnana kalli á sífellt meira umfang þeirra og hvort lagabreytinga sé þörf. Jafnframt þarf að skoða hvað af lögbundnum verkefnum ríkisstofnana er hægt að fela einkaaðilum. Það væri í samræmi við innkaupastefnu ríkisins. Í formála að riti fjármálaráðuneytisins Innkaupastefna ríkisins – Hagkvæmni, samkeppni, ábyrgð og gagnsæi, frá nóvember 2002, segir fjármálaráðherra eftirfarandi:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á framkvæmd innkaupa, þannig að tryggt verði að öll opinber innkaup verði hagkvæm, opin, ábyrg og sanngjörn. Tilhögun innkaupanna miði að því að efla samkeppni á markaði ... Með því að fela einkaaðilum tiltekin verkefni er hægt að ná fram markmiðum um hagræðingu og aukna samkeppnishæfni og auka fjölbreytni þjónustunnar sem byggir upp þekkingu í þjóðfélaginu og nýtist öðrum aðilum á markaði. Innkaupastefnan nær því einnig til þess að bjóða út verkefni eða rekstrarþætti sem nú eru hluti af ríkisrekstri.““

Eins og ég nefndi áðan er þetta afskaplega þarft mál af mörgum ástæðum. Við þekkjum að undanfarin ár hafa menn sem betur fer unnið jafnt og þétt að því, sérstaklega hjá ríkinu en þó má einnig nefna dæmi hjá sveitarfélögum, að einkavæða fyrirtæki. Ég held að enginn geti haldið öðru fram en að það hafi verið afskaplega gæfurík spor. Kannski er skýrasta dæmið með bankana, en eftir að þeir komust í hendur einkaaðila, í eign almennings, þá fengu þær stofnanir aukinn kraft með því frelsi sem því fylgir og hafa bæði getað veitt viðskiptavinum sínum betri þjónustu og á sama hátt farið út í aukna útrás eins og menn þekkja og hafa skapað aukin verðmæti í landinu.

Á sama hátt hafa smærri fyrirtæki verið einkavædd með góðum árangri. En það sem gleymist kannski stundum er að ýmislegt skiptir máli þó að það sé ekki stórt, og það er ein ástæðan fyrir því að við flytjum þessa tillögu, en mörg smærri fyrirtæki finna fyrir því að opinberar stofnanir sem veita þjónustu á ýmsum sviðum hafa verið að seilast inn á þeirra markað ef þannig má að orði komast og slík samkeppni er ávallt ójöfn. Það er mjög erfitt fyrir litla aðila að gæta hagsmuna sinna þegar slíkt kemur upp. Til dæmis að fara í málaferli við opinberar stofnanir og jafnvel bara að standa í bréfaskriftum og öðru slíku sem krefst fyrirhafnar, tíma og fjármuna. Ég tala nú ekki um ef menn ætla að fara alla leið hvort sem menn fara til samkeppnisyfirvalda eða dómstóla þá er slíkt mjög dýrt og erfitt fyrir litla einkaaðila.

Það er mjög mikilvægt að vera vakandi á þessu sviði og þess vegna er þetta mál til komið, þar sem umhverfið er alltaf að breytast í hinum opinbera rekstri líkt og hjá okkur í þjóðfélaginu. Ýmislegt af því sem menn töldu fráleitt að einkaaðilar gætu sinnt fyrir nokkrum árum, ég tala ekki um áratugum síðan, er nú sjálfsagt. Síðan koma auðvitað ný svið sem ekki voru til staðar og það er ekkert sjálfgefið að hið opinbera þurfi alltaf að veita þá þjónustu jafnvel þó að þeir ætli að borga fyrir hana. Þvert á móti er mjög æskilegt að fá samkeppni á sem flestum sviðum og fá sem flesta aðila að því borði, samkeppni er fyrst og fremst til vegna þess að hún er góð fyrir kaupandann og góð fyrir neytendur. Á sama hátt er margt hæft fólk á ýmsum sviðum sem getur allt eins farið í útrás eins og þau fyrirtæki sem nú eru í slíkri iðju og útrás getur falið í sér ýmsa þætti. Viðkomandi aðili eða fyrirtæki þarf ekki alltaf að fara með starfsemi sína út úr landinu, þetta getur líka falist í því, virðulegi forseti, að menn veiti t.d. erlendum aðilum þjónustu sem ella mundu nýta sér hana annars staðar. Þegar ég tala um slíkt er ég t.d. að vísa til heilbrigðissviðsins en nú þegar er veitt ýmis konar heilbrigðisþjónusta á vegum einkaaðila.

Ég las grein í blaði fyrir nokkrum dögum um útgerðarmann frá einhverju nágrannalandi okkar sem nú býr í Grindavík og er hér til þess að leita sér lækninga í Bláa lóninu. Þarna er dæmi um útrás þar sem reynt hefur verið að fá til landsins aðila sem starfsemi Bláa lónsins getur annast og í mörgum tilfellum bætt líðan og jafnvel læknað, og þetta hefur gengið alveg ágætlega.

Í greinargerðinni eru nefnd ýmis fyrirtæki, þetta er ekki nein vísindaleg könnun, kannski meira af handahófi en eru þó dæmi um að opinberir aðilar hafa farið inn á svið þar sem einkaaðilar hafa verið áður, hafa jafnvel farið í beina samkeppni við einkaaðila eða sinnt þeim á sviðum sem einkaaðilar gætu hæglega sinnt. Hér eru t.d. nefnd fyrirtæki eins og Landmælingar, rannsóknastofur Landspítala – háskólasjúkrahúss sem samdi beint við Heilsugæslu í Reykjavík um ákveðna þjónustu sem einkaaðilar sinntu áður, nei, fyrirgefið öfugt, Heilsugæslan í Reykjavík samdi beint við rannsóknastofur Landspítala – háskólasjúkrahúss í stað þess að bjóða það út eða skipta við þá aðila sem hún skipti við áður. Siglingastofnun er nefnd, Vinnueftirlit ríkisins og hér er talað um, sem ég vek athygli á og ætla að lesa hér upp, með leyfi forseta:

„Skilgreina þarf hlutverk Landspítala – háskólasjúkrahúss í þá veru að sjúkrahúsið sjái fyrst og fremst um sérhæfða sjúkrahúsþjónustu. Bjóða þarf út rekstur sem flestra þjónustuþátta sem falla utan kjarnastarfsemi Landspítalans. Sem dæmi má nefna rekstur þvottahúss, saumastofu, eldhúss, mötuneytis, apóteks, röntgen- og rannsóknaþjónustu, framleiðslu sjúkrafæðis, ræstingu, sótthreinsun og umsjón fasteignar. Góð reynsla, bæði fagleg og fjárhagsleg, er af einkarekstri í starfsemi sem áður var eingöngu veitt á vegum heilbrigðisstofnana ríkisins. Má þar meðal annars nefna Læknisfræðilega myndgreiningu og Orkuhúsið. Frá því að starfsemi hjá Læknisfræðilegri myndgreiningu hófst árið 1993 hafa sparast rúmlega 580 millj. kr., auk þess sem þjónusta við sjúklinga hefur aukist til mikilla muna“

Það sparast rúmlega 580 millj. kr., hvorki meira né minna, og þjónustan hefur sömuleiðis aukist.

Hér er vísað í útboð hjá Sorpu vegna gámaþjónustu en þrjár endurvinnslustöðvar tóku þátt í því útboði, auk Vélamiðstöðvarinnar sem á þeim tíma hafði ekki farið inn á þetta svið fyrr en fyrirtækið var þá í eigu Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur. Stjórn fyrirtækisins var m.a. skipuð af borgarverkfræðingi Reykjavíkur og forstjóra Orkuveitunnar. Það er skemmst frá því að segja að þegar Vélamiðstöðin fékk þetta verkefni urðu þar mjög miklar deilur. Þetta mál flýtti því örugglega að einkavæða Vélamiðstöðina, sem var tillaga frá okkur sjálfstæðismönnum sem var búin að liggja lengi í skúffu, en hún var seld núna sl. nóvember og er það vel.

Þetta er samt sem áður dæmi um það sem þessi skýrsla gæti ef til vill komið í veg fyrir að gerðust aftur.

Það má nefna ýmislegt fleira. Hér liggur t.d. fyrir þinginu þingsályktunartillaga um lagabreytingu eða frumvarp um breytingu á lögum um Ríkisendurskoðun sem sá sem hér stendur er 1. flutningsmaður að. Þar er talað um að breyta þessari ágætu stofnun Ríkisendurskoðun, sem er afskaplega mikilvæg og hefur sinnt hlutverki sínu vel, með þeim hætti að ytri endurskoðun á þeim fyrirtækjum sem stofnunin sér um sem ríkisfyrirtæki, verði boðin út. Ríkisendurskoðun sinnir fyrst og fremst innri endurskoðun sem hún hefur gert af mikilli prýði og er nauðsynlegt að hafa og ekki deilur um það að stofnunin sjái um slíkt. En það er ekkert sem mælir með því að ytri endurskoðun á hinum ýmsu opinberu fyrirtækjum sé á hendi ríkisendurskoðunarfyrirtækis og í rauninni getur það þess vegna verið til trafala þegar Ríkisendurskoðun fer síðan í innri endurskoðun á fyrirtæki sem stofnunin er sjálf með ytri endurskoðun á.

Það er hægt að taka dæmi eins og um sorphirðu hjá stærsta sveitarfélaginu sem er ekki boðin út, þ.e. Reykjavíkurborg. Sorphirðan er í rauninni niðurgreidd að hálfu. Alveg þangað til fyrir skömmu var meira að segja fyrirtækjasorp greitt niður að hálfu af Reykjavíkurborg, þ.e. Reykjavíkurborg sótti sorpið til fyrirtækja og skattgreiðendur greiddu það niður, útsvarsgreiðendur, og þetta var gert í samkeppni við einkaaðila. Sem betur fer hefur þó borgin dregið sig til baka hvað þetta varðar. Eftir stendur að það er ákveðin samkeppni og það eru einkaaðilar, glæsileg fyrirtæki eins og t.d. Gámaþjónustan sem hefur verið í umhverfisverkefnum á sviðum umhverfismála um langa tíð, en þeir eru í rauninni komnir í samkeppni við sveitarfélögin og voru með ákveðna frumkvöðlastarfsemi sem þeir kynntu fyrir skömmu. Það varðar sérstakar sorptunnur sem sett er endurvinnanlegt sorp í sem síðan er flokkað hjá fyrirtækinu, t.d. pappír, plast og annað slíkt, sem er auðvitað afskaplega jákvætt.

Það er því miður af mörgu taka og við höfum fyrst og fremst áhyggjur af þeim sem eru smærri á markaðnum, það eru þeir sem eiga erfitt með að bera hönd fyrir höfuð sér í samkeppni við opinbera aðila og það er mjög mikilvægt að við séum vakandi fyrir því að stór og sterk opinber fyrirtæki og stofnanir traðki ekki þá minni niður.



[17:00]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég er nokkuð hissa á að þessi þingsályktunartillaga hafi ekki fengið meiri athygli en raun ber vitni vegna þess að í henni er fólgin veigamikil gagnrýni á ríkisstjórnina sem kemur fram í upphafsorðum greinargerðarinnar. Það er mjög sérstakt að heyra þetta frá þeim sem sitja í ríkisstjórn og telja sig vera hægri flokk, að gagnrýna vöxt ríkisins og fjölgun fyrirtækja í eigu ríkisins og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta er mjög þung gagnrýni og ekki einungis á ráðherra í samstarfsflokknum, heldur er umhverfisráðherra einnig gagnrýndur hér í greinargerðinni. Það má lesa þunga gagnrýni á hæstv. umhverfisráðherra og rekstur fyrirtækja sem hún ber ábyrgð á. Ég tel að þetta sé umhugsunarefni. Enda getur verið að umræddum þingmönnum sem flytja þessa gagnrýni á ríkisstjórnina sé einfaldlega orðið um og ó vegna útþenslu ríkisins. En síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum hafa útgjöld ríkisins þanist út um 120 þús. milljónir á föstum fjárlögum. Þetta er kannski þeirra óp í eyðimörkinni til að sporna við þeirri þróun.



[17:02]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður Sigurjón Þórðarson hafi verið að lýsa yfir stuðningi við þetta mál og talið það stórfrétt af því stjórnarþingmenn væru hugsanlega að gagnrýna eitthvað sem ríkisstjórnin gerði. Það er ágætt að það sé frétt fyrir hv. þingmann en það er nú þetta sem stjórnmálamenn verða að gera ef þeir ætla að standa sig í stykkinu. Ef einhver stjórnmálamaður telur að sú ríkisstjórn sem hann styður eða meiri hluti í sveitarstjórn hafi náð einhverjum fullkomleika, þá held ég að viðkomandi stjórnmálamaður ætti strax að fara að finna sér eitthvað annað að gera. Það liggur alveg hreint og klárt fyrir þrátt fyrir að núverandi ríkisstjórn og fyrirrennarar hennar hafi náð stórkostlegum árangri í efnahagsmálum og kaupmáttaraukningin sé hér meiri en annars staðar þekkist. Ég hef í rauninni hvergi séð neitt sambærilegt í þeim gögnum sem ég hef séð. Þá breytir það því ekki að við skulum alltaf vera vakandi og við skulum alltaf geta betur. Sem betur fer erum við með umhverfisráðherra sem er meðvitaður um þetta og mig minnir að við höfum gengið frá því nú á haustþingi, t.d. með lögum um Veðurstofuna þar sem einmitt var verið að skilgreina betur hlutverk Veðurstofunnar þannig að Veðurstofan væri ekki að keppa við einkaaðila.

En betur má ef duga skal og aðalatriðið er þó þetta. Það er sama hvort það er ríkisvaldið eða sveitarfélögin. Það eru tekin mýmörg dæmi hér af sveitarfélögum eins og hv. þingmaður veit, ef hann hefur lesið greinargerðina, og við eigum aldrei að þreytast á að gera betur. Þrátt fyrir að við höfum náð þessum stórkostlega árangri sem við öll þekkjum fer víðsfjarri að verkefninu sé lokið.



[17:04]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þá er það komið á hreint að hér er um gagnrýni að ræða. En mig langar til að fá að vita dálítið efnislega um þessa þingsályktun. Það hefur komið fram gagnrýni, m.a. frá þeim sem hér stendur, á hæstv. utanríkisráðherra þegar hann starfaði sem fjármálaráðherra um upplýsingaskyldu, þ.e. að hann veitti ekki upplýsingar um hvernig hann hagaði rekstri ríkisfyrirtækja, t.d. Símans. Þar voru margir smærri aðilar, vegna þess að umræddir sjálfstæðismenn sem flytja þessa þingsályktunartillögu segjast vera að hugsa um litlu aðilana. Þegar ég vakti athygli á að fjármálaráðherra, sem er núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, væri nú aldeilis að halda þessum smærri aðilum sem veittu ríkisfyrirtækinu samkeppni niðri, þá vildi hann ekki veita upplýsingarnar. Þetta var liður í að Síminn gat haldið áfram að troða skóinn af þessum smærri aðilum.

Ég vil þess vegna spyrja hv. þingmann, Guðlaug Þór Þórðarson, hvort hann sé þá ekki tilbúinn til að stuðla að því að smærri aðilar verði betur í stakk búnir til að sækja rétt sinn. Að ríkari upplýsingaskylda verði sett á á hendur opinberra ríkisfyrirtækja, en við í stjórnarandstöðunni höfum bent á að það er gagnrýnisvert að ýmsar upplýsingar sem ekki ætti að fara leynt með skuli ekki liggja uppi á borðunum. Þá gætu menn ekki verið að gera starfslokasamninga eða verið að hygla einhverjum kaupum því reksturinn væri uppi á borðinu. Þessi umræða var m.a. um kaup (Forseti hringir.) Landssímans á Skjá einum þannig að hann getur þá tekið undir með okkur í stjórnarandstöðunni að þessar upplýsingar eigi að vera aðgengilegar.



[17:06]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður Sigurjón Þórðarson nefndi hér ágætt dæmi um fáránleikann þegar fyrirtæki eins og Síminn er í eigu ríkisins. Það er eðli málsins samkvæmt að það er algerlega fáránlegt að hafa slíkt fyrirtæki sem er í samkeppnisrekstri eins og Síminn var, í eigu hins opinbera. Það segir sig alveg sjálft, og ég nefndi um það dæmi í upphafi minnar ræðu, hversu góð áhrif það hafði þegar ríkisbankarnir losnuðu undan yfirráðum ríkisins og fóru í eign almennings og urðu svokallað einka- eða almenningshlutafélag, það hafði mjög góð áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja. Er þetta eitthvað sem kemur okkur við? Reyndar kemur það okkur öllum vel. Við höfum fengið gríðarlega fjármuni, skatttekjur, af þessum fyrirtækjum, bæði út af tekjuskatti og út af hagnaði þessara fyrirtækja og ýmsum afleiddum veltusköttum og sömuleiðis vegna þess að fyrirtækin hafa stækkað og dafnað og hafa borgað fólki góð laun.

Það er vonlaust að hafa fyrirtæki í eigu opinberra aðila í samkeppnisrekstri. Það er algerlega vonlaust. Það gerir engum gott, hvorki stjórnendum fyrirtækjanna né eigendum eða viðskiptavinum, eða hverjum sem við nefnum þar. Ég þekki vel baráttuna við að fá upplýsingar og ég sit í stjórn opinbers fyrirtækis sem hefur þvælst inn á samkeppnisrekstur og þar vísa ég í Orkuveitu Reykjavíkur sem hefur verið mjög erfitt að fá upplýsingar um. Ég held að það skipti máli í það minnsta að það séu skýrar reglur hvað þetta varðar. Slíkt er (Forseti hringir.) að sjálfsögðu vandmeðfarið. En stóra atriðið er þetta: Að samkeppnisfyrirtæki eiga ekki að vera í eigu opinberra aðila.



[17:09]
Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er til umræðu tillaga til þingsályktunar um samkeppnisstöðu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitarfélaga en sú sem hér stendur er einn þriggja flutningsmanna tillögunnar. Þingsályktunin kveður á um að viðskiptaráðherra verði falið að gera athugun á hvort og á hvaða sviðum opinberar stofnanir á vegum ríkis og sveitarfélaga eru í beinum samkeppnisrekstri við einkaaðila og að ráðherra skili Alþingi skýrslu fyrir 1. apríl 2006. Þessi þingsályktunartillaga var lögð fram snemma á haustdögum en hefur ekki komið til umræðu fyrr en nú.

Virðulegi forseti. Það er yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar að draga úr ríkisrekstri. Í því augnamiði hefur ríkið markvisst dregið sig út úr samkeppnisrekstri síðasta rúma áratug sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við stjórnvölinn hér í landi. Hafa tugir fyrirtækja á vegum ríkisins verið einkavædd. Nú síðast var Síminn einkavæddur og seldur til aðila á markaði með miklum ávinningi fyrir ríkið sem gat nýtt sér peninga sem fengust fyrir sölu á fyrirtækinu til ýmissa brýnna verkefna, m.a. í velferðarmálum. Á sama tíma og fjölmörg fyrirtæki í ríkisrekstri hafa verið seld hefur hins vegar fjölgað þeim stofnunum ríkisins sem sinna stjórnsýsluverkefnum og öðrum samfélagslegum verkefnum sem talið er eðlilegt að séu fjármögnuð af ríkinu.

Oft eru stofnanir settar á laggirnar til að sinna afmörkuðum verkefnum sem síðan snúa upp á sig og auka þau að umfangi með tilheyrandi aukningu á kostnaði. Til þessara stofnana er ráðið vel menntað og metnaðarfullt fólk með víðtæka yfirsýn á þeim vettvangi sem það starfar á og það sér ákveðin tækifæri í að útvíkka starfsemi stofnunarinnar. Þetta þýðir fleira starfsfólk, aukið fjármagn til reksturs, aukin umsvif ríkisstofnana, en slík útþensla stofnana er oft kennd við Parkinsonslögmálið. Það er hins vegar ekki af einhverjum annarlegum hvötum sem þetta fólk stendur fyrir því að auka starfsemi sinnar stofnunar heldur er það oft krafa um sértekjur sem verður hvati fyrir stjórnendur að víkka út starfsemina.

Rekstur á vegum ríkis og sveitarfélaga hefur sökum umfangs síns mikil áhrif á starfsumhverfi og starfsmöguleika fyrirtækja í landinu. Þegar ríkisstofnun víkkar út starfsemi, hvort heldur af eigin hvötum, rúmri skilgreiningu á þeim lögum sem það starfar eftir eða vegna aukinna skyldna sem sett eru á stofnunina er veruleg hætta á að hún fari að rekast í horn starfsemi þar sem einkaaðilar hafa markað sér bás. Við slíkar aðstæður er ríkisstjórnin viljandi eða óviljandi komin í beina samkeppni við einkaaðila og farin að þrengja verulega að starfsskilyrðum og vaxtarmöguleikum fyrirtækisins. Allmörg dæmi eru um að ríkisstofnun undirbjóði þjónustu einkaaðila, bjóði þjónustu ókeypis undir merkjum tilraunaverkefnis eða jafnvel steli hugmyndum sem einkaaðilar hafa kynnt fyrir viðkomandi stofnun í trúnaði og stofnunin setur sjálf í gang. Mörg dæmi eru um slíkt. Ríkisstofnanir geta þetta í krafti þess að þær fá fjármagn til reksturs frá ríkinu og geta niðurgreitt þjónustuna eða alfarið staðið straum af viðkomandi verkefnum með ríkisfé.

Aðrar aðstæður sem blasa við í þessu sambandi er þegar ríkisstofnanir taka ákvörðun um að hætta útvistun verkefna en taka í þess stað til sín verkefni sem þær hafa áður gert samning við einkaaðila um að framkvæma eða semja við aðra ríkisstofnun um framkvæmd verkefna þó fjölmargir aðilar á markaði séu tilbúnir að takast á við verkefnin með samningum við viðkomandi stofnun þar um.

Það má segja, og ég tek undir með hv. þingmanni Guðlaugi Þór Þórðarsyni, að þetta er ekki í samræmi við innkaupastefnu ríkisins, eins og lýst var í ræðu hv. flutningsmanns.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni eru fjölmörg dæmi nefnd þar sem opinber fyrirtæki eru í beinni samkeppni við einkafyrirtæki, eins og hv. þingmaður Guðlaugur Þór Þórðarson hefur farið yfir í ræðu sinni. Á síðustu mánuðum hafa fleiri dæmi bæst við sem segja sambærilega sögu. Þar má m.a. telja fréttir sem bárust á haustdögum að sýslumannsembættin ætluðu að taka að sér ljósmyndun vegna útgáfu vegabréfa sem augljóslega var í beinni samkeppni við atvinnuljósmyndara. Þá birtist nýverið viðtal við Hrein Jakobsson, forstjóra Skýrr í Blaðinu sem er lýsandi fyrir þá þróun sem hefur orðið á síðustu árum. Skýrr var ríkisstofnun en var einkavædd fyrir nokkrum árum og er þjónustufyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Í viðtalinu fjallar hann m.a. um að fyrirtækið hafi kært opinberar stofnanir til Samkeppniseftirlitsins vegna útboðsmála og segir m.a. eftirfarandi, með leyfi forseta:

„… okkur finnst þróunin á síðustu árum hafa verið mjög í þá átt að ríkisvæða. Menn einkavæddu Skýrr á sínum tíma en síðan finnst okkur ríkisvæðingin hafi vaxið á ný. Hún felst í því að tölvudeildir opinberra stofnana eru að vaxa mjög mikið. Hugbúnaðarverkefni fyrir ríkið eru yfirleitt boðin út en rekstur á tölvukerfum þeirra nánast aldrei.“ En fram kemur jafnframt í viðtalinu við forstjórann að einkafyrirtæki útvíkki í auknum mæli rekstur tölvukerfa fyrirtækja sinna og hann fullyrðir að Skýrr geti boðið opinberum stofnunum að reka tölvukerfi töluvert ódýrara og nefnir töluna 20%

Svo ég vitni áfram í forstjóra Skýrr þá segir hann einnig, með leyfi forseta :

„Þar fyrir utan höfum við mátt sjá á bak tekjum sem við höfðum áður eins og miðlun upplýsinga úr ökutækjaskrá og fasteignaskrá varðandi rafræn veðbókarvottorð. Þessi viðskipti eru nánast horfin frá okkur þó Skýrr hafi tekið þátt í að byggja upp markaðinn fyrir þessar upplýsingar. Það efast enginn um að ríkið eigi þessar upplýsingar en við teljum að það eigi ekki að dreifa þeim í samkeppni við fyrirtæki á markaði.“

Í viðtalinu kemur einnig fram að úrskurður samkeppnisyfirvalda gagnvart ökutækjaskrá var á þann veg að stjórnvöldum var bent á að draga sig út úr þeim rekstri þar sem verið væri að keppa við einkaaðila á þessum markaði.

Virðulegi forseti. Ég gerði fljótlega athugun á ákvörðun Samkeppniseftirlitsins á árinu 2005 sem birtist á heimasíðu stofnunarinnar. Það kemur í ljós að 25% ákvarðana eftirlitsins varða kærur einkaaðila gagnvart stofnunum ríkis eða sveitarfélaga, eða þrjú af tólf erindum sem Samkeppniseftirlitið úrskurðaði á síðasta ári. Þessi staðreynd styður það sem fram kemur í greinargerð með þingsályktunartillögunni og því sem ég og flutningsmaður hafa rætt hér. Jafnframt má benda á að í skýrslu Viðskiptaráðs Íslands frá nóvember 2005 kemur fram það mat ráðsins að af 240 ríkisstofnunum sem taldar voru megi telja að minnsta kosti 30 þeirra vera þess eðlis að um samkeppni þeirra geti verið að ræða við einkaaðila.

Tilgangur flutningsmanna með framlagningu þingsályktunartillögunnar sem hér er til umræðu er að fá yfirsýn yfir starfsemi á vegum ríkis og sveitarfélaga sem er í beinni samkeppni við einkaaðila. Með slíkar upplýsingar í höndunum er markvisst hægt að stefna að því að ríkið dragi sig út úr starfsemi sem er á samkeppnismarkaði og um leið vekja ríkisstofnanir til vitundar um skaðsemi þess að hamla þróun framsækinnar starfsemi á vegum einkaaðila. Það er von mín að þessi þingsályktunartillaga verði afgreidd hér úr nefnd við fyrsta tækifæri.



[17:17]
Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Það má taka undir að vert sé að fara yfir það á hvaða sviðum ríkisstofnanir og ríkið séu í samkeppni við einkaaðila og að því leyti til held ég að þessi þingsályktunartillaga sé af hinu góða. Ég lít vissulega á þetta sem gagnrýni á það hvernig mál hafa þróast í höndum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks á undanförnum árum. Menn eru greinilega komnir með miklar efasemdir um það í þeim flokkum hvernig þeir hafa haldið á spilunum og eru tilbúnir að fara í þá vinnu að skoða hvað hafi farið úrskeiðis.

Hér hafa líka verið nefnd dæmi, m.a. um Orkuveituna, þar sem erfitt hefur verið að nálgast upplýsingar. Sama á við um Símann þar sem formaður Sjálfstæðisflokksins hélt á spilum og leyfði stjórnarandstöðunni og öðrum sem voru í samkeppni ekki að sjá hvort Síminn hefði rétt við varðandi það hvort rétt væri að selja Símann. Það sem við í Frjálslynda flokknum gagnrýndum var að með sölu grunnnetsins væri hætta á að ekki yrði samkeppni og þeir einkaaðilar sem flutningsmenn segjast vera að gæta hagsmuna fyrir, þessir litlu aðilar sem voru í samkeppni við stóra Símann, sögðu okkur í Frjálslynda flokknum að þeir óttuðust að samkeppnin yrði enn þá erfiðari þegar grunnnetið, sem færir eigandanum einokunaraðstöðu, væri komið í hendur einkaaðila en hún væri þó í höndum ríkisins. Vel má vera að þetta þróist með jákvæðum hætti en samt sem áður eru ýmsar fréttir af landsbyggðinni um það hve símaþjónustan þar hefur minnkað því miður ekki jákvæðar fyrir fólkið í landinu. Verið er að leggja niður störf á Blönduósi og víðar. Þegar við í stjórnarandstöðunni viljum fá að vita hvernig málin eigi að þróast hvað varðar þjónustu og annað á landsbyggðinni vilja Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn ekki fá þær upplýsingar hver þjónusta Símans eigi að vera í framtíðinni. Það var búið að telja fólki trú um að þetta væri jákvæð byggðaaðgerð. Auðvitað hefði salan átt að vera þannig að eitthvað jákvætt hefði fengist út úr þeirri framkvæmd fyrir alla. En því miður voru fyrstu fréttirnar sem fólkið úti á landi fékk slæmar.

Hvað varðar þessa þingsályktunartillögu tel ég að vert sé að hafa eitt í huga við það að gerð er arðsemiskrafa til þjónustu og hún sett í samkeppni og til einkaaðila og það er ákveðin samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson nefndi hér að að sorphirðan yrði færð í einkarekstur og samkeppnisrekstur. Fólk má ekki gleyma því að sveitarfélögin hafa haft ákveðnu samfélagslegu hlutverki að gegna með því að útvega þeim vinnu sem höllum fæti standa og hafa ekki fulla starfsgetu. Það verður einhvern veginn að mæta þessu og það er hægt með því að sveitarfélög leggi að einhverju leyti til sjóði eða hafi einhvern hvata fyrir fyrirtæki þannig að þau ráði fólk sem er með skerta starfsgetu, menn mega ekki láta arðsemissjónarmið ráða eingöngu við rekstur samfélagsins. Auðvitað eigum við að hafa það þar sem við á en ekki láta það eingöngu ráða. Það er nefnilega svo að ef fólk með skerta starfsgetu kemst á annað borð inn á vinnumarkaðinn getur það leitt til þess að það nái fullri starfsorku og það ætti að vera eitt af því sem flutningsmenn og við stjórnmálamenn ættum að hafa í huga.

Engu að síður er þessi þingsályktunartillaga gífurlega þung gagnrýni á það hvernig stjórnarflokkarnir hafa haldið um stjórnartaumana og hve þeir hafa þanið út ríkisútgjöldin, um heila 120 milljarða á föstu verðlagi á síðustu tíu árum og einnig aukið hlut hins opinbera af þjóðarkökunni. Það er greinilegt að a.m.k. ýmsir í Sjálfstæðisflokknum eru farnir að hafa áhyggjur af þessu og ég hef áhyggjur af því, sérstaklega vegna þess að nú eru þenslutímar og þá er verið að þenja út ríkisútgjöld með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi, þenja út og fjölga ríkisstofnunum eins og kemur fram í þessari þingsályktunartillögu. Nær væri þegar samdráttur verður að þenja þá aðeins út hið opinbera en nú á tímum þenslu er ríkið þanið út sem aldrei fyrr.



[17:23]
Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að elta ólar við allt sem kom fram hjá ágætum hv. þingmanni. Ég met það svo að hann sé sammála þessu. Við vitum eins og er og það þarf ekki að ræða það neitt að við höfum staðið fyrir mestu frelsisvæðingu í íslensku samfélagi sem sést hefur frá upphafi, a.m.k. frá þeim tíma sem við berum okkur saman við. Það er alveg sama hvaða mælistiku við setjum á það, niðurstaðan er sú sama.

Hv. þingmaður nefndi það að líka þyrfti að huga að öðrum þáttum í samfélaginu, og það er alveg rétt. En af því að hann nefndi Símann þá vildi ég bara vísa í það hve sú sala var vel heppnuð. Ég veit að hann hefur áhuga á málefnum landsbyggðarinnar og ef menn fara yfir það í hvað þessir fjármunir eru nýttir, þá eru þeir náttúrlega nýttir til að greiða niður skuldir, síðan fara gríðarlegir fjármunir í vegaframkvæmdir, sjúkrahús, Landhelgisgæsluna, nýsköpun í íslensku atvinnulífi, í fjarskiptasjóð til að bæta fjarskipti á landsbyggðinni, í framkvæmdir í þágu geðfatlaðra og nýbyggingu fyrir Stofnun íslenskra fræða. Þetta er svona skólabókardæmi um hve hér er skynsamlega að verki staðið.

Síðan vil ég nefna út af sorphirðuumræðunni að það eru bara Reykjavíkurborg og eitt annað sveitarfélag í hópi hina stærri sem enn eru með þetta á sínum vegum. En ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni þegar hann talaði um að við yrðum að hafa störf fyrir þá sem standa höllum fæti. Ég tel það vera verkefni okkar sem hér erum og líka þeirra sem eru í sveitarstjórnum og annars staðar að finna fleti á því, og það er sérverkefni okkar að sjá til þess að þessir aðilar sem hafa starfað ekki bara hjá opinberum aðilum heldur líka hjá einkaaðilum í gegnum tíðina og eiga kannski erfitt með að fá störf núna, gleymist ekki og geti áfram stundað störf öllum til góðs. (Forseti hringir.) Það eru lokaorð mín í þessari umræðu.



[17:25]
Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Því miður er það staðreynd sem ég fór með hér að hlutur hins opinbera hefur vaxið og það er náttúrlega sárt fyrir sjálfstæðismenn að kyngja því. Og það er áhyggjuefni að þetta gerist á tímum þenslu.

Hvað varðar þessi góðu verkefni, t.d. hátæknisjúkrahúsið svonefnda á höfuðborgarsvæðinu, þá er ég á því, frú forseti, að það að tengja það sölu Símans geti orðið byggingu nútímalegs sjúkrahúss til trafala. Ég óska eftir því að við ræðum byggingu sjúkrahúss sér en ekki í sambandi við sölu Símans. Ég held að það verði til framdráttar fyrir byggingu sjúkrahússins að rugla þessu ekki öllu saman, vegna þess að við þetta orðagjálfur um hátæknisjúkrahús er komin upp viss andstaða í samfélaginu vegna þess að fólk er farið að halda að þetta sé eitthvert bruðl og setur það í samband við sölu á Símanum sem var mjög óvinsæl, sérstaklega á landsbyggðinni vegna aðgerða stjórnenda Símans sem urðu strax í kjölfar sölunnar. Ég vona að menn taki tillit til þessa og það verði til framdráttar fyrir byggingu sjúkrahúss á höfuðborgarsvæðinu.